Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Gerðardómur
- Aðild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 18. desember 2000. |
|
Nr. 447/2000. |
Sigrún Guðmundsdóttir (Guðmundur Skaftason hrl.) gegn íslenska ríkinu (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Gerðardómur. Aðild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Deilt var um það, hvort og hvernig gerðardómi samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna yrði komið á fót. Þótt ýmis meginsjónarmið laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma gætu átt við um lögbundna gerðardóma var ekki talið að þau lög yrðu lögð til grundvallar við meðferð máls um þessa deilu. Yrði um hana að dæma í almennu einkamáli. Af þessu leiddi þegar að kæruheimild 2. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1989 átti ekki við og var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. desember 2000. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2000, þar sem hafnað er að svo stöddu kröfu sóknaraðila um að oddamaður verði skipaður í gerðardóm samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 5. gr. in fine laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Hún krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að tilnefna oddamann í gerðardóm samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986, sem kveði á um launakjör hennar frá 1. janúar 1998, að því er taki til mánaðarlauna, álags á þau og allra þeirra launaþátta, sem dómar Kjaradóms taka til, svo og hlunninda. Þá er þess krafist að kærumálskostnaður verði felldur niður.
Varnaraðili krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að úrskurður héraðsdóms verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi, en verði ekki á þá kröfu fallist er þess krafist að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Kröfu sína um tilnefningu oddamanns í gerðardóm reisir sóknaraðili á ákvæði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986. Þar segir að náist ekki samningar um kjör þeirra starfsmanna, sem tilgreindir séu í 2.-4. og 6.-8. töluliðum 19. gr. laganna og falla undir lögin, eigi stéttarfélag rétt á að þriggja manna gerðardómur taki deiluna til úrlausnar. Takist ekki samkomulag um oddamann tilnefni viðkomandi sýslumaður eða bæjarfógeti, í Reykjavík yfirborgardómarinn, hann en málsaðilar einn dómara hvor. Í tilvitnaðri 19. gr. laganna eru taldir upp þeir opinberir starfsmenn, sem hafa ekki heimild til verkfalls skv. 14. gr. laganna og fellur sóknaraðili undir 4. tölulið 19. gr. Í 1. mgr. 22. gr. segir að um laun og önnur kjör þeirra manna, sem um ræðir í 19. gr., skuli samið af samninganefnd þess stéttarfélags, er þeir tilheyra. Fyrir liggur í málinu að á árinu 1988 sagði sóknaraðili sig úr stéttarfélagi sínu og var það talið heppilegt af yfirboðara hennar vegna eðlis þess starfs, er hún gegnir.
Varnaraðili telur ekki lagaskilyrði fyrir hendi til stofnunar gerðardóms samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986. Hann viðurkennir ekki rétt sóknaraðila til að eiga aðild að slíkum gerðardómi þar sem í lagaákvæðinu segi að stéttarfélag skuli eiga þar aðild. Hefur hann neitað að tilnefna mann í dóminn af sinni hálfu.
Samkvæmt framansögðu deila aðilar máls þessa um það, hvort og hvernig gerðardómi samkvæmt áðurgreindu ákvæði laga nr. 94/1986 verði komið á fót. Þótt ýmis meginsjónarmið laga nr. 53/1989 geti átt við um lögbundna gerðardóma þykja þau lög ekki verða lögð til grundvallar við meðferð máls um þessa deilu. Verður um hana að dæma í almennu einkamáli. Af þessu leiðir þegar að kæruheimild 2. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1989 á hér ekki við og verður því að vísa málinu frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2000.
I
Mál þetta var tekið til úrskurðar 17. þ.m.
Krafa sóknaraðila, Sigrúnar Guðmundsdóttur, er sú að kveðinn verði upp úrskurður um að Héraðsdómur Reykjavíkur skuli skipa oddamann í gerðardóm, sem ákveði launakjör hennar frá 1. janúar 1998 að því er taki til mánaðarlauna, álags á þau og allra þeirra launaþátta sem dómar Kjaradóms taka til svo og hlunninda, ásamt málskostnaði.
Krafa varnaraðila, fjármálaráðuneytisins, er sú aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað. Í báðum tilvikum verði málskostnaður felldur niður.
II
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 17. október sl., óskaði Guðmundur Skaftason hrl. eftir því f.h. Sigrúnar Guðmundssonar að tilnefndur yrði oddamaður í þriggja manna gerðardóm til að ákveða launakjör Sigrúnar með þeim hætti sem fram kemur í framangreindri kröfugerð hennar
Í bréfi þessu óskaði sóknaraðili enn fremur eftir því að ákvörðun yrði tekin um aðild Sigrúnar að gerðardóminum og að tilnefndur yrði oddamaður gengi ákvörðunin á þann veg.
Varnaraðili mótmælti þessum beiðnum í bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 19. október sl., á þeim forsendum að ágreiningur um laun Sigrúnar verði ekki borinn undir gerðardóm samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986.
Með bréfi dags. 26. október sl. hafnaði dómstjórinn í Reykjavík beiðnum sóknaraðila. Segir m.a. í því bréfi.
„Venjulega fer tilnefning oddamanns ekki fram fyrr en aðilar hafa tilnefnt gerðardómsmenn af sinni hálfu. Til þess að tilnefning geti farið fram verður grundvöllur gerðardómsmeðferðarinnar að vera skýr, s.s. gerðardómssamningur eða lagaheimild.
Eins og að framan greinir er uppi deila um það hvort lagaheimild til gerðardómsmeðferðar sé fyrir hendi í því tilviki sem hér um ræðir. Svo lengi sem ekki hefur verið skorið úr þeirri deilu verður að hafna beiðni yðar um tilnefningu oddamanns í gerðardóm.
Ekki þykir unnt að taka afstöðu til framangreindrar deilu á grundvelli beiðni yðar eins og hún er sett fram. Verður væntanlega að leggja deilumálið fyrir dómstóla eftir réttarfarslögum til að fá úr því skorið.”
Krafa sú sem er til úrskurðar í þessu máli er einvörðungu um það hvort oddamaður skuli skipaður í gerðardóm, en ekki um aðild sóknaraðila að gerðardómi. Þegar krafa sóknaraðila um úrskurð hafði borist Héraðsdómi Reykjavíkur voru aðilar boðaðir til þinghalds með bréfi dags. 7. þ.m. Í því bréfi segir m.a.:
„Ég tel að samkvæmt almennum reglum og eins með hliðsjón af efni reglna laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðadóma, sbr. 4. og 5. gr. laganna, geti beiðandi gert kröfu til þess að kveðinn verði upp úrskurður um álitaefni af þessu tagi.”
Er hér að finna forsendur þess að mál þetta var tekið meðferðar og úrskurðar að henni lokinni.
Varnaraðili mótmælti því í bréfi dags. 7. nóvember að úrskurður gengi að kröfu sóknaraðila.
Varnaraðila var gefinn kostur á því að skila greinargerð sem hann gerði í þinghaldi 14. nóvember og var þá málinu frestað til munnlegs flutnings sem fram fór 17. nóvember og í því þinghaldi var málið tekið til úrskurðar eins og fyrr segir.
Sóknaraðili er lögmaður hjá embætti ríkislögmanns, er ekki í stéttarfélagi og án verkfallsréttar. Segir sóknaraðili ástæðu þess að hún er ekki í stéttarfélagi vera tilmæli fjármálaráðherra þar um á sínum tíma, en með bréfi dags. 21. nóvember 1988 gekk sóknaraðili úr Stéttarfélagi lögfræðinga í ríkisþjónustu. Í bréfi fjármálaráðuneytisins til ríkislögmanns dags. 12. október sl. tekur ráðuneytið fram að það geri ekki áskilnað um að sóknaraðili standi utan stéttarfélaga. Í bréfi fjármálaráðuneytisins til ríkislögmanns dags. 28. janúar 1998 segir að ráðuneytið falli frá fyrri tilmælum um að sóknaraðili standi utan stéttarfélaga. Bréf þetta hefur ekki verið lagt fram í málinu en til þess er vitnað í sóknarskjölum. Bréf þetta segist sóknaraðili fyrst hafa séð 13. október sl.
Um laun sóknaraðila nú fer samkvæmt ákvörðun ríkislögmanns frá 22. mars 1999 sem mun hafa verið samþykkt af fjármálaráðuneytinu. Sóknaraðili mun hafa fallist á þessa ákvörðun að geymdum rétti eins og fram kemur í bréfi hennar til fjármálaráðuneytisins dags. 24. mars 1999.
Sóknaraðili vill ekki una launakjörum sínum. Með bréfi til fjármálaráðuneytisins dags. 12. október sl. lagði hún til við fjármálaráðuneytið að samið yrði um að gerðardómur, sérstaklega þar til skipaður, skæri úr ágreiningi um launakjörin. Því var hafnað af fjármálaráðuneytinu.
Sóknaraðili heldur því fram að hún eigi rétt á því að gerðardómur samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986 skeri úr ágreiningnum. Röksemdir hennar fyrir því eru aðallega að hún standi utan stéttarfélaga og verði ekki skylduð til aðildar að stéttarfélagi. Hún hafi ekki verkfallsrétt, sbr. 4. tl. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986. Sóknaraðili fari því sjálf með launamál sín gagnvart fjármálaráðuneytinu og eignist því aðild að lögbundnum gerðardómi skv. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986 í stað stéttarfélags. Hún hafi andmælarétt gagnvart fjármálaráðuneytinu um launamál sín samkvæmt stjórnsýslulögum og það sé almennt mannréttindaatriði að hafa rétt til þess að bera mál sín undir óháðan aðila eða dómstól.
Í sóknarskjölum kemur og fram að þar sem laun sóknaraðila hafi verið ákveðin með stjórnsýsluathöfn sem dómstólar geti endurskoðað eigi sóknaraðili einnig rétt á því samkvæmt almennum reglum að tilnefndur sé oddamaður í gerðardóm.
Fjármálaráðuneytið heldur því fram að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að krefjast þess að úrskurður verði kveðinn upp um það að oddamaður verði skipaður í gerðardóm að kröfu sóknaraðila. Verður að skilja málatilbúnað ráðuneytisins svo að þessi málsástæða sé röksemd fyrir því að vísa eigi kröfunni frá dómi. Fyrr í úrskurðinum er tekin afstaða til þessa álitaefnis á þann veg að þessi réttur er talinn vera fyrir hendi og samkvæmt því er frávísunarkröfunni hafnað.
Fjármálaráðuneytið heldur því fram að þótt sóknaraðili standi utan stéttarfélaga skapi það henni ekki rétt til þess að semja beint við fjármálaráðherra um kaup sitt og kjör. Um þau eigi að fara eftir kjarasamningi þess stéttarfélags sem sóknaraðili ætti að tilheyra samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986. Lögin geri ekki ráð fyrir því að ráðherra semji við hvern og einn starfsmann þótt hann standi utan stéttarfélaga og breyti þar engu um þótt starfsmaðurinn hafi ekki verkfallsrétt. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986 séu það einungis stéttarfélög sem geti átt aðild að þeim gerðardómi sem þar sé kveðið á um og því geti sóknaraðili ekki átt aðild að gerðardómsmáli fyrir honum.
Sóknaraðili taki laun samkvæmt ákveðnum kjarasamningi sem sé í gildi og þannig hafi náðst samkomulag um kaup og kjör sóknaraðila. Það sé skilyrði þess að ákvæði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986 verði virkt að ekki hafi náðst samningar og það skilyrði sé hér ekki uppfyllt.
III
Milli aðila þessa máls er uppi ágreiningur um það hvort sóknaraðili á rétt á því að lögum að sækja mál á hendur fjármálaráðuneytinu um launakjör sín fyrir þeim lögbundna gerðardómi sem kveðið er á um í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986. Sú deila er ekki til úrskurðar í þessu máli enda vafasamt að aðrir en almennir dómstólar séu bærir til þess að útkljá hana. Meðan þessi deila er ekki til lykta leidd og þannig óútkljáð hvort sóknaraðila er gerðardómsleið þessi heimil þykja ekki lagaskilyrði til þess að skipa oddamann í gerðardóm að kröfu sóknaraðila og verður því að hafna kröfunni að svo stöddu.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð þessa máls.
Úrskurð þennan kvað upp Friðgeir Björnsson dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Hafnað er að svo stöddu kröfu sóknaraðila um að oddamaður verði skipaður í gerðardóm samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 94/1986.
Málskostnaður fellur niður.