Hæstiréttur íslands
Mál nr. 822/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Framlagning skjals
|
|
Þriðjudaginn 8. desember 2015. |
|
Nr. 822/2015.
|
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Hörður Felix Harðarson hrl.) Y og (Gestur Jónsson hrl.) Z (Kristín Edwald hrl.) |
Kærumál. Framlagning skjals.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að lögð yrðu fram í málinu nánar tilgreind tölvuskeyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2015, sem barst réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2015, þar sem fallist var á kröfu varnaraðilanna, X og Y, um að lögð yrðu fram í málinu 10 nánar tilgreind tölvuskeyti og kröfu varnaraðilans, Z, um að lögð yrðu fram 8 nánar tilgreind tölvuskeyti. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2015.
Ár 2015, mánudaginn 7. desember, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, í málinu nr. [...]/2015: Ákæruvaldið gegn X, Y og Z kveðinn upp svofelldur
ú r s k u r ð u r:
Embætti sérstaks saksóknara hefur með ákæru, dagsettri 22. apríl 2014, höfðað mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur á hendur ákærðu X og Y fyrir umboðssvik og Z fyrir hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við lánveitingar [...] til nokkurra félaga í ágúst, september og október 2008.
Fyrir upphaf aðalmeðferðar í málinu í dag hafa ákærðu krafist þess að lögð verði fram í málinu samtals 18 tölvuskeyti frá haustinu 2008 úr miklu safni gagna sem varðar starfsemi [...]. Krefjast ákærðu X og Z þess að 10 skeyti verði lögð fram (rafrænt auðkenni [...]) og ákærði Z að 8 skeyti verði lögð fram (rafrænt auðkenni [...]). Af hálfu ákæruvaldsins er kröfunni mótmælt.
Mál þetta var reifað munnlega og það tekið til úrskurðar í framhaldi af því.
Ákærðu telja að tölvuskeyti þessi geti haft sönnunargildi við úrlausn málsins og mat á trúverðugleika vitna í því og beri því að heimila að þau verði lögð fram í málinu. Af hálfu ákæruvaldsins er kröfu ákærðu mótmælt þar sem gögn þessi séu ekki sönnunargögn um atvik máls.
Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga um meðferð sakamála leggja aðilar fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að ákærandi leggi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati. Telja verður að verjendur eigi, til jafns við ákæruvaldið, mat um það hvaða gögnum þeir byggja málatilbúnað sinn á og leggja fram í sakamáli. Er það ekki á valdi dómara að hindra að slík gögn verði lögð fram, nema þau séu bersýnilega þýðingarlaus fyrir málið eða því óviðkomandi. Verður ekki séð á þessu stigi málsins að þannig standi á um gögn þessi. Ber því með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga um meðferð sakamála að ákveða að lögð verði fram í málinu 10 tölvuskeyti, sem ákærðu X og Y krefjast að fram verði lögð, og 8 tölvuskeyti, sem ákærði Z krefst að fram verði lögð.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Lögð verða fram í máli þessu 10 tölvuskeyti að kröfu ákærðu X og Y og 8 tölvuskeyti að kröfu ákærða Z.