Hæstiréttur íslands

Mál nr. 279/2016

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
X (Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)

Lykilorð

  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Lögreglurannsókn
  • Hæfi
  • Sératkvæði
  • Kærumál

Reifun

X var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað tveimur lögreglumönnum og eiginkonu annars þeirra líkamsmeiðingum. Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, var rakið að annar lögreglumannanna hefði verið viðstaddur skýrslutöku af sambýliskonu X, en til þess hefði hann verið augljóslega vanhæfur. Þá hefði hann beinlínis tekið þátt í skýrslutökunni með því að beina tvívegis spurningum til vitnisins. Taldi dómurinn að um svo alvarlegan annmarka á rannsókn málsins væri að ræða að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 5. apríl 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, Stefáns Þórs Eyjólfssonar héraðsdómslögmanns, 248.000 krónur.

 

 

Sératkvæði

Helga I. Jónssonar hæstaréttardómara

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Þá segir í 145. gr. laganna að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugi hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ákæruvaldið hefur metið gögn málsins svo að þau nægi til sakfellingar og verður sú ákvörðun ekki endurmetin af dómstólum, sbr. dóm Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 207/2008.

Kveðið er á um það í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða, vitnisburður, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn hafi. Í samræmi við meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, en ekki á lögreglurannsókn umfram það sem sem heimilað er í 3. mgr. sömu lagagreinar. Við aðalmeðferð málsins er fyrirhugað að taka skýrslu af varnaraðila og leiða sem vitni þá lögreglumenn, sem varnaraðili er ákærður fyrir að hafa hótað líkamsmeiðingum, svo og sambúðarkonu hans.

Þar sem niðurstaða málsins mun samkvæmt framansögðu ráðast af mati á sönnunargögnum við dómsmeðferð málsins getur sá annmarki sem var á skýrslutöku af sambúðarkonu varnaraðila hjá lögreglu að mínu áliti ekki leitt til frávísunar málsins frá héraðsdómi, en á hinn bóginn veldur hann því að ekki verður litið til skýrslunnar við úrlausn málsins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014. Samkvæmt þessu tel ég að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.                                                    

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 5. apríl 2016.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 30. mars 2016 um frávísunarkröfu ákærða, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 16. desember 2015, á hendur X, kt. [...], [...], [...], „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 31. desember 2014 á heimili sínu að [...] á [...], ítrekað hótað lögreglumönnunum A og B, sem þar voru við skyldustörf, líkamsmeiðingum auk þess sem ákærði hótaði eiginkonu B líkamsmeiðingum.“

                Í ákæru er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er þess þar krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Málið var þingfest 16. febrúar 2016 og sótti ákærði þá þing ásamt Stefáni Þór Eyjólfssyni hdl., sem að ósk ákærða var skipaður verjandi hans í málinu. Ákærði neitaði sök.

                Í greinargerð, sem verjandi ákærða lagði fram í þinghaldi 1. mars 2016 er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi og að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda. Eru einvörðungu þær kröfur hér til umfjöllunar, en varakrafa ákærða, komi til efnisflutnings, er um sýknu og til þrautavara er krafist þeirrar vægustu refsingar sem lög leyfa.

                Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að frávísunarkröfu ákærða verði hafnað og að úrlausn um sakarkostnað verði látin bíða efnisdóms.

                Við upphaf málflutnings um frávísunarkröfu lét sækjandi bóka um leiðréttingu ákæru þannig að í stað orðsins „eiginkonu“ skuli koma orðið „sambýliskonu“. Sætti sú leiðrétting engum mótmælum af hálfu verjanda ákærða.

I

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglustjórans á Austurlandi, dags. 26. janúar 2015, barst lögreglu tilkynning um heimiliserjur að [...], [...], laust fyrir miðnætti 30. desember 2014 í gegnum fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Kom fram að tilkynningin hefði borist frá sambýliskonu ákærða og var upplýst að börn væru á staðnum. Tveir lögreglumenn hafi þegar lagt af stað frá Egilsstöðum til [...] og komið á vettvang kl. 00.22. Hafi lögreglumennirnir fyrst rætt í sitthvoru lagi við ákærða og sambýliskonu hans, en ákærði hafi orðið sífellt æstari. Hafi þá þær hótanir sem greinir í ákæru átt sér stað. Hafi síðan komið til átaka milli sambýlisfólksins og lögreglumennirnir gengið þar á milli, en ákærði brugðist illa við því. Hafi lögregla ekki átt kost á öðru en að handtaka ákærða inni á heimilinu og hafi það verið gert kl. 00.40. Hafi ákærði verið fluttur á lögreglustöð á Egilsstöðum og vistaður þar í fangaklefa.

                Í skýrslunni greinir að lögregla hafi haft samband við barnaverndaryfirvöld, auk þess sem rætt hafi verið símleiðis við sambýliskonu ákærða, en hún hafi þá dregið allt til baka sem hún hafi áður sagt um hegðun ákærða og óskað eftir að hann kæmi aftur heim sem fyrst. Samkvæmt ákvörðun yfirlögregluþjóns hafi ákærða verið sleppt úr haldi kl. 02.30.

                Þess ber að geta að þegar atvik mál samkvæmt ákæru  áttu sér stað var embætti lögreglustjórans á [...] enn við lýði, en um þau áramót rann embættið saman við embætti lögreglustjórans á [...] og úr varð nýtt embætti lögreglustjórans á Austurlandi. Er öll skýrslugerð lögreglu vegna málsins í nafni hins sameinaða embættis.

II

                Frávísunarkröfu sína byggir ákærði í fyrsta lagi á því að embætti lögreglustjórans á Austurlandi hafi verið vanhæft til að annast rannsókn málsins, auk þess sem rannsókn málsins sé haldin svo veigamiklum annmörkum að ekki verði komist hjá því að vísa málinu frá dómi.

                Í greinargerð ákærða er bent á að hér sé ákært fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem veiti opinberum starfsmönnum, þ.m.t. lögreglumönnum, sérstaka réttarvernd. Brotin séu talin felast í hótunum um líkamsmeiðingar sem beinst hafi að starfandi lögreglumönnum hjá embætti lögreglustjórans á Austurlandi. Sama embætti hafi annast rannsókn málsins og hafi viðkomandi lögreglumenn hvor um sig ritað skýrslu um atvikið sem lögreglumenn, annars vegar svonefnda frumskýrslu og hins vegar svonefnda upplýsingaskýrslu. Skýrslur þessar séu meðal gagna málsins. Í skýrslum þessum lýsi lögreglumennirnir tveir ákæruefni þessa máls. Þriðji lögreglumaðurinn, samstarfsmaður hinna tveggja, hafi síðan tekið skýrslu af ákærða og af sambýliskonu hans. Ekki hafi verið teknar vitnaskýrslur af viðkomandi tveimur lögreglumönnum, sem verði að teljast aðfinnsluvert.

                Samkvæmt 8. mgr. 7. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 megi lögreglustjórar og aðrir þeir sem fari með lögregluvald ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum. Í máli þessu séu fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að draga í efa óhlutdrægni starfsmanna embættis lögreglustjórans á Austurlandi, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi embættið því verið vanhæft til þess að rannsaka málið og hafi því borið að koma rannsókn þess í hendur annars lögreglustjóra, svo sem mælt sé fyrir um í 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga. Fyrirmæli um hlutlægnisskyldu lögreglu samvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála leiði til sömu niðurstöðu.

                Að þessu gættu hafi rannsókn málsins farið í farveg sem hafi verið ólögmætur og afar óvilhallur ákærða. Megi hann því með réttu draga í efa að hlutleysis hafi verið gætt við rannsókn málsins og að hann njóti því sem næst jafnrar stöðu og ákæruvaldið við úrlausn þess. Megi einu gilda hvort vanhæfi embættisins og starfsmanna þess hafi í raun stuðlað að hlutdrægni eða haft áhrif á rannsókn málsins. Þá sé til þess að líta að verulegir ágallar hafi verið á rannsókn málsins, sem ekki verði úr bætt á síðari stigum. Er þar vísað til þess að ekki hafi verið teknar vitnaskýrslur af viðkomandi lögreglumönnum, heldur látið við það sitja að framburður þeirra birtist í skýrslum sem þeir rituðu hvor fyrir sig. Þessi málsmeðferð brjóti freklega gegn grundvallarrétti ákærða til þess að njóta réttlátrar málsmeðferðar sem tryggður sé í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

                Í greinargerð ákærða er vísað til dóms Hæstaréttar frá 26. nóvember 2009 í máli nr. 666/2009 og til 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 til stuðnings kröfu um frávísun á framangreindum grundvelli.

                Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu ákærða benti verjandinn ennfremur á að annar viðkomandi lögreglumanna, B, hafi verið viðstaddur skýrslutöku af vitni, sambýliskonu ákærða, eins og sjáist af undirritun hans á skýrslu um mætingu vitnisins til skýrslutökunnar, en hann hafi augljóslega verið vanhæfur til að koma að þeirri skýrslutöku. Þá vísaði verjandinn sérstaklega til þess að embætti lögreglustjórans á Austurlandi sé fámennt og megi því ætla að sterkari tengsl séu á milli lögreglumanna en hjá stærri embættum.

                Í annan stað kemur fram í greinargerð ákærða að krafa um frávísun byggi á því að ákærulýsing sé ekki nægilega glögg til þess að af henni verði ráðið hvert ákæruefnið sé. Ekki séu þar tilgreind þau ummæli eða hátterni ákærða í garð lögreglumanna sem talin séu refsiverð, heldur sé látið við það sitja að staðhæfa með almennum hætti að ákærði hafi hótað líkamsmeiðingum. Þetta hamli vörnum ákærða, sem geti ekki leitast við að skýra hugsanir að baki orðum eða eftir atvikum atferli sínu á vettvangi. Er krafa um frávísun að þessu leyti reist á c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

III

                Af hálfu ákæruvalds var kröfu ákærða um frávísun og öllum málsástæðum fyrir þeirri kröfu hafnað við munnlegan málflutning. Benti sækjandi á að með dómi Hæstaréttar frá 19. apríl 2010 í máli nr. 155/2010, hafi rétturinn, sem skipaður var fimm hæstaréttardómurum, vikið frá fyrri fordæmum sínum, sbr. dóma réttarins í málum nr. 666/2009 og nr. 59/2010. Sjái þessa einnig greinilega stað í dómi réttarins uppkveðnum fáeinum dögum síðar, 23. apríl 2010, í máli nr. 206/2010. Í fyrrnefnda dóminum hafi því verið hafnað að starfstengsl ein og sér leiddu til vanhæfis lögreglustjóra eða samstarfsmanna þeirra lögreglumanna sem ætluð brot beindust að. Eftir að þessir dómar gengu hafi margsinnis verið dæmt í málum er varða 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, án athugasemda við að rannsókn máls hafi farið fram hjá sama embætti og viðkomandi lögreglumaður eða lögreglumenn störfuðu hjá.

                Þá vísaði sækjandi m.a. til dóms réttarins frá 12. október 2010 í máli nr. 583/2010 til stuðnings því að rannsókn hafi ekki verið áfátt, enda þótt ekki hafi verið teknar sérstakar vitnaskýrslur af viðkomandi lögreglumönnum heldur látið við það sitja að leggja fram eigin skýrslur þeirra í formi frumskýrslu og upplýsingaskýrslu. Ennfremur hafnaði sækjandi sjónarmiði verjanda um nánari tengsl starfsmanna vegna þess hve fáir lögreglumenn starfi hjá embætti lögreglustjórans á Austurlandi og bendir á að það atriði hafi t.d. engu ráðið í nefndum dómi í máli nr. 583/2010, þar sem lögregluembætti á Vestfjörðum hafi átt í hlut, sem vart sé skipað fleiri lögreglumönnum en embættið á Austurlandi. Þá hafi verjandi ekki bent á nein atvik, önnur en starfstengsl, sem rennt gætu stoðum undir það að 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga ætti hér við.

                Þá hafnaði sækjandi því að aðkoma lögreglumannsins B að rannsókninni, sem fælist í því að hann hefði verið vottur að skýrslutöku af sambýliskonu ákærða, væri slík að leiða eigi til frávísunar málsins.

                Þá var því alfarið hafnað að ákærulýsing sé ófullnægjandi, enda sé algengast að háttsemi sé ekki lýst nánar í málum af þessu tagi. Skýrt komi fram að ákærða sé gefið að sök að hafa hótað lögreglumönnunum og sambýliskonu annars þeirra líkamsmeiðingum og hamli það ekki vörnum ákærða þótt því sé ekki nánar lýst í ákæru.

IV

                Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 mega lögreglustjórar og aðrir þeir sem fara með lögregluvald ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. þó 5. mgr. 5. gr sömu laga þar sem mælt er fyrir um strangari kröfur um hæfi ríkislögreglustjóra. Starfsmenn þess lögreglustjóra, sem vanhæfur er, geta þó rannsakað mál undir stjórn annars lögreglustjóra nema þeir séu sjálfir vanhæfir til að fara með málið samkvæmt stjórnsýslulögum.

                Viðkomandi tveir lögreglumenn sem ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn rituðu viðeigandi skýrslur um aðkomu sína og aðgerðir á vettvangi þar sem þeir lýstu atvikum frá sínum sjónarhóli. Eru þær skýrslur meðal rannsóknargagna lögreglu sem liggja fyrir í málinu, svo sem ráð er fyrir gert í 1. mgr. 56. gr. og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 583/2010. Líkt og sækjandi bendir á eru fyrir hendi skýr dómafordæmi Hæstaréttar, sbr. einkum dóm réttarins í máli nr. 155/2010, fyrir því að starfstengsl valdi ekki ein sér vanhæfi lögreglustjóra sem yfirmanns lögreglumanna þeirra sem brot beinist að eða samstarfsmanna þeirra hjá sama embætti, nema annað og meira komi til. Líkt og vikið er að í sama dómi er viðkomandi lögreglumaður, sem brot beinist að, hins vegar sjálfur vanhæfur til að koma að rannsókn máls, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, eftir að nauðsynlegri aðkomu hans á vettvangi brots lýkur.

                Hér háttar svo til að annar þeirra lögreglumanna sem ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn, B, var viðstaddur skýrslutöku af vitni, sambýliskonu ákærða, sem samstarfsmaður hans annaðist og fram fór í marsmánuði 2015. Til þeirrar þátttöku í rannsókn málsins var hann augljóslega vanhæfur samkvæmt framangreindu. Auk þess kemur skýrlega fram í hljóðupptöku af skýrslutökunni, sem er meðal gagna málsins, að viðkomandi lögreglumaður var ekki aðeins viðstaddur skýrslutökuna sem vottur heldur tók hann beinlínis þátt í henni með því að beina tvívegis spurningum til vitnisins.

                Enda þótt dómur í málinu skuli reistur á því sem fram kemur við meðferð þess fyrir dómi, og þótt það sé ekki hlutverk dómara að endurskoða ákvörðun ákæruvalds um útgáfu ákæru, er hér að mati dómsins um svo alvarlegan annmarka á rannsókn málsins að ræða, sem ekki þykir verða bætt úr við meðferð þess fyrir dómi, að óhjákvæmilegt þykir að fallast á kröfu ákærða og vísa málinu frá dómi.

                Með hliðsjón af úrslitum málsins ber að greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði. Ekkert sakarkostnaðaryfirlit liggur fyrir í málinu, en ljóst er að á rannsóknarstigi naut ákærði aðstoðar tilnefnds verjanda, Jóns Jónssonar hrl., og þykir þóknun hans hæfilega ákveðin 64.480 krónur. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Þórs Eyjólfssonar hdl., sem flutti málið af hans hálfu fyrir dómi, þykja hæfilega ákveðin með hliðsjón af tímayfirliti verjandans, 279.000 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar verjenda hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Af hálfu ákæruvalds flutti málið Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjórans á Austurlandi, sem ríkissaksóknari fól meðferð málsins fyrir dómi.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Ákæru máls þessa er vísað frá dómi.

                Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Er þar um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Þórs Eyjólfssonar hdl., 279.000 krónur, og þóknun tilnefnds verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Jóns Jónssonar hrl., 64.480 krónur.