Hæstiréttur íslands

Mál nr. 608/2013


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Aðildarskortur
  • Málsástæða


                                     

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Nr. 608/2013.

Þrotabú Ísleifs Leifssonar

EP fjármál ehf.

Upsir ehf. og

Magnús Ingi Erlingsson

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Lánssamningur. Aðildarskortur. Málsástæða.

Í, E ehf., U ehf. og M höfðuðu mál gegn L hf. og kröfðust þess að viðurkennt yrði að L hf. bæri skaðabótaábyrgð á tjóni þeirra vegna gjaldþrots N ehf. Á því var byggt að L hf. hefði vanefnt samningsskuldbindingar sínar gagnvart N ehf. en félagið hafði verið í eigu Í, E ehf., U ehf. og M. Fyrir Hæstarétti studdu þrotabú Í, E ehf., U ehf. og M kröfu sína meðal annars þeirri málsástæðu að L hf. hefði bakað sér fébótaábyrgð eftir reglum utan samninga. Hún var of seint fram komin og kom því ekki til álita við úrlausn málsins. Að því er varðaði þá málsástæðu að L hf. hefði bakað sér fébótaábyrgð innan samninga kom fram í dómi Hæstaréttar að það væri almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings gætu einir haft uppi kröfur í tilefni af ætluðum vanefndum hans. Ættu aðrir, svo sem hluthafar í hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem aðili væri að samningnum, almennt ekki aðild að slíkum málum, enda þótt þeir kynnu að hafa orðið fyrir afleiddu fjártjóni. Ljóst var að hvorki N ehf. né skiptastjóri, fyrir hönd þrotabús þess, höfðu beint skaðabótakröfu gegn L hf. vegna vanefnda á samningnum. Þá varð ekki séð að Í, E ehf., U ehf. eða M hefðu farið fram á að slík krafa yrði gerð meðan á skiptum N ehf. stóð. Með vísan til þessa var talið að sú aðstaða væri ekki fyrir hendi að þrotabúi Í, E ehf., U ehf. og M væri heimilt að krefjast viðurkenningar á skaðabótaskyldu L hf. og var L hf. því sýknað á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. september 2013. Þeir krefjast þess að viðurkennt verði að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni sínu „vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. sem rekja má til vanefnda á lánssamningi milli Nýju Jórvíkur ehf.  félags í eigu áfrýjenda, og stefnda, dags. 24. maí 2005, upphaflega milli Landsbanka Íslands hf. og Nýju Jórvíkur ehf.“ Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Er þar meðal annars gerð grein fyrir meginefni samningsins 24. maí 2005 milli Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf., nú LBI hf., þar sem bankinn sem lánveitandi skuldbatt sig til að hafa til reiðu fyrir félagið sem lántaka „reikningslánalínu“ að fjárhæð 1.130.000.000 krónur.

Samkvæmt gögnum málsins voru áfrýjendurnir EP fjármál ehf., Upsir ehf. og Magnús Ingi Erlingsson ásamt Ísleifi Leifssyni einu hluthafar Nýju Jórvíkur ehf. í árslok 2009. Bú síðastnefnda félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 28. janúar 2010. Fyrir liggur skrá yfir lýstar kröfur í þrotabúið og kom þar fram að skiptastjóri hafi samþykkt kröfu stefnda, sem þá hét NBI hf., á hendur búinu á grundvelli áðurgreinds samnings að fjárhæð 1.971.683.978 krónur. Ennfremur sagði að kröfuskráin yrði samkvæmt 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. lögð fram á skiptafundi sem haldinn yrði 8. júní 2010. Þá liggur fyrir samkomulag skiptastjóra þrotabúsins og stefnda 23. nóvember 2010 um útlagningu á fasteigninni Mýrargötu 26 í Reykjavík til Regins ÞR1 ehf., dótturfélags stefnda, svo og afsal skiptastjóra á eigninni til þess félags. Ekki hafa verið lögð fram gögn um aðrar ráðstafanir skiptastjóra eða skiptafundi í búinu, en skiptum á því lauk 10. mars 2011.

Mál þetta var höfðað af áfrýjendunum EP fjármálum ehf., Upsum ehf. og Magnúsi Inga Erlingssyni og Ísleifi Leifssyni 4. desember 2012. Bú þess síðastnefnda var tekið til gjaldþrotaskipta 11. apríl 2013 og tók það við aðild hans að málinu undir rekstri málsins í héraði.

II

Í héraðsdómsstefnu var tekið fram að stefnendur byggðu „á meginreglum skaðabótaréttarins um fébótaábyrgð innan samninga“ og krefðust þess að stefndi yrði dæmdur skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem þeir hefðu orðið fyrir vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. Var því haldið fram að Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi hefðu „með saknæmri og ólögmætri háttsemi sinni vanefnt samningsskyldur sínar“ samkvæmt áðurgreindum samningi 24. maí 2005 sem gerður hafði verið milli þess fyrrnefnda og Nýju Jórvíkur ehf. Fyrir Hæstarétti studdu áfrýjendur kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda ennfremur þeim rökum að hann hefði bakað sér fébótaábyrgð eftir reglum um skaðabætur utan samninga gagnvart þeim, að því er virðist með athöfnum og athafnaleysi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og stefnda án tengsla við samninginn 24. maí 2005. Málsástæða þessi er of seint fram komin og kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Það er almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings geta einir haft uppi kröfur í tilefni af ætluðum vanefndum hans. Eiga aðrir, svo sem hluthafar í hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem aðili er að samningnum, almennt ekki aðild að slíkum málum, enda þótt þeir kunni að hafa orðið fyrir afleiddu fjártjóni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 7. desember 2000 í máli nr. 153/2000 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 4122.

Ekki verður séð af málsgögnum að Nýja Jórvík ehf. hafi haft uppi kröfu á hendur stefnda um skaðabætur vegna vanefnda á áðurgreindum samningi milli félagsins og Landsbanka Íslands hf. Þegar bú Nýju Jórvíkur ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. janúar 2010 tók þrotabú félagsins við réttindum þess samkvæmt samningnum, sbr. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991. Eftir 1. mgr. 122. gr. laganna fór skiptastjóri þrotabúsins með forræði búsins og kom fram af hálfu þess fyrir dómi ef því var að skipta. Af því sem að framan greinir er ljóst að skiptastjóri beindi ekki, fyrir hönd búsins, skaðabótakröfu gegn stefnda vegna vanefnda á samningnum. Ekki verður heldur séð að einhver áfrýjendanna EP fjármála ehf., Upsa ehf. eða Magnúsar Inga Erlingssonar ellegar Ísleifur Leifsson hafi farið fram á að slík krafa yrði gerð meðan á skiptum þrotabúsins stóð.

Með vísan til þess, sem að framan segir, verður ekki fallist á með áfrýjendum að sú aðstaða sé fyrir hendi að lögum að þeim sé heimilt að krefjast viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna ætlaðra vanefnda á samningnum 24. maí 2005. Þegar af þeirri ástæðu verður samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 að sýkna stefnda af kröfu áfrýjenda og staðfesta hinn áfrýjaða dóm.

Áfrýjendur verða dæmdir óskipt til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, þrotabú Ísleifs Leifssonar, EP fjármál ehf., Upsir ehf. og Magnús Ingi Erlingsson, greiði óskipt stefnda, Landbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2013.

Mál þetta var höfðað 11. desember 2012 og dómtekið 30. maí 2013 að loknum munnlegum málflutningi.

Stefnendur eru þb. Ísleifs Leifssonar, Höfðatúni 2, Reykjavík, EP fjármál ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, Upsir ehf., Suðurlandsbraut 20, Reykjavík og Magnús Ingi Erlingsson, til heimilis að Kúrlandi 17, Reykjavík, allir fyrrum hluthafar Nýju Jórvíkur ehf. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær að stefndi verði aðallega dæmdur til að greiða sérhverjum skaðabætur sem hér segir: Þrotabúi Ísleifs Leifssonar 78.174.700 krónur, EP fjármálum ehf., 603.142.800 krónur, Upsum ehf. 76.477.300 krónur og Magnúsi Inga Erlingssyni 185.205.200 krónur.

Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum skaðabætur að álitum í samræmi við hlutaskrá félagsins.

Til þrautavara verði stefndi dæmdur til að bera skaðabótaábyrgð gagnvart sérhverjum stefnanda.

Stefnendur krefjast málskostnaðar í öllum tilvikum.

Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum dómkröfum stefnenda. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnenda. Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar.

Með ákvörðun dómara þann 18. apríl 2013 og samkomulagi aðila var sakarefninu skipt þannig að fyrst verður dæmt um hvort stofnast hafi til skaðabótaskyldu stefnda gagnvart stefnendum.

II

Málsatvik

Mál þetta snýst um viðskiptasamning um framkvæmdalán milli Landsbanka Íslands hf. og Nýju Jórvíkur ehf. frá 24. maí 2005, til þess að fjármagna byggingu fjölbýlishúss við Mýrargötu 26 í Reykjavík.

Á árinu 2006 var hafist handa við að grafa grunn og steypa upp kjallara hússins. Vegna ógildingar á áður samþykktu deiliskipulagi töfðust frekari framkvæmdir og hófust ekki af fullum krafti fyrr en í júní árið 2007. Í júní árið 2008, hafði Nýja Jórvík ehf. fengið greiddar samtals 868.000.000 króna sem lán vegna verkframkvæmdanna. Stefndi lokaði hins vegar fyrir lánalínuna þrátt fyrir að viðskiptasamningurinn gerði ráð fyrir að hærri fjárhæð yrði greidd til framkvæmdanna.

Hinn 25. janúar 2010 var Nýja Jórvík ehf. úrskurðað gjaldþrota og töpuðu hluthafar þess öllu hlutafé sínu og þar með einu eign félagsins sem var fasteignin við Mýrargötu 26. Telja stefnendur að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem stefnendur urðu fyrir vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. Telja stefnendur að sú háttsemi stefnda að synja um frekari lánagreiðslu frá bankanum á grundvelli fyrrgreinds lánssamnings, dags. 24. maí 2005 hafi verið saknæm og ólögmæt.

Í máli þessu kemur fram að samkvæmt viðskiptasamningnum skyldi bankinn hafa til reiðu fyrir lántakanda reikningslánalínu að fjárhæð 1.130.000.000 króna. Innan þeirra marka var lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum. Hámarksfjárhæð gat þó aldrei verið hærri en sem nemur 88% af heildarkostnaði vegna framkvæmda við fasteignina við Mýrargötu 26, Reykjavík, samkvæmt mati bankans eða sérfræðinga á hans vegum.

Þá taldist hver lánshluti sem lántaki tók innan lánsheimildar reikningslánalínunnar vera sjálfstætt lán. Samkvæmt 4. gr. samningsins var gert ráð fyrir að útgreiðslur hvers lánshluta færu fram í formi reikningsláns og heildargreiðslur gætu ekki orðið hærri en 1.130.000.000 króna sem fyrr sagði. Útborgun lánshluta skyldi miðast við verkframkvæmdir þar sem lánveitandi áskildi sér rétt til að meta framkvæmdir, með aðstoð sjálfstæðra úttektaraðila, og stöðva lánveitingu ef ekki væri talið eðlilegt samband milli útborgunar lánsins og verkframkvæmda. Áður en bankinn kynni að stöðva lánveitingu í samræmi við framangreint, skyldi lántaka gefinn kostur á því að koma athugasemdum á framfæri. Ef verkið drægist umfram staðfesta framkvæmdaáætlun væri bankanum heimilt að fresta útgreiðslum, þar til þeim verkþáttum væri lokið sem átti að ljúka fyrir útborgunardag. Þá var bankanum heimilt að framlengja einstaka lánshluta með sama hætti.

Í 6. gr. samningsins var mælt fyrir um vexti og vaxtatímabil. Samkvæmt 1. málsl. í grein 6.1 miðast vaxtakjör hvers lánhluta við REIBOR-vexti eins og þeir eru skráðir að morgni þess dags sem lánið er greitt út að viðbættu 2,50% álagi. Samkvæmt grein 6.2 er lántaka heimilt, hvenær sem er á gildistíma samningsins, að óska eftir breytingu á vaxtakjörum samkvæmt grein 6.1. Skal sú breyting háð samþykki bankans.

Samkvæmt 15. gr. samningsins um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) bar bankinn ekki ábyrgð á tjóni vegna ákvarðana stjórnvalda, stríðs, verkfalla, hafnbanna, atburða á erlendum gjaldeyris- og fjármagnsmörkuðum eða öðrum óviðráðanlegum orsökum sem hindra, torvelda eða valda töfum á því að bankinn geti staðið við skyldur sínar samkvæmt samningnum. Var gildistími samningsins til 1. maí 2007.

Þann 29. desember 2006 var gerður viðauki við framangreindan viðskiptasamning m.a. þess efnis að bætt var við samninginn grein þar sem kveðið var á um kjör á lántöku í erlendum gjaldmiðlum. Þá var gildistími samningsins framlengdur til 28. febrúar 2009.

Samkvæmt minnisblaði starfsmanns stefnda kemur fram að á tímabilinu 1. janúar 2008 til 30. júní 2008 hafi gengisvísitala krónunnar hækkað sem hafi skilað sér beint í hækkun á framkvæmdaláninu á hverjum tíma og lækkaði þann hluta sem hægt var að draga á lánalínuna. Staða framkvæmdalánsins hafi verið 693.300.000 krónur í byrjun ársins 2008. Dregið hefði verið fimm sinnum á lánið á árinu 2008, samtals 174.000.000 króna. Raunverulegur ádráttur hafi því numið um 868.000.000 króna, sem væri sú fjárhæð sem raunverulega hefði farið í framkvæmdir á fasteigninni, en heildarskuld á grundvelli skilmála lánssamningsins næmi 1.168.500.000 krónum. Mismunur þessara tveggja fjárhæða, eða um 300.000.000 króna skýrðist af gengislækkun krónunnar á móti þeim myntum sem væru í myntkörfu lánsins.

Í lok júní 2008 stöðvaði Landsbanki Íslands hf. lánafyrirgreiðslu til Nýju Jórvíkur ehf. á grundvelli samningsins. Var fyrirsvarsmönnum Nýju Jórvíkur ehf. tilkynnt af lánastjóra Landsbanka Íslands hf., að styrkja þyrfti eigið fé félagsins eða leggja fram sjálfskuldarábyrgðir hluthafa. Í framhaldinu voru lagðar fram sjálfskuldarábyrgðir hluthafa í samræmi við eignarhluta þeirra í félaginu samtals að fjárhæð 125.000.000 króna.  Fjallað var um málefni félagsins á lánanefndarfundi bankans þann 23. júlí 2008, þar sem fram kom að auka þyrfti eigið fé félagsins um allt að 500.000.000 króna „ef bankinn á að lána frekar í verkefni“.

Með bréfi, Nýju Jórvíkur ehf. til Landsbanka Íslands hf., dags. 26. ágúst 2008 er þess óskað að bankinn verði við tilboði hluthafa um 200.000.000 króna sjálfskuldarábyrgð er verði greidd niður með nýju hlutafé á næstu sex mánuðum og að gengið verði frá samningu um heildarfjármögnun á verkinu um leið. Í svari Landsbanka Íslands hf., dags. 25. ágúst 2008, segir að ábyrgð að fjárhæð 200.000.000 króna nægi ekki. Leggja þurfi að auki fram 100.000.000 króna í reiðufé.

                Á fundi lánanefndar þann 2. október 2008 var fjallað um málefni félagsins. Var ákveðið að Málið verði stöðvað í 12 mánuði. Lánalína framlengist til 30.10.2009 og hækki í 1.500 m.kr. vegna gengisbreytinga … Í niðurlagi bréfsins kemur fram að Við almenna skoðun á málinu þá virðist bankinn vera jákvæður að auka lánveitingu til verkefnisins þó veruleg kostnaðarhækkun hafi átt sér stað en hann vill að eigendur komi með viðbótar áhættufjármagn í félagið á sama hátt og bankinn.

                Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun, á grundvelli 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, var Nýi Landsbanki Íslands hf. stofnaður, nú Landsbankinn hf., stefndi í máli þessu.

Þann 7. nóvember 2008 tilkynnti stefndi Nýju Jórvík ehf. að fyrri umleitanir félagins fengju ekki frekari meðferð. Fram kemur að þá hafi staða lánsins verið 1,8 milljarður króna og ljóst að eftir var að framkvæma fyrir 2,3 milljarða. Þá var heildarkostnaður kominn í 4,1 milljarð króna, en fasteignin fullbúin hafði verið metin á 3,4-3,8 milljarða króna í árslok 2007 að því er fram kemur í bréfinu.

Þann 15. október 2010, sendu stefnendur bréf til stefnda þar sem m.a. kemur fram að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni sem þeir telji að stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Hafi Nýja Jórvík ehf. ekki fengið það fé til framkvæmdanna sem lofað hafi verið og því ekki getað lokið við umræddar byggingarframkvæmdir og því lent í greiðsluerfiðleikum og orðið gjaldþrota. Hlutur hluthafa hafi við gjaldþrot Nýju Jórvíkur ehf. orðið verðlaus. Hluthafar hafi misst allt forræði á einu eign félagsins til skiptstjóra þrotabúsins.

Í svari stefnda, dags. 3. desember 2010, er því mótmælt að stefndi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt lánssamningnum og tekið fram að stefnda hafi ekki borið skylda til þess að veita viðbótarfjármögnun vegna verkefnisins. Var bótaskyldu hafnað gagnvart því tjóni sem stefnendur kynnu að hafa orðið fyrir við gjaldþrot Nýju Jórvíkur ehf.

Með bréfi fyrirsvarsmanns stefnenda til stefnda, dags. 6. mars 2012, var stefndi krafinn um greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns sem stefnendur töldu sig hafa orðið fyrir vegna stöðvunar lánafyrirgreiðslu Landsbanka Íslands hf. í lok júní 2008.

Í svari stefnda, dags. 14. maí 2012 var bótaskyldu stefnda hafnað og m.a. borið við aðildarskorti.

Skýrslu fyrir dómi gáfu Magnús Ingi Erlingsson, Albert Sveinsson, Brynjar Harðarson, Þorsteinn Hjaltason, Davíð Björnsson og Katrín Bryndís Sverrisdóttir.

III

1. Helstu málsástæður stefnanda

Stefnendur byggja á meginreglum skaðabótarréttarins um fébótaábyrgð innan samninga og krefjast þess að stefndi verði dæmdur skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem stefnendur urðu fyrir vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. Telja stefnendur að það verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi gamla Landsbankans þegar félaginu var fyrirvaralaust synjað um frekari lánafyrirgreiðslu frá bankanum þrátt fyrir skýra skuldbindingu bankans þar um samkvæmt lánssamingi, dags. 24. maí 2005.

Stefnendur byggja á því að stefndi hafi yfirtekið öll réttindi og allar skyldur Landsbanka Íslands hf. þegar bankinn yfirtók lánssamning Nýju Jórvíkur ehf. við stofnun Nýja Landsbankans auk þess sem stefndi hafi orðið skaðabótaskyldur vegna háttsemi sinnar eftir yfirtöku lánssamningsins, sbr. 100 gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, og ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans. Lánssamningur Nýju Jórvíkur ehf. hafi fallið undir greinda ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Stefnendur byggja á því að við kröfuhafaskipti geti skuldari haft uppi við framsalshafa allar þær mótbárur sem hann hefði getað haft við framseljenda.

Stefnendur byggja á því að ólögmæt stöðvun lánafyrirgreiðslu til Nýju Jórvíkur ehf., hafi leitt til þess að félagið gat ekki efnt greiðsluskyldu sína gagnvart byggingarverktakanum Atafli ehf. sem hafi leitt til gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf. Stefndi hafi síðan vanefnt samninginn með því að greiða ekki út eftirstöðvar lánsloforðsins til Nýju Jórvíkur ehf. í kjölfar framsalsins 9. október 2008 til Landsbankans hf. Sú háttsemi stefnda að greiða ekki út eftirstöðvar lánsloforðsins sé skaðabótaskyld. Stefnendur, fyrrum hluthafar Nýju Jórvíkur ehf., hafi tapað öllu hlutafé sínu og þannig orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sem rekja megi til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi Landsbankans og stefnda. Þá byggja stefnendur á reglum skaðabótarréttarins um húsbóndadábyrgð.

Beint orsakasamband sé á milli vanefndar Landsbanka Íslands hf. og stefnda og tjóns stefnenda og hafi þeim mátt vera ljóst að tjón stefnenda væri sennileg afleiðing vanefndarinnar og að áframhaldandi lánafyrirgreiðsla væri lífsnauðsynleg fyrir félagið, enda grandsamir um að verkið myndi stöðvast þegar í stað vegna stöðvunar lánafyrirgreiðslunnar.

Á því er byggt að í lánssamningum hafi engin heimild verið til þess að stöðva útgreiðslu lánsins vegna hækkunar sem orsakaðist af vöxtum og gengisbreytingum, auk þess sem óheimilt hafi verið að tengja íslenskt lán við gengi erlendra gjaldmiðla. Nýja Jórvík ehf. hafi átt rétt á láni að fjárhæð 1.130.000.000. króna í íslenskum krónum án tillits til þróunar gengis. Stefndi hafi haft fullnægjandi tryggingar fyrir láninu sbr. tryggingarbréf, sem þinglýst var á eignina að Mýrargötu 26 að fjárhæð 1.594.000 krónur. Af þeim sökum hafi verið óforsvaranleg sú háttsemi Landsbankans og síðar stefnda að stöðva lánafyrirgreiðslur til félagsins eftir að hafa lánað félaginu aðeins 868.000.000 króna.

Nánar hafi Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi verið skuldbundnir til þess að lána Nýju Jórvík ehf. 1.130.000.000 króna. Það sé óumdeilt að Landsbanki Íslands hf.  og síðar stefndi lánuðu Nýju Jórvík ehf. einungis 868.000.000 króna. Jafnvel þó að miðað yrði við uppreiknaðan höfuðstól lánsins skv. ólögmætri tengingu við gengi erlendra mynta þann 6. júní 2008, hafi lánalínan verið kominn upp í 950.435.652 krónur og lánalínan því verið ófullnýtt af félaginu.

Ólögmætar athafnir Landsbanka Íslands hf. og stefnda hafi orðið til þess að Nýja Jórvík ehf. gat ekki staðið skil á greiðslu vegna útgefinna reikninga frá verktaka sínum Atafli ehf., sem voru á gjalddaga í júní vegna vinnu í apríl og maí. Félagið hafi í kjölfarið verið úrskurðað gjaldþrota og möguleikar til þess að fullgera fasteignina þar með eyðilagðir.

Stefnendur hafi ítrekað reynt að koma í veg fyrir að verkið stöðvaðist í kjölfar fyrivaralausrar stöðvunar lánafyrirgreiðslu Landsbanka Íslands hf. um mánaðamótin júní/júlí og koma þannig í veg fyrir tjón með því að leita eftir samkomulagi við bankann og stefnda um frekari fjármögnun.

Starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og stefnda sem m.a. sátu í lánanefndum á þessum tíma hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leiddi til tjóns stefnenda sem greindir aðilar beri ábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótarréttarins um húsbóndaábyrgð vinnuveitenda, sbr. 25. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

2. Helstu málsástæður stefnda

Stefndi krefst sýknu vegna aðildarskorts bæði að því er varðar sóknaraðild og varnaraðild. Er í því sambandi vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Byggir stefndi á því að stefnendur eigi ekki þá hagsmuni sem þeir krefjist. Nýja Jórvík ehf. sé sjálfstæður lögaðili og hafi borið réttindi og skyldur samkvæmt lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Félagið var aðili lánssamningsins frá 24. maí 2005 og geti stefnendur því ekki höfðað mál vegna hans. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 25. janúar 2010 og skiptum lokið 1. mars 2011. Stefndi tekur fram að bústjóri fari með forræði þrotabús og sé einn bær til að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess. Stefnendur hafi ekki umboð eða heimild skiptastjóra þrotabúsins og skiptum þess hafi verið lokið án fyrirvara um umdeildar kröfur. Kröfuréttur aðila lánssamningsins sé því ekki lengur til staðar.

                Stefndi telur að stefnendur hafi beint kröfum sínum að röngum aðila. Hinn umþrætti lánssamningur sé á milli Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf. Lánssamningurinn hafi verið færður yfir til stefnda þann 9. október 2008 með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sama dag ásamt öðrum tilgreindum eignum. Aðrar kröfur hafi ekki færst yfir, þar með taldar afleiddar kröfur. Ætluð krafa vegna skaðabótaskyldu starfsmanna Landsbanka Íslands hf. hafi ekki færst yfir til stefnda.

Stefndi hafnar því að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. eða stefnda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Þá er því mótmælt að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til skaðabótaskyldrar háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og stefnda.

      Stefndi tekur fram að hluthafar í félagi beri áhættu á tapi hlutafjár ef hallar undan fæti í rekstri þess, sbr. einnig stöðu slíkra krafna við gjaldþrotaskipti. Hluthöfum sé ekki greitt út hlutafé nema allar aðrar kröfur hafi verið greiddar upp að fullu við skiptin. Jafnvel þó að lánið hefði verið endurreiknað á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar á úrskurðardegi hefði Nýja Jórvík ehf. verið ógjaldfær. Ljóst sé að byggingarverð og þróun á gengi tók svo óhagstæðum breytingum á tíma verkefnisins að forsendur þess hurfu. Ekki hafi mátt vænta neins hagnaðar af verkefninu og verkefnið hafi tafist verulega vegna atvika sem hafi verið Landsbanka Íslands hf. og stefnda óviðkomandi. Tilvísun stefnenda til áætlaðs söluverðs, þ.e. 3.800.000.000 króna, sé byggð á mati frá árinu 2007 þegar verð íbúða hafi verið í hámarki. Stefnendur miði tjón sitt við 25. janúar 2010 þegar félagið var úrskurðað gjaldþrota, en ljóst sé að félagið hafi verið ógjaldfært og skuldir félagsins samkvæmt kröfuskrá hafi numið 1.978.584.213 krónum. Eina eign félagsins sem hafi að fullu verið veðsett stefnda hafi verið mun verðminni en áhvílandi skuldir. Stefndi hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna þess að einungis hafi fengist lítill hluti upp í lánsfjárhæðina við sölu eignarinnar.

Þá er því mótmælt að önnur skilyrði skaðabótaskyldu hafi verið uppfyllt. Hvorki starfsmenn stefnda né Landsbanka Íslands hf. hafi sýnt af sér saknæma eða ólögmæta háttsemi. Upphaflega lánið hafi verið veitt þar sem Landsbanki Íslands hf. hafði trú á verkefninu, en vegna tafa við framkvæmd þess, þróun gengis, hækkunar byggingarkostnaðar og lækkaðs fasteignaverðs hafi komið í ljós að það gengi ekki upp. Af þeim ástæðum hafi bankinn ekki viljað lána áfram og auka þannig tjón sitt.

Skýrt hafi komið fram í lánssamningnum að hámarkslánsfjárhæðin yrði reiknuð út frá tilteknum forsendum með hliðsjón af heildarkostnaði. Nýja Jórvík ehf. hefði lagt fram mat á verðmæti verkefnisins, sem stefndi hafi talið ómarktækt þar sem því hefði verið lýst að verðmæti íbúðanna hefði hækkað töluvert á sama tíma og frost hafi verið yfir fasteignamarkaði og spá Seðlabanka talið að það ástand myndi vara til langs tíma. Óljóst hefði verið hver heildarkostnaðurinn yrði af verkefninu og í ljósi þeirrar óvissu hafi Landsbanka Íslands hf. ekki borið að veita frekara lán jafnvel þótt hámarksfjárhæð lánssamningsins hefði ekki að fullu verið nýtt.

Þá er því hafnað að skaðabótaskylda hafi stofnast þegar starfsmenn Landsbanka Íslands hf. samþykktu að breyta skilmálum samningsins með þeim hætti að lánið yrði framvegis í erlendri mynt. Nýja Jórvík ehf. hafi tvívegis óskað eftir slíkri breytingu, fyrst þann 4. janúar 2007, og hafi síðan breytt aftur í íslenskt lán þann 12. febrúar 2007. Þann 6. júní 2007 hafi Nýja Jórvík ehf. óskað eftir því að lánið yrði framvegis í erlendri mynt og það hafi haldist þannig óbreytt. Slíkar skilmálabreytingar geti ekki skapað skaðabótaskyldu.

Að lokum er á það bent að fyrirsvarsmenn Nýju Jórvíkur ehf. hafi allan lánstímann haft aðgang að netbanka og getað fylgst með stöðu lánsins. Staða lánsins sumarið 2008 hafi því ekki getað komið þeim á óvart. Engar athugasemdir hafi komið fram um að skilmálar lánsins væru mögulega í andstöðu við vaxtalög. Tæpum fimm árum síðar sé því haldið fram að einungis beri að miða við samtölu útgreiddrar upphæðar miðað við íslenskar krónur og horfa fram hjá öllum ákvæðum lánsins, um vexti, kostnað og verðtryggingu þegar heildarfjáræð lánsins hafi verið metin á hverjum tíma.

Þá er því hafnað að gengissveiflur á árinu 2008 hafi valdið gjaldþroti Nýju Jórvíkur ehf. Ekkert orsakasamband sé þar á milli. Það hafi því ekki verið óhagstæðar gengissveiflur sem ollu gjaldþroti Nýju Jórvíkur ehf.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að skaðabótaskylda hafi stofnast á grundvelli ákvæða lánssamningsins er því mótmælt að sú skylda hafi færst yfir til stefnda eftir stofnun hans. Ekki komi fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 að skaðabótaskylda starfsmanna Landsbanka Íslands hf. hafi verið færð yfir til stefnda.

IV

Niðurstöður

Stefnendur í máli þessu eru fyrrum hluthafar Nýju Jórvíkur ehf. Þeir telja að stefndi beri skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem þeir urðu fyrir er þeir töpuðu öllu hlutafé sínu vegna gjaldþrots Nýju Jórvíkur ehf., er megi rekja til ólögmætrar synjunar Landsbanka Íslands hf. og stefnda á lánagreiðslum til Nýju Jórvíkur ehf.

                Það er almenn regla kröfuréttar að aðilar samnings geta einir haft uppi kröfur vegna ætlaðrar vanefndar á samningunum. Eiga aðrir almennt ekki aðild að slíkum málum nema þeir geti sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir beinu einstaklingsbundnu tjóni af þeim sökum.

Skaðabótakröfur stefnenda eru reistar á ávirðingum starfsmanna stefnda gagnvart Nýju Jórvík ehf. vegna framkvæmdar og túlkunar lánssamnings á milli Nýju Jórvíkur ehf. og Landsbanka Íslands hf. er hafi leitt til gjaldþrots félagsins. Þar með hafi stefnendur glatað öllu hlutafé sínu í hlutafélaginu.

Hlutafé er í eðli sínu áhættufé. Þeir sem það inna af hendi hafa hætt því fé óendurkræft í rekstur félagsins, m.a. í von um hagnað af rekstri þess og arðsúthlutanir séu skilyrði slíks fyrir hendi.

Dómkröfur máls þessa lúta hins vegar að hugsanlegri skaðabótaábyrgð Landsbanka Íslands hf. og stefnda gagnvart einstökum hluthöfum, en ekki gagnvart félaginu. Við slíkar aðstæður sem hér hefur verið lýst teljast hluthafar ekki hafa beðið  einstaklingsbundið tjón jafnvel þótt hlutir þeirra kunni að hafa orðið verðlausir í framhaldinu. Þegar af þessari ástæðu verður að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.

                Eftir framangreindum málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnendum gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Af hálfu stefnenda flutti málið Hermann Jónasson hdl. Af hálfu stefnda flutti málið Þröstur Þór Guðmundsson hdl.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýknaður af kröfum stefnenda.

Stefnendur greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.