Hæstiréttur íslands
Mál nr. 21/2015
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Umferðarlagabrot
- Eignaupptaka
- Ökuréttarsvipting
- Skilorð
- Ákæra
- Frávísun frá héraðsdómi
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 28. maí 2015. |
|
Nr. 21/2015.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Stefáni Þór Ólafssyni (Gísli M. Auðbergsson hrl.) |
Fíkniefnalagabrot. Umferðarlagabrot. Eignaupptaka. Ökuréttarsvipting. Skilorð. Ákæra. Frávísun frá héraðsdómi. Sératkvæði.
Vísað var frá héraðsdómi ákæru á hendur S um að hafa stundað sölu á ótilgreindum fíkniefnum í einhverjum mæli áður en hann var handtekinn og að hafa hagnast af þeim viðskiptum um tiltekna fjárhæð, þar sem ákæran uppfyllti að þessu leyti áskilnað c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 1. mgr. 180. gr. sömu laga. Sömuleiðis var vísað frá héraðsdómi kröfu um upptöku fjárhæðarinnar. S var sakfelldur fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni fyrir vörslu ávana- og fíkniefna í sölu- og dreifingarskyni, nánar tiltekið 43 g af amfetamíni, fjögurra taflna af MDMA og 0,80 g af tóbaksblönduðu kannabisefni. S var einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og var háttsemin talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Var ákvörðun refsingar S frestað skilorðsbundið vegna óhóflegs dráttar á meðferð málsins, en S var sviptur ökurétti í þrjú ár og áðurgreind ávana- og fíkniefni gerð upptæk.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd og staðfest niðurstaða héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og upptöku fíkniefna og 1.625.000 króna í peningum.
Ákærði krefst sýknu af þeirri háttsemi, sem lýst er í I. kafla ákæru 24. apríl 2013, og kröfu ákæruvalds um upptöku á reiðufé.
I
Sakargiftum á hendur ákærða samkvæmt ákærum 13. desember 2011 og 24. apríl 2013 er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Í I. kafla þeirrar síðarnefndu er ákærða gefið að sök að hafa „haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 43 gr af amfetamíni, 4 stykki af E-töflum (ecstasy) og 0,80 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni og fyrir að hafa stundað sölu á fíkniefnum í einhverju mæli áður en hann var handtekinn og hafa hagnast af þeim viðskiptum um 1.625.000 krónur.“ Varði þessi háttsemi við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 223/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal meðal annars greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa þessi fyrirmæli verið skýrð þannig að lýsing á þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni einni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að ákærða verði torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verði talin refsiverð. Samkvæmt þessu verður ákæra að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo dómur verði lagður á mál í samræmi við ákæru, enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.
Eins og áður greinir er ákærði samkvæmt umræddum ákærukafla sakaður um að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni nánar tiltekið magn af þremur tegundum ávana- og fíkniefna, auk þess „að hafa stundað sölu á fíkniefnum í einhverju mæli ... og hafa hagnast af þeim viðskiptum um 1.625.000 krónur.“ Í síðastgreindum hluta ákærunnar kemur ekki fram hvaða fíkniefni það voru sem ákærða er gefið að sök að hafa selt í einhverjum mæli þannig að ekki verður ráðið með vissu hvort þau séu meðal þeirra efna sem talin eru upp í 6. gr. laga nr. 65/1974. Samkvæmt framansögðu er þessi lýsing á háttsemi ákærða ekki nægilega skýr svo að unnt sé að gera sér grein fyrir því af lestri ákærunnar hvort háttsemin sé refsiverð. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa þessum hluta hennar frá héraðsdómi.
II
Samkvæmt 1. mgr. 68. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr., laga nr. 88/2008 er lögreglu heimilt án dómsúrskurðar að leggja hald á muni ef ætla má að þeir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Þótt það sé meginreglan eftir 75. gr. sömu laga að úrskurð dómara þurfi til húsleitar er óþarft að leita eftir sérstökum dómsúrskurði til að leggja hald á muni við slíka leit, sbr. dóm Hæstaréttar 30. september 1999 í máli nr. 389/1999 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 3294. Við leit í íbúð ákærða 2. september 2011 á grundvelli úrskurðar héraðsdóms 1. sama mánaðar var lögreglu því heimilt að leggja hald á þá muni sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru 24. apríl 2013 og ekki hefur verið vísað frá dómi.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður ákærði jafnframt sakfelldur fyrir umferðarlagabrot samkvæmt ákæru 13. desember 2011 og III. kafla ákæru 24. apríl 2013.
III
Þau brot, sem ákærði hefur gerst sekur um, voru framin í september og nóvember 2011. Mál á grundvelli fyrri ákærunnar var þingfest 24. febrúar 2012 þar sem ákærði neitaði sök, en því var síðan frestað vegna þess að ákærandi kvað annað mál er snerti ákærða vera „í vinnslu.“ Rúmt ár leið síðan þar til síðari ákæran var gefin út og var mál á grundvelli hennar sameinað fyrra málinu 31. maí 2013. Héraðsdómur var þó ekki kveðinn upp fyrr en 26. nóvember 2014. Vegna þessa óhóflega dráttar á meðferð málsins, sem hvorki verður réttlættur né ákærða kennt um, verður ákvörðun um refsingu hans frestað skilorðsbundið eins og nánar greinir í dómsorði.
Staðfest verður ákvörðun héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða. Jafnframt verður staðfest sú niðurstaða að gera upptæk áðurgreind fíkniefni, sem fundust við húsleit hjá ákærða 2. september 2011, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974. Sökum þess að þeim hluta ákærunnar á hendur honum, að hann hafi stundað sölu á ótilgreindum fíkniefnum og hagnast á þeim viðskiptum um 1.625.000 krónur, hefur verið vísað frá héraðsdómi verður kröfu um upptöku á þeirri fjárhæð í peningum sömuleiðis vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð sakarkostnaðar verður staðfest. Vegna málsúrslita og dráttar á meðferð málsins verður ákærða gert að greiða helming þess kostnaðar, að frádregnum reikningi vegna viðgerðar á íbúð hans, eins og nánar greinir í dómsorði.
Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður allur áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og ferða- og gistikostnaður hans, svo sem fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Þeim hluta I. kafla ákæru 24. apríl 2013, þar sem ákærða, Stefáni Þór Ólafssyni, er gefið að sök að hafa stundað sölu á fíkniefnum í einhverjum mæli áður en hann var handtekinn 2. september 2011 og hagnast á þeim viðskiptum um 1.625.000 krónur, er vísað frá héraðsdómi.
Ákvörðun refsingar ákærða er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða og upptöku ávana- og fíkniefna. Vísað er frá héraðsdómi kröfu um upptöku á 1.625.000 krónum í peningum.
Ákærði greiði 477.115 krónur af sakarkostnaði í héraði, en sá kostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og ferða- og gistikostnaður hans.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara
Þótt geta hefði mátt í I. kafla ákæru 24. apríl 2013 að ákærða væri gefið að sök að hafa stundað sölu á fíkniefnum sams konar þeim og hann hafði í vörslum sínum er húsleit var gerð á heimili hans, þá tel ég að ekki sé um að ræða slíkan ágalla að varði frávísun þessa hluta ákærukaflans frá héraðsdómi. Er þá einkum til þess að líta að í ákærunni er tilgreint að ágóði af þessari fíkniefnasölu ákærða hafi numið 1.625.000 krónum, jafnframt því sem vísað er til 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni sem og ákvæða 2. gr. og 5. gr. laganna, sbr. einnig að sínu leyti til dæmis dóm Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 495/2010. Þá verður af því sem fram er komið við meðferð málsins ekki séð að uppi hafi verið slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að torveldað hafi vörn ákærða og var á engu stigi máls gerðar athugasemdir við ákæruháttu. Að þessu sögðu tel ég ákæru 24. apríl 2013 vera nægilega viðhlítandi grundvöll að saksókn svo dómur verði lagður á málið í samræmi við ákæruna.
Samkvæmt 2. mgr. 209. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ekki þörf á að taka afstöðu til sakfellingar ákærða vegna sakargifta í þeim hluta framangreindrar ákæru sem meirihluti dómenda vill að vísað verði frá héraðsdómi. Vegna niðurstöðu meirihlutans er heldur ekki þörf á að taka afstöðu til kröfu um upptöku á þeim 1.625.000 krónum sem um ræðir í ákæru og eiga að vera ágóði vegna umræddrar fíkniefnasölu. Að öðru leyti er ég samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. nóvember 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 24. nóvember að undangengnum endurteknum málflutningi, höfðaði sýslumaðurinn á Akureyri, með tveimur ákærum, fyrst 13. desember 2011, á hendur Stefáni Þór Ólafssyni, kt. [...], Öldugötu 10, Dalvík,
„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 16. nóvember 2011, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í þvagi mældist tetrahýdrókannabínólsýra), suður Glerárgötu á Akureyri og um Strandgötu, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans á bifreiðastæði við Hofsbót.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. A, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 66, 2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66, 2006.“
Síðan, þann 24. apríl 2013, var höfðað mál með ákæru á hendur ákærða Stefáni Þór og X, kt. [...], [...], [...],
„fyrir eftirtalin fíkniefnalagabrot og gegn ákærða Stefáni Þór fyrir eftirtalið umferðarlagabrot.
I.
Gegn ákærða Stefáni Þór, fyrir að hafa föstudaginn 2. september 2011, á þáverandi heimili sínu að [...] á Akureyri, haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni 43 gr. af amfetamíni, 4 stykki af E-töflum (ectasy) og 0,80 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni og fyrir að hafa stundað sölu á fíkniefnum í einhverju mæli áður en hann var handtekinn og hafa hagnast af þeim viðskiptum um 1.625.000 krónur.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, með síðari breytingum.
II.
Gegn ákærða X, fyrir að hafa sama dag verið með í vörslum sínum á sama heimili, 10,10 grömm af amfetamíni, 0,90 grömm af maríhúana og 0,70 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, með síðari breytingum.
III.
Gegn ákærða Stefáni Þór, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 4. september 2011, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni sem tekið var úr honum í tilefni kærunnar mældist tetrahýdrókannabínól 6,3 ng/ml ) suður Áshlíð á Akureyri, þar sem hann stöðvaði bifreiðina við hús nr. [...].
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. A, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrám nr. 21.289 og 21.290, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001. Jafnframt er gerð krafa um að ákærði Stefán Þór sæti upptöku ágóða af fíkniefnasölu sinni að fjárhæð krónur 1,625.000-, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn þessara mála, með vísun til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001 og 69. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr. B almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 149, 2009. Ennfremur er gerð krafa um að ákærði Stefán Þór sæti sviptingu ökuréttar, samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“
Málin voru sameinuð.
Skipaður verjandi gerir fyrir hönd ákærðu aðallega kröfu um frávísun málsins, en til vara að ákærði Stefán Þór verði sýknaður af sakargiftum um sölu fíkniefna, en ella og að öðru leyti verði ákærðu gerð vægasta refsing sem lög leyfa og kröfu um upptöku peninga verði hafnað. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna og ferðakostnaðar.
I
Krafa um frávísun er þá því reist að rannsóknarskjöl eru í þremur aðskildum skjalamöppum, þar sem ekki er skráð hvað í þeim er framhaldandi töluröð.
Skrá yfir gögn á að fylgja ákæru, sbr. 154. gr. laga nr. 88/2008. Ljóst er að svo er ekki hér. Þrátt fyrir að þessi ágalli á málatilbúnaði sé aðfinnsluverður, þykir hann ekki svo veigamikill að frávísun varði. Verður því ekki fallist á þá kröfu.
II
Ákærði Stefán Þór játar sök samkvæmt ákæru 13. desember 2011, en tekur fram að hann hafi ekki verið undir neinum áhrifum þess efnis sem mældist í þvaginu. Hann hafi heldur ekki neytt þessa efnis um alllangan tíma áður en hann ók bifreiðinni.
Óumdeilt er, enda stutt álitsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði að tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagsýni úr ákærða. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, telst ákærði því hafa verið undir áhrifum efnisins í greint sinn. Varðar það við 1. mgr. sömu greinar, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.
Ákærðu játa báðir sakargiftir samkvæmt síðari ákærunni að því marki sem þeim eru gefnar að sök vörslur þar tilgreindra efna. Eru ekki efni til að draga þær játningar í efa. Varða vörslurnar við tilgreind refsiákvæði í ákæru. Þá hefur ákærði Stefán Þór játað að hafa ekið bifreið eins og honum er gefið að sök í III. kafla ákærunnar. En hann sannur að sök um þá háttsemi sem varðar tilgreint refsiákvæði ákæru.
III
Ákærði Stefán Þór neitar að hafa haft efni sem tilgreind eru í II. kafla ákæru, í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni og neitar einnig að hafa selt fíkniefni og hagnast á því. Krefst hann sýknu að þessu leyti og að kröfu um upptöku peninga verði hafnað.
Lögreglan á Akureyri hafði ákærðu grunaða um dreifingu fíkniefna. Aflaði hún heimildar til húsleitar og gerði hana 2. september 2011. Við leitina fundust meðal annars efndi sem talin eru upp í ákæru og peningar, vafðir í sellófan. Fundust fjórir slíkir vafningar á sófa í stofu og tíu í öryggisskáp í fataskáp í herbergi ákærða Stefáns Þórs. Samtals voru þetta 1.400.000 krónur. Þá fannst miði á stofuborði, þar sem rituð höfðu verið nöfn og tölur aftan við þau, frá 7 og upp í 464. Liggur mynd af miðanum frammi í málinu. Hefur lögregla ritað fyrir neðan hann það álit sitt að um skuldalista sé að ræða og tölurnar séu útistandandi skuldir „viðskiptamanna“ í þúsundum króna. Telji hún athyglisverðar færslur við nöfn manna, sem hér verður látið nægja að tilgreina sem K.A og J. Meðan leit hafi staðið yfir hafi þessir menn bankað upp á. Hafi J., sem á listanum hafi fyrst átt færsluna 10.000 krónur. A, sem hafi átt færsluna 20 við nafn sitt á listanum, hafi haft með sér 20.000 krónur.
Þá var sími ákærða Stefáns Þórs haldlagður og fundust í honum textaboð sem síðar verða rakin.
Þann 4. september 2011 stöðvaði lögregla för ákærða Stefáns Þórs og leitaði í bifreið hans. Fundust við leitina peningabúnt, samtals 225.000 krónur, þar af 205.000 krónur í 5.000 króna seðlum og 20.000 krónur í 1.000 króna seðlum. Þess er getið að 5.000 króna seðlarnir hafi verið í tveimur bunkum, annar þeirra hafi verið í hólfi milli framsætanna og hinn hafi legið undir barnabílstól í aftursæti bifreiðarinnar. Þeir hafi verið gegnblautir og ákærði hafi sagt þá lent í þvottavél. Þeir hefðu ekki fundist við leitina tveimur dögum fyrr og hann ekki áttað sig á því sjálfur og sett buxur í þvott. Þess er einnig getið í frumskýrslu lögreglu að peningabúntin hafi verið rennslétt og sandur og mold verið á köntum nokkurra seðlanna.
Ákærði Stefán Þór bar fyrir dómi að hafa fengið 800.000 krónur lánaðar frá félaga sínum A, og 240.000 krónur greiddar frá B [...] sinni. Afganginn hefði hann sparað saman. Sér hefði þótt hentugra að geyma peninga heima. „Skuldalistann“ kvað hann vera „pókerlista“, þ.e.a lista yfir stig í pókerspil.
Borin voru undir hann þrenn textaboð þar sem hann var varaður við lögreglu, beðinn um „uno“ og „frænkur“. Hann kvaðst ekki kannast við efni þessara boða. Hugsanlega hefði einhver verið að nota símann hans. Mikil umferð hefði verið heima hjá honum.
Ákærði kvað mikið af framburði sínum fyrir lögreglu hafa verið „bull“ í sér.
Ákærði kvaðst hafa haft um 200.000 krónur í mánaðartekjur á þessum tíma. Hann hefði greitt 50.000 krónur í húsaleigu. Hann kvaðst hafa eytt miklu í fíkniefni sem hefðu sennilega kostað sig um 100.000 krónur á mánuði.
Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa heimilað að sími sinn yrði tekinn til skoðunar.
Um „skuldalistann“ sagði ákærði frekar aðspurður, að þetta væri listi yfir „pókerstöður“, þ.e. hvað menn ættu mikið af „chips“ eftir. Hann kvaðst aðspurður halda að hann hefði ritað listann, en ekki geta verið viss um það.
Ákærði var spurður nánar um textaboð sem fundust í síma hans. Hann staðfesti að hafa fengið greiddar 80.000 krónur frá tilteknum manni, og taldi að verið gæti að hann hefði verið að fá greitt fyrir leikjatölvu. Á nefndum lista er að finna sama fornafn og þessa tölvukaupanda og er það ritað fyrir aftan „=314=464“. Ákærði kvað ekki vera um sama mann að ræða. Textaboð frá konu með tiltekið nafn, án föðurnafns, um að hún væri komin með „13 kall“ og hvort hann vildi sækja hann, kvaðst hann ekki kannast við, en vita einhver deili á konu með sama nafn. Sama nafn er að finna á listanum og talnarununa 302500 fyrir aftan.
Önnur textaboð kvaðst ákærði ekki geta skýrt, enda langt um liðið, en gat þess á ný að hugsanlega hafi einhver fengið að nota síma hans. Textaboð bera með sér að ákæri hafi talið sig eiga 300.000 krónur hjá þeim sama A og hann kvaðst hafa fengið 800.000 krónur að láni hjá. Gengur ákærði nokkuð stíft eftir því með textaboðum að fá skuldina greidda. Ákærði kvað hér vera um aðskilin viðskipti að ræða.
Ákærði kvað árslaun sín 2010 hafa verið 5.000.000 króna, hann myndi þetta þó ekki vel.
Hann kvaðst hafa lánað [...] sinni, B, 240.000 krónur inn hjá B 1. apríl 2011. Hún hefði borgað það hægt og rólega til baka með reiðufé. Ekkert væri til í því sem hann hefði sagt lögreglu að um hefði verið að ræða 500.000 krónur.
Ákærði X staðfesti að hafa deilt íbúð með meðákærða. Hann kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að meðákærði hefði haft fíkniefni í vörslum sínum og ekki vita neitt til þess að hann hefði stundað sölu slíkra efna. Hann kvaðst ekki hafa átt neitt af þeim peningum sem voru haldlagðir og ekki vitað neitt um þá. Hann var spurður hvort spilaður hefði verið póker og sagði að það hefði verið upp á smáar fjárhæðir, einu sinni eða tvisvar. Ekki hefðu verið notaðir spilapeningar. Þeir hefðu verið einir fimm sem spiluðu.
Vitnið C lögreglumaður gerði grein fyrir rannsókn lögreglu. Hann kvað hafa vaknað grun um að ákærðu seldi fíkniefni. Hefði grunurinn byggst á vísbendingum sem lögregla hefði fengið, um sölu á kókaíni og amfetamíni. Hefði því verið aflað heimildar til húsleitar. Hann sagði aðspurður að sími ákærða Stefáns Þórs hefði verið haldlagður eins og önnur gögn. Hann sagðist vita að í fíkniefnaheiminum væri „grænn“ notað um maríhúana, „frænka“ um e-töflur. „Uno“ gæti vísað til ritalíns, eða eins stykkis eða eins gramms af einhverju. „Jóla“ væri algengt orð um kókaín, „jólasveinn“ gæti verið þróað úr því.
Vitnið D lögreglumaður staðfesti að lögreglu hefði borist upplýsingar um fíkniefnasölu og rannsókn því hafist með húsleit. Hann kvaðst þekkja orðið „jólasveinn“, það væri ekki mikið notað, en með því væri átt við kókaín. „Frænkur“ merktu e-töflur. „Grænn“ væri „fras“, þ.e. kannabis.
Vitnið E lögreglumaður kvaðst hafa stöðvað för ákærða Stefáns Þórs og fundið peninga í bifreiðinni. Peningabúnt hefði verið undir barnabílstól og einnig í hólfi milli framsæta. þau hefðu verið rennslétt, blaut og mold og sandur á þeim, eins og þau hefði legið úti. Ákærði hefði sagt að hann hefði verið með þetta í buxum sem hefðu farið gegnum þvottavél.
Vitnið B kvaðst hafa verið í [...]. Vitnið sagði að ákærði hefði lánað sér 240.000 krónur árið 2011. Hún hefði endurgreitt þetta í tvennu lagi, í júní 2011. Hún hefði greitt þetta með peningum. Hún kvaðst hafa heyrt eftir að ákærði var handtekinn og peningar haldlagðir, að hann hefði verið að spara saman til að bjóða henni í utanlandsferð. Vitnið sagði að ákærði hefði yfirleitt verið vel aflögufær um peninga. Hann hefði haft góðar tekjur af sjómennsku.
Vitnið A kvaðst, vorið 2011, hafa lánað ákærða peninga. Hann hefði verið að plana dálítið, utanlandsferð, og beðið sig um peninga. Vitnið hefði verið aflögufært, það hefði fengið slysabætur og unnið í lottó, og lánað ákærða 800.000 krónur. Hann hefði afhent féð í seðlum, einhvern tíma í júní. vitnið vísaði til þess að frammi liggur yfirlit um að borgað hafi verið út af bankareikningi hans 650.000 krónur 7. júní 2011. Vitnið staðfesti að milli síma þeirra ákærða hefðu gengið textaboð, þar sem ákærði gekk eftir greiðslu 300.000 króna. Vitnið sagði að þessi skilaboð stöfuðu í raun frá manni sem vitnið hefði skuldað peninga. Ákærði hefði ekki verið að innheimta hjá því 300.000 krónur, heldur kunningi ákærða. Vitnið kvaðst ekki geta upplýst hver sá væri. Vitnið staðfesti boð frá 24. ágúst þar sem hann sagðist myndu fá mann til að leggja inn hjá ákærða sem fyrst. Vitnið sagði að þarna hefði ekki verið um skuld við ákærða að ræða. Ákærði sendi til baka skilaboð, þar sem fram kemur talan 300.000 og upplýsingar um bankareikning. Vitnið sagði að ákærði hefði ætlað að vera milliliður. Vitnið kvaðst enn ekki hafa greitt þessar 300.000 krónur. Vitnið kvaðst ekki hafa viljað gera lögreglu grein fyrir skiptum þeirra ákærða, er símaskýrsla var tekin af vitninu 3. september 2011 og sagt að ákærði hefði ekki skuldað honum neitt verulegt. Hann hefði sagt að ákærði hefði lánað honum 300.000 krónurnar, þar sem hann hefði ekki viljað minnast á raunverulega kröfueigandann. Vitnið sagðist aðspurt hafa spilað póker við ákærða og félaga hans, en vissi ekkert um færslur á lista af því tilefni.
IV
Ákærði Stefán Þór neitar að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum í söluskyni og að hafa stundað sölu fíkniefna í einverjum mæli áður en hann var handtekinn og hafa hagnast af þeim viðskiptum um 1.625.000 krónur.
Framangreindir lögreglumenn báru um það vitni að grunur hefði beinst að ákærða um fíkniefnaviðskipti vegna ábendinga um það. Við leit hjá honum fundust auk fíkniefna, peningabúnt eins og greint er að framan og aftur í bifreið hans tveimur dögum síðar.
Við leitina fannst framangreindur list með nöfnum og tölum. Kvaðst ákærði halda að hann hefði ritað hann og verður ekki við annað miðað. Ákærði segir listann hafa verið yfir stöðu í pókerspilum.
Ekki verður á það fallist að lögreglu hafi verið óheimilt að haldleggja síma ákærða. Verður ekki litið framhjá skilaboðum sem í símanum fundust. Þar má finna meðal annars skilaboð þar sem spurt er hvort ákærði geti hent „einu“ í sendandann, hvort megi grípa einn „grænan“, hvort megi grípa tvær „frænkur“, hvort ákærði eigi „jólasvein“ og hvort grípa megi „uno“. Ákærði kvaðst ekki kannast við þessi boð og taldi helst að annar maður hefði notað síma hans. Þessi skýring verður ekki talin trúverðug. Þegar litið er til þessara skilaboða, og þess að reyndir lögreglumenn báru vitni um að þarna væri verið að nota orð yfir fíkniefni, verður að telja þau sönnun um, þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að þau vísi til afhendingar slíkra efna. Þegar framangreindur listi með nöfnum og tölum er virtur með hliðsjón af þessu verður ekki talin trúverðug sú skýring ákærða að þar sé um að tefla stöðulista í póker. Verður að telja langlíklegast að listinn sé til kominn vegna viðskipta ákærða með fíkniefni. Samkvæmt þessu verður að telja sannað að ákærði hafi haft vörslur efnanna í því skyni að selja þau og stundað sölu á slíkum efnum í einhverju mæli áður en hann var handtekinn. Verður hann því sakfelldur fyrir þau atriði samkvæmt I. lið ákæru 24. apríl 2012 og varðar háttsemi hans við tilgreind refsiákvæði í ákærunni.
Líkur standa almennt til þess að sala ákærða hafi skilað hagnaði. Ákærði kveður framangreinda peninga sem hann hafi haft í vörslum sínum tilkomna með þeim hætti að hann hafi sparað þá að hluta af tekjum sínum, en að hluta sé um að ræða fé sem hann hafi fengið endurgreitt vegna láns til [...], 240.000 krónur og lán frá kunningja sínum A.
Skýrsla ákærða um þetta efni fyrir lögreglu var mjög óákveðin og sagði hann fyrir dómi að ekki væri að marka hana.
Samkvæmt yfirliti sem ákærði lagði fram um útborganir af bankareikningi hans á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst 2011 tók hann út samtals 173.000 krónur á því tímabili. Ekki sést millifærsla, sem skjámynd á öðru skjali gefur til kynna, um 240.000 krónur til B. Yfirlitið gefur því enga heildarmynd að því er virðist. Sama er að yfirlit um útborganir af reikningi B á sama tímabili, þar sést þessi millifærsla ekki og yfirlitið virðist ekki gefa heildarmynd af færslum á reikninginn. B hefur á þessu tímabili tekið úr samtals 381.500 krónur.
Þá hefur verið lagt fram skjal þar sem fram kemur að A tók út af reikningi hjá Landsbankanum 650.000 krónur þann 7. júní 2011. Ekkert er því til staðfestingar að hann hafi afhent ákærða þetta fé og 150.000 krónum betur, annað en staðhæfingar hans og ákærða. Er lögregla spurði A um það á sínum tíma hvort ákærði skuldaði honum, sagði hann að það væri þá „kannski smá og smá, aldrei neinar stórar upphæðir í einu.“ Engin skynsamleg skýrgin kom fram á því að hann vildi leyna því þá, sem hann ber fyrir dómi, að hafa lánað ákærða þetta fé til að kosta utanlandsferð. Þá hefur ekki verið skýrt með trúverðugum hætti hvernig þetta gat farið saman við það að sumarið 211 var gengið hart eftir því með skilaboðum úr síma ákærða að A greiddi 300.000 króna skuld, án árangurs, fyrst hann átti samkvæmt framburði sínum fyrir dómi miklu hærri fjárhæð hjá ákærða. Er ekki unnt að meta framburð A Þórs trúverðugan.
Að þessu virtu þykja staðhæfingar ákærða um að peningarnir hafi að hluta til stafað frá B og A ekki trúverðugar. Hann hefur heldur ekki lagt fram nein gögn um tekjur sínar þannig að rennt geti stoðum undir það að hann hafi að öðru leyti, eða öllu, sparað saman af tekjum sínum þá fjárfúlgu sem lögregla lagði hald á.
Samkvæmt þessu verður ákærði ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hafi aflað peninganna á lögmætan hátt, sbr. 4. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009. Eru því uppfyllt skilyrði fyrir upptöku þeirra, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Verður að fallast á kröfu ákæruvaldsins um hana.
V
Samkvæmt sakavottorði ákærða Stefáns Þórs var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga, samkvæmt viðurlagaákvörðunum 9. febrúar og 11. mars árið 2009 og sætti samtals 190.000 króna sektum og var sviptur ökurétti í samtals 13 mánuði.
Sakavottorð ákærða X hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans.
Meðferð málsins hefur dregist mikið án þess að ákærðu verði um það kennt. Með tilliti til þess þykir rétt að fresta ákvörðun refsingar beggja skilorðsbundið, eins og nánar greinir í dómsorði, að öðru leyti en því að ákærði Stefán Þór verður dæmdur til greiðslu 250.000 króna sektar að viðlögðu fangelsi í 18 daga, verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja og sviptur ökurétt í þrjú ár frá dómsbirtingu.
Sakarkostnaður á rannsóknarstigi er allur til kominn vegna ákærða Stefáns Þórs og nemur samtals 242.676 krónum samkvæmt yfirlitum. Ber að dæma ákærða til að greiða þennan kostnað, að frádregnum reikningi frá húsasmíðameistara, vegna viðgerða heima hjá ákærða, sem ekki þykir nægilega ljóst að ákærði beri ábyrgð á. Dregst fjárhæð reikningsins, 28.896 krónur, frá fjárhæðinni og verður ákærði dæmdur til greiðslu 213.780 króna á þessum lið.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Gísla M. Auðbergssonar hrl., verða ákveðin í heild eins og í dómsorði greinir, auk ferðakostnaðar, sem ákveðst í heild 190.000 krónur. Ákærðu verða aðeins dæmdir til að greiða þennan kostnað að hálfu, vegna þess að endurflytja þurfti málið. Við skiptingu hans milli ákærðu verður litið til þess að ákærði X óskað eftir skipun verjanda fyrir dómi, en játaði síðan sök. Á yfirliti verjanda er gert ráð fyrir að ekki hefði þurfti að kosta til ferðalagi til aðalmeðferðar vegna þessa ákærða og verður miðað við það.
Gera ber upptæk haldlögð fíkniefni eins og krafist er.
Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Hafnað er kröfu ákærðu, Stefáns Þórs Ólafssonar og X um að máli þessu verði vísað frá dómi.
Ákærði Stefán Þór greiði 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 18 daga.
Ákvörðun refsingar ákærða Stefáns Þórs er að öðru leyti frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákvörðun refsingar ákærða X er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði Stefán Þór er sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði Stefán Þór greiði 659.005 krónur í sakarkostnað, þar af 370.225 krónur af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærðu, Gísla M. Auðbergssonar hrl., sem ákveðast í heild 815.750 krónur og 75.000 krónur vegna ferðakostnaðar hans, sem ákveðst í heild 190.000 krónur. Ákærði X greiði 37.650 króna hluta af málsvarnarlaunum verjandans og 20.000 krónur af ferðakostnaði hans, samtals 57.650 krónur. Sakarkostnaður að öðru leyti greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Stefán Þór sæti upptöku á 43 grömmum af amfetamíni, fjórum E-töflum (ecstasy), 0,80 grömmum af tóbaksblönduðu kannabisefni og 1.625.000 krónum.
Ákærði X sæti upptöku á 10,10 grömmum af amfetamíni, 0,90 grömmum af maríhúana og 0,70 grömmum af tóbaksblönduðu kannabisefni.