Hæstiréttur íslands
Mál nr. 82/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Dánarbú
|
|
Föstudaginn 15. febrúar 2002. |
|
Nr. 82/2002. |
Baldur Björn Borgþórsson(Jón Höskuldsson hdl.) gegn Jóhönnu S. Borgþórsdóttur og Margréti Borgþórsdóttur (sjálfar) |
Kærumál. Opinber skipti. Dánarbú.
B, J og M deildu um hvort tvær landspildur, sem voru þinglýstar eign B, féllu undir opinber skipti á dánarbúi foreldra þeirra. Á fyrsta skiptafundi í dánarbúinu lýstu erfingjar því yfir að landspildunum og sumarbústað hefði í upphafi verið ráðstafað til B til að standa til tryggingar á ábyrgðum, sem á hann kynnu að falla vegna föður hans og hlutafélags í eigu föður hans, en B hefði fyrir þann tíma gengist í ábyrgð vegna krafna á hendur þeim. Talið var að yfirlýsingin yrði ekki skýrð öðru vísi en svo að eignarheimild B hefði frá upphafi verið skilyrt og háð þeirri forsendu að hann greiddi sem ábyrgðarmaður kröfur, eina eða fleiri, á hendur föður sínum og áðurnefndu hlutafélagi. Þá væri ósannað að B hefði innt af hendi fjárgreiðslur vegna skulda föður síns og/eða hlutafélagsins eða hann hefði greitt einhvers konar kaupverð eða annað fjárframlag, sem skapað hefði grundvöll fyrir eignarrétti að umræddum landspildum og sumarbústað. Lánardrottnar hefðu ekki lýst kröfum í dánarbúið vegna umræddra krafna og væru þær því fallnar niður fyrir vanlýsingu. B yrði því hér eftir ekki krafinn um greiðslur á grundvelli ábyrgða, sem hann hefði gengist í vegna föður síns og hlutafélagsins. Samkvæmt framansögðu skyldu hinar umþrættu landspildur og sumarbústaður falla undir opinber skipti á dánarbúinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. janúar 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að tvær nánar tilteknar spildur úr landi jarðarinnar Miðdals II í Mosfellsbæ féllu undir opinber skipti á dánarbúi Borgþórs Björnssonar og Ingu Erlendsdóttur, sem tekið var til opinberra skipta 21. desember 1999. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði að framangreindar spildur falli utan við opinber skipti á dánarbúinu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Baldur Björn Borgþórsson, greiði varnaraðilum, Jóhönnu S. Borgþórsdóttur og Margréti Borgþórsdóttur samtals 40.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. janúar 2002.
Málið var höfðað 15. nóvember 2001 og tekið til úrskurðar 16. janúar 2002. Sóknaraðilar eru Jóhanna Borgþórsdóttir, kt. 010840-4069, Kvistalandi 9, Reykjavík og Margrét Borgþórsdóttir, kt. 151153-7399, Eskiholti 9, Garðabæ. Varnaraðili er Baldur Björn Borgþórsson, kt. 030247-3539, Hlíðarhjalla 14, Kópavogi.
Sóknaraðilar krefjast þess að landspilda úr landi jarðarinnar Miðdals II í Mosfellsdal, u.þ.b. 7.500 fm. eignarland, sem staðsett er sunnan megin við Krókatjörn, ásamt sumarbústað sem stendur á landinu, og landspilda úr sömu jörð, u.þ.b. 9.100 fm., sem liggur að vestanverðu við Krókatjörnina, skuli falla undir opinber skipti á dánarbúi foreldra málsaðila. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að synjað verði um kröfu sóknaraðila. Jafnframt verði sóknaraðilar úrskurðaðir í sameiningu til greiðslu málskostnaðar.
I.
Faðir málsaðila, Borgþór Björnsson, kt. 050410-2429, lést 4. júlí 1996. Eftirlifandi eiginkona hans, Inga Erlendsdóttir, kt. 291010-7099, sat í óskiptu búi til dánardægurs 15. júlí 1999. Með úrskurði uppkveðnum 21. desember 1999 (mál réttarins nr. D-13/1999) var dánarbú hjónanna tekið til opinberra skipta og Ólafur Rafnsson héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri í búinu. Á fyrsta skiptafundi í dánarbúinu 24. janúar 2000 kom í ljós að ágreiningur yrði um skiptingu lausafjármuna og áður nefndra tveggja landspilda, en á annarri þeirra stóð sumarbústaður. Fundinn sátu aðilar máls þessa og bróðir þeirra Erlendur Haukur, en þau eru einu lögerfingjar hinna látnu. Auk þeirra var mættur Grétar Magnússon, eiginmaður sóknaraðila Margrétar. Á fundinum óskaði skiptastjóri eftir upplýsingum um eignir búsins og mun Grétar hafa bent á spildurnar tvær, en fram kom að þær voru þinglýstar eignir varnaraðila, Baldurs Björns. Samkvæmt fundargerð mun varnaraðili hafa upplýst að þetta hefði verið gert á árinu 1993, í kjölfar þess að fyrirtæki í eigu föður hans, Byggir hf., hefði lent í rekstrarerfiðleikum og varnaraðili verið þar í ábyrgðum. Annars vegar hefði verið um að ræða kostnað, sem orðið hefði til vegna þess að faðir hans hefði þurft að innleysa kröfu frá Sunnuhlíðarsamtökunum vegna íbúðarkaupa 1991, sem gengið hefðu til baka af því að foreldrum hans hefði ekki tekist að selja íbúðarhús sitt. Benti varnaraðili í því sambandi á skuldabréf frá Búnaðarbanka Íslands, útgefið 17. júlí 1991, upphaflega að fjárhæð krónur 621.122. Hins vegar hefði verið um að ræða rekstrarvíxla, pr. 10. maí 1992, sem verið hefðu til innheimtu hjá sama banka. Fundargerðin ber með sér að í beinu framhaldi hafi verið gerð svohljóðandi bókun:
„Segja mættu að báðar þessar skuldir séu enn í vanskilum, og allir viðstaddir erfingjar eru sammála því að þetta sé skuld sem tilheyri dánarbúinu vegna Borgþórs heitins. Jafnframt eru allir viðstaddir erfingjar sammála því að lóðaspildunum og sumarbústaðnum hafi verið ráðstafað til Baldurs til þess að standa til tryggingar þeim framangreindum ábyrgðum sem kynnu að falla á Borgþór heitinn, og þar með dánarbúið.“
Áður hafði komið fram á fundinum að lögerfingjarnir myndu ekki allir lýsa því yfir að þeir tækju á sig ábyrgð á mögulegum skuldbindingum búsins og að því færi um skiptameðferðina eftir reglum laga um skuldafrágöngubú. Í ljósi þessa var bókað í niðurlagi fundargerðarinnar að skiptastjóra þætti rétt að láta birta innköllun í Lögbirtingablaði. Skiptafundi var því næst slitið. Undir fundargerðina rita Ólafur Rafnsson skiptastjóri, lögerfingjarnir fjórir og Grétar Magnússon.
Á næsta skiptafundi 18. maí 2000, sem boðað var til með innköllun í Lögbirtingablaði 3. mars sama ár, var enginn lögerfingjanna mættur. Á fundinum tók skiptastjóri afstöðu til lýstra krafna, en aðeins var um eina kröfu að ræða og er hún máli þessu óviðkomandi. Í fundargerð lýsti skiptastjóri þeirri skoðun sinni að þar sem engin kröfulýsing hefði borist frá Búnaðarbanka Íslands vegna ábyrgða hins látna Borgþórs bæri í samræmi við umfjöllun síðasta skiptafundar að ákveða að spildurnar tvær, sem ráðstafað hefði verið til varnaraðila, skyldu falla undir skipti í dánarbúinu. Undir fundargerðina ritar Ólafur Rafnsson skiptastjóri.
Næst gerðist það í málinu að skiptastjóri óskaði eftir mati á áætluðu söluverðmæti landspildanna tveggja. Samkvæmt því verðmati, sem ekki hefur verið mótmælt tölulega af hálfu aðila, var spildan með sumarbústaðnum á metin á krónur 1.400.000 og hin spildan á krónur 800.000.
Á skiptafundi 2. nóvember 2000 voru mættir lögerfingjarnir fjórir, eiginmaður sóknaraðila Margrétar og nafngreindur lögmaður varnaraðila, Baldurs Björns. Hann lagði fyrir skiptafundinn skriflega bókun varnaraðila, sem hljóðar svo:
„Vegna vanþekkingar og misgánings láðist umbjóðanda mínum að láta bóka eftir sér mótmæli á skiptafundi 24. janúar 2000, þegar sumarbústaður og sumarbústaðalóðir úr landi Miðdals við Krókatjörn voru bókuð sem eignir þrotabúsins, en umbjóðandi minn naut ekki lögmannsaðstoðar er þetta gerðist né heldur var honum leiðbeint um þýðingu bókunarinnar. Hið rétta er að sumarbústaðurinn og sumarbústaðalóðirnar eru eign Baldurs Björns Borgþórssonar og hafa verið það frá 1993. Eignirnar eru þinglýstar eignir Baldurs Björns og hefur hann greitt af þeim skatta og skyldur, séð um viðhald og endurbætt húsið. Vilji búið eða erfingjar vefengja eignarrétt Baldurs verður búið að höfða mál á hendur Baldri, sem er þinglýstur eigandi og hefur eignirnar í sínum vörslum.“
Samkvæmt fundargerðinni munu í beinu framhaldi hafa spunnist umræður um fyrri bókanir á skiptafundum og yfirlýsingar varnaraðila um forsögu þess að hann varð þinglýstur eigandi spildanna tveggja. Fundargerðin ber með sér að ekki hafi náðst niðurstaða um ágreiningsefnið, en skiptastjóri hafi í framhaldi reifað hugmyndir að lausn þess og annarra ágreiningsatriða við skiptin og vakið máls á því að ef ekki næðist samkomulag milli erfingjanna yrði ekki hjá því komist að leita atbeina dómstóla við lausn ágreiningsins. Fundargerðin er undirrituð af öllum viðstöddum.
Að loknum skiptafundum 7. desember 2000 og 11. október 2001, þar sem ekki náðist saman í ágreiningi sóknaraðila og varnaraðila um spildurnar tvær, skaut skiptastjóri ágreiningsmálinu til héraðsdóms á grundvelli 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Lá þá fyrir að Erlendur Haukur Borgþórsson væri mótfallinn málskotinu og myndi ekki eiga aðild að ágreiningsmálinu, enda væri hann þeirrar skoðunar að varnaraðili væri réttur eigandi landspildanna.
II.
Meðal málsskjala eru afsöl fyrir hinum umþrættu spildum, sem dagsett eru 8. desember 1993. Samkvæmt þeim mun Borgþór heitinn hafa afsalað spildunum ásamt sumarbústað til varnaraðila gegn greiðslu umsamins kaupverðs, sem þegar væri að fullu greitt. Því til staðfestingar rituðu nöfn sín Borgþór, eiginkona hans og varnaraðili, auk Grétars Magnússonar og sóknaraðila Jóhönnu, sem vottuðu löggerningana. Afsölin bera með sér að þeim hafi verið þinglýst 15. desember 1993.
Vitnið Jóhann Guðmundur Hálfdánarson löggiltur fasteignasali bar fyrir dómi að hann hefði samið umrædd afsöl að beiðni Borgþórs heitins, en ekki verið viðstaddur undirritun þeirra. Að sögn vitnisins hefði Borgþór verið í miklum fjárhagserfiðleikum á greindum tíma og vitnið verið með íbúðarhús hans á sölu um nokkurt skeið. Taldi vitnið að þetta hefði verið ein ástæðan fyrir því að Borgþór hefði leitað til sín og beðið um gerð afsalanna, en fram fram hefði komið hjá Borgþóri að varnaraðili hefði lent í ábyrgðum fyrir hann og ætti að fá landspildurnar og sumarbústaðinn fyrir þær ábyrgðir, sem hann þyrfti að greiða fyrir föður sinn. Ekki hefði verið rætt um fjárhæð ábyrgðanna, en vitninu hefði skilist að varnaraðili hefði þurft að greiða einhverjar skuldir og að þær væru hluti af kaupverði spildanna.
Óumdeilt er að varnaraðili hafi frá afsalsgerðinni 8. desember 1993 farið einn með umráð nefndra eigna og að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við ætlaða eignarheimild fyrr en á skiptafundi 24. janúar 2000. Samkvæmt framburði sóknaraðila Jóhönnu og vitnisburði Grétars Magnússonar fyrir dómi mun tilefni athugasemdanna einkum hafa verið ágreiningur milli lögerfingja, sem komið hefði upp á fundinum, um það hvort tiltekin málverk skyldu falla undir skiptin, en fyrir liggur að málverkin höfðu þá verið í vörslum sóknaraðila um nokkurra ára skeið. Er óleyst úr ágreiningi um málverkin, í máli réttarins nr. Q-4/2001. Sóknaraðila Jóhönnu og Grétari bar einnig saman um að vegna þeirrar eindregnu afstöðu varnaraðila og bróður hans Erlendar Hauks á skiptafundinum um að málverkin skyldu koma til skipta í dánarbúinu þá hefði þeim og sóknaraðila Margréti fundist eðlilegt að landspildurnar og sumarbústaðurinn kæmu einnig til skipta, enda hefði þeim eignum verið ráðstafað til varnaraðila með málamyndagerningum. Aðspurð um nánari skýringar á þeim orðum sínum kváðu sóknaraðili Jóhanna og Grétar að fjölskyldan hefði gert samkomulag í desember 1993 þess efnis að Borgþór heitinn myndi afsala hinum umþrættu eignum til varnaraðila til tryggingar ábyrgðum, sem hann hefði gengist í vegna skulda Borgþórs og Byggis hf. Að sögn sóknaraðila Jóhönnu hefði hún á greindum tíma ekki vitað um hvaða skuldir væri að ræða, en vitnið Grétar bar að varnaraðili hefði verið ábyrgðarmaður á tveimur víxlum í eigu Búnaðarbanka Íslands. Vegna fjárhagserfiðleika Borgþórs og Byggis hf. hefði á þeim tíma þótt sýnt að gengið yrði að varnaraðila og hann krafinn um greiðslu víxlanna og því hefði að sögn vitnisins þótt sanngjarnt að varnaraðili hefði einhverja tryggingu sem greiðslu upp í kröfurnar. Á þeirri forsendu hefði vitnið samþykkt eignayfirfærsluna fyrir sitt leyti og vottað afsölin tvö. Hvorki vitnið né sóknaraðili Jóhanna kváðust hafa vitað hvort varnaraðili hefði þurft að svara til ábyrgðanna á þeim tíma er dánarbúið var tekið til opinberra skipta, en að sögn sóknaraðila hefði hún haldið að svo hefði ekki verið. Hefði það haft áhrif á kröfu hennar um að eignirnar kæmu undir skiptin, enda hefði hún litið svo á að foreldrar hennar væru þá réttir eigendur landspildanna. Aðspurð um framlagt bréf hennar til Héraðsdóms Reykjaness frá 5. desember 1999, þar sem eignir dánarbúsins væru tilgreindar án þess að minnst væri á hinar umþrættu landspildur, kvað sóknaraðili að á þeim tíma hefði ekki verið neinn ágreiningur uppi milli lögerfingjanna, en einnig hefði henni verið sagt að koma mætti að frekari upplýsingum um eignir búsins á síðari stigum. Sóknaraðili og vitnið Grétar staðfestu fyrir dómi fundargerð skiptafundar 24. janúar 2000 og nafnritun sína undir hana. Þau kváðu bókaðar athugasemdir og yfirlýsingar lögerfingja vera í fullu samræmi við það sem fram hefði komið á fundinum. Sóknaraðili kvað bræður sína ekki hafa hreyft mótmælum við neinni bókun og minntist ekki mótmæla af hálfu varnaraðila við því að spildurnar kæmu undir skipti.
Ólafur Rafnsson skiptastjóri bar vitni í málinu. Hann kvað allar bókanir á skiptafundi 24. janúar 2000 hafa verið gerðar eftir bestu vitund og samvisku og í samræmi við stöðu hans sem opinbers sýslunarmanns og kvaðst ekki minnast neinna mótmæla af hálfu varnaraðila eða Erlendar Hauks Borgþórssonar. Skiptastjóri kvað það hafa verið sinn skilning eftir umræður erfingja á fundinum að Borgþór heitinn og Byggir hf. hefðu verið í fjárhagserfiðleikum og varnaraðili verið þar í einhverjum ábyrgðum. Því hefði verið brugðið á það ráð í desember 1993 að afsala hinum umþrættu eignum til varnaraðila og koma þeim þannig undan aðför skuldheimtumanna, en eignirnar hefðu síðan átt að standa til tryggingar þeim ábyrgðum, sem á hann kynnu að falla. Varnaraðili hefði hvorki á nefndum skiptafundi né síðar borið því við að hann hefði þurft að greiða kröfur á hendur föður sínum og Byggi hf. eða að hann hefði með öðrum hætti greitt eitthvað fyrir landspildurnar. Hins vegar hefði hann lagt fram á skiptafundi 24. janúar 2000 tvö bréf frá Almennu málflutningsstofunni, sem sýnt hefðu stöðu tveggja innheimtumála vegna ábyrgða, sem hann hefði verið í fyrir föður sinn og Byggi hf.; annars vegar vegna skuldabréfs að fjárhæð krónur 621.122 og hins vegar vegna tveggja víxla, samtals að fjárhæð krónur 910.000. Bréfin hefðu borið með sér að skuldabréfakrafan hefði verið felld niður miðað við 16. september 1993 og að gert hefði verið árangurslaust fjárnám vegna víxlanna miðað við 26. nóvember 1993. Kröfueigandi hefði í báðum tilvikum verið Búnaðarbanki Íslands. Að sögn skiptastjóra hefði hann í framhaldi birt innköllun í Lögbirtingablaði. Búnaðarbankinn hefði ekki lýst kröfum í dánarbúið og því hefði hann litið svo á að umræddar kröfur væru fallnar niður og að eignirnar ættu að koma undir skipti, enda hefði sú niðurstaða verið í samræmi við umræður og yfirlýsingar lögerfingja á skiptafundi 24. janúar 2000.
Varnaraðili og vitnið Erlendur Haukur Borgþórsson staðfestu fyrir dómi að landspildunum og sumarbústaðnum hefði verið ráðstafað til varnaraðila til að standa til tryggingar tilteknum ábyrgðum, sem kynnu að falla á Borgþór heitinn og þar með dánarbúið. Varnaraðili mælti ekki móti því að annars vegar hefði verið um að ræða skuldabréf frá Búnaðarbanka Íslands, útgefið 17. júlí 1991, upphaflega að fjárhæð krónur 621.122 og hins vegar tvo víxla í eigu bankans, útgefna 10. maí 1992, samtals að fjárhæð krónur 910.000. Fyrir dómi kvaðst hann hafa greitt um 1.200.000 krónur vegna víxilskuldarinnar á grundvelli dóms Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hann hefði lagt fram í málinu, en samtals hefði hann greitt um 1.500.000 krónur vegna föður síns og Byggis hf.; líklega sumarið 1993. Hann kvaðst ekki geta framvísað neinum skilríkjum fyrir greiðslunum. Aðspurður kvað hann ekki hafa komið til greiðslu vegna skuldabréfsins, en það bréf hefði tengst fasteignaviðskiptum föður hans, sem gengið hefðu til baka. Varnaraðili fullyrti að með áður nefndum greiðslum hefði hann innt af hendi „umsamið kaupverð“ samkvæmt texta afsalanna tveggja, en kaupverðið hefði verið bundið samkomulagi milli hans, systkina hans og foreldra. Varnaraðili mótmælti af þeim sökum þeirri bókun skiptafundar 24. janúar 2000 að „...báðar þessar skuldir séu enn í vanskilum, og allir viðstaddir erfingjar eru sammála því að þetta sé skuld sem tilheyri dánarbúinu vegna Borgþórs heitins.“ Að sögn varnaraðila og vitnisins Erlendar Hauks hefðu þeir hreyft mótmælum við bókuninni á fundinum, þ.e. mótmælt því að persónulegar, þinglýstar eignir varnaraðila yrðu dregnar inn í dánarbúskiptin. Varnaraðili kvað bróður sinn hafa farið fram á að athugasemdir þeirra yrðu bókaðar á fundinum, en það hefði ekki fengist í gegn af hálfu skiptastjóra. Vitnið Erlendur Haukur kvaðst hins vegar ekki hafa krafist slíkrar leiðréttingar fyrr en síðar. Nánar aðspurður um afskipti systkina hans við afsalsgerðina og ætlað samkomulag þeirra varðandi umsamið kaupverð fyrir spildurnar sagði varnaraðili að faðir hans hefði haft samráð við systkini hans um að fara þá leið að afsala honum spildunum. Aðspurður um nánari skýringu á því kvaðst varnaraðili ekki geta annað en vitnað í orð föður síns: „Ég geri ekki upp á milli barnanna minna“. Vitnið Erlendur Haukur kannaðist á hinn bóginn ekki við að afsalsgerðin hefði verið bundin sérstöku samkomulagi innan fjölskyldunnar. Hins vegar hefði faðir hans greint börnum sínum frá greindum áformum til að fá fram viðbrögð þeirra. Að sögn vitnisins hefði Borgþór heitinn fyrst sagt vitninu frá því síðla árs 1992 að hann hyggðist ráðstafa spildunum og sumarbústaðnum til varnaraðila vegna nefndra ábyrgða, sem hann væri í, en síðan hefði ekki verið gengið frá því með formlegum hætti fyrr en í desember 1993.
III.
Sóknaraðilar byggja kröfu sína á því að hinar umþrættu landspildur og sumarbústaður hafi verið í eigu foreldra málsaðila við andlát þeirra og tilheyri því dánarbúinu. Breyti engu í því sambandi þótt eignunum hafi verið afsalað til varnaraðila og þær skráðar í þinglýsingarbækur á nafn hans í desember 1993, enda hafi afsalsgerningarnir verið gerðir til málamynda og hafi ekki átt að hafa efnisleg áhrif gagnvart varnaraðila, nema að því skilyrði uppfylltu að hann greiddi tilteknar kröfur á hendur föður sínum og Byggi hf., sem hann hefði gengist í ábyrgð fyrir. Þetta hafi varnaraðila verið ljóst við afsalsgerðina og einnig á skiptafundi í dánarbúinu 24. janúar 2000, en þar hefði hann ásamt öðrum lögerfingjum lýst því yfir að tilgangur með afsalsgerðinni hefði verið sá einn að eignirnar stæðu til tryggingar á skuldbindingum föður þeirra, sem tilheyrt hefðu dánarbúinu. Með nefndri yfirlýsingu, sem gefin hafi verið í viðurvist skiptastjóra, verði að teljast sannað að um málamyndagerninga hafi verið að ræða. Því til stuðnings benda sóknaraðilar enn fremur á að varnaraðili hafi allt fram til 20. desember 2001 eingöngu stutt ætlaða eignarheimild sína og þar með varnir í máli þessu við hin þinglýstu afsöl. Í þinghaldi 20. desember hafi hann fyrst borið því við að hann hefði greitt um 1.500.000 krónur fyrir eignirnar, með því að gera upp skuldir og ábyrgðir föður síns og Byggis hf., en þeirri málsástæðu sé mótmælt sem rangri, ósannaðri og allt of seint fram kominni. Telja verði upplýst í málinu að varnaraðili hafi ekkert greitt upp í umræddar kröfur og því hafi það skilyrði fyrir afsalsgerðinni í öndverðu aldrei komið fram. Hann geti því ekki byggt eignarrétt sinn á þinglýstri eignarheimild einni sér, en því sé ekki haldið fram að um gjöf hafi verið að ræða. Við munnlegan málflutning vísaði lögmaður sóknaraðila hér til hæstaréttardóms frá 13. desember 2001 í máli nr. 211/2001.
Sóknaraðilar mótmæla sönnunargildi bókunar af hálfu varnaraðila, sem lögð hafi verið fyrir skiptafund 2. nóvember 2000 og segja hana engu breyta um þær staðreyndir málsins, sem upplýst hafi verið um með skýrum og ótvíræðum hætti á skiptafundi 24. janúar sama ár, enda liggi ljóst fyrir að varnaraðili hafi á þeim fundi tekið þátt í umræðum um málið, notið sömu leiðsagnar og aðrir erfingjar og ekki verið með nokkrum hætti þvingaður til að gefa fyrrnefnda yfirlýsingu sína. Enda þótt varnaraðili hafi ef til vill ekki gert sér grein fyrir lagalegri þýðingu yfirlýsingarinnar þá hafi hann engu að síður verið fullfær um að greina rétt frá staðreyndum um atvik málsins og það hafi hann gert á fundinum. Því stoði hann lítið að bera fyrir sig síðar að „vegna vanþekkingar og misgánings“ hafi honum láðst að láta bóka eftir sér mótmæli á skiptafundinum við umræður um landspildurnar og sumarbústaðinn. Er því og mótmælt að nokkur mótmæli hafi komið af hálfu varnaraðila eða bróður hans í þeim umræðum.
Loks mótmæla sóknaraðilar því að umráð eignanna og ætlað viðhald, endurbætur og greiðsla á opinberum gjöldum geti breytt því hvernig raunverulegum eignarrétti sé háttað á landspildunum, en nánast engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings fullyrðingu varnaraðila um kostnað af spildunum, þar með talið greiðslur vegna viðhalds, fasteignagjalda og annarra skatta.
IV.
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að umræddar landspildur og sumarbústaður séu eign hans samkvæmt tveimur þinglýstum afsölum frá 8. desember 1993. Því sé ekki unnt að fella umræddar eignir undir skipti á grundvelli laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. eða annarra laga. Varnaraðili hafi talið eignirnar fram til skatts á skattframtölum sínum, óslitið frá 1994, greitt af þeim skatta og skyldur, sinnt viðhaldi og endurbótum á bústaðnum og gróðursett hundruðir trjáplantna á spildunum.
Varnaraðili vísar því alfarið á bug að afsalsgerningarnir hafi verið gerðir til málamynda og segir það hafa verið ótvíræðan vilja afsalsgjafa, sem öllum lögerfingjum hafi verið ljós frá upphafi, að varnaraðili eignaðist landspildurnar og sumarbústaðinn. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á sóknaraðilum og þar sem sú sönnun hafi ekki tekist beri að synja um kröfu þeirra. Bendir varnaraðili hér einnig á bréf sóknaraðila Jóhönnu til Héraðsdóms Reykjaness frá 5. desember 1999, en í bréfinu telji hún upp eignir dánarbúsins án þess að geta um spildurnar tvær og sumarbústaðinn. Varnaraðili mótmælir því enn fremur sem röngu að hann hafi lýst því yfir á skiptafundi 24. janúar 2000 að löggerningarnir tveir hefðu verið gerðir til málamynda og vísar í því sambandi til bókunar frá 2. nóvember 2000, sem lýsi skýrt afstöðu hans til málsins, en bókunin hafi verið lögð fram þegar á næsta skiptafundi, sem erfingjar hefðu verið boðaðir til.
Við munnlegan málflutning kvaðst lögmaður varnaraðila enn fremur byggja á því að varnaraðili hefði greitt um 1.500.000 krónur fyrir spildurnar og sumarbústaðinn, með því að gera upp skuldir og ábyrgðir föður síns og Byggis hf., eins og fram hefði komið á dómþingi 20. desember 2001. Hins vegar hefði það ekki verið gert að skilyrði við afsalsgerðina að ákveðinn hluti ábyrgðanna myndu falla á hann til greiðslu, heldur hefði áður nefnt samkomulag innan fjölskyldunnar gengið út á það að varnaraðili tæki yfir eignirnar gegn því að hann væri ábyrgðarmaður fyrir skuldir föður síns og Byggis hf. Benti lögmaðurinn enn fremur á að tilteknar skuldbindingar hefðu þegar fallið á varnaraðila fyrir gerð afsalanna 8. desember 1993.
V.
Í málinu er óumdeilt að á fyrsta skiptafundi í dánarbúi hjónanna Borgþórs Björnssonar og Ingu Erlendsdóttur 24. janúar 2000 hafi lögerfingjar þeirra, aðilar máls þessa og Erlendur Haukur Borgþórsson, lýst því yfir að hinum umþrættu landspildum og sumarbústað hefði í upphafi, þ.e. 8. desember 1993, verið ráðstafað með afsalsgerð til varnaraðila, Baldurs Björns Borgþórssonar, til að standa til tryggingar á ábyrgðum, sem á hann kynnu að falla vegna Borgþórs heitins og Byggis hf., en varnaraðili hefði fyrir þann tíma gengist í ábyrgð vegna krafna á hendur þeim. Yfirlýsingin var bókuð í fundargerð skiptafundarins og staðfest í lok hans með nafnritun allra sem fundinn sátu. Fyrir dómi staðfestu aðilar og vitni að bókunin væri efnislega rétt og í samræmi við það, sem fram hefði komið á fundinum. Yfirlýsingin verður því ekki skýrð öðru vísi en svo að eignarheimild varnaraðila hafi frá upphafi verið skilyrt og háð þeirri forsendu að hann greiddi sem ábyrgðarmaður kröfur, eina eða fleiri, á hendur föður sínum og Byggi hf. Verður því fallist á með sóknaraðilum að tilgreining eignarréttar í áður nefndum afsölum og þinglýsing eignarheimildarinnar 15. desember 1993 veiti varnaraðila ekki annan og meiri eignarrétt en þann, sem stofnast hefur síðar fyrir eignarmyndun með greiðslu fjárkrafna á hendur Borgþóri heitnum og Byggi hf.
Á skiptafundinum 24. janúar 2000 tilgreindi varnaraðili hvaða kröfur væri um að ræða og nefndi í því sambandi annars vegar skuldabréf frá Búnaðarbanka Íslands hf., útgefið 17. júlí 1991, upphaflega að fjárhæð krónur 621.122 og hins vegar rekstrarvíxla, útgefna 10. maí 1992, sem verið hefðu til innheimtu hjá bankanum. Er þar um að ræða tvo víxla, að fjárhæð krónur 550.000 og 360.000. Hvorki þá né síðar hefur varnaraðili haldið því fram að um aðrar kröfur hafi verið að ræða eða að hann hafi greitt aðrar tilgreindar skuldir vegna föður síns og Byggis hf. Upplýst hefur verið að skuldabréfakrafan var felld niður eigi síðar en 16. september 1993 og kom því ekki til greiðslu á þeirri kröfu. Þá er fram komið í málinu að Búnaðarbankinn höfðaði mál á hendur Borgþóri, Byggi hf. og varnaraðila í mars 1993 til greiðslu framangreindra víxla, en samkvæmt dómsendurriti, sem varnaraðili lagði fram í málinu, var hann í september 1993 sýknaður af kröfu um greiðslu á fyrrnefndum víxli þar sem hann var ekki ábyrgðarmaður á víxlinum, en dæmdur óskipt til greiðslu á síðarnefndum víxli ásamt meðstefndu. Af bréfi frá Reiknistofunni hf., sem varnaraðili lagði einnig fram í málinu, er ljóst að hinn 30. júní 1994 hafi hann ekki verið búinn að gera upp 360.000 króna kröfu sem ábyrgðarmaður á grundvelli umrædds dóms.
Meðal málsskjala eru fundargerðir allra skiptafunda í dánarbúinu, þar á meðal frá fundi 2. nóvember 2000. Í bókun fyrrum lögmanns varnaraðila, sem lögð var fram á fundinum, var mótmælt bókun skiptafundar 24. janúar 2000 þess efnis að umræddar landspildur og sumarbústaður teldust til eigna dánarbúsins. Af fundargerð þess skiptafundar verður þó ekki séð að slík bókun hafi verið gerð á fundinum. Jafnframt var í bókun lögmannsins fullyrt að hinar umþrættu eignir væru í eigu varnaraðila og vísað til þinglýstrar eignarheimildar og þess að hann hefði greitt af þeim skatta og skyldur og annast viðhald og endurbætur á eignunum. Hins vegar var þess hvorki getið í bókuninni né öðrum fundargerðum skiptafunda að varnaraðili hefði greitt áður nefndar kröfur eða aðrar skuldir vegna Borgþórs heitins og Byggis hf. Á þessu varð ekki breyting í greinargerð núverandi lögmanns varnaraðila, sem lögð var fram í málinu 13. desember 2001, en þar er eignarheimild varnaraðila studd sömu rökum, þ.e. fyrst og fremst við hin þinglýstu afsöl. Í þinghaldi 20. desember 2001 hélt varnaraðili því fyrst fram, svo upplýst sé, að hann hefði greitt um 1.200.000 krónur á grundvelli dóms í áður nefndu víxilmáli, en að auki kvaðst hann hafa greitt um 300.000 krónur vegna annarra ótilgreindra skulda föður síns og Byggis hf.; hvort tveggja líklega sumarið 1993, að sögn varnaraðila. Samkvæmt því sem áður er rakið er ljóst að síðastgreindur framburður stenst alls ekki að því er varðar víxilskuldina. Aðspurður fyrir dómi kvaðst varnaraðili ekki geta framvísað neinum skilríkjum fyrir ætluðum greiðslum, en fullyrti að með þeim hefði hann innt af hendi „umsamið kaupverð“ samkvæmt texta afsalanna tveggja, en kaupverðið hefði verið bundið samkomulagi milli hans, systkina hans og foreldra.
Fallist er á með sóknaraðilum að hér sé um nýja málsástæðu að ræða, sem varnaraðila ber að færa sönnur fyrir, en ekkert er fram komið í málinu, sem styður nefnda staðhæfingu. Hefði varnaraðila þó verið í lófa lagið að leggja fram einhver skilríki fyrir nefndum greiðslum, sérstaklega þegar litið er til þess að kröfueigandi að víxilskuldinni er bankastofnun og því hægur vandi að afla staðfestingar fyrir greiðslu á þeirri kröfu eða kröfum. Þá verður ekki fram hjá því horft að samkvæmt staðfestri fundargerð skiptafundar 24. janúar 2000 lýsti varnaraðili því yfir á fundinum, ásamt öðrum lögerfingjum, að þær skuldir, sem hann hefði gengist í ábyrgð fyrir, væru enn í vanskilum og tilheyrðu því dánarbúinu vegna Borgþórs heitins. Er ekkert fram komið sem hnekkir réttmæti nefndrar yfirlýsingar eða veitir líkur fyrir því að umrædd bókun sé að einhverju leyti röng, en hún er meðal annars studd vitnisburði Ólafs Rafnssonar skiptastjóra fyrir dómi, sem hefur umtalsvert sönnunargildi með hliðsjón af stöðu hans sem opinbers sýslunarmanns og öðrum þeim atriðum, sem talin eru í 59. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar þetta er virt telur dómurinn ósannað, gegn andmælum sóknaraðila, að varnaraðili hafi innt af hendi fjárgreiðslur vegna skulda föður síns og/eða Byggis hf. eða hann greitt einhvers konar „kaupverð“ eða annað fjárframlag, sem skapað hafi grundvöll fyrir eignarrétti að umræddum landspildum og sumarbústað. Breytir engu í því sambandi þótt leitt verði í ljós að varnaraðili hafi greitt opinber gjöld af eignunum og orðið fyrir fjárútlátum vegna viðhalds eða endurbóta, en engin gögn hafa verið lögð fram því til stuðnings, ef frá er talin rúmlega 15.000 króna greiðsla vegna lögboðinnar brunatryggingar, sem innt var af hendi 19. maí 2000.
Af hálfu varnaraðila er ekki á því byggt að eignunum hafi verið ráðstafað til hans sem fyrirfram greiddum arfi eða gjöf, en ummæli hans fyrir dómi, þar sem hann vitnaði í svohljóðandi orð föður síns, „Ég geri ekki upp á milli barnanna minna“, þykja renna enn frekari stoðum undir þá niðurstöðu að Borgþór heitinn hafi ekki viljað hygla varnaraðila sérstaklega umfram önnur börn sín og ætlað honum umræddar eignir, án þess að greiðsla kæmi fyrir.
Í málinu liggur fyrir að hvorki Búnaðarbanki Íslands né aðrir lánardrottnar lýstu kröfum í dánarbú Borgþórs heitins og Ingu eiginkonu hans vegna fjárkrafna, sem hér geta skipt máli og eru því slíkar kröfur fallnar niður fyrir vanlýsingu. Mun varnaraðili því hér eftir ekki verða krafinn um greiðslur á grundvelli ábyrgða, sem hann gekkst í vegna föður síns og Byggis hf.
Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að hinar umþrættu landspildur og sumarbústaður skuli falla undir opinber skipti á dánarbúinu.
Í 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála kemur fram sú meginregla að sá er tapar máli í öllu verulegu skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. Með hliðsjón af framangreindum úrslitum er ljóst að varnaraðili hefur tapað málinu að öllu leyti. Eins og málatilbúnaði hans er háttað þykja aðrar undanþáguheimildir téðrar lagagreinar ekki koma til álita við ákvörðun málskostnaðar. Til samræmis við meginreglu laganna verður því að ákvarða sóknaraðilum óskipt málskostnað úr hendi varnaraðila, sem þykir með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og fjölda þinghalda hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.
ÚRSKURÐARORÐ:
Tvær spildur úr landi jarðarinnar Miðdals II í Mosfellsdal; annars vegar u.þ.b. 7.500 fm. eignarland, sem staðsett er sunnan megin við Krókatjörn, ásamt sumarbústað sem stendur á landinu, og hins vegar landspilda úr sömu jörð, u.þ.b. 9.100 fm., sem liggur að vestanverðu við Krókatjörnina, skulu falla undir opinber skipti á dánarbúi Borgþórs Björnssonar og Ingu Erlendsdóttur, sem tekið var til opinberra skipta 21. desember 1999.
Varnaraðili, Baldur Björn Borgþórsson, greiði sóknaraðilum, Jóhönnu og Margréti Borgþórsdætrum, óskipt 200.000 krónur í málskostnað.