Hæstiréttur íslands
Mál nr. 53/2016
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Sjúklingatrygging
- Fyrning
- Lögjöfnun
- Skipting sakarefnis
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2016. Hún krefst þess að viðurkennt verði að krafa sín á hendur stefnda um greiðslu að fjárhæð 10.834.174 krónur með 4,5% ársvöxtum frá [...] janúar 1996 til 18. desember 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, hafi ekki verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt, og að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi fæddist áfrýjandi á fæðingardeild Landspítala [...] janúar 1996 eftir tæplega 38 vikna meðgöngu og er ágreiningslaust að svokölluð axlarklemma kom upp við fæðinguna. Í skýrslu læknis sem dagsett er [...] sama mánaðar var fæðingunni lýst og meðal annars sagt að áfrýjandi væri „slöpp í hægri handlegg, það eru engin merki um clavicular fracturu, en hún er með handlegginn slappan, inroteraðan, flectio í úlnlið, þannig að þetta virðist vera Klumpke´s typu af brachial plexus paralysu.“ Hún myndi „útskrifast á sængurkvennagang til móður sinnar og höfum við samband við sjúkraþjálfara til að skoða hana og byrja æfingar í sambandi við handlegginn strax og mun sjúkraþjálfari fylgja henni eftir, eftir að hún útskrifast heim og það þarf að sjálfsögðu að gefa henni tíma í göngudeild í framtíðinni, en það verður gert, þegar hún útskrifast af sængurkvennagangi af þeim lækni sem þar er.“
Ári eftir fæðingu áfrýjanda, [...] janúar 1997, sendi móðir hennar tilkynningu „um meintan tryggingaratburð vegna sjúklingatryggingar“ til Tryggingastofnunar ríkisins. Þar kom fram að um erfiða fæðingu hefði verið að ræða, barnið staðið fast á öxlum og notuð hefði verið sogklukka til að ná því út. Þá sagði í tilkynningunni að áfrýjandi hefði orðið fyrir „taugaskaða á hægri handlegg vegna axlarklemmu í fæðingu. Handleggur var alveg lamaður fyrstu mánuðina og hefur barnið verið í stöðugri sjúkraþjálfun frá því hún var 10 daga gömul og er enn í sjúkraþjálfun.“ Rúmum fimmtán árum síðar, 15. febrúar 2012, tóku Sjúkratryggingar Íslands ákvörðun um bætur til handa áfrýjanda úr sjúklingatryggingu, en stofnunin tók 1. október 2008 við verkefnum Tryggingastofnunar ríkisins hvað sjúklingatryggingu varðar. Í ákvörðuninni sagði að áfrýjandi hefði verið með „lamaðan hægri handlegg eftir fæðinguna og kom í ljós að hún hafði hlotið skaða á armflækju hægra megin við fæðinguna ... Sá skaði verður rakinn til axlarklemmu í fæðingu og þeirra viðbragða sem gripið var til vegna hennar ... Afleiðing þessa er lömun í vöðvum axlargrindar, axlarliðar og í vöðvum handleggs að hluta, sérstaklega vöðvum upphandleggs ... Ekkert hefur komið fram sem bent getur til þess að aðrir áverkar eða aðrar skýringar en þær sem hér hafa verið settar fram eigi nokkurn þátt í ástandinu eins og það er í dag. Einkenni ... eru ekki líkleg til að breytast neitt að ráði hér eftir og líta SÍ á þau sem varanleg og telja tímabært að meta afleiðingar sjúklingatryggingaratburðar.“ Niðurstaða ákvörðunarinnar var að varanleg læknisfræðileg örorka áfrýjanda væri 40%. Í samræmi við þá niðurstöðu voru áfrýjanda 16. febrúar 2012 greiddar 5.756.750 krónur í bætur úr sjúklingatryggingu.
Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda kröfðust foreldrar hennar þess ítrekað að Tryggingastofnun ríkisins og síðar Sjúkratryggingar Íslands mætu líkamstjón hennar en þeim hafi jafnan verið sagt að málið væri í skoðun, verið væri að safna gögnum og athuga þau, ekki væri ljóst hvert tjónið væri og því væri mat á líkamstjóni áfrýjanda ekki tímabært. Lýsingu áfrýjanda á málsatvikum að þessu leyti var ekki andmælt af hálfu stefnda við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti og kvaðst lögmaður stefnda þar aðspurður ekki geta upplýst af hverju meðferð máls hennar hjá Tryggingastofnun ríkisins og síðar Sjúkratryggingum Íslands hefði dregist svo sem raun ber vitni.
Í hinum áfrýjaða dómi er getið samskipta áfrýjanda og embættis landlæknis á árinu 2013. Þar kemur einnig fram að 30. september 2014 sendi áfrýjandi beiðni til nafngreinds lögfræðings og læknis um mat samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á þeim áverkum sem áfrýjandi varð fyrir í fæðingu. Niðurstaða þeirra í örorkumati, sem dagsett var 1. desember 2014, var sú að varanlegur miski áfrýjanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga væri 40 stig, varanleg örorka hennar samkvæmt 5. gr. laganna væri 30% og heilsufar áfrýjanda hefði orðið stöðugt [...] janúar 2013. Mál þetta höfðaði áfrýjandi síðan á hendur stefnda 11. desember 2014 og krafðist greiðslu þeirrar fjárhæðar sem áður greinir. Undir rekstri málsins var sakarefninu skipt og ákveðið að taka í fyrstu eingöngu afstöðu til varna stefnda á grundvelli fyrningar. Er sá ágreiningur einn til úrlausnar í þessum þætti málsins.
II
Samkvæmt gögnum málsins lá ljóst fyrir þegar eftir fæðingu áfrýjanda að hún hafði hlotið verulegt líkamstjón vegna axlarklemmu sem upp kom við fæðinguna. Við þær aðstæður áttu lögráðamenn áfrýjanda tveggja kosta völ vildu þeir fyrir hennar hönd leita réttar af því tilefni. Þeir gátu annars vegar höfðað mál til heimtu skaðabóta samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar á hendur þeim sem þeir töldu bera saknæma ábyrgð á líkamstjóninu og hins vegar beint bótakröfu í farveg samkvæmt þágildandi f. lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, svo sem gert var, en nú gilda í þeim efnum ákvæði laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Sá er meðal annars munur þessara tveggja kosta að bótaréttur úr sjúklingatryggingu er ekki háður því að unnt sé að sýna fram á bótaábyrgð tiltekins læknis eða annars starfsmanns en bætur úr tryggingunni sæta á hinn bóginn takmörkunum lögum samkvæmt hvað fjárhæð varðar.
Samkvæmt 7. gr. laga nr. 111/2000 verður skaðabótakrafa ekki gerð á hendur neinum sem bótaskyldur er samkvæmt reglum skaðabótaréttar nema tjón hafi ekki fengist að fullu bætt samkvæmt 5. gr. laganna og þá einungis um það sem á vantar. Í lögskýringargögnum kemur fram að sjúklingar eða aðstandendur þeirra geta krafist bóta fyrir það tjón sem er utan gildissviðs sjúklingatryggingar, en í máli þessu sækir áfrýjandi stefnda um þá fjárhæð, sem hún telur á vanta að tjón hennar hafi fengist að fullu bætt úr sjúklingatryggingunni. Áfrýjandi er sem fyrr segir fædd [...] janúar 1996 og varð fyrir líkamstjóni því sem um ræðir í málinu við fæðingu. Gilda því um fyrningu þeirrar kröfu, sem hún kann að eiga á hendur stefnda samkvæmt reglum skaðabótaréttar, ákvæði laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrnist slík krafa á 10 árum og telst fyrningarfrestur hennar frá fæðingardegi áfrýjanda, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.
Með setningu f. liðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993 og síðar laga nr. 111/2000 var af hálfu þess handhafa ríkisvaldsins, sem með löggjafarvaldið fer, stefnt að því að veita sjúklingum sem verða fyrir áföllum í tengslum við læknismeðferð víðtækari bótarétt en þeir eiga samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og gera þeim jafnframt auðveldara að ná fram rétti sínum. Með hliðsjón af því og þar sem úrlausn um rétt áfrýjanda til sjúklingatryggingar bar á stjórnsýslustigi undir Tryggingastofnun ríkisins og síðar Sjúkratryggingar Íslands verður með lögjöfnun frá 1. og 11. gr. laga nr. 14/1905, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 12/1956, sem birtur er í dómasafni réttarins 1957 á blaðsíðu 482, fallist á með áfrýjanda að fyrning á þeirri fjárkröfu sem hún hefur uppi í málinu gagnvart stefnda hafi verið rofin með tilkynningu móður hennar til Tryggingastofnunar ríkisins [...] janúar 1997. Af þeirri niðurstöðu leiðir að nýr fyrningarfrestur kröfunnar gat ekki byrjað að líða fyrr en ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands lá fyrir en það var sem fyrr segir ekki fyrr en 15. febrúar 2012. Samkvæmt þessu var krafa sú er áfrýjandi kann að eiga á hendur stefnda ekki fallin niður fyrir fyrningu þegar mál þetta var höfðað 11. desember 2014. Verður viðurkenningarkrafa áfrýjanda því tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknakostnað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að krafa sú, sem áfrýjandi, A, kann að eiga á hendur stefnda, íslenska ríkinu, um skaðabætur vegna ætlaðra mistaka heilbrigðisstarfsmanna við fæðingu hennar, var ekki fallin niður fyrir fyrningu þegar mál þetta var höfðað 11. desember 2014.
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um málskostnað og gjafsóknarkostnað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október
Mál þetta, sem var dómtekið 21. október 2015, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, [...], [...] á hendur íslenska ríkinu, með stefnu birtri 11. desember 2014.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda 10.834.174 krónur með 4,5% ársvöxtum frá [...] janúar 1996, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 18. desember 2014, þingfestingardegi, til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Til vara er þess krafist að stefnukrafa verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi óskaði eftir því í greinargerð sinni, sem lögð var fram 28. apríl sl., að sakarefni málsins yrði skipt þannig að fyrst yrði leyst úr þeirri málsástæðu stefnda, að krafa stefnanda sé fyrnd. Stefnandi mótmælti því hinn 15. júní sl. og var þá ákveðið að gefa lögmönnum kost á því að flytja málið um þennan ágreining. Áður en til þess kom samþykkti stefnandi skiptingu sakarefnisins. Verður því í dómi þessum einungis fjallað um þá málsástæðu stefnda, að krafa stefnanda sé fyrnd.
Í þessum þætti málsins krefst stefnandi viðurkenningar á því að dómkrafa hans sé ekki fyrnd. Þá er krafist málskostnaðar svo sem greinir í stefnu.
Stefndi krefst sýknu af dómkröfu stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Stefnandi fæddist [...] janúar 1996 eftir tæplega 38 vikna meðgöngu. Ágreiningslaust er að axlarklemma kom upp við fæðingu stefnanda.
Sjúkratryggingar Íslands féllst á bótaskyldu og með ákvörðun stofnunarinnar frá 15. febrúar 2012 var talið að afleiðingar umrædds sjúkratryggingaratburðar bæri að meta þannig að varanleg læknisfræðileg örorka væri 40%.
Hinn 23. janúar 2013 var lögð fram kvörtun til Landlæknis þar sem farið var fram á að Landlæknisembættið rannsakaði fæðingu stefnanda með það fyrir augum að upplýsa hvort vanræksla, mistök eða ótilhlýðileg framkoma heilbrigðisstarfsmanna hefði átt sér stað við atburðinn.
Hinn 7. febrúar 2013 var kröfu stefnanda um málsmeðferð og álit landlæknis hafnað. Segir í niðurstöðu landlæknis að bera skuli kvörtun fram við landlækni án ástæðulauss dráttar, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Meira en tíu ár séu liðin frá því að þau atvik gerðust sem séu tilefni kvörtunar og sé landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar aðstæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar. Stefnandi hafi fæðst rúmum 17 árum áður en kvörtunin barst embættinu og þar af leiðandi verði kvörtun hennar ekki tekin til meðferðar.
Hinn 30. september 2014 sendi stefnandi matsbeiðni til B lögfræðings og C læknis. Mat þeirra lá fyrir 1. desember 2014. Niðurstaðan var sú að stefnandi hafi 40 stiga miska og 30% varanlega örorku sem og að stöðugleikapunktur hafi verið [...] janúar 2013.
Stefnandi höfðar síðan mál þetta með stefnu birtri 11. desember 2014.
II
Helstu málsástæður stefnanda er lúta að fyrningu málsins séu þær að stefnandi telur að fyrningarfrestur byrji ekki að líða fyrr en tjónþoli geti sett fram kröfu sína. Krafan hafi því ekki stofnast fyrr en umfang tjóns varð tjónþola ljóst. Stefnandi vísar til almennra reglna um fyrningu samkvæmt kröfurétti og telur að slík túlkun sé í samræmi við 1. mgr. 2. gr. núgildandi laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Stefnandi telur að upphaf fyrningarfrests eigi að miða við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá febrúar 2012 eða við metinn stöðugleikapunkt í janúar 2013, sbr. sérfræðimat B og C.
Þá vísar stefnandi einnig til 9. gr. sömu laga og bendir á að í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 hafi verið lagt til það nýmæli að skaðabótakröfur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur er fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Krafan fyrnist þó í síðasta lagi tuttugu árum eftir að tjónsatburði lauk, þó með tilteknum undantekningum.
Stefnandi byggir á því að mat sérfræðimatsmanna hljóði upp á að stöðugleikapunktur á áverkum stefnanda sé ekki fyrr en í janúar 2013 en þá fyrst hafi verið ljóst hve mikinn skaða stefnandi myndi bera af viðkomandi atburði. Sé það í samræmi við mat lækna Sjúkratrygginga Íslands sem hafa ávallt neitað að meta ástand stefnanda fyrr en á árinu 2012. Ljóst sé að engin leið sé að meta áverka ungra barna eða endanlega stöðu þeirra meðan óljóst sé hvaða áhrif meiðsl þeirra muni hafa á líf þeirra.
Því geti krafa stefnanda ekki verið fyrnd enda hafi hún og foreldrar hennar haldið rétti sínum til haga frá því að nauðsynlegar upplýsingar um tjónið fengust og frá því að stefnandi átti fyrst kost á að setja fram kröfu um efndir. Hafi það gerst eftir gildistöku laganna.
Stefnandi byggir einnig á meginreglu kröfuréttar um upphaf fyrningarfrests, sbr. ákvæði 1. ml. 5. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Þá sé byggt á því að í líkamstjónum sé upphaf fyrningarfrests sá tími þegar kröfueiganda verður fyrst ljóst hver krafa hans er og á þess fyrst kost að leita fullnustu kröfunnar, sbr. og meginrök fyrrnefndrar 5. gr. fyrningarlaga.
Þá byggir stefnandi á því að afstaða og meðhöndlun Sjúkratrygginga Íslands, sem sé sjálfstæð stofnun sem heyri undir velferðaráðuneytið, geri það að verkum að krafan sé ófyrnd. Afstaða Sjúkratrygginga sé skýr hvað varðar fyrningu en embættið taldi ekki hæft að meta stefnanda fyrr en árið 2012 og greiddi þá kröfu hennar á grundvelli laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008.
Um lagarök er vísað til fyrningarlaga nr. 14/1905 sem og gildandi fyrningarlaga.
III
Stefndi byggir á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Vísað sé til 4. gr. laga nr. 14/1905 en skaðabótakröfur samkvæmt þeim lögum fyrnast á 10 árum. Stefndi byggir á því að fyrningarfrestur teljist frá fæðingardegi stefnanda. Stefndi mótmælir því að lög nr. 150/2007 eigi við um tilvik stefnanda og vísar m.a. í því sambandi til 28. gr. laganna. Verði nýju lögin talin eiga við sé einnig byggt á því að krafan sé fyrnd. Stefndi hafnar sjónarmiðum stefnanda m.a. um 9. gr. laga nr. 150/2007. Stefndi byggir á því að stöðugleikatímapunktur samkvæmt mati B og C eða ákvörðun Sjúkratrygginga breyti engu hér um. Stefndi mótmælir því að 5. gr. laga nr. 14/1905 styðji þá skoðun stefnanda að krafan sé ófyrnd.
Þá mótmælir stefndi því að afstaða og meðhöndlun Sjúkratrygginga Íslands, m.a. greiðsla sem getið sé um í stefnu, geri það að verkum að krafan sé ófyrnd. Fráleitt sé að afstaða sjálfstæðrar stofnunar eins og Sjúkratryggingar Íslands geti haft áhrif á kröfu stefnanda á hendur íslenska ríkinu í þessu máli. Hér var ekki um að ræða viðurkenningu á kröfu stefnanda í þessu máli. Með afstöðu sinni og greiðslum bóta úr hendi Sjúkratrygginga Íslands var ekki rofin fyrning að neinu leyti.
IV
Á þessu stigi málsins lýtur ágreiningurinn einungis að því hvort krafa stefnanda sé fyrnd eða ekki. Stefnandi heldur því fram að miða eigi upphafstíma fyrningar við þann tíma er umfang tjóns stefnanda sé ljóst, þ.e. þegar stefnandi getur sett fram bótakröfu sína. Stefnandi telur aðallega að miða eigi við [...] janúar 2013, þ.e. stöðugleikapunktinn samkvæmt framlagðri matsgerð, eða 15. febrúar 2012, það er þegar ákvörðun Sjúkratrygginga lá fyrir. Stefndi heldur því hins vegar fram að upphaf fyrningarfrests eigi að miða við fæðingu stefnanda en þá hafi hinn ætlaði bótaskyldi atburður átt sér stað.
Stefnandi fæddist [...] janúar 1996 og voru þá í gildi lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Í 2. mgr. 4. gr. þeirra laga segir að aðrar kröfur en þær sem sérstaklega eru tilgreindar í öðrum ákvæðum laganna, þ.e. 2. og 3. gr., fyrnist á 10 árum. Því er fyrningartími skaðabótakröfu 10 ár. Upphaf fyrningarfrestsins miðast við það tímamark þegar tjón verður, hér er það við fæðingu stefnanda. Ekki er fallist á þá málsástæðu stefnanda að miða eigi við tímamark þegar unnt er að meta umfang tjónsins eða meginrök 5. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 eins og stefnandi tiltekur í stefnu sinni. Forráðamönnum stefnanda mátti vera ljóst strax við fæðingu að axlarklemma varð við fæðinguna. Unnt hefði verið að hefjast handa fyrr, til dæmis með því að krefjast viðurkenningar á bótaskyldu vegna atburðarins samanber 25. gr. laga um meðferð einkamála. Ekkert var aðhafst í málinu gagnvart stefnda, íslenska ríkinu, fyrr en stefnandi var tæpra 18 ára, þá er málið þetta var höfðað.
Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda tóku þau lög gildi 1. janúar 2008 og gilda einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna. Tjóir því ekki fyrir stefnanda að byggja á þeim lögum í málinu.
Þá er ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að krafan teljist ófyrnd þar sem Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt stefnanda bætur. Það er hvorki á forræði þeirrar stofnunar að falla frá málsástæðum um fyrningu þegar íslenska ríkinu er stefnt til greiðslu skaðabóta né rýfur greiðsla frá stofnuninni fyrningarfrestinn.
Með vísan til þess sem að framan greinir er skaðabótakrafa stefnanda á hendur íslenska ríkinu fyrnd og ber því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn samanber gjafsóknarleyfi dags.15. ágúst 2014. Allur kostnaður málsins greiðist því úr ríkissjóði. Þegar mál þetta er virt í heild sinni þykir þóknun lögmanns stefnanda hæfilega ákveðin svo sem greinir í dómsorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl. 500.000 krónur.