Hæstiréttur íslands

Mál nr. 204/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                  

Föstudaginn 27. apríl 2012.

Nr. 204/2012.

A

(Dýrleif Kristjánsdóttir hdl.)

gegn

B

(enginn)

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

A höfðaði mál gegn B og krafðist aðallega endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar, en til vara þess að viðurkenndur yrði tiltekinn eignarhlutur sinn í fasteign, en málsaðilar höfðu búið í óvígðri sambúð um nokkurt skeið og hafði fasteignin verið keypt á sambúðartíma þeirra. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins frá dómi vegna vegna annmarka á málatilbúnaði A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. mars 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. marz 2012.

Mál þetta, sem höfðað er af A, kt. [...], [...],[...], á hendur B, kt. [...],[...],[...], var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 6. janúar.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:  Aðallega að stefndu verði gert að greiða stefnanda 1.300.000 krónur auk almennra vaxta frá 31. marz 2008 til 6. október 2010 samkvæmt 3. gr. sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 6. október til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði 10,44% eignarhluti hans í eigninni [...],[...], fastanr. [...], ásamt öllu sem eignarhlutanum fylgi og fylgja beri, og að stefndu verði gert að gefa út afsal fyrir þeim hluta.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnda krefst aðallega frávísunar aðalkröfu stefnanda en sýknu af varakröfu hans.  Til vara krefst hún sýknu af öllum kröfum en til þrautavara að viðurkenndur verði 89,56% eignarhluti hennar í [...] og að „hvor aðila fyrir sig beri ábyrgð á öllum áhvílandi skuldum til samræmis við eignarhlut.“  Loks krefst stefnda málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður sérstaklega vegna þessa hluta málsins.

Málavextir

Aðilar hófu sambúð árið 2006 og stóð hún til ársins 2009.  Árið 2007 var keypt fasteignin [...] á [...] og er stefnda ein skráð eigandi hennar en samkvæmt íbúðalánum dagsettum 29. júní 2007 og innfærðum í þinglýsingabók 3. júlí 2007, sem hvíla á fyrsta og öðrum veðrétti fasteignarinnar, er stefnda skráð A-skuldari en stefnandi B-skuldari.  Óumdeilt er að í marz 2008 greiddi stefnandi 1.300.000 krónur inn á umrætt áhvílandi lán. Segir stefnandi að með því hafi hann talið sig leggja fram skerf til eignamyndunar í búinu en stefnda segir þetta hafa verið gert til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði lánsins. Kveðst stefnda hafa boðið stefnanda viðurkenndan eignarhluta í eigninni á móti en því boði verið hafnað.

Með bréfi dagsettu 6. september 2010 gerði stefnandi kröfu til stefndu um „endurgreiðslu láns“. Segir í bréfinu að stefnandi hafi í marz 2008 lánað stefndu 1.300.000 krónur til kaupa á íbúðinni í [...].  Með bréfi dagsettu 21. september 2010 hafnaði stefnda kröfunni og kvað ekki um lán að ræða heldur framlag stefnanda til sameiginlegs heimilisrekstrar á meðan á sambúð aðila hafi staðið.

Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísunarkröfu sinni

Stefnda segir að meginröksemdir stefnanda lúti að því að um framlag hans til sameiginlegrar eignamyndunar hafi verið að ræða og að við sambúðarslitin hafi brostið veruleg forsenda slíkra framlaga.  Beri stefndu því að endurgreiða honum það. Sé í stefnu vísað til kröfunnar sem „skuldar“ stefndu við stefnanda og krafizt vaxta af henni frá stofndegi meintrar kröfu.  Að mati stefndu bendi þetta til þess að um sé að ræða almennt skuldamál á hendur stefndu, en ekki sé hins vegar farin sú leið að færa sönnur á kröfur sínar eftir þeim hefðbundnu leiðum sem í slíkum málum séu færar, en kröfur hins vegar að öllu leyti rökstuddar með sjónarmiðum um framlag til sameiginlegrar eignamyndunar á sambúðartíma. Feli þetta í sér þverstæðu í málsgrundvelli sem ekki sé unnt að bæta út.  Verði því að vísa málinu frá dómi.  Kveðst stefnda vísa til e liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 vegna skýrleika málsástæðna.

Málsástæður og lagarök stefnanda í þessum þætti málsins

Stefnandi segist í málinu byggja á sjónarmiðum um eignamyndun á sambúðartíma. Hafi stefnandi lagt einu eign sína til þeirrar eignamyndunar.  Breyti engu þótt í stefnu sé af misgáningi tvisvar notað orðið „skuld“, en skuld sé óborguð upphæð sem borga beri. Sé málsgrundvöllur alls ekki óskýr og kvaðst stefnandi vísa því máli til stuðnings til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 516/2007.

Niðurstaða

Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um greiðslu 1.300.000 króna auk vaxta svo sem áður er rakið frá 31. marz 2008 til 6. október 2010 en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.  Í stefnu segist stefnandi krefjast þess að „stefnda greiði sér vexti af skuldinni“, en „gjalddagi skuldarinnar“ hafi ekki verið ákveðinn fyrirfram og sé því krafizt almennra vaxta samkvæmt II. kafla, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001, frá „stofndegi kröfunnar“. Sé óumdeilanlegt að stefnandi hafi sett fram kröfu um „endurgreiðslu“ hinn 6. október 2010.

Að mati dómsins ber aðalkrafa stefnanda þess skýr merki að vera sett fram sem krafa í almennu skuldamáli.  Þá kröfu sína byggir stefnandi hins vegar á málsástæðum sem reistar eru á sjónarmiðum um framlag til eignamyndunar á sambúðartíma.  Þykir dóminum sem fallast verði á það með stefndu, og er þá og horft til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 76/2006 sem kveðinn var upp 28. september 2006, að hér sé sú þverstæða í málsgrundvelli sem ekki verði bætt úr.  Verði því að vísa aðalkröfu stefnanda frá dómi.  Sá dómur sem stefnandi vísaði til við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna þykir engu breyta um niðurstöðu hér.

Til vara krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði 10,41% eignarhlutur sinn í umræddri fasteign.  Kveður hann sig byggja þá kröfu á sömu málsástæðum og aðalkröfuna, sem séu „að líta verði svo á að með greiðslu umræddrar fjárhæðar hafi hann tekið þátt í sameiginlegri eignamyndun.“ Á kaupsamningi um eignina er stefnanda hvergi getið, þótt aðilar séu báðir skuldarar á bréfum sem hvíla á eigninni.  Stefnda er einn skráður eigandi hennar.  Stefnandi hefur ekki byggt á því í málinu að umrædda greiðslu hafi hann innt af hendi til þess að eignast hlutdeild í eigninni, og ekki á því að sú hafi þá verið ætlun aðila, en hann kveðst hafa greitt hana „til lækkunar á láninu vegna íbúðarkaupanna“.  Þykir varakrafa hans, um viðurkenningu eignar hans á tiltekinni hlutdeild í fasteigninni, vera að verulegu leyti sama marki brennd og aðalkrafa, þótt hann í varakröfu krefjist ekki fjárupphæðar til greiðslu þeirrar skuldar, sem hann telur stefndu standa í við sig, heldur afsals fyrir eignarhluta er hann metur til sambærilegs verðs.  Þegar á allt þetta er litið telur dómurinn óhjákvæmilegt að vísa varakröfu stefnanda frá dómi án kröfu.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.  Gjafsóknarkostnaður hvors um sig greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hvors um sig, Dýrleifar Kristjánsdóttur héraðsdómslögmanns sem gætti hagsmuna stefnanda og Bjarka Sigursveinssonar héraðsdómslögmanns sem gætti hagsmuna stefnda, 502.000 krónur til hvors.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður hvors um sig greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun héraðsdómslögmannanna Dýrleifar Kristjánsdóttur og Bjarka Sigursveinssonar, 502.000 krónur til hvors.