Hæstiréttur íslands

Mál nr. 442/2006


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. mars 2007.

Nr. 442/2006.

Bjarni L. Thorarensen

(Þorsteinn Hjaltason hdl.)

gegn

Akureyrarkaupstað

(Karl Axelsson hrl.)

 

Sjómenn. Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.

B, sem var skipverji á Hríseyjarferjunni S, slasaðist er hann var að slaka landgangi með kaðli niður á bryggju á Árskógssandi með annarri hendi en með hinni hélt hann um borðstokk skipsins. Skipið kastaðist frá bryggjunni og við það kom hnykkur á hægri öxl B með þeim afleiðingum að líkamstjón hlaust af. B höfðaði mál á hendur A, rekstraraðila ferjunnar, til greiðslu skaðabóta af þessum sökum. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að slysið yrði hvorki rakið til þess að óforsvaranleg vinnubrögð hefðu verið viðhöfð, að öryggisreglna hefði ekki verið gætt né að skipið hefði verið vanbúið. Yrði því að telja að tjón B væri að rekja til óhappatilviks eða óaðgæslu hans greint sinn. Var A því sýknaður af kröfum B í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 37.977.830 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. febrúar 2004 til greiðsludags, að frádregnum 10.582.736 krónum frá höfuðstól kröfunnar en að auki 2.246.000 krónum frá 10. mars 2004.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Vörður vátryggingafélag hf., réttargæslustefndi í héraði, var sameinað Íslandstryggingu hf. á árinu 2005 og ber nýja félagið heitið Vörður Íslandstrygging hf. Hefur síðastnefnda félagið tekið við réttargæsluaðild þess fyrstnefnda að þessu máli, en ekki hafa verið gerðar kröfur á hendur því.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var áfrýjandi skipverji á Hríseyjarferjunni Sævari 18. september 2000. Heldur hann því fram að hann hafa slasast í annarri ferð skipsins þann dag, sem hófst kl. 09.00, er hann var að slaka landganginum niður með kaðli með annarri hendi en með hinni hafi hann haldið við borðstokkinn. Skipið, sem lagst hafði við enda bryggjunnar á Árskógssandi, hafi kastast frá bryggjunni og við það hafi komið mikill hnykkur á hægri öxl hans með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið 75% varanlega örorku og 30% varanlegan miska. Reisir áfrýjandi kröfu sína á hendur stefnda á því að skipverjum hafi verið mikil hætta búin við þessar vinnuaðstæður og þar af leiðandi beri stefndi skaðabótaábyrgð á tjóninu.

Í skipsdagbók ferjunnar 18. september 2000 var eftirfarandi bókað um slysið: „Þegar Bjarni Thor setti landgang upp í 9. ferð fékk hann slæman hnykk á öxlina með miklum sársauka. Afleiðing ókunn.“ Ekki var þar nánar rakið hvernig slysið bar að höndum, en skipstjórinn, sem er bróðir áfrýjanda, tilkynnti það ekki til vinnuveitanda síns eins og honum bar að gera. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, byggði niðurstöðu sína um tildrög slyssins hins vegar á frásögn áfrýjanda og skipstjórans. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

       Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Bjarni L. Thorarensen, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 23. mars s.l., hefur Bjarni L. Thorarensen, kt. 140946-7619, Miðbraut 4 b, Hrísey, höfðað gegn Akureyrarkaupstað, kt. 410169-6229, Ráðhúsinu við Geislagötu, Akureyri, og til réttargæslu gegn Verði-vátryggingafélagi, kt. 690269-6359, Skipagötu 9, Akureyri, til greiðslu skaðabóta, með stefnu útgefinni 23. júní 2004.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 37.977.830 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38,2001 frá 13. febrúar 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum úr slysatryggingu launþega kr. 2.246.000 þann 10. mars 2004, en einnig frádrætti samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 að fjárhæð kr. 4.816.333, frádrætti samkvæmt 2. gr. sömu laga að fjárhæð kr. 3.621.000 og loks vegna launa stefnanda að fjárhæð kr. 2.145.403.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnanda var með bréfi Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 7. maí 2004, veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum krefst stefndi að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar kröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur honum.

Mál þetta var upphaflega höfðað gegn Hríseyjarhreppi, en með sameiningu sveitarfélagsins við Akureyrarkaupstað tók það síðarnefnda við aðild.

I.

Samkvæmt stefnu og öðrum gögnum eru helstu atvik máls þau að á árunum 1992 til 2000 var stefnandi skipverji á ferjuskipum er voru í áætlunarferðum milli Hríseyjar og Árskógssands í Eyjafirði.  Var hann fyrstu árin vélstjóri á eldri ferju, en frá 20. júlí 2000 gegndi hann sömu stöðu á nýju skipi, Sævari - skrnr. 2378.  Vegagerð ríkisins var eigandi hins nýja skips, en er atvik máls gerðust haustið 2000 var Hríseyjarhreppur útgerðaraðili þess.

Af hálfu stefnanda er atvikum í stefnu lýst nánar á þann veg, að þann 18. september 2000 hafi hann verið við störf sína um borð í Sævari.  Skipið hafi legið við bryggjuendann á Árskógssandi, og verið að leggja frá og hafi hann haldið með hægri hendi í reipi, sem bundið var í landgang, með þeirri ætlan að slaka honum á bryggjuna, en með þeirri vinstri hafi hann haldið í skipshandriðið.  Við þessar aðstæður hafi skipið kastast frá bryggjunni með þeim afleiðingum að hnykkur kom á hann og hann þá fengið slæman verk í hægri öxlina.  Þrátt fyrir viðvarandi verk hafi hann klárað vakt sína, en vegna stöðugt vaxandi vanlíðunar hafi hann farið til læknis rúmum fjórum sólarhringum eftir slysið, þann 23. september.

Í stefnu er lýst læknisaðgerðum sem stefnandi gekkst undir, þ.á.m. þann 16. október 2000 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og 26. september árið 2002.  Jafnframt er þess getið að hann hafi farið í sjúkraþjálfun, en þrátt fyrir það hafi hann ekki náð heilsu og því ekki tekið við starfi sínu á ný á Hríseyjarferjunni.

Samkvæmt gögnum var réttargæslustefnda tilkynnt um tjón stefnanda 26. febrúar 2002, vegna slysatryggingar sjómanna, en þann 29. ágúst s.á. óskaði lögmaður stefnanda eftir rannsókn lögreglu á orsökum slyss sem stefnandi „hafði orðið fyrir þann 18. september 2000, við vinnu sína um borð í Hríseyjarferjunni Sævari“.  Með beiðninni fylgdi m.a. ódagsett afrit af tilkynningu til útgerðaraðila skipsins og Tryggingastofnunar ríkisins um slys á stefnanda, undirritað af skipstjóra, vitninu Smára Thorarensen, en hann er bróðir stefnanda.

Í greindri tilkynningu skipstjóra er vélritað nafn stefnanda sem hins slasaða og það skráð að hann hafi orðið fyrir slysi þann 18/9 2000 kl. 09:45 á þilfari ferjunnar í Hrísey.  Tildrögum slyssins er nánar lýst þannig:  „Slasaði var að slaka niður landgangi skipsins þegar óvænt hreyfing kom á skipið með þeim afleiðingum að honum skrikaði fótur og var nærri búinn að missa landganginn niður, við þetta fékk hann mikinn hnykk á hægri öxl.  Veður var kalt, norðan kaldi og grátt niður í sjávarmál, hiti 2-3 C.  Slasaði var út vaktina þrátt fyrir miklar kvalir í öxlinni, en leitaði eftir það til læknis, 23/09 2000.“  Í niðurlagi tilkynningarinnar er skráð að engar ráðstafanir hafi verið gerðar vegna slyssins og að ekki hafi verið sjónarvottur að því.

Samkvæmt gögnum hóf lögreglan á Akureyri rannsókn á slysi stefnanda í september 2002.  Gaf stefnandi skýrslu 5. september, en skipstjórinn Smári Thorarensen, 12. s.m.  Lögregla tók og ljósmyndir, er sýndu ferjuna Sævar við landfestar á Árskógssandi, en einnig sýndu myndirnar landgang skipsins.  Þá tók lögregla ljósrit úr skipsdagbók, en þar er stuttlega greint frá slysi stefnanda.

Stefnandi áréttar það í lögregluskýrslu sinni að er slysið átti sér stað hafi ferjan verið að fara frá Árskógssandi.  Hafi skipið legið við bryggjuendann, en venjan hafi verið að leggja því að upp með norðurkantinum, með stjórnborðssíðu að bryggjunni.  Ekki mundi stefnandi hver var ástæðu þess að skipinu var lagt með þessum hætti, en vísaði til þess að nokkuð hvasst hafi verið og nokkur hreyfing í höfninni.

Í skýrslunni lýsir stefnandi verklagi sínu á þann veg að hann hafi verið að slaka landganginum niður frá skipinu á bryggjuna, en það hafi verið gert með handafli.  Var það ætlan stefnanda að landgangurinn hafi verið um 20-30 kg að þyngd.  Hafi hann haldið með vinstri hendi í handrið skipsins, en með þeirri hægri í reipi er hafi verið bundið við landganginn.  Hafi hann verið að slaka landganginum niður þegar skipið kastaðist frá bryggjunni, en við það hafi komið hnykkur á hann.  Hafi hann strax fundið mikið til í hægri öxlinni og misst landganginn niður.  Er þetta gerðist hafi skipið enn verið bundið við landfestar, en þær hafi verið tengdar sjálfvirku spili er hafi haldið vissu átaki og skipinu að bryggjunni, en þess á milli gefið aðeins eftir.  Er þetta gerðist hafi hann verið eini skipverjinn um borð fyrir utan skipstjórann, en hann hafi ekki séð slysið þar sem hann hafi þá verið í brúnni.  Kvaðst stefnandi fyrst hafa greint skipstjóranum frá slysinu og axlaráverkanum er skipið var komið frá bryggjunni.  Þrátt fyrir eymslin hafi hann staðið vaktina út, þ.e. til 21. september, en farið til læknis 23. september á Dalvík og fengið verkja- og bólgueyðandi lyf.  Í framhaldi af því hafi hann farið í frekari læknismeðferðir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, en þrátt fyrir það hafi hann ekki fengið bót meina sinna.

Í skýrslu hjá lögreglu greinir vitnið Smári Thorarensen frá því að hann hafi verið skipstjóri á Hríseyjarferjum frá árinu 1986 og því tekið við hinni nýju ferju, Sævari, í júlímánuði 2000.  Atvikum þann 18. september það ár lýsir vitnið á þá leið að hann hafi lagt skipinu fremst á bryggjukantinn „en ekki lagt upp með, því þá hefði skipið tekið niðri.  Það hafi gerst í ferðinni á undan þessari”.  Vísar vitnið til þess að mikil kvika hafi verið í höfninni er þetta gerðist og hálfallið að og því stutt verið í botninn.  Í skýrslunni áréttar vitnið efni áðurgreindrar tilkynningar, þ.e. að stefnandi hafi slasast við vinnu sína við landgang skipsins.  Landganginum hafi verið lyft með handafli og staðhæfir vitnið að sá búnaður hafi verið til bráðabirgða.  Atvikum lýsir vitnið nánar á þá leið, að stefnandi hafi haldið landganginum uppi og viðhaft venjulegt verklag við að losa hann frá skipinu.  Hafi stefnandi þannig verið að ýta landganginum inn á bryggjuna með öðrum fætinum, er kvika hafi komið á skipið og það þá henst frá bryggjunni.  Við þetta hafi komið hnykkur á stefnanda og hann misst takið á landganginum.  Í skýrslunni staðhæfir vitnið að það hafi verið sjónarvottur að slysi stefnanda og jafnframt að hann hafi strax kvartað um verki í hægri öxl, en þrátt fyrir það lokið vaktinni, en þurft að hlífa hægri hendinni mikið.

Við þingfestingu málsins var af hálfu stefnanda lögð fram matsskýrsla bæklunarlæknanna Bjarka S. Karlssonar og Ragnars Jónssonar, en hún er dagsett 1. desember 2003.  Eru upphafsorð hennar svohljóðandi:  ,,Með matsbeiðni, dags. 19.09.2003, óskar Þorsteinn Hjaltason hdl. eftir að metnar séu afleiðingar vinnuslyss sem Bjarni L. Thorarensen varð fyrir 18.09.2000.  Metnir séu bótaþættir samkvæmt lögum nr. 50, 1993 og 37, 1999.  Vörður-Vátryggingafélag hefur eingöngu óskað eftir mati á læknisfræðilegri örorku og hefur því ekki samþykkt matsbeiðnina“. 

Í skýrslu læknanna er vísað til þeirra heimilda sem þeir styðjast við, þ.á.m. læknisvottorðs til atvinnurekanda, dags. 1.2.2001, læknisvottorðs Braga Stefánssonar, heimilislæknis, dags. 13.2.2001, beiðnar um þjálfun dags. 26.2.2002, bréf frá Verði-Vátryggingafélagi til Ragnars Jónssonar, læknis, dags. 22.5.2002, læknisvottorða Sveinbjörns Brandssonar, dags. 1.7.2003 og 20.8.2002, læknisvottorðs Guðmundar Pálssonar, heimilislæknis, dags. 24.8.2002, bréfs frá Vinnueftirliti ríkisins, dags. 29.8.2002 og læknisvottorðs Guðna Arinbjarnar, dags. 21.10.2002.  Þá er í skýrslunni rakin heilsufarssaga stefnanda, nám hans og starfsferill svo og frásögn hans af umræddu slysi þann 18. september 2000.  Fjallað er um meðferð stefnanda hjá læknum eftir slysið og er þess m.a. getið að hann hafi farið í aðgerðir 16. október 2000 og 26. september 2002.  Þá er tekin upp svofelld lýsing Sveinbjörns Brandssonar, bæklunarlæknis, eftir síðari aðgerðina:  „Við skoðunina á liðnum við speglunina kom í ljós að um dreifðan roða í öxlinni eins og hægt er að sjá við ástand sem kallað er frosin öxl.  Sinar voru heilar en talsvert miklar bólgur í slímpoka ofan axlarsina svokallaðar rotatorcut sina.  Gerð var útaukin decompression þ.e.a.s. fræst var meira af axlarhyrnu.“.  Í matsskýrslunni segir ennfremur:  „Eftir síðari aðgerðina losnaði Bjarni við hluta af einkennum, hinn stöðugi verkur hvarf en hins vegar áfram til staðar verkir og óþægindi við að liggja á öxlinni, eins koma verkir við alla hreyfingu á öxlinni.  Hafa einkennin ekkert batnað frá áramótum 2002-2003.“  Loks er í skýrslunni svofelld samantekt og álit:

„Við slysið 18.09.2000 hlaut Bjarni áverka á hægri öxl, sem hefur leitt af sér mikið verkjavandamál og gerðar hafa verið tvær aðgerðir á öxlinni sem hafa gefið takmarkaðan bata.  Fyrir slysið mun hann hafa verið með eðlilega starfsgetu en eftir að hann hætti vinnu viku eftir slysið, vegna verkja frá öxlinni, hefur hann ekki getað stundað neina vinnu.  Við skoðun nú er hann með einkenni um verulega hreyfiskerðingu í öxlinni og einkenni um langvarandi (krónískt) verkjavandamál.“

Niðurstaða læknanna var síðan eftirfarandi:

1.  Tímabundið atvinnutjón (óvinnufærni) samkvæmt 2. gr.  Frá 25.09.2000.

2.  Þjáningabætur skv. 3. gr.  Bjarni telst hafa verið veikur í skilningi

     skaðabótalaga frá 18/9 2000 til 31.12.2002. 

3.  Varanlegur miski skv. 4. gr.  30%.

4.  Varanlegur miski skv. 5. gr.  75%.

5.  Ekki var að vænta frekari bata eftir 31.12.2002.

Samkvæmt gögnum greiddi réttargæslustefndi stefnanda bætur þann 27. febrúar 2004, kr. 1.946.000, í samræmi við slysatryggingar sjómanna.  Var tekið við  þeirri greiðslu af hálfu stefnanda með fyrirvara um örorkumat, en áður hafði lögmaður hans haft uppi bótakröfu, sem dagsett er 13. janúar 2004.  Fyrir liggur að stefndi hafnaði frá upphafi bótaskyldu í málinu og höfðaði stefnandi því mál þetta með stefnu, þingfestri 2. september 2004.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að er hin nýja Hríseyjarferja hóf siglingar sumarið 2000 hafi verið notast við landganga, er hafi verið til bráðabirgða uns viðeigandi búnaði hefði verið komið fyrir í höfnum skipsins.  Hafi hinn eldri landgöngubúnaður verið mjög varasamur þegar kvika var í höfninni, ólíkt núverandi búnaði, sem sé fjarstýrður lyftibúnaður og forði því að skipverjar setji sig í hættu.

Af hálfu stefnanda er vísað til reglugerðar nr. 786, 1998 um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum, en í 1. mgr. 4. gr. hennar segi svo um skyldur vinnuveitanda:  „Vinnuveitanda er skylt að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna við allar aðstæður í vinnu.“  Er á því byggt að þær vinnuaðstæður, sem stefndi sem vinnuveitandi stefnanda ætlaði honum að starfa við er atvik máls þessa gerðust hafi ekki uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar.  Þessu til stuðnings vísar stefnandi til frásagnar Smára Thorarensen skipstjóra, en einnig Einars Hermannssonar skipaverkfræðings er hafi haft yfirumsjón með smíði ferjunnar.  Er á því byggt að það hafi verið óforsvaranlegt af stefnda að hefja útgerð skipsins án þess að lokið væri framkvæmdum við hinn nýja landgöngubúnað.  Telur stefnandi ljóst að með því að taka ferjuna í notkun áður en undirbúningi lauk í landi, hafi það skapað stórhættu fyrir skipverja ferjunnar.  Vegna þessarar vanrækslu sé stefndi skaðabótaábyrgur vegna tjóns þess er stefnandi varð fyrir, en hann sé tryggður fyrir slíkum áföllum hjá réttargæslustefnda.

Af hálfu stefnanda er um útreikning höfuðstóls skaðabótakröfu vísað til áður greindrar matsskýrslu læknanna Bjarka S. Karlssonar og Ragnars Jónssonar og  skaðabótalaga nr. 50, 1993 sbr. lög 37, 1999.  Eru dómkröfurnar nánar sundurliðaðar þannig:

1.  Þjáningar, samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.

Stefnandi hafi verið veikur í 827 daga án þess að vera rúmliggjandi.

(700*4.541/3.282=969--970*827)                                                kr.                                802.190

2.  Miskabætur, samkvæmt 4. gr., sbr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.

(30% af 5,258,000)                                              kr.                                1.577.400

3.  Varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga.

(75*4,646, 474*6,277)                                             kr.                                21.874.437

4.  Tímabundið atvinnutjón tekjutap í 827 daga, uppreiknað samkvæmt

launavísitölu og 6% framlagi atvinnurekanda                                kr.                                 10.625.395

5.  Vextir                                    kr.                                3.080.408

6.  Ferðakostnaður vegna örorkumats í Reykjavík                                kr.                                18.000

Höfuðstóll bóta í aðalkröfu                                    kr.                                37.977.830

Varðandi frádrátt vísar stefnandi til þess að hann hafi fengið greidda slysatryggingu launþega þann 10. mars 2004 að fjárhæð kr. 2.276.000, en um annan frádrátt vísar stefnandi til þriggja greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð kr. 28.800, kr. 419.287 og kr. 357.642, frá Lífeyrissjóðum að fjárhæð kr. 28.444 og 1.024.631 og loks sjúkradagpeninga að fjárhæð kr. 1.763.003, eða samtals frádráttur að fjárhæð kr. 3.621.818.

Við upphaf aðalmeðferðar var af hálfu stefnanda vísað til mismunandi útreikninga tryggingastærðfræðings í fimm liðum um frekari frádrátt varðandi þriðja kröfulið hér að framan, sbr. dskj. nr. 15.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50, 1993 með síðari breytingum, reglugerðar nr. 786, 1998, sbr. og lög nr. 35, 1993, en kröfur um vexti styður hann við reglur III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001 og 16. gr. skaðabótalaganna.  Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en um varnarþing til 33. gr. sömu laga.  Þá vísar hann um virðisaukaskatt til laga nr. 50, 1988.

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að hann eigi enga sök á slysi stefnanda.  Verði slys stefnanda einungis rakið til óhappatilviljunar eða eigin sakar hans sjálfs og er öllum kröfum og málsástæðum hans mótmælt.

Af hálfu stefnda er um atvik máls vísað til stefnu, þ.á.m. að stefnandi hafi verið að slaka landganginum niður með kaðli er skipið hafi allt í einu kastast frá bryggjunni, en við það hafi mikill hnykkur komið á stefnanda.  Þá vísar stefndi til lýsingar stefnanda hjá lögreglu, er einnig hafi stoð í skýrslu skipstjóra um að er slysið varð hafi verið nokkuð hvasst og að talsverð hreyfing hafi verið í höfninni á Árskógssandi.  Að þessu virtu telur stefndi langlíklegast að slys stefnanda verði rakið til utanaðkomandi atburðar sem stefndi beri enga ábyrgð á.

Af hálfu stefnda er á því byggt, verði ekki talið að um óhappatilvik hafi verið að ræða, að þá liggi sök stefnda ekki fyrir og sé því fjarri að sök hans sé sönnuð.  Telur stefndi sjálfan atburðinn í reynd á huldu og sé honum mótmælt af hans hálfu.  Um mat á sök stefnda fari eftir hinni ólögfestu sakareglu íslensks skaðabótaréttar og eftir atvikum á reglunni um húsbóndaábyrgð.  Beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi hafi sýnt af sér ólögmæta og saknæma háttsemi.  Ekkert í málinu bendi til sakar stefnda og er því mótmælt að vanbúnaður hafi verið á skipinu eða önnur atriði sem leitt geti til þess að stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda.  Er á það bent að skipið hafi verið með fullgilt haffærisskírteini þegar slysið varð, og gefi það til kynna að búnaður þess hafi verið í samræmi við lög og reglur, þ.á.m. að landgangur hafi uppfyllt ýtrustu öryggiskröfur.  Um heimild til haffærisskírteinis hafi á slysdegi gilt lög nr. 35, 1993 um eftirlit með skipum, en í lögunum séu gerðar strangar kröfur til öryggis í skipum og liggi ekkert fyrir um að reglugerð nr. 786, 1988 hafi verið brotin, enda hefði haffærisskírteinið ekki verið gefið út ef svo hefði verið.

Á því er byggt af hálfu stefnda, verði talið að vanbúnaður hafi verið á skipinu, að þá sé ekki orsakasamband á milli þess og tjóns stefnanda.  Meginorsök slyssins verði að meginstefnu til rakin til utanaðkomandi þátta, þ.e. veðurs og hreyfingar sjávar, sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á.

Varakröfu sína reisir stefndi á því að slysið verði að stærstum hluta rakið til eigin sakar stefnanda.  Verði því að lækka kröfur stefnanda í hlutfalli við eigin sök hans.  Þá mótmælir stefndi örorkumati sem of háu, sem og öllum útreikningum stefnanda.

Af hálfu stefnda er á það bent að stefnandi hafi verið þaulvanur sjómaður, en hann hafi lokið vélstjóranámi árið 1967.  Hann hafi starfað á ferjunni Sævari frá því að hún hóf siglingar sumarið 2000 en áður hefði hann unnið á eldri ferju stefnda.  Sama verklag við landganga telur stefndi að hafi verið viðhaft á eldri ferjunni og það sem viðhaft var á slysdegi.  Af málatilbúnaði stefnanda verði hins vegar ráðið að hreyfingin á skipinu hafi komið honum sérstaklega í opna skjöldu.  Það fái ekki staðist enda megi ávallt búast við að högg komi á skip úti á sjó, ekki síst þegar hvasst er í veðri, eins og hafi verið á slysdegi.  Vegna þessa hafi stefnanda borið að sýna sérstaka aðgát við vinnu sína og haga vinnubrögðum þannig að ekki væri hætta á ferðum, ekki síst þegar hvasst var og mikil kvika svo sem hann hafi borið í lögregluskýrslu.

Af hálfu stefnda er örorkumati læknanna Bjarka Karlssonar og Ragnars Jónssonar mótmælt sem of háu og er til þess vísað að stefndi hafi skorað á stefnanda að leita álits örorkunefndar á afleiðingum slyssins.

Af hálfu stefnda er einstökum kröfuliðum skaðabótakröfu stefnanda mótmælt.  Telur stefndi að tímabundið atvinnutjón stefnanda sé ósannað og útreikningur hans auk þess rangur, en miðað sé við laun þrjú ár aftur í tímann er gefi ekki rétta mynd af tímabundnu launatapi.  Þá sé ekki lagastoð fyrir uppfærslu launa miðað við launavísitölu.  Þá er þjáningartímabili mótmælt sem of löngu og ósönnuðu.  Er til þess vísað að stefnandi hafi farið í ýmsar aðgerðir á tímabilinu til stöðuleikapunkts, en ekkert liggi fyrir um veikindi hans allt tímabilið.  Um þetta er vísað til 3. ml. 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga.  Þá er útreikningi stefnanda varðandi varanlegan miska og varanlega örorku mótmælt með vísan til 4. gr. og 5. gr. skaðabótalaga, þ.á.m. varðandi stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars.  Loks er vaxtakröfu stefnanda mótmælt, þ.á.m. upphafsdegi.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til framangreindra sjónarmiða, auk meginreglna skaðabótaréttarins og reglna einkamálaréttarfars um sönnun.  Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.

III.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu og einnig voru teknar skýrslur af Smára Thorarensen, skipstjóra á ferjuskipinu Sævari, skrnr. 2378, Einari Hermannssyni, skipaverkfræðingi, bæklunarlæknunum Bjarka Karlssyni og Hlyni Jónssyni og loks Guðrúnu Kristjánsdóttur, skrifstofustjóra.

Stefnandi áréttaði fyrir dómi fyrri framburð sinn fyrir lögreglu, þ.á.m að er hið nýja ferjuskip Sævar var tekið í notkun sumarið 2000 hafi fylgt því tveir lausir landgangar.  Hafi annar þeirra verið staðsettur á bryggjunni á Árskógssandi, en hinn í heimahöfninni í Hrísey.  Verklagi við landgangana lýsti stefnandi á þá leið að er skipið hafi lagst að bryggju hafi nærendi landgangsins verið hífður um borð með því að toga með handafli í reipi er hafi verið bundið við hann, en á fjærendanum hafi verið hjól.  Á sama hátt hafi landgangurinn verið látinn síga á bryggjuna þegar lagt var frá.  Var það ætlan stefnanda að landgangar þessir hafi í heild verið um 60 kg og lyftiátakið því verið um 30 kg.  Staðhæfði stefnandi að landgangar þessir hafi verið ætlaðir til bráðabirgða, og hafi skipverjar kvartað við fyrirsvarsmann rekstraraðila skipsins, stefnda, um að nefnt fyrirkomulag væri óviðunandi og að auki stórhættulegt þegar hásjávað var.

Fyrir dómi áréttaði stefnandi að þann 18. september 2000, um kl. 09:45, hafi ferjuskipið verið að leggja frá bryggjunni á Árskógssandi, í annarri áætlunarferð þess þennan morgun.  Hafi skipið verið bundið við enda bryggjunnar, en ástæðu þess kvað hann hafa verið að í fyrstu ferð skipsins hafi það rekist í botn við norðurkantinn, en þá hafi verið lágsjávað.  Auk þess hafi verið frekar vont veður og kvika í höfninni.  Stefnandi kvað landfestar skipsins hafa verið tengdar sjálfvirkum spilum er hafi haldið ákveðnu átaki, en jafnframt gefið eftir við tilteknar aðstæður.  Hann hafi verið eini skipverjinn um borð fyrir utan skipstjórann, bróður sinn Smára Thorarensen.

Tildrögum slyssins og aðstæðum lýsti stefnandi með svipuðum hætti og hann hafði áður gert hjá lögreglu.  Verður ráðið af framburði stefnanda að hann hafi staðið á dekkinu stjórnborðsmegin og haldið sér með vinstri hendi í lunninguna en með þeirri hægri í reipið sem bundið var við landganginn.  Við þessar aðstæður hafi ólag komið á skipið með þeim afleiðinum að það kastaðist frá bryggjunni: „og þá rykkti svona heiftarlega í öxlina á mér … ég notaði löppina líka til að spyrna við landganginum, því annars hefði hann trúlega farið í sjóinn, ég veit það ekki“.  Staðhæfði stefnandi að er atburðurinn gerðist hefði skipstjórinn samkvæmt venju fylgst með verklagi hans út um glugga á brúnni:  „En vissi þó ekki að hann hefði orðið fyrir áfallinu fyrr en hann sagði honum frá því í brúnni eftir á …  Hann sagði ekki mikið og ég þraukaði þennan dag þrátt fyrir miklar kvalir.“

Fyrir dómi staðhæfði stefnandi að það hefði ekki verið óvanalegt:  „að högg sem þetta kæmi á skipið … ef eitthvað var að veðri þá djöflaðist hann við bryggjuna sko.“  Hann minntist þess hins vegar ekki að slíkt högg hefði áður komið á skipið þá er hann hafi verið að koma landganginum fyrir á bryggjunni.

Vitnið Smári Thorarensen, skipstjóri, staðfesti fyrir dómi áður rakta ódagsetta tilkynningu um slys stefnanda, en treysti sér ekki til að segja nánar til um ritun hennar.

Vitnið lýsti landgöngubúnaði hinnar nýju Hríseyjarferju með svipuðum hætti og stefnandi hér að framan og bar að áhöfn skipsins hefði verið gert að nota hann uns sá lyftibúnaður sem nú er til staðar var tekinn í notkun haustið 2002.

Um ferjusiglingar skipsins hafði vitnið m.a. þau orð að ávallt hefði verið lagt við sömu bryggjupollana á Árskógssandi, oftast norðan til á bryggjunni, en stundum hafi þó verið lagt við enda bryggjunnar.  Hafi það m.a. ráðist af sjávarstöðu. Vitnið kvað landfestarnar hafa verið tengdar sjálfvirku spili og skipinu þannig haldið við bryggjuna, en ekki hefði verið keyrt í svonefndan spring.

Vitnið lýsti verklaginu við landganginn á Árskógssandi með svipuðum hætti og stefnandi hér að framan, þ.e. að endi hans „hefði verið hífður um borð með handafli og húkkað á kantinn“.  Svipuð vinnubrögð hafi verið viðhöfð er lagt var frá, þ.e. landganginum hafi verið slakað niður með handafli en jafnframt spyrnt við honum með öðrum fæti, en hjól hafi verið á landendanum.  Eftir það hafi landfestar verið leystar.  Lét vitnið það álit í ljós að greint verklag við landgangana hefði ekki stefnt öryggi skipverjanna í hættu þar sem þeir hafi ekki verið þungir, um 30-50 kg: ,,... einn maður lyfti þessu í sjálfu sér léttilega.  …  en það fór eftir sjávarföllum hversu mikið mál þetta var, þetta var töluvert mál þegar var hásjávað og þegar eitthvað var að veðri, en lítið þegar var lágsjávað“.  Í þessu sambandi vísaði vitnið til þess að dekk skipsins hefði verið fyrir neðan bryggjukantinn á gapandi fjöru.  Vitnið staðhæfði að skipverjar hefðu engu að síður kvartað vegna útbúnaðarins við fyrirsvarsmann Hríseyjarhrepps, enda hafi þeir talið verklagið út í hött og aðfinnsluvert að nota ekki vélbúnað líkt og síðar var gert, u.þ.b. 2 árum eftir að skipið hóf siglingar.

Vitnið lýsti atvikum máls þann 18. september 2000 á þann vega að umræddan morgun hefðu þeir verið í annarri ferð skipsins.  Hafi hann lagt skipinu við enda bryggjunnar þar sem að það hefði tekið niður í fyrstu ferðinni við norðurkantinn.  Að auki hafi verið nokkur kvika í höfninni vegna norðan kalda.  Þegar skipið hafi verið að leggja frá bryggjunni kvaðst það hafa fylgst með vinnubrögðum stefnanda við landganginn úr brúnni og lýsti það gjörðum sínum og stefnanda nánar þannig:  „ … Ég slaka ekki á fyrr en hann er búinn að sleppa, en um leið og hann er að sleppa (landganginum) þá kemur einhver svona smákvika þannig að skipið ýtist frá bryggjunni og hann reyndi að ýta honum frá sér um leið og skipið fór frá.  …  Ég myndi telja að dekkið hafi verið svona örstutt ofan við bryggjuna í þetta skiptið, hvort það gæti hafa verið fetið eða eitthvað svoleiðis.  …  Þannig að í raun og veru sá ég bara þessi föstu og venjulegu vinnubrögð.  …  Og ég gerði mér ekki grein fyrir neinu fyrr en hann kom inn á eftir að eitthvað hafði skeð.  …  Því að ég bara fylgdist með og leit aftur til að fylgjast með til að sjá hvenær hann væri búinn að setja landganginn á bryggjuna og sleppa endunum.“

Vitnið staðhæfði að eftir slysið hefði stefnandi verið „ómögulegur“, en treysti sér ekki til að lýsa ástandi hans frekar.

Vitnið Einar Hermannsson, skipaverkfræðingur, skýrði frá því fyrir dómi að það hefði komið að smíði hinnar nýju Hríseyjarferju, sem skipatæknilegur ráðgjafi Vegagerðarinnar, sem hafi í umboði ríkissjóðs verið hinn formlegi eigandi skipsins.  Vitnið kvað skipið hafa verið hannað án landgöngubúnaðar, en gert hafi verið ráð fyrir að hann tilheyrði hafnaraðstöðunni.  Í tilfelli Hríseyjarferjunnar hefði smíðaaðili skipsins því keypt lausa landganga og látið þá fylgja með við afhendingu í júlímánuði 2000.

Vitnið kvaðst fyrst hafa heyrt af umkvörtunum skipverja ferjunnar um óviðunandi landganga nokkrum mánuðum eftir að skipið hóf siglingar og skoðað vinnuaðstöðu þeirra um það bil ári síðar.  Vitnið sagði að umræddir landgangar er fylgdu skipinu hafi verið úr áli, tiltölulega stuttir og því ekki verið mjög þungir.  Vitnið kvað skipverjana hafa þurft að lyfta þeim um borð með handafli.  Vitnið kvað slíkt verklag í raun algengt, en þar sem skipið hefði að jafnaði komið átta til níu sinnum til hafnar á hverjum degi hafi það litið svo á að landgangarnir væru vart ásættanlegir.  Vísaði vitnið í því sambandi sérstaklega til breytilegra sjávarfalla.  Hafi það m.a. valdið erfiðleikum, að það dekk sem skipverjar og farþegar gengu inn á, hafi ýmist verið um meter yfir bryggjukantinum á stórstraumsfjöruborði eða undir bryggjukantinum, en þess á milli hafi ekki þurft að nota landgangana.  Kvaðst vitnið því hafa látið það álit  í ljós að greint fyrirkomulag væri óviðunandi miðað við aðstæður.  Í kjölfar þess hafi verið ráðist í úrbætur í samráði við Siglingamálastofnun.  Hafi núverandi landgöngubúnaði, sem sé fjarstýrður, verið komið fyrir í höfnum skipsins, en kostnaði vegna þeirra framkvæmda hefði verið skipt milli Vegagerðar ríkisins, Hafnasamlags Norðurlands og Hafnarbótasjóðs.

IV.

Stefnandi styður málssókn sína á hendur stefnda við það, að orsakir slyss þess sem hann kveðst hafa orðið fyrir um borð í ferjunni Sævari EA, skrnr. 2378, að morgni 18. september 2000 hafi mátt rekja til vanbúnaðar skipsins.

Samkvæmt framlögðum gögnum var haffærisskírteini fyrir Sævar gefið út 20. júlí 2000.  Er þar skráð að Vegagerð ríkisins sé eigandi skipsins og það sé 149 brúttótonn.

Fyrir liggur að Hríseyjarhreppur tók við rekstri skipsins þá um sumarið og var það í tíðum áætlunarferðum milli heimahafnar í Hrísey og Árskógssands, en um 4 kílómettrar eru á milli kauptúnanna.  Leysti skipið af hólmi eldra skip, en það mun hafa verið um 46 brúttótonn.  Var stefnandi einn af þremur skipverjum á Sævari, en hann hafði líkt og skipstjórinn Smári Thorarensen verið skipverji á hinu eldra skipi um árabil.  

Samkvæmt vitnisburði Einars Hermannssonar var hið nýja skip, Sævar, hannað án þess sérstaka landgöngubúnar sem síðar var komið fyrir í höfnum þess síðla árs 2002.  Er áætlunarsiglingar hófust sumarið 2000 fylgdu því skipinu tveir lausir landgangar.  Voru þeir geymdir í höfnum skipsins á milli ferða, en þá hífðir um borð með handafli.  Af framlögðum gögnum, þ.á.m. ljósmyndum verður ráðið að landgangarnir hafi af verið af venjulegri gerð, frekar stuttir, smíðaðir úr áli og um 60 kg að heildarþyngd.  Samkvæmt frásögn stefnanda voru engir landgangar notaðir við siglingar á eldri ferjunni.

Við meðferð málsins hefur stefnandi lýst almennu verklagi við nefnda landganga á hinu nýja skipi, en einnig aðstæðum í höfninni á Árskógssandi, þ.á.m. sjólagi og veðri að morgni 18. september 2000.  Er frásögn hans að því leyti í aðalatriðum samhljóða frásögn skipstjórans, en þeir eru bræður.  Verður lagt til grundvallar að er atvik gerðust hafi skipverjar verið að undirbúa siglingu skipsins í annað sinn frá bryggjunni þennan morgun, að skipið hafi verið bundið við landfestar, að lágsjávað hafi verið og norðankaldi og að nokkur kvika hafi verið við bryggjuna.  Frásögn þeirra ber og saman um að stefnandi hafi verið að færa landganginn af skipinu með handafli er kvika færði það skyndilega frá bryggjunni með þeim afleiðingum að hnykkur kom á líkama stefnanda og hann misst landganginn frá sér.  Ber stefnandi að við þessar aðstæður hafi hann hlotið áverka sinn á hægri öxl.  Samkvæmt frásögn skipstjórans kvartaði stefnandi um eymslin eftir að skipið hafði látið úr höfn, en fyrir liggur að stefnandi hélt þrátt fyrir þetta áfram störfum sínum um borð í nokkra daga.

Þegar framangreint er virt í heild ásamt framlagðri matsskýrslu lækna og þeirra gagna sem þar er til vísað þykir nægjanlega sannað að stefnandi hafi slasast um borð í Sævari í umrætt sinn.

Samkvæmt gögnum ritaði skipstjórinn Smári Thorarensen tilkynningu um slys stefnanda til útgerðar skipsins og Tryggingarstofnunar ríkisins, sbr. ákvæði 221. gr. siglingarlaga nr. 34, 1985.  Að áliti dómsins er tilkynning þessi í nokkrum atriðum misvísandi.  Þar á meðal er skráð að stefnandi hafi slasast í heimahöfn skipsins í Hrísey og að enginn sjónarvottur hafi verið að því.  Þá er tilkynningin ódagsett.  Fyrir dómi greindi skipstjórinn frá því að með skráningunni hafi hann átt við að þeir farþegar sem voru um borð hafi ekki séð atburðinn, en áréttaði að samkvæmt venju hefði hann fylgst með vinnubrögðum stefnanda út um glugga á brúnni.  Hann treysti sér hins vegar ekki til að segja til um hvenær hann ritaði tilkynninguna og frásögn sína af atburðinum.  Að þessu virtu og með hliðsjón af andmælum stefnda er ósannað að stefndi hafi fengið tilkynninguna í hendur.

Samkvæmt gögnum málsins hóf lögregla rannsókn á slysi stefnanda í september 2002.  Var tilefnið það að lögmaður stefnanda hafði formlega farið fram á að:   ,,lögreglan rannsakaði orsakir slyssins, útbúnað og aðstæður á slysstað þar sem óljóst er um bótaskyldu og ábyrgð vegna slyssins.”  Auk áðurrakinna skýrslna af stefnanda og skipstjóra tók lögregla ljósmyndir af ferjuskipinu Sævari við bryggju á Árskógssandi.  Verður ráðið að af myndunum megi sjá það verklag sem viðhaft var við umræddan landgang en einnig aðrar aðstæður.  Myndir þessar eru teknar 29. ágúst 2002 en ekki kemur fram hvenær dagsins það var.  Er og óumdeilt að allar aðstæður voru hinar sömu og þegar stefnandi slasaðist.  Lítur dómurinn svo á að sjópróf hefðu engu frekar leitt í ljós atburðarrásina þann 18. september 2000.

Samkvæmt frásögn stefnanda viðhafði hann venjulegt vinnulag við margnefndan landgang við bryggjuna á Árskógssandi umræddan morgun.  Af frásögn hans verður og ráðið að hann hafi haft fulla vitneskju um allar aðstæður við bryggjuna, þar á meðal að nokkur kvika var í höfninni.  Þá staðhæfði stefnandi að aðstæður hefðu ekki verið óvenjulegar og jafnframt að ekki hefði verið óalgengt á þessum tíma að skipið færðist frá bryggjunni.  Frásögn Smára Thorarensen skipstjóra var að þessu leyti samhljóða framburði stefnanda, en hann lét það álit í ljós að það vinnulag sem viðhaft var við landgangana hefði með hliðsjón af þyngd þeirra ekki stefnt öryggi skipverja í hættu.  Verður ráðið að hann hafi talið að verklagið hafi frekar valdið skipverjunum óþarfa erfiði, sérstaklega þegar hásjávað var.

Að virtum ofangreindum gögnum leggur dómurinn til grundvallar að er atvik máls þessa gerðust, um kl. 09:30 þann 18. september 2000, hafi verið smástraumsfjara og að bryggjuþekjan hafi verið nálægt 40 cm. neðar en dekk ferjuskipsins Sævars.  Samkvæmt framansögðu hafði skipið fullgilt haffærisskírteini og fullnægði því ákvæðum laga nr. 35, 1993 um eftirlit með skipum.  Af gögnum verður heldur ekki annað ráðið en að þeir landgangar sem fylgdi skipinu er það hóf siglingar sumarið 2000 hafi verið af algengri gerð.  Óumdeilt er að stefnandi var mjög reyndur sjómaður er atvik máls gerðust.

Að öllu ofangreindu virtu verður að áliti dómsins að fallast á það með stefnda að umrætt slys stefnanda hafi orðið vegna kviku í höfninni á Árskógssandi er hafi fært ferjuskipið Sævar frá bryggjunni þar sem það var bundið við landfestar þá er stefnandi var við venjubundin störf sín um borð.

Er það álit dómsins að slys stefnanda verði hvorki rakið til þess að óforsvaranleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð, að öryggisreglna hafi ekki verið gætt eða að skipið hafi verið vanbúið þannig að saknæmt hafi verið fyrir stefnda.  Verður að telja að tjón stefnanda verði rakið til óhappatilviks og óaðgæslu hans í greint sinn.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 559.450, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þorsteins Hjaltasonar hdl. kr. 400.000 að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991 fyrir uppkvaðningu dómsins, sbr. skriflegar yfirlýsingar lögmanna þar um.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari, Gunnar Arason skipstjóri og Gunnar Tryggvason skipaverkfræðingur.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Akureyrarkaupstaður, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Bjarna L. Thorarensen.

Málskostnaður fellur niður.

             Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, kr. 559.450, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Þorsteins Hjaltasonar hdl. kr. 400.000, að meðtöldum virðisaukaskatti.