Hæstiréttur íslands

Mál nr. 145/2001


Lykilorð

  • Landskipti
  • Stjórnsýsla
  • Rannsóknarregla


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 145/2001.

Gunnlaugur Þórarinsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Birgi Þórðarsyni

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

og gagnsök

 

Landskipti. Stjórnsýsla. Rannsóknarregla.

ÞJ, eigandi jarðarinnar R, skipti jörð sinni í þrjá jafna hluta árið 1957. Hélt hann sjálfur einum hluta en afsalaði sonum sínum, G og Þ, einum hluta hvorum. G hætti búskap árið 1971 og gerði þá samning við Þ og B, son Þ, um afnot þeirra af jörð hans, en skriflegur ábúðarsamningur var ekki gerður. Í mars 1985 stóð ÞJ að gerð skiptasamnings um jarðirnar. Undirritaði Þ þann samning en G samþykkti hann ekki. Í framhaldi af því afsalaði ÞJ sínum hluta jarðarinnar til Þ. ÞJ lést í júlí 1985. Í ágúst sama ár fór G fram á landskipti og lauk þeim með skiptagjörð 15. júlí 1986, þar sem ræktun var skipt sem næst til helminga. Í júní 2000 höfðaði B mál gegn G til ógildingar á skiptagerðinni. Gögn málsins þóttu benda til þess, að hlutur ÞJ í ræktun og öðrum landgæðum jarðarinnar hafi átt að vera jafngildur hlut Þ og G. Þá yrði af afsali ÞJ til Þ ekki annað ráðið en að Þ ætti eftirleiðis 2/3 hluta jarðarinnar og þar á meðal samsvarandi hluta ræktunar. Þetta, ásamt öðru, var talið hafa gefið landskiptanefndinni ærið tilefni til að grafast sérstaklega fyrir um tildrög skiptasamningsins og hvernig samvinnu um ræktun á jörðinni hefði í raun verið háttað. Ekkert benti þó til að svo hefði verið gert. Með hliðsjón af gögnum málsins var talið sannað, að ÞJ hefði á einhverju árabili lagt sitt til sameiginlegrar ræktunar jarðarinnar, þannig að jarðarhluta hans hefði átt að fylgja hlutdeild í ræktun við landskiptin 1986. Það gæti því ekki talist réttur grundvöllur landskipta að ætla Þ og G sem næst jafn stóran hlut í ræktuninni. Var fallist á það með B, að lagaskilyrði væru til ógildingar á landskiptagerðinni að þessu leyti og að krafa þar að lútandi væri ekki niður fallin fyrir tómlæti.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2001 og krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði 21. júní 2001. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað og að aðaláfrýjandi greiði málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur málsaðila lýtur að landskiptum á jörðinni Ríp í Skagafirði, sem fram fóru að kröfu aðaláfrýjanda 15. júlí 1986.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eru þeir helstir, að jörðinni Ríp var skipt í þrjá jafna hluta af eiganda hennar Þórarni Jóhannssyni árið 1957. Hann hafði verið leiguliði á kirkjujörðinni en keypt hana af íslenska ríkinu í desember 1952.  Við skiptinguna hélt hann miðhlutanum, sem varð Ríp I, en afsalaði suðurhlutanum til sonar síns Þórðar, sem fæddur er 1928 og varð sá hluti Ríp II, og norðurhlutanum Ríp III til sonar síns Gunnlaugs, aðaláfrýjanda máls þessa, sem fæddur er 1925. Samkvæmt afsölum 1. ágúst 1957 skyldi jörðinni skipt með beinum línum frá austri til vesturs milli Héraðsvatna að austan og Hegranesvegar eystri að vestan og skyldi Landnám ríkisins framkvæma skiptin, en úr því varð ekki. Árið 1971 flutti aðaláfrýjandi af Ríp III og gerði samning við Þórð bróður sinn um afnot af jörðinni. Þórður og sonur hans Birgir, gagnáfrýjandi þessa máls, nýttu jörð aðaláfrýjanda, en skriflegur ábúðarsamningur var ekki gerður.

Í mars 1985 stóð Þórarinn að gerð skiptasamnings um jarðirnar og naut til þess aðstoðar Egils Bjarnasonar ráðunauts hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga og Sigurgeirs sonar síns. Landinu vestan affallsskurðarins og vestur að þjóðvegi, sem voru hin ræktuðu tún, var þar skipt í þrjá hluta eftir túnkorti gerðu af Búnaðarsambandi Skagfirðinga og dagsettu 10. apríl 1983. Þórður undirritaði samninginn en aðaláfrýjandi samþykkti hann ekki. Í framhaldi af því afsalaði Þórarinn Þórði syni sínum Ríp I hinn 21. mars 1985 og var Þórður þá orðinn eigandi 2/3 hluta Rípur, en aðaláfrýjandi að 1/3 hluta. Þórarinn lést í júlí 1985.

Aðaláfrýjandi sneri sér til sýslumannsins í Skagafjarðasýslu með bréfi 8. ágúst 1985 og fór fram á landskipti. Sýslumaður skipaði þriggja manna matsnefnd samkvæmt 4. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 með bréfi 5. september sama ár. Matsnefndarmenn fóru á sinn fyrsta fund að Ríp 16. apríl 1986 og litu yfir land jarðarinnar og ákváðu að halda fund með hlutaðeigendum hið allra fyrsta, „en undirritaðir hafa áður rætt við þá um málið og aflað sér túnkorta frá Búnaðarsambandinu“ eins og bókað var. Matsmenn funduðu næst 9. maí á Sauðárkróki og er þar bókað um framlögð gögn og ákveðið að boða hlutaðeigendur á staðinn 15. maí 1986. Á þann fund mættu eigendurnir. Bókað var um framlagningu frekari gagna, rannsókn var gerð á landamerkjum Rípur og nærliggjandi jarða samkvæmt 9. gr. landskiptalaga, hús voru skoðuð með tilliti til skipta, litið var yfir tún jarðarinnar og gengið með aðaláfrýjanda um túnspildur norðan heimreiðarinnar. Fjórði fundur matsnefndar var haldinn 26. júní og voru útihús mæld upp. Fram kemur í fundargerð að skýrslu yfir túnstærð Rípur árin 1970 til 1984 gerðri af Búnaðarsambandi Skagafjarðar hafi verið aflað. Skiptum lauk með skiptagjörð 15. júlí 1986, sem afhent var sýslumanni. Fram er komið í málinu að Þórður Þórarinsson hafi ekki viljað veita henni viðtöku með undirritun sinni, en að gagnáfrýjandi hafi staðfest móttöku hennar 10. desember 1986. Í héraðsdómi eru rakin samskipti aðila eftir þetta.

Samkvæmt lokamálslið 5. gr. landskiptalaga gat hver sá eigandi sem óánægður var með skiptin heimtað yfirmat innan sex mánaða frá þeim degi, er skiptin fóru fram, það er fyrir 15. janúar 1987. Það var ekki formlega gert. Lögmaður ritaði fyrir hönd gagnáfrýjanda bréf til sýslumanns 23. júlí 1987 með beiðni um yfirmat, sem hafnað var sem of seint fram kominni. Gagnáfrýjandi óskaði eftir endurskiptum á jörðinni á grundvelli 3. tl. 1. gr. landskiptalaga með bréfi 6. september 1996, en skipaðir landskiptamenn höfnuðu þeirri beiðni með úrskurði 27. febrúar 1998.

Hinn 9. júlí 2001, eftir uppsögu héraðsdóms, var í landbúnaðarráðuneytinu kveðinn upp úrskurður vegna erindis gagnáfrýjanda „að honum yrði veitt leyfi til að leysa til sín útskiptan jarðarpart úr jörðinni Ríp, Rípurhrepp, Skagafirði, Ríp III, skv. 13. og 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976.“ Var innlausnarbeiðninni hafnað með vísun til 13. gr. jarðalaga á þeim forsendum, að ekki lægju fyrir jákvæðar umsagnir frá öllum umsagnaraðilum.

II.

Gagnáfrýjandi kveður lagaheimild ekki hafa verið fyrir landskiptunum samkvæmt lögum nr. 46/1941, þar sem búið hafi verið að skipta landinu og það því ekki verið í óskiptri sameign. Ræktunin hafi verið sameiginleg, þótt landið hafi verið í séreign. Landskiptin hafi þannig verið markleysa og Þórður því hundsað matið.

Jörðinni hafði ekki verið skipt, þótt afsöl hefðu verið gefin fyrir hlutum hennar, enda hafði landeigendum ekki komið saman um skipti í mars 1985. Jörðin var í samnotum, sbr. 1. mgr. 1. gr. landskiptalaga. Ekki verður fallist á, að skiptunum verði að hlíta, þar sem ekki hafi verið krafist yfirmats inna sex mánaða frá lokum þeirra, en það girðir ekki fyrir, að leitað sé úrlausnar dómstóla.

Fram er komið, að eigendum jarðarinnar var gefinn kostur á að vera við skoðun matsmanna og koma að sjónarmiðum sínum. Var andmælaréttar því gætt. Einnig er fram komið, að matsmenn reistu mat sitt á sömu túnkortum og notuð höfðu verið við gerð skiptasamningsins í mars 1985 og að matsmennirnir hafi aflað upplýsinga um ræktun túnanna 1972 frá Búnaðarsambandi Skagfirðinga.

III.

Í málinu nýtur engra gagna um það, hvenær Þórarinn Jóhannsson hætti búskap á Ríp I í þeim skilningi, að hann tæki ekki lengur þátt í sameiginlegri ræktun jarðarinnar Rípur sem ábúandi á þeim hluta hennar. Hins vegar bendir framburður þeirra Egils Bjarnasonar og bræðranna Leifs, Péturs og Sigurgeirs, bræðra aðaláfrýjanda, eindregið til þess, eins og fram kemur í héraðsdómi, að hlutur Þórarins föður þeirra í ræktun og öðrum landgæðum jarðarinnar hafi átt að vera jafngildur hlut sona hans á Ríp II og III, þeirra Þórðar og aðaláfrýjanda Gunnlaugs. Að hinu sama hnígur framburður Þórðar Þórarinssonar, bróður aðaláfrýjanda og föður gagnáfrýjanda. Til þessa bendir jafnframt skiptasamningurinn 11. mars 1985, sem Þórarinn heitinn fékk þá Egil og Sigurgeir til að festa á blað en aðaláfrýjandi neitaði að undirrita. Af afsali Þórarins til Þórðar sonar síns fyrir Ríp I tíu dögum síðar eða 21. mars 1985 verður ekki annað ráðið en verið sé að selja þennan jarðarhluta með öllum gögnum og gæðum á þann veg, að Þórður eigi eftirleiðis 2/3 hluta jarðarinnar og þar á meðal samsvarandi hluta ræktunar.

Framangreind skjöl lágu fyrir landskiptanefndinni á árinu 1986, en þá var Þórarinn látinn. Jafnframt kom fram sú afstaða Þórðar Þórarinssonar, að hann vildi ekkert af þessum landskiptum vita, þar sem merki jarðanna hefðu þegar verið ákveðin með skiptasamningnum 11. mars 1985 og hann eignast hlut föður síns. Þetta tvennt gaf landskiptanefndinni ærið tilefni til að grafast sérstaklega fyrir um tildrög skiptasamningsins og hvernig samvinnu um ræktun á jörðinni hefði í raun verið háttað. Af fundargerðum nefndarinnar og framburði nefndarmannanna Ingvars Gýgjars Jónssonar og Símonar E. Traustasonar verður ekki ráðið, að svo hafi verið gert. Landskiptamennirnir báru hins vegar báðir fyrir héraðsdómi, að Þórarinn hafi verið hættur búskap, þegar hér var komið sögu, og þeir hafi talið, að ræktunin ætti að skiptast sem næst til helminga milli bræðranna Þórðar og aðaláfrýjanda Gunnlaugs. Ingvar Gýgjar kvaðst halda, að það hafi komið fram í gögnum Búnaðarsambandsins, að það hafi aðeins verið bræðurnir tveir, sem staðið hafi að sameiginlegri ræktun jarðarinnar á árunum 1957 til 1971. Engin slík skjöl hafa verið lögð fram í málinu.

Þegar gögn málsins eru virt í heild verður að telja sannað, að Þórarinn heitinn Jóhannsson hafi á einhverju árabili lagt sitt til sameiginlegrar ræktunar jarðarinnar, ýmist með peningum eða vinnuframlagi sona sinna Leifs og Sigurgeirs, þannig að Ríp I hafi að réttu lagi átt að fylgja einhver hlutdeild í ræktun við landskiptin 1986. Úr því verður hins vegar ekki skorið í þessu máli, hver sú hlutdeild átti að vera. Það gat því ekki verið réttur grundvöllur landskipta að ætla hvorum þeirra bræðra Þórði og aðaláfrýjanda Gunnlaugi sem næst jafn stóran hlut í ræktuninni. Verður að fallast á, að lagaskilyrði séu til ógildingar á landskiptagerðinni að þessu leyti og að krafa þar að lútandi sé ekki niður fallin fyrir tómlæti. Vegna kröfugerðar gagnáfrýjanda í héraði er hins vegar ekki unnt að ógilda gerðina í heild, en af ógildingu á 6. lið leiðir þó óhjákvæmilega, að jafnframt verður að ógilda 7. lið hennar.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn málskostnað í Hæstarétti.

Dómsorð:

Liðir 6 og 7 í framangreindri landskiptagerð 15. júlí 1986 eru felldir úr gildi.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 29. janúar 2001

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 4. desember sl., er höfðað af Birgi Þórarinssyni, kt. 070660-5479, Ríp I, Skagafirði á hendur Gunnlaugi Þórarinssyni, kt. 200825-2929, Smáragrund 22, Sauðárkróki með stefnu áritaðri um birtingu 20. júní 2000.

Dómkröfur stefnanda.

Í stefnu segir að málið sé höfðað til ógildingar á landskiptagerð frá 15. júlí 1986 en síðan eru dómkröfur sundurliðaðar í eftirfarandi töluliði:

1.  Að ógilt verði með dómi 6 liður í landskiptagerð frá 15. júlí 1986 er varðar skiptingu á túnum á jörðinni Ríp í Rípurhreppi.

2.  Að viðurkennt verði að landamerki milli jarðanna Ríp I og Ríp III frá affallskurði að þjóðvegi verði norðan við túnspildur RL 1.0 til RL 10.0 á framlögðu jarðakorti frá 10. apríl  1983 og í samræmi við skiptasamning frá 11. mars 1985.

3.  Þá er þess krafist að viðurkenndur verði fullur og óskoraður eignaréttur stefnanda á túnspildum RL. 5.0 til RL. 10.0 á framlögðu jarðakorti frá 10. apríl 1983.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

II.

Málavextir.

Á árinu 1952 eignaðist Þórarinn Jóhannsson, afi stefnanda og faðir stefnda, jörðina Ríp, Rípurhreppi, Skagafirði.  Á árinu 1957 ákvað Þórarinn Jónsson að afsala hlutum jarðarinnar til tveggja sona sinna, stefnda Gunnlaugs og Þórðar föður stefnanda.  Að þessu loknu skiptist jörðin Ríp í þrjá jafna hluta, Ríp I, Ríp II og Ríp III. 

Þann 11. mars 1995 útbjó vitnið Sigurgeir Þórarinsson fyrir hönd föður síns Þórarins Jóhannssonar með aðstoð vitnisins Egils Bjarnasonar, ráðunauts hjá Búnaðarsambandi Skagafjarðar, skiptasamning þar sem kveðið var á um landamerki milli jarðanna.  Merkin voru eftir beinum línum frá austri til vesturs eins og kveðið var á um í afsölum fyrir Ríp III til stefnda Gunnlaugs og fyrir Ríp II til Þórðar föður stefnanda. Í öðrum lið skiptasamnings þessa er merkjum fyrir Ríp III lýst á þann hátt að merki milli Rípur og Beingarðs ráði að norðan en að sunnan ráðist merki af framræsluskurðinum, sem liggi frá austri til vestur frá affallskurði vestur að þjóðvegi, sunnan við túnspildur nr. 11-21 á túnkorti yfir túnin á Ríp gerðu af Búnaðarsambandi Skagfirðinga 10. apríl 1983. 

Á árinu 1985 seldi Þórarinn Jóhannsson syni sínum Þórði Ríp I.  Í afsali kemur fram að landamerki jarðarinnar séu samkvæmt áðurnefndum skiptasamningi.  Með þessu er Þórður orðinn eigandi að Ríp I og Ríp II.  Með afsali dagsettu 20. júlí 1991 selur Þórður syni sínum Birgi, stefnanda máls þessa, Ríp I og Ríp II.

Með bréfi dagsettu 8. ágúst 1985 fór stefndi fram á við sýslumanninn í Skagafjarðarsýslu að ,,…skiptasamningur dagss. 11. mars 1985, verði tekinn upp og skipting jarðarinnar endurskoðuð, sérstaklega þó túnin.  Jafnframt verði sameiginlegum útihúsum á jörðinni skipt af tilkvöddum mönnum."  Þann 5. september þetta ár skipaði sýslumaður þriggja manna nefnd, skv. 4. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, til að framkvæma skipti á landi og sameiginlegum útihúsum jarðarinnar Rípur í Rípurhreppi.  Samkvæmt skiptagjörð hélt nefndin alls fjóra fundi.  Niðurstaða nefndarinnar var sú að merki jarðanna voru samhljóða skiptasamningi sem áður er nefndur að því undanskildu að túnspildur nr. 5 til 10 samkvæmt korti Búnaðarsambands Skagafjarðar frá 1983 komu í hlut Rípur III en ekki Rípur I.  Ekki verður annað ráðið en faðir stefnanda hafi fyrst vitað af niðurstöðu nefndarinnar þegar stefndi afhenti stefnanda skiptagjörðina í lok árs 1986.

Stefnandi heldur því fram að hvorki hann né faðir hans hafi viðurkennt þessa skiptagerð.  Telja þeir að jörðinni hafi verið skipt með skiptasamningi frá 11. mars 1985 og afsölum sem síðar eru til komin og vísa í þann samning.  Þá heldur stefnandi því fram að þeir feðgar hafi rætt skiptagjörðina við sýslumanninn í Skagafjarðarsýslu strax og þeim varð kunnugt um hana og þá farið fram á að yfirlandskipti færu fram.  Sýslumaður hafi hins vegar ekkert aðhafst í málinu og ekki leiðbeint þeim um að slík beiðni yrði að koma fram skriflega.  Kröfu um yfirlandskipti hafi þeir sett fram með bréfi lögmanns dagsettu 23. júlí 1987 en þá var frestur til að krefjast yfirlandskipta liðinn og hafnaði sýslumaður beiðninni á þeim forsendum.  Þá heldur stefnandi því fram að þeir feðgar hafi lýst því yfir við stefnda að þeir teldu sig óbundna af niðurstöðu landskiptanefndarinnar. 

Stefndi flutti af Ríp III á árinu 1971 og eftir það hafði Þórður faðir stefnanda og síðar stefnandi afnot af jörðinni.  Ábúðarsamningur mun hafa verið gerður en ekki undirritaður þó eftir honum hafi verið farið í meginatriðum.  Hins vegar var ekki gert byggingarbréf varðandi jörðina.  Þann 17. desember 1989 sagði stefndi munnlega upp ábúð stefnanda með þeim rökum að hann hygðist sjálfur flytja aftur á jörðina sbr. 3. mgr. 5. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976.  Þessi uppsögn var síðan ítrekuð með bréfi dagsettu 11. desember 1990. 

Í framhaldi krafðist stefndi útburðar á stefnanda af jörðinni og var krafan tekin til greina með úrskurði sem byggði á því að stefndi hygðist flytja á jörðina aftur.  Stefndi hóf hins vegar ekki búskap á jörðinni þrátt fyrir ákvæði 5. gr. ábúðarlaga og enginn nákominn honum heldur leigði stefndi íbúðarhús og túnspildur óviðkomandi aðilum. 

Með bréfi dagsettu 16. júlí 1991 hóf stefnandi tilraunir til að fá jörðina leysta til sín með vísan í 13. og 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976.  Erindi stefnanda hefur ekki enn verið afgreitt í landbúnaðarráðuneytinu af ástæðum sem ekki eru þekktar þrátt fyrir að ítrekað hafi verið gengið á eftir því og jákvæðar umsagnir hreppsnefndar Rípurhrepps og jarðanefndar Skagafjarðarsýslu. 

Með bréfi dagsettu 18. júní 1992 fór stefnandi, með vísan til 5. gr. ábúðarlaga, fram á við stefnda að hann fengi lífstíðarábúð á Ríp III.  Hann leitaði liðsinnis hreppsnefndar Rípurhrepps og jarðanefndar Skagafjarðarsýslu en hreppsnefndin neitaði að gefa umsögn þar sem hún hafði þegar sent umsögn til landbúnaðarráðuneytisins varðandi innlausnarbeiðnina. 

Þar sem tilraunir stefnanda báru ekki árangur óskaði hann eftir endurskiptum á jörðinni á grundvelli 3. tl. 1. gr. landskiptalaga með bréfi dagsettu 6. september 1996.  Endurlandskiptanefnd var skipuð en með úrskurði dagsettum 27. febrúar 1998 hafnaði hún beiðni stefnanda með þeim rökum að skilyrði fyrir endurlandskiptum skorti þar sem þau gætu ekki farið fram án þess að skaða stefnda sbr. orðalaga 3. tl. 1. gr. landskiptalaga.

Framburður fyrir dómi.

Stefnandi kveðst hafa heyrt hvernig staðið var að ræktun á Ríp frá 1957 til 1971.  Á árinu 1957 voru túnin 15 hektarar og á tveggja ára tímabili hafi Leifur bróðir stefnda búið með föður sínum og ræktað mjög mikið.  Á árinu 1971 þegar stefndi fór af jörðinni hafi ekkert verið búið að rækta á hans parti það hafi verið gert síðar.  Fyrst hafi tún á parti stefnda verið heyjuð 1974.  Stefndi hafi hins vegar ekki ræktað neitt á jörðinni frá því að hann flutti þaðan.  Stefndi telur að greinargerð Egils Bjarnasonar um túnstærð á Ríp 1971 sé rétt en þar kemur fram að tún á Ríp hafi verið um 41 hektari árið 1971.

Stefnandi kveðst hafa átt Ríp II þegar landskiptanefnd var skipuð af sýslumanni árið 1985.  Hann segir landskiptanefndina aldrei hafa haft samband við sig um eitt eða neitt varðandi málið og ekki gefið honum kost á að tjá sig um það.  Stefnandi segir að forsendur landskiptagerðarinnar séu rangar enda miði þeir við að tún jarðarinnar hafi verið tæpir sex hektarar 1957 en svo hafi ekki verið.  Eftir 1986 hafi ekkert verið ræktað á hluta stefnda en allt ræktanlegt land á hinum parti jarðarinnar sé að fullu ræktað. 

Stefnandi kveðst hafa verið með Ríp III í ábúð og faðir hans á undan honum en um það hafi ekki verið gerður skriflegur samningur en ábúðinni hafi lokið með því að stefndi sagði henni upp á árinu 1987.  Hann hafi farið af þeim parti sem hann taldi í eigu stefnda en ekki þeim parti sem um er deilt.  Hann hafi í framhaldi af þessu verið borinn út af þeim parti sem stefndi hefur haft umráð yfir.  Stefnandi kveðst aldrei hafa viðurkennt gildi landskiptagerðarinnar og alla tíð reynt að ná fram rétti sínum. 

Stefnandi kveðst hafa farið og hitt sýslumanninn í Skagafjarðarsýslu eftir að honum barst vitneskja um landskiptin og greint honum frá óánægju sinni með þau.  Sýslumaður hafi ekkert gert í málinu og þegar lögmaður ritaði bréf vegna skiptanna hafi verið liðnir 7 mánuðir frá því að landskiptanefndin lauk störfum og þá of seint að óska eftir yfirmati.

Stefnandi kveðst hafa eignast jarðarpart föður síns á árinu 1983 en af einhverjum ástæðum hafi afsal ekki verið gert fyrr en á árinu 1991.  Stefnandi kveður föður sinn hafa verið boðað á einn fund landskiptanefndarinnar.  Hann kveðst ekki vita hvaða dag hann móttók landskiptagerðina en það hafi verið seint á árinu sennilega í desember 1996 og það hafi verið stefndi sem afhenti honum gerðina.  Stefnandi kveður vera villur í fylgiblaði Egils Bjarnasonar um túnstær á Ríp en hann kveðst ekki geta sagt til um hvar þær eru. 

Stefndi kveðst hafa fæðst og alist upp á Ríp og ásamt bróður sínum tekið við búinu af föður þeirra á árinu 1957.  Raunar hafi hann aðstoðað föður sinn við að kaupa jörðina á árinu 1952 með því að leggja til peninga til kaupanna.  Hins vegar hafi hann ekki greitt föður sínum fyrir Ríp II þegar hann keypti þann hluta af föður sínum. 

Stefndi segir að búið hafi verið að rækta og grafa allt á hans jarðarparti þegar hann fór frá Ríp á árinu 1971.  Hann segir að ekki hafi verið neitt sérstakt skipulag á því hvar ræktað var hverju sinni meðan þeir bræður bjuggu saman á jörðinni heldur hafi verið ræktað þar sem hentugast þótti hverju sinni og allt búið hafi verið rekið í félagi og svo hafi einnig verið þann tíma sem Leifur bróðir þeirra átti heima á Ríp og ræktaði með þeim bræðrum.  Stefndi segir að faðir hans hafi sagt að þegar hann hætti búskap skyldi jörðinni skipt til helminga milli Þórðar bróður hans og hans sjálfs. 

Stefndi segir að Sigurgeir bróðir hans og Egill Bjarnason hafi útbúið skiptasamning sem hann hafi verið óánægður með sérstaklega hvað varðaði túnstærð.  Hann kveðst ekki hafa komið neitt að því að gera þennan skiptasamning.  Egill hafi þá ráðlegt honum að fara til sýslumanns og óska eftir landskiptum og það hafi hann gert.  Stefndi kveðst hafa verið boðaður á fund nefndarinnar og gengið á merki með Þórarni og Ingvari.  Þórður bróðir hans hafi verið með þegar gengið var á merkin gagnvart Beingarði en önnur merki hafi legið ljós fyrir.  Þórður hafi ekki viljað fara með þeim að skoða túnin. Stefndi kveðst ekki hafa lagt nein gögn fyrir landskiptanefndina.  Hann hafi einungis beðið um skiptin og gengið með nefndinni á merki, skoðað hús og tún annað ekki.  Hann hafi þó farið með skiptagerðina til þinglýsingar.

Stefndi kveðst ekki muna hvenær eða hvernig hann fékk skiptagerðina en sjálfur hafi hann sýnt stefnanda skiptagerðina og hann hafi kvittað fyrir móttöku hennar en Þórður hafi ekki viljað skrifa undir. 

Stefndi kveðst ekki geta svarað því hversu stór túnin á Ríp voru 1957 þegar þeir bræður tóku við jörðinni og treysti sér ekki til að segja neitt um það.  Hann segir að ekkert hafi verið ræktað á Ríp eftir að hann fór þaðan 1971 en eitthvað hafi verið grafið.  Hann kveðst þó ekki geta fullyrt þetta en hafi eitthvað verið ræktað eftir að hann fór af jörðinni þá hafi hann tekið þátt í kostnaði við það enda hafi samstarf á Ríp haldið áfram nokkuð eftir að hann var fluttur þaðan. 

Stefndi kveðst ekki hafa flutt aftur á jörðina eftir að hann fór þaðan á árinu 1971 en sonur hans hafi um tíma átt þar lögheimili. 

Vitnið, Þórður Þórarinsson, faðir stefnanda og bróðir stefnda segir að túnin á Ríp hafi verið um 15 hektarar á árinu 1957.  Ræktun hafi síðan aukist eftir að Leifur bróðir hans kom að Ríp um 1960 en hann hafi átt vél sem notuð var til þess verks.  Á tímabilinu 1957 til 1971 hafi mikið verið ræktað meðan Leifur bjó á parti föður þeirra.  Þeir bræður hafi ræktað allt í félagi.  Vitnið segir að eftir að stefndi var farinn af jörðinni hafi verið ræktað á hans parti og vestustu stykkin hafi fyrst verið slegin 1974 og önnur nokkrum árum síðar.  Á þessum árum hafi besta ræktunarlandið allt verið á parti stefnda.  Eitthvað hafi verið búið að grafa þegar stefndi fór en hann hafi ekki komið neitt að ræktuninni og ekki greitt fyrir hana.

Vitnið segir að skiptasamningur sá sem Egill Bjarnason og Sigurgeir bróðir hans gerðu hafi verið sanngjarn enda hafi faðir þeirra alltaf talið að hann ætti þriðjung jarðarinnar.  Faðir þeirra hafi þó ekki stundað mikinn búskap heldur hafi þeir bræður séð um bústofn hans. 

Vitnið segir að hann hafi verið boðaður á einn fund hjá landskiptanefndinni.  Í það sinn hafi verið farið á merki milli Beingarðs og Rípur og Hamars og Rípur en þess hafi ekki þurft því þau voru ljós.  Þetta hafi verið eini fundurinn sem hann vissi til að haldinn hafi verið en nefndin hafi ekki haft neitt samband við hann varðandi eitt eða neitt er skiptin varðaði.  Hann segir að vel geti verið að honum hafi verið gefinn kostur á að fara með nefndarmönnum um túnin á þessum fyrsta fundi.  Vitnið ber að landskiptanefndin hafi ranglega lagt til grundvallar að ræktun ætti einungis að skipta á milli tveggja aðila enda hafi faðir þeirra alltaf lagt sitt af mörkum til ræktunarinnar.  Þannig hafi Sigurgeir bróðir þeirra unnið mikið að ræktun þegar hann bjó heima hjá föður þeirra.  Vitnið telur að peningalega hafi þáttur föður þeirra ekki verið minni en þeirra bræðra í ræktuninni.  Þá hafi Leifur bróðir þeirra lagt til tæki og mikla vinnu þegar hann bjó á parti föður þeirra um tíma.  Telja verði hans vinnu tilheyra parti pabba þeirra.  Vitnið segir að hann hafi litið svo á að honum bæri skylda til að rækta á parti stefnda eftir að stefndi var farinn af jörðinni enda hafi þá ekkert verið búið að rækta á hans parti. 

Vitnið segir að hann hafi rekið mjólkurbú í félagi við stefnda en þeir hafi haft fé og hross í sitt hvoru lagi.  Ræktun hafi þeir unnið sameiginlega en þeir hafi byrjað heima við húsin og tilviljun ráðið því hvar þeir ræktuðu áfram en jörðin hafi verið nýtt sem ein heild. 

Vitnið segir að landskiptanefndin hafi tekið tún af Ríp I og lagt til stefnda en það hafi verið ranglega gert.  Að hans mati átti nefndin að óska eftir því að hann ræktaði á parti stefnda hefði vantað tún og það hefði verið auðsótt mál þar sem búið var að ræsa fram land þar.  Vitnið segist hafa heyrt hver niðurstaða skiptanefndarinnar var skömmu áður en frestur til að óska eftir yfirmati var að renna út.  Þá hafi stefnandi farið og gert athugasemdir við sýslumann en hann hafi ekki gert neitt í málinu.  Hann segir að sér hafi ekki verið afhent gerðin með formlegum hætti.  Vitnið segir að hann hafi litið svo á að búið væri að setja niður merki milli jarðanna með afsölum og skiptasamningi sem útbúinn var á árinu 1985 en þá hafi faðir þeirra verið að afhenda honum sinn part jarðarinnar. 

Vitnið Egill Bjarnason, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Skagfirðinga bar að hann hafi tekið saman greinargerð sem liggur frammi í málinu og segir að hún hafi verið unnin eftir þeim gögnum sem fyrir lágu á þeim tíma.  Vitnið kveðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að rætt væri að skipta jörðinni eins og fram kemur í skiptasamningi sem hann gerði.  Hann hafi talið að við skiptinguna hafi allir partar jarðarinnar verið nærri jafnstórir og með jafn stórum túnum.  Skiptasamningurinn hafi í raun verið tillaga af hans hálfu en fyrir hafi legið að það átti að skipta jörðinni í þrjá jafna hluta en tekið tillit til stærðar og landgæða.  Vitnið segist hafa ráðlagt aðilum að jafna mismun með peningagreiðslum eða ræktun ef eitthvað misræmi væri í tillögunni en hún hafi einnig tekið mið af því hvar hentugt var að merki væru.  Vitnið kveðst ekki geta sagt til um hvort búið var að rækta eitthvað á parti stefnda árið 1971 en telur að svo hafi ekki verið.  Vitnið kveðst ekki geta skýrt mismun á túnstærð sem fram kemur í skýrslum Búnaðarsambandsins. 

Vitnið Sigurgeir Þórarinsson, bróðir stefnda og föðurbróðir stefnanda er fæddur og uppalinn á Ríp.  Hann segir að túnin á Ríp hafi verið nálægt 15 hekturum árið 1957 þegar jörðinni var skipt.  Ræktun hafi síðan haldið áfram eftir það.  Hann hafi tekið mikinn þátt í því fyrir hönd föður síns en öll vinna við ræktun hafi verið unnin í samvinnu frá 1957 til 1971.  Leifur bróðir þeirra hafi komið mikið að ræktuninni þegar hann bjó á Ríp I um tveggja til þriggja ára skeið.

Vitnið segir að faðir hans hafi óskað eftir því við hann að hann kæmi að gerð skiptasamnings fyrir hans hönd.  Vilji föður þeirra hafi verið skýr, skiptin hafi átt að vera réttlát og þó línur sem skiptu jörðinni hafi átt að vera beinar hafi túnstykki átt að halda sér.  Þannig hafi tún sem lögð voru til Ríp III verið nánast þriðjungur af heildartúnum jarðarinnar á þeim tíma eða um 15 hektarar.  Vitnið segir að ljóst sé að vilji föður hans hafi staðið til þess að hans partur fengi hluta í ræktuninni og faðir þeirra hafi verið sáttur við niðurstöðu þá sem hann og Egill komust að.  Eftir að stefndi var farinn af jörðinni hafi Þórður ræktað tún á parti stefnda.

Vitnið segist hafa verið boðaður á fyrsta fund landskiptanefndarinnar og hann hafi gengið á merki milli Beingarðs og Rípur.  Hann segist ekki vita til þess að neitt hafi verið bókað á þessum fundi og hann hafi ekki séð neina fundargerð.  Á þessum tíma hafi hann verið orðinn eigandi að lítilli spildu, fjórum hekturum, nyrst á landi Rípur.  Vitnið segir að það hafi verið í verkahring landskipatnefndarinnar að hafa samband við hann og kynna honum niðurstöður sínar en hann hafi ekki átt að þurfa að leita til nefndarinnar að fyrra bragði.  Að sögn vitnisins óskuðu nefndarmenn ekki eftir því að hann tjáði sig um málið eða legði fram gögn á þessum eina fundi sem hann var boðaður á en það hafi verið í eina skiptið sem nefndarmenn settu sig í samband við hann. 

Vitnið segir að ári eftir að hann og Egill Bjarnason höfðu skilað sinni skiptagerð sem faðir hans var mjög sáttur við hafi hann séð að búið var að þinglýsa skiptagerð sem hann kannaðist ekki við.  Sú skiptagerð hafi fellt niður það sem hann og Egill höfðu áður gert og hann taldi sanngjarnt og eðlilegt.  Forsendur landskiptagerðar hafi verið rangar og niðurstaða nefndarinnar algerlega óviðunandi. 

Vitnið Leifur Hreinn Þórarinsson, bróðir stefnda og föðurbróðir stefnanda, kvaðst hafa fæðst og alist upp á Ríp og því þekkja vel til þar.  Vitnið segir að túnin á Ríp hafi verið nálægt 15 til 20 hekturum árið 1957.  Vitnið segist hafa búið á parti föður þeirra á árunum 1960 til 1962 og þá unnið mikið að ræktun.  Alla tíð hafi ræktun verið unnin í samvinnu þeirra er þar bjuggu.  Vitnið segist geta fullyrt að þegar stefndi flutti af jörðinni hafi ekki verið búið að rækta neitt á hans parti.  Vitnið kveðst þekkja lítillega til þeirrar vinnu sem vitnin Sigurgeir og Egill lögðu í að skipta jörðinni. Faðir hans hafi sagt að hann hafi viljað að túnsléttur héldu sér þrátt fyrir skiptin.  Vitnið ber að alla tíð hafi legið fyrir að faðir þeirra hafi ætlað sér hluta í öllum framkvæmdum á jörðinni til jafns Ríp I og III.  Hann kveðst hafa frétt að í hlut Rípur I hafi einungis komið 5 hektarar af ræktuðu landi og það sé óeðlilegt og óskiljanlegt.  Vitnið undrast einnig að jörðinni hafi ekki verið skipt með beinum línum eins og alltaf lá fyrir að ætti að gera. 

Vitnið Pétur Þórarinsson, bróðir stefnda og föðurbróðir stefnanda fæddist og ólst upp, líkt og bræður hans, á Ríp en fluttist þaðan alfarinn haustið 1956.  Vitnið segir að túnin á Ríp hafi verið u.þ.b. 15 til 18 hektarar árið 1957.  Hann segir að Leifur bróðir þeirra hafi búið í tvö ár á parti föður þeirra og þá ræktað mikið með tækjum sem hann átti.  Vitnið segist vita til þess að jörðinni var skipt í þrjá jafna hluta og þá áttu Þórður og Gunnlaugur einn part hvor og pabbi þeirra einn.  Vitnið segir að ekki hafi verið búið að rækta neitt á parti Gunnlaugs þegar hann flutti frá Ríp 1971.  Vitnið segist hafa haft það á tilfinningunni að pabbi þeirra hafi alltaf gert ráð fyrir að hans partur ætti hlut í ræktuninni til jafns við hina.

Vitnið Ingvar Gýgjar Jónsson, var formaður landskiptanefndarinnar sem skipti landi á Ríp.  Vitnið segir að nefndin hafi haldið nokkra fundi og um þá séu til fundargerðir sem liggi frammi í málinu og telur hann að þær skýri sig sjálfar.  Í fundargjörðunum komi fram hvaða fylgiskjöl voru lögð fram hverju sinni og skiptin byggi á þeim gögnum.  Til grundvallar á túnstærð hafi þeir notað túnkort frá Búnaðarsambandi Skagafjarðar svo og upplýsingar um ræktunarstyrki.  Vitnið segir að lagt hafi verið til grundvallar hver ræktun var á jörðinni frá árinu 1957 til 1971 og henni hafi verið skipt til helminga milli stefnda og Þórðar.  Í því efni hafi verið horft til þess að ræktun eftir 1957 hafi eingöngu farið fram á Ríp II og Ríp III.  Þær upplýsingar hafi komið frá Búnaðarsambandi Skagafjarðar.  Þá telur vitnið að fyrir hafi legið upplýsingar um að Þórarinn faðir stefnda hafi hætt búskap.  Matsnefndarmenn hafi ekki haft upplýsingar um að aðrir en Þórður og Gunnlaugur hafi staðið að ræktun eftir að Þórarinn hætti búskap.  Að sögn vitnisins hafði nefndin haft undir höndum drög að skiptasamningi frá 11. mars 1985 og nefndarmenn hafi fallist á hann mætti leggja til grundvallar um annað land en tún. 

Á þriðja matsfundi hafi verið lagt fyrir aðila að ná sáttum um deiluefnið en það hafi ekki gengið eftir.  Á þessum fundi hafi skiptin í heild sinni verið rædd.  Vitnið segist muna eftir því að hafa sent aðilum bréf um að koma að sínum sjónarmiðum eða kynna sér þau gögn sem fyrir nefndinni lágu.  Að sögn vitnisins voru aðilar ekki boðaðir með sannanlegum hætti nema á einn fund nefndarinnar en telur að þeir hafi verið boðaðir á fleiri fundi.  Á þriðja fundinum hafi aðilum verið gefinn kostur á að koma að gögnum en ekki hafi verið leitað sérstaklega eftir gögnum frá aðilum.  Vitnið segir að á þessum árum hafi almennt sá háttur verið hafður á að boða aðila einungis á einn fund með formlegum hætti en á aðra fundi hafi verið boðað óformlega.

Vitnið segir að aðilar hafi mætt á einn fund en hann muni ekki hvort þeir voru boðaðir á fleiri fundi eða hvort þeir mættu þar en þó minnir hann að Gunnlaugur og Þórður hafi verið á fleiri fundum. 

Vitnið Símon E. Traustason var einn matsnefndarmanna.  Vitnið segir nefndina hafa aflað sér gagna frá Búnaðarsambandi Skagafjarðar einkum túnkorta og á þeim hafi verið byggt við skiptin.  Vitnið segir að aðilar hafi verið boðaðir á einn fund nefndarinnar og kveðst ekki muna hvort aðilar hafi mætt á fleiri fundi.  Vitnið segir forsendur fyrir skiptum túna hafi verið þær að þeim var skipt í þrjá jafna hluta og samkvæmt túnkortum hafi komið um 20 hektarar í hlut hvers jarðarparts.  Vitnið segir að Þórður og Gunnlaugur hafi verið bændur á Ríp en Þórarinn hættur búskap og því hafi þeir talið að ræktun ætti ekki að koma í hans hlut.  Vitnið kveðst ekki muna hvaðan þeir fengu upplýsingar um þetta.  Vitnið kveðst ekki muna til þess að nefndin hafi haft upplýsingar um að Leifur Þórarinsson hafi búið um tíma á Ríp og unnið að ræktun.

Vitnið segir að Þórður hafi lýst því að hann vildi ekki koma nærri þessum skiptum því búið væri að skipta jörðinni hann hafi því kosið að koma ekki að þessum skiptum með neinum hætti.  Vitnið segist ekki muna hvort eftir þetta hafi verið leitað til Þórðar um atriði varðandi skiptin.  Vitnið segist ekki muna til þess að aðilar hafi verði boðaðir á fund til að fara yfir gögn þau sem lágu fyrir nefndinni og tjá sig um þau.  Að sögn vitnisins skilaði nefndin niðurstöðu sinni til sýslumannsins í Skagafirði.  Vitnið segist ekki vita hvenær eða hvernig aðilar fengu niðurstöðuna í hendur. 

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að í afsölum Þórarins Þórðarsonar til sona sinna Þórðar og Gunnlaugs frá 1. ágúst 1957 sé skýrt kveðið á um að landamerki jarðanna Ríp I og Ríp III skuli dregin með beinum línum frá austri til vesturs milli Héraðsvatna í austri og Hegranesvegar eystri að vestan.  Í landskiptasamningi frá 11. mars 1985 ítreki Þórarinn þennan vilja sinn.  Með afsali 21. mars 1985 afsalaði Þórarinn Þórði syni sínum Ríp I og í því afsali var tekið fram að landamerki væru samkvæmt landskiptasamningi frá 11. mars það ár.  Stefnandi eignaðist síðan Ríp I og II með afsölum frá föður sínum 20. júlí 1991.  Telur stefnandi að með þessum gerningum hafi myndast beinn og fullkominn eignarréttur að jörðunum Ríp I og II með þeim landamerkjum sem greind eru í þeim skjölum sem að framan eru nefnd enda gat Þórarinn ráðstafað jörðinni með þeim hætti sem hann kaus meðan hann var einn eigandi hennar sbr. 16. gr. landskiptalaga.

Stefnandi byggir einnig á því að afsal Þórarins til stefnda hafi verið örlætisgerningur og fjárhæð sem tilgreind er í afsali sé sett þar til málamynda.  Þegar um örlætisgerninga sé að ræða skuli leggja vilja loforðsgjafa til grundvallar við skýringu á slíkum samningum.  Þórarinn hafi skömmu fyrir andlát sitt með skiptasamningi tilgreint landamerki jarðanna og á vilja hans sem fram kom í því skjali verði að byggja.

Að mati stefnanda hefur stefndi viðurkennt landskiptasamninginn þó hann hafi ekki viljað undirrita hann.  Þannig fari stefndi fram á, í beiðni sinni til sýslumanns, að skiptasamningurinn verði tekinn upp og skipting jarðanna endurskoðuð.  Orðalag þetta bendi til þess að stefndi hafi talið samninginn og landamerki jarðanna bindandi. 

Stefnandi bendir á að í afsali Þórarins til Þórðar sonar síns sé vísað til skiptasamnings frá 11. mars 1985.  Á þeim tíma hafi landamerki jarðanna því legið fyrir og því hafi stofnast stjórnarskrárvarinn eignarréttur yfir landinu sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þar af leiðandi hafi ekki verið skilyrði til landskipta skv. orðalagi 1. tl. 1. mgr. 1. gr. landskiptalaga sbr. 16. gr. sömu laga. 

Stefnandi byggir einnig á því að landskiptagerðin sé stjórnvaldsákvörðun sem tekin hafi verið í skjóli laga nr. 46/1941 og að hún kveði með bindandi hætti á um réttindi og skyldur aðila.  Við umrædd landskipti hafi ekki verið gætt ólögfestra grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins eins og þá var skylt samkvæmt áralangri dómaframkvæmd.  Í fyrsta lagi hafi ekki verið gætt reglna um andmælarétt aðila stjórnsýslumáls.  Stefnandi hafi ekki verið látinn vita um fyrirtöku málsins og ekki á neinn hátt gefinn kostur á að koma sjónamiðum sínum á framfæri við landskiptanefndina né andmæla sjónarmiðum gagnaðila sem hafi verið viðstaddur alla fundi nefndarinnar.  Hér hafi verið sérstaklega mikilvægt að gæta andmælaréttar því mál þetta varðaði mikil fjárhagsleg verðmæti og stjórnarskrárvarin réttindi.  Jafnframt sé skýrt kveðið á um andmælarétt eignanda í 5. gr. laga nr. 46/1941 og í skipunarbréfi nefndarmanna.  Brot á andmælarétti við töku íþyngjandi ákvörðunar ein og sér sé ógildingarástæða.  Í öðru lagi hafi nefndarmenn ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt rannsóknarreglunni.  Þannig hafi þeir ekki leitað til stefnanda eða sérfræðinga til að fá upplýsingar um túnstærð en hún sé rangt tilgreind í skiptagerðinni og ekki verði séð að túnstærð sem lögð er til grundvallar sé byggð á neinum gögnum og því algerlega úr lausu lofti gripin.  Landsgæðum sé misskipt milli jarðarhluta og nýrækt á jörðinni hafi ekki verið rannsökuð nægilega og henni hafi verið skipt í tvo hluta en ekki þrjá.  Nefndin byggi á því að stefndi og faðir stefnanda hafi einir staðið að ræktun á tímabilun 1957 til 1971 en það sé ekki rétt því fyrir liggi að faðir þeirra bjó á Ríp I og ætlaði sér alltaf eðlilegan hlut í ræktunni til jafns við þá bræður.  Einnig hafi Leifur bróðir stefnda búið um tveggja ára skeið á parti föður síns og tekið þátt í ræktuninni.  Í þriðja lagi sé skiptagerðin frá 15. júlí 1986 andstæð lögmætisreglunni sem kveði á um að stjórnvöldum sé óheimilt að skerða lögvarin réttindi borgaranna án skýrrar lagaheimildar.  Í máli þessu hafi landskiptanefndin farið gegn þinglýstum afsölum og skiptasamningi sem skýrði nánar hvar landamerki jarðanna skyldu liggja.

Þá byggir stefnandi á því að í skiptagerðinni frá 15. júlí 1986 sé miðað við að túnstærð 1971 hafi verið 50,68 hektarar þar af hafi ræktun eftir 1957 verið 44,83 hektarar.  Hið rétta sé aftur á móti að árið 1957 hafi túnin á Ríp verið 15 til 18 hektarar og árið 1971 hafi túnin verið 41,07 hektarar.  Því sé ljóst að ræktun á árabilinu 1957 til 1971 hafi verið 24,57 hektarar en ekki 44,83 hektarar.  Mismunurinn sé 20,26 hektarar eða um 40% af stærð þeirrar ræktunar sem nefndin skipti.  Af þessu sökum séu skiptin byggð á röngum forsendum.  Auk þessa hafi landskiptanefndin ekki tekið tillit til ástands túna og landgæða sbr. 3. og 13. gr. laga nr. 46/1941 og reglna stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið.  Þannig hafi öll nýjustu og bestu túnin komið í hlut Rípur III.  Hætta sé á flóðum úr Héraðsvötnum á nokkrum þeirra túna sem komu í hlaut stefnanda og rýri það gæði þeirra.  Auk þessa séu möguleikar til nýræktar á Ríp I og II mjög takmarkaðir en land Rípur III sé hins vegar vel fallið til frekari ræktunar. 

Auk þess sem að framan er rakið bendir stefnandi á, sem rök fyrir kröfu sinni um viðurkenningu á nánar tilteknum landamerkjum milli Rípur I og Rípur II, að stefndi og bróðir hans Þórður hafi fengið sína jarðarparta að gjöf frá föður þeirra.  Slíka gerninga beri að skýra í samræmi við vilja gefanda.  Þórarinn hafi útfært landamerkin í skiptasamningi frá 11. mars 1985.  Þann samning hafi stefndi viðurkennt með bréfi 8. ágúst 1985.  Við þetta hafi landamerki þau sem greind eru í nefndum skiptasamningi frá 11. mars 1985 orðið bindandi og því óheimilt að breyta þeim með landskiptagerð. 

Kröfu sína um fullkominn eignarrétt yfir túnspildum RL 5.0 til RL 10.0 styður stefnandi að auki með eftirfarandi rökum.  Með afsalsgerningi 10. desember 1957 og skiptasamningi 11. mars 1985 hafi skapast fullur og óafturkræfur eignarréttur Þórðar Þórarinssonar yfir tilgreindum túnspildum.  Eignarréttur þessi njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og því þurfi skýr lagafyrirmæli ef skerða eigi þessi réttindi en þau sé ekki að finna í lögum nr. 46/1941 um landskipti.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til laga um landskipti nr. 46/1941 einkum 1., 3., 5., 10., 13. og 16. gr.  Þá styðst hann við ólögfestar meginreglur stjórnsýsluréttar um andmælarétt, málefnaleg sjónarmið, lögmætisregluna og rannsóknarregluna.  Jafnframt við meginreglur samninga og kauparéttar um stofnun og yfirfærslu eignarréttinda fyrir bindandi samninga.  Svo og til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum um friðhelgi eignarréttarins.  Einnig vísar hann til 34. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 2. mgr. 25. gr. sömu laga hvað varðar réttarfar.  Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála. 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi og faðir hans sem þá var þinglýstur eigandi að Ríp I og II hafi, með því að skjóta ekki landskiptagerðinni frá 1986 til yfirlandskipta innan tilskilins frests viðurkennt niðurstöðu hennar í verki.  Þar með séu þeir bundnir af henni og geti ekki skotið niðurstöðu hennar til dómstóla.  Jafnframt verði að horfa til þess að hafi þeir haft möguleika á að skjóta niðurstöðu nefndarinnar til dómstóla þá séu þeir fyrir löngu búnir að glata þeim rétti fyrir tómlæti þar sem nú séu 14 ár liðin frá því að landskiptin fóru fram.  Með því að sýkna beri stefnda af fyrsta kröfulið stefnu beri einnig að sýkna hann af liðum tvö og þrjú þar sem þeir séu afleiddir af fyrsta lið. 

Ennfremur byggir stefndi á því að ekkert hafi komi fram sem styðji fullyrðingar stefnanda um að óeðlilega hafi verið staðið að skiptagerðinni að formi eða efni.  Það sem stefnandi kalli skiptasamning frá 11. mars 1985 hafi aldrei verið undirritaður af stefnda og þar af leiðandi ekki skuldbindandi fyrir hann.  Orðalag í beiðni um landskipti breyti því ekki.  Stefndi bendir á að í afsölum Þórarins Jóhannssonar frá 1957 komi einungis fram að skipta skuli með beinum línum en ekkert segi hvar þær skuli vera.  Þar segi raunar einnig að Landnám ríkisins eigi að ákveða línurnar en því hafi ekki verið fylgt eftir.  Á árinu 1985 hafi ekki náðst samkomulag um hvar þessar línur áttu að vera og því hafi stefndi leitað eftir landskiptum í samræmi við ákvæði gildandi laga í því efni.  Frá því að afsöl voru gefin út og fram til þess tíma að skiptin fóru fram hafi mikið verið ræktað sameiginlega og ekki farið eftir línum í því efni og landskiptanefndin hafi tekið tillit til þess í niðurstöðum sínum. 

Stefndi mótmælir sérstaklega hugleiðingum stefnanda um að Þórarinn hafi getað ákveðið landamerki með bindandi hætti vegna þess að hann hafi gefið jörðina örlætisgerningi.  Slíkur einhliða samningur hafi enga lagastoð.  Jafnvel þó um örlætisgerning hafi verið að ræða í upphafi þá hafi allar aðstæður verið breyttar árið 1985, þá hafi mikil ræktun farið fram og stefndi hafi átt sinn hlut í henni.  Ræktun ein og sér geti verið sjálfstætt andlag eignarréttar. 

Ekkert styðji fullyrðingar stefnanda um að vinnubrögð landskiptanefndarinnar hafi verið óvönduð eða að nefndin hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu, gætt andmælaréttar, eða farið að formreglum.  Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þessum fullyrðingum.  Raunar telur stefndi að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á neina annmarka við málsmeðferð nefndarinnar og því beri ekki að taka kröfu hans til greina af þeim sökum.  Þá bendir hann á að niðurstöður landskiptanefndarinnar séu rökstuddar í samræmi við fyrirliggjandi gögn.  Stefnandi og forverar hans hafi haft tök á að koma gögnum að hjá nefndinni og reifa sjónarmið sín en þeir hafi ekki nýtt sér þann rétt.  Niðurstöður nefndarinnar séu skýrar og ótvíræðar og hentugar miðað við aðstæður á jörðinni.  Þannig séu þeir í fullu samræmi við ákvæði landskiptalaga.  Stefndi telur óhugsandi að fella úr gildi niðurstöður stjórnvalds sem löglega var  að staðið 14 árum síðar verður aðeins réttlætt með því að ótvírætt hafi verið að umræddri stjórnvaldsákvörðun hafi verið verulega áfátt að formi eða efni en í þessu tilfelli hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram á slíkt. 

Stefndi byggir og á því að eignarrétturinn sé friðhelgur.  Hann sé þinglýstur eigandi samkvæmt landskiptagerð sem unnin var í samræmi við gildandi lög og samkvæmt þinglýstu afsali að þeirri landspildu sem stefnandi gerir tilkall til.  Þetta land verði ekki af honum tekið bótalaust.  Stefndi bendir á að verði aðalkrafa stefnanda tekin til greina sé komið á sama ástand og var fyrir landskiptagerðina og því verði að hafna kröfuliðum tvö og þrjú í stefnu.  Þannig sé landið þá í óskiptri sameign og því verði að taka málið allt upp frá grunni enda sé svokallaður skiptasamningur frá árinu 1985 óskuldbindandi fyrir stefnda. 

Hvað lagarök varðar vísar stefndi til  landskiptalaga nr. 46/1941, 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, 2. og 4. gr. laga 41/1919 um landamerki, til ólögfestra meginreglna stjórnarfarsréttar, samningaréttar og eignaréttar.  Hvað varðar kröfu um málskostnað vísar hann til 130. og 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

IV.

Niðurstaða.

Í stefnu segir að málið sé höfðað til ógildingar á landskiptagerð frá 15. júlí 1986.  Undir liðnum dómkröfur er nánar gerð grein fyrir kröfum stefnanda.  Að mati dómsins felur krafa um ógildingu á sjötta lið skiptagerðarinnar það í sér hvað túnin varðar að í raun verður komið á sama ástand og var fyrir skiptin.  Með því að slík krafa verði tekin til greina er komin upp sama staða og var áður en tilraunir voru gerðar til að skipta landinu.  Að framan er gerð grein fyrir málsástæðum stefnanda varðandi ógildingu.  Verði á þær fallist verður ekki hjá því komist að ógilda skiptagerðina í heild sinni en ekki einungis hluta hennar.  Þar sem gerð er krafa um ógildingu skiptagerðarinnar í heild sinni í upphafi stefnu þykir sá háttur sem hafður er á dómkröfum í stefnu ekki svo óskýr að málinu skuli vísað frá dómi án kröfu.  Af hálfu stefnda hefur ekki verið gerð athugasemd við kröfugerð stefnanda.

Af framburði vitna, og þá sérstakleg af framburði bræðra stefnda, verður ráðið að túnin á Ríp voru nálægt 15 hekturum árið 1957 þegar jörðinni var skipt í þrjá hluta.  Þá verður ekki annað ráðið en að túnin hafi verið u.þ.b. 45 hektarar þegar stefndi flytur burt af jörðinni árið 1971.  Í sjötta tölulið skiptagerðar landskiptanefndarinnar segir að túnin á Ríp hafi verið 5,85 hektarar 1957 og 50,68 hektarar árið 1971.  Þessar stærðir eru byggðar á túnkortum frá Búnaðarsambandi Skagafjarðar.  Af því sem að framan er rakið er ljóst að þessar upplýsingar voru rangar.  Þá byggir nefndin á því að ræktun frá 1957 til 1971 alls 44,83 hektarar skuli skipt jafnt milli stefnda og föður stefnanda og þá lagt til grundvallar að þeir tveir hafi staðið að ræktuninni.  Ekki fengust skýr svör við því hvers vegna nefndarmenn höfðu þennan háttinn á eða hvaðan þeir fengu upplýsingar um að ekki ætti að taka tillit til þáttar Rípur I í ræktuninni.  Er því ljóst að forsendur þær sem skiptanefndin lagði til grundvallar varðandi túnstærð voru rangar. 

Af framburði þeirra landskiptanefndarmanna sem komu fyrir dóminn verður ráðið að aðilar voru eingöngu boðaðir á einn fund nefndarinnar.  Af fundargjörð má ráða að á þeim fundi kom í ljós að landamerki Rípur og annarra jarða voru ágreiningslaus.  Þá skoðuðu nefndarmenn útihús og gengu um túnspildur norðan heimreiðar með stefnda.  Ekki sér þess stað að aðilum hafi verið kynnt þau gögn sem fyrir fundinum lágu eða að skorað hafi verið á þá að kynna sér gögnin og koma að athugasendum við þau eða nýjum gögnum ef því var að skipta.  Eftir þennan fund virðist sem aðilar hafi næst frétt af málinu þegar niðurstaða nefndarinnar lá fyrir.  Vitnið Símon Traustason lýsti því að Þórður faðir stefnanda hafi ekki viljað skipta sér neitt af málinu enda hafi hann litið svo á að búið væri að skipta jörðinni.  Hins vegar virðist sem nefndarmenn hafi ekki tekið tillit til þess skiptasamnings sem fyrir lá og þeir vísa til í niðurstöðum sínum.  Í þeim skiptasamningi má glögglega sjá að ætlunin var að skipta jörðinni með beinum línum.

Ljóst er að nefndarmenn skoruðu ekki á hlutaðeigendur að koma að gögnum og sjónarmiðum sínum að vegna skiptanna, þeir virðast ekki hafa rannsakað hvernig var staðið að ræktun á Ríp eða hvaða forsendur lágu að baki þeim skiptasamningi sem þeir höfðu undir höndum en þar mátti sjá að landamerki jarðarpartanna voru í samræmi við afsöl sem fyrir lágu.  Með þessu brutu þeir óskráðar reglur um andmælarétt aðila að stjórnsýslumáli svo og rannsóknarskyldu sína.  Telja verður að nefndinni hafi borið að kynna aðilum niðurstöður sínar með sannanlegum hætti en ekki tókst undir rekstri málsins að upplýsa hvernig niðurstöðum nefndarinnar var komið til aðila málsins, þó má sjá að stefndi móttók afrit skiptagjörðarinnar í desember 1996.  Að öllu þessu virtu þykir nefndin hafa staðið þannig að rekstri málsins að nægar ástæður hafi verið til  að ógilda niðurstöðu hennar.

Stefndi hefur borið fyrir sig að langt sé um liðið frá því að fyrir lá hver niðurstaða nefndarinnar var.  Þegar mál þetta var höfðað, með áritun á stefnu 20. júní 2000, voru liðin tæp 14 ár frá dagsetningu landskiptagerðar þeirrar sem nú er krafist ógildingar á.  Stefnandi hefur borðið að hann hafi strax og honum varð kunnugt um niðurstöðu nefndarinnar farið til sýslumanns og lýst óánægju sinni með niðurstöðu nefndarinnar.  Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi óskaði ekki formlega eftir yfirlandskiptum fyrr en að frestur til þess, miðaður við dagsetningu gerðarinnar, var liðinn og að ósk hans um yfirlandskipti var hafnað með þeim rökum.  Fallast má á með stefnda að málið sé mjög seint höfðað og að óheppilegt sé að stjórnvaldsákvarðanir séu ógiltar löngu eftir að þær liggja fyrir.  Hér verður þó sem endranær að skoða málavexti hvers máls fyrir sig sérstaklega.  Stefnandi hefur frá því að hann fékk upplýsingar um skiptagjörðina reynt að ná fram rétti sem hann telur sig eiga.  Þannig krafðist hann yfirlandskipta en þeim eins og áður greinir hafnað. Hann krafðist innlausnar á jarðarparti stefnda og fékk sú krafa jákvæða umsögn jarða- og hreppsnefndar Rípurhrepps.  Einnig krafðist stefnandi endurlandskipta á jörðinni.  Loks virðist sem aðilar hafi reynt nokkuð til að ná samkomulagi um ágreining sinn.  Verður því fallist á með stefnanda að hann hafi reynt að ná fram þeim rétti sem hann telur sig eiga. 

Ekki eru í lögum nein tímamörk varðandi kröfu um ógildingu á landskiptagerð.  Hér verður að horfa til þess tíma sem liðinn er frá því að stefnandi fékk vitneskju um landskiptin en einnig ber að horfa til þess sem að framan er rakið um tilraunir stefnanda til að ná fram rétti sínum svo og þess að stefnda hefur mátt vera ljóst að stefnandi undi ekki úrskurði þessum.  Þá verður og að taka tillit til þess að stjórnvaldsákvörðun sú sem um er deilt í máli þessu varðar einungis tvo aðila svo og þess að ekki hefur verið hreyft við landi því sem skiptin taka til.  Með vísan til þess sem að framan er rakið og þess hvernig sérstaklega stendur á í máli þessu verður krafa stefnanda um ógildingu á landskiptagerðinni tekin til greina.

Þar sem skiptagerðin hefur verið ógilt í heild sinni verða kröfur stefnanda um eignarrétt og landamerki jarðarinnar undir liðum tvö og þrjú í stefnu ekki teknar til greina enda hefur landinu ekki verið skipt með formlegum hætti. 

Eins og málsatvikum er hér háttað skal hvor aðili bera sinn kostnað af málinu.

Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.  Dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

DÓMSORÐ

Krafa stefnanda, Birgis Þórðarsonar, um ógildingu á landskiptagerð dagsettri 15. júlí 1986 varðandi jörðina Ríp í Skagafirði er tekin til greina.

Málskostnaður fellur niður.