Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/2010


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


                                                        

Miðvikudaginn 16. júní 2010.

Nr. 30/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

Guðrún Björg Birgisdóttir hdl.

(Berglind Svavarsdóttir hrl.

réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

X var gefið að sök í þremur ákæruliðum að hafa á árinu 2003 káfað innanklæða á kynfærum A, dóttur sinnar, fæddri 1996, en að auki í 2. lið ákæru að hafa haft við hana samræði eða önnur kynferðismök og í 3. lið að hafa haft við hana samræði. X játaði að hafa káfað á kynfærum A innanklæða, en neitaði hins vegar að hafa haft samræði eða önnur kynferðismök við stúlkuna. Ekki var talið varhugavert að leggja framburð A til grundvallar niðurstöðu með þeim stuðningi sem hann fékk, einkum í vottorðum kvensjúkdómalæknis og barnalæknis og framburði vitna. Var X því sakfelldur fyrir þessi brot, en þó að því frátöldu að ósannað þótti að verknaður, sem 2. liður ákæru tók til, hefði verið fullframinn og var hann því sakfelldur fyrir tilraun til þess brots. Niðurstaða héraðsdóms um að brot X samkvæmt 2. lið ákæru hefði ekki verið fullframið hlaut eðli máls samkvæmt að vera reist á mati dómsins á sönnunargildi framburðar A gagnstætt neitun hans. Var talið að samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gæti Hæstiréttur ekki endurmetið þessa niðurstöðu til sakfellingar X eins og krafist var af hálfu ákæruvaldsins. Var háttsemi X talin varða við 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk þess sem háttsemi X samkvæmt 2. lið ákæru var heimfærð undir 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr., sbr. 20. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X væri sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barnungri dóttur sinni. Með brotum sínum hefði hann brugðist trúnaðarskyldum við barn sitt. Þá hefði hann brotið gróflega gegn friðhelgi einkalífs stúlkunnar. X hefði jafnframt borið að brotin hefðu öll verið framin á sama degi og var það talið til marks um einbeittan brotavilja hans. Þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða A 1.500.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

 Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2003 til 13. apríl 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst þess að hann verði ekki sakfelldur fyrir að hafa haft samræði eða önnur kynferðismök við dóttur sína, fyrrnefnda A, eins og honum er gefið að sök í 2. og 3. lið ákæru, en án tillits til þess verði refsing milduð. Þá krefst hann þess að dæmd fjárhæð einkaréttarkröfu verði lækkuð.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærða gefið að sök í öllum þremur liðum ákæru að hafa á árinu 2003 káfað á kynfærum dóttur sinnar innanklæða, en að auki í 2. lið að hafa haft við hana samræði eða önnur kynferðismök og í 3. lið að hafa haft við hana samræði. Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir þessi brot, en þó að frátöldu því að ósannað þótti að verknaður, sem 2. liður ákæru tekur til, hafi verið fullframinn og var hann því sakfelldur fyrir tilraun til þess brots. Fyrir Hæstarétti er af hálfu ákæruvaldsins krafist að þessari niðurstöðu héraðsdóms verði breytt og ákærði sakfelldur fyrir alla þá háttsemi, sem í ákæru greinir. Niðurstaða héraðsdóms um að brot ákærða samkvæmt 2. lið ákæru hafi ekki verið fullframið hlýtur eðli máls samkvæmt að vera reist á mati dómsins á sönnunargildi framburðar dóttur ákærða, gagnstætt neitun hans. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið þessa niðurstöðu til sakfellingar ákærða eins og krafist er af hálfu ákæruvaldsins.

Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt öllum liðum ákæru og heimfærslu brota hans til refsiákvæða, en þó að því gættu að háttsemi hans samkvæmt 2. lið ákæru verður heimfærð undir 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða, sakarkostnað og miskabætur, en um vexti af þeim fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að einkaréttarkrafa A skal bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2003 til 13. apríl 2009, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 599.296 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Berglindar Svavarsdóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2009.

Málið er höfðað samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 14. ágúst 2009, á hendur X, kt. 000000-0000, …., Reykjavík, fyrir eftirfarandi kynferðisbrot gegn dóttur sinni, A, fæddri 1996, með því að hafa á árinu 2003, á …:

  1. Á þáverandi heimili þeirra að …, káfað á kynfærum hennar innanklæða.
  2. Í fjöru við Leiðarhöfða, káfað á kynfærum hennar innanklæða og haft við hana samræði eða önnur kynferðismök.
  3. Í forstofu íbúðar að …, káfað á kynfærum hennar innanklæða og haft við hana samræði.

Telst brot ákærða samkvæmt 1. ákærulið varða við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum en samkvæmt 2. og 3. ákærulið við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu Z vegna A, kt. 000000-0000, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júní 2003 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að bótakrafa verði lækkuð. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik

                Með bréfi, dagsettu 5. nóvember 2008, beindi félagsmála- og barnaverndarnefnd [...] kæru til lögreglu um meint kynferðisbrot ákærða gegn dóttur sinni A. Í kærunni kemur fram að í samtali við móður stúlkunnar 21. október 2008 hefði komið fram að stúlkan hefði í ágústmánuði þar á undan sagt móður sinni að ákærði hefði, líklega þegar hún var 6 til 7 ára, gert henni eitthvað kynferðislegs eðlis, káfað á henni og gert henni eitthvað meira kynferðislegt. Hefði stúlkan sagt móður sinni að ákærði hefði „farið alla leið“. Hefði móðirin ekki treyst sér til að ræða þetta frekar við stúlkuna, en ákveðið eftir umhugsun að snúa sér til barnaverndaryfirvalda.

                Þann 26. nóvember 2008 var tekin skýrsla af A í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Lýsti hún í upphafi atviki sem átt hefði sér stað sumarið 2006 þegar þær B, hálfsystir hennar, voru einar með ákærða í sumarhúsi í [...]. Hefði ákærði þá farið að hegða sér mjög undarlega og verið mjög reiður. Hefði hann farið með B inn á baðherbergi og hún heyrt að eitthvað rakst í vegginn. Hefði hún verið mjög hrædd við ákærða. Ákærði hefði komið fram með B og sagt þeim að koma í heitan pott með sér. Hann hefði síðan lagst á gólfið og sagt að 200 hermenn væru að koma til að nauðga þeim. Þær hefðu komið sér út úr húsinu og gengið um langan veg þar til þær komust í hús þar sem unglingar voru fyrir, sem hefðu hjálpað þeim og hringt á lögreglu.

Þá sagði stúlkan frá því að ákærði hefði reynt að nauðga henni á þeim tíma sem hún bjó með honum og móður sinni á …. Hún hefði verið í 2. bekk þegar þetta var, á bilinu 7 til 8 ára. Um þrjú atvik hefði verið að ræða. Þegar þetta gerðist fyrst hefðu þau ákærði verið ein heima og legið uppi í sófa og horft á mynd í sjónvarpinu sem sýndi konu fæða barn. Hefði ákærði spurt hana hvort hún vissi hvernig börnin yrðu til og hún svarað því játandi. Síðan hefði hann reynt að gyrða niður um hana, en ekki tekist það, að því er hún taldi, vegna þess að móðir hennar hefði komið heim. Í annað skipti hefði hann farið með hana niður í fjöru og reynt að nauðga henni í helli sem þar var. Hann hefði einnig gert þetta einu sinni heima hjá ömmu hennar og afa. Hann hefði látið hana leggjast á gólfið og byrjað að nauðga henni. Þegar þetta gerðist í fjörunni hefði hún setið á steini. Ákærði hefði gyrt niður um þau bæði og síðan byrjað að reyna að nauðga henni. Hún hefði meitt sig mjög mikið í kynfærunum, en hann hefði sagt að þetta væri leyndarmálið þeirra. Spurð um hvað hún ætti við með því að ákærði hefði reynt að nauðga henni svaraði hún að hann hefði „getað það“. Hún hefði ekki viljað það en hann hefði gert það samt. Hún svaraði því játandi að ákærði hefði sett kynfæri sitt í kynfæri hennar. Stúlkan sagði að þriðja atvikið sem hún lýsti hefði átt sér stað þegar þau ákærði höfðu farið út saman til að leigja myndband. Hann hefði hins vegar ekið heim til ömmu hennar og afa, sagt henni að leggjast niður frammi á gangi, sem hún hefði gert og hann þá byrjað að nauðga henni. Amma hennar og afi hefðu ekki verið heima þegar þetta var. Ákærði hefði gyrt niður um þau bæði og þetta hefði gengið fyrir sig eins og áður í fjörunni. Hann hefði sett kynfæri sitt upp í kynfæri hennar. Hún hefði meitt sig við þetta og fundist vont að fara á salernið „þegar hann var alltaf búinn að gera þetta“, þ.e. í bæði þessi skipti. Í þetta síðasta skipti heima hjá ömmu hennar og afa hefði ákærði sagt henni að snúa sér við og síðan haldið áfram í smástund. Hún hefði þá farið að gráta og hann sagt henni að standa upp og síðan ítrekað við hana að þetta ætti að vera leyndarmálið þeirra. Stúlkan sagðist halda að ekki hefði komið blóð þegar þetta gerðist. Hún sagði atvikið í fjörunni hafa gerst daginn eftir atvikið þegar þau voru heima að horfa á myndina í sjónvarpinu. Atvikið heima hjá ömmu og afa hefði átt sér stað um tveimur dögum síðar. Þetta hefði verið um sumar að því er hún taldi, í maí eða júní. Spurð hvort ákærða hefði tekist að setja kynfæri sitt í kynfæri hennar, þegar þau voru í fjörunni, svaraði stúlkan: „Já svona af því þú veist ég var svo lítil þannig að nei hann náði því ekki alveg, en hann var alla vega sko að reyna það, ég man það ekki alveg, nei ég held hann hafi ekki alveg náð því, en minnir mig heima hjá ömmu, mig minnir að hann hafi náð því þá.“ Hún lýsti því nánar að þegar hún var með ákærða í fjörunni hefði hún setið uppi á steini, en hann hefði staðið „á móti“ henni. Þegar þau voru heima hjá ömmu hennar og afa hefði hún legið á gólfinu og ákærði verið á hnjánum „á móti“ henni. Sagðist hún hafa fundið í síðarnefnda skiptið að kynfæri hans hefðu farið „alveg inn“. Þetta hefði verið sárt og aðeins verra heima hjá ömmu og afa en í fjörunni. Þá sagði stúlkan að þegar þetta gerðist fyrst, þ.e. þegar þau voru heima að horfa á mynd, hefði ákærði fiktað í kynfærum hennar eftir að hafa gyrt niður um hana. Hún sagðist telja að ákærði hefði ætlað að fara að nauðga henni þarna, en ekki náð því vegna þess að móðir hennar kom heim. Stúlkan sagðist hafa viljað leyna móður sína því sem gerst hafði og ekki viljað að hún vissi af því. Þó hefði hún eitt sinn spurt hana hvað barnshafandi konur gengju lengi með barnið í maganum, en hún hefði þá verið hrædd við að hún væri orðin „ólétt“. Þá sagði stúlkan frá því að hún hefði sagt B hálfsystur sinni frá því sem hefði gerst, eftir atvikið í sumarbústaðnum sumarið 2006.

                Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 9. janúar 2009. Viðurkenndi hann þá að hafa brotið kynferðislega gegn stúlkunni þegar hún var á aldrinum 6 til 7 ára. Sagðist ákærði hafa verið í mikilli vímuefnaneyslu á þessum tíma. Sagðist hann hafa snert kynfæri telpunnar. Þetta hefði átt sér stað á heimili þeirra að .., [...], og einnig þar skammt frá í fjörunni á bak við húsið. Sagðist ákærði telja að þetta hefði verið árið 2003. Hann hefði snert kynfæri telpunnar utan klæða og innan, eftir að hafa klætt hana úr fötum. Ákærði sagðist muna eftir atviki sem stúlkan hafði lýst og hefði átt sér stað þegar þau voru að horfa á barnatímann í sjónvarpinu á heimili sínu. Hefði hann klætt telpuna úr nærbuxum og strokið henni um kynfæri og líkama. Ákærði sagðist ekki minnast þess að hafa sjálfur klætt sig úr, en hann útilokaði ekki að hafa losað belti sitt eitthvað. Þennan sama morgun hefðu þau farið að þeim stað sem stúlkan hafði lýst í fjörunni rétt neðan við húsið þar sem þau bjuggu. Þar hefði hann klætt hana úr báðum buxum og strokið kynfæri hennar. Ákærði sagðist ekki minnast þess frekar en fyrr að hafa sjálfur klætt sig úr, en útilokaði ekki að hafa losað um belti á buxum sínum. Síðar þennan dag hefðu þau farið heim til afa og ömmu telpunnar að …. Þar í forstofunni hefði hann klætt telpuna úr að neðan og strokið kynfæri hennar. Hann hefði ekki afklæðst sjálfur. Ákærði sagðist ekki minnast þess að telpan hefði farið að gráta þarna. Hann neitaði því að hafa nokkru sinni haft samfarir við telpuna eða sett fingur í leggöng hennar.

                A gekkst undir læknisskoðun í Barnahúsi 21. janúar 2009. Í vottorði Jóns R. Kristinssonar barnalæknis og Ebbu Margrétar Magnúsdóttur kvensjúkdómalæknis, dagsettu 2. febrúar 2009, kemur fram að skoðun hafi leitt í ljós „þykkt, U-laga meyjarhaft, op um 3 mm með skarði í meyjarhafti kl. ca 15“. Kemur fram að skoðun sé eðlileg á ytri kynfærum, þó sjáist skarð í meyjarhafti eins og að framan er lýst og lítið fleiðursár innanvert á innri barmi, 3 mm. Skoðun útiloki ekki að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

                Meðal gagna málsins er vottorð Arnfríðar Kjartansdóttur sálfræðings, dagsett 2. febrúar 2009, um viðtal sem hún átti við A. Kemur fram að erfitt sé að meta eftir eitt viðtal hvort eða hvernig sú kynferðislega áreitni, sem stúlkan hafi orðið fyrir, hafi áhrif á hana nú. Þó sé nokkuð víst að það hafi mótað hana mikið að búa með föður sem átti við geðræn vandamál og fíkn að stríða. Hafi komið fram í viðtalinu að stúlkan sé mjög hrædd við föður sinn og vilji ekkert af honum vita.

Þá er í málinu greinargerð Ágústs Sigurðar Óskarssonar, ráðgjafa barnaverndar Félagsþjónustu Norðurþings, dagsett 7. júlí 2009, um viðtöl við A og móður hennar, Z. Hafi komið fram að móðir stúlkunnar hafi smátt og smátt rifjað upp atvik úr lífi fjölskyldunnar og geri sér nú grein fyrir því að sú kynferðislega misnotkun sem stúlkan hefði orðið fyrir hafi haft meiri og langvinnari neikvæð áhrif á hana en móðirin hefði talið í fyrstu. Þó verði að hafa í huga að fjölskyldan hafi búið við sérstakar aðstæður, stöðugar óvæntar uppákomur og líkamlegt og andlegt ofbeldi af hálfu ákærða, sem hafi verið fíkill með geðrænar truflanir. Að mati ráðgjafans sé sjálfsmynd stúlkunnar veik. Hún ræði um að hún sé feit og ljót og tali neikvætt um sjálfa sig. Þá hafi hún í janúar og apríl sl. orðið uppvís að því að skaða sig með því að skera í upphandlegg sinn. Komið hafi í ljós að stúlkan hefði hætt í fimleikum þegar hún var 7 ára, en hefði áður verið mjög annt um þá íþróttaiðkun. Rakti móðir hennar þetta til þess að karlþjálfari hefði tekið við af kvenþjálfara á þessum tíma. Að mati ráðgjafans fari vanlíðunareinkenni stúlkunnar vaxandi og sé smátt og smátt hægt að tengja slæma líðan hennar við umrædd atvik. Þó verði ekki fullyrt að öll neikvæð áhrif verði rakin til þeirra atvika, þar sem aðrar umhverfisaðstæður kunni að koma þar til einnig.

                Þann 5. júní 2008 gekk dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem ríkissaksóknari höfðaði á hendur ákærða fyrir líkamsárás og brot gegn blygðunarsemi 14 ára gamallar dóttur hans, B, með því að hafa föstudaginn 14. júlí 2006, í sumarhúsi við [...] í [...], berað á sér kynfærin, sett hendur á maga stúlkunnar og sagt við hana að þau þyrftu að hafa samfarir, slegið hana með flötum lófa og krepptum hnefa í andlit með þeim afleiðingum að stúlkan hlaut sár og bólgu á neðri vör. Var háttsemin í ákæru talin varða við 209. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við tilgreind ákvæði barnaverndarlaga. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, sem vitnað er til í dóminum, barst lögreglu þennan dag tilkynning um að tvær stúlkur, B og A, hefðu komið að skátaaðstöðunni við [...], blautar og illa til reika. Hefðu þær verið hræddar við föður sinn, ákærða, sem þær hefðu dvalist með í sumarbústað þar nærri. Hefði ákærði fundist síðar um nóttina í bifreið sem ekið hefði verið út í [...]. Hann hefði verið fluttur á sjúkrahús og síðar á geðdeild. Í skýrslutökum báru stúlkurnar tvær um undarlega hegðun ákærða í umrætt sinn. Sagði B ákærða hafa viðhaft þau ummæli sem hann var ákærður fyrir þegar þau voru stödd inni á baðherbergi í sumarbústaðnum og segir í dóminum að augljóst hefði verið af lýsingum hennar að ummælin hefðu tengst ranghugmyndum sem ákærði hefði verið haldinn. Lýsti stúlkan því að ákærði hefði einnig slegið hana í þessari atburðarás. Ákærði játaði sök í málinu, en taldi háttsemi sína ekki eiga undir 209. gr. almennra hegningarlaga vegna ástands sem hann var í á verknaðarstundinni. Í vottorði sem geðlæknir ritaði um geðhagi ákærða kemur fram að samkvæmt lýsingum ákærða sjálfs og vitna yrði að telja líklegt að hann hefði verið í einhvers konar sturlunarástandi daginn sem atvikið átti sér stað og í einhvern tíma þar á undan. Samkvæmt lýsingum einkenndist ástand hans af trúarlegum mikilmennskuhugmyndum, hugsanaruglingi og heyrnarofskynjunum samfara spennu, óróleika og svefnleysi. Yrði að telja líklegt að um amfetamín framkallaða sturlun hefði verið að ræða og hefði það ástand ekki gengið yfir að fullu fyrr en tæpum tveimur mánuðum síðar eftir að ákærði fékk geðlyfjameðferð á sjúkrahúsi. Var niðurstaða dómsins sú að sannað væri að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Með hliðsjón af vottorði og vitnisburði geðlæknisins var hins vegar talið að ákærði hefði á verknaðarstundu verið ófær um að stjórna gerðum sínum, eins og lýst er í 15. gr. almennra hegningarlaga. Var hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins í málinu.

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði játaði að hafa káfað á kynfærum dóttur sinnar, A, eins og lýst er í 1. ákærulið. Þá játaði ákærði að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar innan klæða eins og lýst er í 2. og 3. ákærulið, en neitaði að hafa haft við hana samræði eða önnur kynferðismök eins og þar getur. Þá kannaðist ákærði við að þessi atvik hefðu orðið á þeim stöðum sem í ákæru greinir. Hann sagðist telja að þetta hefði verið um haustið 2003, um það leyti sem stúlkan var að byrja í skólanum, en hún hefði þá verið 7 ára. Hefur ákærði borið að atvikin hafi öll átt sér stað sama daginn, frá morgni og fram undir kvöldmatarleyti, og í þeirri röð sem rakið er í ákæru. Hafi hann verið undir áhrifum amfetamíns þennan dag, en myndi þó algjörlega eftir þessu. Hann hefði fært stúlkuna úr fötunum og káfað á nöktum kynfærum hennar. Ákærði sagðist ekki vita hvað hefði orðið til þess að hann hætti. Í síðasta tilvikinu fyndist honum þó að hann hefði komið til sjálfs sín og hætt þess vegna. Hann sagði geta verið að stúlkan hefði farið að gráta í það skipti. Hann neitaði alfarið að hafa haft samræði eða reynt að hafa samræði við stúlkuna. Þá sagðist hann ekki hafa gert neitt við sig sjálfan á meðan á þessu stóð. Hann hefði ekki afklæðst, en verið gæti að hann hefði losað um belti sitt í síðari skiptin tvö. Varðandi atvikið í fjörunni, sem lýst er í 2. ákærulið, kannaðist ákærði við að stúlkan hefði setið á steini þegar þetta fór fram og að þekkti þann stein á ljósmynd sem lögregla tók á vettvangi.

Vitnið Z, móðir A, sagðist fyrst hafa heyrt af meintum brotum ákærða gegn henni síðastliðið haust. Stúlkan hefði átt það til á síðustu árum að fá grátköst, en ekki getað útskýrt hvað væri að. Sagðist vitnið hafa spurt hana þegar hún fékk slíkt grátkast í þetta sinn hvort líðan hennar tengdist eitthvað föður hennar. Hefði stúlkan neitað því að þetta tengdist atvikinu í sumarhúsinu, sem rakið hefur verið. Hefði hún þá spurt stúlkuna hvort hann hefði gert eitthvað slíkt aftur, en stúlkan neitað því og sagt að það hefði verið áður. Hefði hún þá spurt stúlkuna hvort ákærði hefði áreitt hana og þá hversu langt það hefði gengið. Stúlkan hefði svarað að það hefði „farið alla leið“ og að hann hefði „farið með typpið inn“. Hefði stúlkan grátið mikið er hún sagði frá þessu. Hefði hún sagt að þetta hefði gerst þegar hún var 6 ára.

Vitnið sagðist tengja ýmsar breytingar á hegðun dóttur sinnar þessum atburðum. Nefndi hún þessi óútskýrðu grátköst sem dæmi. Þá hefði stúlkan hætt í fimleikum þegar hún var 6 ára, en hún hefði verið mjög efnileg í þeirri íþrótt og þótt gaman. Hún hefði farið að tregðast við að fara út með föður sínum. Þá hefði hún á stundum sýnt sterk óttaviðbrögð, auk þess sem hún hefði dregið sig í hlé frá jafnöldrum og einangrast félagslega. Þegar hún liti til baka taldi hún þessi atvik hafa átt sér stað fyrir páska árið 2003. Þau hefðu þá búið í því húsi sem getur í ákæru og yngri systir A hefði verð nýfædd, eins og hún hefði lýst. Þau hefðu flutt til Noregs og búið þar um skeið á haustmánuðum 2003. A hefði þó verið byrjuð í skólanum áður en þau fóru utan.

Vitnið fullyrti að stúlkan hefði ekki verið með strákum. Hún væri ekki komin á það stig að vera byrjuð á því.  Hvað varðar áverka sem lýst er í læknisvottorði, sagðist hún ekki geta rakið þá til neins atviks. Hún sagði stúlkunni líða mjög illa. Hún einangraði sig félagslega, þyldi illa snertingu og ætti erfitt með að sýna tilfinningar. Umræða í fjölmiðlum um kynferðisbrot kæmi mjög illa við hana. Hún hefði brotna sjálfsmynd og hefði tvívegis skaðað sig með því að skera sig í handlegg. Hún væri mjög hrædd við ákærða og vildi ekki kenna sig við hann, heldur hefði tekið upp eftirnafn hálfsystur sinnar, A. Vitnið sagðist telja að atvikið í sumarbústaðnum hefði orðið til þess að opna hjá stúlkunni þetta gamla mál.

Vitnið B, dóttir ákærða, sagði A hálfsystur sína hafa sagt sér frá því sem hefði gerst, þegar atvikið varð í sumarbústaðnum, sem rakið hefur verið. Þegar þær voru á hlaupum úr sumarbústaðnum niður að skátaheimilinu hefði A sagt að pabbi þeirra hefði gert þetta við hana áður, þ.e. beitt hana ofbeldi. Hefði hún síðar sagt henni að pabbi þeirra hefði nauðgað henni, en það hefði verið eftir að hún sagði móður sinni frá þessu. Þegar þær voru í sumarbústaðnum hefði ákærði sagt við þær að hann ætlaði að sofa hjá þeim eða nauðga þeim. Þegar þær voru að hlaupa út úr húsinu hefði A sagt að ákærði hefði „reynt þetta við sig áður“. Hún hefði skilið hana þannig að ákærði hefði „sofið hjá“ henni áður. Nánar aðspurð sagði B að A hefði orðað þetta svo að ákærði hefði „gert þetta við sig áður“.

Vitnið Jón R. Kristinsson barnalæknir sagðist hafa skoðað myndband og myndir af kynfærum stúlkunnar ásamt kvensjúkdómalækni og hefðu sést þeir áverkar sem lýst er í læknisvottorði. Áverkinn á meyjarhafti væri gamall, en fleiðursárið hins vegar nýrra. Aðspurður sagði vitnið að skarðið á meyjarhaftinu gæti hafa orðið af því að samfarir hefðu verið hafðar við stúlkuna. Einhvers konar álag eða þrýstingur á meyjarhaftið gæti hafa valdið þessu. Vitnið sagði áverkann alveg geta komið heim og saman við lýsingar stúlkunnar á því sem hefði gerst. Það gæti verið að reynt hefði verið að hafa við hana samfarir. Með hliðsjón af því hvernig meyjarhaftið leit út efaðist hann um að þarna hefðu orðið fullkomnar samfarir, en hann gæti hins vegar ekki útilokað það. Aðspurður sagði vitnið mögulegt að þetta skarð hefði verið í meyjarhaftinu frá upphafi. Það væri ekki hægt að útiloka það með öllu. Þá hefði stundum verið sagt að svona geti gerst ef litlar stúlkur eru í fimleikum eða detta og meiða sig, en sjálfur þekkti hann ekki dæmi þess.

Vitnið Ebba Margrét Magnúsdóttir kvensjúkdómalæknir sagði ekki hægt að fullyrða hvort það skarð sem sást í meyjarhafti stúlkunnar við skoðun hefði verið þarna eða hvort um væri að ræða gamlan áverka. Þar sem meyjarhaftið væri til staðar, heillegt að aftanverðu og hægri hliðin heil, væri ólíklegt að fullt samræði hefði verið haft við stúlkuna. Það gæti verið að einhverju hefði verið potað þarna inn. Ekki væri víst að blætt hefði úr sárinu þegar skarðið varð til. Þá væri líka hugsanlegt að blæðing hefði lýst sér þannig að eitthvað brúnt hefði komið einhverjum dögum síðar og ekki víst að telpan hefði tekið eftir því. Nánar aðspurð taldi vitnið meiri líkur en minni að svona áverki myndi valda einhverri blæðingu. Skarðið gæti hafa skapast vegna togs sem hefði orðið við það að eitthvað hefði verið sett þarna inn og ýtt til hliðar. Það gæti hafa verið að einhver þrýstingur hefði valdið þessu. Gæti það vel samrýmst sögu og stúlkunnar, sem hefði borið um að hafa grátið og fundið til. Áverkinn komi heim og saman við það. Aðspurð sagði vitnið að um gamlan áverka væri að ræða. Hann væri eldri en nokkurra vikna, en ekki væri hægt að segja til um hvort um nokkurra mánaða eða nokkurra ára gamlan áverka væri að ræða.

Vitnið Ágúst Sigurður Óskarsson sagði stúlkuna hafa verið frekar lokaða í viðtölum og ekki viljað ræða þessi atvik, þótt hún hefði skýrt frá þeim við skýrslutöku fyrir dómi. Stúlkan væri með brotna sjálfsmynd. Hún væri með allra fallegustu börnum, en ræddi um að hún væri feit og ljót. Þá sýndi hún ýmis einkenni sem þekkt væru sem afleiðingar kynferðisbrota, s.s. tengslaskerðingu, vanlíðan, auk brotinnar sjálfsmyndar. Aðspurður sagði vitnið að verknaður á borð við þann sem ákærði hefði játað gæti haft mjög slæm áhrif á líðan barna.

Vitnið Arnfríður Kjartansdóttir sálfræðingur sagðist hafa átt 8 viðtöl við stúlkuna. Hefði stúlkan tjáð móður sinni áður en þær hittust að hún vildi ekki tala um „þetta“. Þær hefðu því rætt um annað, s.s. um samskipti á heimili og við jafnaldra. Líðan stúlkunnar virtist ekki fara batnandi. Hún væri t.d. hætt að mæta í sundtíma og gæti ekki útskýrt hvers vegna. Þá sinnti hún ekki námi sem skyldi. Móðir og kennari segðu hana halda sig til hlés og greindu kvíðaeinkenni hjá henni. Vitnið svaraði því játandi að háttsemi á borð við þá sem ákærði hefði játað gagnvart stúlkunni gæti haft viðvarandi áhrif á sálarlíf hennar.

Niðurstaða

                Ákærði játar að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar innan klæða eins og lýst er í 1. til 3. ákærulið. Kannast ákærði við að þetta hafi gerst á þeim stöðum sem lýst er í ákæru á árinu 2003 og segist hann telja að stúlkan hafi þá verið 7 ára gömul. Ákærði neitar hins vegar að hafa haft samræði eða önnur kynferðismök við stúlkuna, eins og lýst er í 2. og 3. ákærulið.

                Dómurinn horfði á myndbandsupptöku af skýrslutöku af A fyrir dómi, en ákæra er reist á lýsingum hennar á atvikum sem þar koma fram. Þótt augljóst væri að skýrslutakan hafi verið stúlkunni þungbær lýsti hún atvikum á einlægan og greinargóðan hátt að mati dómsins. Lýsti stúlkan því að ákærði hefði „reynt að nauðga henni“. Spurð að því hvað hún ætti við með því sagði stúlkan að hann hefði „getað það“ og að ákærði hefði „sett kynfæri sitt í kynfæri hennar“. Sagðist stúlkan hafa meitt sig í bæði skiptin sem þetta gerðist og fundið til þegar hún fór á salerni á eftir. Hefði hún farið að gráta þegar síðasta atvikið átti sér stað. Spurð hvort ákærða hefði tekist að setja kynfæri sitt í kynfæri hennar þegar þau voru í fjörunni, svaraði stúlkan að hann hefði reynt það, en ekki náð því alveg. Þá lýsti stúlkan því hvernig ákærði bar sig að og stellingum þeirra á meðan á þessu stóð. Að mati dómsins varð ráðið af framburði stúlkunnar að hún lýsti atvikum sem hún hefði raunverulega upplifað. Var framburður hennar afar trúverðugur að mati dómsins. Fram er komið að stúlkan greindi móður sinni, Z, frá atvikum í ágústmánuði 2008. Hefur móðirin borið að stúlkan hafi átt erfitt með að skýra frá því sem hefði gerst, en þó sagt að það hefði „farið alla leið“ og að hann hefði „farið með typpið inn“. Þá er fram komið að stúlkan hafði skýrt B hálfsystur sinni frá atvikum í júní 2006 og sagðist B hafa skilið hana svo að ákærði hefði „sofið hjá“ henni.

Móðir stúlkunnar hefur borið að hún hafi orðið vör við breytingar á líðan hennar um það leyti sem atvikin eiga að hafa átt sér stað. Meðal annars hafi stúlkan ekki viljað fara ein út með ákærða. Hafa móðirin, barnaverndarstarfsmaður og sálfræðingur borið um margs konar vanlíðan stúlkunnar, sem þau rekja til háttsemi ákærða. Þá er það niðurstaða kvensjúkdómalæknis og barnalæknis að skarð, sem sást í meyjarhafti stúlkunnar við skoðun, geti samrýmst sögu stúlkunnar og lýsingu hennar á atvikum. Í ljósi þess sem rakið hefur verið telur dómurinn ekki varhugavert að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar niðurstöðu, með þeim stuðningi sem hann fær, einkum í vottorði kvensjúkdómalæknis og barnalæknis, framburði þeirra vitna sem rakinn hefur verið og játningu ákærða, svo  langt sem hún nær. Verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa káfað á kynfærum telpunnar sem í 1. til 3. ákærulið greinir og jafnframt fyrir að hafa haft við hana samræði sem í 3. ákærulið greinir. Að því er 2. ákærulið varðar verður ákærði, með hliðsjón af framburði stúlkunnar sem að ofan er rakinn, jafnframt sakfelldur fyrir að hafa reynt að hafa samræði við stúlkuna í umrætt sinn, en ósannað þykir að um fullframið brot hafi verið að ræða. Varðar háttsemi ákærða samkvæmt 1. ákærulið við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, samkvæmt 2. ákærulið við 1. mgr. 200. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, og 1. mgr. 202. gr. sömu laga, en samkvæmt 3. ákærulið við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Ákærði er fæddur í nóvember 1969 og á hann nokkurn sakaferil að baki. Varðandi ákvörðun refsingar skiptir máli að ákærði var tvívegis dæmdur til refsingar fyrir brot á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni á árunum 2007 og 2008. Árið 2008 hlaut ákærði jafnframt skilorðsdóm fyrir skjalafals. Brot ákærða, sem hann er nú sakfelldur fyrir, voru framin fyrir uppkvaðningu nefndra dóma og verður refsing því ákveðin sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Verður refsing jafnframt tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn barnungri dóttur sinni. Með brotum sínum brást ákærði algjörlega trúnaðarskyldum við barn sitt. Þá braut ákærði gróflega gegn friðhelgi einkalífs stúlkunnar, en brotin voru m.a. framin á heimili fjölskyldunnar og á heimili ömmu og afa stúlkunnar. Ákærði hefur borið að brotin hafi öll verið framin á sama degi og er það til marks um einbeittan brotavilja hans. Samkvæmt öllu framansögðu, og með sérstakri hliðsjón af 1. og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár.

Með broti sínu hefur ákærði bakað sér skyldu til að greiða stúlkunni miskabætur, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Brot ákærða eru til þess fallin að skaða sjálfsmynd stúlkunnar og valda henni alvarlegum afleiðingum um ókomna tíð. Verður ákærði dæmdur til að greiða stúlkunni miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta sem í dómsorði greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, 974.837 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Harnar Freysdóttur héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 323.700 krónur auk ferðakostnaðar, 104.362 krónur. Eru málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Hallur Stefánsson og Sigrún Guðmundsdóttir kváðu upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.

Ákærði greiði A miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2003 til 30. október 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 974.837 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Harnar Freysdóttur héraðsdómslögmanns, 323.700 krónur auk ferðakostnaðar, 104.362 krónur.