Hæstiréttur íslands

Mál nr. 248/2011


Lykilorð

  • Vanreifun
  • Meðdómsmaður
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Ómerking héraðsdóms


                                     

Fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Nr. 248/2011.

Guðjón Magnússon

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

EJS ehf. og

Magnúsi Steinari Norðdahl

(Anton B. Markússon hrl.)

Vanreifun. Sérfróðir meðdómsmenn. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta. Ómerking héraðsdóms.

G krafði E ehf. og M um miskabætur þar sem af hálfu E ehf. hefði verið farið inn á einkanetfang hans og skoðaðir tölvupóstar, sem E  ehf. hefði svo hagnýtt í þágu dómsmáls. Þá krafðist G að E ehf. og M yrðu látnir sæta refsingu samkvæmt 228. gr., sbr. c-lið 19. gr. almennra hegningarlaga. Hæstiréttur vísaði refsikröfu G sem og kröfum hans á hendur M frá héraðsdómi þar sem framsetning krafnanna í stefnu hefði ekki fullnægt tilteknum stafliðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá taldi Hæstiréttur að héraðsdómara hefði borið að kveðja til meðdómsmenn til þess að leysa úr málsástæðum aðila sem kröfðust sérkunnáttu. Þar sem það hefði ekki verið gert var héraðsdómur ómerktur og þeim þáttum málsins, sem ekki hafði verið vísað frá héraðsdómi, vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. febrúar 2011. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 30. mars 2011 og áfrýjaði hann öðru sinni 26. apríl sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst þess að stefndu verði óskipt dæmdir til þess að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júní 2009 til greiðsludags. Hann krefst þess einnig að stefndu verði dæmdir til refsingar samkvæmt 228. gr., sbr. 19. gr. c. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að dómkrafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í stefnu til héraðsdóms krafðist áfrýjandi miskabóta með tilgreindri fjárhæð ásamt dráttarvöxtum óskipt úr hendi stefndu. Þá gerði hann einnig svofellda kröfu: „Þá er þess jafnframt krafist að stefndu verði dæmdir til refsingar samkvæmt 228. gr. sbr. c-lið 19. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“ Krafa með þessu meginefni er áfrýjanda heimil samkvæmt 3. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar verður talið með vísan til d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að í kröfunni sjálfri verði að koma fram að minnsta kosti lágmarkslýsing á þeim verknaði sem refsingu er talinn varða enda hafa hinir stefndu ríka hagsmuni af því að getað varist kröfunni án þess að þurfa að geta sér til um þetta. Þessu skilyrði er ekki fullnægt í stefnunni og verður því framangreindri refsikröfu vísað frá héraðsdómi.

Í stefnu til héraðsdóms kemur fram að stefndi Magnús Steinarr sé framkvæmdastjóri stefnda EJS ehf. Hins vegar er þar ekki gerð grein fyrir grundvelli þess að honum er stefnt persónulega til óskiptrar greiðslu miskabóta með hinu stefnda fyrirtæki. Uppfyllir stefnan að þessu leyti ekki kröfur e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og verður því þessari kröfu á hendur Magnúsi Steinari einnig vísað frá héraðsdómi.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi varðar málið ágreining aðila um aðgang að tölvupósti áfrýjanda frá þeim tíma er hann var í starfi hjá stefnda EJS ehf. og hvort slíkur póstur hafi verið sóttur án heimildar áfrýjanda. Liggja meðal annars fyrir í málinu tvær matsgerðir, þar sem leitast er við að svara spurningum sem þetta varða. Byggja málsaðilar á niðurstöðum þessara matsgerða. Úr málsástæðum, sem að þessu lúta, eins og sakarefni málsins er háttað, er dómara ófært að leysa á grunni almennrar þekkingar sinnar, menntunar eða lagaþekkingar, heldur er þar þörf sérkunnáttu. Bar héraðsdómara því að kveðja til meðdómsmenn, sem slíka kunnáttu hafa, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem það var ekki gert er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa þeim þáttum málsins, sem ekki hefur verið vísað frá héraðsdómi samkvæmt því sem að framan greinir, heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar á ný.

Með hliðsjón af málsatvikum verður málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður. 

Dómsorð:

Refsikröfu áfrýjanda, Guðjóns Magnússonar, á hendur stefndu, EJS ehf. og Magnúsi Steinari Norðdahl, er vísað frá héraðsdómi.

Öðrum kröfum áfrýjanda á hendur stefnda Magnúsi Steinari er einnig vísað frá héraðsdómi.

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar um aðrar kröfur áfrýjanda á hendur stefnda EJS ehf.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 19. október 2010, var höfðað 30. júní 2009.  Stefnandi er Guðjón Magnússon, Bæjarholti 5, Hafnarfirði en stefndu eru EJS ehf., Grensás­vegi 10, Reykjavík og Magnús Steinarr Norðdahl, Bröttutungu 2, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla vaxtalaga frá 10. mars 2009 til greiðsludags.

Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til refsingar samkvæmt 228. gr., sbr. c-lið 19. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefndu eru aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað.

Stefndu kröfðust þess í upphafi aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 26. nóvember 2009, var þeirri kröfu hafnað.

II

Stefndi EJS ehf. er upplýsingatæknifyrirtæki og stefndi Magnús er framkvæmdastjóri félagsins og hefur verið svo frá því í september 2008.  Stefndu kveða að stefndi EJS ehf. hafi um árabil verið einn stærsti söluaðili landsins á tölvum, útstöðvum, miðlara­bún­aði, afgreiðslutækjum og tilheyrandi þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga.

Stefnandi hóf störf hjá stefnda EJS ehf. hinn 2. maí 2006 og starfaði hann sem tækni­maður á hýsingarsviði.  Kveða stefndu stefnanda hafa verið helsta sérfræðing stefnda EJS ehf. í Microsoft hugbúnaði.  Stefnandi og stefndi EJS ehf. undirrituðu hinn 3. febrúar 2009 samkomulag um starfslok stefnanda og lét stefnandi af störfum samdægurs. 

Stefndu kveða einn mikilvægasta birgi stefnda EJS ehf. vera bandaríska fyrirtækið EMC sem sé leiðandi í heiminum á sviði gagnastæða og afritunarlausna.  Hafi stefndi EJS ehf. um árabil verið eini umboðsaðili EMC á Íslandi í gegnum dótturfélag sitt EXA ehf.  Hafi stefndi EJS ehf. selt og þjónustað EMC-búnað til fyrirtækja og annarra innlendra aðila um langt skeið og hafi fyrirtækið fjárfest talsvert í þjálfun og þekkingu starfsmanna sinna.

Stefndu kveða að hinn 4. febrúar 2009 hafi stefnda Magnúsi borist upplýsingar, sem hann hafi metið trúverðugar, um alvarleg brot stefnanda og sex annarra starfsmanna stefnda EJS ehf. á starfs- og trúnaðarskyldum gagnvart fyrirtækinu en upplýsingar þessar byggðust á tölvuskeytum sem stefndu höfðu undir höndum.  Starfsmenn þessir hafi verið auk stefnanda, Ægir Vopni Ármannsson, Ólafur Páll Ragnarsson, Guðni Þór Hauks­son, Ragnar Eysteinsson, Jón Viggó Gunnarsson og Erlendur Ísfeld.  Hafi allir þessir aðilar sagt upp störfum hjá stefnda á tímabilinu frá 26. september 2008 til 4. febrúar 2009.  Hafi brot þessara starfsmanna falist í því að þeir hefðu um nokkurra mánaða skeið markvisst og skipulega unnið að því að koma undan trúnaðargögnum og atvinnu­­leyndar­­málum í eigu stefnda EJS ehf.  Hafi tilgangurinn verð að nýta trúnaðar­gögnin og atvinnuleyndarmálin í þágu nýs fyrirtækis sem stefnandi og sexmenning­arnir hafi ætlað sér að stofna og hefja samkeppnisrekstur við stefnda EJS ehf.  Upp­haf­­lega hafi staðið til að fyrirtækið héti XA ehf. en nafn þess hafi síðar verið ákveðið UTF ehf., meðal annars vegna ruglingshættu við EXA ehf. dótturfélag stefnda EJS ehf.  Samþykktir UTF ehf. eru dagsettar 1. mars 2009 og er stefnandi skráður einn stofnenda þess.  Kveða stefndu að fyrirtækið UTF ehf. sé komið í harða samkeppni við stefnda EJS ehf., einkum varðandi EMC-þjónustu hér á landi.

Stefndi EJS ehf. taldi meint trúnaðarbrot stefnanda alvarleg og óskaði eftir því með beiðni 10. febrúar 2009 til sýslumannsins í Hafnarfirði að lagt yrði lögbann við því stefnandi hæfi störf hjá einkahlutafélaginu XA, kæmi fram fyrir hönd félagsins, kynnti það eða sinnti nokkrum öðrum verkefnum fyrir það. Við meðferð málsins hjá sýslumanni voru lagðar fram útprentanir á ætluðum tölvupóstsamskiptum stefnanda og framangreindra sex aðila, meðal annars úr netfanginu gudjon@gudjon.is sem stefndi EJS ehf. taldi sýna að tilgangurinn með stofnun XA ehf. væri að fara í samkeppni við hann.  Sýslu­maður hafnaði lögbanns­beiðn­inni.

Stefnandi hafnar því að hann hafi brotið trúnað við stefnda EJS ehf., hvorki fyrir starfslok hans 3. febrúar 2009 né síðar.  Hafi stefndu sent út dreifibréf þar sem óhróðri hafi verið dreift um stefnanda sem eigi sér enga stoð.

Að kröfu stefndu var Kristinn Guðjónsson, sérfræðingur í tölvubrotarannsóknum dómkvaddur matsmaður í máli þessu hinn 3. desember 2010 og er matsgerð hans dagsett 14. mars 2010.

III

Stefnandi kveður skoðun stefndu á tölvuskeytum hans og framlagning þeirra í dómsmáli vera brot á trúnaði í vinnusambandi aðila og ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, hvort sem fram­kvæmda­stjóri eða annar starfsmaður stefnda EJS ehf. hafi viðhaft þá háttsemi.  Sé þó alvarlegri sú staðreynd að skoðað hafi verið einkanetfang stefnanda og hans einkamál sem á engan hátt hafi tengst störfum hans hjá stefnda EJS ehf. og hafi stefndu verið óheimilt að skoða og nýta tölvuskeyti þessi.  Stefndi EJS ehf. beri, sem sé ábyrgðaraðili, ábyrgð á meðferð upplýsinga sem unnið hafi verið með í óþökk stefnanda og sé í andstöðu við lög.  Umrædd tölvuskeyti hafi stefndu afbakað til að reyna að fela uppruna þeirra auk þess sem þau hafi verið lögð fram í lögbannsmáli 10. febrúar 2009.

Með framkomu sinni hafi stefndu brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda sem tryggð sé í 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1944, sem og lögum nr. 77/2000 og lögum um fjarskipti nr. 81/2003.  Sé hér um að ræða refsiverðan verknað sem brjóti í bága við 228. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda hafi stefndu komist yfir gögnin með brögð­um með því að opna einkabréf stefnanda.

Þar sem stefndu hafi ekki upplýst hver hafi staðið þar að verki eða með hvaða hætti brotist hafi verið inn í tölvupóstfang stefnanda sé óhjákvæmilegt annað en að stefna framkvæmdastjóra félagsins og félaginu in solidum til greiðslu miskabóta samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og til refsingar vegna athafna sinna enda hafi þeir unnið með persónuupplýsingar í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/2000.

Hvaða aðferð stefndu hafi beitt við að komast inn á einkanetfang stefnanda sé ekki að fullu ljóst, þótt stefnandi telji að það hafi verið gert með því að fara inn á netfangið gudjon@gudjon.is, sem verið hafi í hýsingu hjá stefndu.  Þó sé augljóst að stefndu hafi komist yfir netföng og lykilorð með ólögmætum hætti, auk þess sem þeir hafi reynt að hylja uppruna tölvuskeytanna.  Óumdeilt sé að stefndu hafi skoðað og nýtt tölvuskeyti stefnanda meðal annars með framlagningu þeirra í dómsmáli.  Sönnunar­byrði fyrir því að stefndu hafi ekki komist yfir tölvuskeyti stefnanda með ólögmætum hætti hvíli alfarið á stefndu enda hafi stefnandi ekki aðgang að tölvum eða öðrum upplýsingum sem sannreyni ólögmæta háttsemi stefndu.

Stefnandi kveðst einnig hafa verið með lénið xa.is og hafi sjö netföng verið stofnuð inn á lénið, þeirra á meðal netfang stefnanda og hafi þau öll verið hýst hjá Símanum.  Hinn 12. janúar 2009 hafi lénið verið afskráð.  Hafi Síminn verið beðinn um að slökkva á hýsingunni og eyða þeim gögnum sem þar væru fyrir en því hafi ekki verið sinnt.  Í febrúar 2009 hafi svo verið farið með ólögmætum hætti inn á gudjon@gudjon.is og þannig hafi stefndu eða starfsmenn stefnda EJS ehf. komist yfir notenda­nöfn og lykilorð netfanga á léninu xa.is.  Hafi netföng og tölvuskeyti þessara sjö aðila, þar á meðal stefnanda, verið skoðuð og prentuð út.  Sé útilokað að unnt hafi verið að komast með öðrum hætti yfir tölvuskeyti aðila enda sé eitt tölvuskeytanna áframsent skeyti á sendanda og annað frá heimabanka viðkomandi þar sem staðfesting á milli­færslu hafi verið send.  Til að komast yfir þær upplýsingar verði að fara beint í netfang viðkomandi.

Þá kveður stefnandi að umræddum tölvuskeytum sem lögð hafi verið fram í lögbanns­mál­inu hafi verið breytt frá upprunalegri mynd til að reyna að fela uppruna þeirra.  Þar sem stefndi EJS ehf. sé hýsingaraðili fyrir netfangið gudjon@gudjon.is teljist hann jafnframt ábyrgðaraðili samkvæmt lögum nr. 77/2000 og beri honum skylda til að varðveita upplýsingar og koma í veg fyrir að meðferð slíkra upplýsinga sé með þeim hætti sem viðhöfð hafi verið í málinu. 

Það að brjótast inn í netföng og skoða tölvuskeyti sem þar voru, prenta þau út og leggja fram í lögbannsmáli sé áþekk aðferð og að brjótast inn í læstar hirslur, sbr. 228. gr. almennra hegningarlaga.  Þá sé krafist bóta vegna ólögmætrar meingerðar gegn friði og persónu stefnanda með því að fara inn á einkatölvupóstfang hans og breyta þar persónu­­upplýsingum, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Miðist krafan við að um mjög alvarlegt brot sé að ræða sem átt hafi sér stað í trúnaðar­sambandi á milli aðila og að mati stefnanda sé fjárhæð miskabóta hóflega ákvörðuð.

Um lagarök að öðru leyti en að framan greinir vísar stefnandi sérstaklega til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.  Um málskostnað vísar hann til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. tl. 129. gr. þeirra laga.  Um samlagsaðild vísar stefnandi til 19. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndu telja að skilja verði málatilbúnað stefnanda á þann veg að dómkröfur hans byggist fyrst og fremst á því að stefndi Magnús eða einhver annar starfsmaður stefnda EJS ehf. hafi farið með ólögmætum hætti inn á einkanetfang stefnanda gudjon@­gudjon.is og komist þar með yfir umrædd tölvuskeyti og lykilorð að vefsvæðinu xa.is sem verið hafi í eigu stefnanda.  Þessu hafni stefndu.

Í stefnu sé stefnandi með ýmsar getgátur um hvernig stefndu eigi að hafa komist yfir skeytin án frekari sönnunar.  Sú grundvallarregla gildi í einkamálaréttarfari að sá sem sem haldi staðhæfingu fram beri sönnunarbyrði fyrir henni.  Verði að gera þá kröfu til stefnanda að hann styðji fullyrðingar sínar um að tölvuskeytanna hafi verið aflað með ólög­mæt­um hætti einhverjum sönnunargögnum.  Einhliða fullyrðingar stefnanda þess efnis geti ekki talist nægjanlegar til að bótaskylda stefndu myndist eða brot gegn 228. gr. laga nr. 19/1940 teljist vera sannað.

Kjarni málsins sé sá að stefnandi hafi ekki fært neinar sönnur fyrir því að stefndi hafi beitt ólögmætum aðferðum við öflun tölvuskeytanna.  Hitt sé svo annað mál að stefndu hafi gert allt sem í þeirra valdi standi til þess að sýna fram á að þeir hafi ekki aflað skeytanna með ólögmætum hætti, meðal annars með framlagningu matsgerðar.

Skoðun stefndu á hinum útprentuðu tölvuskeytum og framlagning þeirra í lögbanns­máli stefnda EJS ehf. á hendur stefnanda sé ekki brot á 228 gr. almennra hegningar­laga og geti því ekki verið grundvöllur bótaskyldu stefndu.  Séu skilyrði verknaðar­lýsingar umræddrar laga­greinar ekki uppfyllt. 

Í fyrsta lagi hafi ekki verið um að ræða að stefndu hafi verið að hnýsast í einkanetföng aðila heldur hafi útprentuð eintök tölvu­skeytanna fyrst verið lesin af stefndu eftir að þeim hafi borist eintök þeirra.  Í öðru lagi sé ekki hægt að fallast á að innihald tölvu­skeyt­anna geti talist vera einkamál stefn­anda sem komi stefndu ekki við.  Þvert á móti bendi tölvuskeytin til þess að stefn­andi hafi með ólög­mæt­um hætti brotið trúnaðar- og þagnar­skyldur sínar og átt þátt í að koma mikilvægum atvinnuleyndarmálum í eigu stefnda EJS ehf. yfir til hins nýja fyrirtækis.  Fjalli öll tölvuskeytin með einum eða öðrum hætti um brot stefnanda á trúnaðarskyldum sínum við stefnda EJS ehf. og fjalli ekkert þeirra um persónuleg einkamálefni hans. Í þriðja lagi hafi stefndu ekki komist yfir gögnin með brögðum, opnað bréf eða farið í læsta hirslu eins og lagagreinin áskilji.  Hafi hvorki stefndu né aðrir starfsmenn stefnda aflað tölvuskeytanna með þeim ólögmæta hætti sem lýst sé í stefnu.

Jafnvel þótt talið verði að framlagning tölvuskeytanna í lögbannsmálinu kunni að orka tvímælis sé ekki hægt að telja hana ólögmæta enda verið að vernda mikilvæga við­skipta­lega hagsmuni stefnda EJS ehf. gegn ólögmætum aðgerðum stefnanda og sex­menn­inganna.  Sýni tölvu­skeytin svo ekki verði um villst að stefnandi og sexmenn­ing­arnir hafi verið að brjóta gegn hagsmun­um stefnda EJS ehf., meðal annars með því að koma undan atvinnuleyndarmálum, sbr. tölvuskeyti 14. 17 og 19. nóvember og 3. og 8. desember 2008.  Það að ekki sé um ólögmætan verknað að ræða fái stoð í megin­reglunni á bak við 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um hvenær verk teljist vera refsilaust, þ.e. þau verk séu reflislaus sem nauðsyn hafi borið til að vinna í þeim tilgangi að vernda lögmæta hagsmuni fyrir yfirvofandi hættu þótt með því séu skertir aðrir hagsmunir sem telja verði mun minni.

Í stefnu sé efni og innihaldi tölvuskeytanna hvergi mótmælt sem röngu eða fölsuðu.  Einungis sé því haldið fram að tölvuskeytunum hafi verið breytt til að fela uppruna þeirra og hvaðan þeir hafi verið prentaðir út.  Með því að mótmæla hvergi efnislegu innihaldi tölvuskeytanna sé stefnandi að viðurkenna réttmæti þeirra.  Þetta sé í mótsögn við það sem stefnandi hafi haldið fram við fyrirtöku lögbannsmálsins hjá sýslumann­in­um í Hafnarfirði þar sem hann hafi haldið því fram að hann hafi aldrei séð þessi tölvuskeyti fyrr og að hann kannaðist ekkert við efni þeirra.  Stefnandi virðist því vís­vit­­andi hafa gefið rangar yfirlýsingar hjá opinberu stjórnvaldi og þannig brotið gegn 145. gr. almennra hegningarlaga. 

Það sé ekki á færi stefndu að svara fyrir fullyrðingar stefnanda um að tölvuskeytunum hafi verið breytt til að fela uppruna þeirra enda hafi þeir engan þátt átt í að afla þeirra.    Jafnvel þótt tölvuskeytunum hafi verið breytt til að fela uppruna þeirra með þeim hætti sem stefnandi haldi fram sé hvorki um vinnslu persónuupplýsinga að ræða né að verið sé að breyta persónuupplýsingum eins og stefnandi haldi fram.  Samkvæmt 3. gr. laga nr. 77/2000 gildi lögin um sérhverja rafræna vinnslu persónu­uppplýs­inga og ekki sé að sjá að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki.  Þá vísi stefnandi almennt til laga um fjarskipti nr. 81/2003 og fullyrði að brotið sé gegn þeim án þess að skýra það nánar.  Stefnandi vísi ekki til neinna lagaákvæða í umræddum lögum og sé því ómögulegt að átta sig á þessum fullyrðingum hans.

Fari svo að ekki verði fallist á kröfur stefndu um sýknu sé þess krafist með vísan til framangreindra málsástæðna varðandi aðalkröfur um sýknu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, einkum með hliðsjón af því að stefndu hafi ávallt talið sig í fullum rétti til að gæta mikilvægra viðskiptalegra hagsmuna sinna sem þeir töldu ógnað með ólögmætum aðgerðum stefnanda eins og komið hafi á daginn.

Stefndu mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda sem vísi til III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 en stefndu hafi ekki verið krafðir skaðabóta fyrr en með málshöfðun þessari og sé því rangt að miða við 10. mars 2009.

Um lagarök að öðru leyti en að framan greinir vísa stefndu til meginreglna um sönnun.  Málskostnaðarkröfu sína byggja þeir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.

V

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu á því að með því að skoða tölvuskeyti úr einkanetfangi stefnanda og leggja þau fram í lögbannsmáli hafi þeir brotið trúnað í vinnusambandi aðila og ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd.  Þá hafi þeir brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda og lög um fjarskipti nr. 81/2003.  Sé háttsemi stefndu refsiverð samkvæmt 228. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda hafi stefndu komist yfir gögnin með brögð­um með því að opna einkabréf stefnanda.

Skilja verður málatilbúnað stefnanda þannig að hann byggi á því að stefndi Magnús eða annar starfsmaður stefnda EJS ehf. hafi brotist inn í persónulegt netfang stefnanda gudjon@gudjon.is og prentað þaðan út tölvuskeyti sem hann hafi síðan breytt til að fela uppruna þeirra.  Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnda Magnúsi hafi borist umræddi tölvuskeyti útprentuð skömmu eftir að starfslokasamningur var gerður við stefnanda 3. febrúar 2009.

Samkvæmt 228. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn, sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns, og hann hefur komist yfir gögnin með brögðum, opnað bréf, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð.  Sömu refsingu skal sá sæta sem á ólögmætan hátt verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi.  Telur stefnandi að stefndu hafi komist yfir umrædd tölvuskeyti með brögðum og hafi þeir með því opnað einkabréf stefnanda.  Þannig megi líkja þeirri háttsemi þeirra, að brjót­ast inn í netföng stefnanda, skoða tölvuskeytin sem þar voru, prenta þau út og leggja þau fram í lögbannsmálinu, við það að brjótast inn í læstar hirslur.

Óumdeilt er að umrædd tölvuskeyti sem varða stefnanda virðast koma frá eða eru send í einkanetfang hans gudjon@gudjon.is.  Í málinu liggur frammi matsgerð dómkvadds matsmanns sem stefndu öfluðu og kemur þar fram að matsmaður hafi verið kallaður til að sannreyna hvort brotist hafi verið inn á framangreint netfang og eftir atvikum hver hafi gert það eða þá hvaðan.  Matsgerðin er því marki brennd að rannsókn matsmanns á matsefninu leiddi í ljós að of takmarkaðar upplýsingar væru til staðar svo að hægt væri að svara þeim spurningum sem lagðar voru til grundvallar mats­beiðni.  Kemur fram í niðurstöðu matsgerðarinnar að þær takmörkuðu upplýsingar sem hægt væri að endurheimta bentu ekki til að óeðlilegar tengingar hafi átt sér stað þótt ekki væri hægt að útiloka það að öllu leyti vegna skorts á upplýsingum.

Spurningar þær sem lagðar voru fyrir matsmann voru:

1.                       Var farið inn á netfangið gudjon@gudjon.is með óeðlilegum hætti, til að mynda án rétts notandanafns og lykilorðs, fram til 10. febrúar 2009?

2.                       Ef svarið við spurningu 1 er játandi, hvort unnt sé að sjá úr hvaða tölvu það hefur verið gert, til að mynda hvort unnt sé að vita IP tölu umræddrar tölvu?

3.                       Ef svarið við spurningu 1 er neitandi, þ.e. ef einungis var farið inn á netfangið gudjon@gudjon.is með eðlilegum hætti á grundvelli rétts notandanafns og lykilorðs fram til 10. febrúar 2009, er hægt að sjá úr hvaða tölvu/tölvum það var gert, til að mynda hvort unnt sé að vita IP tölu umræddrar tölvu?

Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir að miðað við þau gögn sem matsmaður hafi undir höndum séu engar vísbendingar sem bendi til þess að farið hafi verið inn á netfangið gudjon@gudjon.is með óeðlilegum hætti.  Séu engar misheppnaðar innskráningar­tilraun­ir að finna í færsluskrám og engar óeðlilegar færslur sem tengdust pósthólfinu.  Engu að síður megi benda á að færsluskrárnar hafi einungis náð yfir takmarkað tímabil og vanti meðal annars gögn frá tímabilinu 22. janúar til 11. febrúar 2009.  Með vísan til svars við spurningu 1. væri ekki unnt að svara spurningu 2. með fullri vissu.  Sem svar við spurningu 3. birti matsmaður töflur yfir allar IP tölur sem skráðu sig inn í tilgreint netfang.  Tekur matsmaður fram að þar sé einungis um að ræða innskrán­ingar inn í pósthólfið gudjon@gudjon.is.  Ekki sé um að ræða innskráningar inn í Exchange pósthólf sem stefnandi hafi haft hjá stefnda EJS ehf. enda sé ekki hægt að endurheimta þær skrár þar sem of langt sé liðið frá því að meint brot hafi átt sér stað. 

Af töflum þeim sem matsmaður vísar til verður ráðið að IP talan 193.4.129.110 sem tilheyrir netum stefnda EJS ehf. var skráð inn á pósthólf þetta 7. nóvember 2008, 4. janúar 2009 og 3. febrúar 2009.

Stefnandi telur að í febrúar 2009 hafi verið farið með ólögmætum hætti inn á netfangið gudjon@gudjon.is og þannig hafi stefndu eða starfsmenn þeirra komist yfir notendanöfn og lykilorð netfanga á léninu xa.is sem stefnandi hafi einnig verið með.  Hefur stefnandi lagt fram í máli þessu aðra matsgerð hins dómkvadda matsmanns sem dagsett er 6. apríl 2009 þar sem matsþoli er Ægir Vopni Ármannsson en þar var meðal annars spurt hvort farið hafi verið inn á lénið xa.is með óeðlilegum hætti án rétts notandanafns og lykilorðs frá því að lénið var stofnað þar til því var lokað.  Kemur fram hjá matsmanni að þau gögn sem fengist hafi frá Símanum sýni einungis þær innskráningar sem hafi tekist en ekki allar tilraunir til innskráningar.  Því sé ekki hægt að svara því hvort farið hafi verið inn á lénið með óeðlilegum hætti með þeim gögnum sem liggi fyrir.  Hins vegar sé hægt að sýna fram á allar heppnaðar innskráningar og frá hvaða IP tölu og undir hvaða notandanafni skráningin hafi komið.  Hins vegar séu engar vísbendingar um að reynt hafi verið að brjótast inn á vefþjóninn og þannig komast inn á pósthólfið án rétts notandanafns og lykilorðs.

Vísaði matsmaður til taflna varðandi innskráningar á lénið frá 1. febrúar 2009 til 22. mars 2009 og lista yfir allar IP tölur sem skráðu sig inn á því tímabili. Á tímabilinu 5. og 6. febrúar 2009 skráði IP talan 193.4.190.250 með nafnið nat.ejs.is sig inn nokkrum sinnum.  Kemur fram hjá matsmanni að það bendi til þess að IP talan sé notuð sem NAT (Network Address Translation) tala stefnda EJS ehf.  Telur matsmað­ur líklegt að net allra starfsmanna liggi bak við þessa IP tölu og sjáist sama IP talan hvort sem starfsmaður tengist inn á net stefnda EJS ehf. heiman frá sér eða frá starfs­stöð sinni.  Starfsmaður stefnda EJS ehf. Huldar Örn Sigurðsson staðfesti þetta mat matsmannsins með tölvupósti til lögmanns stefndu 7. september 2010.

Matsgerðir þessar sýna ekki fram á það hvort og þá hvaða starfsmaður stefnda EJS ehf. hafi aflað umræddra tölvuskeyta með því að brjótast inn á persónulegt netfang stefnanda eða lénið xa.is heldur renna þær stoðum undir þær fullyrðingar stefndu að þeir hafi ekki aflað umræddra tölvuskeyta með þeim hætti sem stefnandi heldur fram.  Þá verður af framangreindu ráðið að innskráning á IP tölu stefnda EJS ehf. inn á netfangið gudjon@gudjon.is var á þeim tíma sem stefnandi var enn við störf hjá stefnda EJS ehf. og ekki útilokað að hann hafi sjálfur skráð sig þar inn umrætt sinn.  Þá liggur fyrir að allir starfsmenn stefnda EJS ehf. geta notað IP tölu þá sem skráð var inn á lénið xa.is dagana 5. og 6. febrúar 2009. 

Að því sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn þeim fullyrðingum sínum til stuðnings að stefndu hafi komist yfir netföng og lykilorð hans með ólögmætum hætti með því að brjótast inn í netföng hans.  Þá hefur hann heldur ekki sýnt fram á að stefndu hafi afbakað umrædd tölvuskeyti með því að reyna að fela uppruna þeirra og þannig verið að breyta persónuupplýsingum inn á einkatölvu­póst­fangi stefnanda.  Verður stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

Af þeim tölvuskeytum sem liggja frammi í málinu og lögð voru fram við umrætt lögbannsmál verður ráðið að stefnandi ásamt samstarfsmönnum sínum hjá EJS ehf. hinum svokölluðu sexmenningum voru að ráðgera að stofna fyrirtæki sem hefði með höndum ráðgjafarstarfsemi á sviði upplýsingatækni, sem hlaut að verða í samkeppni við stefnda eins og gögn málsins bera með sér að komið hafi á daginn.  Þá bera skeytin með sér að hlutaðeigandi voru að velta fyrir sér nafni á fyrirtækið, fjármögnun þess, útvegun húsnæðis og búnaðar svo og væntanlegum viðskiptavinum.  Hefur stefnandi ekki mótmælt því að efni þessara tölvuskeyta sé rétt.  Var það mat stefnda EJS ehf. á þeim tíma að upplýsingar þær sem fram komu í tölvuskeytum þessum væru þess efnis að stefnandi væri að brjóta trúnað við fyrirtækið með því að stofna fyrirtæki í samkeppni við stefnda EJS ehf. og því eðlilegt að hann brygðist við á þann hátt sem hann gerði enda taldi hann sig vera að verja viðskiptalega hagsmuni sína sem hann byggði á þessum gögnum. 

Ekki verður af neinu þessara tölvuskeyta ráðið að þau snúist um einkamál stefnanda í skilningi 228. gr. almennra hegningarlaga og eru engin gögn í málinu sem styðja það að stefndu hafi skoðað einhver önnur tölvuskeyti en þau sem liggja fyrir í málinu. 

Að því virtu sem nú hefur veri ráðið verður ekki séð að fullnægt sé því skilyrði 228. gr. almennra hegningarlaga að stefndu hafi með notkun umræddra tölvuskeyta verið að hnýsast í gögn sem höfðu að geyma upplýsingar um einkamál stefnanda og að þeir hafi komist yfir gögnin með brögðum s.s. eins og að hafa farið í læsta hirslu eins og stefnandi byggir á.   Hefur stefnandi því heldur ekki sýnt fram á að stefndu hafi á nokkurn hátt brotið gegn friðhelgi einkalífs hans og lögum um persónuvernd nr. 77/2000.  Þá er allsendis óljóst og engin rök færð fyrir því af hálfu stefnanda á hvern hátt stefndu hafi brotið gegn lögum um fjarskipti nr. 81/2003.  Að því virtu, svo og því að stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi sætt ólögmætri meingerð af hálfu stefndu þannig að bótaskylt sé samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1992 verða stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að hver aðili um sig beri sinn hluta kostnaðar af máli þessu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðmundur B. Ólafsson hrl. en af hálfu stefndu flutti málið Gunnlaugur Úlfsson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, EJS ehf. og Magnús Steinarr Norðdahl, eru sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, Guðjóni Magnússyni.

Málskostnaður fellur niður.