Hæstiréttur íslands
Mál nr. 76/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Viðurkenningarkrafa
- Samlagsaðild
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 23. febrúar 2012. |
|
Nr. 76/2012.
|
Guðrún Daníelsdóttir (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Latabæ ehf. og (Ólafur Eiríksson hrl.) J&L ehf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Kærumál. Viðurkenningarkrafa. Samlagsaðild. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
G höfðaði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu L ehf. og J ehf. vegna ætlaðs tjóns af völdum slyss sem hún varð fyrir í kvikmyndaveri. Með úrskurði héraðsdóms var kröfum G vísað frá dómi. Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi með vísan til þess að skilyrði samlagsaðildar væru uppfyllt, málatilbúnaður G nægilega reifaður og hún sýnt fram á lögvarða hagsmuni af að fá skorið úr um viðurkenningarkröfu sína í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. janúar 2012, sem barst héraðsdómi 27. sama mánaðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 3. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. janúar 2012, þar sem kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Latabæ ehf. og Vátryggingafélagi Íslands hf., sem stefnt var til réttargæslu, var vísað frá dómi og málinu vísað frá dómi, að því er varðar varnaraðilann J&L ehf. og Tryggingamiðstöðina hf., sem stefnt var til réttargæslu. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Latibær ehf. og J&L ehf. krefjast báðir staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Vátryggingafélagi Íslands hf. og Tryggingamiðstöðinni hf. var stefnt til réttargæslu í héraði. Hvorugur þessara aðila hefur uppi kröfur í málinu.
Sóknaraðili gerir í máli þessu kröfur um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila á tjóni sem hún telur sig hafa orðið fyrir í slysi 17. október 2010 í kvikmyndaveri að Miðhrauni 4 í Garðabæ. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili gert grein fyrir málsástæðum fyrir kröfum sínum í stefnu. Telur hún stefndu bera ábyrgð á tjóni sínu á grundvelli sakarreglu og er þá augljóst að þar er átt við reglu um vinnuveitandaábyrgð, sem byggist á sök starfsmanna. Einnig vísar hún til strangari ábyrgðarreglna. Skilyrði 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild varnaraðila eru uppfyllt og veldur það sóknaraðila ekki réttarspjöllum að hafa ekki í stefnu sérstaklega vísað til þessa lagaákvæðis. Þá kemur meðal annars fram í stefnunni að sóknaraðili byggi kröfu sína um óskipta bótaskyldu varnaraðila á 17. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Verður talið að sóknaraðili hafi nægilega uppfyllt þær kröfur um reifun máls sem felast í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og að ekki eigi að vera erfiðleikum bundið fyrir varnaraðila að færa fram varnir gegn kröfunni.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Meðal gagna málsins eru vottorð lækna um þau meiðsli sem sóknaraðili er talin hafa hlotið í slysinu 17. október 2010. Í vottorði Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis 25. febrúar 2011 kemur fram að sóknaraðili hafi verið slæm í baki eftir slysið. Hafi hún haldið áfram að vinna og sé þá stundum viðþolslaus af verkjum. Lokaorð vottorðsins eru svofelld: „Ekki er búist við frekari bata úr þessu og virðast einkenni komin til að vera. Ekki virðist hægt að lækna ástandið með frekari læknisaðgerðum.“ Með vísan til vottorðs læknisins verður talið að sóknaraðili hafi nægilega sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að hún geti höfðað málið með þeim kröfum sem lýst er í hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt því sem rakið er að framan verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og varnaraðilum sameiginlega gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðilar, Latibær ehf. og J&L ehf., greiði óskipt sóknaraðila, Guðrúnu Daníelsdóttur, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. janúar 2012.
Mál þetta, sem var þingfest 7. september 2011, var höfðað af Guðrúnu Daníelsdóttur, kt. 100276-3059, Hafnargötu 10, 233 Reykjanesbæ, með birtingu stefnu 12. ágúst 2011 gegn Latabæ ehf., kt. 680896-2169, Miðhrauni 4, 210 Garðabæ, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, 108 Reykjavík, til réttargæslu, og J&L ehf., kt. 711208-1190, Laugavegi 26, 101 Reykjavík, og Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Síðumúla 24, 108 Reykjavík, til réttargæslu, til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og til greiðslu málskostnaðar.
I.
Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefndu in solidum, vegna líkamstjóns stefnanda á hálshrygg, brjósthrygg, olnboga og úlnlið, sem hún hlaut í vinnuslysi þann 17. október 2010, er hún starfaði fyrir J&L ehf., í kvikmyndaveri Latabæjar ehf., að Miðhrauni 4, Garðabæ.
Til vara gerir stefnandi þær kröfur að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til greiðslu bóta úr launþegatryggingu J&L ehf. hjá Tryggingamiðstöðinni hf.
Þá er í báðum tilvikum gerð krafa um málskostnað að skaðlausu auk virðisaukaskatts.
Stefndi Latibær ehf. gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er gerð krafa um að Latibær ehf. verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að sök verði skipt í málinu. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Af hálfu réttargæslustefnda VÍS er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda en að öðru leyti eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur á hendur stefnanda enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
Stefndi J&L ehf. krefst þess að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.
Af hálfu réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu en að öðru leyti eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur á hendur stefnanda enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
Stefndi J&L ehf. og Tryggingamiðstöðin létu ekki til sín taka í þessum þætti málsins. Var krafa stefnda Latabæjar ehf. og VÍS hf. tekin til úrskurðar að málflutningi loknum þann 11. janúar sl.
II.
Stefnandi í máli þessu kveður málsatvik vera þau að stefnandi hafi verið við vinnu á vegum auglýsingastofunnar J&L ehf., í myndveri Latabæjar að Miðhrauni 4, Garðabæ, þann 17. október 2010. Ljósamenn hafi verið að vinna við ljósastand þegar splitti, sem notað hafi verið til þess að festa ljóskastara á þverslá ljósastandsins, hafi skyndilega hrokkið úr festingu með þeim afleiðingum að standurinn féll á stefnanda eftir að hafa haft viðkomu í borði. Stefnandi hafi staðið við ljósastandinn ásamt samstarfskonu sinni, Söru Jónsdóttur, þegar standurinn hafi lent á efri hluta baks hennar og hálsi. Lögregla hafi verið kölluð á staðinn en í skýrslu hennar sé ekki að sjá að tildrög slyssins hafi verið könnuð. Ekki hafi verið kallað á Vinnueftirlit ríkisins. Stefndi J&L ehf. hafi leigt aðstöðu til auglýsingagerðar í kvikmyndaveri Latabæjar ehf., Miðhrauni 4, Garðabæ af Latabæ ehf. Hafi ljósastandurinn verið í eigu stefnda Latabæjar ehf., og því einnig leigður til J&L ehf., ásamt húsnæðinu. Er stefnandi hafi slasast hafi menn verið að hefja verk til auglýsingagerðar. Hafi stefnandi verið að bíða eftir að ljóskastarinn á ljósastandinum væri kominn í rétta stöðu, til að hún gæti hafið kvikmyndun. Á staðnum hafi verið Hannes Björgvinsson, starfsmaður Latabæjar ehf., sem hafi haft eftirlit með kvikmyndaverinu. Hann hafi hringt í lögreglu og tilkynnt slysið. Eftir slysið virðist hins vegar ekki hafa verið hirt um að athuga það splitti sem hafi hrokkið úr standinum og ganga úr skugga um hvað hafi farið úrskeiðis.
Þá segir að umræddur ljósastandur sé T-laga, um það bil fjögurra metra hár og fimm metra breiður (þverslá) og standi á hjólum. Á öðrum enda þverslárinnar sé festur hólkur. Inn í hólkinn gangi hluti af ljóskastaranum, sem þar sé festur með splitti og hert sé að með þumalskrúfu. Splittið sjái um að halda kastaranum í hólknum og þar með á þverslánni á meðan að þumalskrúfuna megi losa til þess að breyta ljósstefnu kastarans. Á hinum enda þverslárinnar sé farg til móts við þyngd ljóskastarans, sem sjái um að halda jafnvægi.
Stefnandi hafi farið rakleiðis á slysadeild LSH eftir slysið. Stefnandi hafi verið greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg, brjósthrygg og olnboga. Stefnandi hafi einnig leitað til Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis vegna áverka sinna. Í vottorði Boga komi fram að stefnandi sé greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg, brjósthrygg og olnboga auk tognunar á vinstri úlnlið.
Þá segir að Tryggingamiðstöðin hafi hvorki fallist á bótaskyldu úr slysatryggingu launþega né skaðabótaskyldu J&L ehf. Málinu hafi verið skotið til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem hafi úrskurðað að stefnandi ætti ekki rétt á greiðslu úr slysatryggingu launþega. Þá hafi VÍS hf. hafnað skaðabótaskyldu Latabæjar ehf. Stefnandi eigi því ekki annarra kosta völ en að höfða mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og bótum úr slysatryggingu launþega.
III.
Stefnandi byggir á því, með vísan til læknisvottorðs og sjúkraskrár, að sannanlega sé leitt í ljós að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við umrætt slys. Orsakatengsl, milli slyssins og líkamsáverka stefnanda, séu leidd í ljós, en stefnandi hafi farið strax eftir slysið á slysadeild LSH, þar sem áverkar hennar hafi verið greindir. Stefnandi byggir dómkröfur sínar á að stefndu beri sameiginlega ábyrgð á að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamlegt og örugg starfsskilyrði á vinnustað skv. 17. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefndu séu báðir atvinnurekendur og hafi átt aðild að starfseminni á umræddum vinnustað. Því beri stefndu skaðabótaábyrgð in solidum á því tjóni sem rekja megi til vanrækslu á þeim reglum sem lög nr. 46/1980 mæli fyrir um.
Stefnandi kveðst byggja á að orsök slyssins sé að rekja til vanbúnaðar ljósastandsins. Í skýrslu, sem lögregla hafi tekið af vitninu Ásgrími Guðbjartssyni, komi fram að öryggissplitti hafi hrokkið úr festingu og við það hafi jafnvægi ljósastandsins brenglast, með þeim afleiðingum að standurinn féll á stefnanda.
Stefnandi byggir á að annaðhvort hafi verið um að ræða galla í umræddum ljósastandi eða að uppsetningu og umhirðu starfsmanna stefnda, Latabæjar ehf., á ljósastandinum hafi verið ábótavant. Þar sem stefndu hafi ekki kallað til Vinnueftirlit ríkisins, eins og þeim beri skylda til að gera skv. 79. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, hafi nákvæm tildrög slyssins og ástand ljósastandsins ekki verið rannsökuð. Telur stefnandi því að stefndu beri hallann af sönnunarskorti í samræmi við almennar sönnunarreglur. Byggir stefnandi einnig á að stefndi Latibær ehf. beri sönnunarbyrði um hvað hafi farið úrskeiðis er splittið hrökk úr þeirri festingu sem það var í og af hvaða orsökum, burt séð frá því hvort tilkynna hefði átt slysið til Vinnueftirlits ríkisins, eins og stefnandi byggir einnig á.
Stefnandi byggir því á að umræddur ljósastandur hafi ekki verið í því ástandi að geta talist öruggur. Öryggissplitti eigi að vera þannig búin að þau haldist í stæði sínu og skjótist ekki úr festingu fyrirvaralaust. Stefnandi telur ljóst að ef ljósastandurinn hefði verið í eðlilegu ásigkomulagi og uppsetning hans rétt, þá hefði slys þetta ekki átt sér stað. Ljósastandurinn hafi því í raun verið haldinn öryggisgalla.
Þá byggir stefnandi á því að stefndu beri ábyrgð, skv. hlutlægri ábyrgðarreglu eða sakarreglu með ströngum sönnunarkröfum til stefndu, á galla ljósastandsins. Stefnandi byggir enn fremur á að stefndu beri ábyrgð á uppsetningu ljósastandsins, skv. sakarreglunni og reglunni um nafnlaus mistök. Uppsetning ljósastandsins hafi verið í höndum stefnda Latabæjar ehf. og á ábyrgð félagsins.
Stefnandi byggir á að vanbúnaður ljósastandsins brjóti í bága við 13. gr. og 42. gr. laga nr. 46/1980. Stefndu beri sameiginlega ábyrgð á því að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum skv. 17. gr. sömu laga. Þá hafi slysið ekki verið tilkynnt til vinnueftirlits ríkisins og þar með hafi ekki farið fram nein rannsókn á orsökum slyssins. Telur stefnandi að með því að vanrækja tilkynningarskyldu 79. gr. laga nr. 46/1980, beri stefndu hallann af þeim sönnunarskorti sem uppi sé í málinu. Ljóst sé að aðbúnaður ljósastandsins hafi ekki verið fullnægjandi og telur stefnandi því að stefndu beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda.
Stefnandi byggir enn fremur á því að þegar líkamstjón megi rekja til þess að vinnuveitandi hafi ekki farið eftir reglum sem gildi um öryggi á vinnustað, beri hann ábyrgð á slysi sem verði á starfsmanni hans, hvort sem slysinu sé valdið af gáleysi eða ásetningi. Vinnuveitanda sé skylt að tryggja að aðstæður á vinnustað tefli ekki öryggi starfsmanna í tvísýnu, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980. Reglurnar um að vinnuveitandi tryggi öryggi á vinnustað, nái ekki markmiðum sínum á skilvirkan hátt, ef ekki sé jafnframt fallist á bótaábyrgð hans þegar út af bregði. Fái þetta stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE sem og dómi EFTA dómstólsins í máli nr. E-2/10, þar sem segi að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda. Ábyrgðin á öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustað hvíli fyrst og fremst á vinnuveitanda. Byggir stefnandi á að ekki sé um óvenjulegar eða ófyrirsjáanlegar kringumstæður að ræða, heldur venjulega vinnu við auglýsingagerð í myndveri. Þar með beri vinnuveitandi meginábyrgðina á öryggi og heilsu starfsmanna sinna á vinnustað. Hefði öllum öryggisreglum verið fylgt, hefði stefnandi einfaldlega ekki orðið fyrir líkamstjóni. Af því leiði að ekki geti verið um stórfellt gáleysi stefnanda að ræða, sbr. 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum.
Stefnandi bendir á að í bréfi Vinnueftirlits ríkisins komi fram að Latibær ehf. hafi ekki tilkynnt starfsemi sína til Vinnueftirlitsins eins og skylt sé skv. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 46/1980. Þar með sé ekki ljóst hvort Latibær ehf. hafi gert áhættumat, þ.e. skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum eins og þeim beri skylda til skv. 65. gr. sömu laga.
Varðandi varakröfu stefnanda, um greiðslu úr slysatryggingu launþega, byggir stefnandi á því að þrátt fyrir að hún hafi þegið greiðslur sem verktaki, hafi hún í raun verið starfsmaður stefnda J&L ehf. Stefnandi hafi reglulega unnið fyrir stefnda og að verkefni hennar séu í svo nánum tengslum við þá starfsemi sem félagið fáist við, að vinna stefnanda sé í raun eðlilegur þáttur í starfsemi stefnda. Stefndi sé auglýsingastofa og hafi á sínum snærum starfsfólk sem vinni við að semja og útfæra auglýsingar fyrir viðskiptavini sína. Stefnandi, sem sé kvikmyndagerðarmaður, vinni við upptökur á þeim auglýsingum sem stefndi framleiði. Stefnandi lúti þar af leiðandi algjörlega boðvaldi stefnda og annarra starfsmanna hans eftir atvikum, auk þess sem stefndi útvegi öll áhöld til vinnunnar. Stefnandi leggi í raun aðeins fram vinnu sína og fái greitt fyrir það laun í formi verktakagreiðslna. Stefnandi þurfi að vinna vinnu sína á þeim stöðum sem stefndi ákveði og sé því berskjölduð gagnvart vinnuslysum að völdum þeirrar starfsemi sem stefndi standi fyrir. Launþegatrygging hafi það hlutverk að bæta stöðu þeirra starfsmanna sem vinni við slíkar aðstæður. Telji stefnandi að samningssamband aðilanna sé í raun vinnusamningur ef tekið sé mið af eðli þess starfs sem stefnandi vinni og falli því stefnandi undir þá launþegatryggingu sem J&L ehf. hafi hjá Tryggingamiðstöðinni hf.
Byggir stefnandi á að þótt greiðslufyrirkomulag fyrir vinnu stefnanda sé í formi verktakagreiðslna, bendi eðli og högun starfsins fremur til þess að stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda og eigi því rétt á bótum úr slysatryggingu launþega. Ótækt sé að stefndi afsali réttindum starfsmanna sinna með því einu að greiða þeim laun í formi verktakagreiðslna. Stefnandi tekur einnig fram að öðrum starfsmönnum á vegum stefnda þennan dag, sem og aðra daga, hafi verið greitt í formi verktakagreiðslna.
Stefnandi vísar varðandi skaðabótaábyrgð stefndu in solidum á galla í ljósastandinum til reglunnar um hlutlæga ábyrgð vegna bilunar eða galla tækis og vísar til kafla í riti úr skaðabótarétti eftir Arnljót Björnsson, 2. kafla, bls. 60-72. Varðandi sök stefndu vísar stefnandi til sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og reglunnar um nafnlaus mistök. Þá byggir stefnandi á 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum að því er viðkemur eigin sök stefnanda. Varðandi sameiginlega ábyrgð stefndu á vinnustaðnum vísar stefnandi til 17. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Enn fremur byggir stefnandi á að stefndu hafi vanrækt þær skyldur sem lagðar séu á þá í 13. gr. , 42. gr. 79. og 1. mgr. 95. gr. sömu laga, svo og tilskipun 89/391EBE, sbr. 3. mgr. 5. gr. Varðandi varakröfuna vísar stefnandi til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 og grundvallarreglna um kjarasamninga.
IV.
Sóknaraðili, í þessum þætti málsins, byggir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að málatilbúnaður stefnanda í stefnu uppfylli ekki skilyrði einkamálaréttarfarsins um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið sé höfðað á hendur tveimur stefndu, Latabæ ehf. og meðstefndu in solidum, til viðurkenningar á óskiptri skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda og til greiðslu bóta. Orðalagið sé mjög óskýrt, bæði sé um viðurkenningarmál að ræða og skaðabótakröfu. Ekki sé hins vegar gerð nein grein fyrir því í málatilbúnaði í stefnu á hvaða grundvelli sé byggt um heimild til málshöfðunar á hendur þeim sameiginlega með þessum hætti né vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 né annarra laga um slíka heimild. Þá sé í stefnu ekki á nokkurn hátt gerð tilraun til að greina á milli málsástæðna sem byggt sé á gagnvart stefndu hvorum fyrir sig heldur megi skilja málatilbúnaðinn þannig að sömu málsástæður eigi við um þá báða. Það standist hins vegar ekki þar sem aðkoma þeirra að málinu sé með mismunandi hætti og í tilviki Latabæjar séu engin tengsl milli félagsins og stefnanda. Þá sé verulega óljóst hver sé grundvöllur kröfugerðarinnar á hendur Latabæ en stefnandi vísi jafnt til sakarreglunnar, hlutlægrar ábyrgðarreglu og sakarreglu með ströngum sönnunarskilyrðum í umfjöllun um málsástæður, án þess þó að gera grein fyrir því hvernig hver þessara reglna fyrir sig eigi við. Geri allt þetta að verkum að mjög erfitt sé fyrir stefnda Latabæ að átta sig á aðkomu sinni að málinu og þar með verjast kröfum stefnanda. Þá sé í stefnu heldur ekki gerð nein grein fyrir því hvernig aðkoma VÍS að því til réttargæslu sé háttað. Stefndu Latibær eða VÍS eigi ekki að þurfa að giska á hvers sé verið að krefjast. Vátrygging geti ekki verið skaðabótaskyld, eingöngu sé greitt úr tryggingu ef aðalstefndi sé skaðabótaskyldur.
Þá er í öðru lagi byggt á því að það skilyrði að höfða málið sem viðurkenningarmál, að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sé ekki uppfyllt. Eins og segi í nefndu ákvæði þá sé það skilyrði fyrir höfðun viðurkenningarmáls að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm um kröfu sína. Skilyrði viðurkenningardóms um skaðabótaskyldu sé því að sýnt sé fram á tjón og í hverju það sé fólgið. Hafi stefnandi sönnunarbyrðina um þá lögvörðu hagsmuni, þ.e. að tjón hafi orðið og umfang þess. Í stefnu sé hins vegar á engan hátt gerð grein fyrir að hvað leyti þetta skilyrði sé uppfyllt og hvaða hagsmunir það séu sem réttlæti viðurkenningarmál og að hvaða leyti þeir séu lögvarðir. Dugi tilvísun stefnanda til læknisvottorða á dskj. nr. 6 og 7 ekki til að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda komi þar ekkert fram um að afleiðingar af atvikinu hafi á einhvern hátt verið varanlegir fyrir stefnanda og ekki hafi hún verið neitt frá vinnu vegna þeirra. Bent sé á að af lögregluskýrslu á dskj. nr. 5 megi ráða að stefnandi hafi ekki talið sig hafa orðið fyrir neinum áverkum og eingöngu farið á slysadeild að áeggjan lögreglu og sjúkraflutningsmanna. Þá beri læknabréfið á dskj. nr. 7 ekki með sér að um varanlega áverka hafi verið að ræða og ekki liggi fyrir nein gögn um frekari komur stefnanda, hvorki á slysadeild, heilsugæslu eða annað og engar upplýsingar um neinar læknismeðferðir vegna áverka. Eina viðbótargagnið sé læknisvottorð sem aflað hafi verið að frumkvæði lögmanns stefnanda, dskj. nr. 7. Þar komi ekkert nýtt fram heldur sé það að mestu endursögn á því sem segi í vottorðinu á dskj. nr. 6 auk þess sem þar sé ýmsu haldið fram sem standist ekki miðað við önnur málsgögn, svo sem að stefnandi hafi rotast og misst minnið. Þá megi skilja á stefnu að byggt sé á sömu málsástæðum gagnvart báðum stefndu Latabæ og J&L en tengsl þeirra séu hvergi skýrð í stefnu. Þá sé meint tjón ósannað, hvert það sé eða umfang þess. Fyrir liggi að stefnandi hafi ekki misst úr vinnu eftir atvikið. Ekkert komi fram um tímabundið tjón, miska, varanlegt tjón eða skerta starfsorku.
Þá segir að auk þess sé hvergi í stefnu vísað til lagaheimildar til höfðunar viðurkenningarmáls, hvorki í umfjöllun um atvik og málsástæður né í lagarökum. Hljóti að vera lágmarkskrafa að vísa í stefnu til þess lagagrundvallar sem byggt sé á, að öðrum kosti uppfyllir málatilbúnaðurinn ekki skilyrði f-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðili vísar til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitandaábyrgð og meginreglna um sönnun og sönnunarbyrði og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi kröfuna um málskostnað er byggt á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V.
Varnaraðili krefst þess að frávísunarkröfu sóknaraðila verði hafnað auk þess sem hann krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Varnaraðili mótmælir því að málatilbúnaður hans sé óljós. Séu skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 uppfyllt. Aðild stefndu Latabæjar ehf., og J&L ehf., sé byggð á 17. gr. og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefndu séu báðir atvinnurekendur og hafi átt aðild að starfseminni á umræddum vinnustað. Þeir beri því skaðabótaábyrgð á því tjóni sem rekja megi til vanrækslu á þeim lögum. Þá leiði aðildarskortur til sýknu en ekki frávísunar. Þá sé sérstaklega tekið fram í stefnu hvaða málavextir eigi við hvorn aðila. Þá sé aðild stefnda VÍS grundvölluð á 21. gr. laga nr. 91/1991 og því stefnt til réttargæslu. Stefnandi eigi lögvarða hagsmuni sem komi fram á dskj. 6 og 7, sem séu læknisvottorð, en þar komi tjón stefnanda fram. Sömu áverkum sé lýst í báðum læknisvottorðunum. Það liggi fyrir að um tjón sé að ræða þótt ekki sé fram komið í hverju tjónið felist.
VI.
Sóknaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því að stefna uppfylli ekki kröfuna um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið sé höfðað á hendur tveimur stefndu, Latabæ ehf. og meðstefndu in solidum, til viðurkenningar á óskiptri skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda og til greiðslu bóta. Orðalagið sé mjög óskýrt, málið sé höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og til breiðslu bóta úr slysatryggingu launþega og ekki sé greint á milli hvað eigi við um hvern stefnda og réttargæslustefnda.
Varnaraðili byggir aðild stefndu á 17. gr. laga nr. 46/1980 en þar segir að ef fleiri en einn eigi aðild að starfsemi á sama vinnustað, skuli þeir stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfsskilyrði. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að stefndi Latibær ehf. hafi verið með starfsemi í húsnæði því sem stefndi J&L ehf. hafði á leigu og hafi því einnig borið ábyrgð á aðbúnaði í húsnæðinu gagnvart þeim er komu að vinnu á vegum J&L ehf. Engin gögn sýna fram á að stefndi Latibær hafi verið með starfsemi á vettvangi á sama tíma og stefndi J&L og er ekki skýrt út í stefndu öðru vísi en með vísan til 17. gr. laga nr. 46/1980, að stefna beri Latabæ. Er málatilbúnaður að þessu leyti óskýr og málsgrundvöllur gagnvart stefnda Latabæ ehf. að þessu leyti óljós. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi Latibær ehf. hafi haft skyldu til að tilkynna slys á vegum J&L ehf., til Vinnueftirlits ríkisins skv. 79. gr. laganna.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Í stefnu er, varðandi ætlað tjón stefnanda, eingöngu vísað til læknisvottorðs Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis, dagsett 25. febrúar 2011, og óundirritaðs læknabréfs Einars Hjaltasonar læknis þar sem atvika- og áverkalýsing úr læknisvottorði Boga Jónssonar læknis er endurtekin. Kemur fram í vottorði Boga að stefnandi hafi fundið fyrir verk í baki, höfuðverk, fengið högg í vinnunni og hafi kvartað um verk neðst í brjósthrygg og efst í brjósthrygg, höfuðverk og dofa. Segir í kaflanum „sjúkdómsgreining“: „tognun og ofreynsla á hálshrygg, S13.4. Tognun og ofreynsla á brjósthrygg, S23.3. Tognun og ofreynsla á olnboga, S53.4. Tognun vinstri úlnliður.“ Þá kemur fram við skoðun 30. desember 2010: „Háls: vægir verkir yfir hryggtindum, aðallega neðarlega, hreyfing skert ca. 20° í flestum plönum. Brjósthryggur: Töluverð eymsli yfir efstu brjósthryggjum. Vi. úlnliður: Finnur aðeins til þar við hámarkshreyfingar, ekki brotaeinkenni. Þegar hún beygir sig fram þá nær hún með fingrum að ökklum.“ Fyrir liggur að stefnandi var ekki frá vinnu í kjölfar atviksins. Í stefnu eru dómkröfur aðallega að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefndu, in solidum, vegna líkamstjóns stefnanda á hálshrygg, brjósthrygg, olnboga og úlnlið, sem hún hafi hlotið í vinnuslysi þann 17. október 2010, er hún starfaði fyrir J&L ehf. í kvikmyndaveri Latabæjar ehf. að Miðhrauni 4, Garðabæ. Ekki hefur verið gerð grein fyrir því í stefnu í hverju tjónið felist né leiddar líkur að því hvert tjón stefnanda sé, svo sem hvort um fjárhagslegt tjón sé að ræða, miska, tímabundið eða ótímabundið atvinnutjón eða hvort tjón hafi orðið yfirleitt. Er því í stefnu ekki vikið að því í hverju tjón stefnanda vegna slyssins felist.
Þá verður ekki annað ráðið af stefnu en að stefnandi krefjist viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu VÍS og Tryggingamiðstöðvarinnar hf., í skjóli launþegatryggingar eða og á grundvelli almennra skaðabótareglna, en sýnir ekki fram á hvert réttarsamband aðila sé varðandi þennan málsgrundvöll, en ekki er gerð krafa um að fá úr tilvist þess réttarsambands skorið eins og heimilt er í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Hvergi er í stefnu vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sem heimilar aðila að höfða mál til viðurkenningar á lögvörðum hagsmunum, réttindum eða réttarsambandi. Stefnandi vísar í kaflanum „lagarök“ varðandi skaðabótaábyrgð stefndu in solidum á galla í ljósastandinum til reglunnar um hlutlæga ábyrgð vegna bilunar eða galla tækis og vísar þar til sakarreglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og reglunnar um nafnlaus mistök. Engin grein er gerð fyrir því hvort byggt er á ofangreindum tilvísunum varðandi alla stefndu eða suma þeirra. Þá vísar stefnandi varðandi varakröfu sína til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 og grundvallarreglna um kjarasamninga. Ekki hefur verið sýnt fram á að þessi lagaákvæði eigi við um réttarsamband stefnanda og stefndu. Brýtur þessi málatilbúnaður í bága við e- og f-lið 80. gr. laga nr. 91/1991. Af þessum málatilbúnaði leiðir að erfitt er fyrir öll stefndu að taka til varna. Úr öllum þeim annmörkum, sem að framan eru taldir, verður ekki bætt undir rekstri málsins, enda miðast varnir í héraði við málið eins og það var við þingfestingu þess.
Verður krafa sóknaraðila Latabæjar ehf. og VÍS ehf. um að máli þessu verði vísað frá dómi, tekin til greina. Þá verður ekki hjá því komist, með vísan til þess sem að ofan segir að vísa málinu varðandi stefndu J&L ehf. og Tryggingamiðstöðina hf. frá dómi ex officio.
Með vísan til 2. tl. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað svo sem fram kemur í úrskurðarorði.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum stefnanda á hendur stefnda Latabæ ehf. og VÍS ehf. er vísað frá dómi.
Varðandi stefndu J&L ehf. og Tryggingamiðstöðina hf. er málinu vísað frá dómi ex officio.
Stefnandi greiði stefndu Latabæ ehf. og VÍS ehf., in solidum, 300.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefndu J&L ehf. og Tryggingamiðstöðinni hf., in solidum, 200.000 krónur í málskostnað.