Hæstiréttur íslands
Mál nr. 453/1998
Lykilorð
- Útivist
- Ómerking héraðsdóms
- Skriflegur málflutningur
|
Fimmtudaginn 11. febrúar 1999. |
|
Nr. 453/1998. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Guðmundi Davíðssyni (Pétur Þór Sigurðsson hrl.) |
Útivist. Ómerking héraðsdóms. Skriflega flutt mál.
Opinbert mál var höfðað á hendur G. Héraðsdómari gaf út fyrirkall og í áritun um birtingu þess kom fram að G hafi óskað eftir því að V yrði skipaður verjandi sinn. G sótti ekki þing þar sem mættir voru saksóknari og V, skipaður verjandi G. Ákvað héraðsdómari að fresta málinu. Aftur gaf héraðsdómari út fyrirkall á hendur G og við birtingu þess óskaði G eftir því að S yrði skipaður verjandi sinn. Þegar málið var tekið fyrir að nýju mættu saksóknari og lögmaðurinn V, en ekki G. Reifuðu þeir málið og var það dómtekið og dómur felldur í því. Í héraðsdóminum var vísað til þess að G hefði ekki sótt þing þrátt fyrir að ákæra og fyrirkall hefði verið löglega birt honum, svo og að hann hefði játað brot sitt fyrir lögreglu. Var málið dæmt með heimild í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 og var G sakfelldur. Talið var að ekki hafi orðið útivist af hálfu G, því þó að G hefði ekki sjálfur komið fyrir héraðsdóm hafi verið mættur af hans hálfu lögmaður sem að ósk G var skipaður verjandi hans. Skilyrði til að fella dóm á málið eftir ákvæðum 126. gr. laga nr. 19/1991 voru ekki talin hafa verið fyrir hendi. Var héraðsdómur ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með síðara þinghaldinu í héraði og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds að fengnu áfrýjunarleyfi samkvæmt 1. mgr. 150. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1994. Ákæruvaldið krefst þess að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar frá og með þinghaldi 25. mars 1998.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara gerir hann sömu kröfu og ákæruvaldið.
Málið var tekið til dóms fyrir Hæstarétti án munnlegs flutnings samkvæmt heimild í 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 16. gr. laga nr. 37/1994.
I.
Málið var höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra 27. febrúar 1998, þar sem ákærða voru gefin að sök nánar tiltekin brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Gifspússningar ehf. Héraðsdómari gaf út fyrirkall til ákærða 6. mars 1998, þar sem hann var kvaddur til að mæta á dómþingi 13. sama mánaðar kl. 9.30. Í fyrirkallinu var meðal annars tekið fram að ef ákærði myndi ekki sækja þing að forfallalausu mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði talin jafngilda að hann játi sök í málinu og að dómur yrði felldur á það að honum fjarstöddum, sbr. 120. gr. og 126. gr. laga nr. 19/1991. Jafnframt var þar vakin athygli á að heimild til að áfrýja slíkum dómi væri takmörkuð samkvæmt 150. gr. sömu laga. Þetta fyrirkall var ásamt ákæru birt fyrir ákærða 12. mars 1998. Í áritun um birtingu á fyrirkallinu var þess getið að ákærði hafi óskað eftir að Valgeir Kristinsson hæstaréttarlögmaður yrði skipaður verjandi sinn.
Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins 13. mars 1998, þar sem voru mættir saksóknari og fyrrnefndur lögmaður, sem var skipaður verjandi ákærða. Héraðsdómari ákvað að fresta málinu til 19. sama mánaðar sökum þess að dregist hafi að birta ákærða fyrirkall og verjandinn hafi ekki haft ráðrúm til að kynna sér framlögð skjöl. Af gögnum málsins verður ekki séð að orðið hafi af þinghaldi 19. mars 1998. Þann dag gaf héraðsdómari hins vegar út nýtt fyrirkall á hendur ákærða. Var það sama efnis og fyrra fyrirkall að frátöldu því að ákærði var nú kvaddur til þinghalds 25. sama mánaðar kl. 10.30. Í ódagsettri áritun um birtingu fyrirkallsins fyrir ákærða kemur fram að hann hafi beðið um að Sigmundur Hannesson hæstaréttarlögmaður yrði skipaður verjandi sinn.
Þegar málið var tekið fyrir á ný í héraðsdómi 25. mars 1998 mættu saksóknari og Valgeir Kristinsson hæstaréttarlögmaður, en ákærði hins vegar ekki. Kvaðst verjandinn hafa ítrekað reynt að ná til ákærða, en án árangurs. Héraðsdómari hafnaði að verða við ósk, sem ákærði hafði látið uppi við birtingu síðara fyrirkallsins í málinu, um að sér yrði skipaður annar verjandi. Að þessu gerðu fól dómarinn saksóknara og verjanda að reifa málið með tilliti til ákvörðunar á refsingu. Færðist verjandinn undan því, þar sem honum hafi ekki gefist kostur á að kynna sér viðhorf ákærða til málsins. Féllst dómarinn ekki á það, enda hafi ákærða tvívegis verið birt fyrirkall með aðvörun um afleiðingar útivistar. Reifuðu síðan saksóknari og verjandinn málið, sem var dómtekið. Í beinu framhaldi af því var hinn áfrýjaði dómur felldur á málið.
Í dóminum var vísað til þess að ákærði hafi ekki sótt þing, þrátt fyrir að ákæra og fyrirkall hafi verið löglega birt honum, svo og að hann hafi játað brot sitt fyrir lögreglu. Væri málið dæmt með heimild í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991. Var ákærði sakfelldur fyrir þau brot, sem honum voru gefin að sök í ákæru, og dæmdur til að greiða sekt að fjárhæð 12.000.000 krónur að viðlagðri vararefsingu, varðhaldi í tólf mánuði, ásamt nánar tilteknum sakarkostnaði.
II.
Ekki verður fallist á það með ákærða að annmarkar hafi verið á rannsókn málsins fyrir útgáfu ákæru, sem leitt geti til að því verði vísað frá héraðsdómi. Verður aðalkröfu ákærða fyrir Hæstarétti því hafnað.
Þótt ákærði hafi ekki sjálfur komið fyrir héraðsdóm í áðurnefndum þinghöldum 13. og 25. mars 1998 var mættur þar af hans hálfu lögmaður, sem að ósk ákærða var skipaður verjandi hans. Af þessum sökum varð ekki útivist af hálfu ákærða. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki skilyrði til að fella dóm á málið eftir ákvæðum 126. gr. laga nr. 19/1991. Verður því að fallast á kröfur aðilanna um að héraðsdómur verði ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 25. mars 1998 og vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 25. mars 1998. Málinu er vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Valgeirs Kristinssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur, og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Péturs Þórs Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Héraðsdómur Reykjavíkur 25. mars 1998.
Ár 1998, miðvikudaginn 25. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 209/1998: Ákæruvaldið gegn Guðmundi Davíðssyni sem tekið var til dóms samdægurs.
Málið er höfðað með ákæruskjali Ríkislögreglustjóra, dagsettu 27. febrúar sl. á hendur ákærða, Guðmundi Davíðssyni, Krókamýri 78, Garðabæ, kt. 100740-4789,
„I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærði sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni Gifspússningar ehf. Hólabergi 36, Reykjavík, kt. 670588-1499, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni Gifspússningar ehf. á árinu 1993, 1994 og 1995 samtals að fjárhæð 7.311.958 og sundurliðast sem hér greinir:
|
Greiðslutímabil: |
|
|
|
Árið 1993 |
|
|
|
Mars-apríl |
kr. 598.184 |
|
|
Nóvember-desember |
kr. 263.439 |
kr. 861.623 |
|
Árið 1994 |
|
|
|
September-október |
kr. 2.998.130 |
kr. 2.998.130 |
|
Árið 1995 |
|
|
|
Janúar-febrúar |
kr. 29.218 |
|
|
Maí-júní |
kr. 200.813 |
|
|
Júlí-ágúst |
kr. 1.448.596 |
|
|
September-október |
kr. 1.773.578 |
kr. 3.452.205 |
|
|
Samtals |
kr. 7.311.958 |
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sjá nú 3. gr. laga nr. 42,1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39,1995.
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Þá er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Gjaldheimtunni í Reykjavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Gifspússningar ehf. á árunum 1994 og 1995 samtals að fjárhæð kr. 2.291.545 og sundurliðast sem hér segir:
|
Greiðslutímabil |
|
|
|
Árið 1994 |
|
|
|
Október |
kr. 305.562 |
|
|
Nóvember |
kr. 262.868 |
|
|
Desember |
kr. 165.757 |
kr. 734.187 |
|
Árið 1995 |
|
|
|
Maí |
kr. 13.615 |
|
|
Júní |
kr. 156.829 |
|
|
Júlí |
kr. 292.150 |
|
|
Ágúst |
kr. 259.909 |
|
|
September |
kr. 220.178 |
|
|
Október |
kr. 166.802 |
|
|
Nóvember |
kr. 317.229 |
|
|
Desember |
kr. 130.646 |
kr. 1.557.358 |
|
|
Samtals |
kr. 2.291.545 |
Telst þetta varða við 1. mgr. 30. gr. sbr. 7. mgr. laga nr. 45,1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sjá nú 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45,1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42,1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39,1995.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.”
Niðurstaða.
Ákærða hefur verið löglega birt ákæra og fyrirkall og hefur hann hvorki sótt þing né boðað forföll. Hjá lögreglu hefur hann játað það atferli sem hann er saksóttur fyrir. Er málið nú dæmt með heimild í 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991. Hefur ákærði orðið sekur um athæfi það sem greinir í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
Gera ber ákærða 12.000.000 króna sekt til ríkissjóðs sem greiða ber innan 4 vikna frá dómsbirtingu en ákærði sæti ella varðhaldi í 12 mánuði, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talda þóknun til verjandans, Valgeirs Kristinssonar, hrl., 35.000 krónur.
Dómsorð:
Ákærði, Guðmundur Davíðsson, greiði 12.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 12 mánaða varðhald í stað sektarinnar, greiðist hún eigi innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun til verjanda síns, Valgeirs Kristinssonar, hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.