Hæstiréttur íslands
Mál nr. 332/2008
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2009. |
|
Nr. 332/2008. |
Þorvaldur Einarsson(Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Fjarðaneti hf. (Ragnar Tómas Árnason hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Sératkvæði.
Þ var við störf hjá netagerð F, er hann varð fyrir slysi. Þ var ásamt H samstarfskonu sinni að bera gólfhlera í húsnæði F þegar H hrasaði er þau fóru yfir loðnunót sem lá á gólfinu. Hlerinn fór í utanverðan hægri fót Þ sem féll við og slasaðist. Héraðsdómur sýknaði F af bótakröfu Þ. Í dóminum var tekið fram að Þ hefði unnið hjá F í tæpt ár þegar slysið varð. Að færa hlera væri algengt starf og talið fremur einfalt. Óvíst var til hvaða frekari ráðstafana hefði verið unnt að grípa til þess að koma í veg fyrir slys. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn með vísan til forsendna og þeirrar athugasemdar að ekki væri fallist á með Þ að F hefði vanrækt skyldu sína samkvæmt 63. gr. e, laga nr. 52/1997 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar sem lagt er á atvinnurekanda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og heilbrigði ungmenna með gerð mats á áhættu sem starf getur skapað þeim. Þ hefði stundað störf hjá F í tæpt ár áður en slysið varð en samkvæmt ákvæðinu skal matið fara fram áður en ungmenni hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum. Þá voru hvorki lög nr. 68/2003 um breytingu á lögum nr. 46/1980 né reglugerð nr. 426/1999, er lýtur að vinnu unglinga, í gildi á slysdegi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2008. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna vinnuslyss sem áfrýjandi varð fyrir 16. desember 1997. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. fyrir Hæstarétt til réttargæslu.
Fram er komið að við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Lög nr. 52/1997 um breytingu á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum öðluðust gildi 1. október 1997 eða áður en áfrýjandi varð fyrir umræddu slysi. Með þeim bættist meðal annars við síðarnefndu lögin ný grein, 63. gr. e, þar sem lagt er á atvinnurekanda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og heilbrigði ungmenna með gerð mats á áhættu sem starf getur skapað þeim. Í ákvæðinu segir að matið skuli fara fram áður en ungmenni hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum. Ekki er fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi vanrækt skyldu sína samkvæmt ákvæði þessu þannig að þýðingu hafi í málinu enda hafði áfrýjandi stundað störf hjá stefnda í tæpt ár áður en slysið varð. Á slysdegi voru hvorki í gildi lög nr. 68/2003 um breytingu á lögum nr. 46/1980 né reglugerð nr. 426/1999 sem áfrýjandi hefur vísað til við flutning málsins fyrir Hæstarétti og lýtur að vinnu unglinga. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Þorvaldur Einarsson, greiði stefnda, Fjarðaneti hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Áfrýjandi varð fyrir slysi við störf sín hjá netagerð Friðriks Vilhjálmssonar hf., sem nú er stefndi, 16. desember 1997. Hann var þá 17 ára gamall og hafði unnið í netagerðinni í tæpt ár. Slysið varð þegar áfrýjandi og samstarfskona hans Hólmfríður Jónsdóttir voru að bera hlera, sem notaður var til að loka einu af mörgum götum í gólfi vinnusalarins þar sem net eru hífð upp til viðgerðar. Hólmfríður féll og fór hlerinn í utanverðan hægri fótlegg áfrýjanda. Hann fann til mikils sársauka og var farið með hann á sjúkrahús. Hlaut hann áverka á hné og eru umsagnir lækna raktar í héraðsdómi.
Aðila greinir á um aðstæður á slysstað, þyngd, stærð og staðsetningu hlerans og aðkomu verkstjóra. Húsnæðið hafði verið stækkað og eru tveir hlerar yfir götum í nýja hlutanum, en einn í hinum eldri. Áfrýjandi byggir á því að óforsvaranlegt hafi verið að fela honum að bera um 45 kg þunga og ómeðfærilega byrði og það yfir fyrirferðarmikla nót sem hafi verið á gólfi vinnustaðarins. Telur hann að verkstjórn hafi verið áfátt, og að samstarfskona hans hafi sýnt gáleysi við verkið sem hafi leitt til slyssins. Stefndi byggir á því að aðstæður á vinnustað hafi verið eðlilegar og slysið verði rakið til óhappatilviljunar eða gáleysis áfrýjanda. Hlerinn hafi verið um 25-30 kg og verkið einfalt. Ekki hafi verið þörf tilsagnar verkstjóra og ef þurft hafi að bera hlerann yfir nótina, þá hafi það einungis verið nokkur skref. Hann andmælir því að verkstjórinn hafi boðið áfrýjanda og Hólmfríði að fara sérstaka leið með hlerann, og að Hólmfríður hafi sýnt kæruleysi eða farið óvarlega. Er málsástæðum aðila nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
I
Rúm tíu ár voru liðin frá slysinu þegar áfrýjandi og vitni lýstu málsatvikum fyrir héraðsdómi.
Áfrýjandi kvað hlerann hafa verið um það bil á miðju gólfi eldri hluta hússins, um 45 kg að þyngd og mjög ómeðfærilegur. Á honum hafi verið hanki eða hankar. Hann hafi borið flekann þannig að hann hélt í hanka, sem hafi verið slitinn og því erfiðara að ná taki á honum. Verkstjórinn hafi beðið þau Hólmfríði að færa hlerann um 10 metra og vísað þeim leiðina yfir loðnunót sem var á gólfinu. Nótin hafi verið glæný og því mikil um sig og yfirborðið límkennt vegna tjöru. Hafi þau borið hlerann á milli sín og gengið áfram samhliða. Hólmfríður hafi ekki gætt sín við burðinn, fest fótinn í netinu og dottið, og hafi hann fengið fallþunga hennar og hlerans á hnéð. Aðspurður taldi hann sig áður hafa borið hlera en ekki við sömu aðstæður og þarna voru. Meðal gagna eru ljósmyndir af húsnæði stefnda, sem teknar voru af stefnda löngu síðar. Áfrýjandi kvað þær ekki gefa rétta mynd af aðstæðum þegar slysið varð, enda sýni þær einkum nýrri enda hússins.
Steindór Björnsson staðfesti í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði verið verkstjóri á staðnum og séð slysið. Hann tók fram að langt væri um liðið og hann myndi ekki vel eftir atvikum. Hann kvaðst hafa beðið áfrýjanda og Hólmfríði að bera umræddan hlera að opnu gati, sem hann taldi hafa verið við stálhurð á austurvegg nýja hluta hússins. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt þeim hvar þau ættu að fara en kvað þetta geta hafa verið um 10 metra leið. Spottar væru á hlerunum til þess að taka þá úr og til þess að bera þá, en hann kvaðst ekki muna hvort spotti á hleranum hafi verið slitinn í umrætt sinn. Hann var ekki spurður sérstaklega um þyngd hlerans, en kvað lögregluna hafa tekið umræddan hlera til að vigta, og kvað alla hlerana í nýja húsinu hafa verið sambærilega að þyngd. Síðar í yfirheyrslunni kom hins vegar í ljós að hann vissi ekki hvenær hlerinn var vigtaður þar sem hann var þá að vinna í öðru húsi. Hann taldi ekkert net hafa verið á gólfinu þegar slysið varð og hafi áfrýjandi runnið í bleytu og dottið með hlerann „af því að þau voru með hann á vitlausum stað.“ Hann minntist þess ekki að Hólmfríður hefði dottið. Farið hafi verið með áfrýjanda á sjúkrahús til að láta skoða hann, hann hafi verið í hálfgerðu losti. Hann kvaðst ekki muna hvað áfrýjandi hefði verið lengi frá vinnu, „hann var bara með læknisvottorð.“
Hólmfríður Jónsdóttir kvað atvikið hafa orðið í eldri hluta hússins og sæist staðurinn ekki á þeim myndum sem væru í málinu. Fram kom að hlerarnir í nýja og gamla hlutanum hefðu ekki verið eins. Það væru aðeins minni göt í gólfi eldri hlutans og aðeins einn hleri í þeim. Hún taldi þau hafa flutt hlerann að eigin frumkvæði. Þau hefðu verið að fara yfir nót sem var á gólfinu. Hún kvaðst ekki muna hvernig nót þetta var, eða hvort hún hefði verið blaut, en taldi að eitthvað nýtt net hefði verið í henni. Áfrýjandi hafi gengið á hlið, hún hafi flækt sig í nótinni og dottið á hlerann, sem hafi farið í hné áfrýjanda og hafi hann dottið líka. Hefði hann fundið „rosalega mikið til.“ Kvaðst hún ekki geta sagt til um þyngd hlerans, þetta hefði verið þykkur tréhleri, hún væri ágætlega handsterk en myndi ekki hafa farið langt með hann. Hún hefði margoft tekið þátt í að bera svona hlera, en það hefðu þó yfirleitt verið karlmennirnir á vinnustaðnum sem hefðu annast slík verk. Hún taldi sig hafa haldið undir hlerann. Hún kvað vera auðvelt að flækja sig í svona neti og detta, hún hefði ekki gætt að því að lyfta fótunum nógu hátt og taldi það hafa verið klaufaskap í sér.
Ásmundur Helgi Steindórsson var vitni að slysinu. Hann taldi það hafa atvikast þannig að Hólmfríður hefði flækt sig í neti eða einhverju á gólfinu og hrasað. Greinilega hefði eitthvað alvarlegt komið fyrir því áfrýjandi hefði verið mjög kvalinn. Taldi hann slysið hafa orðið á mörkum gamla og nýja hluta hússins. Hann kvaðst ekki geta sagt til um þyngd hlerans en vegna umfangs hefði hann verið tveggja manna tak. Nótin gæti hafa risið um 40-60 cm frá gólffleti. Hann minnti að áfrýjandi hefði gengið afturbak og Hólmfríður áfram er þau báru hlerann. Hann taldi að verkstjórinn hefði beðið þau að færa hlerann, en minntist þess ekki að neinn hefði skipt sér af því hvar þau fóru, ekki hefði verið neitt val um það.
II
Vinnueftirliti ríkisins var ekki tilkynnt um slysið og fór engin rannsókn fram fyrr en löngu síðar. Í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis 30. ágúst 2006 er haft eftir áfrýjanda að hann hafi verið frá vinnu í um fjórar vikur eftir slysið. Var tímabundin örorka metin samtals níu vikur. Í vottorði sjúkrahússins kemur fram að honum hafi verið ráðlögð hvíld eftir slysið. Önnur læknisfræðileg gögn liggja ekki fyrir um óvinnufærni eftir þetta slys. Af framburði verkstjóra stefnda og annarra vitna er ljóst að áfrýjandi hefur fundið mikinn sársauka við slysið og var farið með hann rakleitt á sjúkrahús. Verkstjórinn mundi ekki hversu lengi áfrýjandi hefði verið frá vinnu. Hann kvaðst ekki hafa hugsað út í að tilkynna Vinnueftirlitinu um það.
Stefndi hefur byggt á því að áfrýjandi hafi einungis verið frá vinnu í nokkra daga og slysið hafi ekki verið svo alvarlegt að þörf hafi verið á að tilkynna það. Þá séu aðstæður á vinnustað nægilega upplýstar og hafi skortur á rannsókn því engin áhrif á sönnunarstöðu í málinu.
Leggja má til grundvallar að áfrýjandi hafi verið frá vinnu á um fjórðu viku. Á þeim tíma sem slysið var hvíldi sú skylda á vinnuveitanda, samkvæmt 2. gr. reglna um tilkynningu vinnuslysa nr. 612/1989 sem sett var með stoð í 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum áður en þeirri grein var breytt með lögum nr. 68/2003, að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins ef það orsakaði fjarveru starfsmanns í einn eða fleiri daga. Stefnda bar því að tilkynna slys þetta. Þar sem það var ekki gert, verður stefndi að bera halla af óvissu vegna ágreinings um málsatvik og aðstæður á vinnustað og verða fullyrðingar áfrýjanda lagðar til grundvallar um slík vafaatriði.
Að framangreindu virtu verður að miða við það að verkstjóri stefnda hafi lagt fyrir áfrýjanda og samstarfskonu hans að færa hlerann. Ekki er sannað að sami eða sambærilegur hleri hafi verið vigtaður, og er því lagt til grundvallar að hann hafi verið um það bil 45 kg þungur og ómeðfærilegur. Upplýst er að verkstjórinn sá slysið og hefur hann því fylgst með áfrýjanda og samstarfskonu hans leggja af stað með hlerann yfir loðnunót sem var á gólfinu. Umdeilt er hvort hann mælti fyrir um leiðina, en hann virðist ekki hafa viðhaft neinar leiðbeiningar eða aðvaranir vegna verksins. Ekki er upplýst í málinu hver tilgangur þess var að færa hlerann og einnig er óljóst hvort aðrar leiðir voru færar með burðinn. Nótin virðist hafa verið nokkuð mikil um sig, óslétt og stöm.
Um er að ræða vinnustað sem fellur undir ákvæði laga nr. 46/1980. Markmið laganna og stjórnvaldsreglna samkvæmt þeim er að tryggja öryggi starfsmanna og forða líkamstjóni. Í 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða er mælt svo fyrir að vinnurými skuli skipulagt með hliðsjón af starfsemi og að umferðaleiðir skuli vera greiðar. Sambærilegt ákvæði er í 4. gr. reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Augljóslega er almennt varhugavert að ganga yfir net eins og hér er lýst og þá sérstaklega með þunga og ómeðfærilega byrði. Þrátt fyrir eðli starfsemi stefnda bar honum að gæta framangreindra fyrirmæla og verður hann að bera halla af því ef ekki mátti fara að með öðrum og öruggari hætti en þarna var gert.
Upplýst er að slysið varð vegna þess að samstarfskonan datt. Kveðst hún hafa flækt sig í nótinni af því að hún hafi ekki gætt þess að lyfta fótunum nógu hátt. Hún þekkti vel til neta og aðstæðna og verður að meta þetta henni til gáleysis. Augljós orsakatengsl eru á milli þess hvernig hún bar sig að og slyssins. Í sjálfu sér var um einfalt verk að ræða en bæði hún og verkstjórinn máttu gera sér grein fyrir hættu sem því fylgdi að láta fólk rogast með þunga byrði yfir fyrirferðamikið net.
Áfrýjandi var 17 ára gamall, en ekkert liggur fyrir um stærð hans eða líkamsburði á þessum tíma. Hefur hann lýst því að hann hafi ekki haft gott tak á hleranum og er óljóst hversu vel hann réði við burðinn. Á vinnuveitendum hvílir sérstök skylda að því er lýtur að öryggi og heilbrigði ungmenna sem þeir ráða til starfa, sbr. 63. gr. e. laga nr. 46/1980, sem breytt var með lögum nr. 52/1997, en í athugasemdum með frumvarpi var þá vísað til tilskipunar nr. 94/33/EB um vinnuvernd barna og ungmenna og fleiri alþjóðlegra skuldbindinga ríkisins. Eru börn og ungmenni sérstakur áhættuhópur á vinnumarkaði. Áfrýjandi gekk til verksins samkvæmt fyrirmælum verkstjóra stefnda. Þó að um einfalt verk væri að ræða verður að telja óforsvaranlegt af verkstjóra að láta ungmenni sinna því eins og vinnuaðstæður voru.
Samkvæmt öllu því sem hér að framan hefur verið rakið tel ég að leggja eigi bótaábyrgð vegna slyss áfrýjanda á stefnda. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að áfrýjandi hafi sjálfur átt þátt í eða valdið því að slysið varð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 7. desember 2006.
Stefnandi er Þorvaldur Einarsson, Marbakka 14, Neskaupstað. Stefndi er Fjarðanet hf., Strandgötu 1, Neskaupstað. Vátryggingafélagi Íslands er stefnt til réttargæslu.
Stefnandi krefst að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir 16. desember 1997. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Til vara krefst hann þess að sök verði skipt í málinu og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur.
Í stefnu er krafist skaðabóta að fjárhæð 2.680.915 krónur, en samkomulag varð um að skipta sakarefni skv. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 þannig að fyrst verði dæmt um skaðabótaskyldu stefnda.
Málsatvik
Stefnandi var við störf hjá netagerð Friðriks Vilhjálmssonar hf., sem nú er stefndi Fjarðanet hf., 16. desember 1997 er hann varð fyrir slysi. Slysið vildi þannig til að stefnandi var að bera gólfhlera ásamt Hólmfríði Jónsdóttur samstarfskonu sinni í húsnæði netagerðarinnar. Hlerinn var til þess að loka gati á gólfi í verksmiðjuhúsnæðinu, en net voru tekin upp í gegnum göt á gólfinu til að unnt væri að gera við þau. Í stefnu er hlerinn talinn vera um 45 kg. Stefnandi kveður þau Hólmfríði hafa farið yfir loðnunót sem hafi legið á gólfinu. Hólmfríður mun hafa hrasað og hlerinn farið í utanverðan hægri fót stefnanda sem féll við. Stefnanda var ekið á heilsugæslustöðina í Neskaupstað.
Stefnandi, Þorvaldur Einarsson, kvað verkstjóra stefnda, Steindór Björnsson hafa sagt við sig og samstarfskonu sína, Hólmfríði Jónsdóttur, að sækja umræddan hlera. Þau hafi gengið út á hlið með hlerann og þurft að ganga nokkra metra. Er þau voru að velja sér stað til að fara yfir nótina sem lá á gólfinu hafi verkstjórinn sagt þeim að koma „hérna yfir“. Þegar Hólmfríður var að stíga upp á nótina hafi hún fest fótinn í henni og hrasað, með þeim afleiðingum að hún datt og hlerinn lenti við utanvert hné stefnanda. Þorvaldur kvaðst hafa unnið í netagerðinni frá því í byrjun árs 1997. Hann sagðist örugglega hafa gert þetta áður en ekki við sömu aðstæður. Inntur eftir því hvort hann hafi fengið fyrirmæli um hvernig hann ætti að vinna umrætt starf kvaðst hann ekki hafa fengið þau, önnur en að hann ætti að fara yfir netið á þeim stað sem verkstjóri mælti fyrir um. Stefnandi kvað netið sem þau þurftu að fara yfir hafa verið nýtt, en ný net væru mikil um sig og tjörulöguð þannig að þeim hætti til að límast við skó.
Steindór Björnsson sem var verkstjóri umræddan dag, kvað gólfið hafa verið blautt þannig að stefnandi hafi runnið og dottið. Ekki hafi verið nein nót á gólfinu, heldur hafi verið búið að taka hana upp og átt að loka gatinu í gólfinu með hleranum. Ekki hafi verið unnt að loka gatinu nema nótin væri farin af gólfinu. Steindór kvaðst hafa sagt þeim að loka fyrir gatið en ekki hvaða leið þau ættu að fara með hlerann. Hann kvað þau hafa verið að vinna í loðnunót en kvaðst ekki muna hvort hún hafi verið gömul eða ný, þá kvaðst hann ekki kannast við að það hafi verið tjara í nótinni. Steindór kvað þau hafa þurft að ganga um það bil tíu metra með hlerann.
Steindór kvað Þorvald hafa borið svona hlera áður. Þeir sem voru næstir í hvert sinn hafi tekið hlerana en reynt hafi verið að loka götunum strax eftir notkun svo að ekki skapaðist hætta af þeim. Steindór kvað Vinnueftirlitið ekki hafa gert athugasemdir við hlerakerfið og væri það ennþá óbreytt. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa hugsað út í að tilkynna Vinnueftirlitinu um slysið. Steindór kvaðst hafa unnið hjá Fjarðaneti frá 1986.
Hólmfríður Jónsdóttir, samstarfskona stefnanda í netagerðinni og frænka hans, sagði þannig frá að þau hafi verið að gera við nót, sennilega loðnunót, og eitthvert nýtt net hafi verið í henni. Loðnunótir væru meiri um sig en síldarnótir einkum ef nýtt net væri í þeim, en hún kvaðst ekki muna hvort það hafi verið tjara í nótinni. Hólmfríður kvað þau hafa ákveðið sjálf að færa hlerann til þess að hann yrði ekki fyrir, netið hafi ennþá legið niður um götin á gólfinu og ekki verið mögulegt að loka. Hólmfríður kvaðst hafa flækt fæturna í netinu og dottið á hlerann þannig að hann hafi lent við hnéð á Þorvaldi. Innt eftir því hvort hún hafi hugsanlega sýnt af sér einhverja óvarkárni þegar hún bar hlerann sagði hún „nei, bara klaufaskapur að lyfta ekki löppunum nógu hátt til þess að komast yfir, þetta er bara mín sök að fara ekki kannski meira gætilega, en kannski ekkert annað.“
Hólmfríður kvaðst hafa unnið í netagerðinni frá 1987. Hún kvaðst oft hafa tekið þátt í að bera hlera og alveg örugglega einhvern tímann með Þorvaldi. Hún kvað starfsmenn hafa gert það sem þurfti og ekki alltaf beðið eftir skipunum. Hólmfríður kvað auðveldlega hafa verið hægt að flækja lappirnar í neti og detta, og sagði fólk oft hafa dottið um net. Þá kvaðst hún oft hafa dottið á gólfinu blautu og meitt sig.
Ásmundur Helgi Steindórsson, fyrrum starfsmaður stefnda og sonur Steindórs Björnssonar, kvaðst hafa séð slysið gerast. Hólmfríður hafi flækt sig í neti og hrasað en Þorvaldur fengið hlerann ofan á fótinn. Ásmundur sagði að sig minnti að þau hafi borið hlerann að beiðni verkstjórans, en ekki hafi verið neitt val um hvaða leið þau fóru og mundi hann ekki eftir að nokkur hafi skipt sér af því. Ásmundur kvað hlerann hafa verið þungan, tveggja manna tak. Ásmundur kvað alla starfsmenn hafa gengið jafnt í að koma hlerunum fyrir þegar þess þurfti.
Samkvæmt læknisvottorði Björns Magnússonar dags. 4. janúar 2006 leitaði stefnandi á heilsugæslu 16. desember 1997 vegna verkja í hægra hné. Var honum ráðlögð hvíld frá vinnu. Vegna viðvarandi óþæginda framkvæmdi Júlíus Gestsson bæklunarlæknir liðspeglun af hnéliðnum í mars 2000. Í vottorði Júlíusar dags. 18. mars 2006 kemur fram að við skoðun hans 23. mars 2000 hafi verið óstöðugleiki á liðböndum innanvert á hnénu, við sveigju á fótlegg út á við, og eymsli yfir liðbili innanvert á hnénu. Við liðspeglunaraðgerð var talinn vera vægur óstöðugleiki á liðböndum innanvert á hnénu. Í aðgerðinni sáust brjóskójöfnur og sprunga í brjóski innanvert á liðfleti hnéskeljarinnar, þá benti skoðun til slaka á liðböndum innanvert aftan til í hnénu. Klippt var á bandvefsstreng og ofan í slímhúðarfellingu í liðpoka. Samkvæmt vottorðinu lýsti stefnandi áframhaldandi óþægindum eftir aðgerðina. Stefnandi leitaði aftur til Júlíusar Gestssonar 11. janúar 2002 og lýsti því að hann hefði fengið nýjan áverka 12. desember 2001 og þótt eitthvað bresta í hnénu. Við skoðun reyndist hægri lærvöðvi rýrari, þá var hann talinn hafa tognað á liðbandi innanvert á hnénu. Gerð var liðspeglunaraðgerð 22. mars 2002 og staðfestur slaki á liðböndum innan á og aftan til á hnénu, en það voru ójöfnur í brjóski innan til á liðfleti hnéskeljar og bólguerting í liðklæðningu aðlægt því svæði. Ójöfnur í brjóski og bólgubreytingar í liðpoka voru jafnaðar með þar til gerðu verkfæri. Þá var stefnandi skoðaður hjá Júlíusi 23. apríl 2003 vegna óþæginda frá hnénu eftir að hafa fengið snúningsáverka á hnéð. Staðfestur var bólguþroti á hnénu með eymslum innanvert. Talið var að um væri að ræða tognun. Samkvæmt fyrrgreindu vottorði Björns Magnússonar var vökva tappað úr hné stefnanda 22. mars 2004. Þá var hann skoðaður af Sveinbirni Brandssyni í janúar 2004, samkvæmt vottorði hans 9. febrúar 2006, og gerð speglun á hnénu 27. febrúar 2004. Þá sást að stefnandi var með umtalsverðar skemmdir á hnéskel. Var „allt laust hreinsað upp.“ Innri liðþófi var eðlilegur, liðfletir og krossbönd. Ytri liðþófi hins vegar aðeins ójafn og var hann snyrtur til.
Stefnandi aflaði mats frá Jónasi Hallgrímssyni lækni vegna slyssins í desember 1997 og annars slyss sem hann varð fyrir 12. desember 2001. Matsgerðin er dagsett 30. ágúst 2006 og niðurstaðan sú að stefnandi hafi í vinnuslysinu 16. desember 1997 hlotið sjö stiga varanlegan miska og 10% varanlega örorku.
Réttargæslustefndi hafnaði bótaskyldu með bréfi dags. 7. nóvember 2006.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að rekja megi slysið til saknæmrar háttsemi starfsmanna Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar hf. Augljóst megi vera að gálaust sé að ætla ungum starfsmönnum að rogast með níðþungan gólfhlera yfir loðnunót sem sé óslétt og til þess fallin að hrasa um. Þeim sem annaðist verkstjórn á staðnum hafi mátt vera ljóst að í því fælist slysahætta að ætla stefnanda og samstarfskonu hans að rogast með þennan níðþunga hlut yfir nótina. Það gildi einu hvort gáleysi starfsmannsins og/eða starfmannanna sé metið stórfellt eða ekki, stefndi beri ábyrgð skv. reglum íslensks réttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna, sem sýni af sér þá óvarkárni sem leiði til slyss.
Stefnandi kveðst byggja á að samstarfskona hans hafi sýnt af sér gáleysi við framkvæmd verksins. Þá beri sérstaklega til þess að líta að stefnandi hafi verið óvanur starfinu enda hafi hann nýlega hafið störf í netagerðinni er slysið varð, auk þess að vera mjög ungur að árum. Verði því ekki metið honum til sakar að hann hafi ekki áttað sig á þeirri hættu sem stafaði af framkvæmd verksins.
Stefnandi kveðst telja að aðalorsök slyssins hafi verið sú að verkstjórn hafi verið áfátt. Stefnandi byggir einnig á því að frágangur á vinnustaðnum hafi ekki verið sem skyldi. Stefnandi vísar um þetta til laga nr. 46/1980 og reglna nr. 499/1994 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Stefnandi telur stefnda bera hallann af vafa um það hvernig atvik og aðstæður hafi verið þar sem láðst hafi að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins og lögreglu eins og skylt var lögum samkvæmt.
Stefnandi kveður slys það sem hann varð fyrir hafa víðtæk áhrif á líkamlegt ástand hans og getu til að starfa og sinna áhugamálum sínum. Afleiðingar slyssins liggi fyrir í matsgerð.
Þar sem réttargæslustefndi hafi fyrir hönd stefnda hafnað bótaskyldu vegna afleiðinga slyssins, sé málshöfðunin nauðsynleg.
Stefnandi styður kröfur sínar við lög nr. 50/1993, með síðari breytingum, og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur, þar með taldar reglur um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 og stjórnsýslureglna sem reistar séu á þeim lögum. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi telur að aðstæður á vinnustað hafi verið eðlilegar og ekkert frábrugðnar aðstæðum á hefðbundnum vinnudegi við þá vinnu sem stunduð var. Loðnunótin hafi verið komin upp á efri hæð og lokið við að skola úr henni. Gólf hafi því verið blautt og aðstæður augljósar þeim sem þarna voru staddir.
Stefndi bendir á að stefnandi hafi orðið fyrir öðru slysi þann 12. desember 2001, þar sem hann snéri upp á hægri fót og varð fyrir skaða á hægra hné. Jafnframt hafi hann orðið fyrir snúningsáverka á sama hné vorið 2003.
Stefndi krefst aðallega sýknu. Hann mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda. Í fyrsta lagi liggi ekkert fyrir í málinu sem styðji fullyrðingar stefnanda um ábyrgð stefnda á óhappi því sem málið er sprottið af. Um skaðabótaábyrgð á slysinu fari eftir sakarreglunni og hvíli sönnunarbyrðin óskipt á stefnanda um meinta sök stefnda og orsakatengsl. Ósannað sé að stefndi eða starfsmaður á hans vegum eigi nokkra sök á slysi stefnanda. Það megi alfarið rekja til gáleysis stefnanda sjálfs og óhappatilviljunar.
Stefndi telur að engin sérstök hætta hafi fylgt því sem stefnandi var að gera. Verkið sé einfalt og endurtekið mjög reglulega á vinnustaðnum. Framkvæmdin hafi verið eins um áratugaskeið og aldrei hlotist slys af áður. Stefndi véfengir fullyrðingar stefnanda um að hlerinn sé um það bil 45 kg og telur hann vera um 20-30 kg. Þá mótmælir stefndi því að það sé óábyrgt að 17 ára maður taki undir hlerann við annan mann og beri hann einhverja metra. Slík störf séu í engu hættulegri eða erfiðari en gangi og gerist í störfum sem jafnaldrar stefnanda stundi til sjós og lands.
Engin fyrirstaða hafi verið við því að færa hlerann og hafi stefnandi talið of erfitt eða hættulegt að ganga yfir nótina hafi honum átt að bera skynsemi til þess að velja aðra leið. Auk þess liggi ekkert fyrir í málinu um hvort nótin sem slík hafi nokkuð með óhapp þetta að gera. Samstarfsmaður stefnanda geti hafa misst fótanna af margvíslegum ástæðum. Ekki sé því unnt að segja hvort stefnandi eða samstarfskona hans hafi átt sök á því að þau duttu. Stefndi mótmælir því einnig að verkstjóri hafi átt að hlutast sérstaklega til um hvernig hlerinn var borinn eða hvaða leið eða að brotin hafi verið lög eða reglur við verkstjórn. Ákvörðun um framkvæmd verksins hafi hvílt á þeim starfsmönnum sem báru hlerann, enda ekki um að ræða flókið verk. Þannig komi hvorki ungur aldur eða meint reynsluleysi stefnanda í veg fyrir almenna og eðlilega aðgæslu við verkið.
Stefndi kveðst hafna því að tilgreindur samstarfsmaður stefnanda, Hólmfríður Jónsdóttir, hafi sýnt af sér gáleysi. Ekki séu margar leiðir til að bera hlera. Ekkert liggi fyrir í málinu um að hún hafi sýnt vítaverða hegðun við burðinn, hlaup eða annað slíkt.
Stefndi telur að lítil sem engin hætta hafi verið á því að tjón hlytist af þessari háttsemi og alls ekki líklegt að mikið tjón hlytist af því. Ekkert liggi fyrir í málinu um að stefndi eða fólk á hans vegum hafi getað gripið til einhverra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir óhappið og árétta verði að stefnandi hafi átt að gera sér fullkomna grein fyrir hvort og þá hvernig sú hætta skapaðist sem lýst sé í stefnu.
Af fyrirliggjandi lýsingum megi ráða, að slysið hafi ekki hlotist vegna þess að röng aðferð hafi verið notuð við vinnuna. Sé slysið því alfarið að kenna skorti á aðgæslu af hálfu stefnanda og óhappatilviljun. Stefndi telur þá staðreynd að slysið var ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins ekki skipta máli hér, enda séu aðstæður upplýstar nægjanlega. Ekkert liggi fyrir málinu sem sýni að rannsókn Vinnueftirlitsins á aðstæðum myndi bæta nokkru við. Stefndi bendir einnig á að meint vanræksla á tilkynningu sé ekki sjálfstæður grundvöllur bótaskyldu stefnda og mótmælir að ótvíræð dómafordæmi leiði til annarrar niðurstöðu. Hafi skortur á rannsókn því ekki áhrif á sönnunarstöðu í málinu og almennar reglur skaðabótaréttarins gildi um að tjónþoli hafi sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði bótaskyldu séu uppfyllt.
Stefndi telur ekki að hann beri ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglna um húsbóndaábyrgð. Stefndi beri heldur ekki ábyrgð á tjóni stefnanda sem eigandi fasteignarinnar, enda hafi stefnandi ekki haldið fram eða sýnt fram á í málatilbúnaði sínum í stefnu að fasteignin hafi verið vanbúin. Stefndi kveðst árétta að hann verði ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á grundvelli hlutlægra skaðabótareglna.
Verði ekki á sýknukröfu fallist sé varakrafa stefnda í þessum þætti málsins að skipta beri sök í málinu og leggja meginhluta sakar á slysinu á stefnanda sjálfan. Um eigin sök stefnanda vísist til þess, sem reifað sé um það atriði hér að framan.
Stefndi vísar til stuðnings kröfu sinni til laga nr. 50/1993, almennra reglna skaðabótaréttar um saknæmi, orsakasamhengi, sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola. Stefnandi reisir kröfu um málskostnað á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Stefnandi byggir kröfu sína á saknæmri háttsemi samstarfskonu sinnar, Hólmfríðar, gáleysi við verkstjórn og því að frágangur á vinnustaðnum hafi ekki verið sem skyldi.
Nægileg er fram komið að stefnandi hafi orðið fyrir slysi vegna þess að Hólmfríður hrasaði um net sem lá á gólfinu, en stefnandi sjálfur, Hólmfríður og Ásmundur báru öll um þetta. Einnig kom fram í framburði vitna fyrir dómi að oft hafi þurft að færa til hlerana á vinnustaðnum og að allir starfsmenn hafi gengið í það verk. Þá hafi Hólmfríður og stefnandi örugglega unnið það áður. Ekkert bendir til að háttsemi Hólmfríðar víki frá venjulegri framkvæmd vinnunnar og eða að hún hafi verið kærulaus eða farið óvarlega. Þykir slysið ekki verða rakið til gáleysis Hólmfríðar.
Byggt er á að frágangur hafi ekki verið sem skyldi á vinnustaðnum. Mælt er fyrir um það í reglum nr. 581/1995 að flutningsleiðir manna í vinnurými skuli verið greiðar og afmarkaðar, sbr. 2. mgr. 3. gr. Þá segir að á gólfum vinnustaða megi ekki vera hættulegar upphækkanir, skuli þau vera föst og stöðug, sbr. 6. mgr. 6. gr.
Á verkstæðinu munu samkvæmt framburði vitna og framlögðum myndum vera átta til níu göt í gólfinu sem net eru tekin upp um til þess að unnt sé að gera við þau. Fyrir þessum opum eru hlerar sem teknir eru frá til að koma netunum í gegn og settir aftur fyrir þegar ekki liggja net í gegnum opin. Ljóst er að á gólfinu liggja oft net og ekki verður annað séð en að vinnurými í netaverkstæði stefnda hafi verið skipulagt með hliðsjón af starfinu sem þar fór fram, en upplýst er að Vinnueftirlit hafi ekki gert athugasemdir við aðstöðuna að þessu leyti. Ósannað er að frágangur hafi ekki verið sem skyldi.
Stefnandi telur að það hafi verið gálaust sé að ætla ungum starfsmönnum að rogast með níðþungan gólfhlera yfir loðnunót sem sé óslétt og til þess fallin að hrasa um. Hlerinn sem stefnandi og Hólmfríður báru mun hafa verið þungur, í stefnu er hann talinn vera 45 kg, og kvað Ásmundur Helgi Steindórsson hann hafa verið tveggja manna tak. Atvinnurekanda ber að sjá til þess að starfsmenn sem handleika byrðar fái tilsögn í réttri líkamsbeitingu, og upplýsingar um áhættu einkum ef verkin eru ekki unnin rétt, meðal annars með tilliti til aðstæðna sem eru taldar geta aukið áhættu, svo sem þegar gólf er óslétt eða hált, sbr. reglugerð nr. 499/1994. Fyrir liggur í máli þessu að stefnandi hafði unnið hjá stefnda í tæpt ár þegar slysið varð. Að færa hlerana var algengt starf og fremur einfalt þótt þeir hafi vissulega verið þungir. Stefnandi hafði gert þetta margoft og samstarfsmenn hans einnig. Upplýst er að framkvæmdin sé ennþá sú sama. Ólíklegt hafur virst að mikið tjón hlytist af verkinu, þá er óvíst hvaða frekari ráðstafanir hefði verið unnt að grípa til. Ekki verður talið verkstjóra til gáleysis að hafa látið stefnanda sjá um að bera umræddan hlera.
Atvik þykja verða nægilega uppýst og verður vanræksla á að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins því ekki talin hafa áhrif á sönnun í málinu. Stefnandi hóf störf hjá stefnda í byrjun árs 1997. Ekki verður séð að mat það sem á að fara fram við upphaf starfs og við verulegar breytingar á starfsskilyrðum, samkvæmt 63. gr. e laga nr. 46/1980, en ákvæðið tók gildi 1. október 1997, myndi hafa haft áhrif á atburðarrásina.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður aföllum kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, Fjarðanet hf., skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Þorvaldar Einarssonar.
Málskostnaður fellur niður.