Hæstiréttur íslands
Mál nr. 367/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 4. október 2001. |
|
Nr. 367/2001. |
Ríkislögreglustjóri(enginn) gegn X(Hilmar Magnússon hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Ekki þóttu vera efni til annars en að fallast á að X væri undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot eða eftir atvikum tilraun til brota gegn 155. gr. og 248. gr. laga nr. 19/1940, en þau gætu varðað fangelsisrefsingu ef sönnuð yrðu. Var einnig fallist á að X gæti torveldað rannsókn ef hann gengi laus. Var X því gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. október sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
I.
Samkvæmt gögnum málsins hefur sóknaraðili til rannsóknar sjö ætluð brot og tilraunir til brota gegn ákvæðum 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem hann kveður varnaraðila undir rökstuddum grun um að hafa átt hlut að.
Í einu tilviki sé þar nánar um að ræða þau atvik að Lloyds TSB Bank Plc. í Englandi hafi borist skrifleg beiðni, sem hafi borið með sér að stafa frá viðskiptamanni bankans, Teden & Co. í London, um að millifæra 18.947 sterlingspund inn á reikning nr. [...] við Landsbanka Íslands hf., en reikningshafi væri Y. Þetta hafi erlendi bankinn gert 17. apríl 2001, en reikningshafinn tekið greiðsluna út af reikningi sínum samdægurs í fernu lagi. Komið hafi í ljós að beiðnin um þessa millifærslu hafi ekki í reynd stafað frá nefndum viðskiptamanni erlenda bankans.
Í öðru lagi séu til rannsóknar þeir atburðir að aftur hafi sami erlendi bankinn fengið skriflega beiðni frá sama viðskiptamanni sínum um að millifæra á sama reikning við Landsbanka Íslands hf. 18.947 sterlingspund 27. apríl 2001. Hafi aftur komið í ljós að beiðnin um millifærsluna hafi ekki í raun komið frá viðskiptamanninum, en þessu sinni hafi það orðið uppvíst áður en féð var fært hingað til lands.
Í þriðja lagi sé um þau atvik að ræða að Northern Bank Ltd. í Belfast á Norður Írlandi hafi borist beiðni, sem hafi virst stafa frá viðskiptamanni bankans, N.I.C.E.M. Ltd. í London, um að millifæra 19.500 sterlingspund inn á reikning nr. [...] við Landsbanka Íslands hf., en eigandi þess reiknings væri fyrrnefndur Y. Þetta hafi erlendi bankinn gert 11. september 2001. Eigandi reikningsins hér á landi hafi sama dag tekið 18.000 sterlingspund af honum, en lagt andvirðið, 2.614.860 krónur, inn á reikning sinn nr. [...] við Búnaðarbanka Íslands hf. Erlenda bankanum hafi orðið ljóst 13. september 2001 að beiðnin um millifærsluna hafi verið fölsuð og óskað þegar eftir því að hún gengi til baka. Hafi verið um seinan að verða við því, en sóknaraðili lagt hald á fyrrgreinda innistæðu við Búnaðarbanka Íslands hf.
Í fjórða lagi séu til rannsóknar þau atvik að National Westminster Bank Plc. í London hafi borist beiðni, sem hafi virst stafa frá áðurnefndu félagi, N.I.C.E.M. Ltd., um að millifæra 19.495,79 sterlingspund á reikning nr. [...] við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, en eigandi reikningsins væri A. Hafi erlendi bankinn orðið við þessari beiðni 23. ágúst 2001. Næsta dag hafi umrædd fjárhæð verið tekin út af bankareikningnum hér á landi í þrennu lagi. Í ljós hafi komið að beiðni um millifærsluna hafi ekki í raun komið frá eiganda erlenda bankareikningsins.
Í fimmta lagi sé um að ræða alveg sambærilegt tilvik við það, sem síðast var nefnt, nema að í það sinn hafi verið millifærð hingað til lands 19.495,81 sterlingspund 4. september 2001 og sú fjárhæð tekin út af áðurnefndum reikningi við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sama dag.
Í sjötta lagi sé til rannsóknar það tilvik að National Westminster Bank Plc. í London hafi borist beiðni um millifærslu inn á reikning nr. [...] við Íslandsbanka-FBA hf., en eigandi hans sé að nafni Z. Hafi beiðnin verið sögð stafa frá P.B. Conway um greiðslu að fjárhæð 8.500 sterlingspund. Við þessu hafi erlendi bankinn orðið 13. júní 2001 og féð verið fært hingað til lands, en millifærslan verið afturkölluð daginn eftir án þess að eigandi reikningsins hér á landi gæti ráðstafað fénu. Komið sé fram að beiðni um þessa millifærslu hafi verið fölsuð.
Í sjöunda lagi séu loks þau atvik til rannsóknar að Barclays Bank Plc. í London hafi borist beiðni um millifærslu inn á sama reikning við Íslandsbanka-FBA hf. og getið var um hér næst á undan, en hún hafi virst stafa frá Young Disco Hire Sales Ltd. Samkvæmt beiðninni hafi 8.500 sterlingspund verið færð yfir á reikninginn hér á landi 12. júní 2001, en millifærslan verið dregin til baka 15. sama mánaðar án þess að eigandi hans hafi náð að ráðstafa fénu. Komið hafi í ljós að beiðni um millifærsluna hafi ekki í raun komið frá nefndu félagi.
II.
Áðurnefndur Y var handtekinn af lögreglunni 27. september 2001 ásamt nafngreindri sambúðarkonu sinni. Í lögregluskýrslu sama dag bar hún að Y hefði heimilað varnaraðila að láta millifæra fé frá útlöndum inn á áðurnefnda bankareikninga sína við Landsbanka Íslands hf., en fyrir þetta hafi Y átt að fá nánar tilgreinda þóknun. Í lögregluskýrslu 27. september 2001 gaf Y skýringar á þessum bankaviðskiptum, sem hann hvarf síðan frá fyrir dómi næsta dag þegar þar var tekin fyrir krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir honum. Greindi Y þar frá atvikum á samsvarandi hátt og sambúðarkona hans hafði áður gert í lögregluskýrslu. Sóknaraðili hefur þessu til viðbótar lagt fyrir Hæstarétt aðra lögregluskýrslu Y 1. október 2001, þar sem ítarlegri frásögn um þessi efni kemur fram.
Sóknaraðili hefur einnig lagt fyrir Hæstarétt skýrslu, sem fyrrnefnd Z gaf fyrir lögreglunni 1. október 2001. Þar bar hún meðal annars að hún hefði heimilað varnaraðila að láta millifæra fé erlendis frá inn á áðurgreindan bankareikning hennar við Íslandsbanka-FBA hf., en um uppruna fjárins hefði henni ekki verið kunnugt.
Samkvæmt því, sem komið er fram af hendi sóknaraðila, hefur ekki tekist að hafa uppi á áðurnefndum A, sem nú sé talinn dveljast erlendis. Af gögnum, sem liggja fyrir í málinu um húsleit á heimili varnaraðila, verður ráðið að hann hafi átt samskipti við mann þennan og meðal annars haft undir höndum upplýsingar um bankareikning hans.
Varnaraðili var handtekinn vegna málsins að kvöldi 27. september 2001, en gaf skýrslu fyrir lögreglunni næsta dag. Hann bar þar af sér allar sakargiftir sóknaraðila. Þegar varnaraðili var leiddur fyrir héraðsdómara 28. september 2001 vegna kröfu um gæsluvarðhald staðfesti hann framburð sinn fyrir lögreglu og kvaðst engu hafa þar við að bæta.
Af því, sem að framan greinir, eru ekki efni til annars en að fallast á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot eða eftir atvikum tilraun til brota gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga, sem áður er getið, en þau gætu varðað fangelsisrefsingu ef sönnuð yrðu. Verður einnig að fallast á að ætla megi að varnaraðili gæti torveldað rannsókn með því bæði að sammælast við aðra og koma undan gögnum ef hann gengi laus. Samkvæmt því er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald. Er ekki tilefni til annars en að ákveða að gæsluvarðhald standi þann tíma, sem sóknaraðili krefst.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2001.
Ár 2001, föstudaginn 28. september, á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allani Vagni Magnússyni, héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Í greinargerð Ríkislögreglustjóra segir að "efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans hefur nú til rannsóknar meint brot Y, [...], og kærða X gegn 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Upphaf málsins var það að 2. ágúst s.l. barst efnahagsbrotadeild beiðni frá breskum lögregluyfirvöldum um að rannsakaðar yrðu tvö atvik sem vörðuðu fjársvik og tilraun til fjársvika af bankareikningum breska fyrirtækisins TEDEN & CO. Þann 17.04.2001, voru sviknar út GBP 18.947, með falsaðri skriflegri beiðni um millifærslu af bankareikningi TEDEN & CO frá LLOYDS TSK BANK inn á reikning nr. [...] í Landsbanka Íslands. Þann 27.04.2001, var síðan gerð tilraun til fjársvika að fjárhæð GBP 18.947. Með því að nota falsaða skriflega beiðni um millifærslu af bankareikningi TEDEN & CO frá LLOYDS TSK BANK inn á reikning nr. [...] í Landsbanka Íslands. Mál þetta hafði verið kannað óformlega af efnahagsbrotadeild í júní s.l. eftir að beiðni barst frá breskum lögregluyfirvöldum fyrir milligöngu INTERPOL, um að upplýst yrði hver væri móttakandi framangreindrar millifærslu 17.04.2001 og bankareikningsins í LÍ hf. Reyndist eigandi bankareikningsins vera Y og höfðu peningarnir sem millifærðir voru þann 17.04.2001 verið fjarlægðir af reikningnum sama dag í nokkrum úttektum. Þann 13. september s.l. barst tilkynning frá Landsbanka Ísland til efnahagsbrotadeildar á grundvelli laga um varnir gegn peningaþvætti, um að Y hafi fengið millifærðar GBP 19,500 inn á framangreindan reikning í Landsbankanum 11.09.2001, frá banka á Norður-Írlandi. Skömmu eftir millifærsluna hafði Landsbankanum borist beiðni um afturköllun millifærslunnar vegna þess að um fjársvik væri að ræða. Við nánari eftirgrenslan kom í ljós að um sambærilegt brot var að ræða og í hinum tveimur tilfellunum og hafði millifærslan verið fengin fram með falsaðri skriflegri beiðni um millifærslu af bankareikningi NICEM Limited, í Northern Bank LTD. í Belfast á Norður-Írlandi. á reikning nr. [...] í Landsbanka Íslands. Vegna rannsóknarbeiðnar lögreglunnar í Bretlandi og undanfara málsins þar sem grunur hafði beinst að þessum sama manni, þ.e. kærða, var ráðist í að kanna hvað orðið hefði af peningum þeim sem bárust 11.09.2001. Kom þá í ljós að Y hafði tekið megnið af peningunum út af reikningnum í LÍ og lagt þá inn á bankareikning sinn í Búnaðarbanka Íslands hf. nr. [...], eða kr. 2.614.860. Efnahagsbrotadeild hefur nú haldlagt þessa peninga með vísan til 78. gr. laga nr. 19, 1991, vegna rannsóknar málsins. Við eftirgrenslan kom í ljós að Y var út á sjó og kæmi að landi 27. september. Y var síðan handtekinn við heimkomu kl. 9.39 að morgni 27. september. Y var yfirheyrður eftir handtöku ásamt unnustu sinni B, kt. [...] sem einnig var handtekin í sama skipti en hefur nú verið látin laus. Leit fór fram á heimili þeirra með samþykki B. Y var úrskurðaður af Héraðsdómi Reykjavíkur í dag til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12.10.2001. Í framburði sínum hjá lögreglu segir B kærða hafa lánað X, reikning sinn í Landsbankanum til að millifæra peninga. Y hafi átt að fá ákveðna prósentu af fjárhæðinni fyrir þetta, u.þ.b. 10 20 %. B segir X hafa fengið alla peningana frá Y. Það hafi átt sér stað með þeim hætti að Y hafi farið einn í bankann og tekið út fjárhæð sem mætta kveðst ekki geta skilgreint frekar. Þeir Y og X hafi síðan mælt sér mót og einhvers staðar og Y afhent X alla fjárhæðina að frátaldri þeirri fjárhæð sem Y hafi fengið í sinn hlut, nærri 300.000.- krónum, sem þau hafi ráðstafað í eigin þágu. B segir X hafa nokkra aðila til að hjálpa sér við þessar peningafærslur. Nígeríska konu sem heiti Z sem búi hér á landi, mann sem heiti A sem er annað hvort frá Nígeríu eða Cameroon.
Í framburði sínum fyrir dómi vegna kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir Y játaði hann að hafa tekið við greiðslum í framangreind tvö skipti og að hann hafi gert það að beiðni kærða X gegn greiðslu. Hann neitaði að hafa vitað að um svikið fé væri að ræða. Hann hafi ekki enn afhent X féð sem millifært var 10.09.2001. Þegar Y var í yfirheyslu 27.09.2001 hjá lögreglu um að gera grein fyrir vitneskju sinni um Teden & Co. í Englandi og hvaða samskipti hann hafi átt við fyrirtækið, hvaðst hann ekki kannast við þetta félag og hann hafi aldrei átt samskipti við það.
Lögreglu barst 13. september s.l. peningaþvættistilkynning frá Landsbanka Íslands hf. um að maður að nafni A, kt. [...], hafi fengið greitt inn á reikning sinn [...], tvær greiðslur þann 22.08.01 og 31.08.01 frá NICEM Limited, af reikningi í Northern Bank LTD í Belfast að fjárhæð hvor GBP 19.500. Borist hefur beiðni um að millifærsla þessi verði stöðvuð vegna þess að um fjársvik sé að ræða. Um er að ræða sama aðila NICEM sem varð fyrir svikum og Y tók við fé frá þann 11.09.2001, auk þess sem um sömu fjárhæðir er að ræða. Grunur leikur á að sömu menn standi að baki þessum svikum og þeim sem Y er grunaður um enda um sömu fjárhæðir fyrirtæki og banka að ræða. Á þessari stundu er ekki búið að hafa upp á A hans er leitað vegna gruns um aðild að málinu. Þessi grunur lögreglu um aðild A að málinu styður framburð B.
Á þessari stundu hefur ekki tekist að hafa upp á konu þeirri sem B nefnir í framburði sínum og ber nafnið Z en hennar hefur verið leitað.
X sem var handtekinn að kvöldi 27.09.2001, hefur verið yfirheyrður af lögreglu en neitað sök. Y hefur gefið mjög ótrúverðugar skýringar á millifærslunum er nauðsynlegt að einangra kærða svo hann reyni ekki að hafa áhrif á vitni og meðseka eða meðsekir á hann, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991. Krafa þessi áréttast því.
Þann 18. júní s.l. barst efnahagsbrotadeild peningaþvættistilkynning frá Íslandsbanka hf. um að borist hafi greiðsla frá National Westminister Bank, í London sendandinn var P.B. Conway. Greiðsla átti að greiðast inn á reikning í nafni Z, kt. [...], og var að fjárhæð GBP 8.500. Bankareiknings nr. [...] í nafni Z í bankanum. Daginn eftir barst Íslandsbanka beiðni um afturköllun frá hinum erlenda banka með þeirri skýringu að um fjársvik hafi verið að ræða og var millifærslan bakfærð áður en peningarnir voru lagðir inn á reikninginn. Á þessari stundu hefur ekki tekist að hafa upp á konu þessari en án efa er um sömu konu að ræða og B nefnir í framburði sínum og segir bera nafnið Z en hennar hefur verið leitað.
Grunur beinist því á þessari stundu að Y, A og Z sem öll tengjast erlendum millifærslum á peningum sem tilkomnar hafa verið fyrir svik og kærða X sem Y og B hafa bent á sem samverkamann eða aðalmann í svikunum. X sem var handtekinn að kvöldi 27.09.2001, hefur verið yfirheyrður af lögreglu en neitað sök.
Rannsókn málsins er enn á frumstigi og mun hún ef að líkum lætur þurfa að hluta til fara fram með aðstoð erlendra lögregluyfirvalda. Enn hefur ekki tekist að handtaka og yfirheyra alla grunuðu. Bendir framangreint, þó einkum framburður unnustu Y og hans sjálfs, til þess að í hlut eigi auk kærða A og Z sem eru landar kærða.
Með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, telur lögregla nauðsyn á að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til að koma í veg fyrir að hann geti komið undan gögnum haft áhrif á framburð meðsekra og vitna.
Krafa þessi áréttast".
Samkvæmt því sem kemur fram í málavaxtalýsingu hér að framan svo og rannsóknargögnum er rökstuddur grunur fyrir hendi um að kærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geta hann fangelsisrefsingu ef þau sönnuðust. Rannsókn máls þessa er á frumstigi og skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 eru fyrir hendi og verður krafa Ríkislögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. október 2001 kl. 16.00.