Hæstiréttur íslands

Mál nr. 582/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Framhaldssök
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta


Þriðjudaginn 21

 

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006.

Nr. 582/2006.

Guðrún Margrét Sveinsdóttir

(Lúðvík Emil Kaaber hdl.)

gegn

Olíuverslun Íslands hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Framhaldssök. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.

Með stefnu, sem þingfest var 15. desember 2005, krafði G félagið O hf. um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar. O hf. krafðist frávísunar málsins þar sem kröfugerð og málatilbúnaður G væri óljós. G brást við með því að höfða framhaldssök þar sem hún freistaði þess að leiðrétta það sem hún taldi að aflaga hefði farið við upphaflega kröfugerð en við það hækkaði krafa hennar um 1.400.000 krónur. Héraðsdómur vísaði málinu í heild frá dómi. Ekki var fallist á að slíkir annarkar hefðu verið á frumstefnunni að það bæri að vísa henni frá héraðsdómi. Á hinn bóginn var talið að skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 til að auka við fyrri kröfu í málinu hefðu ekki verið fyrir hendi. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur hvað síðargreinda atriðið varðar en var að öðru leyti felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið fyrir samkvæmt frumstefnunni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2006, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar .

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurður og kærumálskostnaðar.

Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. desember 2005. Í stefnu gerði sóknaraðili kröfu um greiðslu á 3.464.625 krónum úr hendi varnaraðila auk aðallega dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en til vara vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga af tilgreindum fjárhæðum frá upphafsdögum sem tíundaðir eru í stefnunni. Krafan var sögð greinast í fimm þætti og eru teknir upp í hinn kærða úrskurð þeir kaflar stefnunnar, þar sem fjallað er um hvern einstakan þessara þátta. Þar er þó ekki tekin með tafla þar sem sýnd er sundurgreining og samtala fyrstu þriggja kröfuþáttanna í einu lagi, en samtals nam þessi hluti stefnukröfunnar 1.464.625 krónum. Um fjórða kröfuþáttinn segir í stefnunni að þar sé gerð krafa um „miskabætur vegna óþæginda, óþrifa og umstangs, og þar með röskunar á stöðu hennar og högum, friði og frelsi.“ Ekki er sérstaklega tilgreind fjárhæð þessa kröfuþáttar, en af samanburði á fjárhæð heildarkröfu í stefnu og samtölu annarra kröfuþátta má ráða að hér sé krafist 600.000 króna. Stefnan ber síðan með sér að fimmti kröfuþátturinn, sem er vegna ætlaðrar verðrýrnunar á fasteigninni að Álfhólsvegi 78 í Kópavogi, nemi 1.400.000 krónum og byggist á matsgerð dómkvaddra manna 15. nóvember 2004, sem grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði. Í lýsingu dómkrafna í stefnunni kemur fram að fyrrgreindra vaxta væri frá þingfestingardegi málsins krafist af 5.864.625 krónum, en sú fjárhæð er 2.400.000 krónum hærri en stefnukrafan. Ekki var gefin skýring á þessu.

Varnaraðili skilaði greinargerð 16. febrúar 2006 og krafðist meðal annars frávísunar málsins frá héraðsdóminum. Taldi hann kröfugerð stefnanda óskýra. Væri nánast „ógerlegt að átta sig á megináherslum þeirra málsástæðna sem byggt er á.“ Taldi hann stefnuna brjóta í bága við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Meginefni nánari röksemda varnaraðila fyrir þessu er tekið upp í hinn kærða úrskurð.

Svo sem fram kemur í úrskurði héraðsdóms brást sóknaraðili þannig við frávísunarkröfu varnaraðila, að hún höfðaði framhaldssök þar sem hún freistaði þess að leiðrétta það sem hún taldi að aflaga hefði farið við upphaflega kröfugerð. Leitaði hún til þess heimildar í 29. gr. laga nr. 91/1991. Í framhaldsstefnu kemur fram að fjárhæð miskabótakröfunnar í fjórða kröfulið frumstefnu hafi átt að nema 3.000.000 krónum í stað 600.000 króna. Þess vegna nemi samanlögð dómkrafan 5.864.625 krónum, en ekki 3.464.625 krónum, svo sem greint var í frumstefnu. Framhaldssök þessi var þingfest 19. maí 2006.

Varnaraðili krafðist frávísunar framhaldssakarinnar og fór fram málflutningur um báðar frávísunarkröfurnar í einu lagi 10. október 2006. Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu varnaraðila um að vísa málinu í heild frá héraðsdóminum.

Fallast má á með varnaraðila að reifun dómkrafna, málsástæðna og lagaröksemda hefði mátt vera skýrari í frumstefnu sóknaraðila, sbr. d., e. og f. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þrátt fyrir þetta er ekki sérstökum vandkvæðum bundið að sjá af stefnunni hverjar dómkröfur eru, hvernig þær eru sundurliðaðar milli kröfuþáttanna fimm og hvert sé tilefni hvers þáttar um sig. Þannig verður ekki séð að varnaraðili eigi í erfiðleikum með að færa fram varnir sínar gegn kröfunum. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að vísa frumstefnu sóknaraðila frá héraðsdómi.

Með fyrrnefndri framhaldsstefnu freistaði sóknaraðili þess að leiðrétta kröfugerð sína í frumstefnunni með því að hækka fjárhæð miskabótakröfu úr 600.000 krónum í 3.000.000 krónur. Hækkaði stefnukrafan sem nam mismun þessara fjárhæða. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 91/1991 er með framhaldssök heimilt að auka við fyrri kröfu eða hafa uppi nýja kröfu í máli eftir þingfestingu en fyrir aðalmeðferð þess ef skilyrðum 1. mgr. 27. gr. er fullnægt og það verður ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu. Meta verður það sóknaraðila til vanrækslu í skilningi þessa ákvæðis að hafa ekki gert kröfu sína um miskabætur með þeirri fjárhæð sem hún vildi strax í upphafi. Verður því fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að vísa framhaldssök sóknaraðila frá héraðsdómi.

Staðfest verður ákvörðun héraðsdóms um málskostnað.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila í héraði í þessum þætti málsins bíður efnisdóms í málinu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður um frávísun framhaldssakar sóknaraðila, Guðrúnar Margrétar Sveinsdóttur, sem þingfest var 19. maí 2006, frá héraðsdómi og um málskostnað.

Hinn kærði úrskurður er að öðru leyti felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka mál sóknaraðila samkvæmt frumstefnu, þingfestri 15. desember 2005, til efnislegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2006.

Stefnandi þessa máls er Guðrún Margrét Sveinsdóttir, [kt.], Álfhólsvegi 78, Kópavogi, en stefndu Olíuverslun Íslands hf., [kt.], Sundagörðum 2, Reykjavík, og til réttargæslu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., [kt.], Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda á hendur aðalstefnda eru þær, að félagið verði dæmt til að greiða stefnanda 5.864.625 kr. með vöxtum af 5.000 kr. 1.11.1996 til 1.12.96, af 10.000 kr. 1.12.96 til 1.1.1997, af 15.000 kr. 1.1.97 til 1.2.97, af 20.000 kr. 1.2.97 til 1.3.97, af 25.000 kr. 1.3.97 til 1.4.97, af 30.000 kr.1.4.97 til 1.5.97, af 55.000 kr. 1.5.97 til 1.6.97, af 80.000 kr. 1.6.97 til 1.7.97, af 105.000 kr. 1.7.97 til 1.8.97, af 130.000 kr. 1.8.97 til 1.9.97, af 155.000 kr. 1.9.97 til 1.10.97, af 180.000 kr. 1.10.97 til 1.11.97, af 205.000 kr. 1.11.97 til 1.12.97, af 230.000 kr. 1.12.97 til 1.1. 1998, af 255.000 kr.1.1.98 til 1.2.98, af 280.000 kr. 1.2.98 til 1.3.98, af 305.000 kr. 1.3.98 til 1.4.98, af 330.000 kr. 1.4.98 til 1.5.98, af 355.000 kr.1.5.98 til 1.6.98, af 380.000 kr. 1.6.98 til 1.7.98, af 405.000 kr. 1.7.98 til 1.8.98, af 430.000 kr. 1.8.98 til 1.9.98, af 455.000 kr. 1.9.98 til 1.10.98, af 480.000 kr. 1.10.98 til 1.11.98, af 505.000 kr. 1.11.98 til 1.12.98, af 530.000 kr. 1.12.98 til 1.1.1999, af 555.000 kr. 1.1.99 til 1.2.99, af 580.000 1.2.99 til 1.3.99, af 605.000 kr. 1.3.99 til 1.4.99, af 630.000 kr. 1.4.99 til 1.5.99, af 655.000 kr. 1.5.99 til 1.6.99, af 680.000 kr. 1.6.99 til 1.7.99, af 705.000 1.7.99 til 1.8.99, af 730.000 kr. 1.8.99 til 1.9.99, af 755.000 kr. 1.9.99 til 1.10.99, af 780.000 kr. 1.10.99 til 1.11.99, af 805.000 kr. 1.11.99 til 1.12.99, af 830.000 kr. 1.12.99 til 1.1.2000, af 855.000 kr. 1.1.00 til 1.2.00, af 880.000 kr. 1.2.00 til 1.3.00, af 905.000 kr. 1.3.00 til 1.4.00, af 930.000 kr. 1.4.00 til 1.5.00, af 955.000 kr. 1.5.00 til 1.6.00, af 1.104.500 kr. 1.6.00 til 1.7.00, af 1.129.500 kr. 1.7.00 til 1.8.00, af 1.154.500 kr. 1.8.00 til 1.9.00, af 1.179.500 kr. 1.9.00 til 1.10.00, af 1.204.500 kr. 1.10.00 til 1.11.00, af 1.229.500 kr. 1.11.00 til 1.12.00, af 1.254.500 1.12.00 til 1.1.2001, af 1.279.500 kr. 1.1.01 til 1.2.01, af 1.304.500 kr. 1.2.01 til 1.3.01, af 1.329.500 kr. 1.3.01 til1.4.01, af 1.439.625 kr. 1.4.01 til 1.5.01, af 1.464.635 kr. frá 1.5.2001 til 12. maí 2004, af 2.864.625 kr. frá þeim degi til þingfestingardags máls þessa, en af 5.864.625 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Krafist er aðallega dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og 10. og 12. gr. fyrri vaxtalaga nr. 25/1987 af hverjum einstökum lið kröfu stefnanda eins og hún hækkar á einstökum dögum svo sem að ofan greinir.  Til vara er þess krafist að vextir af kröfufjárhæðum til komnum 12. maí 2004 og síðar verði dæmdir með tilliti til 1. mgr. 8. gr., 1. málsliðar 4. gr., 9. gr. og 12. gr. laga 38/2001.  Enn fremur er krafist málskostnaðar stefnanda til handa samkvæmt síðar fram lögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, verði málskostnaðarreikningur ekki lagður fram, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.  Þar með ber að telja matskostnað að fjárhæð 398.400 kr. sem ríkissjóður hefur lagt út.  Stefnukröfur eiga ekki rót að rekja til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi stefnanda, og er þess því krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu lögmanna að greiða virðisaukaskatt af þóknun sinni.

Á hendur réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., eru ekki gerðar kröfur.

Stefndi, sóknaraðili í þessum þætti málsins, krefst þess að kröfum á hendur félaginu verði vísað frá dómi og stefnandi, varnaraðili í þessum þætti málsins, verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Stefnandi, varnaraðili í þessum þætti málsins, krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og málið tekið fyrir efnislega.  Þá er þess krafist að ákvörðun um málskostnað af þessum þætti málsins bíði efnisdóms í málinu, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfuna 10. þ.m.

 

Helstu málavextir eru að varnaraðili og eiginmaður hennar keyptu fasteignina að Álfhólsvegi 78 í Kópavogi árið 1989 og fluttu heimili sitt þangað.  Hjónin skildu á árinu 1995 og kom fasteignin í hlut stefnanda við búskiptin.  Hefur hún síðan búið þar, í fyrstu með fjórum börnum.

             Af hálfu varnaraðila segir að íbúð í kjallara hússins hafi verið leigð.  Í október 1994 hafi orðið vart við sterka olíulykt í kjallaranum og hafi leigjandinn orðið að yfirgefa húsnæðið.

             Húsið að Álfhólsvegi 78 stendur neðst í brekku, en beint fyrir ofan það er Melaheiði 3.  Sú hlið húss varnaraðila, sem snýr að Melaheiði 3, er niðurgrafin að fullu.  Varnaraðili kvartaði yfir því við heilbrigðiseftirlit Kópavogsbæjar 21. júní 1995 að olía, sem læki úr tank við íbúð á Melheiði 3, bærist í drenlögn húss hennar við Álfhólsveg 78.  Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins var farið á staðinn og litið á aðstæður skv. bókun eftirlitsins 22. sama mánaðar, sbr. dskj. nr. 3, og bókað að staðfest væri að í grunnvatni væri olía og haft hefði verið samband við íbúa að Melaheiði 3 varðandi olíutank.

             Af hálfu sóknaraðila er greint frá því að haft hafi verið samband við félagið í júlí 1995 og kvartað yfir lekum húsageymi að Melaheiði 3 í Kópavogi.  Skjótt hefði verið brugðist við og starfsmaður sendur á staðinn til að kanna aðstæður.  Hafi hann dælt afganginum af gasolíu upp úr geyminum.  Þá segir að geymirinn hafi upphaflega verið settur upp við húsið vegna húsakyndingar en eftir að hitaveita hafi verið tekin inn í húsið hafi geymirinn verið notaður sem gasolíuforðageymir fyrir bíl húsráðanda að Melaheiði 3, en hann sé leigubílstjóri.

             Greint er frá því að tekin hafi verið vatnssýni úr holum í gólfi hússins og þau rannsökuð.  Í sýninu hafi greinst flókin blanda rokfimra, lífrænna efna, sömu samsetningar efna og eru í díselolíu, en heildarmagn díselolíu í vatnssýninu hafi verið áætlað á bilinu „200-250 míkról/l (ppm)“.  Sýnið hafi þannig verið mengað lífrænum efnum, sennilega díselolíu.

             Réttargæslustefndi fékk Stefán Guðbergsson verkfræðing til að kanna aðstæður og koma með tilögur um úrbætur.  Í bréfi verkfræðingsins til tryggingafélagsins 20. september 1995 segir m.a.:

         Samkvæmt upplýsingum Margrétar Sveinsdóttur, Álfhólsvegi 78, varð vart við megna olíulykt í kjallara hússins.  Við eftirgrennslan kom í ljós að olíugeymir var í notkun við húsið nr. 3 við Melaheiði, en síðar kom í ljós að sá geymir hafði lekið.  Melaheiði er ofan við Álfhólsveginn og er verulegur hæðarmunur á milli húsanna, á að giska 3 – 4 metrar.

         Geymirinn var síðan tæmdur og fylltur steypuvellingi.  Geymirinn er niðurgrafinn ofan við bílskúr við Melaheiði.  Frá þeim stað að húsinu við Álfhólsveg eru á að giska 20 m.  Ljóst er því að lekasvæðið getur verið tugir fermetra að stærð.

         Vatn hefur verið látið renna á jarðveginn milli húsanna til að reyna útskolun.  einnig hefur verið úðað olíueyðandi efnum á jarðveginn.

         Gólfið í kjallara hússins við Álfhólsveg hefur verið brotið upp á nokkrum stöðum.  Jarðvatn stendur upp í holunum mishátt og nær víða upp í gólfplötuna.

         Fyrir nokkrum árum var að sögn Margrétar gólfið brotið upp og lögð jarðvatnslögn undir gólfið og tengd niðurfalli.  Jarðvatnslögnin er klædd utan með fíngerðum jarðvegsdúk.  Hún er í dag sýnileg í nokkrum af holunum.

         ...

Niðurstaða:

1.         Sýnileg olía er í jarðvatninu.  Ekki hefur tekist að eyða henni.

2.             Kjallaragólf hússins er í beinni snertingu við jarðvatnið, jarðvatnslögnin heldur ekki steinsteyptri plötu hússins þurri.

3              Meðan steinninn er blautur af dieselolíu blönduðu vatni verður dieselolíulykt af honum.

Úrbætur:

1.             Eyða dieselolíu úr jarðveginum

                eða

2.             Halda botnplötunni þurri með því að setja jarðvatnslögn nægilega djúpt.

Lokaorð:

                Ef eðlileg jarðvatnslögn væri ofan við húsið, hefði ekki komið lykt nema upp um útiniðurföll og þakrennur.  Með núverandi jarðvatnslögn undir stofugólfi mun alltaf verða rakalykt af gólfunum.  Húsráðendur virðast leysa það með lakkmálningu gólfa í eldhúsi og á baði, en málningin hefur þá væntanlega mjög takmarkaðan endingartíma – ekki er kunnugt um gólfefni, sem voru á stofugólfi.  Með mikilli kyndingu og loftræstingu má halda niðri rakalykt innan húss frá steinsteypu.

                      Eðlilegast virðist því, sé einhver bótaskylda viðurkennd, að greidd verði föst upphæð til sátta.

 

Í öðru bréfi verkfræðingsins til tryggingafélagsins, dags. 21. september 1995, er greint frá því sem kallað er gróf kostnaðaráætlun um gerð jarðvatnslagnar að Álfhólsvegi 78.  Þar segir:

Gert er ráð fyrir að leggja jarðvatnslögn meðfram suðurhlið hússins alls um 18 metra og tengja við núverandi þakniðurfall á suð-vestur horni.  Einnig er gert ráð fyrir að leggja lögn meðfram norðurhlið og tengja við frárennsli frá húsinu alls um 12 metra.

Samtals um 30 metra af lögnum, áætlaður kostnaður er 360.000 kr.

Sé áhugi fyrir hendi er unnt að afla tilboða í verkið verðum til staðfestingar.

 

Tryggingarfélagið greiddi varnaraðila bætur 13. október 1995, sbr. dskj. nr. 12.  Í skjalinu segir að greiddar séu fullnaðarbætur, 480.0000 kr., vegna olíumengunar frá Melaheiði 3, Kópavogi.  Með fyrirvara um ófyrirsjáanlegan atburð sem rekja megi til atburðarins.

Varnaraðili heldur fram að hún hafi gert kröfu um bætur fyrir leigutap og viðgerðir og staðið í þeirri meiningu að bæturnar, 480.000 kr., hefðu verið þannig hugsaðar, enda hafi fjárhæðin virst í samræmi við það tjón hennar.  Af hálfu réttargæslustefnda segir hins vegar að við uppgjörið hafi verið tekið mið af yfirliti um tjón, sbr. dskj. nr. 13, [157.578 kr.] og kostnaði við úrbætur á drenlögn við hús varnaraðila, sbr. dskj. nr. 7, [360.000 kr.].  Gert hefði verið ráð fyrir því að varnaraðili annaðist sjálf um nauðsynlegar úrbætur á fasteign sinni.

Varnaraðili kvartaði við heilbrigðiseftirlit Kópavogs 1. júlí 1998 vegna mengunar í frárennsli en olíulykt væri í íbúðinni að Álfhólsvegi 78.  Starfsmaður eftirlitsins fór á staðinn og ræddi við hana.  Taldi hann ekkert athugavert að sjá við íbúðina og fann enga lykt, en greinir frá því, að eigandinn [varnaraðili] hefði sagt að engin hreinsun á olíunni hefði farið fram og drenið væri trúlega stíflað, olíulykt gysi upp annað slagið og hún gæti ekki leigt út húsnæðið þess vegna.  Þá liggur fyrir bréf frá heilbrigðisfulltrúa til varnaraðila, dags. 12. febrúar 1999, þar sem hann staðfestir að við skoðun að Álfhólsvegi 78, 1. júlí 1998 og 11. febrúar 1999 hafi orðið vart við raka í svefnherbergi í kjallara og gulleit rák hafi verið á gólfdúk, þar sem vatn hafi seytlað inn í herbergið.  Ekki hafi þó verið olíulykt, en að sögn húsráðanda gysi hún þó upp annað slagið.

Varnaraðili leitaði til Húseigendafélagsins vegna olíumengunarinnar frá Melaheiði 3.  Félagið sendi réttargæslustefnda bréf 21. maí 1999 þar sem rakið var að varnaraðili hefði fengið bætur frá réttargæslustefnda 13. október 1995 er varnaraðili telji að séu bætur vegna tjóns og rasks innanhúss að Álfhólsvegi 78 og vegna húsaleigutaps.  Greint er frá því að síðastliðin 2 ár hafi verið mikil rakavandamál á jarðhæðinni, sem ekki hafi verið til staðar fyrir olíuslysið.  Varnaraðili telji að olían hafi eyðilagt nýlegt dren undir gólfplötunni þannig að stíflur hafi myndast.  Þetta telji varnaraðili vera óvæntar og ófyrirséðar afleiðingar af olíulekanum, en fyrirvari hafi verið um ófyrirséðar afleiðingar olíulekans í bótakvittuninni.  Farið var fram á að sérfræðingur á vegum réttargæslustefnda færi, skoðaði og mæti þetta og haldinn yrði síðan fundur til að ræða málið og finna lausn á því.

Réttargæslustefndi svaraði bréfi Húseigendafélagsins með bréfi 31. ágúst 1999.  Þar segir m.a.:

Stefán Guðbergsson byggingaverkfræðingur skoðaði fasteignina árið 1995 þ.e. er upplýst var um olíulekann.

Álit hans var að þarna hefðu verið töluverður raki í húsinu fyrir og með þáverandi jarðvatnslögn undir stofugólfi mun alltaf verða rakalykt af gólfum (sic.).  Mælti Stefán með því við húseigendur að jarðvatnslögn væri sett ofan við húsið, að öðrum kosti yrði raki undir gólfi.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja, hefur ekkert verið gert til að bæta jarðvatnslagnir við húsið og raki því væntanlega áfram í gólfi.

Afstaða félagsins er að olíulekinn árið 1995 hafi ekkert með rakann í húsinu að gera.

 

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis sendi sóknaraðila bréf 24. janúar 2000.  Í bréfinu er skýrt frá því að varnaraðili hafi leitað aftur til heilbrigðiseftirlitsins vegna olíumengunar á lóðinni að Álfhólsvegi 78.  Í bréfinu segir m.a. að 1. júlí 1998 og aftur 11. febrúar 1999 hafi varnaraðili óskað eftir úttekt heilbrigðiseftirlitsins þar sem hún teldi að olíulykt bærist inn í kjallaraíbúð í húsinu enda hafi engin hreinsun farið fram á olíumenguninni.  Merki eftir leka hafi verið á gólfi og hafi varnaraðili talið að drenlögn í gólfi hefði eyðilagst vegna olíumengunar.  Hinn 25. október 1999 hafi Páll Stefánsson heilbrigðisfulltrúi verið kallaður á staðinn en þá hafi verið búið að brjóta upp gólf til að lagfæra drenlögn í grunni.  Greinileg merki olíu hefði mátt merkja í jarðvatni er seytlað hafi inn í grunninn.  Ekki hafi verið gengið frá gólfi síðan það var brotið upp og muni olía enn leka inn.  Mengun í jarðvegi væri því enn til staðar.  Óskað hafi verið eftir tillögum eða athugsemdum frá sóknaraðila um málið.

Bréfi heilbrigðiseftirlitsins var svarað af hálfu réttargæslustefnda fyrir hönd sóknaraðila með bréfi, dags. 18. febrúar 2000.  Var þar vísað til skýrslu Stefáns Guðbergssonar verkfræðings, frá 20. september 1995, þar sem m.a. komi fram að jarðvatnslögn haldi ekki steinsteyptri plötu hússins þurri og að með þeirri jarðvatnslögn sem væri undir stofugólfi muni alltaf verða rakalykt af gólfunum.  Áréttað er í bréfinu að ekki verði séð að úrbætur hafi verið gerðar.  Í skýrslu Stefáns komi fram að olía væri í jarðvatni og á meðan steinninn væri blautur yrði dieselolíulykt af honum.  Í framhaldi af skýrslunni hafi samkomulag orðið við varnaraðila um fullnaðarbætur vegna tjóns af völdum olíumengunar.  Þá var lýst yfir að olíulekinn hefði ekkert með rakann í húsinu að gera.  Ekkert hefði verið gert til að bæta jarðvatnslagnir við húsið sem samkvæmt skýrslu verkfræðingsins væru orsök rakans.  Þannig hafi ekkert nýtt komið fram í málinu sem gæfi tilefni til endurupptöku málsins af hálfu tryggingafélagsins.

Lögmanni varnaraðila var af hálfu lögmanns, f. h. sóknaraðila, sent eftirfarandi bréf, dags. 31. mars 2000, varðandi Álfhólsveg 78, Kópavogi:

Olíuverzlun Íslands hf. hefur falið undirritaðri að leita eftir upplýsingum hjá yður vegna ofangreindrar fasteignar.

Á árinu 1995, voru umbj. yðar, sem er eigandi fasteignarinnar við Álfhólsveg 78, Kópavogi, greiddar kr. 482.000,- vegna olíumengaðs raka í húsinu.  Var uppgjörið háð því skilyrði að umb. yðar léti leggja nýjar jarðvatnslagnir með gildrum við húsið en sú jarðvatnslögn sem fyrir var reyndist vera ófullnægjandi án tillits til olíumengunar.  Þá átti umbj. yðar að sjá sjálf um frágang vegna uppbrots í kjallara.  Inn í þessari fjárhæð voru einnig bætur vegna tapaðrar leigu.  Þá tók Olís á sig allan útlagðan kostnað vegna málsins samtals kr. 240.000.-  Uppgjör þetta fór í gegnum tryggingarfélag Olís, Sjóvá-Almennar.

Nú hefur aftur komið í ljós raki í húsi umbj. yðar og hún snúið sér á ný til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Er óskað eftir því að þér veitið undirritaðri nákvæmar upplýsingar studdar skriflegum gögnum um það hvaða framkvæmdir umbj. yðar fór í fyrir þær bætur er henni voru greiddar.  Er óskað eftir því að upplýst verði hvers konar jarðvatnslagnir voru lagðar, hvar og af hverjum.  Þá er óskað eftir upplýsingum um það hvers vegna ekki voru settar gildrur ofan og neðan megin við húsið.

 

Með bréfi 4. apríl 2000 svarði lögmaður varnaraðila framangreindu bréfi lögmanns sóknaraðila.  Þar er tekið fram að varnaraðili hefði fengið greiddar bætur að fjárhæð 480.000 kr. hinn 13. október 1995 vegna olíumengunar frá Melaheiði 3 í Kópavogi.  Einnig er tekið fram að varnaraðili kannist ekki við að uppgjör þetta hafi verið háð því skilyrði að hún léti leggja nýjar jarðvatnslagnir við húsið.  Eftir því sem varnaraðila væri kunnugt hefðu bæturnar verið greiddar fyrir skemmdir innanhúss og fyrir afnota- og leigutap.  Leiga að fjárhæð 25.000 hafði tapast í 12 mánuði og viðgerðir á skemmdum innanhúss hefðu kostað tæplega 160.000 kr.

             Á það er bent í bréfinu að bætur að fjárhæð 480.000 kr. hefðu ekki dugað fyrir nýrri jarðvatnslögn ásamt bótum fyrir leigutap og skemmdir innanhúss.  Þá var lögð áhersla á að ekki hafi verið um nein rakavandamál að ræða í kjallara Álfhólsvegar 78 á eignarhaldstíma varnaraðila fyrr en umrædd olíumengun kom fram.  Olíulekinn hafi valdið því að seturdúkur á jarðvatnslögn hafi þést og ekki lengur gegnt hlutverki sínu.  Ný lögn hafi verið lögð þegar varnaraðili keypti húsið 1988 eða 1989 vegna þess að seljandi hússins hafi tjáð henni að raka hefði gætt í kjallaranum.

             Greint er frá því að eftir að bætur voru greiddar 1995 hafi varnaraðili leigt kjallaraíbúðina út frá 1. nóvember það ár.  Leigjandanum hafi verið skýrt frá því sem gerst hefði og hafi varnaraðili talið vissara að leigja honum húsnæðið fyrir 5.000 kr. lægri upphæð á mánuði en áður hafði verið, þ.e. 20.000 kr. á mánuði til að firra sig hugsanlegum vandræðum gagnvart honum ef mengun kæmi fram aftur.  Hafi varnaraðili síðast fengið leigugreiðslu með þessari fjárhæð 1. apríl 1997, því að vorið 1997 hafi vandinn aftur komið fram og leigjandinn orðið að flytja út.  Í framhaldi hafi varnaraðili leitað til lögfræðings er ritað hafi sóknaraðila bréf 3. júlí 1997.  Engin viðbrögð hefðu orðið við því.  Sóknaraðili hafi vísað frá sér allri ábyrgð gagnvart varnaraðila á menguninni á árinu 1997.  Hinn 18. október 1999 hafi mikill vatnselgur verið utan dyra og vatn flætt inn í kjallarann.  Hafi varnaraðili þá hringt í vátryggingafélagið en þar á bæ hafi menn sagt málið óviðkomandi vátryggingafélaginu.  Gólfið hafi þá verið brotið og lögnin tekin upp.  Keypt hafi verið rör í nýja lögn fyrir um 10.000 kr., en hún hafi ekki verið sett niður enn.  Vatnið eigi greiða leið að niðurfalli utan dyra.

             Vísað er til þess að varnaraðili hafi á árinu 1999 fengið fasteignasala til að meta áhrif mengunarinnar á sölumöguleika og verð á fasteigninni.  Hafi hann talið sölu illmögulega og verðlækkun nema 1-1,5 milljónum króna ef hún tækist.

             Í framangreindu bréfi lögmanns varnaraðila til lögmanns sóknaraðila eru síðan gerðar eftirfarandi kröfur á hendur sóknaraðila:

1.             Að umjóðandi yðar gangi tafalaust svo frá, að frekari mengunar gæti ekki að Álfhólsvegi 78, og að jarðvatnslögn, jafngóðri þeirri sem eyðilagðist af völdum olíunnar, verði strax komið fyrir á hans kostnað.

2.             Að umjóðanda mínum verði bætt tap á húsaleigutekjum sem hér segir:

                a.  Kr. 5.000 á mánuði, 1.11.95-1.4.97, 17 mán     kr.        85.000

                b.  Kr. 25.000 á mánuði, 1.5.97-1.5.2000, 36 mán kr.        900.000

3.             Skemmdabætur áætlaðar með hliðsjón af fyrri

                skemmdum og færðar til núverandi verðlags                 kr.        200.000

4.             Lögfræðikostnaður með virðisaukaskatti                       kr.        124.500

 

             Tekið er fram að við þetta bætist vextir skv. 7. gr. vaxtalaga frá gjalddögum þeirra leigugreiðslna, sem varnaraðili hefði notið ef kjallari hússins hefði verið hæfur til útleigu.  Þá er tekið fram í bréfinu að ofangreind bótakrafa sé sett fram miðað við greiðslu 1. maí 2000 og dráttarvaxta muni verða krafist verði hún ekki greidd innan eins mánaðar frá dagsetningu bréfsins.  Komi til málsóknar vegna umræddrar mengunar og afleiðinga hennar sé varnaraðili óbundin af þessari kröfugerð, bæði hvað varðar grundvöll og fjárhæðir.

             Framangreint bréf lögmanns varnaraðila til sóknaraðila var framsent réttargæslu-stefnda, Sjóvá- Almennum tryggingum hf., sem ábyrgðartryggjanda sóknaraðila.  Með bréfi, dags. 19. apríl 2000, svaraði tryggingafélagið bréfi lögmanns varnaraðila.  Í bréfinu er vísað til þess að 13. október 1995 hafi varnaraðila verið greiddar fullnaðarbætur að fjárhæð 480.000 kr. vegna tjóns að Álfhólsvegi 78 vegna olíumengunar frá olíutanki að Melaheiði 3.  Þá segir í bréfinu m.a.:

Samkvæmt bréfi yðar er krafist bóta m.a. fyrir tapaðar leigutekjur á tímabilinu 1. nóvember 1995 til 1. maí 2000 alls að fjárhæð kr. 985.000.-  Samkvæmt ofanrituðu lá fyrir við fullnaðaruppgjör á árinu 1995 að orsakir raka í kjallara Álfhólsvegar 82 (sic.) væri ófullnægjandi jarðvegslögn.  Ófullnægjandi jarðvegslögn sem veldur raka í húseign verður að telja galla á eigninni sem tilheyrir húseiganda að bæta úr svo sem gert var ráð fyrir við bótauppgjör.  Úrbætur voru hins vegar ekki gerðar.  Með hliðsjón af því og öðru því sem að ofan er rakið og jafnframt skyldu tjónþola að takmarka tjóns sitt er kröfu um bætur fyrir tapaða húsaleigu hafnað.  Sömu sjónarmið eiga við varðandi aðra kröfuliði og er því frekari bótagreiðslum til umbj. yðar alfarið hafnað.

 

Af hálfu varnaraðila segir að hún hafi leitað sér lögmannsaðstoðar hjá núverandi lögmanni sínum 14. febrúar 2000, en með áðurgreindu bréfi lögmanns sóknaraðila frá 31. mars 2000 hafi varnaraðila fyrst orðið kunnug sú skoðun sóknaraðila að tjónsuppgjörið á árinu 1995 hafi verið „háð því skilyrði að [varnaraðili] léti leggja nýjar jarðvatnslagnir með gildrum við húsið“.  Með áðurgreindu bréfi lögmanns varnaraðila frá 4. apríl 2000 hafi af hálfu varnaraðila verið settar fram kröfur um tafarlausar ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari olíumengun o.fl., en kröfum þessum hafi, eins og áður sagði, alfarið verið hafnað.

Fundur var haldinn hjá heilbrigðiseftirliti Kópavogs- og Hafnarfjarðarsvæðis hinn 5. apríl 2000 - en farið var á vettvang að Álfhólsvegi 78 í framhaldi af þeim fundi.  Gestur Guðjónsson, umhverfisverkfræðingur hjá Olíudreifingu ehf., sótti fundinn fyrir hönd sóknaraðila.  Var verkfræðingnum falið að gera ráðstafanir til að tryggja niðurbrot olíuefna og koma í veg fyrir skaða af olíumengun að Álfhólsvegi 78.  Gestur lýsir í bréfum til heilbrigðiseftirlitsins 30. maí, 24. júlí og 26. júlí 2000 til hvaða aðgerða verði gripið til að koma í veg fyrir skaða og óþæginda vegna olíumengunarinnar.  Fólust þær m.a. í því að komið skyldi fyrir nýjum drenlögnum innan húss og utan, olíuskiljubrunnur settur við norðurhlið hússins og loftdælubúnaði komið fyrir til að tryggja að olíugufur bærust ekki inn í híbýli.  Rekstur dælubúnaðarins yrði á kostnað sóknaraðila.

Upplýst er að umræddar aðgerðir voru gerðar að Álfhólsvegi 78 á árinu 2000.

Af hálfu varnaraðila er greint frá því að sóknaraðila hafi verið sent bréf 10. maí 2001 þar sem vakin hefði verið athygli á að enn væri eftir að ganga frá nokkrum atriðum til lausnar málsins.  Bréfið hafi ekki borið árangur sem skyldi.  Hafi varnaraðili þingfest í héraðsdómi mál á hendur sóknaraðila 3. desember 2002 til heimtu fjögurra af þeim fimm kröfum sem hún telji sig eiga á hendur þeim vegna umræddrar olíumengunar, en krafa til bóta vegna verðrýrnunar eignarinnar hafi þar ekki verið innifalin.  Afráðið hefði verið að fella málið niður til að unnt væri að koma verðrýrnunarkröfunni einnig að.

Af hálfu sóknaraðila segir hins vegar að eftir að málið hafi verið þingfest 3. desember 2002 og gerð krafa um greiðslu bóta vegna fjögurra af þeim fimm liðum, sem nú er gerð krafa um, hafi verið þingfest framhaldsstefna 20 júní 2003, þar sem gerð hafi verið krafa um bætur vegna fimmta liðarins.  Hinn 22. desember 2003 hafi varnaraðili hins vegar ákveðið að fella málið niður.

Beðið var um dómkvaðningu matsmanna 21. janúar 2004.  Kvaddir voru til tveir löggiltir fasteignasalar sem jafnframt eru héraðsdómslögmenn.  Þeir luku mati sínu 15. nóvember 2004.  Varnaraðili kveðst þó ekki hafa fengið matið í hendur þar sem hana hafi skort fé til að greiða matskostnaðinn, 398.400 kr.  Ríkissjóður hafi að lokum greitt matskostnaðinn og hafi varnaraðili fengið matið í hendur á árinu 2005.

             Undir fyrirsögninni Niðurstaða matsmanna segir í matsgerðinni frá 15. nóvember 2004:

Matsmenn telja fullvíst að mengunin og umbúnaður tengdur henni á framlóð hússins dragi úr verðmæti eignarinnar og kunni í einhverjum tilvikum að draga jafnframt úr sölumöguleikum hennar.  Staðsetning eignarinnar og nýtingarmöguleikar eru góðir og gera hana almenn séð eftirsóknarverða á markaði.  Þrátt fyrir að dregið hefi verið úr mengun með ýmsum aðgerðum er ekki hægt að slá því föstu, að óþægindum af völdum hennar sé lokið, né heldur hvenær áhrif hennar hætti með öllu að gæta.  Matsmenn fallast á þau sjónarmið matsbeiðanda að upplýsa þurfi væntanlega kaupendur um tilvist mengunarinnar ef til sölu eignarinnar kæmi.  Telja matsmenn með hliðsjón af framangreindu að hluti kaupenda kynni að hætta við kaup á eigninni að þessum upplýsingum fengnum, en enn aðrir gerðu kröfu um einhverja verðlækkun vegna þess.  Matsmenn telja hæfilegt aðmeta verðrýrnun eignarinnar með hliðsjón af framangreindu sé kr. 1.400.000,-, skrifa krónur ein milljón og fjögur hundruð þúsund 00/100 og miðast sú fjárhæð við 12. maí 2004 þegar dómkvaðningin fór fram.

 

Varnaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að hún eigi rétt á bótum fyrir afnotamissi af húsnæði sínu, sem hún telur eðlilegt að meta hið sama og leigutap sitt.  Í öðru lagi eigi hún rétt á bótum vegna kostnaðar vegna aðstoðar lögmanns á árinu 2000 og fram til þess að úrbótaráðstafanir vegna mengunar voru gerðar.  Í þriðja lagi eigi hún rétt á bótum vegna þess kostnaðar sem hún hafði af standsetningu húsnæðis síns er kjallari Álfhólsvegar 78 var gerður nýtilegur að nýju eftir áramótin 2000-2001.  Í fjórða lagi eigi hún rétt á miskabótum vegna óþæginda, óþrifa og umstangs og þar með röskunar á stöðu hennar og högum, friði og frelsi.  Í fimmta lagi eigi hún rétt á bótum fyrir verðrýrnun eignarinnar.

             Varnaraðili segir að fjárhæðir vegna þriggja fyrstu liða kröfunnar séu alls að fjárhæð 1.464.625 kr.

             Varnaraðili gerir á eftirfarandi hátt grein fyrir kröfum sínum í stefnu:

1. kröfuþáttur: Meðan kjallaraíbúðin að Álfhólsvegi 78 var hæf til útleigu stóðust leigutekjur nokkurn veginn á við afborganir af húsnæðislánum, og var það stefnanda til verulegs fjárhagslegs léttis.  Kemur sú áherzla, sem stefnandi lagði á að geta leigt út húsnæði sitt, fram af fyrirliggjandi skjölum [4,2. og 3. blað, þó að á 2. blaði skjals 4 sé leigufjárhæð að vísu tilgreind 5.000 kr. lægri en rétt var].  Eins og áður er getið var stefnanda bætt leigutap sitt fram til 1. nóvember 1995 með bótagreiðslu réttargæzlustefnda til hennar 13. október 1995 [12].  Var íbúðin síðan í leigu, fyrst samkvæmt leigusamningi sem hún hefur ekki fundið í fórum sínum, þá skv. leigusamningi frá 1. marz 1996 [14] á kr. 25.000 pr. mán. fram til loka júlí það ár, og síðan samkvæmt öðrum leigusamningi sem hún hefur ekki fundið, er leigjandinn nýtti fram til loka október 1996.  Í nóvember 1996 gerði hún síðan leigusamning við Ingólf nokkurn Pálsson, kt. 130454-5429 [15].  Vegna þess óvissuástands sem stefnandi og Ingólfur töldu ríkja, þrátt fyrir þá ætlan aðalstefnanda að komzt hefði verið fyrir mengunina, var leigufjárhæð ákveðin 5.000 kr. lægri en áður hafði verið talið sanngjarnt.  Síðast greiddi Ingólfur stefnanda leigu fyrir apríl 1997 [16], en þá varð hann að flytja út.  Var kjallaraíbúðin síðan óleigufær frá 1. maí það ár.

Krafa til bóta fyrir afnotamissi hangir að nokkru leyti saman við kröfu stefnanda til bóta vegna standsetningar á kjallaraíbúð sinni.  Vinna við að gera kjallara húss hennar nýtilegan að nýju hófst fljótt eftir áramót 2000-2001, en áður hafði verið brotið úr gólfi.  Sá aðalstefndi um að leggja nýtt flotgólf, en stefnandi fékk mann að nafni Björn Grétar Þorsteinsson, Sunnubraut 5, Akranesi, til að koma veggjum og tréverki í sama lag.  Samdist svo um milli nefnds Björns og stefnanda að dóttir Björns, Harpa Sólveig Björnsdóttir, fengi í stað þeirrar aðstoðar er hann veitti að dveljast án leigugreiðslna að Álfhólsvegi 78 frá febrúar 2001 til maíloka það ár.  Verk Björns tók lengri tíma en ætlað hafði verið, en engu að síður stóð þessi samningur þeirra og var framkvæmdur eins og að var stefnt.  til einföldunar er af þessum sökum gerð krafa til bóta fyrir afnotamissi fram til loka maí 2001, en krafa um greiðslu á standsetningarkostnaði er aftur á móti aðeins gerð fyrir efni og tækjaleigu.

2. kröfuþáttur: Stefnandi hefur vegna fjárskorts ekki greitt kostnað vegna lögmannsaðstoðar á því tímabili sem að ofan greinir.  Hefur reikningur fyrir þeim kostnaði reyndar ekki verið útgefinn, þar sem hæpið er af hálfu virðisaukaskattsskylds þjónustuseljanda að gerast ábyrgur fyrir skilum á virðisaukaskatti af þóknun sem njótandi hennar kveðst ekki geta greitt fyrir.  Fram til þess tíma er kostnaðar þessa var krafizt í bréfi til lögmanns aðalstefnda dags. 4. apríl 2000 [28] var hann fólginn í viðtölum, könnun máls, bréfaskrifum, öflun skjala og skjalavörzlum, og fundi með heilbrigðiseftirliti.  Eftir 4. apríl 2000 bættust við tveir fundir með starfsmönnum aðalstefnda og Olíudreifingar ehf., bréfaskriftir eins og gögn lögð fram við þingfestingu málsins munu sýna, og fundur með starfsmönnum réttargæzlustefnda að Álfhólsvegi 78.  er þá staðið við þá fjárhæð sem tilgreind var í nefndu bréfi [28].

3. kröfuþáttur: Til að koma kjallara Álfhólsvegar 78 í nothæft ástand leigði stefnandi tæki og keypti efni fyrir alls kr. 85.124 [40], og er gerð krafa til greiðslu þess kostnaðar.  Verði krafa um afnotatap lækkuð um fjárhæð sem samsvarar 4. mánaða leigu er gerð krafa um að kostnaður þessi verði bættur með 185.125 kr.

4. kröfuþáttur: Mengunin frá olíugeyminum að Melaheiði 3 var almennt fallin til óþæginda og olli óþægindum, bæði vegna ólyktar, þ.e. lyktar sem ekki er eðlileg í híbýlum og er í ósamræmi við þær lyktir sem gera má ráð fyrir að af og til finnist á heimilum, og einnig ríkti mengunin yfir heimilislífinu og minnti stöðugt á sig í daglegri umgengni stefnanda um híbýli sín.  Mengunin var til tilfinningalegs skaða, þar sem hún olli óþrifa- og sóðaskaparkennd með stefnanda og heimilisfólki hennar, sem eiga það sameignlegt flestum öðrum að kunna slíku illa og líða fyrir það.  Þess má einnig með rökum vænta að Álfhólsvegur 78 hafi meðan mengunarinnar gætti verið lítt aðlaðandi fyrir aðra, gesti og gangandi, og húsráðanda lítt til vegsauka í annarra augum, þótt eigi ætti hún sök á.  Mengunin var til óþrifa, þar sem ekki var farandi um húsið og jafnvel lóð þess án þess að draga olíubrák og olíuörður inn á heimilið.  Mengunin var til umstangs, bæði vegna þess að hún krafðist breytinga á lífsháttum íbúa að Álfhólsvegi 78 og réði öllu atferli þeirra í daglegu lífi, og einnig vegna alls þess sem stefnandi varð að reyna, án árangurs, til að leita sér hjálpar og fá því ástandi aflétt, sem mengunin hafði valdið.  Raskaði mengunin þannig friði stefnanda og frelsi.  Stefndu neituðu stefnanda árum saman um aðstoð eða hjálp til að firra hana þeim alvarlegu vandræðum sem mengunin olli, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hennar um aðstoð og aðgerðir, allt þar til annar hvor þeirra eða báðir neyddust til að hefjast handa um úrbætur vegna valdboða hins opinbera.

Það skiptir einnig miklu um þennan þátt stefnukröfunnar, eins og áður er getið, að stefnandi var bundin við hús sitt um margra ára skeið eftir að mengun þessi kom upp.  Skerti það frelsi hennar til ráðstöfunar eignarinnar og til að ákveða sjálf hvar hún vildi búa.  Hætt er við að hún hefði ekki getað selt eign sína þó að hún hefði reynt það, en það gat hún ekki reynt vegna þess að hefði sala verið möguleg hefði hún orðið að lækka verð eignarinnar miklu meira en hún gat fjárhagslega þolað, og auk þess hefði sú ráðstöfun getað flækt alla möguleika hennar til að sækja bætur fyrir tjón sitt í hendur þess sem ábyrgð bar á menguninni.

Í framhaldsstefnu, dskj. nr. 52, segir að 4. kröfuþáttur (miskabótakrafa) sé 3.000.000 kr.

5. kröfuþáttur:  Hér er um að ræða kröfu til bóta fyrir verðrýrnun samkvæmt mati, og vísast til þess sem áður er getið þar að lútandi.

Í framhaldsstefnu, dskj. nr. 52, segir að 5. kröfuþáttur (verðrýnun á fasteign) sé 1.400.000 kr.

 

Á dómþingi 16. febrúar 2006 var lögð fram greinargerð af hálfu sóknaraðila, Olíuverslunar Íslands hf., og réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf..  Þar var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi.

Í greinargerðinni var talið að málatilbúnaður varnaraðila bryti í bága við meginreglur einkamálaréttarfarsins um skýran og glöggan málatilbúnað.  Vísað var til ákv. e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 í því sambandi.

Á það var bent að kröfufjárhæðinni, 3.464.525 kr., bæri ekki saman við vaxtaútreikninga stefnanda.  Sundurliðun fjárhæðar væri mjög óljós.  Til að mynda væri fjárhæðum vegna 1.-3. kröfuþáttar blandað saman og hvergi kæmi fram í stefnu hvaða fjárhæðar væri krafist vegna 4. kröfuþáttar.  Þá væri dráttarvaxtakrafa stefnanda illskiljanleg, virtist sem samtímis væri krafist vaxta og dráttarvaxta á einstaka liði.  Varðandi annmarka á einstökum kröfuþáttum varnaraðila segir svo:

Í 1. kröfuþætti er gerð krafa um greiðslu bóta fyrir afnotamissi.  Krafan er hins vegar rökstudd með þeim hætti að stefnandi hafi orðið af leigutekjum.  Mótmælir stefndi [sóknaraðili] því að fjárhæð bóta fyrir afnotamissi verði jafnað til þeirra leigutekna af húsnæðinu sem stefnandi [varnaraðili] telur sig hafa mátt vænta.  Í þessu sambandi skal meðal annars bent á að samkvæmt leigusamningum á dskj. 14 og 15 er kostnaður vegna rafmagns og hita innifalinn í leigugjaldi, en í stefnu er ekki tekið neitt tillit til þessa við útreikninginn.  Einnig skal hér bent á að engin gögn hafa verið lögð fram um að stefnandi hafi notið leigutekna af húsnæðinu fyrir 1. mars 1996.  Er þessi kröfuþáttur vanreifaður og ósannaður þar sem fullnægjandi gögn og skýringar skortir.  Í 2. kröfuþætti er gerð krafa um greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar á árinu 2000.  Hefur stefnandi ekki lagt fram reikning fyrir þessum kostnaði og er það raunar ómögulegt samkvæmt því sem fram kemur í stefnu, þar sem reikningur hefur aldrei verið gefinn út og stefnandi því aldrei þurft að greiða fyrir lögmannsaðstoðina.  Í þessu sambandi er rétt að benda á að krafa á hendur stefnanda um þennan kostnað mun vera fyrnd, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Er þessi kröfuþáttur vanreifaður og ósannaður, sbr. framangreint, en þessu til viðbótar er hann rökstuddur með ólíkum hætti í stefnu, sjá hér efst á bls. 7 og neðanmálsgrein 2 á bls. 6.  Í 3. kröfuþætti er gerð krafa um greiðslu á standsetningarkostnaði.  Stefnandi hefur lagt fram reikninga vegna efniskaupa en í stefnu er ekki skýrt til hverra hluta efnið var notað.  Er órökstutt og ósannað að efnið hafi verið notað í framkvæmdir við kjallaraíbúð stefnanda.  Í 4. kröfuþætti er gerð krafa um miskabætur.  Er krafan vanreifuð og órökstudd.  Í stefnu kemur t.a.m. ekki fram hvaða fjárhæðar er krafist vegna þessa kröfuliðar.  Þá hefur stefnandi með engu móti sýnt fram á að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga til greiðslu miskabóta geti verið uppfyllt.  Í 5. kröfuþætti er gerð krafa um bætur fyrir verðrýrnun fasteignarinnar.  Þar er hins vega aðeins vísað til þess sem fram kemur í málavaxtalýsingu án frekari reifunar á kröfunni.

 

Á dómþingi 10. apríl 2006 var málið tekið fyrir og ákveðið að því yrði frestað til flutnings frávísunarkröfu sóknaraðila til 19. maí 2006.  Á dómþingi þann dag lagði varnaraðili fram framhaldsstefnu með vísun til 29. gr. laga nr. 91/1991 og með vísun til þess „að í frumstefnu var gerður áskilnaður um breytingar á kröfugerð fram að málflutningi”.  Í framhaldsstefnunni segir undir fyrirsögninni: Um kröfugerð þessa:

Ofangreindur kröfugerðarkafli er öldungis eins og í frumstefnu, að því einu undanteknu að í stað fjárhæðartilgreiningar „kr. 3.464.625“ stendur hér fjárhæðartilgreiningin „5.864.625“.  Það verður að viðurkennast, að fjárhæðartilgreiningin kr. 3.464.625 í fyrstu málsgrein kröfugerðarkafla á bls. 1 í frumstefnu var þar rituð fyrir mistök, en þar hefði, eins og fram kemur hér að ofan og einnig kom fram síðast í sömu málsgrein frumstefnunnar, átt að standa kr. 5.864.625.  Enn fremur var fjarhæð miskabótakröfu, kr. 3.000.000, ekki tilgreind á bls. 7 í frumstefnu, þar sem fjallað var um 4. kröfuþátt, heldur aðeins með þrephækkun höfuðstólstalna.  Er hér með úr þessu bætt.  Í samantekt eru kröfuþættir stefnanda því eins og hér greinir:

        1. kröfuþáttur (afnotamissir):        kr.        1.255.000

        2. kröfuþáttur (lögmannsaðstoð):           124.500

        3. kröfuþáttur (standsetningarkostnaður):              85.125

        4. kröfuþáttur (miskabótakrafa).         3.000.000

        5. kröfuþáttur (verðrýrnun á fasteign):                       1.400.000

                Alls         kr.        5.864.625.

 

Á dómþingi 7. júní 2006 var af hálfu sóknaraðila og réttargæslustefnda í máli þessu lögð fram greinargerð í tilefni af framhaldsstefnu varnaraðila.  Og enn var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi.

Sóknaraðili byggir á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að höfða framhaldssök í málinu.  Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að auka við fyrri kröfu eða hafa uppi nýja kröfu í máli eftir þingfestingu en fyrir aðalmeðferð þess ef skilyrðum 1. mgr. 27. gr. laganna er fullnægt og það verði ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.

Vísað er til þess að varnaraðila hafi verið í lófa lagið að gera fullnægjandi grein fyrir kröfugerð sinni í frumstefnu.  Einsýnt sé að með framhaldsstefnu sé varnaraðili einungis að bæta úr göllum á málatilbúnaði sínum í frumstefnu.  Engin atvik hafi orðið sem réttlæti þessar breytingar á kröfugerð og verði að meta varnaraðila það til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í frumstefnu.  Bent er á að varnaraðili hafi einnig dregið óþarflega að höfða framhaldssökina, en framhaldsstefnan var birt sóknaraðila 17. maí 2006 rúmum fimm mánuðum eftir að málið var þingfest og rúmum þremur mánuðum eftir að greinargerð stefnda í frumsök var lögð fram.

Þá er áréttað að málatilbúnaður varnaraðila í heild brjóti í bága við meginreglur einkamálaréttarfarsins um skýran og glöggan málatilbúnað eins og nánar sé rökstutt í fyrri greinargerð sóknaraðila.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að málsókn hans sé ekki haldin þeim göllum að varði frávísun málsins.

 

Ályktunarorð:  Varnaraðili höfðaði mál þetta gegn sóknaraðila með stefnu 8. desember 2005 og var málið þingfest 15. sama mánaðar.  Sóknaraðili tók til varna í málinu og lagði fram greinargerð á dómþingi 16. febrúar 2006, þar sem aðallega var krafist að málinu yrði vísað frá dómi.  Á dómþingi 10. apríl 2006 var ákveðið að munnlegur flutningur um frávísunarkröfu sóknaraðila færi fram 19. maí 2006.  Á dómþingi þann dag lagði varnaraðili fram framhaldsstefnu.  Málinu var þá frestað til 7. júní 2006 og lagði sóknaraðili síðari greinargerð sína fram á dómþingi þann dag.

             Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann hafi ekki átt þess kost að gera fullnægjandi grein fyrir kröfugerð sinni í frumstefnu, sbr. skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 um framhaldsstefnu.  Almennur áskilnaður í frumstefnu um breytingar á kröfugerð fram að málflutningi hefur enga þýðingu í þessu sambandi.

             Þá er fallist á með sóknaraðila að stefnan, sem varnaraðili lagði fram við þingfestingu málsins, uppfylli ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er lúta að reifun máls.

             Samkvæmt framangreindu verður málinu vísað frá dómi.

             Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fer eins og í úrskurðarorði greinir.

             Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

             Máli þessu er vísað frá dómi.

             Málskostnaður fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, Guðrúnar Margétar Sveinsdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns varnaraðila, Lúðvíks Emil Kaaber hdl., 124.500 krónur.