Hæstiréttur íslands
Mál nr. 283/2001
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Búfé
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2001. |
|
Nr. 283/2001. |
Vilhjálmur Þ. Þórarinsson(Karl Axelsson hrl.) gegn Eggerti Guðmundssyni (Sigurður Jónsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Búfénaður. Tómlæti.
E, sem samkvæmt samkomulagi við V hafði afhent hinum síðarnefnda safn hrossa, krafðist greiðslu eftirstöðva kaupverðs. Greindi aðila m.a. á um það hvert umsamið verð hefði verið. Ekki var talið að V hefði getað vænst þess að E teldi 100.000 krónur næga skilagrein, auk þess sem E var ekki talinn hafa sýnt af sér tómlæti um endurgjald fyrir hestana. Samkvæmt þessu og með vísan til 5. gr. kaupalaga nr. 39/1922 var V gert að greiða E 656.000 kr., í samræmi við reikning E, enda hafði V ekki tekist að sanna, að hin umkrafða fjárhæð væri ósanngjörn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. ágúst 2001. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Þar kemur fram að stefndi afhenti safn hrossa, sem voru 21 að tölu, um borð í flutningabifreið sem áfrýjandi pantaði og greiddi fyrir. Dóttir áfrýjanda hafði skoðað hestana í umboði hans. Áfrýjandi hefur borið að stefndi hafi nefnt að hann þyrfti að fá 10 40.000 krónur fyrir hest. Er það verð lægra en ráða má af framlögðum álitum kunnáttumanna á þessu sviði um verð hesta á þeim tíma sem viðskiptin urðu. Gögn sem áfrýjandi hefur lagt fram um ráðstöfun hrossanna eru ófullkomin. Hefur hann á engan hátt staðið stefnda skil á verði hestanna að frátöldum 100.000 krónum sem hann greiddi fljótlega. Gat hann ekki vænst þess að stefndi teldi það næga skilagrein. Stefndi hefur borið að hann hafi munnlega gengið eftir kaupverðinu. Verður ekki talið að stefndi hafi sýnt af sér tómlæti um endurgjald fyrir hestana. Með þessari athugasemd en annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Samkvæmt þessum úrslitum ber áfrýjanda að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vilhjálmur Þ. Þórarinsson, greiði stefnda, Eggerti Guðmundssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. maí 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 6. apríl s.l., hefur Eggert Guðmundsson, kt. 140223-2209, Háeyrarvöllum 28, Eyrarbakka, höfðað hér fyrir dómi gegn Vilhjálmi Þ. Þórarinssyni, kt. 181149-2809, Syðra Garðshorni, 621 Dalvík, með stefnu birtri þann 17. nóvember 2000.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 656.000,- með dráttarvöxtum frá 9. október 1997 til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi þess, að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar og að nýir dráttarvextir verði reiknaðir af samanlagðri fjárhæð, standi vanskil lengur en 12 mánuði. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu. Að endingu krefst stefnandi virðisaukaskatts á málflutningsþóknun þar sem hann sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50, 1988.
Stefnandi kveður málsatvik vera þau, að hann hafi selt stefnda 21 hross þann 17. maí 1997. Hafi stefnandi séð um að koma hrossunum til stefnda og fengið til þess Sólmund Sigurðsson, vöruflutningabílstjóra, sem flutt hafi hrossin að heimili stefnda, Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal.
Samkvæmt samkomulagi aðila hafi stefndi átt að greiða stefnanda kr. 36.000,- fyrir hvert hross, eða samtals kr. 756.000,-. Stefndi hafi ekkert greitt fyrir hrossin við afhendingu þeirra, það hafi ekki verið fyrr en 9. september 1997, sem hann hafi greitt kr. 100.000,- inn á skuldina. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir stefnanda um greiðslu á eftirstöðvum skuldarinnar hafi stefndi ekki innt frekari greiðslur af hendi.
Stefnandi hafi gert stefnda reikning fyrir eftirstöðvum skuldarinnar þann 9. september 1999, en þá hafi hann verið orðinn vonlítill um, að stefndi myndi standa við samning þeirra. Þann 29. s.m. hafi stefnda verið sent innheimtubréf vegna kröfunnar, sem hann hafi ekki sinnt nema á þann hátt, að senda lögmanni stefnanda símbréf þar sem hluti hrossanna hafi verið tilgreindur og taldir upp meintir gallar á þeim. Stefndi hafi hins vegar ekki fram að því, að hann sendi umrætt símbréf, gert reka að því að fá verð hrossanna lækkað með vísan til galla.
Kveðst stefnandi hafa þingfest mál vegna lýstra viðskipta fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 10. febrúar 2000. Aðalmeðferð málsins hafi verið boðuð þann 8. maí s.á., en þingsókn fallið niður af hálfu stefnanda vegna mistaka. Málið hafi því verið fellt niður, án þess þó, að stefnandi féllist á nokkurn hátt á málsvarnir stefnda. Þar sem eftirstöðvar kröfunnar hafi hins vegar enn verið ógreiddar hafi stefnandi höfðað mál þetta.
Stefndi hefur lýst málsatvikum svo, að snemma árs 1997 hafi stefnandi ámálgað það við dóttur stefnda hvort stefndi myndi vera tilbúinn til að temja og/eða selja hross fyrir stefnanda. Hafi hún bent stefnanda á að ræða þetta beint við stefnda og hafi stefnandi því haft samband við stefnda símleiðis, sem tekið hafi erindi stefnanda fálega. Á næstu vikum og mánuðum hafi stefnandi margítrekað hringt í stefnda og þrábeðið hann um að taka til sín hross. Að lokum hafi stefndi fallist á að taka nokkur hross stefnanda til sín, að mestu trippi, og kanna möguleika á sölu og eftir atvikum tamningu þeirra norðan heiða. Hafi stefnandi því í maí 1997 sent stefnda 21 hross.
Samkvæmt samkomulagi hafi stefndi greitt fyrir flutning hrossanna, kr. 80.000,- en þann kostnað hafi átt að draga frá söluverði hrossanna, næðist að selja þau. Hrossin hafi hins vegar verið nær öll mjög horuð og illa leikin þegar þau hafi komið til stefnda og ekki verið í söluhæfu ástandi. Þá hafi ein hryssan verið blind á öðru auga og einn folinn draghaltur. Hafi hrossin við komuna til stefnda öll verið sett strax á gjöf. Stefndi hafi kallað til dýralækni til að huga að hrossunum og gelda þá sex hesta, sem verið hafi ógeltir. Það hafi hins vegar ekki tekist að gelda tvo þeirra þrátt fyrir að það væri reynt í tvígang. Stefndi hafi því orðið að hafa þá í sérstakri girðingu um sumarið.
Stefndi hafi haft samband við stefnanda og látið í ljósi óánægju sína með hrossin og talið litlar líkur á sölu. Eftir þrábeiðni stefnanda, sem m.a. hafi borið fyrir sig háan aldur og slæmar aðstæður, hafi stefndi fallist á að hafa hross stefnanda fram á haust. Tvo hesta hafi átt að reyna að temja um sumarið, en það hafi reynst ógerlegt m.a. vegna þess hversu annar þeirra var skapstyggur.
Í haustbyrjun hafi stefndi enn haft samband við stefnanda og viljað losna við hrossin enda hafi honum þá verið fullljóst, að engar líkur væru á sölu þeirra nema til slátrunar, ekki væri hægt að temja þau hross, sem aldur hefðu til, auk þess sem stefndi hafði hlotið af hrossunum umtalsverðan kostnað. Stefnandi hafi hins vegar ekki viljað fá hrossin, enda hafi hann enga aðstöðu haft til að taka við þeim og því síður fé til að greiða fyrir flutning þeirra. Hafi hann beðið stefnda að reyna hvað hann gæti til að selja hrossin og setja þau frekar í sláturhús en senda þau aftur. Orðið hafi að samkomulagi með aðilum, að stefnandi fengi fyrirfram greiddar kr. 100.000,- af andvirði hrossanna, en andvirði þeirra rynni að öðru leyti til greiðslu á þeim kostnaði, sem stefndi hefði orðið fyrir við að flytja og halda hrossin. Stefndi hafi innt umrædda greiðslu af hendi 9. september 1997 og hafi samningssambandi aðila þar með lokið. Hafi stefndi neitað ítrekuðum beiðnum stefnanda um að taka við fleiri hrossum frá honum til sölu.
Um miðjan október hafi stefndi slátrað fimm hrossanna heima; draghöltum tveggja vetra hesti, hestunum tveimur, sem tvívegis hafði verið reynt að gelda, blindu hryssunni og 6 vetra ótemju. Í síðari hluta mánaðarins hafi stefndi síðan selt Stefáni Erlingssyni fjögur hrossanna í skiptum fyrir notaðan hornsófa, en sófinn hafi verið metinn á kr. 40.000,-.
Í febrúar 1998 hafi stefndi greitt Ester Önnu Eiríksdóttur kr. 30.000,- laun með þremur hrossanna og hafi hvert hross verið metið á kr. 10.000,-. Sumarið 1998 hafi stefndi selt Arnari Sigfússyni tvö hrossanna í skiptum fyrir 50 notaðar myndbandsspólur. Fyrri hluta árs 1999 hafi stefndi síðan selt sjö síðustu hrossin í sláturhús B. Jensen á Akureyri.
Í september 1999 hafi stefnda borist reikningur frá stefnanda dags. 9. s.m., þar sem krafist hafi verið greiðslu vegna meintra kaupa stefnda á 21 hrossi af stefnanda, samtals kr. 756.000,- að frádreginni innborgun að fjárhæð kr. 100.000,- auk dráttarvaxta frá 9. október 1997 til 9. september 1999. Í byrjun október 1999 hafi stefnda síðan borist innheimtubréf frá lögmanni stefnanda, dags. 29. september 1999. Stefndi hafi mótmælt framangreindum reikningi, enda hafi enginn fótur verið fyrir honum.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á, að komist hafi á samningur, sem stefndi sé skuldbundinn af. Samkvæmt meginreglu samningaréttar beri að efna gerða samninga. Aðilar hafi samið þannig um, að stefndi greiddi kr. 36.000,- fyrir hvert hross, en þau hafi verið 21 talsins. Aðilar hafi hins vegar aldrei samið um, að stefndi tæki hin umdeildu hross til tamningar eða í e.k. umboðssölu. Stefndi hafi því verið skuldbundinn að greiða samtals kr. 756.000,- fyrir hrossin. Með innborgun kr. 100.000,- þann 9. september 1997, hafi stefndi staðfest greiðsluskyldu sína. Eftirstöðvar kröfunnar séu því kr. 656.000,-, sem sé stefnufjárhæð málsins.
Kveðst stefnandi jafnframt byggja kröfu sína á 5. gr. kaupalaga nr. 39, 1922 en samkvæmt henni hvíli sönnunarbyrði á stefnda um að fjárhæð reikningsins hafi verið óeðlileg eða ósanngjörn að einhverju leyti. Stefnandi kveðst byggja á því, að kr. 36.000,- á hvert hross hafi, á þeim tíma er kaupin gerðust, verið sanngjarnt og eðlilegt verð þegar selt væri safn misgóðra einstaklinga. Fari fjarri að verðið hafi verið ósanngjarnt eða óeðlilegt. Þá sé óumdeilt, að stefnandi hafi staðið við sinn hluta samningsins með afhendingu hrossanna til stefnda.
Þar sem stefndi hafi vanefnt samninginn beri honum að bæta það tjón stefnanda, sem af vanefndunum leiði. Stefnandi hafi afhent stefnda 21 hross, að umsömdu verðmæti kr. 756.000,-, en ekki fengið greitt nema kr. 100.000,- upp í kaupverðið. Það sé því jafnframt á því byggt, að stefnda beri að greiða stefnanda efndabætur vegna vanefnda á samningi.
Kveður stefnandi stefnda hafa borið skylda til að koma athugasemdum á framfæri án ástæðulauss dráttar, hyggðist hann bera fyrir sig galla. Stefndi geti hins vegar ekki borið því við nú, að honum beri ekki skylda til að standa við samning aðila, vegna galla á hestunum. Skipti í því sambandi engu máli hvort stefndi hafi séð hrossin áður en hann keypti þau, enda verði hann sjálfur að bera hallann af að hafa ekki sinnt skoðunarskyldu við kaup á hestunum. Stefndi hafi keypt safn hrossa á lágu verði, að öllum líkindum í þeim tilgangi að auka verðmæti hrossanna og hagnast með þeim hætti. Stefnandi geti hins vegar ekki borið ábyrgð á því, að hagnaðarvon stefnda hafi brugðist að einhverju leyti.
Til stuðnings kröfum sínum kveðst stefnandi vísa til almennrar meginreglu samninga- og kröfuréttar þess efnis, að samninga beri að efna. Einnig sé byggt á reglum samninga- og kröfuréttar um efndabætur. Varðandi endurgjald fyrir hrossin vísist til 5. gr. kaupalaga nr. 39, 1922.
Vaxtakrafa stefnanda styðjist við III. kafla laga nr. 25, 1987, sbr. síðari breytingar með lögum nr. 9, 1989 og lögum nr. 67, 1989. Þá styðjist málskostnaðarkrafa við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála í héraði.
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því, að þau viðskipti, sem krafist sé efnda á í stefnu, hafi aldrei átt sér stað. Stefndi mótmæli harðlega fullyrðingum í stefnu þess efnis, að samningur hafi komist á með aðilum um að stefndi keypti umrætt 21 hross, sem röngum og ósönnuðum. Reikningur sem gerður sé löngu síðar, tæpu 2 ½ ári eftir að meint kaup eigi að hafa komist á, breyti engu í þessu sambandi. Stefndi hafi engin hross keypt eða lofað að kaupa af stefnanda. Sönnunarbyrði um, að samningur hafi tekist milli aðila um kaup stefnda á hrossunum, hvíli á stefnanda, sem og hvert efni hans hafi verið. Verði stefnandi að bera hallan af því, að hafa ekki gengið frá meintum kaupsamningi aðila með tryggilegum hætti.
Kveðst stefndi fyrir þrábeiðni stefnanda hafa tekið hross hans til sín í tamningu og umboðssölu, enda hafi stefnandi engin tök haft á að halda hrossin sökum hey- og plássleysis. Stefndi hafi aldrei séð hrossin frekar en stefnanda sjálfan, sem hann hafi ekkert þekkt. Fari fjarri að stefnda hafi dottið í hug að kaupa 21 hross óséð, hvað þá á því verði, sem stefnandi geri nú kröfu um. Stefnda hafi engin skilyrði verið sett varðandi sölu hrossanna fyrir stefnanda, hvorki um lágmarksverð né annað, enda hafi stefnandi haft orð á því, að það fengist varla minna fyrir hrossin nyrðra en í sláturhúsi syðra. Flest hrossin hafi átt að selja strax, enda trippi, en stefnda hafi verið í sjálfsvald sett hvort hann vildi reyna að hækka verð annarra með því að temja þau. Hafi stefndi reynt að auka verðgildi hrossanna með því að kalla til dýralækni og láta hann gelda nokkra hesta og hlúa að öðrum. Vonlaust hafi hins vegar reynst að temja þá hesta, sem aldur hafi haft til. Stefndi hafi því ítrekað reynt að fá stefnanda til að taka við hrossunum, en án árangurs.
Þegar legið hafi fyrir, að ekki tækist að selja hrossin á öðru en sláturverði, kr. 10.000,- fyrir hvert, hafi að beiðni stefnanda farið fram lokauppgjör milli aðila. Hafi orðið að samkomulagi að stefnandi fengi fyrirframgreiddar kr. 100.000,- af andvirði hrossanna, en andvirðið rynni að öðru leyti til greiðslu á kostnaði, sem stefndi hafði orðið fyrir við að flytja og halda hrossin. Hafi þá enn hallað á stefnda, sem ekki hafði tekist að selja eitt einasta hross fyrir stefnanda, en hins vegar orðið fyrir verulegum kostnaði. Með þessu uppgjöri hafi samningssambandi aðila lokið. Stefndi hafi staðið að fullu við sinn hluta samningsins og á engan hátt vanefnt hann. Reikningur stefnanda, tveimur árum eftir uppgjör aðila, sé því rangur, gerður að tilefnislausu og geti enga þýðingu haft.
Jafnvel þótt talið yrði, að samningur hefði komist á með aðilum um kaup stefnda á 21 hrossi frá stefnanda, kveður stefndi ósannað hvert kaupverð þeirra hafi verið, en stefnandi beri sönnunarbyrðina um fjárhæð kaupverðsins. Af framansögðu megi ráða, að markaðsvirði hrossanna hafi verið nánast ekkert og virði hvers og eins hafi alls ekki verið kr. 36.000,- líkt og stefnandi haldi fram.
Stefndi kveður stefnanda ekki geta, tæpu 2 ½ ári eftir meint kaup gert stefnda reikning vegna kaupanna og borið því við, með vísan til 5. gr. kaupalaga nr. 39, 1922, að stefndi verði að sanna, að tilgreind fjárhæð á reikningnum sé óeðlileg eða ósanngjörn. Stefndi hafi engin tök á að láta meta verðmæti hrossanna nú, enda þau nú öll komin úr vörslum hans og flestum verið slátrað. Þá sé líklegt að ástand þeirra hrossa, sem enn kunni að vera á lífi, sé þannig, að þau yrðu talin hafa verið verðmeiri er kaupin áttu sér stað en þau í raun voru. Verði því að telja, eins og málið liggi nú fyrir, að á stefnanda hvíli a.m.k. sú skylda að sýna fram á, að hrossin hafi hvert um sig verið virði þeirra kr. 36.000,-, sem stefnandi krefjist, óháð aldri, kyni og öðru.
Gegn andmælum stefnda verði því samkvæmt framansögðu að telja ósannað, að umsamið kaupverð hafi verið kr. 36.000,- fyrir hvert hross. Verði stefnandi sjálfur að bera hallan af því, að hafa ekki gengið tryggilegar frá meintum samningi að þessu leyti og að hafa ekki gert stefnda reikning fyrir kaupunum fyrr en tæpu 2 ½ ári eftir að meint kaup áttu að hafa átt sér stað. Krafa stefnanda sé því ekki studd nægilegum gögnum og hún þar með ósönnuð.
Stefndi kveðst jafnframt byggja á því, að hafi stefnandi átt einhverja kröfu á hendur stefnda þá hafi hann glatað þeim rétti sínum sakir tómlætis. Ágreiningslaust sé að stefndi hafi greitt stefnanda kr. 100.000,- þann 9. september 1997. Frekari kröfur hafi stefnandi ekki haft uppi fyrr en tveimur árum síðar er hann sendi stefnanda reikning dags. 9. september 1999. Bendi þetta til að stefnandi hafi sjálfur ætlað að viðskiptum aðila hefði lokið í september 1997, þó svo hann hafi, einhverra hluta vegna, ákveðið löngu síðar, að gera stefnanda reikning vegna þessa. Í öllu falli hafi stefndi þá mátt ætla, að samningssambandi þeirra vegna fyrrgreindrar umboðssölu stefnda væri löngu lokið og að hann yrði ekki krafinn um frekari greiðslur. Skipti hér ekki máli þó dómurinn telji nægjanlega sannað, að með aðilum hafi tekist samningur í þá veru að stefndi keypti hrossin af stefnanda.
Telji dómurinn að stefnandi hafi sannað, að stefndi hafi keypt hrossin, kveðst stefndi krefjast þess, að kröfur stefnda verði stórlega lækkaðar. Algerlega sé ósannað, að umsamið verð hrossanna hafi þá verið það, sem stefnandi geri nú kröfu um. Stefndi hafi sýnt fram á að hrossin hafi verið mjög lítils virði, ef þá einhvers, og alls ekki en sem nemi sölu í sláturhús, kr. 10.000,- fyrir hvert hross. Krafa stefnanda geti því aldrei orðið hærri en sem því nemi.
Telji dómurinn á einhvern hátt sannað, að stefndi hafi keypt hrossin á kr. 36.000,- hvert, sé á því byggt, að hann eigi rétt til afsláttar af kaupverði þeirra. Komi þar fyrst til að sex tveggja vetra hestar hafi verið ógeltir og tvo þeirra hafi ekki verið unnt að gelda með hefðbundinni aðferð. Þetta hafi verið í andstöðu við það sem venjulegt sé og því hafi stefndi ekki getað búist við þessu ástandi hestanna. Þá hafi einn hesturinn að auki verið draghaltur, ein hryssan blind á öðru auga, elsti hesturinn með afbrigðum skapstyggur og sá næstelsti óeðlilega smár. Gallar þessir veiti stefnda rétt til afsláttar af meintu kaupverði og þá eigi hann ennfremur rétt til skaðabóta úr hendi stefnanda vegna þess kostnaðar, sem hann varð fyrir vegna gallanna. Krafa sé því gerð um að kostnaður vegna geldinga, samtals að fjárhæð kr. 41.570,- komi til frádráttar kröfum stefnanda, auk dráttarvaxta.
Þá kveðst stefndi mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda, sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta.
Til stuðnings kröfum sínum kveðst stefndi vísa til meginreglna kröfu-, samninga- og kauparéttar um tilurð samninga og efni þeirra. Um umboð vísist til ákvæða laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um tómlæti vísist til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Þá kveðst stefndi vísa til ákvæða kaupalaga nr. 39, 1922 um afslátt, sbr. einkum 42. gr. Varðandi dráttarvexti vísist til vaxtalaga nr. 25, 1987. Þá styðjist málskostnaðarkrafa við XXI. kafla laga nr. 91, 1991.
Skýrslur fyrir dómi gáfu, auk málsaðila, Ester Anna Eiríksdóttir, nemi, og Sólmundur Sigurðsson, bifreiðarstjóri.
Fyrir liggur að snemma sumars 1997 fór Sólmundur Sigurðsson, bifreiðarstjóri, með 21 hest frá stefnanda norður yfir heiðar og að heimili stefnda, Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal. Óumdeilt er að stefndi greiddi fyrir flutning hestanna og þá bar Sólmundur fyrir dómi, að stefndi hafi verið sá sem óskaði eftir flutningnum.
Enginn skriflegur samningur liggur fyrir í málinu varðandi viðskipti málsaðila með hina umdeildu hesta. Samkvæmt greinargerð stefnda og framburði hans fyrir dómi er ljóst, að hann greiddi stefnanda kr. 100.000,- í september 1997, án tengsla við sölu hestanna til þriðja aðila, en á þeim tíma hafði stefndi ekki selt neinn hinna umræddu hesta. Bar stefndi, að umrædd fjárhæð hafi verið lokagreiðsla fyrir hestana samkvæmt samkomulagi aðila. Fyrir dómi bar stefnandi hins vegar, að nefnd fjárhæð hafi verið innborgun stefnda á skuldina.
Þá bar stefndi fyrir dómi, að hann hafi greitt dýralækniskostnað vegna nokkurra hinna umdeildu hesta, eftir að þeir komu í hans vörslur. Stefndi bar jafnframt, að hann hafi ráðstafað þremur hestum til greiðslu vinnulauna Esterar Önnu Eiríksdóttur og skipt annars vegar á tveimur hestum og fimmtíu notuðum myndbandsspólum og hins vegar á fjórum hestum og notuðum hornsófa. Þá hafi hann slátrað fimm hrossum heima og að endingu selt sjö hross í sláturhús B. Jensen á Akureyri.
Stefndi hefur ekki stutt þá fullyrðingu sína, að viðskiptum aðila hafi lokið í september 1997 með greiðslu stefnda á kr. 100.000,- til stefnanda, neinum gögnum. Verður því, gegn mótmælum stefnanda, að telja hana ósannaða.
Af framburði aðila málsins fyrir dómi verður ekki annað ráðið, en stefndi hafi greitt framangreindan dýralækniskostnað og ráðstafað hestunum á lýstan hátt, án sérstaks samráðs við stefnanda. Þykir í ljósi þessa, sem og alls framangreinds, sú fullyrðing stefnda, að hann hafi haft hin umdeildu hross í umboðssölu, vera ótrúverðug. Liggur að mati dómsins fyrir, að hann hafi farið með hrossin, sem væru þau hans eign. Þykir því sannað, með vísan til þessa og alls þess, sem rakið hefur verið, að málsaðilar hafi í maí 1997 samið svo um, að stefndi keypti umrædda hesta, 21 að tölu, af stefnanda.
Stefnda hefur ekki tekist að sanna, að kröfur hans um afslátt vegna galla á hestunum, hafi komið fram innan árs frests 54. gr. kaupalaga nr. 39, 1922. Þegar af þeirri ástæðu verða þær ekki teknar til greina í málinu.
Kröfur vegna sölu á lausafé fyrnast á fjórum árum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14, 1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Er því ljóst að krafa stefnanda getur ekki verið fyrnd þar sem stefna í málinu var þingfest þann 30. nóvember 2000. Stefndi hefur ekki vísað til neinna viðhlítandi réttarheimilda til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni, að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Með vísan til framangreinds verður því að hafna nefndri fullyrðingu, sem órökstuddri og ósannaðri.
Ekki liggja fyrir í málinu nein gögn um kaupverð hestanna og engin vitni voru leidd fyrir dóminn, sem gátu gefið vísbendingu um hvort um kaupverðið hafi verið samið, og þá eftir atvikum, hvert það hafi verið. Þykir mega byggja á 5. gr. kaupalaga nr. 39, 1922 við úrlausn þessa ágreiningsefnis og dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 656.000,- í samræmi við reikning hans dags. 9. september 1999, enda hefur stefnda ekki tekist að sanna, að hin umkrafða fjárhæð sé ósanngjörn.
Ósannað er að stefnandi hafi gert reka að því að innheimta kröfu sína fyrr en með bréfi dags. 29. september 1999, eða rúmlega tveimur árum og fjórum mánuðum eftir að kaupin gerðust og tveimur árum eftir að stefndi greiddi kr. 100.000,- inn á kröfuna. Að þessu virtu og með vísan til málsatvika að öðru leyti þykir rétt, að krafa stefnanda beri dráttarvexti frá málshöfðunardegi, þ.e. 17. nóvember 2000.
Með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Vilhjálmur Þ. Þórarinsson, greiði stefnanda, Eggerti Guðmundssyni, kr. 656.000,- með dráttarvöxtum frá 17. nóvember 2000 til greiðsludags. Áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar og skulu nýir dráttarvextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð, standi vanskil lengur en 12 mánuði.
Málskostnaður fellur niður.