Hæstiréttur íslands

Mál nr. 226/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Tilhögun gæsluvarðhalds


Föstudaginn 28

 

Föstudaginn 28. apríl 2006.

Nr. 226/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. Tilhögun gæsluvarðhalds. A. liður 1. mgr. 103. gr. og e. liður 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Þá var einnig staðfestur úrskurður héraðsdóms um að tilhögun á gæslu X sætti takmörkunum samkvæmt e. lið 1. mgr. 108. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kærum 26. apríl 2006, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærðir eru tveir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 9. maí 2006 kl. 16 og hafnað var kröfu hans um að takmörkunum samkvæmt e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála yrði aflétt. Málin voru sameinuð með ákvörðun Hæstaréttar 28. apríl 2006. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði gæsluvarðhaldsúrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þurfi hann að sæta gæsluvarðhaldi krefst hann þess að vistin verði án þeirra takmarkana sem greinir í e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hinna kærðu úrskurða.

Sóknaraðili hefur lagt nokkur viðbótargögn fyrir Hæstarétt.

Með vísan til forsendna hinna kærðu úrskurða verða þeir staðfestir.

Dómsorð:

Hinir kærðu úrskurðir eru staðfestir.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2006.

             Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi til þriðju­dagsins 9. maí 2006, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint stórfellt fíkniefnabrot. Lagt hafi verið hald á mikið magn fíkniefna sem falin hafi verið í bifreiðinni [...] sem flutt hafi verið til landsins frá Rotterdam í Hollandi þann 4. þ.m. Kærði sé talinn hafa komið að innflutningi fíkniefnanna. Meintur vitorðsmaður kærða, A, hafi verið skráður innflytjandi bifreiðarinnar en lögregla hafi haft eftirlit með bifreiðinni frá því hún kom til landsins. Bifreiðin hafi verið sótt að kvöldi 13. þ.m. af þremur meintum vitorðsmönnum kærða og þeir flutt bifreiðina í tiltekið verkstæðishúsnæði í borginni. Þegar lögreglan hafi ráðist til inngöngu í húsnæðið skömmu síðar hafi þremenn­ingarnir verið að fjarlægja efni úr bifreiðinni.   

             Fyrir liggi framburðarskýrsla A frá því 25. þ.m. þar sem hann lýsi meintri aðild kærða að málinu. Framburðarskýrsla A þyki í samræmi við eftirlit lögreglu fyrir handtöku. Framburður A þyki einnig í samræmi við hljóðritað samtal kærða við annan mann.

Kærði hafi verið yfirheyrður í dag en hann neiti allri aðild að hinu meinta broti.  Rannsókn málsins miði áfram, málið sé talið umfangsmikið, fram undan séu frekari yfir­heyrslur af kærða og meintum vitorðsmönnum hans. Frekari gagnaöflun og gagnaúr­vinnsla sé fram undan sem skýrt geti frekar aðdraganda brotsins, innbyrðis samskipti hinna grunuðu og samskipti við aðra sem kunni að tengjast málinu en ekki sé vitað um hverjir séu á þessu stigi rannsóknarinnar. Fleiri einstaklingar séu taldir tengjast málinu en lögregla vinni að því að upplýsa hverjir það séu. Gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem enn gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann. Þá þyki ennþá eftir að afla mögulegra sýnilegra sönnunargagna sem kærði geti komið undan gangi hann laus. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknar­hagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus. 

Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds vísar lögreglan  til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

             Samkvæmt framangreindu er rökstuddur grunur um að kærði eigi hlut að stórfelldu fíkni­efnabroti sem getur varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegn­inga­r­laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001, en rannsókn máls­ins er á frumstigi og er hætta á að kærði geti torvaldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna. Ekki er ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Samkvæmt því er með vísun til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sandra Baldvinsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð :

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 9. maí 2006, kl. 16:00.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2006.

             Kærði, X, kt. [...],[...], Reykjavík, hefur krafist þess að gæsluvarðhald yfir honum skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag verði án takmarkana skv. e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, þannig að honum gefist kostur á að lesa dagblöð og horfa á sjónvarp.

                         Af hálfu fulltrúa lögreglustjóra er kröfu kærða mótmælt.

Líkt og fram kemur í úrskurði dómara um gæsluvarðhald hér að framan telur dómari, að virtum atvikum málsins, að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins ef hann gengur laus. Taldi dómari því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, til að kærði sæti gæsluvarðhaldi og féllst á kröfu fulltrúa lögreglustjóra um gæsluvarðhald. Rannsókn málsins er ekki lokið og hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum. Ekki sér fyrir endann á fjölmiðlaumfjöllun sem kann að hafa áhrif á rannsókn málsins. Verður því fallist á að rannsóknarhagsmunir málsins réttlæti að svo stöddu að kærði sæti takmörkunum sam­kvæmt e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Verður kröfu kærða því hafnað. 

Sandra Baldvinsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

             Kröfu kærða, X, um að takmörkunum samkvæmt e-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 verði aflétt, er hafnað.