Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Grennd
  • Sönnunarbyrði
  • Málsástæða
  • Matsgerð
  • Dráttarvextir
  • Samlagsaðild


Mánudaginn 21

 

Mánudaginn 21. mars 2005. 

Nr. 359/2004.

Arnarfell ehf. og

(Ólafur Haraldsson hrl.)

Fjarðabyggð

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

gegn

Bergþóru Aradóttur

Júlíu Ásvaldsdóttur og

Hjörvari Hjálmarssyni

(Logi Guðbrandsson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Grennd. Sönnunarbyrði. Málsástæður. Matsgerð. Dráttarvextir. Samlagsaðild.

B, J og H kröfðu A ehf., verktaka, og F, sveitarfélag, um skaðabætur vegna tjóns á fasteignum þeirra af völdum sprenginga við byggingu varnargarða gegn snjóflóðum. Í málinu lágu fyrir undir- og yfirmatsgerðir vegna reksturs málsins. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að af þessum matsgerðum yrði dregin sú ályktun að vera kynni, að sprungutjón á húsum B, J og H yrði að minnsta kost að hluta rakið til umræddra sprenginga. Þá væri samkvæmt sömu gögnum ekki loku fyrir það skotið, að slíkt tjón ætti rót sína að rekja til þess að ekki hefði verið staðið að sprengingunum á þann hátt sem mælt er fyrir um í IV. kafla vopnalaga nr. 16/1998 og reglugerð nr. 684/1999 um sprengiefni. Væri ljóst af niðurstöðu yfirmatsmanna að sönnun um að hér hefði réttilega verið staðið að verki hefði mátt tryggja með því að færa jafnóðum og varðveita skýrslur um allar sprengingar við verkið. Þetta hefði verktakinn A ehf. hins vegar látið farast fyrir og varð hann því að bera hallann af skorti á sönnun í málinu um framkvæmd og afleiðingar sprenginganna. Var niðurstaða héraðsdóms um bótaskyldu A ehf. því staðfest. Þá var talið að sérstök verkskylda hefði hvílt á sveitarfélaginu F um að hafa stöðugt eftirlit með því að réttilega hefði verið staðið að sprengingunum í því skyni að geta gripið inn í ef misbrestur yrði þar á. Með því að F sinnti ekki þessari skyldu, þegar á verkið leið, var fallist á að F bæri skaðabótaábyrgð á tjóninu. Þar sem erfiðleikar á að meta tjónsfjárhæðir áttu rót sína að rekja til atvika sem vörðuð A ehf. og F þótti heimilt að dæma skaðabætur að álitum á þann hátt sem gert var í héraðsdómi. Var héraðsdómur því staðfestur að öðru leyti en varðaði upphafsdag dráttarvaxta af tildæmdum bótafjárhæðum. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi Arnarfell ehf. skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. júlí 2004 og aðaláfrýjandi Fjarðabyggð 13. sama mánaðar. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 25. ágúst sama ár og áfrýjaði aðaláfrýjandi Arnarfell ehf. öðru sinni 26. ágúst 2004 og aðaláfrýjandi Fjarðabyggð 20. september sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Aðaláfrýjandi Arnarfell ehf. krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjenda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Aðaláfrýjandi Fjarðabyggð gerir aðallega kröfu um sýknu af kröfum gagnáfrýjenda en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 22. september 2004. Af hálfu gagnáfrýjanda Bergþóru Aradóttur er þess krafist að aðaláfrýjendur verði í sameiningu dæmdir til að greiða 2.723.200 krónur en af hálfu gagnáfrýjenda Júlíu Ásvaldsdóttur og Hjörvars Hjálmarssonar að aðaláfrýjendur verði í sameiningu dæmdir til að greiða 725.000 krónur. Í báðum tilvikum krefjast gagnáfrýjendur vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 24. október 2001 en dráttarvöxtum samkvæmt III. og IV. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast gagnáfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Við málflutning fyrir Hæstarétti héldu aðaláfrýjendur því fram, að gagnáfrýjendur hafi ekki við málsókn sína í upphafi reist kröfur á þeirri málsástæðu, að aðaláfrýjendur bæru sönnunarbyrði fyrir því að tjónið á húsum gagnáfrýjenda eigi ekki rót að rekja til sprenginga við gerð snjóflóðavarna þeirra sem um er fjallað í málinu. Héraðsdómi hafi því verið óheimilt að leggja sönnunarbyrði um þetta á aðaláfrýjendur svo sem hann hafi gert við úrlausn sína. Á þetta verður ekki fallist. Gangáfrýjendur byggðu kröfur sínar meðal annars á sakarreglunni, og verður talið að það sé fullnægjandi, jafnvel þó að ekki sé við reifun dómkrafna jafnframt greint frá sjónarmiðum um skiptingu á sönnunarbyrði um atvik, sem ráða beitingu hennar. Þá var í stefnu til héraðsdóms sérstaklega tekið fram, að upplýsingar um bylgjuhraða vegna þeirra sprenginga, sem um ræði í málinu, muni ekki vera til hjá aðaláfrýjendum og hafi vanræksla þeirra að því er þetta varðar valdið því að „þessar upplýsingar eru farnar forgörðum.“ Aðaláfrýjendur hafa því frá upphafi málsins haft fullt tilefni til að afla allra sönnunargagna sem kostur var um þetta og verjast á grunvelli sönnunarfærslu sinnar.

II.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir undir- og yfirmatsgerðum sem fram fóru vegna reksturs málsins. Af þessum matsgerðum verður dregin sú ályktun að vera kunni, að sprungutjón á húsum áfrýjenda verði að minnsta kosti að hluta rakið til sprenginganna við gerð mannvirkisins. Þá er samkvæmt sömu gögnum ekki loku fyrir það skotið, að slíkt tjón eigi rót sína að rekja til þess að ekki hafi verið staðið að sprengingunum á þann hátt sem mælt er fyrir um í IV. kafla vopnalaga nr. 16/1998 og reglugerð nr. 684/1999 um sprengiefni, sem sett er með heimild í þeim lögum, sbr. einkum 37. gr. hennar og einnig viðauka VI, sem vísað er til í 2. mgr. 37. gr. Er ljóst af niðurstöðu yfirmatsmanna að sönnun um að hér hafi réttilega verið staðið að verki hefði mátt tryggja með því að færa jafnóðum og varðveita skýrslur um allar sprengingar við verkið. Þetta lét aðaláfrýjandi Arnarfell ehf. farast fyrir og verður hann við svo búið að bera hallann af skorti á sönnun í málinu um framkvæmd og afleiðingar sprenginganna. Leiðir þetta til þess, að niðurstaða héraðsdóms um bótaskyldu aðaláfrýjandans Arnarfells ehf. verður staðfest.

III.

Gagnáfrýjendur hafa reist kröfur sínar á hendur aðaláfrýjandanum Fjarðabyggð á því að sveitarfélagið beri hlutlæga bótaábyrgð á tjóni þeirra. Að auki hafa þeir byggt á sakarábyrgð sveitarfélagsins, bæði beint með því að það hafi vanrækt skyldu sína til þess að hafa eftirlit með framkvæmd verksins, en einnig með því að það beri ábyrgð á ætlaðri sök starfsmanna aðaláfrýjandans Arnarfells ehf. á grundvelli reglna um  vinnuveitandaábyrgð.

Hér stendur svo á, að aðaláfrýjandi Fjarðabyggð réðst í umfangsmikla framkvæmd við gerð mannvirkja til varna gegn snjóflóðum í næsta nágrenni við byggðina í Neskaupstað, meðal annars hús gagnáfrýjenda. Þurfti að fjarlægja rúmlega 70 þúsund m3 af klöpp til að koma mannvirkinu fyrir. Við framkvæmd verksins var ákveðið að nota sprengiefni. Sú aðferð var í sjálfri sér hættuleg og var ljóst fyrirfram að hún kynni að valda vissri áhættu fyrir fasteignir í nágrenninu, jafnvel þó að gætt væri lögmæltra öryggisráðstafana. Sú meginregla gildir í nábýlisrétti, að fasteignareiganda ber að gæta þess sérstaklega, við nýtingu og framkvæmdir á fasteign sinni, að ekki verði tjón á nærliggjandi fasteignum. Eins og hér stóð á verður að telja að sérstök verkskylda hafi hvílt á aðaláfrýjanda Fjarðabyggð, um að hafa stöðugt eftirlit með því, meðan á sprengingunum stóð, að réttilega væri að þeim staðið í því skyni að geta gripið inn í ef misbrestur yrði þar á. Með því að aðaláfrýjandi Fjarðabyggð sinnti ekki þessari skyldu, þegar á verkið leið, verður  fallist á að hann beri skaðabótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjenda.

IV.

Dómkröfur gagnáfrýjenda eru, að því er bótafjárhæðir snertir, byggðar á niðurstöðu undirmats, svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi. Af matsgerðinni er ljóst að skemmdir þær á húsum gagnáfrýjenda, sem matið tekur til, eru víðtækari en svo, að eingöngu verði raktar til sprenginga. Yfirmatsmenn mátu ekki kostnað við úrbætur á húsunum. Segir í niðurstöðum þeirra meðal annars, að vera kunni að einhverjar sprungur hafi myndast eða aukist á húsunum á því tímabili sem framlagðar sprengiskýrslur nái ekki yfir, en um það muni þeir „ekki dæma vegna skorts á gögnum sem stutt gætu þá staðhæfingu.“ Úr þessum vanda er leyst í hinum áfrýjaða dómi með því að dæma gagnáfrýjendum skaðabætur „að álitum“ og er þá niðurstaða undirmatsins höfð til hliðsjónar.

Af forsendum matsgerðanna er ljóst, að ástæða þess að ekki eru veitt viðhlítandi svör við matsspurningum um fjárhæð tjóns, er sú að gögn skortir frá aðaláfrýjendum um framkvæmd umræddra sprenginga og ástand húsanna áður en framkvæmdir hófust. Hefur þetta valdið því að matsmenn hafa ekki talið sér unnt að greina það tjón, sem sprengingarnar geta hafa valdið, frá öðrum ágöllum á fasteignunum sem þeir sáu við skoðun. Þessir erfiðleikar á að meta tjónsfjárhæðir eiga því rót sína að rekja til atvika sem varða aðaláfrýjendur. Við slíkar aðstæður þykir vera heimilt að dæma skaðabætur að álitum á þann hátt sem gert var í héraðsdómi. Eru ekki efni til að breyta mati héraðsdóms, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómendum, á fjárhæð bóta gagnáfrýjendum til handa. Verður dómurinn því staðfestur hvað þetta varðar. Hins vegar verður, eins og hér stendur á, fallist á sjónarmið aðaláfrýjenda um að ekki séu efni til að dæma dráttarvexti af kröfum gagnáfrýjenda, fyrr en bótafjárhæðir höfðu verið metnar að álitum með héraðsdóminum sbr. lokaákvæði 9. gr. laga nr. 38/2001.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verða staðfest.

Aðaláfrýjendur verða dæmdir til að greiða gagnáfrýjendum málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að upphafsdagur dráttarvaxta af tildæmdum bótafjárhæðum skal vera 13. apríl 2004.

Aðaláfrýjendur, Arnarfell ehf. og Fjarðabyggð, greiði óskipt gagnáfrýjanda, Bergþóru Aradóttur, 250.000 krónur og gagnáfrýjendum, Júlíu Ásvaldsdóttur og Hjörvari Hjálmarssyni sameiginlega, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

                                                                                                                  

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 13. apríl 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. mars sl., er höfðað  14. maí 2002.

Stefnendur eru Bergþóra Aradóttir, kt. [...], Víðimýri 8, Neskaupstað,  Júlía Ásvaldsdóttir, kt. [...] og Hjörvar Hjálmarsson, kt. [...] bæði til heimilis að Blómsturvöllum 24, Neskaupstað.

Stefndu eru Bæjarsjóður Fjarðabyggðar, kt. 470698-2099, Strandgötu 49, Eskifirði og Arnarfell ehf., kt. 441286-1399, Sjafnarnesi 2-4, Akureyri.

Dómkröfur stefnanda, Bergþóru Aradóttur, eru að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða henni kr. 2.723.200 með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi og til 24. október 2001, en dráttarvöxtum skv. III. og IV. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001 er höfuðstólsfærist á 12 mánaða fresti.

Dómkröfur stefnenda, Júlíu Ásvaldsdóttur og Hjörvars Hjálmarssonar, eru að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða þeim kr. 725.000 með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi og til 24. október 2001, en dráttarvöxtum skv. III. og IV. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001 er höfuðstólsfærist á 12 mánaða fresti. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnendum málskostnað.

Dómkröfur stefnda, Bæjarsjóðs Fjarðabyggðar, eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda en til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er gerð krafa um að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda in solidum.

Endanlegar dómkröfur stefnda, Arnarfells ehf., eru að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá er þess krafist að stefnendur verði in solidum dæmdir til að greiða stefnda málskostnað. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnenda verði lækkaðar verulega.

I.

Atvik að baki máli eru þau að á árinu 1999 bauð Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd stefnda, Bæjarsjóðs Fjarðabyggðar, út byggingu varnargarða til varnar snjóflóðum í Neskaupstað. Var tilboði stefnda, Arnarfells ehf. í verkið tekið og verksamningur gerður. Fólst verkið í að byggja keilur og um 400 m langan garð til varnar snjóflóðum á Drangagilssvæði í Neskaupstað. Átti Framkvæmdasýsla ríkisins að sjá um eftirlit fyrir hönd verkkaupa. Var samið við verkfræðistofuna Hönnun og ráðgjöf hf. um eftirlitið og hafði Björn Sveinsson tæknifræðingur, starfsmaður stofunnar, það með höndum. Skyldi verktaki í einu og öllu framkvæma verkið samkvæmt samningi og í samráði við eftirlitsaðila.

Meðal helstu verkþátta var sprengingar/fleygun í klapparskeringu ofan garðsins sem samkvæmt útboðsgögnum eru 72.000 m3. Í verklýsingu undir liðnum 1.4.3 er kveðið á um að verktaka sé heimilt að nota sprengingar og/eða fleygun við losun klappar eftir því hvað hann telur henta hverju sinni. Sprengingar hófust í nóvember 1999 og stóðu með hléum allt til janúar 2001.

Í verklýsingu er til þess mælst að áður en sprengingar hefjist framkvæmi verktaki skoðun og skráningu á sprungum í nálægum húsum með fulltrúa tryggingafélags síns og eftirlitsmanni og kynni fyrir húsráðendum væntanlegar framkvæmdir. Kveðst stefndi, Bæjarsjóður Fjarðabyggðar, auk þess hafa á verkfundi skorað á meðstefnda, Arnarfell ehf., að kanna ástand nærliggjandi húsa fyrir sprengingar.  Fyrir liggur hins vegar að slík skoðun fór ekki fram en stefndi, Arnarfell ehf., mat það svo við upphaf sprenginga, sem byrjuðu austast á sprengisvæðinu ekki undir 300 m frá fasteignum stefnenda, að ekki væri nauðsynlegt að framkvæma slíka skoðun þar sem húsum væri engin hætta búin vegna fjarlægðar frá sprengistað.

Samkvæmt úboðsgögnum skyldi mesta magn sprengiefnis sem sprengt væri á hverju hvellhettunúmeri, ekki vera meira en: Hvellhettunúmer 0, 15 kg; og hvellhettunúmer 1 og hærra, 25 kg.  

Í verklýsingu er kveðið á um að sprengistjóri skuli fyrir hverja sprengingu útfylla sprengiskýrslu þar sem fram komi upplýsingar um staðsetningu sprengingar, borun, hleðslu, yfirbreiðslur, dagsetningu og tíma og annað sem skiptir máli. Á sprengiskýrslu skuli einnig skrá lýsingu á sjálfri sprengingunni, t.d. hvort hún var eðlileg, veik, öflug, eða hvort einhver óhöpp urðu. Ef kvartanir berist skuli verktaki skrá þær á skýrsluna og hvaðan þær koma.

Í málinu liggja hins vegar einungis fyrir sprengiskýrslur fyrir u.þ.b. fyrstu þrjá mánuðina af þeim fjórtán sem sprengivinnan stóð yfir og eru þær ófullkomnar að því leyti að í þeim eru ekki tilgreind öll þau atriði sem tilgreina skal. 

Þá er í verklýsingu kveðið á um að verktaki skuli haga sprengingum sínum þannig að sveifluhæð titrings í húsum næst sprengistað verði ekki hærri en 0,08 mm. Einnig að hraði agnar skuli vera minni en 20 mm/sek. Til að fylgjast með því að nefnd skilyrði séu haldin skuli verktaki mæla með vibrograf eða öðrum sambærilegum mæli, sem verkkaupi samþykkir, báðar áðurnefndar stærðir, sem stafa frá sprengingum hans. Skal mælir staðsettur í nálægum húsum í samráði við eftirlitsmann.

Í samræmi við framangreint ákvæði var settur upp mælir í kjallara hússins við Blómsturvelli 45 í Neskaupstað. Var nemi mælisins festur í um 1,5 m hæð frá gólfi á steinsteyptan skorstein, sem stendur nokkurn veginn á miðri steyptri gólfplötu hússins á neðri hæð og er ekki tengdur útveggjum þess. Engin útslög mældust fyrsta mánuðinn sökum þess að neminn var rangt upp settur. Á þeim fjórtán mánuðum sem sprengivinnan stóð yfir var neminn staðsettur á þessum sama stað að undanskildum stuttum tíma sumarið 2000 er hann var færður yfir í önnur hús. Auk þessa mælis var öðrum mæli komið fyrir í stuttan tíma við hliðina á honum til að sannreyna að hann mældi rétt. Að sögn eftirlitsmanns bar mælunum saman. Eftirlitsmaðurinn sem las reglulega af mælum kveður mæli mest hafa sýnt 0,028 mm útslag sem er langt undir leyfðum mörkum. Fyrirsvarsmaður stefnda, Arnarfells ehf., hefur einnig borið að mælt útslag hafi aldrei farið nærri leyfilegum mörkum.

Ekki liggja fyrir nein gögn úr mælum um mælda svörun vegna sprengivinnunnar.

Hleðslumagn sprengiefnis var í samræmi við ákvæði útboðsgagna í fyrstu en ákveðið var að auka magn sprengiefnis í hleðslu umfram það hámark sem kveðið var á um í verklýsingu þar sem mælt útslag var langt innan leyfilegra marka.

Stefndi, Arnarfell ehf., taldi ekki þörf á að gera sérstaka úttekt á nærliggjandi húsum eftir því sem framkvæmdirnar færðust nær byggð þar sem útslag vegna sprenginganna hafi jafnan mælst langt undir mörkum.

Engar formlegar kvartanir vegna sprenginganna eða tjóns af völdum þeirra bárust stefnda, Bæjarsjóði Fjarðabyggðar, en einhverjir íbúar þ.á m. stefnendur munu hafa kvartað við Guðmund Helga Sigfússyni, forstöðumann Umhverfismálasviðs Fjarðabyggðar. Kveðst Guðmundur Helgi hafa komið kvörtununum á framfæri við eftirlitsmann og verktaka bæði óformlega og á verkfundum.

Stefndi, Arnarfell ehf., kveðst engar formlegar kvartanir hafa fengið vegna sprenginganna. 

Þann 5. febrúar 2001 framkvæmdi starfsmaður Hönnunar hf. að beiðni Guðmundar Helga athugun á því hvort skemmdir hefðu orðið á mannvirkjum í bænum vegna sprenginganna. Voru fjögur hús athuguð þar á meðal hús stefnenda. Í niðurstöðum athugunarinnar segir m.a.: Eftir ofangreindar vettvangsskoðanir, má álykta að einhverjar skemmdir hafi orðið á mannvirkjum af völdum titrings við sprengingarnar í fjallinu. Ekki eru forsendur til að álykta hver stærðargráða skemmda af völdum framkvæmdanna er, þar sem áhrifin á eignunum sem skoðaðar voru eru mismiklar. Til að svo megi gera, þarf að koma til frekari skoðun og mat á eignunum.

Í september 2001 leituðu stefnendur aðstoðar lögmanns til að heimta skaðabætur vegna tjóns á fasteignum þeirra af völdum sprenginganna. Var leitað árangurslaust eftir því að stefndu greiddu kostnað vegna mats á tjóni stefnenda.  Hinn 20. febrúar 2002 var óskað dómkvaðningar matsmanns til að meta tjón stefnenda og var Sveinn Þórarinsson verkfræðingur dómkvaddur til að framkvæma matið.

Matsmaðurinn var í fyrsta lagi beðinn um að meta hvort tjón á fasteignum stefnenda megi rekja til bergsprenginga við byggingu snjóflóðavarnargarðs ofan byggðarinnar á Neskaupstað. Komst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að tjón á eignunum megi rekja til þeirra. Spurningin sé einungis að hve miklu leyti.

Í öðru lagi var matsmaðurinn beðinn um að meta umfang tjóns á húsunum, þ.e. beint tjón af völdum sprenginganna og óbeint tjón af þeirra völdum. Í niðurstöðu matsmannsins kemur fram að ekki sé umdeilt að viðhald hafi verið vanrækt á húsinu að Víðimýri 8 áður en núverandi eigendur eignuðust það. Af þeim sökum hafi það að öllum líkindum verið viðkvæmara fyrir álagi af völdum titrings. Viðhald sem núverandi eigendur hafi ráðist í fyrir 5 árum hafi ekki dugað lengur. Gamlar sprungur hafi opnast á ný í útveggjum og nýjar myndast. Ógerlegt sé að rekja nákvæmlega hver sökudólgurinn sé varðandi þessa eða hina sprunguna sem sjá megi í húsunum.

Á Blómsturvöllum 24 hafi verið bent á skásprungur í kverk loftaplötu í stofu og svefnherbergi en slíkar sprungur séu algengar í steinsteyptum húsum og séu almennt raktar til rýrnunar við þornun steinsteypu. Matsmaður telur þó alls ekki ósennilegt að þær komi fram við titring hafi þær ekki verið til staðar. Síðan eru taldir upp sjáanlegir ágallar á húsunum sem hugsanlega má rekja til sprenginganna.

Ágöllum á Víðimýri 8 er lýst þannig:

Mikið sprungunet á útveggjum sem reynt hefur verið að þétta með þéttiefni.

Rakaskemmdir á gólfefnum upp við austurvegg, á austurveggnum og í loftum upp við hann. Einnig ber á rakaskemmdum innan á vesturgaflvegg stofu.

Brotin rúða í stofuglugga. Þarna gæti uppsöfnuð spenna í vegg umhverfis gluggaumgjörð verið orsakavaldur.

 

Ágöllum á Blómsturvöllum 24 er lýst þannig:

Brotnar flísar á austurvegg baðherbergis.

Sprungur í kverkum loftaplatna í stofu og svefnherbergi.

Sprungur í útveggjum.

 

Varðandir úrbætur á Víðmýri 8 telur matsmaðurinn aðalatriðið vera að stöðva leka og koma í veg fyrir frekari rakaskemmdir í gegnum austur- og vesturgafla hússins en það verði úr því sem komið sé varla gert á tryggilegan hátt með frambúðarlausn í huga nema með nýrri klæðningu. Þá megi einnig gera ráð fyrir að einangrun hússins hafi tapað gildi sínu að hluta vegna lekans. Klæðning ásamt einangrun utan á gaflana myndi leysa vandamálið. Aðra veggfleti megi laga með sprunguviðgerðum, múrhúðun og síðan yrði að mála allt húsið. Skipta þurfi um gólfefni í herbergjum á efri og neðri hæð sem eru við austurvegg hússins. Fjarlægja rakaskemmdir af veggjum og loftum þar sem þær eru og mála viðkomandi rými.

Á Blómsturvöllum 24 þurfi að skipta um brotnar flísar á baðherbergi. Þar sem erfitt geti verið að útvega eins flísar þurfi að öllum líkindum að skipta um flísar á aðliggjandi veggfleti. Sprungur utanhúss og innan þurfi að gera við með hefðbundnum hætti og mála húsið að utan og ger við loft innanhúss.     

Varðandi mat á kostnaði við úrbætur á fasteignunum tekur matsmaðurinn fram að þar sem eignirnar hafi ekki verið skoðaðar fyrir framkvæmdirnar eins og útboðsgögn geri ráð fyrir sé ógerlegt að rekja á óumdeilanlegan hátt hversu mikinn hluta tjónsins megi rekja til áhrifa frá sprengingunum. Sú leið sé því farin að gera kostnaðaráætlun um úrbætur á því tjóni sem sé sjáanlegt. Þegar gert sé við sprunguskemmdir sé t.d. óhjákvæmilegt að mála endanlega mun stærri flöt en viðkomandi viðgerð nái til. Þetta eigi við um málun utanhúss eftir sprunguviðgerðir og endurnýjun gólfefna, flísa og málun innanhúss.

Kostnaðaráætlun matsmannsins er þessi:

 

Víðimýri 8                                                             Magn  Ein.             Ein.verð

Verð

 

Múrklæðning og einangrun á gafla              120 m2                     9.500 kr.             1.140.000

Sprunguviðgerðir á veggjum                                      130 m                 1.800 kr.                234.000

Viðgerð á múrhúðun                                  25 m2                     2.500 kr.                  62.500

Málun utanhúss                                               220 m2              1.500 kr.                330.000

Endurnýjun á gólfefnum                                         71 m2              6.500 kr.                461.500

Málun innanhúss                                             350 m2                 900 kr.                400.000

Gler og glerjun                                                   2,2 m2           16.000 kr.              35.200

 

Víðimýri 8. Viðgerðarkostnaður                                Samtals kr.       2.663.200

 

Blómsturvellir 24                                                  Magn  Ein.             Ein.verð              Verð

 

Sprunguviðgerðir utanhúss                                        70 m                1.800 kr.                126.000

Viðgerð á múrhúð utanhúss                                        10 m2              2.500 kr.                  25.000

Málun utanhúss                                               170 m2              1.500 kr.                255.000

Sprunguviðgerðir innanhúss                                  15 m2                     1.200 kr.                  18.000

Málun innanhúss                                               90 m2                   900 kr.                  81.000

Endurnýjun á flísalögn á baði                    11 m2                  20.000 kr.            220.000

 

Blómsturvellir 24. Viðgerðarkostnaður                   Samtals kr.          725.000

 

 

Þá áætlar matsmaðurinn kostnað eigenda Víðimýri 8 við að loka sprungum í útveggjum til bráðabrigða í þeim tilgangi að takmarka tjón á fasteigninni 60.000 krónur.

Með yfirmatsbeiðni dagsettri 19. nóvember 2002 fóru stefndu fram á dómkvaðningu yfirmatsmanna. Hinn 21. janúar 2003 voru þeir Níels Indriðason byggingarverkfræðingur og Freyr Jóhannesson byggingartæknifræðingur dómkvaddir og er yfirmatsgerð þeirra dagsett 7. október 2003.

Í niðurstöðu yfirmatsmannanna kemur fram að hvorki verktaki eða eftirlit hafi nema að óverlegu leyti uppfyllt samningsákvæði þau sem komi fram í verklýsingu lið 1.4.3 Klapparsprengingar/fleygun. Ákvæði þessi séu nauðsynleg til þess að hægt sé að meta eftir á hvort verktaki hafi farið út fyrir leyfileg mörk við framkvæmd klapparsprenginga. Í þeim gögnum sem yfirmatsmenn hafi fengið í sínar hendur sé ekkert að finna sem ótvírætt bendi til að svo sé. Yfirmatsmennirnir komast að þeirri niðurstöðu að framlögð gögn gefi ekki tilefni til að ætla að meint tjón á húsunum Víðimýri 8 og Blómsturvöllum 24 hafi orðið á því tímabili sem sprengiskýrslur ná yfir eða fyrstu 3 mánuðina af 14 sem sprengingar stóðu yfir. Þær sprungur í húsunum sem matsmenn könnuðu við vettvangsskoðun séu almennt ekki dæmigerðar fyrir sprungur af völdum skjálfta. Vera kunni að einhverjar þeirra hafi myndast eða aukist á því tímabili sem sprengiskýrslur í málinu nái ekki yfir, en um það munu yfirmatsmenn ekki dæma vegna skorts á gögnum sem gætu stutt þá staðhæfingu.

II.

Stefnendur byggja í fyrsta lagi á að stefndi, Bæjarsjóður Fjarðabyggðar, beri hreina hlutlæga ábyrgð á tjóni þeirra þar sem stefndi hafi, með því að velja í útboðs- og verklýsingu að losa alls 72.000 m3  af efni með sprengingum í stað þess að notast við vinnuvélar eða minna sprengiefni, valið þá aðferð sem var hagkvæmari og hættulegri og tjónið megi rekja til hennar, sbr. Ufr. 1968 bls. 84.

Í öðru lagi byggja stefnendur á að stefndi, Bæjarsjóður Fjarðabyggðar, beri ábyrgð gagnvart þeim á saknæmri háttsemi meðstefnda, Arnarfells ehf., sem stefndi fékk til að sinna störfum sem samkvæmt útboðsgögnum hvíldu á honum sjálfum sem verkkaupa á grundvelli reglna skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð þó svo að um verksamning hafi verið að ræða. Stefndi geti ekki undanþegið sig ábyrgð vegna tjónsins af þeirri ástæðu einni að meðstefndi, Arnarfell ehf., starfaði sem sjálfstæður verktaki. Stefndi geti ekki samið sig, gagnvart íbúum sveitarfélagsins, undan ábyrgð á tjóni af völdum athafna hans. Þá hafi stefndi haft eftirlit og eftirlitsskyldu með  verkinu og því nokkurt skipunarvald yfir því og með úttekt lagt blessun sína yfir það.

Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að stefndu beri ábyrgð á grundvelli hinnar almennu sakarreglu skaðabótaréttarins. Þannig beri stefndu ábyrgð á því að ákveðið hafi verið að auka magn sprengiefnis umfram það sem kveðið var á um í verklýsingu auk þess sem ákvæðum 37. gr. reglugerðar nr. 684/1999 hafi ekki verið fylgt nema að litlu leyti. Stefndu hafi þrátt fyrir kvartanir frá íbúum vegna titrings, að því er virðist í sameiningu, tekið ákvörðun um að auka magn sprengiefnis án undangenginnar sérstakrar könnunar á því hvort það myndi geta valdið tjóni á nærliggjandi fasteignum þrátt fyrir skyldu til að láta slíka könnun fara fram sbr. skýr fyrirmæli þar að lútandi í verklýsingu og 1. mgr. 37. gr. reglugerðar nr. 684/1999 um sprengiefni. Þá verði stefndi, Bæjarsjóður Fjarðabyggðar, að bera ábyrgð á því að ákvæði verklýsingar og annarra gagna sem frá honum stafaði og varðaði sprengivinnu hafi ekki verið nægilega nákvæm og þess vegna orðið þess valdandi að tjón varð. Loks beri stefndi, Arnarfell ehf., ábyrgð á tjóni stefnenda með því að hafa í engu sinnt lögboðnum tjónvörnum, sem kveðið sé á um í reglugerð og verklýsingu. Þannig hafi ekki farið fram úttekt á mannvirkjum á því svæði sem ætla mætti að tjón gæti orðið á vegna framkvæmdanna í samræmi við ákvæði 1. mgr. 37. gr. reglugerðar nr. 684/1999 og fyrirmæli í verklýsingu. 

Þá sé kveðið á um það í 2. mgr. tilvitnaðrar greinar að þegar sprengt sé nærri mannvirkjum skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir skemmdir, t.d. nota hvellhettur með tímaseinkun.

Ekki liggi fyrir í málinu upplýsingar um bylgjuhraða þeirra sprenginga sem framkvæmdar voru. Halda stefnendur því fram að mælingar á bylgjuhraða hefðu gefið gleggri upplýsingar um kraft hvers skots fyrir sig en mæling á sveifluhæð titrings. Þá sé ekki vitað hvort hvellhettur með tímaseinkun voru notaðar við sprengingarnar eða hægvirk sprengiefni eins og ráðlagt sé í verklýsingu en samkvæmt sprengiskýrslu hafi jafnan verið notað dínamít.

Loks sé kveðið á um það í 3. mgr. tilvitnaðrar greinar að ef hætta sé talin á að mannvirki geti orðið fyrir skemmdum skuli sá er ábyrgð beri á sprengivinnu setja upp titringsmæla af viðurkenndri gerð í eða við þau mannvirki sem í hættu kunna að vera, í samráði við eigendur þeirra.

Mælir sá sem settur hafi verið upp í byrjun verks hafi engan titring sýnt og í ljós hafi komið að hann var ekki rétt upp settur. Vegna kvartana íbúa hafi annar mælir verið settur upp sumarið 2000 í húsinu Víðimýri 13. Mæld gildi hafi verið innan marka verklýsingar. Engra kvartana íbúa sé getið í sprengiskýrslum þó að það komi skýrt fram í verklýsingu að sprengistjóri skuli halda sprengiskýrslu og skrá í hana m.a. kvartanir er kunni að berast.

Stefndi, Bæjarsjóður Fjarðabyggðar, byggir á að ekki séu skilyrði til beitingar hlutlægrar ábyrgðarreglu þar sem ekki sé við ákvæði í settum lögum að styðjast. Þá fellst stefndi ekki á að til sé ólögfest dómvenjuhelguð regla um hlutlæga ábyrgð stefnda á þeim grundvelli að um sé að ræða hættulega starfsemi. Mótmælir stefndi því sérstaklega að mögulegt hafi verið að framkvæma verkið án þess að beita sprengingum. Ekki hafi verið um neitt val að ræða en jafnvel þó svo hefði verið mótmælir stefndi því að slíkt val geti leitt til hlutlægrar ábyrgðar hans. Jafnframt bendir stefndi á að í útboðslýsingu sé verktaka heimilað að nota sprengingar eftir því sem hann telur henta.

Þá hafnar stefndi því að fyrir hendi sé hlutlæg ábyrgð með vísan til þess að stefnendur hafi ekki sannað orsakatengsl, þ.e. að tjón þeirra sé að rekja til sprenginga meðstefnda, Arnarfells ehf.

Þá mótmælir stefndi því að hann beri ábyrgð á tjóni stefnenda á grundvelli vinnuveitenda-/húsbóndaábyrgðar þar sem ekki sé um að ræða orsakatengsl né sök verktakans. Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að skilyrði húsbóndaábyrgðar um húsbóndavald sé til staðar þar sem það meginskilyrði að samband vinnuveitanda og starfsmanns sé svo náið að vinnuveitandi hafi vald til að ráða framkvæmd vinnunnar sé ekki uppfyllt. Loks hafi stefnendur ekki sýnt fram á sök meðstefnda en það útiloki ábyrgð stefnda á grundvelli húsbóndaábyrgðar.

Stefndi mótmælir því að hann beri ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar. Mótmælir stefndi sem röngum og ósönnuðum öllum ávirðingum stefnenda varðandi aðkomu stefnda að verkinu og að hún hafi leitt til tjóns. Hafi tjón orðið á fasteignum stefnenda verði þeir að þola það bótalaust þar sem ástæða þess sé að fasteignir þeirra standist ekki þær kröfur sem gera verði til fasteigna.

Varakröfu sína styður stefndi við að stefnendur verði að bera hluta tjóns síns sjálfir vegna lélegs ástands fasteignanna fyrir. Einnig þurfi að taka tillit til verðmætaaukningar fasteignanna vegna þess að hluti þeirra verði nýr. Af þessum sökum gefi matsgerðin ekki rétta mynd af nettó tjóni stefnenda en við það beri að miða bætur.

Stefndi, Arnarfell ehf., byggir á að hann beri ekki að lögum ábyrgð á tjóni því sem stefnendur telji sig hafa orðið fyrir. Í fyrsta lagi sé ósannað að orsök meints tjóns á fasteignum stefnenda verði rakið til bergsprenginga hans. Mótmælir stefndi því að byggt verði á órökstuddu mati dómkvadds matsmanns hvað þetta varðar. Heldur stefndi því fram að skemmdir á fasteignum stefnenda stafi af lélegu viðhaldi og öðrum orsökum sem séu vel þekktar og algengar í steinsteyptum húsum.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að meintar skemmdir á umræddum fasteignum verði hvorki raktar til sakar hans né manna sem hann beri ábyrgð á að lögum en stefnendur beri sönnunarbyrgði fyrir hvoru tveggja. Mótmælir stefndi því að strangari sakarreglur en almenna skaðabótareglan komi til álita við úrlausn málsins þar sem stefnendur byggi eingöngu á henni. Stefndi heldur því fram að hann hafi við  framkvæmd verksins farið alfarið eftir þeim reglum sem settar hafi verið af löggjafanum og mótmælir fullyrðingum um annað sem röngum. Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að hann hafi ekki sinnt lögbundnum tjónavörnum með því að hafa ekki framkvæmt úttekt á húsum þar sem ætla mátti að tjón yrði, áður en sprengivinna hófst. Byggir stefndi á að sakarábyrgð hans verði ekki byggð á þessari meintu vanrækslu, þar sem reglan feli ekki í sér sjálfstæðan bótagrundvöll. Þá hafi stefndi í upphafi vinnu við sprengingar metið það svo að sökum fjarlægðar húsa frá sprengistað væri ekki þörf á að gera sérstaka úttekt, sbr. 1. mgr. 37. gr. reglugerðar nr. 684/1999. Titringur hafi mælst langt undir leyfilegum mörkum þegar sprengingar færðust nær byggð og því hafi stefndi metið það svo að húsum væri ekki hætta búin og því ekki þörf á úttekt samkvæmt tilvitnuðu ákvæði.

Þá liggi ekki annað fyrir en að stefndi hafi viðhaft allar viðurkenndar öryggisreglur og lögboðin fyrirmæli við framkvæmd vinnu sinnar og hafi viðhaft að öðru leyti allar þær öryggisráðstafanir sem að hans mati voru nauðsynlegar og vanalegar til að forðast tjón. Meint tjón á fasteignum stefnenda verði því ekki rakið til saknæmrar háttsemi stefnda eða manna sem hann ber ábyrgð á.

Varðandi varakröfuna þá mótmælir stefndi því að matsgerð dómskvadds matsmanns verði lögð til grundvallar við ákvörðun bótafjárhæðar en fyrir liggi að matsmaðurinn hafi ekki tekið tillit til ástands húsanna áður en sprengingarnar hófust.  Þá hafi matsmaðurinn lagt til grundvallar við mat á tjóni stefnenda kostnað við úrbætur á öllum sjáanlegum skemmdum á fasteignum stefnenda án tillits til hvort þær mætti rekja til sprenginga stefnda. Byggir stefndi á að hann verði ekki gerður ábyrgur fyrir tjóni sem stafi af vanrækslu á reglulegu viðhaldi en afar ólíklegt verði að telja að skemmdir á húsinu Víðmýri 8, sem var í mjög bágbornu ástandi vegna viðhaldsskorts, verði nema að óverulegu leyti raktar til sprenginga stefnda. Þá verði að lækka bótafjárhæð svo stefnandi hagnist ekki á tjóni sínu þar sem kostnaðaráætlun geri ráð fyrir varanlegum endurbótum á húsinu.

Þá mótmælir stefndi að mat á skemmdum á Blómsturvöllum 24 verði lagt til grundvallar vegna þess hversu ónákvæmt það sé.

IV.

Stefndi, Arnarfell ehf. sem verktaki, tók að sér með verksamningi við meðstefnda, Bæjarsjóð Fjarðarbyggðar sem verkkaupa, að byggja snjóflóðavarnargarð og keilur til varnar snjóflóðum á Drangagilssvæði í Neskaupstað. Skyldi verktaki í einu og öllu framkvæma verkið samkvæmt samningi og í samráði við eftirlitsaðila verkkaupa en eftirlitið hafði með höndum Björn Sveinsson tæknifræðingur.

Umfangsmiklar sprengingar á klöpp á svæði milli varnargarðs og keila hófust í nóvember 1999 og stóðu með hléum til janúar 2001. Samkvæmt því sem stefnendur halda fram og vitni hafa borið gætti áhrifa sprenginganna mest sumarið og haustið 2000. Fyrir liggur að Guðmundi Helga Sigfússyni, forstöðumanni umhverfismálasviðs stefnda, Bæjarsjóðs Fjarðarbyggðar, bárust kvartanir af ýmsum toga frá íbúum, þ. á m. stefnendum, vegna sprengivinnunnar. Kveðst hann hafa komið kvörtunum á framfæri við verktakann, stefnda Arnarfell ehf., og eftirlitsmanninn Björn Sveinsson, með óformlegum hætti.

Í málinu krefja stefnendur stefndu um bætur vegna tjóns sem þeir kveða hafa orðið á húseignum þeirra af völdum titrings vegna sprenginga stefnda, Arnarfells ehf., við gerð snjóflóðamannvirkjanna.

Í verklýsingu er til þess mælst að verktaki framkvæmi skoðun og skráningu á sprungum í nálægum húsum áður en sprengingar hefjast. Þá kveðst stefndi, Fjarðabyggð, hafa hvatt meðstefnda, Arnarfell ehf., til að láta framkvæma slíka skoðun. Fyrir liggur að slík skoðun fór ekki fram en stefndi, Arnarfell ehf., mat það svo við upphaf sprenginga að ekki væri nauðsynlegt að framkvæma skoðun á mannvirkjum þar sem þeim væri engin hætta búin vegna fjarlægðar frá sprengistað og þegar sprengingarnar færðust nær byggð taldi stefndi ekki þörf á skoðun þar sem mælt útslag nema vegna sprenginganna mældist jafnan langt undir leyfilegum mörkum.

Í bæklingnum Sprengingar í þéttbýli sem í útboðsgögnum er nefndur leiðbeiningarpésinn Sprengt með gætni í þéttbýli kemur fram að undir venjulegum kringumstæðum skuli skoða mannvirki í allt að 50 m fjarlægð ef byggingar standa á bergi en allt að 100 m ef mannvirki standa á sandi eða leir.

Hús stefnenda, þ.e. Víðimýri 8 og Blómsturvellir 24, eru í um 225 m fjarlægð frá nálægasta punkti sprengjusvæðisins. Samkvæmt því bar ekki skylda til skoðunar þeirra undir venjulegum kringumstæðum. Hins vegar er á það að líta að samkvæmt útboðsgögnum átti að sprengja/fleyga 72.000 m3 sem er mun umfangsmeiri sprengivinna/fleygun en svo að það geti flokkast undir venjulegar kringumstæður. Við svo mikla sprengivinnu var sérstök ástæða til að meta það hvort tilefni væri til að skoða mannvirki í meiri fjarlægð en ráð er fyrir gert í tilvitnuðum bæklingi. Þrátt fyrir að það hafi ekki verið gert þykir ekki unnt að áfellast stefnda, Arnarfell ehf., fyrir það þegar litið er til fjarlægðar húsa þeirra sem um ræðir í máli þessu frá sprengistað. Hins vegar hefði stefndi með slíkri skoðun tryggt sönnunarstöðu sína gagnvart kröfum vegna sprunguskemmda af völdum sprenginga.

Í verklýsingu segir um sprengingar: Verktaki skal haga sprengingum þannig, að sveifluhæð titrings í húsum næst sprengistað verði ekki hærri en 0,080 mm. Einnig skal hraði agnar vera minni en 20 mm/s.

             Dómendur telja að þessar kröfur séu varkárar og í samræmi við þekkta staðla og forskriftir á þessu sviði. Kröfur sem þessar eru íhaldssamar í þeim skilningi að sé titringur innan þessara marka eru hverfandi líkur á skemmdum á mannvirki. Gildir þá einu hvort átt er við fínriðnar sprungur sem flokka má sem útlitsskemmdir eða stærri og alvarlegri sprungur sem hafa áhrif á burðarþol og veðrunarvörn.

             Í verklýsingu segir ennfremur: Við sprengingar má mesta magn sprengiefnis, sem sprengt er á hverju hvellhettunúmeri, ekki vera meira en: Hvellhettunúmeri 0,  15 kg; og hvellhettunúmer 1 og hærra, 25 kg.   

             Eru dómendur sammála því sem fram kemur í yfirmati að magn sprengiefnis sem leyft er að nota samkvæmt útboðslýsingu sé valið af varkárni.

             Til að hægt væri að fylgjast með og skrá að ofangreindar kröfur væru uppfylltar skyldi stefndi, Arnarfell ehf., færa sprengiskýrslur og mæla titring í samvinnu við eftirlitsmanninn eins og nánar greinir hér á eftir.

Fyrir hverja sprengingu átti stefndi, Arnarfell ehf., að skrá í sprengiskýrslu m.a. staðsetningu sprengingar, borun, hleðslu, yfirbreiðslur, dagsetningu, tíma og annað sem skipti máli. Þessa skýrslu skyldi eftirlitsmaður hafa tækifæri til að kynna sér áður en sprengt var. Jafnframt skyldi skrá á sprengiskýrslu lýsingu á sprengingunni sjálfri, t.d. hvort hún var eðlileg, veik, öflug, eða hvort einhver óhöpp urðu. 

Einungis liggja fyrir sprengiskýrslur fyrir u.þ.b. þrjá fyrstu mánuði sprengitímans. Þær skýrslur sem liggja fyrir eru auk þess ófullgerðar miðað við þau ákvæði sem slíkar skýrslur eiga að uppfylla.

Fyrirsvarsmaður stefnda Arnarfells ehf., Þorvaldur Konráðsson, heldur því fram að sprengiskýrslur hafi verið færðar allan sprengitímann og að Björn Sveinsson eftirlitsmaður hafi fengið þær en hann hafi allavega framan af tekið þær þar sem þær hafi legið á borði í kaffiaðstöðu stefnda. Björn heldur því hins vegar fram að hann hafi ekki fengið sprengiskýrslur eftir u.þ.b. fyrstu þrjá mánuði sprengitímans þrátt fyrir að hann hafi ítrekað gengið eftir að fá þær.

Dómurinn telur fullyrðingar fyrirsvarsmanns stefnda, Arnarfells ehf., um að skýrslurnar hafi verið færðar ótrúverðugar. Þá er það álit dómsins að eðlilegt sé að gera þá kröfu til stefnda að hann haldi til haga afriti af slíkum skýrslum. Þar sem skýslurnar liggi ekki fyrir verði því við það að miða að þær hafi ekki verið færðar en það er brot á skyldum stefnda samkvæmt verksamningi.

Eftirlitsmaðurinn kveðst hafa látið það viðgangast að hann fengi ekki að sjá sprengiskýrslur þar sem titringur af völdum sprenginganna hafi aldrei mælst nálægt leyfilegum mörkum en mælingar á titringi séu besti mælikvarðinn á áhrif sprenginga á mannvirki þ.e. hvort titringurinn sé ásættanlegur og innan leyfilegra marka. Er það álit dómsins að telja verði það mikla vanrækslu af hálfu eftirlitsmannsins að láta það viðgangast að sprengiskýrslur væru ekki færðar.

Til að fylgjast með að titringur væri innan leyfilegra marka skyldi verktaki, stefndi Arnarfell ehf., mæla með titringsmæli sveifluhæð og sveifluhraða agnar. Skyldi titringsmælir settur upp í nálægum húsum í samráði við eftirlitsmann. Við upphaf sprengivinnunnar var titringsmælir settur upp að Blómsturvöllum 45 og sá Björn Sveinsson eftirlitsmaður um uppsetningu mælisins. Var nemi mælisins festur í um 1,5 m hæð á steinsteyptan skorstein, sem stendur nokkurn veginn á miðri steyptri gólfplötu hússins á neðri hæð og er ekki tengdur útveggjum þess. Á því 14 mánaða tímabili er sprengivinnan stóð yfir var neminn staðsettur á þessum sama stað að undanskildum stuttum tíma sumarið 2000 er hann var færður yfir í önnur hús. Eftirlitsmaðurinn kveðst hafa lesið af mælinum reglulega og hafi mælt útslag aldrei nálgast viðmiðunarmörk. Heldur fyrirsvarsmaður stefnda, Arnarfells ehf., hinu sama fram. Hvorki eftirlitsmaðurinn né stefndi, Arnarfell ehf., hélt til haga upplýsingum um mældan titring en slíkt hefði verið afar auðvelt t.d. með því að færa upplýsingar af mælinum yfir á tölvu til varðveislu eða með því að tengja prentara við mælinn og prenta reglulega út niðurstöður. Þá kveðst eftirlitsmaður hafa glatað dagbók sem hann færði mæliniðurstöður í.

Þekkt er að titringur í mannvirkjum vegna sprenginga er mjög breytilegur frá einum stað til annars. Eru ýmsar ástæður fyrir því og skiptir þar margbreytileiki berggrunnsins miklu sem og grundun og gerð viðkomandi mannvirkis. Þetta ætti verktaka, eftirlitsaðila sem og verkkaupa að vera ljóst. Æskilegt hefði því verið að mæla útslög titrings á fleiri en einum stað til að meta áhrif sprenginganna á nærliggjandi mannvirki. Þannig hefði fengist mat á breytileika titrings og gefið til kynna hversu heppilegur mælistaður Blómsturvellir 45 var fyrir önnur mannvirki í nágrenninu. Einnig hefði komið til greina, að færa þann eina nema sem nýttur var stærsta hluta verksins, til innan hússins eða yfir í önnur hús til að fá mat á breytileika titrings. Mælirinn var færður til sumarið 2000 en til þess að hægt sé að gera samanburð á mæligildum þarf að vera hægt að tengja þau við staðsetningu sprengingar og magn sprengiefnis hverju sinni. Það var ekki unnt þar sem sprengiskýrslur voru ekki haldnar.

Er það mat dómsins með hliðsjón af framangreindu að með ófullnægjandi hætti hafi verið staðið að mælingu titrings og mælingar því ekki veitt nógu góðar upplýsingar um titring af völdum sprenginga. Því sé ekki unnt að útiloka að titringur af völdum sprenginganna hafi farið yfir leyfileg mörk.

Fyrir liggur að sumarið 1997 var gert við sprungur utanhúss og lausa múrhúð hússins að Víðimýri 8 og húsið málað. Þá liggur fyrir að í lok sprengitímabilsins var húsið mjög illa sprungið. Er það því mat dómsins að eldri sprungur hafi hreyfst og opnast í húsinu og að líklega hafi nýjar sprungur myndast í  því vegna titrings af völdum sprenginganna. Telur dómurinn, sem fór á vettvang, nánast útilokað að húsið hefði getað verið jafn sprungið og raun ber vitni svo skömmu eftir viðgerð ef sprengingarnar hefðu ekki komið til.

Fyrir liggur sprungur voru í múrhúð hússins að Blómsturvöllum 24 í lok sprengitímabilsins. Þá liggur fyrir að nýlegar flísar á baðherbergi hússins sprungu á sprengitímabilinu. Er það mat dómsins að þær sprungur séu dæmigerðar fyrir sprungur af völdum sprenginga. Telur dómurinn því að einhverjar sprungur hafi myndast og/eða opnast á húsinu af völdum sprenginganna.

Eftirlitsmaður verkkaupa, stefnda Bæjarsjóðs Fjarðabyggðar, var sérfróður og átti að fylgjast með framkvæmd verksins og því að verkþættir eins og m.a. sprengingar væru framkvæmdar í samræmi við verklýsingu. Tengsl verkkaupa, stefnda Bæjarsjóðs Fjarðabyggðar, við verkið voru því allnáin og gat stefndi haft veruleg afskipti af framkvæmd þess.

Það að sprengiskýrslur skuli ekki hafa verið færðar er ámælisvert brot á skyldum vertakans, stefnda Arnarfells ehf. Þá þykir það alvarleg vanræksla af hálfu eftirlitsmannsins að hafa látið það viðgangast.

Þá er það mat dómsins eins og áður hefur verið rakið að með ófullnægjandi hætti hafi verið staðið að mælingu titrings en stefndi, Arnarfell ehf., og eftirlitsmaðurinn höfðu samráð um staðsetningu titringsmælis. Jafnframt er á það að líta að hvorki stefndi né eftirlitsmaðurinn hélt upplýsingum um mælingar til haga eins og auðvelt hefði verið.

Samkvæmt framanröktu uppfyllti stefndi, Arnarfell ehf., ekki  samningsskyldur sínar og eftirlitsmaður stefnda, Bæjarsjóðs Fjarðabyggðar, rækti ekki eftirlitsskyldur sínar með fullnægjandi hætti. Vegna þessa er ekki hægt að meta eftir á hvort sprengingar stefnda, Arnarfells ehf., voru í samræmi við ákvæði verksamnings og titringur af þeirra völdum undir viðmiðunarmörkum. Verða stefndu báðir eins og á stendur að bera hallann af því og bera bótaábyrgð á tjóni því á húseignum stefnenda sem rekja þykir mega til titrings af völdum sprenginganna.

Í mati hins dómkvadda matsmanns er metinn kostnaður við úrbætur á öllu sjáanlegu tjóni á fasteignum stefnenda. Matsmaðurinn bar fyrir dóminum að virðisaukaskattur væri innifalinn í matsfjárhæðum en ekki er í matinu greint á milli kostnaðar vegna vinnu og efniskostnaðar. Þykir því verða að dæma stefnendum bætur að álitum fyrir það tjón sem rekja þykir mega til sprenginganna. Mat dómkvadds matsmanns verður þó haft til hliðsjónar.

Varðandi mat á tjóni á húsinu Víðmýri 8 verður til þess að líta að skortur á viðhaldi þess til sumarsins 1997 þykir eiga þátt í hversu mikið húsið hefur sprungið af völdum sprenginganna. Það er mat dómsins að gera megi við gafla hússins með viðunandi hætti og gera þá jafngóða og þeir voru fyrir með múrviðgerð. Þá er það mat dómsins, þó að stefnandi, Bergþóra Aradóttir og maður hennar hafi borið að húsið hafi ekki lekið fyrir, að ekki sé unnt að útiloka að einhverjar rakaskemmdir séu frá fyrri tíð. Loks þykir brotið gler ekki verða rakið til titrings. Að þessu virtu þykja bætur til handa stefnanda, Bergþóru Aradóttur, hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar vegna bráðabirgðaviðgerða við að takmarka tjón.

Varðandi mat á tjóni á húsinu Blómsturvöllum 24 er á það að líta að í skoðunarskýrslu Hönnunar hf. kemur fram að nokkuð sé um sprungur í sökkul- og kjallaraveggjum og allflestar gamlar. Hins vegar er á það að líta að það er mat dómsins eins og áður greinir að einhverjar sprungur hafi myndast og/eða opnast á húsinu af völdum sprenginganna en gert hafði verið við sprungur þegar dómurinn fór á vettvang. Það er mat dómsins að sprungur í loftplötu innan húss geti ekki verið af völdum titrings. Sprungur í flísum séu hins vegar dæmigerðar sprungur af völdum titrings en við meðferð málsins upplýstist að tekist hefði að útvega flísar á baðherbergið ókeypis. Að þessu virtu þykja bætur til handa stefndu Júlíu Ásvaldsdóttur og Hjörvari Hjálmarssyni að álitum hæfilega ákveðnar 250.000 krónur.

Dæmdar fjárhæðir beri dráttarvexti eins og nánar greinir í dómsorði frá því að mánuður var liðinn frá því stefndu var kynnt mat hinna dómkvöddu manna með framlagningu þess fyrir dóminum.

Eftir niðurstöðu málsins verða stefndu dæmdir in solidum til að greiða stefnanda, Bergþóru Aradóttur, samtals 950.000 krónur í málskostnað og stefnendum Júlíu Ásvaldsdóttur og Hjörvari Hjálmarssyni samtals 650.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. 

Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn ásamt meðdóms-mönnunum Bjarna Bessasyni prófessor og Sigurði Erlingssyni prófessor.

Dómsorð:

Stefndu, Bæjarsjóður Fjarðabyggðar og Arnarfell ehf. greiði in solidum stefnanda Bergþóru Aradóttur 1.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 frá 21. júní 2002 til greiðsludags og stefnendum Júlíu Ásvaldsdóttur og Hjörvari Hjálmarssyni 250.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 frá 21. júní 2002 til greiðsludags.

Stefndu greiði í sameiningu stefnanda Bergþóru Aradóttur samtals 950.000 krónur í málskostnað og stefnendum Júlíu Ásvaldsdóttur og Hjörvari Hjálmarssyni samtals 650.000 krónur í málskostnað.