Hæstiréttur íslands
Mál nr. 613/2011
Lykilorð
- Skaðabætur
- Örorka
- Líkamstjón
Skaðabætur. Örorka. Líkamstjón.
A krafði V hf. um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann lenti utan vegar í bifreið sinni. Ekki var deilt um bótaskyldu V hf. og hafði uppgjör farið fram, með fyrirvara af hálfu A, þar sem varanleg örorka var miðuð við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í málinu byggði A á því að beita ætti 2. mgr. ákvæðisins og miða við meðallaun verkamanna þar sem árslaun hans síðustu þrjú árin fyrir slys gæfu ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hans og því væri um óvenjulegar aðstæður að ræða í skilningi þess ákvæðis. Ekki var talið að A hefði sýnt fram á eða gert líklegt að önnur viðmiðun en sú sem beitt var við uppgjör bóta til hans væri réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hans um sýknu V hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2011. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.219.322 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. janúar 2011 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti verði á kröfur hans fallist en að málskostnaður verði að öðrum kosti látinn niður falla.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, A, greiði stefnda, Verði tryggingum hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2011.
I
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 26. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, kt. […], […], með stefnu, birtri 10. janúar 2011, á hendur Verði tryggingum, hf., kt. […], Borgartúni 25, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi greiði stefnanda bætur, að fjárhæð kr. 2.219.322 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. janúar 2011 til greiðsludags. Auk þess er krafizt málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti á málskostnað.
Dómkröfur stefnda eru þær, að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir, að stefnandi varð fyrir líkamstjóni þann 24. október 2008, þegar hann ók [bifreið] […], af gerðinni […] hringveg 1 til norðurs á leið heim til sín í […]. Þegar hann var að aka bifreiðinni undir […] rann hún til að aftan í ísingu og sterkri vindhviðu og valt og endaði fyrir neðan veginn. Bifreiðin var talin ónýt eftir slysið. Stefnandi kvartaði um verki í vinstri öxl og brjósti á slysstað og var fluttur með sjúkrabifreið á Heilsugæslustöðina […].
Á slysdegi var stefnandi 19 ára að aldri. Hann stundaði nám í […] við Fjölbrautaskóla […] […] samtals í 2 ár frá 2005 til 2007, en hætti því námi, þegar hann var tæplega hálfnaður, og hefur ekki stundað annað nám eftir vorönn 2007. Hann var í stopulli verkamannavinnu næstu þrjú árin fyrir slys og eftir slysið hefur hann einnig stundað ýmsa verkamannavinnu, svo sem tamningar, fiskvinnslu og landbúnaðarstörf.
Á árinu 2010 voru B læknir og C læknir fengnir, af lögmanni stefnanda og Verði tryggingum hf., til að meta örorku og miska stefnanda vegna slyssins. Skiluðu þeir mati sínu þann 22.11. 2010 og töldu varanlegan miska vera 5 stig og varanlega örorku 5%.
Stefnandi og stefndi gengu til uppgjörs í framhaldi af matsgerð læknanna, en ekki náðist samkomulag um uppgjör vegna varanlegrar örorku stefnanda. Var niðurstaðan sú, að uppgjör var gert þann 28. desember 2010, þar sem varanleg örorka var miðuð við lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi gerði fyrirvara við þá aðferð og vildi byggja á meðaltali meðaltekna verkamanna samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni, með vísan til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 og boðaði, að á þetta atriði yrði látið reyna fyrir dómstólum.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því, að líkamstjón það, sem hann varð fyrir við útafakstur bifreiðarinnar […] þann 24. október 2008, sé ekki fullbætt, og hafi hann ekki verið gerður fjárhagslega eins settur og ef tjón hefði ekki orðið. Markmið með bótum fyrir varanlega örorku sé að bæta tjónþola það tap á atvinnutekjum, sem hann muni að líkindum verða fyrir í framtíðinni vegna afleiðinga líkamstjóns. Stefnandi telji, að árslaun sín síðustu 3 árin fyrir slys gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum og því sé um óvenjulegar aðstæður að ræða í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi ekki verið námsmaður, þegar slys varð, en hann hafi verið ungur að aldri, verið hættur í námi og hafi ekki náð að móta sér tekjureynslu. Stefnandi hafi unnið ýmsa verkamannavinnu og telji því, að miða eigi árstekjur sínar við meðallaun verkamanna, m.a. með hliðsjón af Hrd. í máli nr. 386/2004.
Stefnandi hafi keypt sérstaka slysatryggingu fyrir ökumann bifreiðar sinnar hjá Verði tryggingum hf. í samræmi við ákvæði 92. gr. UFL, og sé félagið greiðsluskylt fyrir bótum af völdum slyss, sem ökumaður verði fyrir við stjórn ökutækisins.
Eins og áður sé rakið hafi stefnandi orðið fyrir líkamstjóni við útafaksturinn þann 24. október 2008. Um bótaskylduna vísi hann til áðurnefndra ákvæða í umferðarlögum, en að því er varði fjárhæð bóta vísi hann til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993.
Bótakröfur stefnanda sundurliðist þannig:
1. Varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga 5% en miðað sé við þessar meðaltekjur verkamanna síðustu þriggja almanaksára fyrir slys skv. 7. gr.
|
Tekjur |
2005 |
3.408.000 kr. |
|
7% |
mótframl. í líf.sj. |
238.560 kr. |
|
Samtals |
2005 |
3.464.560 kr. |
|
Uppreiknað |
2005 launavísitala 267,2 |
4.854.347 kr. |
|
Tekjur |
2006 |
3.732.000 kr. |
|
7% |
mótframl. í líf.sj. |
261.240 kr. |
|
Samtals |
2006 |
3.993.240 kr. |
|
Uppreikn. |
2006 launavísitala 292,7 |
4.852.735 kr. |
|
Tekjur |
2007 |
4.044.000 kr. |
|
8% |
mótframl. í líf.sj. |
323.520 kr. |
|
Samtals |
2007 |
4.367.520 kr. |
|
Uppreikn. |
2007 launavísitala 319,1 |
4.868.464 kr. |
|
|
Launaviðm. 3 ár fyrir slys: |
14.575.545 kr. |
|
|
Meðallaunaviðmiðun á ári: |
4.858.515 kr. |
Launavísitala við upphaf varanlegrar örorku þann 24.01.2009 hafi verið 355,7 stig. Sé miðað við, að upphaf varanlegrar örorku sé 24.01. 2009, þá hafi stefnandi verið 19,469 ára á þeim degi, og verði margföldunarstuðull skv. 6. gr. skbl. 17,816. Bætur verði því 5% af kr. 6.559.303, eða kr. 4.327.845.
Samkvæmt tjónskvittun frá stefnda hafi hann greitt kr. 2.108.523 upp í varanlega örorku stefnanda þann 28. desember 2010, en sú greiðsla hafi verið miðuð við lágmarkslaun. Þessi greiðsla hafi verið móttekin með fyrirvara. Heildarbótakrafan vegna varanlegrar örorku stefnanda sé kr. 4.327.845 skv. sundurliðun hér að framan, en frá dragist greiðslan, kr. 2.108.523, og verði höfuðstóll stefnukröfu því kr. 2.219.322.
Upphafstími dráttarvaxta miðist við mánuð eftir að bótakrafa sé sett fram og sé vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti o.fl. Kröfubréf hafi verið sent til stefnda þann 2. desember 2010.
Stefnandi krefjist málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins. Í þessu sambandi vitni stefnandi til ákvæða XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum til 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir á því, að stefnandi sem slíkur beri sönnunarbyrði fyrir umfangi meints tjóns, sem hann telji eiga rót að rekja til umferðaróhapps þess, sem hann varð fyrir 24. október 2008, umfram það tjón, sem hann hafi þegar fengið bætt. Slík sönnun liggi ekki fyrir.
Stefndi hafi bætt stefnanda tjón vegna varanlegrar örorku hans, sem og af öðrum toga. Hvað varanlega örorku snerti, telji stefndi, að leggja beri reglu 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 til grundvallar, þ.e. lágmarksárslaunaviðmið skaðabótalaga. Stefndi hafi hins vegar viljað byggja á meðaltali meðallauna verkakarla samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar síðustu þrjú árin fyrir slys. Af hálfu stefnda séu ekki taldar forsendur til þess að miða við aðra reglu en þá, sem felist í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, enda það, að vera ungur að árum, ekki óvanalegt í skilningi laga.
Stefnandi hafi ekki lagt stund á nám frá vori 2007, eða um eins og hálfs árs skeið, er hann lenti í slysi því, sem mál þetta lúti að. Stefnandi sé alinn upp […], eftir því sem fram komi í gögnum málsins, og hafi hann þar lagt hönd á margt […], en ekki notið hárra launa fyrir það vinnuframlag sitt, í það minnsta svo grein hafi verið gerð fyrir gagnvart skattyfirvöldum. Sé þess þannig ekki getið, að hann njóti launa fyrir vinnu við […], sem stefnandi hafi upplýst matsmenn um, að hann legði stund á að afloknum vinnudegi í skreiðarframleiðslu, sem hann hafi unnið við á matsdegi, sbr. dskj. nr. 7. Að mati stefnda standi ekki rök til þess að beita 2. mgr. 7. gr. þannig, að viðmið sé sótt til meðallauna, þegar stefnandi kjósi að ráðstafa aflahæfi sínu þannig, að hann þiggi ekki laun fyrir þau verk, sem hann sinni. Í gögnum málsins komi ekki fram, að stefnandi hafi verið atvinnulaus, enda sé atvinnuleysi á […] langt undir landsmeðaltali. Væri meðallaunum verkakarla, sem Hagstofan birti, beitt við þessar aðstæður, væri um óréttmæta auðgun að ræða á kostnað stefnda, umfram þá auðgun, sem þó felist í að beita lágmarkslaunaviðmiði 3. mgr. 7. gr., sem feli í sér hærra launaviðmið en tekjur stefnanda gefi tilefni til. Löggjafinn hafi þó ákveðið að hafa viðmið þetta með þessum hætti til hagsbóta fyrir þá, sem slasist, og við það uni stefndi og hafi lagt það til grundvallar því uppgjöri, sem þegar hafi farið fram.
Lögð sé áherzla á, af hálfu stefnda, að stefnandi beri sönnunarbyrði þess að miða beri við annað og hærra launaviðmið en 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 feli í sér. Engri slíkri sönnun hafi verið teflt fram af hálfu stefnanda. Í raun gefi vísbendingar að líta í málinu, sem bendi í gagnstæða átt. Fyrir liggi, samkvæmt staðgreiðsluyfirlitum, sbr. dskj. nr. 6, að stefnandi hafi engra tekna aflað í níu mánuði ársins 2009, janúar til og með september. Hann virðist ekki heldur hafa verið í launaðri vinnu í janúar og febrúar 2010, en síðan verið við störf í þrjá mánuði, febrúar til og með maí, og þá unnið sér inn 100.000 kr. á mánuði. Stefnandi sýnist ekki hafa verið við störf í júní, en hafa svo notið greiðslna úr fæðingarorlofssjóði, sem hafi numið kr. 113.902 á mánuði í júlí og ágúst. Síðla í september 2010 virðist hann svo hafa hafið störf hjá […] hf. Ekkert liggi fyrir um, að stefnandi hafi á einhvern hátt verið hamlaður frá atvinnuþátttöku. Með hliðsjón af þessum staðreyndum um þátttöku stefnanda á vinnumarkaði sé því mótmælt sem ósönnuðu, að fullnægt sé hugtaksskilyrðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 um óvenjulegar aðstæður. Að mati stefnda sé sá mælikvarði einstaklingsbundinn, þ.e. hann taki mið af aðstæðum hvers tjónþola fyrir sig. Í tilviki stefnanda verði ekki sagt, að aðstæður hans síðustu þrjú ár fyrir slys hafi verið óvenjulegar, framganga hans á vinnumarkaði hafi áfram verið sú sama eftir slys. Því beri að sýkna stefnda, enda sönnunarbyrðin um hinar óvenjulegu kringumstæður sannarlega stefnanda. Sú sönnun hafi ekki lánazt.
Til öryggis skuli því jafnframt mótmælt sérstaklega að bæta eigi framlagi til lífeyrissjóðs við, þegar litið sé til meðaltalsviðmiða, eins og stefnandi krefjist. Af hálfu stefnda sé því mótmælt, að slíkt eigi við rök að styðjast, auk þess sem það samrýmist vart dómafordæmum. Eins sé því mótmælt, að tækt sé að líta til kynbundins meðaltals. Í þriðja lagi sé því mótmælt, að meðaltal starfsstéttar, án tillits til ungs aldurs stefnanda, geti átt rétt á sér. Alþekkt sé, að tekjur dreifist misjafnt á starfsævi manna og óeðlilegt, að sá, sem ekki geti sýnt fram á rauntjón, þannig að miðað sé við opinberar upplýsingar um meðaltal starfsstéttar, njóti góðs af meðaltalstekjum, án tillits til aldurs. Nærtækara sýnist þannig að miða við meðaltal byrjunarlauna, ef nokkur rök standi til þess að horfa til meðaltala sem þessara. Annað fái að mati stefnda ekki staðizt.
Stefndi vísi til áðurgreindra lagaraka, er varði sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafizt sé álags á málskostnað, er nemi virðisaukaskatti, en stefndu reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag, er þeim skatti nemur, úr hendi stefnanda.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.
Ágreiningur í máli þessu snýst einungis um það, hvort miða skuli bætur til handa stefnanda við 2. eða 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en stefnandi byggir á því, að árslaun hans síðustu 3 árin fyrir slys gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum hans, og því sé um óvenjulegar aðstæður að ræða í skilningi 2. mgr. 7. greinar laganna. Beri að miða árstekjur hans við meðallaun verkamanna, en hann hafi m.a. unnið ýmiss konar verkamannavinnu og muni það því vera réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans.
Stefnandi var 19 ára, þegar hann slasaðist. Samkvæmt stefnu var hann í námi við […] í samtals 2 ár á árunum 2005-2007, og var tæplega hálfnaður með námið, þegar hann hætti eftir vorönn 2007, og hefur hann ekki stundað nám síðan. Tekjur hans eftir að námi lauk og þar til hann lenti í slysinu voru óverulegar samkvæmt skattframtölum. Þá bera framtalsgögn með sér, að tekjur hans eftir slysið hafa jafnframt verið óverulegar. Hann hefur stundað ýmis störf, einkum við […], og þegið lág laun fyrir. Fyrir dómi skýrði hann svo frá, að skattframtöl hans eftir slysið gefi ekki rétta mynd af tekjum hans, þar sem hann hafi fengið mun hærri launagreiðslur fyrir […] en hann hafi talið fram til skatts, en því sé almennt háttað þannig á hrossaræktarbúum, þar sem hann hafi unnið, að launagreiðslur séu í raun hærri en það, sem gefið sé upp til skatts. Fram kom hjá stefnanda, að hann sé afar óráðinn um framtíð sína, hvort hann muni fara í nám eða hvaða starfsvettvang hann muni kjósa sér. Hann kvaðst hafa verið í barneignarleyfi í maí, júní, júlí og ágúst sl. sumar, auk þess sem hann hafi eitthvað verið í […]. Hann kvaðst ekki vera farinn að sækja um vinnu ennþá, en af framburði hans varð ráðið, að hann gerði ráð fyrir að vinna við svipuð störf og hingað til.
Svo sem að framan er rakið hefur stefnandi ekki, hvorki með áreiðanlegum gögnum um aflahæfi sitt, né með framburði sínum fyrir dómi, sýnt fram á eða gert líklegt, að önnur viðmiðun en sú, sem beitt var við uppgjör bóta til hans, sé réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.