Hæstiréttur íslands
Mál nr. 77/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá héraðsdómi
|
Nr. 77/1999. |
Lánasýsla ríkisins (Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Odda hf. (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Frávísun frá héraðsdómi.
L kærði héraðsdóm þar sem O var sýknaður að svo stöddu af einni kröfu hans, en annarri kröfu hans var vísað frá dómi. Talið var að L væri heimilt að kæra þá úrlausn héraðsdómara að vísa kröfu hans frá héraðsdómi, en að öðru leyti skorti heimild til að kæra dóminn. L þótti ekki hafa stutt síðargreinda kröfu sína viðhlítandi málsástæðum og lagarökum. Þótti hún svo vanreifuð að staðfesta bæri niðurstöðu héraðsdóms um að vísa henni frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 1999, þar sem sýknað var að svo stöddu af kröfu um viðurkenningu á veðrétti auk þess, sem vísað var frá kröfu sóknaraðila um að kveðinn yrði upp “aðfararhæfur dómur til þess að unnt verði að leita fullnustu í” fiskverkunarstöð varnaraðila á Patreksfirði samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 12. nóvember 1982. Sóknaraðili styður kæru við c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að hinum kærða dómi verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að leggja efnisdóm á málið. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Í athugasemdum, sem héraðsdómari sendi Hæstarétti með kærunni, segir að missagt sé í dómi að málið hafi verið dómtekið 2. desember 1998. Hið rétta sé að málið hafi verið flutt þann dag, en síðan endurflutt og dómtekið 10. febrúar 1999, eins og endurrit úr þingbók beri með sér.
I.
Eins og greinir í hinum kærða dómi hefur sóknaraðili höfðað mál þetta á grundvelli tryggingarbréfs 12. nóvember 1982, þar sem fasteign varnaraðila var sett Ríkisábyrgðasjóði að veði vegna útgáfu Patreks hf. á skuldabréfi til Byggðasjóðs 10. nóvember 1982. Í hinum kærða dómi var varnaraðili sýknaður að svo stöddu af kröfu sóknaraðila um að sá fyrrnefndi „verði dæmdur til þess að þola viðurkenningu á 1. veðrétti í fiskverkunarstöð Odda hf., Patreksfirði, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 12. nóvember 1982 af Patreki hf. og árituðu um samþykki til veðsetningar fiskverkunarstöðvarinnar af Odda hf. og þinglýstu þann 29. nóvember 1982 að fjárhæð DEM 275.801,00 auk vaxta og kostnaðar.“ Þá var í sama dómi sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi kröfu um „að kveðinn verði upp aðfararhæfur dómur til þess að unnt verði að leita fullnustu í veðinu til greiðslu krafna stefnanda sem tryggðar eru með ofangreindu tryggingarbréfi að fjárhæð 4.743.923 krónur ...“. Loks var sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað.
Í kröfugerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti felst að hann krefjist endurskoðunar á þeirri úrlausn héraðsdómara að vísa kröfu hans frá dómi. Verður ekki á það fallist með varnaraðila að slíkt málskot sé óheimilt samkvæmt c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 1293. Hins vegar skortir heimild til að kæra héraðsdóm að öðru leyti og verður kröfu sóknaraðila þar að lútandi sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
II.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi stefndi sóknaraðili einungis varnaraðila, en ekki skuldaranum Patreki hf., sem gaf út framangreint skuldabréf 10. nóvember 1982. Sóknaraðili hefur ekki stutt kröfu sína viðhlítandi málsástæðum og lagarökum um „að kveðinn verði upp aðfararhæfur dómur til þess að að unnt verði að leita fullnustu í veðinu“. Verður fremur ráðið af málatilbúnaði sóknaraðila að varnaraðili beri ekki persónulega ábyrgð vegna þeirra skuldbindinga Patreks hf., sem sóknaraðili vísar til, og hann telur tryggða með veðrétti í fasteign varnaraðila. Er krafa sóknaraðila því vanreifuð. Verður niðurstaða héraðsdóms um frávísun kröfunnar staðfest þegar af þessari ástæðu. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um frávísun kröfu sóknaraðila, Lánasýslu ríkisins, á hendur varnaraðila, Odda hf.
Öðrum kröfum sóknaraðila er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 40.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 14. apríl 1998, af Lánasýslu ríkisins, Hverfisgötu 6, Reykjavík gegn Odda hf. við Eyrargötu, Patreksfirði.
Dómkröfur.
Dómkröfur stefnanda eru þær að Oddi hf. verði dæmdur til þess að þola viðurkenningu á veðrétti stefnanda, sem er nú 1. veðréttur í fiskverkunarstöð Odda hf., Patreksfirði, samkvæmt tryggingarbréfi þann 12. nóvember 1982 útgefnu af Patreki hf. og árituðu um samþykki til veðsetningar fiskverkunarstöðvarinnar af Odda hf. og þinglýstu þann 29. nóvember 1982 að fjárhæð DEM 275.801,00 auk vaxta og kostnaðar og að kveðinn verði upp aðfararhæfur dómur til þess að unnt verði að leita fullnustu í veðinu til greiðslu krafna stefnanda sem tryggðar eru með ofangreindu tryggingarbréfi að fjárhæð 4.743.923 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 14. apríl 1994 til greiðsludags og að dæmdur verði málskostnaður að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða félaginu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikiningi.
Málavextir.
Stefnandi kveður málavexti þá að þann 15. nóvember 1982 hafi ríkissjóður tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni að fjárhæð DEM 275.801,00 sem Byggðasjóður hafi veitt Patreki hf., Patreksfirði, sbr. skuldabréf útgefið 10. nóvember 1982, dskj. nr. 4. Lánið skyldi lántaki endurgreiða á 10 árum með jöfnum afborgunum, DEM 13.790,05 í hvert sinn, með gjalddögum 1. apríl og 1. október ár hvert, í fyrsta sinn 1. október 1983. Af skuldinni áttu að greiðast 11% ársvextir eftir á á sömu gjalddögum og afborganir, í fyrsta sinn 1. apríl 1983. Enn fremur segi í skuldabréfinu að ef ekki verði staðið í skilum með greiðlslu vaxta eða afborgana af skuldabréfinu beri að greiða hæstu lögleyfðu dráttarvexti af hinni vangoldnu fjárhæð fyrir þann tíma sem greiðsla dragist. Heimild ríkissjóðs til ábyrgðarveitingarinnar hafi verið í lánsfjárlögum fyrir árið 1981 nr. 13/1981.
Til tryggingar skaðleysi ríkissjóðs vegna nefndrar ábyrgðar hafi Patrekur hf. gefið út tryggingarbréf þann 12. nóvember 1982, sbr. dskj. nr. 3, þar sem veðsettur hafi verið ms. Patrekur BA-64 með 4. veðrétti og uppfærslurétti. Enn fremur hafi verið veðsett fiskverkunarstöð Odda hf., Patreksfirði með 11. veðrétti og uppfærslurétti og hafi samþykki þeirrar veðsetningar verið árituð af stjórn Odda hf. á tryggingarbréfið, auk sérstaks veðleyfis stjórnar Odda hf., Patreksfirði, dags. 1. júlí 1982, sbr. dskj. nr. 5. Við þinglýsingu tryggingarbréfsins þann 29. nóvember 1982 hafi verið skráð á það athugasemd af fulltrúa sýslumanns um áhvílandi veðskuldir, sem ekki hafi verið getið um á tryggingarbréfinu, þannig að tryggingarbréfið hafi verið sett á 12. veðrétt í fiskverkunarstöðinni. Samkvæmt veðbókarvottorði dags. 6. apríl 1998, dskj. nr. 18, sé nefnt tryggingarbréf nú með 1. veðrétt í fiskverkunarstöðinni.
Patrekur hf. hafi ekki staðið skil á láninu gagnvart Byggðasjóði og hafi Ríkisábyrgðasjóður leyst til sín gjaldfallnar greiðslur í íslenskum krónum sem hér segi:
|
Gjalddagi |
Fjárh. í DEM |
Fjárhæð í kr. |
Innlausnardagur |
Gengi |
|
1988,01.10. |
DEM 13.790,05 |
354.839 - |
03.10.1988 |
25,7315 |
|
1989,01.04. |
DEM 13.790,05 |
388.964 - |
10.04.1989 |
28,2061 |
|
1989,01.10. |
DEM 13.790,05 |
449.306 - |
01.10.1989 |
32,5819 |
|
1990,01.04. |
DEM 13.790,05 |
498.075 - |
01.04.1990 |
36,1184 |
|
1990,01.10. |
DEM 13.790,05 |
500.713 - |
15.10.1990 |
36,3097 |
|
1991,01.04. |
DEM 13.790,05 |
448.729 - |
01.04.1991 |
35,4407 |
|
1991,01.10. |
DEM 13.790,05 |
491.259 - |
10.10.1991 |
35,6242 |
|
1992,01.04. |
DEM 13.790,05 |
497.070 - |
01.04.1992 |
36,0456 |
|
1992,01.10. |
DEM 13.790,05 |
527.434 - |
03.12.1992 |
38,2474 |
|
1993,01.04. |
DEM 13.790,05 |
547.534 - |
03.12.1992 |
39,7050 |
Samtals 5.036.995 krónur
Miðað sé við sölugengi á þýsku marki á hverjum gjalddaga.
Aðeins séu í stefnukröfunni og upptalningunni hér að ofan teknar með afborganir af höfuðstól sem gjaldfallið hafi 1. október 1987 og síðar. Engir innleystir vextir séu teknir með.
Við hverja innlausn hafi Patrekur hf. verið endurkrafinn um þá fjárhæð sem innleyst hafði verið, en engin greiðsla hafi komið upp í þær skuldir sem hér að framan séu taldar.
Þann 25. maí 1987 hafi verið gerður greiðslusamningur við stjórn Patreks hf. þar sem kveðið hafi verið á um að þau vanskil sem þá hafi verið gjaldfallin að fjárhæð 5.348.107 krónur skyldu greidd með 8 hálfsárslegum afborgunum á næstu fjórum árum, sbr. dskj. nr. 7. Sé sá greiðslusamningur undirritaður af sömu aðilum og hafi verið í stjórn Odda hf. Staðið hafi verið í skilum með greiðslur samkvæmt greiðslusamningnum til og með 1. nóvember 1988. Skuldir samkvæmt nefndum greiðslusamningi séu ekki inni í stefnufjárhæðinni.
Þann 22. júní hafi Patrekur BA-64 verið seldur á nauðungaruppboði án þess að nokkur greiðsla fengist upp í kröfur Byggðasjóðs eða Ríkisábyrgðasjóðs vegna ofangreindra skulda.
Með bréfi dags. 3. júlí 1989 hafi Byggðastofnun, er tók við eigum Byggðasjóðs með lögum nr. 64/1985, óskað eftir því að Ríkisábyrgðasjóður greiddi upp lánið sem sjálfskuldaraðili, sbr. dskj. nr. 8. Ríkisábyrgðasjóður hafi svarað með bréfi dags. 31. ágúst 1989, sbr. dskj. nr. 9, þar sem segi að lánið verði greitt samkvæmt upphaflegum gjalddögum þess. Byggðastofnun hafi samþykkt það og yfirtöku Ríkisábyrgðasjóðs með áritun á bréf sjóðsins þann sama dag.
Ríkisábyrgðasjóður hafi krafið Odda hf. um greiðslur á skuldinni á grundvelli veðréttar í fiskverkunarstöðinni, en án árangurs. Þann 18. júní 1997 hafi verið send nauðungarsölubeiðni á fiskverkunarstöð Odda hf. Vegna mótmæla gerðarþola, er snert hafi form tryggingarbréfsins, hafi beiðnin verið felld niður við byrjun uppboðs þann 10. desember sl.
Þess vegna hafi reynst nauðsynlegt að höfða mál þetta.
Samkvæmt lögum nr. 43/1990, 1. tl. 3. gr. sé Ríkisábyrgðasjóður deild við Lánasýslu ríkisins.
Málsástæður stefnanda og lagarök.
Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína um viðurkenningu veðréttar til tryggingar stefnukröfum á tryggingarbréfi útgefnu þann 12. nóvember 1982. Þar sé því lýst yfir að til tryggingar því að ríkissjóður verði skaðlaus af ábyrgð, sem hann takist á hendur láni hjá Byggðasjóði að fjárhæð DEM 275.801,00, sé m.a. veðsett fiskverkunarstöð Odda hf, Patreksfirði. Samþykki stjórnar Odda hf., eiganda fiskverkunarstöðvarinnar, sé áritað á tryggingarbréfið, auk þess sem stjórn fyrirtækisins hafi með sérstakri yfirlýsingu heimilað Patreki hf. að veðsetja fiskverkunarstöðina til tryggingar skaðleysi ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðar. Í tryggingarbréfinu segi að hin tilgreinda fasteign sé veðsett með öllu því sem henni fylgir og fylgja ber, hvers konar viðbótum svo og vátryggingarfjárhæð.
Ríkisábyrgðasjóður hafi verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir fyrrgreindu láni Byggðasjóðs til Patreks hf. og hafi þurft að greiða stærsta hluta þess þegar Patrekur hf. stóð ekki í skilum. Einmitt til þess að tryggja skaðleysi ríkissjóðs gegn slíku hafi Ríkisábyrgðasjóður fengið veðtryggingu í Patreki BA-64 og fiskverkunarstöð Odda hf., Patreksfirði.
Sömu þrír aðilar hafi verið í stjórn Patreks hf. og Odda hf. árin 1982-1987, sem hér komi aðallega við sögu. Þessir aðilar hafi undirritað skuldabréfið til Byggðasjóðs fyrir hönd Patreks hf., tryggingarbréfið um veðsetningu Patreks BA-64 og einnig síðar greiðslusamninginn á dskj. nr. 7. Einnig hafi þeir undirritað fyrir hönd Odda samþykki um veðsetningu firkverkunarstöðvar og veðleyfi.
Rót stefnukröfunnar sé skuld Patreks hf. gagnvart Byggðasjóði samkvæmt láni sem Ríkisábyrgðasjóður hafi þurft að yfirtaka sem ábyrgðaraðili. Til tryggingar skaðleysi Ríkisábyrgðasjóðs vegna þessa hafi fiskverkunarstöð Odda hf. verið veðsett. Oddi hf. hafi ekki verið persónulega ábyrgur fyrir greiðslu kröfunnar.
Hér komi því ekki til álita ákvæði 4. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 er fjalli um fyrningu ábyrgðarskuldbindinga heldur grundvallist krafan eins og áður segi á skuldabréfaláni sem tryggt sé með veðrétti í eign stefnda. Kröfur samkvæmt skuldabréfum fyrnist á 10 árum, eins og kveðið sé á um í 1. tl. 4. gr. fyrningarlaganna. Veðrétturinn sem tryggir kröfu þá sem hér um ræði hafi ekki fyrnst.
Ekki sé í þessu máli gerð krafa um afborganir eldri en 10 ára og ekki sé gerð krafa um vexti eldri en 4 ára.
Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga svo og samningalaga og eðli máls. Þá er vísað til þinglýsinga og veðlaga. Lánsfjárlaga nr. 13/1981, auk laga um ríkisábyrgðir nr. 37/1961 og reglugerð um ríkisábyrgðir og Ríkisábyrgðasjóð nr. 437/1967. Krafan um dráttarvexti og vaxtavexti er byggð á reglum III. kafla laga nr. 25/1987. Þá er krafan um málskostnað byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988, sbr. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og geti hann því ekki nýtt sér frádrátt vegna greidds virðisaukaskatts.
Málsástæður stefnda og lagarök.
Sýknukrafa stefnda byggist á því að hver sú krafa sem stefnandi kunni að hafa átt á hendur stefnda sé fyrnd. Færir stefndi eftirfarandi rök fyrir sýknukröfunni.
1. Fyrning veðréttinda.
Ríkisábyrgðasjóður eigi þinglýstan veðrétt í eign stefnda. Þar sem veðréttindi teljist til eignarréttinda sé meginreglan sú að veðréttindi fyrnist ekki og fyrning þeirrar kröfu sem veðréttindum fylgir hafi ekki áhrif á veðréttindin. Frá þessari meginreglu séu þó nokkrar undantekningar. Sambandið milli veðréttarins og kröfunnar, sem veðrétturinn eigi að tryggja, geti verið þannig vaxið að það sé forsenda fyrir gildi veðréttarins að krafan falli ekki niður fyrir fyrningu. Fyrning kröfunnar geti þá leitt til þess að veðrétturinn falli niður. Það á t.d. við þegar sett er veð fyrir öllum núverandi og væntanlegum kröfum sem veðhafinn kann að eignast á hendur veðþola.
Veðtryggingabréfinu á dskj. nr. 3 hafi verið ætlað að standa sem ábyrgð fyrir annarri skuld. Í tryggingarbréfinu sé tekið fram að lán það sem Ríkisábyrgðasjóður gekkst í ábyrgð fyrir sé að fjárhæð DEM 275.801,-. Láninu sé ekkert lýst frekar, engir gjalddagar nefndir eða greiðsluskilmálar. Í bréfinu sé einnig tekið fram að veðhafa sé “...ávalt heimilt, án uppsagnar, að leita fullnustu í veðunum með sölu þeirra á nauðungaruppboði samkvæmt 39. gr. laga nr. 95/1947 og lögum nr. 57/1949, sbr. lög um veð 4. nóvember 1987, 3. gr. ...”. Tryggingarbréfið hafi því aldrei getað orðið bein nauðungarsöluheimild, svo sem fram kom í mótmælum gegn framgangi nauðungarsölu á fiskverkunarstöð stefnda, sbr. dskj nr. 20.
Því er nauðsynlegt að fá dóm fyrir skuldinni á bak við tryggingarbréfið og dóm fyrir viðurkenningu á veðréttinum. Það náið samband sé því á milli veðréttarins og kröfunnar á bak við veðréttinn að fyrning kröfunnar leiði óhjákvæmilega til þess að veðrétturinn er einnig fyrntur.
2. Fyrning ábyrgðarskuldbindinga.
Stefndi, Oddi hf., hafi veitt Patreki hf. veðleyfi til tryggingar ábyrgð sem Ríkisábyrgðasjóður hafi gengist í gagnvart Byggðasjóði. Í samræmi við veðleyfið hafi stefndi áritað tryggingarbréfið sem Patrekur hf. gaf út til Ríkisábyrgðasjóðs. Réttarsamband það sem komist hafi á milli stefnanda og stefnda byggist á tryggingarbréfinu, en ekki á skuldabréfinu á dskj. nr. 4. Skuldabréfið á dskj. nr. 4 hafi Patrekur hf. gefið út til Byggðasjóðs með ábyrgð Ríkisábyrgðasjóðs. Rót stefnukröfunnar sé því ekki skuld Patreks hf. gangvart Byggðasjóði samkvæmt láninu sem Ríkisábyrgðasjóður hafi þurft að yfirtaka sem ábyrgðaraðili, eins og segi í stefnu á bls. 3, heldur tryggingarbréfið sem stefndi hafi áritað um veðleyfi.
Stefndi hafi ekki verið skuldari samkvæmt skuldabréfinu. Með því að veita Patreki hf. veðleyfið hafi hann hins vegar tekið á sig ábyrgð á skuldinni. Hann hafi verið ábyrgðaraðili, rétt eins og Ríkisábyrgðasjóður hafi verið ábyrgðaraðili. Stefndi hafi aldrei gefið út skuldabréf til Ríkisábyrgðasjóðs heldur hafi einvörðungu tekist á hendur ábyrgð. Fyrningartími á ábyrgðarskuldbindingum sé fjögur ár, sbr. 4. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Fyrningartíminn á kröfu stefnanda á hendur stefnda sé því fjögur ár.
3. Endurgjaldskrafa milli ábyrgðarmanna fyrnist á fjórum árum.
Samkvæmt 4. tl. 3. gr. fyrningarlaga fyrnist einnig á fjórum árum endurgjaldskrafa sem ábyrgðarmaður eða samskuldari hefur á hendur aðalskuldunaut, meðábyrgðarmanni eða samskuldara út af greiðslu skuldar. Ríkisábyrgðasjóður hafi tekið á sig ábyrgð á skuld Patreks hf. við Byggðasjóð sem ábyrgðaraðili. Ríkisábyrgðasjóður hafi ekki verið aðalskuldari hinnar upphaflegu kröfu. Líta megi á stefnda sem meðábyrgðarmann Ríkisábyrgðasjóðs. Stefndi hafi ekki verið aðalskuldunautur heldur meðábyrgðarmaður eins og Ríkisábyrgðasjóður.
Upphaf fyrningarfrests.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga teljist fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. En hvenær varð krafa Ríkisábyrgðasjóðs á hendur stefnda gjaldkræf? Ríkisábyrgðasjóður hafi alltaf greitt af láninu til Byggðasjóðs. Það verði því að líta svo á að fyrningarfrestur hverrar afborgunar hafi hafist á greiðsludegi hverrar afborgunar fyrir sig. Þá hafi Ríkisábyrgðasjóður orðið fyrir tjóninu og þá hafi krafa hans í raun orðið gjaldkræf. Síðasta afborgun af láninu hafi átt að greiðast 1. apríl 1993, en Ríkisábyrgðasjóður hafi leyst eftirstöðvar kröfunnar til sín 3. desember 1992. Fyrningardagur síðustu greiðslu Ríkisábyrgðasjóðs sé því 3. desember 1996. Allar kröfur sjóðsins á hendur stefnda séu því fyrndar. Um upphafstíma fyrningarfrests megi vísa til hrd. frá 12. febrúar 1998 í máli nr. 230/1997: Ríkisábyrgðasjóður gegn Siglufjarðarkaupstað. Í því máli hafi Hæstiréttur Íslands talið að fyrningarfrestur hefði byrjað að líða frá þeim degi sem Framkvæmdasjóður hefði leyst til sín kröfu. Hæstiréttur hafi einnig talið að endurgjaldskrafa sjóðsins á hendur ábyrgðarmanni félli undir fyrningarreglu 4. tl. 3. gr. fyrningarlaganna, þ.e. að fyrningarfresturinn væri fjögur ár.
Athugasemd við dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefjist annars vegar að stefndi verði dæmdur til að þola viðurkenningu á veðrétti stefnanda í fiskverkunarstöð stefnda samkvæmt tryggingarbréfi og hins vegar að kveðinn verði upp aðfararhæfur dómur til þess að unnt verði að leita fullnustu í veðinu til greiðslu krafna stefnanda, sem tryggðar séu með tryggingarbréfinu að fjárhæð 5.036.995 kr. auk dráttarvaxta.
Samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skuli dómkröfur vera glögglega orðaðar. Miðað sé við þá grundvallarreglu að hægt sé að taka stefnukröfurnar óbreyttar upp sem dómsorð. Orðalag seinni liðsins í kröfugerð stefnanda upfylli ekki þá grundvallarreglu. Ef fallist yrði á kröfur stefnanda í málinu væri aldrei hægt að orða dómsorðið eins og stefnandi orðar seinni lið stefnukrafna sinna. Dómkrafan fullnægi þannig ekki skilyrðum 80. gr. einkamálalaga. Sú leið hafi þó ekki verið farin að krefjast frávísunar málsins af þessum sökum. Slíkt myndi aðeins draga málarekstur þennan á langinn og tefja fyrir endanlegum sýknudómi í málinu.
Þá skuli bent á það að samkvæmt stefnu sé gerð krafa um dráttarvexti frá 25. apríl 1993. Á bls. 3 í stefnu sé síðan sagt að ekki sé gerð krafa um vexti eldri en fjögurra ára. Vextir fyrnist á fjórum árum. Allir vextir eldri en fjögurra ára frá stefnubirtingu séu því fyrndir. Sérstaklega skuli bent á að beiðni um nauðungarsölu hafi ekki slitið fyrningu þar sem tryggingarbréfið sem krafan byggðist á hafi ekki heimilað nauðungaruppboð án undangenginnar aðfarar.
Varðandi málskostnaðarkröfuna er vísað til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi lagarök að öðru leyti vísast til þess sem hér að ofan greinir í kaflanum um málsástæður.
Niðurstaða.
Eins og fram er komið setti stefndi, með áritun sinni á tryggingarbréf útgefið 12. nóvember 1982, fasteign sína, Fiskverkunarstöð Odda hf. Patreksfirði, að veði til tryggingar greiðslu skuldar Patreks hf., Patreksfirði, við Byggðasjóð. Skyldi veðsetningin tryggja skaðleysi ríkissjóðs, en eignin var sett Ríkisábyrgðasjóði að veði, og eins og fram er komið var ríkissjóður sjálfskuldarábyrgðaraðili að skuld Patreks hf. við Byggðasjóð.
Í stefnu segir að rót stefnukröfunnar sé skuld Patreks hf. við Byggðasjóð samkvæmt láni sem ríkisábyrgðasjóður hafi þurft að yfirtaka sem ábyrgðaraðili. Jafnframt segir að Oddi hf. hafi ekki verið persónulega ábyrgur fyrir greiðslu kröfunnar.
Auk kröfu um staðfestingu á veðrétti krefst stefnandi þess að kveðinn verði upp aðfararhæfur dómur á hendur stefnda fyrir DEM 275.801,00 svo unnt sé að leita fullnustu í veðinu til greiðslu krafna stefnanda sem tryggðar séu með ofangreindu tryggingarbréfi að fjárhæð 4.743.923 krónur auk dráttarvaxta.
Krafa þessi er óljós. Helst þykir hún verða skilin svo að stefnandi geri þá kröfu að stefnda verði gert að greiða tilgreinda fjárhæð. En í ljósi fullyrðingar stefnanda um að stefndi hafi ekki verið persónulega ábyrgur fyrir greiðslu umræddrar kröfu þykir krafan óskiljanleg og ekki vera í samræmi við ákvæði d. liðar 1. mgr. 8o. gr. laga nr. 91/1991 um glögga kröfugerð í stefnu. Ber því að vísa þessari kröfu stefnanda frá dómi ex officio.
Þá krefst stefnandi staðfestingar á 1. veðrétti í fiskverkunarstöð Odda hf., Patreksfirði. Samkvæmt framlögðu tryggingarbréfi var veðrétturinn til tryggingar skuld Parteks hf. við Byggðasjóð, eins og áður segir.
Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að dómur hafi gengið um umrædda kröfu Byggðasjóðs á hendur Patreki hf. samkvæmt skuldabréfi útgefnu 10. nóvember 1982 og ríkissjóður var sjálfskuldarábyrgðaraðili að. Ekki hefur því verið sýnt fram á í máli þessu að stefnandi eigi óumdeilda kröfu sem núverandi 1. veðrétti í Fiskverkunarstöðinni Odda hf. var ætlað að tryggja. Meðan stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi óvéfengjanlega kröfu sem veðrétturinn tryggir verður veðrétturinn eigi staðfestur. Ber því með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 að sýkna stefnda að svo stöddu af þessari kröfu stefnanda.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.
Karistjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Oddi hf., skal vera sýkn að svo stöddu af þeirri kröfu stefnanda, Lánasýslu ríkisins, að Oddi hf. verði dæmdur til þess að þola viðurkenningu á 1. veðrétti í fiskverkunarstöð Odda hf., Patreksfirði, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 12. nóvember 1982 af Patreki hf. og árituðu um samþykki til veðsetningar fiskverkunarstöðvarinnar af Odda hf. og þinglýstu þann 29. nóvember 1982 að fjárhæð DEM 275.801,00 auk vaxta og kostnaðar.
Kröfu um að kveðinn verði upp aðfararhæfur dómur til þess að unnt verði að leita fullnustu í veðinu til greiðslu krafna stefnanda sem tryggðar eru með ofangreindu tryggingarbréfi að fjárhæð 4.743.923 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 14. apríl 1994 til greiðsludags er vísað frá dómi ex officio.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.