Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2004
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Fasteignasala
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 2004. |
|
|
Nr. 184/2004. |
Sigurður B. Sigurðsson(Jón Magnússon hrl.) gegn Sverri Kristjánssyni og (Þorsteinn Júlíusson hrl.) Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu (Hákon Árnason hrl.) |
|
Fasteignakaup. Fasteignasala. Skaðabætur.
H ehf. keypti fasteign í smíðum af B ehf., en seldi hana síðan til S. Leituðu H ehf. og S til fasteignasalans K um gerð kaupsamnings. Kaupverð var ákveðið 64.500.000 kr., en þar af skyldu 40.000.000 kr. ganga til að greiða áhvílandi lán á eigninni. Svo fór að B ehf. lauk ekki smíðinni á umsömdum tíma og H ehf. innti ekki af hendi greiðslur samkvæmt samningi sínum við B ehf. Þegar S fékk eignina afhenta nægðu umræddar 40.000.000 kr. ekki til að aflétta áhvílandi lánum á eigninni. Var þá gert samkomulag um að S greiddi um það bil 50.000.000 kr. til veðhafa gegn því að lánunum yrði aflétt. Í máli sem S höfðaði á hendur K af þessu tilefni krafði hann K um greiðslu á þessum mismun. Talið var ósannað að tjón S mætti rekja til þess að ónógar upplýsingar hafi legið fyrir við gerð kaupsamningsins eða að K hafi vanrækt að gera S grein fyrir áhættunni sem tengdist lánunum. Þá var ekki fallist á að K hafi borið að afla bindandi yfirlýsingar veðhafa um hvaða fjárhæð þyrfti að greiða til að aflétta lánunum. Var K því sýknaður af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. maí 2004 og krefst þess að stefndi greiði sér 10.161.123 krónur auk tilgreindra dráttarvaxta frá 7. mars 2001 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur í málinu.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. febrúar sl., er höfðað 3. mars 2003 af Sigurði B. Sigurðssyni, Lindarbyggð 1, Mosfellsbæ, á hendur Sverri Kristjánssyni, Þingási 9, Reykjavík, og Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 10.161.123 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. mars 2001 til 1. júlí 2001, en þá samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags og leggist áfallnir dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda svo og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Réttargæslustefndi gerir ekki dómkröfur, en engar kröfur eru gerðar á hendur honum í málinu.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi keypti hluta af fasteigninni Krókhálsi 5d og 5e af Hag ehf., atvinnuhúsnæði á jarðhæð, með kaupsamningi 8. febrúar 2000. Kaupverðið var 64.500.000 krónur og skyldi greiða það með 11 bifreiðum, að verðmæti samtals 22.000.000 króna, 40.000.000 króna greiðslu til Búlka ehf., 1.200.000 króna sölulaunum og 1.300.000 krónum er greiða skyldi í vöruskiptabanka Viðskiptanetsins. Búlki ehf. byggði húsið og var þinglýstur eigandi fasteignarinnar þegar kaupsamningurinn var gerður, en Hagur ehf. hafði keypt hana í smíðum af Búlka ehf. Búlki ehf. samþykkti fyrir sitt leyti efni kaupsamnings stefnanda og Hags ehf. með þeim fyrirvara að staðið yrði við kaupsamning milli Búlka ehf. og Hags ehf. Gert var ráð fyrir að fasteignin yrði fokheld í febrúar eða mars 2000, en greiðslan á 40.000.000 króna átti að fara fram í síðasta lagi tíu dögum eftir þann tíma ella skyldi stefnandi greiða 1,5% vexti af fjárhæðinni sem eftir stæði frá þeim degi til greiðsludags.
Í kaupsamningnum frá 8. febrúar 2000 er tekið fram að um sé að ræða um það bil 540 m² í húsi nr. 5d og um það bil 270 m² í hús nr. 5e, en fermetratala yrði ekki nákvæm fyrr en eignaskiptasamningur yrði gerður. Þá er og tekið fram í kaupsamningnum að samkvæmt veðbókarvottorði, dagsettu sama dag, hvíldi á Krókhálsi 5d og 5e samtals á 1. veðrétti 37.000.000 króna og á 2. veðrétti samtals 120.000.000 króna. Greiðsla á 40.000.000 króna samkvæmt kaupsamningnum skyldi ganga óskipt til að greiða uppí þessi lán en mismun skyldi seljandi aflétta í síðasta lagi 15. júní 2000.
Hagur ehf. stóð ekki við greiðslur til Búlka ehf. og fasteignin varð ekki fokheld fyrr en löngu síðar og var ekki afhent stefnanda fyrr en í mars 2001. Þegar kom að því að stefnandi skyldi greiða 40.000.000 króna nægði sú greiðsla ekki til að aflétta áhvílandi lánum af fasteigninni eins og gert hafði verið ráð fyrir við kaupsamningsgerðina. Var þá gert samkomulag, dagsett 7. mars 2001, um að stefnandi greiddi í stað framangreindrar fjárhæðar 50.161.123 krónur til veðhafa, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, og var fasteignin þá leyst úr veðböndum. Stefnandi telur að stefnda verði um þetta kennt þar sem hann hafi ekki gætt þess við kaupsamningsgerðina að fá skriflega yfirlýsingu veðhafa um það hverja fjárhæð þyrfti að greiða til að eignin yrði leyst úr veðböndum. Á þetta fellst stefndi ekki og telur það sér óviðkomandi að seljandi stóð ekki við efni kaupsamningsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að stefndi hafi gert kaupsamninginn frá 8. febrúar 2000 sem löggiltur fasteignasali. Samkvæmt honum hafi stefnandi átt að greiða áhvílandi lán við Sparisjóð Hafnarfjarðar á hinu selda að fjárhæð 40.000.000 króna. Þegar kom að greiðslu til Sparisjóðsins hafi þurft að greiða 65.000.000 króna vegna þessara lána, eða 25.000.000 króna umfram það sem kaupsamningur kveði á um. Af þeirri fjárhæð hafi stefnandi greitt 50.864.117 krónur, eða 10.864.117 krónum umfram skyldu samkvæmt kaupsamningnum. Hagur ehf. hafi sem seljandi fasteignarinnar átt að greiða viðbótina en til þess hafi félagið ekki haft fjárhagslegt bolmagn. Því hafi stefnandi neyðst til að greiða ofangreinda fjárhæð til viðbótar, en hann hafi verið búinn að endurselja fasteignina til Íslenskrar erfðagreiningar og hafi legið á að láta hana fá veðbandalaust afsal fyrir fasteigninni svo sem samið hafi verið um.
Þegar fyrir lá að stefnandi hafi þurft að taka yfir meiri lán en honum bar frá Sparisjóði Hafnarfjarðar vegna umræddra viðskipta til að fasteignin yrði ekki seld á nauðungaruppboði, og samningur hans við Íslenska erfðagreiningu þá að engu orðinn, hafi hann leitað eftir því við stefnda að hann tryggði kröfu stefnanda á hendur Hag ehf., en stefndi hefði ekki gengið tryggilega frá gögnum varðandi kaupin. Auk þess hafi á það skort að stefndi hefði kannað öll gögn varðandi fasteignina svo sem honum hafi borið að gera sem fasteignasala. Stefndi hafi haldið því fram við stefnanda að einungis væri um tímabundið vandamál að ræða hjá Hag ehf. og hafi verið gengið frá samkomulagi á starfsstöð stefnda þar sem Hagur ehf. hafi lofað að greiða umrædda fjárhæð til baka, m.a. með kaupsamningi milli Hags ehf. og Suðurstáls ehf. annars vegar og Búlka ehf. hins vegar um fasteignina Suðurhraun 12B, matshluta 02. Stefndi hafi síðan gengið frá kaupsamningi milli Suðurstáls ehf. og stefnanda, en þar komi fram að 8.000.000 króna séu greiddar með skuldajöfnun milli Hags ehf. og stefnanda. Stefndi hafi fullyrt við stefnanda að með því að kaupa eignina að Suðurhrauni 12B næði hann til baka þeim fjármunum sem hann hefði ofgreitt fyrir Hag ehf. þar sem stefnandi gæti selt fasteignina strax aftur fyrir það verð sem hann hefði keypt hana á af Suðurstáli ehf. Stefnandi hafi síðar komist að því að sömu aðilar hafi staðið að baki Suðurstáli ehf. og Hag ehf. Stefnandi hafi engan hag haft af því að kaupa eignina að Suðurhrauni 12B, en eini tilgangurinn með þeim viðskiptum hafi verið að ná aftur einhverjum af þeim fjármunum sem stefnandi hafi ofgreitt fyrir Hag ehf. fyrir tilmæli frá stefnda. Stefnandi hafi reynt að selja fasteignina en fljótlega komist að því að hann hefði keypt hana allt of háu verði. Stefnandi telji að verðið hafi verið a.m.k. 8 milljónum króna of hátt á þeim tíma sem kaupin voru gerð, eða um þá fjárhæð sem talin er að hafi verið til skuldajöfnunar í kaupsamningi. Stefndi hafi verið eini ráðgjafinn sem stefnandi hafi haft í þessum efnum og hafi treyst á að hann væri að ráða sér heilt varðandi þessi viðskipti. Suðurstál ehf. hafi ekki getað aflétt veðum sem hvílt hafi á Suðurhrauni 12B. Eftir að hafa ítrekað skorað á forsvarsmenn Suðurstáls ehf. að aflétta veðum af fasteigninni, sem hafi verið stefnanda óviðkomandi, hafi stefnandi rift kaupunum 10. október 2001.
Í bréfi 6. mars 2002 hafi stefnandi gert stefnda grein fyrir því að kæmi til þess að Hagur ehf. greiddi ekki skuld sína við stefnanda kynni endurgreiðslukröfu hans að verða beint að stefnda. Stefnandi hafi þá talið ljóst að Hagur ehf. myndi ekki greiða skuld sína við hann. Stefnandi hafi farið fram á að gengið yrði frá samkomulagi milli málsaðila varðandi kröfu stefnanda á hendur stefnda til að komast hjá aukakostnaði en stefndi hafi hafnað því. Stefndi hafi haft samband við vátryggingafélag sitt, réttargæslustefnda, vegna krafna, sem beint hafi verið að honum, en í bréfi 12. september 2002 hafi því verið lýst yfir af hálfu réttargæslustefnda að hann teldi ekki um bótaskyldu að ræða. Stefndi hafi bent stefnanda á að hann ætti kröfu á hendur Sparisjóði Hafnarfjarðar þar sem Sparisjóðurinn hefði gefið misvísandi upplýsingar til stefnda um fjárhæð veðskuldarinnar sem stefnandi hefði yfirtekið við kaup sín á Krókhálsi 5d og e. Stefndi hafi leitað eftir því við Sparisjóðinn og hafi hann fengið þau svör að Sparisjóðurinn hefði aldrei átt nein viðskipti við stefnanda og hefði ekkert með þetta mál að gera gagnvart honum.
Um stefnukröfuna vísi stefnandi til samkomulags Hags ehf. og stefnanda frá 7. mars 2001. Þar komi fram að stefnandi greiði 10.864.117 krónur fyrir Hag ehf. vegna veðskulda, sem félagið hafi ekki getað aflétt, að frádregnum vöxum af 40.000.000 króna frá 17. janúar 2001 til 7. mars 2001. Ekki sé getið um það í samkomulaginu við hvaða vexti skuli miða og af þeim sökum sé reiknað með meðalvöxtum en samkvæmt vaxtalögum hafi þeir verið 12,3% á ári í janúar 2001, 12,6% á ári í febrúar s. á. og 12,3% á ári í mars s.á. Meðalvextir af 40.000.000 króna frá 17. janúar 2001 til 7. mars 2001 séu því 702.334 krónur. Þegar þeir hafi verið dregnir frá 10.864.117 krónum komi út stefnufjárhæðin, 10.161.123 krónur.
Stefnandi byggi á því að stefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við frágang kaupsamningsins milli hans og Hags ehf. um eignina Krókháls 5d og e hinn 8. febrúar 2000. Í samningnum segi að áhvílandi sé á eigninni 37 milljón króna skuld við Landsbanka Íslands og við Sparisjóð Hafnarfjarðar 120 milljónir króna og tekið fram að fleira sé veðsett. Samtals hafi því verið áhvílandi 157 milljónir króna á eigninni sem stefnandi hafi keypt fyrir 64.500.000 krónur. Stefndi hafi vanrækt að gæta hagsmuna stefnanda við þessi kaup svo sem honum hafi borið að gera sem fasteignasala og tryggja með viðunandi hætti að kaupin gætu farið fram samkvæmt efni kaupsamningsins og tryggt væri að veðskuldir þær sem féllu á stefnanda væru ekki meiri en í kaupsamningi segi.
Stefndi hafi aldrei gert stefnanda grein fyrir því að einhver hætta væri á því að yfirtekin lán yrðu önnur en um hafi verið samið við Hag ehf. eða einhver hætta gæti verið á því að ekki yrði hægt að aflétta áhvílandi lánum. Það hafi verið skylda stefnda sem fasteignasala að tryggja hagsmuni stefnanda í viðskiptum við Hag ehf. Stefnda hafi verið ljóst þegar hann gekk frá kaupsamningnum milli Hags og stefnanda að Hagur ehf. væri í erfiðri fjárhagsstöðu og því fyllsta ástæða til að gæta ítrustu varúðar.
Stefnda hafi borið að vekja athygli stefnanda á þeim hættum sem gætu legið í því að gera samning við Hag ehf. á þeim grundvelli sem gert hafi verið og stefndi hafi gengið frá. Stefndi hafi ekki farið að ákvæðum 12. gr. laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu þar sem ekki hafi verið samið rækilegt yfirlit yfir þau atriði sem máli skiptu og þess hafi ekki verið gætt að öll grundvallaratriði um fasteignina kæmu fram, m.a. um veðskuldir. Stefndi hafi heldur ekki gætt ákvæða 10. gr. sömu laga þar sem hann hafi ekki gætt réttmætra hagsmuna stefnanda. Stefnda hafi borið að kanna til hlítar áhvílandi veðskuldir á hinu selda áður en gengið var frá kaupsamningi og fá óafturkallanlegar yfirlýsingar veðhafa um hvaða greiðslna þeir krefðust vegna sölu Hags ehf. til stefnanda. Þetta beri fasteignasala ætíð að gera og hafi það verið enn nauðsynlegra þar sem fasteignin hafi verið yfirveðsett.
Stefnda hafi því borið að gæta þess áður en hann gekk frá kaupsamningi að fá óafturkallanlegar yfirlýsingar viðkomandi veðhafa um að þeir samþykktu kaupsamninginn og samþykktu að einungis ákveðnar greiðslur kaupsamningsins rynnu til þeirra. Stefndi hafi látið hjá líða að afla slíkra yfirlýsinga og hann hafi ekki gengið tryggilega úr skugga um með hvaða hætti farið yrði með áhvílandi veðskuldir á fasteigninni. Breyti engu í því sambandi hvernig kaupin hafi komist á eða fyrir milligöngu hverra. Skyldur og ábyrgð stefnda séu þær sömu. Lækkun á söluþóknun breyti heldur engu um ábyrgð stefnda. Þessi handvömm stefnda hafi leitt til þess að stefnandi varð fyrir því tjóni sem hann krefji stefnda um greiðslu á. Í málinu liggi fyrir yfirlýsingar frá Sparisjóði Hafnarfjarðar um að hann muni veðbandsleysa þá eignarhluta sem hér um ræði gegn ákveðnum skilyrðum. Fyrsta yfirlýsingin sé frá 9. október 2000, eða rúmum 6 mánuðum eftir að stefnandi hafi gert samning sinn við Hag ehf., en þá hefði óafturkallanleg yfirlýsing Sparisjóðs Hafnarfjarðar átt að liggja fyrir. Stefndi hafi ekki gætt þess að yfirlýsingar Sparisjóðsins væru bindandi fyrir hann um afléttingu veðskulda. Það hafi ekki verið fyrr en þegar stefnandi seldi Krókháls 5d og e til Íslenskrar erfðagreiningar að gengið hafi verið í að fá yfirlýsinguna frá Sparisjóðnum.
Stefnandi haldi því fram að hvert og eitt þeirra atriða sem vikið sé að hér að framan sé nægjanlegt til að fella fébótaábyrgð á stefnda svo sem krafist sé í málinu. Í lögum nr. 54/1997 sé það grundvöllur fébótaábyrgðar fasteignasala að fjártjón verði vegna gáleysis hans, ekki sé krafist stórkostlegs gáleysis. Hvorki stefnandi né Jóhann Lövdal hafi sérþekkingu á fasteignaviðskiptum, en Jóhann sé bílasali og hann hafi ekki fengið greidda söluþóknun heldur aðeins greitt fyrir að meta bifreiðarnar sem komu til greiðslu samkvæmt kaupsamningnum.
Samkvæmt 5. gr. sömu laga beri fasteignasala að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans. Stefndi hafi keypt slíka ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda og sé honum því stefnt til réttargæslu þar sem stefnandi eigi kröfu á hendur honum verði á það fallist að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda á þeim forsendum sem dómkrafa stefnanda sé byggð á.
Stefnandi vísi til laga nr. 54/1997, almennra reglna skaðabótaréttarins og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr., og að öðru leyti til XXI. kafla laganna um málskostnað og 32. gr. varðandi varnarþing. Einnig sé vísað í lög nr. 50/1988 varðandi virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi lýsir málsatvikum þannig að stefnandi hafi samið beint og milliliðalaust við Hag ehf. um kaup á hluta Krókháls 5d og e. Samningsaðilar hafi gengið frá kauptilboði 1. febrúar 2000. Stefnandi hafi notið aðstoðar félaga síns, Jóhanns Lövdal bílasala, í samningum við Hag ehf., en samið hafi verið um alla efnisþætti viðskiptanna áður en aðilar hafi leitað til stefnda um aðstoð við að ganga frá endanlegum kaupsamningi. Þar sem viðskiptin hefðu þegar komist á er leitað var til stefnda hafi hlutverk hans fyrst og fremst verið að ganga frá kaupsamningi og gæta þess að í honum kæmu fram þau atriði, sem skylt sé að fram komi í kaupsamningi, svo sem ástand eignar, stærð hennar, byggingarlag og byggingarefni, svo og áhvílandi veðskuldir, eins og getið sé í 12. gr. laga nr. 54/1997.
Stefndi hafi gert stefnanda þegar ljóst, áður en gengið var frá kaupsamningnum, að Hagur ehf. væri í þeirri stöðu að hann ætti hina seldu eign með skilyrtum kaupsamningi við Búlka ehf. Stefndi hafi brýnt fyrir stefnanda áhættu þessara viðskipta vegna stöðu Hags ehf. gagnvart Búlka ehf. og hugsanleg vandkvæði vegna gerðar eignaskiptasamnings svo og áhættu vegna veðsetningar og kröfu um áritun Búlka ehf. á kaupsamninginn. Þegar öll þessi atriði höfðu verið rædd til hlítar af aðilum hafi stefndi gengið frá kaupsamningi 8. febrúar 2000 og hafi hann byggt samninginn á grunni ofangreinds kauptilboðs aðila frá 1. febrúar sama ár.
Kaupsamningurinn hafi verið vandlega unninn og í honum sé að finna öll þau efnisatriði sem gera megi kröfu til í slíkum samningi, þ.e.a.s. lýsingu á því hvernig hinu selda skuli skilað, sundurliðun á kaupverði í samræmi við kauptilboð, skýrt sé nákvæmlega frá áhvílandi veðskuldum og hvernig og hvenær þeim skuli aflýst, en sérstaklega sé þess getið að aðilar hafi kynnt sér veðbókarvottorð og vottorð Fasteignamats ríkisins, brunabótamat, eignaskipta- og lóðasamning. Þá sé sérstakt ákvæði í samningnum þess efnis að seljandi skuli hraða eins og unnt sé gerð og þinglýsingu nýrrar eignaskiptayfirlýsingar og ekki sé unnt að þinglýsa kaupsamningnum fyrr en nýjum eignaskiptasamningi hafi verið þinglýst á eignina og Búlki ehf. hafi áritað samninginn. Undir þennan kaupsamning hafi stefnandi skrifað eftir að honum hafi verið gerð full grein fyrir þessu. Til þess að Búlki ehf. samþykkti kaupsamninginn hafi verið gerður viðbótarsamningur, viðauki við kaupsamning vegna Krókháls 5d og 5e, 18. febrúar 2000, en undir þann samning hafi Hagur ehf., Búlki ehf. og stefnandi skrifað.
Í 2. tl. greiðsluliðs kaupsamningsins frá 8. febrúar 2000 sé gert ráð fyrir því að stefnandi greiddi gegn skilyrtu veðleyfi strax við fokheldi á Krókhálsi 5d og 5e í febrúar eða mars sama ár 40.000.000 króna, enda skyldi greiðslan ganga beint og milliliðalaust til Búlka ehf. Mismunur greiðslu þessarar og kaupverðsins hafi að mestu verið greiddur með bifreiðum sem taldar séu upp í kaupsamningnum. Tekið sé fram í honum að hafi greiðslan, 40.000.000 króna, ekki borist til Búlka ehf. tíu dögum eftir fokheldi, beri kaupanda að greiða 15,5% vexti á þá greiðslu sem eftir standi frá þeim degi til greiðsludags. Við aðalmeðferðina kom fram að stefndi hefði haft símsamband við starfsmann Sparisjóðs Hafnarfjarðar og fengið þannig staðfest að veðskuldin á hinni seldu eign hafi verið 40.000.000 króna, en þær upplýsingar hafi miðast við að kaupsamningurinn yrði efndur, þ.e. að greiðsla færi fram í febrúar eða mars 2000.
Erfiðlega hafi gengið með efndir Hags ehf. á kaupsamningnum, enda hafi Hagur ehf. verið að nokkru bundinn efndum Búlka ehf. á samningi sem einnig hafi gengið illa að efna. Stefndi hafi ekki getað og hafi raunar enga aðild átt að því með hverjum hætti kaupsamningurinn yrði efndur. Hann hafi hins vegar reynt eftir megni, að beiðni aðilanna, að aðstoða þá við að greiða úr málum. Að lokum hafi stefnanda tekist að selja Íslenskri erfðagreiningu eignarhluta sinn í Krókhálsi 5e, sem hafi orðið til þess að leysa ákveðinn hnút í málinu gagnvart Sparisjóði Hafnarfjarðar, og ákveðið hafi verið að stefnandi tæki að sér að greiða fyrir Hag ehf. 10.864.117 krónur. Samkomulag um það hafi stefndi sett á blað að beiðni aðila og í greiðaskyni við þá, en hann hafi engan hlut átt að því, hvorki að hvetja né letja til gerðar þess. Í framhaldi af samkomulaginu og yfirlýsingu frá 14. júní 2001 hafi stefndi að beiðni aðila gengið frá kaupsamningi sama dag milli Suðurstáls ehf. og stefnanda um kaup stefnanda á eignarhlut seljanda í fasteigninni nr. 12 við Suðurhraun í Garðabæ. Stefnandi hafi ætlað að selja eignina aftur, en þessir löggerningar hafi átt að verða til þess að stefnandi næði endurgreiðslu þess fjár sem hann hafi orðið að greiða umfram umsamda greiðslu vegna kaupsamningsins við Hag ehf. Kaupsamningnum frá 14. júní 2001 hafi stefnandi síðan rift einhliða. Sama dag og stefnandi hafi tilkynnt um riftun, 10. október 2001, hafi hann sent Fasteignamiðlun í Reykjavík bréf þar sem hann hafi tilkynnt um riftunina en segi jafnframt í niðurlagi bréfsins "greiði Hagur ehf. mér ekki ofangreinda skuld kann endurgreiðslukröfu að verða beint að Fasteignamiðlun" og sé þetta í fyrsta sinn sem stefnandi gefi í skyn að hann kunni að eiga kröfu á hendur stefnda þótt hann hafi beint bréfi sínu formlega til fyrirtækis stefnda, Fasteignamiðlunar ehf.
Eftir að hafa árangurslaust reynt að innheimta kröfu sína á hendur Hag ehf. hafi stefnandi leitað til lögmanns sem hafi ritað stefnda bréf 6. mars 2002, þar sem fullyrt sé að stefndi beri ábyrgð á því að kaupsamningur hans og Hags ehf. hafi verið með þeim hætti að stefnandi hafi neyðst til að greiða meira en honum hafi borið til að fá eignina veðbandalausa og til að getað skilað henni af sér í umsömdu ástandi til þess sem hann hafi selt hana. Þessu bréfi hafi stefndi svarað með ítarlegu bréfi til lögmannsins 20. apríl s.á. Enn hafi lögmaður stefnanda ritað stefnda bréf 27. maí s.á. og reki þar þau atriði er hann telji styðja bótarétt stefnanda gagnvart stefnda. Þessu bréfi hafi stefndi svarað 17. september s.á. og hafi hann andmælt þar lið fyrir lið ásökunum stefnanda og neitað allri bótaskyldu. Stefndi hafi síðan lagt málið fyrir réttargæslustefnda sem tryggi stefnda ábyrgðartryggingu. Í bréfi lögmanns réttargæslustefnda komi fram að það sé mat félagsins að ekki sé gáleysi stefnda um að kenna að stefnandi hafi orðið að greiða margrædda stefnufjárhæð til þess að fá fasteignina Krókháls 5d og e leysta úr veðböndum.
Aðalmálsástæða stefnda sé sú að hann hafi í viðskiptum sínum við stefnanda í hvívetna gætt skyldu sinnar sem fasteignasali í samræmi við ákvæði laga nr. 54/1997 og hafi hvorki aðhafst viljandi né óviljandi neitt sem skapað gæti honum skaðabótaábyrgð. Sparisjóður Hafnarfjarðar hafi með yfirlýsingu lofað málalokum sem hafi verið í samræmi við kaupsamninginn. Tjónið hafi orðið vegna vanefnda sem hafi staðið í marga mánuði. Sérstaklega beri að líta á aðdraganda að kaupum stefnanda á fasteigninni, en stefndi hafi ekki komið að því máli fyrr en stefnandi hafði gert bindandi kauptilboð í eignina sem Hagur ehf. hafi samþykkt. Ljóst sé því að stefndi hafi ekki komið kaupunum á og hafi starfsskyldur hans miðast við þetta. Stefnandi sé þekktur athafnamaður, alvanur viðskiptum og þar öllum hnútum kunnugur. Auk þess hafi hann notið aðstoðar viðskiptafélaga síns, Jóhanns Lövdal, við kaupin, sem stefnandi hafi sagt að hefði mikla þekkingu á fasteignaviðskiptum, og hafi Jóhann þegið þóknun fyrir vinnu sína og aðstoð við stefnanda. Stefnandi hafi vitað gjörla um bága fjárhagsstöðu bæði Hags ehf. og húsbyggjandans, Búlka ehf., þegar hann hafi leitað eftir kaupum á áðurnefndu húsnæði og hafi boðið bifreiðar af ýmsu tagi sem greiðslu, en þær séu lélegur gjaldmiðill. Sé fráleitt að stefnandi hefði náð samningi um kaup á þennan hátt hefði verið um að ræða byggingar- eða söluaðila með sterka fjárhagsstöðu.
Málsástæðum og lagarökum stefnanda sé öllum mótmælt, hverri fyrir sig og í heild, sem röngum enda margt þar í hrópandi mótsögn við skýr ákvæði í kaupsamningi þeim sem stefndi hafi útbúið fyrir stefnanda og Hag ehf. og hafi gengið frá að þeirra beiðni eftir að þeir hafi þegar undirritað og samþykkt kauptilboð og rætt alla efnisþætti viðskiptanna.
Stefndi hafi gert stefnanda ljósa stöðu Hags ehf., þ.á m. þá staðreynd að Hagur ehf. ætti aðeins eignina Krókháls 5d og 5e með skilyrtum kaupsamningi við Búlka ehf. um Suðurhraun 12B og hafi vakið sérstaka athygli hans á áhættu í þessum viðskiptum vegna viðskipta Hags ehf., Búlka ehf. og Suðurhrauns ehf. Stefndi hafi sýnt stefnanda samninginn milli Hags ehf., Búlka ehf. og Suðurhrauns ehf. Stefnandi hafi þannig stofnað til þessara viðskipta með opin augu og vitneskju um hag seljanda og viðskipti hans við aðra aðila er málið snerti.
Til þess að fá áritun Búlka ehf. á kaupsamninginn milli stefnanda og Hags ehf. frá 8. febrúar 2000, sem stefnandi hafði gert sér fulla grein fyrir að hafi verið nauðsynlegt til þess að samningurinn öðlaðist gildi, hafi þurft að gera viðbótarsamning 18. febrúar 2000. Stefnandi hafi því gert sér fulla grein fyrir erfiðleikum Hags ehf. á að standa við kaupsamning sinn við Búlka ehf. og þeim erfiðleikum sem kynnu að verða á efndum á kaupsamningnum frá 8. febrúar 2000. Stefnandi hefði á þeim tíma getað hætt við kaupin, hefði hann talið þau á einhvern hátt sér óhagkvæm eða of áhættusöm, en stefndi hefði sérstaklega varað stefnanda við áhættu í þessum viðskiptum. Eftir gerð kaupsamningsins hafi allt sem stefndi gerði fyrir aðila hans verið gert að beiðni þeirra, í þeirra þágu og að þeirra ráði. Þannig hafi stefndi aldrei hvatt stefnanda til neinna aðgerða heldur hafi stefndi framkvæmt það sem hann hafi verið beðinn um, jafnvel langt umfram skyldu, til þess að reyna að greiða fyrir framgangi málsins og firra aðilana tjóni. Stefndi mótmæli öllum ásökunum um vanrækslu eða brot á starfsskyldum sem varðað gætu hann bótaábyrgð.
Málskostnaðarkrafan sé studd málskostnaðarákvæðum laga nr. 91/1991, sérstaklega 130. gr.
Málsástæður og lagarök réttargæslustefnda
Af hálfu réttargæslustefnda er málsatvikum lýst þannig að áður en gengið var frá kaupsamningnum hafi stefndi gert stefnanda ljóst að Hagur ehf. væri í þeirri stöðu að hann ætti hina seldu eign með skilyrtum kaupsamningi við Búlka ehf. Stefndi hafi brýnt fyrir stefnanda áhættu viðskiptanna. Í kaupsamningnum sé meðal annars sérstaklega tekið fram að 40.000.000 króna skyldu greiddar gegn skilyrtu veðleyfi strax við fokheldi á Krókhálsi 5d og 5e í febrúar eða mars 2000 og að greiðslan skyldi ganga beint og milliliðalaust til veðhafa. Gert hafi verið ráð fyrir að veðsetning vegna greiðslunnar kæmi skipt á eignarhluta eftir nýjum eignaskiptasamningi. Seljandi hafi samkvæmt kaupsamningnum skuldbundið sig til þess að hraða eins og unnt væri gerð og þinglýsingu nýrrar eignaskiptayfirlýsingar svo ekki hamlaði veðsetningum á eignina, en samningsaðilum hafi sérstaklega verið kunnugt um að hvorki hafi verið hægt að veðsetja eignina í hlutum né gefa út afsal fyrir eignarhlutanum skiptum fyrr en nýjum eignaskiptasamningi hefði verið þinglýst. Kaupsamningnum yrði ekki þinglýst fyrr en nýjum eignaskiptasamningi hefði verið þinglýst á eignina og Búlki ehf. hefði áritað samninginn. Með viðbótarsamningi hafi því verið afstýrt að kaupsamningi Hags ehf. og Búlka ehf. yrði rift. Stefndi hafi getað losnað undan kaupunum þegar í ljós kom að Hagur ehf. gat ekki staðið við samninginn en forsenda samningsins hafi verið sú að Hagur stæði við hann.
Mikill dráttur hafi orðið á að eignin yrði fokheld og hafi hún ekki verið afhent stefnanda fokheld fyrr en í mars 2001, sem teljist veruleg vanefnd af hálfu Hags ehf. Samkvæmt yfirlýsingu Sparisjóðs Hafnarfjarðar 9. október 2000 hafi stefnanda verið gefinn kostur á að greiða 40.000.000 króna sem hafi átt að greiðast í febrúar eða mars 2000. Hann hafi ekki orðið við þeirri áskorun. Með nýrri yfirlýsingu 20. nóvember 2000 hafi honum verið gefinn kostur á að greiða skuldina með 42.550.000 krónum og enn með nýrri yfirlýsingu 19. janúar 2001 með 45.000.000 króna. Það hafi svo ekki verið fyrr en 7. mars 2001 sem stefnandi hafi greitt Sparisjóðnum og hafi honum þá verið gert að greiða 50.864.117 krónur. Samkvæmt þessu hafi Sparisjóður Hafnarfjarðar veitt stefnanda átta mánaða frest til að greiða skuldina óbreytta. Stefnanda hafi borið að greiða á réttum tíma til að koma í veg fyrir tjón sitt. Honum hafi verið í lófa lagið að greiða umræddar 40.000.000 króna til Sparisjóðsins með fyrirvara um útgáfu hins skilyrta veðleyfis til að firra sig tjóni. Einnig hafi honum staðið til boða það úrræði að greiða hluta skuldarinnar og halda eftir fjárhæð sem hafi numið áætluðum kostnaði hinn 9. október 2000 við að gera húsið fokhelt. Hvorugt þessara úrræða hafi stefnandi nýtt sér sem honum hafi borið skylda til samkvæmt reglum kröfu- og skaðabótaréttarins til að firra sig öllu mögulegu tjóni.
Ljóst sé af framangreindu að stefnandi hafi fyrst og fremst orðið fyrir tjóni vegna afhendingadráttar af hálfu Hags ehf. og vegna eigin athafnaleysis við að firra sig tjóni. Að sama skapi sé ljóst að stefndi beri enga ábyrgð á vanskilum Hags ehf. og stefnanda og verði því ekki skaðabótaskyldur af þeim sökum, enda ekki aðili máls og beri þar af leiðandi ekki ábyrgð á að aðilar vanefndu kaupsamninginn. Hann hafi hins vegar reynt eftir megni, að beiðni aðilanna, að aðstoða þá við að greiða úr málum.
Vegna vanskila Hags ehf. hafi stefnandi og Hagur ehf. gert með sér samkomulag 7. mars 2001, þar sem stefnandi hafi lofað að greiða Hag ehf. 10.864.117 krónur, að frádregnum vöxtum af 40.000.000 króna frá 17. janúar 2001, sem hafi verið hlutur Hags ehf. í greiðslunni til Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Hagur ehf. hafi lofað að greiða umrædda fjárhæð til baka, m.a. með kaupsamningi á milli Hags ehf. og Suðurstáls ehf. annars vegar og Búlka ehf. hins vegar um fasteignina Suðurhraun 12B. Rangt sé að samkomulag þetta hafi verið gert að frumkvæði stefnda, heldur hafi það verið gert að beiðni aðila og hafi stefndi engan hlut átt að því. Hið rétta sé að stefnandi hafi spurt stefnda út í fyrrnefnda eign, áður en samkomulagið var gert, og hvort það væri honum í hag að gera tilraun til uppgjörs með því að taka eignina til skuldajöfnunar að hluta. Stefndi hafi bent honum á að verð eignarinnar væri of hátt, eignin of skuldsett og að sala sambærilegra eigna gengi ekki vel. Að öðru leyti hafi stefndi ekki viljað taka frekari afstöðu til viðskiptanna enda hafi þau nánast verið umsamin milli aðila. Það sé því rangt að stefndi hafi ráðlagt stefnanda að kaupa eignina að Suðurhrauni 12B og fullyrt að stefnandi myndi ná þeim fjármunum til baka sem stefnandi hefði ofgreitt fyrir Hag ehf. þar sem stefnandi gæti selt eignina strax aftur fyrir sama verð og hann hafi keypt hana á. Stefnanda hafi verið fullljós sú áhætta sem hann hafi tekið með kaupum sínum á Suðurhrauni 12B og beri hann því einn ábyrgð á þessum kaupum. Að beiðni aðila, þ.e. stefnanda, Hags ehf. og Suðurstáls ehf., hafi stefndi síðan útbúið kaupsamning í samræmi við efni hans. Þar sem Suðurstál ehf. hafi síðan ekki getað aflétt veðum sem hvílt hafi á Suðurhrauni 12B hafi stefnandi ákveðið að rifta kaupunum 10. október 2001. Hann hafi jafnframt gert Hag ehf. og stefnda grein fyrir riftuninni og yfirvofandi innheimtuaðgerðum hjá Hag ehf. Þegar ljóst var að Hagur ehf. myndi ekki greiða skuld sína við stefnanda vegna mjög svo bágrar fjárhagsaðstöðu hafi stefnandi farið þess á leit við stefnda að hann greiddi kröfuna en því hafi stefndi mótmælt.
Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við frágang kaupsamnings milli stefnanda og Hags ehf. Einnig sé því haldið fram að stefndi hafi aldrei gert stefnanda grein fyrir því að einhver hætta yrði á því að yfirtekin lán yrðu hærri en samið var um. Þessu sé öllu sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda og taki réttargæslustefndi undir þau mótmæli. Hagur ehf. og stefnandi hafi komið með fullfrágengið kauptilboð til stefnda. Stefndi hafi tekið að sér að annast skjalagerð í samræmi við fyrirliggjandi tilboð. Að öðru leyti hafi stefndi ekki komið að samningsgerðinni, hvorki með beinum né óbeinum hætti. Öll efnisatriði samningsins hafi alfarið verið samningsaðila en stefndi hafi ekki getað haft þar nein áhrif. Stefnandi sé alvanur viðskiptum og hafi notið aðstoðar löggilts bílasala við tilboðs- og kaupsamningsgerðina og hafi hann fengið þóknun fyrir það starf af sameiginlegri þóknun hans og stefnda. Hagur ehf. hafi skýrt veðsetningu á eigninni fyrir stefnanda og Jóhanni við gerð kauptilboðsins. Við gerð kaupsamningsins hafi áhvílandi veðlán verið skilmerkilega færð inn í hann. Einnig hafi sérstaklega verið brýnt fyrir aðilum skyldur þeirra til þess að greiðsla og aflýsing veðlána héldust í hendur. Loks hafi verið skýrt kveðið á um að aðilar hefðu kynnt sér öll gögn er vörðuðu eignina, þ.á m. veðbókarvottorð. Fullyrðingum stefnanda um að stefndi hafi vanrækt að gæta hagsmuna hans við þessi kaup sé því mótmælt sem röngum. Stefnanda hafi verið fullljóst um stöðu áhvílandi lána á eigninni.
Stefnanda hafi verið fullkunnugt um bága fjárhagsstöðu Hags ehf. og húsbyggjandans, Búlka ehf., þegar hann hafi leitað eftir kaupum á áðurnefndu húsnæði. Hann hefði ekki náð samningi um kaup á þann hátt sem hann gerði hefði verið um að ræða byggingar- eða söluaðila með sterka fjárhagsstöðu. Stefnandi hefði getað hætt við kaupin, hefði hann talið þau á einhvern hátt sér óhagkvæm eða of áhættusöm, en honum hafi verið fullkunnugt um erfiðleika Hags ehf. á að standa við kaupsamning sinn við Búlka ehf. og þá erfiðleika sem kynnu að verða á efndum þegar viðbótarsamkomulagið var gert 18. febrúar 2000.
Stefndi hafi gætt að því að öll atriði sem 12. gr. laga nr. 54/1997 kveði á um væru uppfyllt í kaupsamningnum, meðal annars um áhvílandi veðskuldir.
Fullyrðingu stefnanda um að stefndi hafi ekki gætt ákvæða 10. gr. laga nr. 54/1997 sé röng og órökstudd. Allt sem stefndi hafi gert í málinu hafi verið að beiðni aðila, í þeirra þágu og að þeirra ráði. Stefndi hafi aldrei farið út fyrir verksvið sitt heldur einungis framkvæmt það sem hann hafi verið beðinn um, jafnvel langt umfram skyldu, til þess að greiða fyrir framgangi málsins og firra aðilana tjóni.
Stefnandi og Hagur ehf. hafi komið með undirritaðan samning, þ.e. samþykkt kauptilboð í fasteignina að Krókhálsi, til stefnanda og hafi þeir beðið hann um að útbúa kaupsamning í samræmi við efni samningsins. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um áhvílandi veðskuldir, ella hefði hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að gera tilboð í fasteignina án þess að hafa kynnt sér áhvílandi veðskuldir áður. Áður en skrifað var undir kaupsamninginn hafi stefndi gert stefnanda vel grein fyrir stöðu Hags ehf., þ.á m. því að Hagur ehf. ætti eignina með skilyrtum kaupsamningi við Búlka ehf.
Kaupsamningurinn hafi verið vandlega unninn. Þar hafi skýrt verið kveðið á um áhvílandi veðskuldir, vísað í veðbókarvottorð, sem hafi legið frammi, og brýndar fyrir aðilum skyldur þeirra til þess að greiðsla og aflýsing á veðlánum héldust í hendur. Sérstaklega hafi verið tekið fram að seljandi tæki að sér að hraða eins og unnt væri gerð og þinglýsingu á nýrri eignaskiptayfirlýsingu svo ekki hamlaði veðsetningu á eignina. Í kaupsamningnum sé skýrt tekið fram að ekki væri hægt að veðsetja eignina í hlutum né gefa út afsal fyrir eignarhlutanum skiptum fyrr en nýjum eignaskiptasamningi hefði verið þinglýst á eignina og byggingaraðilinn, Búlki ehf., hefði áritað samninginn. Báðum aðilum hafi því verið fullkunnugt um að forsenda þess að samningurinn næði fram að ganga væri í fyrsta lagi að Hagur ehf. stæði við kaupsamning sinn við Búlka ehf. svo hægt væri að ganga frá nýjum eignaskiptasamningi og að greiðsla samkvæmt 2. tl. samningsins bærist til Sparisjóðs Hafnarfjarðar eigi síðar en í mars 2000. Þeim ástæðum sé alfarið hafnað að tjón stefnanda megi rekja til handvammar stefnda heldur megi það fyrst og fremst rekja til eigin vanefnda við Sparisjóð Hafnarfjarðar, vanefnda Hags ehf. og byggingaraðilans, Búlka ehf. Stefndi hafi í viðskiptum sínum við stefnanda að öllu leyti gætt skyldu sinnar sem fasteignasali í samræmi við ákvæði laga nr. 54/1997 og hafi hvorki viljandi né óviljandi aðhafst neitt sem skapað gæti honum bótaábyrgð. Tjónið verði ekki rakið til háttsemi stefnda.
Í kaupsamningnum sé skýrt kveðið á um það að 40.000.000 króna ættu að ganga beint og milliliðalaust til Sparisjóðs Hafnarfjarðar strax við fokheldi hússins í febrúar eða mars 2000 og að greiðslan bærist til þeirra eigi síðar en 10 dögum eftir fokheldi. Eftir þann tíma skyldi kaupandi greiða 15,5% vexti á þá greiðslu sem eftir stæði frá þeim degi til greiðsludags. Tekið hafi verið sérstaklega fram að þessar 40.000.000 króna bæru fasta vexti og hafi stefndi þar af leiðandi ekki á nokkurn hátt getað haft áhrif á að skuldin hækkaði í samræmi við vaxtaákvæði kaupsamningsins.
Niðurstaða
Samkvæmt 12. gr. laga um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu nr. 54/1997 ber fasteignasala að afla ákveðinna upplýsinga við kaupsamningsgerð, meðal annars um áhvílandi veðskuldir. Breytir engu um þá skyldu þótt samningsaðilar hafi þegar náð samkomulagi um kaupin og alla efnisþætti kaupsamningsins eins og stefndi vísar til. Hér verður hins vegar að líta svo á, með vísan til þess sem fram hefur komið, að við kaupsamningsgerðina 8. febrúar 2000 hafi legið fyrir þær upplýsingar að greiða þyrfti hluta veðskuldar við Sparisjóð Hafnarfjarðar til að aflétta veðinu af fasteigninni og að miðað hafi verið við að stefnandi greiddi veðhafa 40.000.000 króna þegar húsið yrði fokhelt í febrúar eða mars sama ár. Óumdeilt er að húsið varð ekki fokhelt fyrr en mörgum mánuðum síðar og einnig dróst að ganga frá eignaskiptasamningi. Af þessum sökum var veðskuldin ekki greidd á þeim tíma sem gert var ráð fyrir í kaupsamningnum. Með yfirlýsingu Sparisjóðs Hafnarfjarðar 9. október 2000 var staðfest að Sparisjóðurinn myndi leysa ákveðinn hluta fasteignarinnar úr veðböndum gegn því að eignaskiptasamningi yrði þinglýst þar sem fram komi skipting á eignahlutum þannig að unnt verði að aflétta skuldum af þeim hluta sem um var að ræða og gegn greiðslu 40.000.000 króna. Þegar stefnandi greiddi skuldina í mars 2001 hafði hún hækkað vegna vaxta sem á hana höfðu fallið á tímabilinu, en í samkomulagi stefnanda, Hags ehf. og Suðurstáls ehf. 7. mars sama ár kemur fram að umrædd veðskuld hafði verið á yfirdráttarvöxtum og hefði hún hækkað í samræmi við það. Telja verður að tjón stefnanda sé að rekja til þessa. Þar með hafa ekki verið færðar nægar sönnur fyrir því að tjónið verði rakið til þess að ekki hafi legið fyrir nægar upplýsingar við kaupsamningsgerðina um veðskuldina eða að stefndi hafi vanrækt að afla skriflegra upplýsinga um stöðu skuldarinnar þegar greiðslan átti að fara fram í febrúar eða mars 2000.
Af hálfu stefnanda er jafnframt vísað til þess að stefnda hafi borið að afla bindandi yfirlýsingar frá Sparisjóðnum við kaupsamningsgerðina um fjárhæð greiðslunnar gegn því að veðskuldinni yrði aflétt. Eins og málið liggur fyrir verða ekki talin næg rök fyrir því að stefnda hafi borið að afla slíkrar yfirlýsingar, enda var ekki unnt að leysa fasteignina úr veðböndum fyrr en að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, meðal annars að eignaskiptasamningi hefði verið þinglýst en það var ekki gert fyrr en löngu síðar, eins og áður hefur komið fram, og sem var störfum og skyldum stefnda óviðkomandi.
Þá er og vísað til þess af stefnanda hálfu að stefndi hafi vanrækt að gera stefnanda grein fyrir því að hætta gæti verið á að umræddum veðskuldum yrði ekki aflétt. Samkvæmt kaupsamningnum bar seljanda fasteignarinnar að aflétta áhvílandi veðskuldum í síðasta lagi 15. júní 2000 með því að greiða það sem eftir stæði af þeim þegar stefnandi hafði greitt 40.000.000 króna vegna þeirra. Af stefnda hálfu er því haldið fram að hann hafi upplýst stefnanda um áhættur vegna veðsetninganna og um aðrar áhættur af viðskiptunum eins og að framan greinir. Með vísan til þess sem fyrir liggur í málinu verður að telja ósannað að stefnandi hafi vanrækt að veita stefnanda viðeigandi upplýsingar í þessum efnum.
Samkvæmt framangreindu eru skilyrði bótaskyldu ekki fyrir hendi og ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sverrir Kristjánsson, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Sigurðar B. Sigurðssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.