Hæstiréttur íslands

Mál nr. 118/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Mánudaginn 3

 

Mánudaginn 3. mars 2008.

Nr. 118/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. og c. liða 1. mgr. 103 .gr laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en fallist á að X yrði gert að sæta farbanni á grundvelli 110. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en fallist á að varnaraðila yrði bönnuð för úr landi allt til miðvikudagsins 9. apríl 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. mars 2008 kl. 16, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Varnaraðili krefst þess aðallega að farbanni verði markaður skemmri tími en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur aðalkrafa hans því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að úrskurðað verði að X, [kt. og heimilisfang], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. mars 2008, kl. 16:00 en til vara að honum verði gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 9. apríl 2008, kl. 16:00.

Kærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Hins vegar mótmælir kærði ekki kröfu lögreglustjóra um farbann.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að Lögreglan á Suðurnesjum hafi frá því í janúar sl. haft til rannsóknar kærur vegna ætlaðra kynferðisbrota manns gegn ungum stúlkum á aldrinum 10-12 ára. Þann 24. febrúar 2008 hafi kærði verið handtekinn í Sundmiðstöð [...] vegna rökstudds gruns um kynferðisbrot gegn 8 stúlkum á sama aldri eftir ábendingu frá fjórum þeirra. Þá hafi tvær þeirra stúlkna borið um að kærði hefði áreitt þær kynferðislega föstudaginn 22. febrúar sl. Um sé að ræða ætlað brot gegn samtals 10 stúlkum. í Sundmiðstöð [...]. Þá hafi starfsfólk sundlaugarinnar borið að stúlkurnar hefðu kvartað undan kærða og háttsemi hans.

Í morgun hafi kærði verið handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem hann reyndi að komast úr landi með flugi til Kaupmannahafnar.

Lögreglustjóri kveður rannsókn málsins vera á frumstigi og sé ljóst að mikil rannsóknarvinna sé framundan. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar og halda áfram brotum meðan máli hans er eigi lokið. Þykir lögreglu háttsemi kærða alvarleg og hafi hún beinst gegn mörgum stúlkum á að minnsta kosti eins mánaðar tímabili. Telur lögreglustjóri að ætluð háttsemi kærða kunni að varða við 22. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 202. og 209. gr. þeirra laga sem varðað getur fangelsi allt að 6 árum.

 Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, b- og c liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 22. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. mars 2008 kl. 16.00.

Kærði byggir kröfu sína um að gæsluvarðhaldskröfunni verði hafnað á því að beita beri vægara úrræði til að tryggja nærveru hans á meðan á rannsókn málsins stendur. Á grundvelli neitunar hans á sakargiftum mótmælir kærði jafnframt rökum lögreglustjóra um að líklegt sé að hann muni halda áfram brotum.

Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan er rakið, þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök. Kærði er af erlendu bergi brotinn og verður ekki séð að hann hafi þau tengsl við landið sem séu líkleg til að valda því að hann yfirgefi ekki landið eða komi sér ekki undan saksókn. Þá er fram komið að kærði reyndi að fara úr landi í morgun. Verður því að fallast á það með lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða til að ljúka megi rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort af saksókn verði.

Þegar rannsóknargögn málsins eru virt og litið til þess sem að framan er rakið, þykja ekki næg efni til þess að úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli b- og c-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eins og aðalkrafa lögreglustjóra lýtur að. Hins vegar teljast vera skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna kærða för úr landi allt til miðvikudagsins 9. apríl 2008 kl. 16:00. Arnfríður Einarsdóttir kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Hafnað er kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um gæsluvarðhald kærða, X, [kt. og heimilisfang].

Kærða er bönnuð för úr landi allt til miðvikudagsins 9. apríl 2008 kl. 16:00.