Hæstiréttur íslands
Mál nr. 476/1999
Lykilorð
- Félag
- Áfrýjun
|
|
Fimmtudaginn 11. maí 2000. |
|
Nr. 476/1999. |
Vatnsveitufélag sumarbústaðaeigenda í Miðengis- og Norðurkotslandi (Ingólfur Hjartarson hrl.) gegn Guðjóni Eiríkssyni og Rannveigu Þorsteinsdóttur (Hallvarður Einvarðsson hrl.) og gagnsök |
Félag. Áfrýjun.
G og R voru félagar í vatnsveitufélagi sumarbústaðaeigenda í M. Þau kröfðust þess aðallega að M yrði gert að leggja stofnlögn og tengja hana við við aðalloka á heimæð við lóðamörk landareignar G og R að viðlögðum dagsektum, en til vara kröfðust þau skaðabóta. Varakröfu G og R var vísað frá Hæstarétti, þar sem henni hafði verið vísað frá héraðsdómi og sú niðurstaða hafði ekki verið kærð til réttarins. Talið var, að sú almenna regla hefði gilt um skuldbindingar M, að öllum þáverandi götu- og stofnlögnum yrði komið í jörð á vegum og á kostnað félagsins ásamt þeim hluta heimæða, sem lágu utan marka lóða einstakra félagsmanna. Við stofnun M hafi heimæð legið að sumarbústað G og R yfir tvær aðrar einkalóðir. Í kröfu G og R fælist þó ekki að sú vatnsleiðsla yrði grafin niður fyrir frostskil, heldur að lögð yrði ný stofnlögn, þar sem engin lögn væri fyrir, allt að lóðamörkum þeirra. Þóttu hvorki samþykktir M né síðari ákvarðanir félagsfunda eða stjórnar geta leitt til þeirrar niðurstöðu að G og R teldust eiga þennan rétt. Var M því sýknað af kröfu G og R.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 1999. Hann krefst staðfestingar á þeim þætti héraðsdóms, er varðar frávísun á varakröfu gagnáfrýjenda um greiðslu skaðabóta, en sýknu af öðrum kröfum þeirra auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi 14. febrúar 2000. Þau krefjast staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því, sem lýtur að málskostnaði og vísun varakröfu þeirra frá dómi. Verði aðaláfrýjandi sýknaður af aðalkröfunni um að leggja vatnslögn að mörkum sumarbústaðarlóðar þeirra er þess krafist að varakrafan um greiðslu skaðabóta verði dæmd að efni til. Þau krefjast einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en verði aðalkrafa þeirra ekki tekin til greina er krafist sýknu af málskostnaðarkröfu aðaláfrýjanda fyrir báðum dómstigum.
I.
Með héraðsdómi var varakröfu gagnáfrýjenda vísað frá dómi. Þessi niðurstaða um varakröfuna var með öllu tilefnislaus í ljósi þess að héraðsdómari tók aðalkröfuna til greina. Til að koma fram endurskoðun á þeim hluta héraðsdómsins, sem fól í sér frávísun á kröfu gagnáfrýjenda, bar þeim að kæra það ákvæði hans til Hæstaréttar samkvæmt reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. meðal annars dóma í dómasafni réttarins 1994, bls. 1293 og 2869. Með því að þessa hefur ekki verið gætt verður að vísa þessum lið í kröfugerð gagnáfrýjenda frá Hæstarétti.
II.
Í máli þessu er deilt um hvort sú skylda hvíli á aðaláfrýjanda að leggja niðurgrafna lögn fyrir kalt neysluvatn frá veitukerfi sínu að mörkum sumarbústaðarlóðar gagnáfrýjenda, sem er nr. 5 við Biskupstungnabraut í landi Norðurkots í Grafnings- og Grímsneshreppi. Eru gagnáfrýjendur félagsmenn í aðaláfrýjanda og telja félaginu skylt að annast og kosta þá framkvæmd. Eru rök þeirra og andmæli aðaláfrýjanda rakin í hinum áfrýjaða dómi. Þar kemur einnig fram að með dómi Hæstaréttar 1998, bls. 187 í dómasafni réttarins, hafi verið skorið úr ágreiningi aðaláfrýjanda við þrjá aðra félagsmenn sína um skyldu hans til að leggja niðurgrafna neysluvatnslögn að mörkum sumarbústaðalóða þeirra. Deila málsaðilar um fordæmisgildi þess dóms fyrir það mál, sem hér er til úrlausnar. Telja gagnáfrýjendur allar sömu ástæður vera fyrir hendi nú, sem í hinu fyrra máli leiddu til þeirrar niðurstöðu að fallist var á kröfu sumarbústaðaeigendanna, sem þar áttu hlut að máli. Aðaláfrýjandi telur hins vegar þann mun vera á málunum að af áðurnefndum dómi leiði að hafna beri kröfum gagnáfrýjenda.
Í síðastnefndum dómi Hæstaréttar er greint frá svonefndum lögum, sem sett voru fyrir aðaláfrýjanda við stofnun hans 1993, og hvaða skuldbindingar þau og ákvarðanir félagsfundar og stjórnarinnar í kjölfarið hafi lagt á hann gagnvart félagsmönnum. Var þar lagt til grundvallar að sú almenna regla hafi gilt að öllum þáverandi götu- og stofnlögnum vatnsveitunnar yrði komið í jörð á vegum og á kostnað aðaláfrýjanda ásamt þeim hluta heimæða, sem lá utan marka lóða einstakra félagsmanna. Var dæmt að umræddir sumarbústaðaeigendur hafi átt rétt á því að aðaláfrýjandi fylgdi þessari almennu reglu í skiptum sínum við þá. Var krafa þeirra því tekin til greina.
Við stofnun aðaláfrýjanda lá heimæð að sumarbústað gagnáfrýjenda yfir tvær aðrar einkalóðir frá tengibrunni vatnsveitunnar nærri svonefndum Kringlumýrarvegi. Fá þau enn neysluvatn sitt um þá lögn. Í aðalkröfu þeirra felst þó ekki að sú vatnsleiðsla verði grafin í jörð niður fyrir frostskil, heldur að lögð verði ný stofnlögn meðfram Biskupstungnabraut, þar sem engin lögn er fyrir, allt að lóðarmörkum þeirra. Að þessu leyti er ólík aðstaða fyrir hendi hjá gagnáfrýjendum annars vegar og hins vegar eigendum sumarbústaðalóða í fyrra dómsmálinu. Geta hvorki samþykktir fyrir aðaláfrýjanda né síðari ákvarðanir félagsfunda eða stjórnar leitt til þeirrar niðurstöðu að gagnáfrýjendur teljist eiga þann rétt, sem þau krefja aðaláfrýjanda um í þessu máli. Verður aðaláfrýjandi samkvæmt því sýknaður af kröfu gagnáfrýjenda, en rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Vatnsveitufélag sumarbústaðaeigenda í Miðengis- og Norðurkotslandi, er sýkn af kröfum gagnáfrýjenda, Guðjóns Eiríkssonar og Rannveigar Þorsteinsdóttur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 1999.
1.Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 10. mars 1999 og dómtekið 17. f.m.
Stefnendur eru Guðjón Eiríksson, kt. 290622-6549, og Rannveig Þorsteinsdóttir, kt. 220625-3679, bæði til heimilis Akurgerði 2, Reykjavík.
Stefndi er Vatnsveitufélag sumarbústaðaeigenda í Miðengis- og Norðurkotslandi, kt. 520893-2299, Sólheimum 43, Reykjavík.
Stefnendur krefjast þess aðallega að stefnda verði dæmt skylt að leggja stofnlögn meðfram Biskupstungnabraut frá Kolgrafarhólsvegi og tengja við hana aðalloka (stofnkrana) á heimæð við lóðarmörk landareignar stefnenda við Biskupstungnabraut að viðlögðum dagsektum 3.000 krónum frá dómsuppsögudegi er renni til stefnenda. Til vara gera stefnendur þá dómkröfu að stefnda verði dæmt skylt að greiða þeim 750.000 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum frá 1. október 1994 til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og að þeir verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi féll frá upphaflegri aðalkröfu sinni um frávísun málsins er stefnendur breyttu kröfugerð sinni. Enn frekari breytingar urðu á kröfugerð stefnenda við aðalmeðferð án þess að sett væru fram mótmæli af hálfu stefnda.
2.Stefnendur eru eigendur sumarbústaðar á lóð úr landi Norðurkots í Grímsnesi í stóru hverfi sumarbústaða úr löndum Norðurkots og Miðengis. Lóð þeirra er ein nokkurra stórra lóða í jaðri hverfisins, sem eru við Biskupstungnabraut milli Kóngsvegar og Kolgrafarhólsvegar, en skipulagstillaga gerir ráð fyrir að þeim verði skipt upp í smærri lóðir.
Framkvæmdir við vatnsveitu til sumarbústaða í löndum Norðurkots og Miðengis hófust sumarið 1988 á vegum Böðvars Pálssonar, bónda að Búrfelli í Grímsneshreppi, að ósk stjórnar Félags sumarbústaðaeigenda í Norðurkotslandi og nágrenni og var verkið á ábyrgð hans. Samkvæmt dreifibréfi Böðvars 4. júní 1988 til sumarbústaðaeigenda skyldi vatnsveitan ná frá Búrfelli niður í sumarbústaðasvæðið, allt að Biskupstungnabraut. Leiðslan var grafin í jörð 5,6 km vegalengd frá Búrfelli að Álftavatni. Stofnlagnir voru lagðar um götur en ekki varð af þeirri fyrirætlun Böðvars, sem fram kemur í dreifibréfinu, að þær yrðu grafnar niður fyrir frost. Bústaður stefnenda er, eins og aðrir bústaðir við Biskupstungnabraut, tengdur vatnsveitunni frá botnlanga við Kringlumýrarveg. Þegar í upphafi lagði Böðvar Pálsson ½ tommu víða og yfir 200 metra langa vatnslögn að bústað stefnenda yfir tvö önnur sumarbústaðalönd. Bar Böðvar fyrir dóminum að þessi ofanáliggjandi vatnslögn hefði í sínum huga verið bráðabirgðalausn. Hún er samt óbreytt enn.
Böðvar Pálsson boðaði til fundar með sumarbústaðaeigendum 24. maí 1993 og var þar kosin stjórn sérstaks félags um vatnsveituna og rekstur hennar. Á stofnfundi hins stefnda félags 10. ágúst s.á. voru drög að félagsslögum samþykkt með breytingum á 2. gr. þeirra. Stefnendur hafa frá öndverðu verið meðal um tvö hundruð félaga og staðið skil á tilskildum framlögum. Hér verður tilgreint efni 2. gr. og 3. gr. samþykktanna.
2. gr. „Félagsmenn eru allir þeir í fyrrnefndum sumarbústaðalöndum sem greitt hafa stofngjald fyrir minnst eina tengingu vatnsheimæðar frá götuæð að þinglýstri landareign og/eða húseign samkvæmt fasteignaskrá fyrir gildistöku laga þessara eða óska eftir tengingu við vatnsveituna síðar. Félagsmenn öðlast með þessu hlut í mannvirkjum og öðrum eignum félagsins. Heimæð telst ekki til eignar félagsins. Umsóknir um tengingu skal senda skriflega til stjórnar félagsins. Við eigendaskipti á landi og/eða húsi samkvæmt fasteignaskrá flyst félagsréttur frá seljanda eignar til kaupanda.”
Í fundargerð framangreinds stofnfundar sést að spurningar hafi komið fram s.s. um eignaraðild vatnsveitunnar að heimæðum og „Hvað er heimæð? Verður grafið að öllum lóðarmörkum? Verður lögnin frostfrí og nothæf allt árið?” Ekki er bókað um svör eða ályktanir, sem að þessu lúta, en þær breytingar urðu á 2. gr. frá drögum að ákvæðinu að felld voru brott orðin: „á lóðarmörkum” eftir orðunum: „fyrir minnst eina tengingu vatnsheimæðar” og bætt var við ákvæðinu: „Heimæð telst ekki til eignar félagsins.”
3. gr. „Tilgangur félagsins er:
1) Að standa fyrir rekstri vatnsveitunnar á félagssvæðinu, þ.m.t. fullnaðar frágangi lagna, sameiginlegu viðhaldi, stækkun ef þurfa þykir, endurbótum á frágangi vatnsbóls, eftirliti með gæðum vatnsins, uppsetningu brunahana, tæmingu lagna að hausti og áhleypingu vatns að vori o.fl.
2) Að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart 3ja aðila, s.s. opinberum aðilum, verktökum, hönnuðum o. fl.”
Stefndi leitaði með útboði í ágúst 1993 eftir tilboðum „í að grafa niður núverandi vatnslagnir í götum sumarbústaðahverfa í landi Miðengis og Norðurkots ásamt tilheyrandi fullnaðarfrágangi á dreifikerfi vatnsveitunnar samkvæmt meðfylgjandi útboðsgögnum” svo sem sagði í upphafi útboðslýsingar. Samningur var gerður nokkru síðar um verkið, en vegna vanefnda verktaka var samningnum rift snemma árs 1994, það sem eftir var af verkinu boðið út og samningur gerður við annan verktaka um það. Framkvæmdum þess verktaka mun hafa verið lokið að mestu árið 1994.
Í bréfi til stefnda, dags. 26. júlí 1995, óska stefnendur eftir upplýsingum um hvernig málum sé háttað í sambandi við niðurgröft á vatnsleiðslu að landareign þeirra. Stjórn félagsins svarar þessu með bréfi dags. 4. október 1995 og erindi stefnenda er ítrekað með bréfi 26. mars 1996. Stefnendur rituðu félaginu bréf, dags. 11. febrúar 1997, þar sem þau báru mótmæli sín formlega fram. Kröfðust þau þess að fá aðalstoppkrana að lóð sinni eins og aðrir þinglýstir sumarbústaðaeigendur og vísuðu til þess að þau þyrftu að fara u.þ.b. tvo kílómetra til að loka fyrir aðalstoppkranann sem væri til mjög mikilli óþæginda, sérstaklega í vondum veðrum. Síðan hafa lögmenn aðila fjallað um málið og nokkur bréf gengið á milli og hefur kröfum stefnenda verið hafnað.
3.Málsástæður stefnenda.
Stefnendur vísa til dóms Hæstaréttar 22. janúar 1998, í máli stefndu gegn Önnu Bjarnadóttur o.fl., sem hafi fordæmisgildi í máli þessu. Þar sé því slegið föstu að almenna reglan sé sú að öllum þáverandi lögnum eigi að koma í jörð á vegum og kostnað stefnda ásamt þeim hluta heimæða sem liggi utan marka lóða einstakra félagsmanna.
Stefnendur hafa átt aðild að hinu stefnda félagi frá upphafi. Ákvörðunarástæða þeirra fyrir því að gerast stofnfélagar var sú að við stofnun félagsins var einróma samþykkt að grafa niður aðalvatnslagnirnar á því svæði, þar sem þeir eiga sumarbústað, til þess að félagsmenn gætu notið bústaða sinna árið um kring.
Stefnendur hafa greitt til vatnsveitunnar sameiginleg gjöld án þess að eiga kost á heilsársveitu eins og aðrir félagsmenn sem greitt hafa jafnmikið og þau til félagsins.
Stefndi hefur ekki sýnt fram á að honum sé mismunun heimil eða hann hafi haft sérstakan áskilnað um slíka mismunum við álagningu gjalda.
Mikið óhagræði og mismunun felst í núverandi ástandi vatnslagna hjá stefnendum sem gerir það að verkum að þau geta ekki notið sumarhúss síns árið um kring þar sem vatnslagnir frjósa í fyrstu frostum. Einnig felst mikið óhagræði í því að þurfa að aka tvo km til þess að geta skrúfað frá vatninu.
Aðalkrafa stefnenda beinist að því að fá dóm um skyldu stefnda til að ljúka framkvæmdum á þann hátt sem þar er tilgreint. Krafa um dagsektir tekur mið af upphæð varakröfu og fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Til vara krefja stefnendur stefnda um bætur sem svara til áætlaðs kostnaðar af því verki.
4.Málsástæður stefnda.
Önnur grein laga stefnda fjallar eingöngu um það hver sé forsenda fyrir félagsaðild auk þess að tilgreina hvað af lögnum þeim sem Böðvar lagði sé eign félagsins og hvað sé séreign félagsmanna. Heimæð er samkvæmt greininni ekki eign félagsins. Telst heimæð vera lögnin frá dreifikerfi að húseign eða að landareign í þeim tilvikum þar sem hús hefur ekki risið en heimæð engu að síður verið lögð að landi viðkomandi. Stofn- og götulögn er hins vegar eign félagsins sem og sjálf tenging heimæðar við þær lagnir, þ.e. brunnur og loki. Í lögum félagsins er hvergi getið um hvar eða hvernig lagnir félagsins skuli liggja, hvað skuli tengja heimæðar félagsmanna við götu- eða stofnæðar félagsins, hvað þá heldur hvort grafa skuli lagnir niður og þar af leiðandi ekkert um hver skuli bera kostnað af niðurgreftri. Allt þess háttar var og er þannig eftirlátið félagsfundum að ákveða.
Á fundinum 10. ágúst 1993 var samkvæmt 2. lið fundargerðarinnar lýst hugmyndum um vatnslögnina og niðurgröft. Að sögn forráðamanna veitunnar var á fundinum gerð grein fyrir nauðsyn þess að grafa í jörð götu- og stofnæðar sem lágu enn ofanjarðar. Plastið í rörum veitunnar var ekki ljósþolið og lá því undir skemmdum. Þá var talið mikilvægt að grafa lagnirnar niður fyrir frostskil til þess að tryggja betur varnir gegn skemmdum af frosti og gera kleift að hafa vatn í götu- og stofnæðum þ.e. lögnum félagsins, allt árið. Gengið var út frá þeirri meginstefnu að til stofn- og götulagna teldust þær lagnir sem Böðvar Pálsson hefði lagt sem slíkar í samræmi við áætlun frá verkfræðiskrifstofu. Hefur félagið hvorki talið sér heimilt né skylt að fara með dreifilagnir inn á land sem er ótvíræð eign einstakra aðila, hvort sem lögnin liggur eftir vegi eða utan vegar.
Heimæðar eru óhjákvæmilega mislangar eftir legu einstakra landa á veitusvæðinu gagnvart götu- og stofnæðum og eftir staðsetningu húsa á löndunum. Hefur það verið félagsmönnum í sjálfsvald sett hvort þeir grafi heimæð sína niður og þá á eigin kostnað. Aldrei var ætlunin með félagsstofnuninni að ná fram jafnræði meðal félagsmanna þótt kostnaði við vatnsöflunina og dreifilagnir væri skipt jafnt. Er heldur ekki að því stefnt með lögum um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991 og reglugerð nr. 421 frá 1992 en í félagslögum er vísað til þessara réttarreglna. Telur stefndi að stefnendur hafi fengið þá þjónustu sem félagsfundir 1993 og 1994 samþykktu að veita þeim sem og öðrum félagsmönnum gegn greiðslu á ákveðnu viðbótarstofngjaldi, þ.e. að grafa í jörð þáverandi sameiginlegar stofn- og götuæðar og setja upp tengibrunna í samræmi við framlagðar áætlanir.
Í málinu krefjast stefnendur framkvæmda á kostnað félagsins við einkalögn sem áætlað er samkvæmt varakröfu þeirra að kosti 750.000 kr. sem er verulega hærri fjárhæð en stefnendur hafa greitt til félagsins. Ekkert í félagslögum vatnsveitunnar eða samþykktum félagsfunda réttlætir slíka mismunum sem þá er stefnendur fari fram á.
Af hálfu stefnda er hafnað þeim skilningi að krafa stefnenda verði studd við framangreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 113/1997 en svo virðist sem krafan sé til komin vegna þess dóms. Krafa stefnenda lýtur ekki að því að fá niðurgrafna heimæð, sem liggur utan lóðamarka einstakra félagsmanna, eða að koma í jörð stofn- eða götuæð sem þegar er fyrir hendi í vatnsveitunni. Hún er þannig í andstöðu við niðurstöðu dóms Hæstaréttar.
Verði fallist á aðalkröfu stefnenda er þess krafist að dagsektir verði mun lægri en krafist er og stefnda gefist kostur á að ljúka verkinu á eðlilegum tíma áður en dagsektir hefjist.
Upphæð varakröfu stefnenda er mótmælt, þ.e. lengd á lögninni og kostnaði á metra. Þá er upphafsdegi vaxta mótmælt. Eðlilegt er að vextir miðist við þingfestingu málsins þar sem krafan kemur fyrst fram í stefnu.
5.Til grundvallar varakröfu stefnenda liggur einungis torlæsilegt, handskrifað blað í ljósriti með ólæsilegri undirskrift þar sem greint er frá kostnaðaráætlun að upphæð 738.285 krónur „við að grafa niður vatnslögn í Kolgrafarhól að hluta og með Biskupstungnabraut að lóð 5 ca. 700 metrar”. Áætlunin hefur ekki verið staðfest, skýrð eða studd gögnum fyrir dóminum. Vegna vanreifunar ber að vísa varakröfu stefnenda frá dómi af sjálfsdáðum.
Í því máli, sem lyktaði með framangreindum dómi Hæstaréttar, H. 1998:187, og höfðað var af eigendum þriggja sumarbústaðalóða úr landi Norðurkots í Grímsnesi á hendur stefnda í þessu máli, eru atvik að því leyti fyllilega hliðstæð atvikum máls þessa að eftirfarandi hluti dómsins hefur ótvírætt fordæmisgildi við úrlausn þess:
„ . . . Af framangreindu verður því að álykta, að félagsfundurinn (10. ágúst 1993 innskot dómsins) hafi ákveðið, að áfrýjandi léti grafa í jörð þær stofnæðar eða götuæðar, sem þegar voru í vatnsveitunni, jafnframt, að heimæðar yrðu í eigu einstakra félagsmanna og teldust vera lögn frá götuæð að húsum eða inn á lóðir þeirra, en ekki eingöngu lögn frá lóðarmörkum. Að auki virðist á því stigi ekki hafa verið gert ráð fyrir, að áfrýjandi hefði með höndum aðrar framkvæmdir við heimæðar en að setja lokur við þær og leggja þær undir vegi, þar sem þess væri þörf. Í öðrum atriðum en hér um ræðir, verður að leggja til grundvallar, að félagsfundur hafi ætlað stjórn félagsins að taka ákvarðanir um nánari tilhögun framkvæmda.
Áfrýjandi (þ.e. stefndi í þessu máli innskot dómsins) hefur ekki lagt fram fundargerðir af stjórnarfundum varðandi ákvarðanir um framkvæmdir við vatnsveituna, sem máli skipta um ágreining hans við stefndu. Liggur því ekki annað fyrir um ákvarðanir stjórnarinnar í þessum efnum en það, sem ályktað verður um af framlögðum gögnum í málinu. Í verklýsingu, sem var gerð við útboð á framkvæmdum við vatnsveitu áfrýjanda í ágúst 1993, segir meðal annars eftirfarandi í upphafi inngangskafla: „Verk þetta nær til allrar vinnu við að koma dreifikerfi vatnsveitu í jörð og ganga frá henni að fullu, þannig, að hún verði heilsársveita. Ganga skal frá öllum heimæðum við lóðamörk með stoppkrana, en landeigendur sjá um frágang heimæða inni á sínum löndum.” Í kafla um heimæðar segir meðal annars: „Verktaki skal ganga frá heimæðum að lóðarmörkum og setja loka á þær heimæðar, sem þá vantar. . . . Þar sem bústaðaeigendur hafa grafið heimæð sína niður innan lóðarmarka heim að húsi, skal verktaki ganga þannig frá, að ekki þurfi að eiga frekar við heimæðina. Víða liggur heimæð hins vegar ofan jarðar heim að húsi, og skal verktaki þá tengja yfirborðslögnina við niðurgröfnu heimæðina með hæfilegri sveigju.” Ætla verður, að í verksamningi við fyrri verktakann, sem tók að sér framkvæmdir fyrir áfrýjanda samkvæmt áðursögðu, hafi verið tekið mið af þessari verklýsingu. Í verklýsingu frá því í mars 1994, sem stuðst var við í verksamningi við síðari verktaka, voru fyrirmæli efnislega samsvarandi þeim, sem hér hefur verið vitnað til. Af öllu þessu verður ekki annað ráðið en að stjórn áfrýjanda hafi ákveðið að hrinda í framkvæmd fyrrgreindum niðurstöðum félagsfundar með breytingu, þannig, að almenna reglan yrði sú, að öllum þáverandi lögnum vatnsveitunnar yrði komið í jörð á vegum og kostnað áfrýjanda ásamt þeim hluta heimæða, sem lá utan lóðamarka einstakra félagsmanna. Þegar gætt er að félagsformi áfrýjanda og þeim reglum, sem gilda um slík félög, verður að líta svo á, að stefndu hafi átt rétt á, að áfrýjandi fylgdi framangreindri almennri reglu í skiptum sínum við þær, nema því aðeins að málefnalegar ástæður teldust vera til að víkja frá henni.”
Framangreind niðurstaða verður lögð til grundvallar niðurstöðu máls þessa að því gættu að ekkert er fram komið um málefnalegar ástæður sem geti réttlætt að vikið verði frá hinni almennu reglu.
Samkvæmt þessu eiga stefnendur réttmæta kröfu á hendur stefnda um lagningu heilsársveitu, þ.e. niður fyrir frostskil, með aðalloka (stofnkrana) á heimæð við lóðarmörk landareignar þeirra. Ljóst er af gögnum málsins að það verður einungis gert frá Biskupstungnabraut. Nægir í því efni að vísa til álitsgerðar Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., sem stefndi lagði fram, þar sem segir: „Bústaðir er standa við Biskupstungnabraut eru og hafa alla tíð verið tengdir vatnsveitunni frá botnlöngum við Kringlumýrarveg. Heimæðin liggur þannig yfir eina aðra lóð (tvær aðrar lóðir í tilviki stefnenda innskot dómsins) áður en hún nær að lóð viðkomandi félaga. Til að vatnsveitufélagið geti lagt heimæð að lóðarmörkum þessara bústaða þarf að leggja nýja lögn eftir Kóngsvegi frá Kringlumýrarvegi að Biskupstungnabraut og síðan meðfram henni að umræddum lóðum . . .”
Sá liður kröfugerðar stefnenda, sem lýtur að tengingu frá Kolgrafarhólsvegi, var ekki settur fram fyrr en við aðalmeðferð málsins; hann er vanreifaður og stefnda hefur ekki gefist færi á að taka til varna að því er hann varðar. Ber að vísa þessum kröfuliði frá dómi af sjálfsdáðum, enda verður stefnda þá í sjálfsvald sett, eftir því hvort hagfelldara teldist, að tenging verði við vatnsleiðslu við Kolgrafarhólsveg eða Kringlumýrarveg eftir Kóngsvegi. Um annað er fallist á aðalkröfu stefnenda, þó þannig að dagsektir skulu reiknaðar 2.000 krónur á dag frá 1. júlí árið 2000.
Ákveðið er að hvor aðili málsins skuli bera kostnað sinn af rekstri þess.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Varakröfu og framangreindum liði aðalkröfu stefnenda er vísað frá dómi.
Stefnda, Vatnsveitufélagi sumarbústaðaeigenda í Miðengis- og Norðurkotslandi, er skylt að leggja fyrir 1. júlí 2000 stofnlögn meðfram Biskupstungnabraut og tengja við hana aðalloka á heimæð við lóðarmörk stefnenda, Guðjóns Eiríkssonar og Rannveigar Þorsteinsdóttur, að viðlögðum dagsektum frá þeim tíma að upphæð 2.000 krónur sem renni til stefnenda.
Málskostnaður fellur niður.