Hæstiréttur íslands

Mál nr. 252/2009


Lykilorð

  • Brot á allsherjarreglu
  • Lögreglusamþykkt
  • Húsbrot


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. nóvember  2009.

Nr. 252/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Almari Erlingssyni

Evu Hauksdóttur

Hauki Hilmarssyni

Jason Thomas Slade og

Sögu Ásgeirsdóttur

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Brot á allsherjarreglu. Lögreglusamþykkt. Húsbrot.

A, E, H, og S ásamt fjórum öðrum mönnum lokuðu veginum að Hellisheiðarvirkjun við mótmælaaðgerðir. Voru þau ákærð fyrir að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að opna veginn aftur fyrir umferð og hverfa af vettvangi. Var háttsemin talin varða við 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og ákvæði í lögreglusamþykkt fyrir Árnessýslu. Með vísan til forsendna héraðsdóms staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hans um sakfellingu ákærðu. Var talið að lögfull sönnun væri fram komin, þrátt fyrir neitun ákærðu, að þeim hafi verið gefin skýr fyrirmæli um að víkja af veginum og láta af aðgerðum að því marki sem þau gengu á rétt annarra til að fara um veginn. Töldust aðgerðir lögreglu því nauðsynlegar í umrætt sinn. Var A, E, H og S gert að greiða hvert um sig 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs auk sakarkostnaðar. Þá var J ákærður fyrir húsbrot með því að hafa við áðurgreindar mótmælaaðgerðir klifrað í heimildarleysi upp í byggingarkrana við virkjunina og hafst þar við í skamma stund. Var brot hans talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ágreiningslaust var að J fór ekki inn í stýrihús kranans. Ekki var fallist á með ákæruvaldinu að sú háttsemi að „klifra upp í“ kranann félli undir verknaðarlýsingu ákvæðisins. Þá tóku heldur engin ákvæði í lögreglusamþykkt fyrir Árnessýslu til þessarar háttsemi J. Var hann samkvæmt þessu sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2008, að fengnu áfrýjunarleyfi, í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærðu en þyngingar á refsingu.

Ákærði Jason Thomas Slade krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður.

Ákærðu Almar Erlingsson, Eva Hauksdóttir, Haukur Hilmarsson og Saga Ásgeirsdóttir krefjast sýknu.

Mál þetta var höfðað gegn ákærðu og fjórum öðrum mönnum með ákæru lögreglustjórans á Selfossi 2. janúar 2008. Í héraði voru öll ákærðu sakfelld. Fjórir dómfelldu una dómi en ákærðu neita sök. Í I. kafla ákæru er ákærðu Almari Erlingssyni, Evu Hauksdóttur, Hauki Hilmarssyni og Sögu Ásgeirsdóttur gefið að sök að hafa 26. júlí 2007 „við mótmælaaðgerðir á vegi að Hellisheiðarvirkjun, Sveitarfélaginu Ölfusi, þar sem ákærðu lokuðu umræddum vegi við aðgerðir sínar, ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að opna veginn aftur fyrir umferð og hverfa frá vettvangi.“ Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu samkvæmt þessum kafla og varða brot þeirra við 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 11. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. lögreglusamþykktar fyrir Árnessýslu nr. 134/1939, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um lögreglusamþykktir nr. 36/1988, en samkvæmt 8. gr þeirra laga var hún enn í gildi er brot ákærðu voru framin, sbr. nú 2. mgr. 6. gr.  reglugerðar um lögreglusamþykktir nr. 1127/2007.   

         Í II. kafla ákæru er ákærði Jason Thomas Slade sakaður um að hafa við áðurgreindar mótmælaaðgerðir klifrað í heimildarleysi upp í byggingarkrana við Hellisheiðarvirkjun og hafst þar við í skamma stund. Er brot hans talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

         Ákærði reisir kröfu sína um frávísun frá héraðsdómi í fyrsta lagi á því að ósannað sé að Orkuveita Reykjavíkur eða Ístak hf., sem lagt hafi fram kröfu um refsingu á hendur ákærða í málinu, séu eigendur kranans. Ekkert er fram komið í málinu um annað en að umræddur byggingarkrani hafi verið í eigu eða réttmætum umráðum kærenda. Þá reisir ákærði kröfu sína um frávísun í annan stað á því að lögpersóna geti ekki lagt fram kröfu um opinbera ákæru samkvæmt 2. tölulið a. 242. gr. laganna, enda sé þar gert ráð fyrir að brot gegn 231. gr. sæti opinberri ákæru eftir kröfu þess manns, sem misgert var við. Þeir sem lagt hafi fram kæru í málinu á hendur ákærða séu lögpersónur en ekki menn og skilyrði ákvæðisins því ekki uppfyllt. Samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga er refsivert að ryðjast inn í hús eða niður í skip annars „manns“, eða honum annan óheimilan stað. Lagagreinin er meðal þeirra ákvæða XXV. kafla laganna sem vernda friðhelgi einkalífs. Samkvæmt eðli máls og langri dómvenju njóta bæði einstaklingar og lögpersónur verndar eftir þessu ákvæði. Í samræmi við það er ekki fallist á með ákærða að skilja beri 2. tölulið a. 242. gr. laganna svo að eftir hljóðan þess verði ekki gerð krafa af hálfu lögpersóna um opinbera ákæru. Verður kröfu hans um að vísa málinu frá héraðsdómi því hafnað.

         Óumdeilt er að ákærði klifraði í heimildarleysi upp í byggingarkrana við Hellisheiðarvirkjun eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Hann kom sjálfviljugur niður eftir skamma stund. Er ágreiningslaust að ákærði fór ekki inn í stýrishús kranans. Honum er sem fyrr segir gefið að sök brot gegn 231. gr. almennra hegningarlaga. Ekki er fallist á með ákæruvaldinu að sú háttsemi að „klifra upp í“ kranann falli undir verknaðarlýsingu ákvæðisins. Í áðurnefndri lögreglusamþykkt fyrir Árnessýslu nr. 134/1939 eru heldur engin refsiákvæði sem taka til þessarar háttsemi ákærða. Verður hann samkvæmt þessu sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

         Með vísan til forsendna héraðsdóms um refsingu ákærðu og hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga verður hún staðfest.

         Ákærðu Almar, Eva, Haukur og Saga verða dæmd til að greiða óskipt 4/5 sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en 1/5 greiðast úr ríkissjóði, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði  Jason Thomas Slade er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu Almars Erlingssonar, Evu Hauksdóttur, Hauks Hilmarssonar og Sögu Ásgeirsdóttur.

Ákærðu Almar, Eva, Haukur og Saga greiði óskipt 4/5 sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, sem samtals er 793.832 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 747.000 krónur, en 1/5 sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands, ár 2008, mánudaginn 30. júní.

Mál þetta, sem þingfest var 11. febrúar sl. og dómtekið 12. júní sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 2. janúar 2008, á hendur Almari Erlingssyni, kt. 240586-3129, Austurbraut 1220, Reykjanesbæ, Evu Hauksdóttur, kt. 010767-5559, Mávahlíð 39, Reykjavík, Hauki Hilmarssyni, kt. 220786-2189, Hvammabraut 10, Hafnarfirði, Jason Thomas Slade, kt. 120777-2899, Grettisgötu 75, Reykjavík, Sögu Ásgeirsdóttur, kt. 100683-4669, Grettisgötu 75, Reykjavík, Anne Sofie Tagö, fædd 27. mars 1987, með óþekkt heimilisfang í Danmörku, Beatrijs Van Elsander, fædd 29. september 1977, með óþekkt heimilisfang í Belgíu, Emmu Phipps, fædd 23. júlí 1987, með óþekkt heimilisfang í Bretlandi, og Mette Trier Henten, fædd 6. nóvember 1987, með óþekkt heimilisfang í Danmörku,

„I. gegn ákærðu Almari, Evu, Hauki, Sögu, Anne, Beatrijs, Emmu og Mette fyrir brot á lögreglulögum og lögreglusamþykkt fyrir Árnessýslu

með því að hafa að morgni fimmtudagsins 26. júlí 2007 við mótmælaaðgerðir á vegi að Hellisheiðarvirkjun, Sveitarfélaginu Ölfusi, þar sem ákærðu lokuðu umræddum vegi við aðgerðir sínar, ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að opna veginn aftur fyrir umferð og hverfa frá vettvangi.

Telst brot ákærðu varða við 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, 1. mgr. 1. gr. og 11. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. lögreglusamþykktar fyrir Árnessýslu nr. 134/1939 frá 10. júlí 1939, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um lögreglusamþykktir nr. 36/1988.

II. gegn ákærða Jason fyrir húsbrot

með því að hafa við mótmælaaðgerðir þær er frá greinir í fyrri lið ákæru, í heimildarleysi klifrað upp í byggingarkrana við Hellisheiðarvirkjun og hafast þar við í skamma stund.

Telst brot ákærða varða við 231. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Einkaréttarkrafa

Í málinu gerir Hjörleifur B. Kvaran hrl. kröfu f.h. Orkuveitu Reykjavíkur, kt. 551298-3029 og Ístaks hf., kt. 540671-0959 um að ákærðu verði með dómi gert að greiða skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 741.933,- in solidum.“

Við þingfestingu málsins þann 11. febrúar sl. mættu ákærðu Anne Sofie Tagö, Beatrijs Van Elsander, Emma Phipps og Mette Trier Henten ekki þrátt fyrir löglega birtingu ákæru á hendur þeim ásamt fyrirkalli í Lögbirtingablaði þann 17. janúar sl., þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærðu fjarstöddum, og var þáttur þeirra tekinn til dóms samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Við þingfestingu málsins mættu ákærðu Almar, Eva og Saga. Ákærði Almar viðurkenndi það rétt að hafa lokað umræddum vegi við mótmælaaðgerðir en neitaði sök varðandi þann þátt að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu. Ákærða Eva játaði þá háttsemi rétta sem lýst er í ákæru en neitaði sök varðandi þann þátt að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu. Ákærða Saga játaði þá háttsemi rétta sem lýst er í ákæru en neitaði sök varðandi þann þátt að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu.

Ákærði Jason mætti fyrir dóminn þann 11. febrúar sl. og neitaði sök. Ákærði Haukur kom ekki fyrir dóminn fyrr en við aðalmeðferð málsins sem fór fram þann 19. maí sl. en var frestað til framhalds aðalmeðferðar til 12. júní sl. og var málið að því loknu dómtekið. Krafðist verjandi ákærðu sýknu og málsvarnarlauna og að þau yrðu greidd úr ríkissjóði.

Málavextir.

Í frumskýrslu lögreglu er greint frá því að Jón Eyjólfsson, starfsmaður Ístaks, hafi haft samband við lögregluna á Selfossi kl. 07:16 að morgni og tilkynnt um hóp mótmælenda frá Saving Iceland á veginum að Hellisheiðarvirkjun. Þar væru á ferð tíu til fimmtán manns á fjórum bifreiðum og hefðu þeir tekið sér stöðu skammt frá Hellisheiðarvirkjun svo að vegurinn að virkjuninni væri lokaður. Lögreglumenn frá lögreglunni á Selfossi og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ásamt lögreglumönnum úr sérsveit ríkislögreglustjóra fóru á vettvang. Þá hefði Jón Eyjólfsson aftur haft samband við lögregluna á Selfossi og greint frá því að einn mótmælandi væri kominn upp í byggingarkrana við enda stöðvarhúss.

Þegar lögreglumenn hefðu komið á vettvang hefðu þeir séð hvar einn mótmælandi hefði verið uppi í byggingarkrana ásamt því að tvær bifreiðar hefðu verið staðsettar þversum á veginum við Hellisheiðarvirkjun og hefðu þær lokað umferð í gegn. Sex einstaklingar hefðu verið hlekkjaðir við bifreiðarnar og aðrir tveir staðið og haft umsjón með hópnum. Lögreglumenn hefðu beðið um sjúkrabifreið og körfubifreið frá slökkviliði til þess að fjarlægja þann sem hefði verið í krananum. Ákærðu Eva og Haukur hefðu verið þau sem hefðu haft umsjón með hópnum. Þau hefðu einnig haft umráð yfir bifreiðinni UN-277 en henni hefði verið lagt þvert yfir akrein til austurs og hefðu þrír einstaklingar verið hlekkjaðir við bifreiðina. Þau hefðu verið beðin um að láta alla þá einstaklinga sem hafi verið á svæðinu á þeirra vegum fjarlægja bifreiðarnar og yfirgefa svæðið. Ákærða Eva hefði þá tjáð skýrsluritara að hann yrði að bera þessi orð undir hvern og einn en hefði ekki aðhafst frekar. Ákærðu Eva og Haukur hefðu þá verið beðin um að koma yfir í lögreglubifreið og hefðu þau gert það. Ákærðu hefðu ekki verið með skilríki á sér og hefðu ekki getað sannað hver þau væru. Ákærðu hefðu þá verið handtekin. Ákærðu Almar og Beatrijs hefðu hlekkjað sig saman með keðju og hefði plasthólkur verið yfir og hafi þau verið sitt hvorum megin við vinstra framdekk bifreiðarinnar KR-481. Ákærða Emma hefði legið undir sömu bifreið og hefði hún sett keðju utan um hálsinn á sér og krækt henni í afturfjöður bifreiðarinnar. Allir hlekkjuðu einstaklingarnir hefðu verið beðnir um að losa sig og opna veginn en þau hefðu neitað því. Klippt hefði verið á keðjuna hjá ákærðu Emmu og hún fjarlægð. Þá hefði bifreiðin verið tjökkuð upp til að fjarlægja ákærðu Almar og Beatrijs. Eftir að búið hefði verið að losa þessa einstaklinga hefðu þeir neitað að ganga að lögreglubifreiðunum og hefðu lögreglumenn þurft að bera þá þangað. Þeim hefði verið tjáð að þau væru handtekin. Ákærða Saga hefði verið hlekkjuð við bifreiðina UN-277 að aftanverðu og hefði þurft að klippa á keðjuna. Ákærðu Anne og Mette hefðu verið hlekkjaðar saman sitt hvorum megin við vinstra framdekk sömu bifreiðar og hefði járnhólkur verið yfir keðjunni sem þær hefðu verið hlekkjaðar við. Tjakka hefði þurft bifreiðina upp til að ná ákærðu Anne og Mette undan henni. Þegar búið hefði verið að losa konurnar hefðu þær neitað að ganga sjálfviljugar að lögreglubifreiðunum og hefðu lögreglumenn því einnig þurft að bera þær þangað. Þeim hefði öllum verið tjáð að þær væru handteknar. Ákærðu Anne og Mette hefðu verið fluttar á lögreglustöðina á Selfossi en ákærðu Almar, Beatrijs, Eva, Haukur, Emma og Saga hefðu verið flutt á lögreglustöðina á höfuðborgarsvæðinu.

Í skýrslunni er einnig greint frá því að Logi Jens Kristjánsson lögreglumaður og slökkviliðsmenn frá slökkviliði Árborgar hefðu farið upp með kranabifreið að byggingarkrananum til að hafa afskipti af þeim sem þar var. Kraninn hefði verið í yfir 30 metra hæð. Vegna hávaða frá virkjuninni hefði ekki verið hægt að koma skilaboðum til mótmælandans frá jörðu niðri. Kallað hefði verið til ákærða Jason, sem hefði verið í krananum, og hann beðinn að koma niður sem og hann hefði gert. Ákærði hefði síðan verið handtekinn. Samkvæmt skýrslunni var vettvangur yfirgefinn kl. 10:15.

Framburðir ákærðu og vitna fyrir lögreglu og fyrir dómi.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu þann 26. júlí 2007 neituðu ákærðu að tjá sig, fyrir utan ákærðu Evu. Aðspurð hvað gerst hefði á veginum að Hellisheiðarvirkjun að morgni þess dags sagðist ákærða Eva hafa staðið fyrir utan bifreið sína þegar þrír lögregluþjónar hefðu komið. Einn þeirra hefði spurt hvort ákærða væri í forsvari fyrir hópinn en hún neitað því og sagt að enginn væri í forsvari. Mjög stuttu síðar hefði sami lögregluþjónn komið og sagt að þau gætu farið með góðu eða annars þyrfti að fara leiðinlegri leið. Ákærða hefði svarað að hún gæti ekki fært bílinn meðan fólkið væri undir honum en hún skyldi færa hann um leið og fólkið væri farið. Hann hefði sagt að þau væru ekki föst en ákærða hefði sagt að hann gæti talað við þau hvert fyrir sig þar sem ákærða réði engu þarna. Fleiri lögreglubílar hefðu komið á staðinn. Lögreglukona hefði spurt hver ætti bifreið sem þar var. Ákærða hefði sagst eiga bifreiðina. Stuttu síðar hefði lögreglukonan farið með ákærðu inn í lögreglubifreið. Á hæla ákærðu hefði verið komið með meðákærða Hauk, son ákærðu, inn í lögreglubifreiðina. Um leið og meðákærði Haukur hefði komið inn í bílinn hefði hann sagt: „Fyrir hvað?“ Lögregluþjónninn sem kom inn með meðákærða Hauk hefði svarað: „Fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.“ Meðákærði Haukur neitaði að hafa óhlýðnast, heldur komið strax. Aðspurð hvort ákærða hefði ekki farið að fyrirmælum sem lögreglan hefði gefið henni um að losa þá hindrun sem sett hefði verið á veginn neitaði ákærða því.Hún hefði ekki getað gert það á meðan fólkið hefði legið undir bifreiðinni. Ákærða hefði tekið fram að hún myndi færa bifreiðina um leið og fólkið væri farið undan henni og hún hefði boðið lögreglukonu að fá lykilinn að bifreiðinni. Ákærða kvaðst neita algjörlega að hafa óhlýðnast lögreglu þar sem hún hefði ekki haft neina möguleika á að færa bifreiðina eins og á hefði staðið. Aðspurð um skráningarnúmer bifreiðar ákærðu sagði ákærða að það væri UN-277. Aðspurð hver hefði staðið fyrir því að hindra umferð um veginn sagði ákærða að enginn sérstakur hefði staðið fyrir því, enginn hefði stjórnað aðgerðum á staðnum. Aðspurð um sinn þátt í aðgerðunum kvaðst ákærða hafa ekið bifreiðinni upp að Hellisheiðarvirkjun og lagt henni þar. Nánar aðspurð kvaðst ákærða hafa lagt bifreiðinni hægra megin á veginum með framendann inn að miðju vegarins aftan við hina bifreiðina sem búið hefði verið að leggja á hinni akreininni. Aðspurð hver hefði útvegað ökutæki sem notuð voru til að hindra umferð um veginn kvaðst ákærða bera ábyrgð á UN-277 en kvaðst ekkert vita um hitt. Aðspurð kvaðst ákærða ekki vita hvaðan keðjur, hólkar, rör og annar búnaður væri sem notaður hefði verið til að hlekkja fólk við ökutækin. Aðspurð hverjir hefðu verið með ákærðu í þessum aðgerðum kvaðst ákærða ekki þekkja öll nöfn, sá eini sem hún þekkti almennilega væri meðákærði Haukur.

Eva gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurð kvaðst ákærða hafa verið viðstödd við mótmælaaðgerðir á vegi við Hellisheiðarvirkjun. Aðspurð um þátt ákærðu í mótmælunum kvaðst hún hafa verið bílstjóri. Nánar aðspurð kvaðst hún hafa ekið bifreiðinni að Hellisheiðarvirkjun og lagt henni eins og myndir sýndu sem teknar hefðu verið og hún hefði klæðst áberandi vesti í skærum lit til aðvörunar fyrir aðra umferð. Ákærða sagði að nokkuð langt væri liðið frá þessum atburðum en það sem hún myndi eftir núna væri að lögreglumenn hefðu komið til hennar og einhver þeirra hefði sagt henni að þau þyrftu að fara. Ákærða kvaðst þá hafa sagt að hún skyldi færa bifreiðina um leið og fólkið sem var undir henni hefði verið fjarlægt. Ákærða kvaðst einnig hafa boðið lögreglumönnum kveikjuláslykilinn að bifreiðinni og afhent þeim hann þegar hún var komin inn í lögreglubifreið. Aðspurð kvaðst ákærða ekki hafa tjáð fólkinu sem stóð í vegi fyrir því að bifreiðin yrði færð að hún hefði verið beðin um að færa bifreiðina. Aðspurð hvað hefði gerst eftir að lögreglan hefði beðið ákærðu að færa bifreiðina kvaðst hún hafa sagt að hún myndi færa bifreiðina um leið og fólkið hefði verið losað frá henni og þá hefði lögreglukona beðið ákærðu um að koma inn í lögreglubifreið og hefði ákærða orðið við því. Ákærða kvað annað fólk á svæðinu ekki hafa verið á hennar vegum en hún hefði verið bílstjóri þannig að þau hefðu verið með henni. Ákærða sagði að engar yfirheyrslur eða skýrslutökur hefðu farið fram í lögreglubifreiðinni en fleiri mótmælendur hefðu verið færðir inn í bifreiðina. Þá hefði verið farið með þau á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Ákærða neitaði aðspurð að hafa stjórnað einhverjum aðgerðum á staðnum. Aðspurð kvaðst ákærða hafa gert sér grein fyrir því þegar hún lagði bifreiðinni UN-277 að hún væri að loka fyrir umferð. Það hefði þó auðveldlega verið hægt að komast fram hjá með því að aka utan vegar og nokkrir hefðu gert það. Aðspurð kvaðst ákærða ekki hafa gert tilraun til þess að koma í veg fyrir að fólk festi sig við bifreið hennar og ástæðan væri sú að þetta hefði verið skipulögð mótmælaaðgerð. Ákærða sagði aðspurð að hún hefði farið á þennan tiltekna stað til að láta í ljós skoðun sína og mótmæla hlutdeild Orkuveitu Reykjavíkur í hernaði og öðru sambærilegu og vekja athygli almennings og verkamanna við virkjunina á því. Það hafi verið tilefni þess að fréttatilkynning hafi verið send um mótmælin um leið og þau voru mætt á staðinn. Aðspurð hvaða fyrirmæli ákærða hefði fengið frá lögreglu á staðnum kvaðst ákærða í rauninni ekki hafa fengið nein fyrirmæli sjálf önnur en þau að koma inn í lögreglubifreið og hún hefði alls ekki óhlýðnast því. Aðspurð hvort ákærða hefði orðið vör við að aðrir sem á staðnum voru hefðu fengið fyrirmæli frá lögreglu neitaði ákærða því, hún hefði verið sú fyrsta sem boðið hefði verið inn í lögreglubifreið og hún hefði heyrt lítið af því sem fram fór. Hún hefði ekki heyrt nein fyrirmæli frá lögreglu. Aðspurð kvaðst ákærða telja líklegt að þau hefðu verið rúmlega klukkustund á staðnum.

Eva gaf aftur skýrslu við framhald aðalmeðferðar málsins. Aðspurð um að vitnið Haukur Páll Ægisson hefði borið að hann hefði óskað eftir því að ákærða og fleiri þýddu lögreglufyrirmæli fyrir það fólk sem var ekki íslenskumælandi en var á vettvangi sagði ákærða að hún hefði ekki verið beðin um að þýða neitt og hefði ekki heyrt að meðákærði Haukur hefði verið beðinn um að þýða heldur, en hins vegar hefði einhver, ákærða kvaðst ekki muna hvort það hefði verið þessi lögreglumaður eða einhver annar, beðið þau um að fá meðákærða Jason til þess að koma niður úr krananum. Þau hefðu svarað því bæði að þau hefðu ekki neitt umboð til að gefa fyrirmæli þarna. Þau réðu ekkert yfir þessu fólki og væru engir foringjar. Ákærða kvaðst nánar aðspurð ekki muna eftir að hafa heyrt túlkað fyrir aðra. Ákærða hefði verið sú fyrsta sem hefði verið handtekin þannig að hún hefði ekki heyrt það sem fram fór eftir það.

Almar Erlingsson gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður um sakarefnið sagði ákærði svo frá að hann hefði verið bílstjóri hinnar bifreiðarinnar og hefði lagt henni eins og sæist á myndum teknum á vettvangi. Eftir að bifreiðinni hefði verið lagt hefðu þau sett upp borða með slagorðum gegn Orkuveitu Reykjavíkur og ákærði farið undir hana vinstra megin og hlekkjað sig við rör og fest sig við meðákærðu Beatrijs. Síðan hefðu þau verið fest við bifreiðina. Fyrstu lögreglumennirnir sem hefðu komið á svæðið hefðu einungis litið á þau sem voru undir bifreiðinni og hefðu greinilega verið að athuga aðstæður en þeir hefðu ekki yrt á þau, allavega ekki á ákærða. Ákærði kvað lögreglumennina ekki hafa talað við neinn annan. Um það bil hálftíma seinna hefði annað fólk í einkennisbúningi, sem ákærði kvaðst hafa haldið að væru lögreglumenn, kíkt undir bifreiðarnar. Þá fyrst hafi verið talað við ákærða og hann spurður hvað hann væri að gera og hefði ákærði útskýrt að þau væru að mótmæla. Manneskjan hefði farið burtu en stuttu síðar hefði annar lögreglumaður komið og spurt ákærða hvort hann væri til í að fara. Ákærði hefði svarað því neitandi. Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglumanninum að konan sem ákærði hefði verið hlekkjaður við talaði ekki íslensku en þeir hefðu ekki gert neina tilraun til að tjá sig við hana. Ákærði hefði hins vegar þýtt fyrir hana hvað hefði farið fram. Á endanum hefði verið komið með tæki til að losa þau. Að því loknu hefði ákærði verið spurður hvort hann vildi ganga en ákærði hefði svarað neitandi. Ákærði hefði þá verið tekinn upp af fjórum eða fimm lögreglumönnum og borinn inn í lögreglubifreið. Nánar aðspurður sagði ákærði að þau hefðu verið að mótmæla eyðingu náttúru fyrir hergagnaframleiðslu. Ákærði sagði að þeir lögreglumenn sem seinna komu hefðu gert ráð fyrir því að lögreglumennirnir sem komu fyrst á vettvang hefðu skipað þeim að fara burt. Ákærði sagði að ákærðu öll hefðu skipulagt mótmælin en þó mismikið. Aðspurður neitaði ákærði því að þau hefðu óskað eftir aðstoð lögreglu við að mótmæla. Ákærði sagði einnig að hann hefði ekki tilkynnt lögreglu að þau hygðust mótmæla. Aðspurður hvort það væri rétt að ákærði hefði ekki fengið nein fyrirmæli frá lögreglunni, t.d. að fara af vettvangi, sagði ákærði það vera rétt. Hann hefði aðeins fengið illa orðaðar spurningar. Aðspurður hvort ákærði hefði aldrei heyrt lögregluna segja neitt á þá leið að hér væri um ólögmætar aðgerðir að ræða og skorað á þátttakendur að fara af vettvangi aðgerðanna, svaraði ákærði því neitandi.

Jason Thomas Slade gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins með aðstoð löggilts dómtúlks. Aðspurður um málsatvik sagði ákærði svo frá að þau hefðu komið að virkjuninni rétt fyrir kl. 7 að morgni. Ákærði hefði farið út úr bifreiðinni þegar þau hefðu verið komin og gengið í átt að krananum sem hefði verið inni á svæði virkjunarinnar. Ákærði hefði farið að krananum og klifrað upp í hann og hengt upp borða með skilaboðum. Nánar aðspurður sagði ákærði að það hefði ekki verið nein hindrun fyrir því að ákærði færi upp í kranann. Þar hefðu ekki verið nein skilti. Ekkert, hvorki á íslensku né ensku, hefði gefið til kynna að ákærði mætti ekki að vera þarna. Aðspurður kvaðst ákærði hafa gert sér grein fyrir því að hann væri að tefja vinnu á vinnusvæði og að það gæti haft í för með sér kostnað fyrir verktaka og verkkaupa. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hversu lengi hann hefði verið í krananum, en kvaðst halda að það hefðu verið tveir til þrír tímar. Aðspurður um það hvað lögregla hefði sagt við ákærða sagðist ákærði ekkert hafa heyrt í lögreglumönnum fyrr en hann hefði verið kominn niður á jörðu aftur og þá hefði honum verið sagt að hann væri handtekinn. Ákærði kvaðst hafa farið sjálfviljugur niður úr krananum en hann hefði ekki haft leyfi eiganda kranans til að fara upp í hann en benti á að engin merki eða skilti hefðu gefið til kynna að hann mætti ekki fara upp í kranann. Ákærði neitaði aðspurður að hafa tekið þátt í að hindra umferð á vinnusvæðinu. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið nein fyrirmæli frá yfirvöldum á staðnum en hann hefði verið það hátt uppi að hann hefði varla séð hvernig fólk athafnaði sig á jörðinni. Ákærði kvað þó rétt vera að hann hefði séð lögregluna en ekki séð hana gefa sér nein merki eða handahreyfingar um að koma niður. Ákærði kvað það rétt að þótt lögreglan hefði reynt að kalla í hann þá hefði hann ekki heyrt í henni fyrir hávaða eða öðru.

Haukur Hilmarsson gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður kvaðst ákærði hafa tekið þátt í mótmælum Saving Iceland þann 26. júlí 2007. Kvaðst ákærði hafa verið fjölmiðlafulltrúi og hefði átt að ræða við fjölmiðla ef þeir hefðu mætt á svæðið og aðra þá sem kynnu að vilja ræða við ákærða eða ræða við hópinn. Ákærði kvaðst ekki hafa getað tekið ákvörðun fyrir aðra á staðnum en hann hefði getað svarað spurningum sem lutu að fréttatilkynningunni og aðgerðinni eins og hún hafði verið skipulögð. Ákærði neitaði að hafa tekið þátt í því að hindra umferð um veginn að vinnusvæðinu. Aðspurður hver nákvæmlega hans þáttur hefði þá verið sagði ákærði að hann hefði staðið á svæðinu, verið rækilega merktur að hann minnti með vesti og hann hefði haft fréttatilkynninguna undir höndum og verið reiðubúinn að svara spurningum. Ákærði kvaðst einnig hafa verið tilbúinn til að vera í samskiptum við fólkið sem var undir bílunum. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið fyrirmæli frá lögreglu um að yfirgefa vettvang. Ákærði kvaðst hafa komið með öðrum meðákærðu á svæðið og hann hefði farið af staðnum í lögreglubifreið til Reykjavíkur og hefði verið í handjárnum. Ákærði Haukur gaf aftur skýrslu við framhald aðalmeðferðar málsins. Aðspurður um að vitnið Haukur Páll Ægisson hefði borið að hann hefði óskað eftir því að ákærði og meðákærða Eva þýddu lögreglufyrirmæli fyrir mótmælendur sem ekki voru íslenskumælandi sagðist ákærði ekki kannast við að hafa þýtt fyrirmæli lögreglumannsins fyrir fólkið.

Saga Ásgeirsdóttir gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hún hafa tekið þátt í umræddum mótmælum. Aðspurð um þátt ákærðu í mótmælunum kvaðst ákærða hafa tekið þá afstöðu að hún vildi læsa sig við annan bílinn, þann minni, sem hefði verið hægra megin þegar komið var að orkuveitunni. Ákærða sagði að lögreglan hefði aldrei gefið henni nein fyrirmæli. Ákærða kvaðst hafa reiknað með því að þau væru að hindra umferð en sagði að ansi margir bílar hefðu komið að orkuveitunni, vegurinn hefði verið lokaður en ekki aðgangur að orkuveitunni. Ákærða kvaðst hafa hlekkjað sig við bifreiðina með járnkeðju með lás á endanum og hana hefði ákærða fest undir rör sem var undir bílnum en hún hefði verið hlekkjuð við bifreiðina í einn til einn og hálfan klukkutíma, kannski tvo, ekki mikið lengur en það. Ákærða kvaðst hafa verið með lykil að lásnum en lögreglan hefði klippt á lásinn til að losa hana. Aðspurð hvort lögreglan hefði sagt eitthvað við ákærðu sagði ákærða að þeir hefðu helst vísað til þess að ákærða ætti að vera róleg þannig að þeir mundu ekki slasa hana. Einu orðin sem ákærða kvaðst hafa heyrt frá lögreglu voru að þarna væri ein önnur undir bifreiðinni. Það hefði verið um hálftíma áður en ákærða var tekin undan bifreiðinni. Ákærða sagði að aldrei hefði verið haft samband við hana, það hefði aldrei verið talað á ensku svo ákærða vissi til, og hún kvaðst telja að enginn hefði verið upplýstur almennilega um að þeir væru í órétti og það ætti að handtaka þá. Aðspurð neitaði ákærða því að hún hefði heyrt lögregluna eða menn á vegum lögreglunnar ávarpa mótmælendur efnislega á þá leið að það sem þeir væru að gera á staðnum væri óheimilt og þeim bæri að víkja af staðnum. Þetta hefði hvorki verið sagt almennt eða við ákærðu sérstaklega.

Vitnið Jón Eyjólfsson, kt. [...],[...] í Danmörku, tæknimaður hjá Ístak, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður um málsatvik sagði Jón svo frá að þegar hann kom til vinnu um morguninn, hefði hann séð einhvern umgang af fólki á veginum og þegar hann kom að þá hefði hann séð að fólkið hefði verið búin að hlekkja sig saman undir bifreiðum. Þau hefðu stungið höndunum inn í járnrör og einhvern veginn fest hendurnar saman þar inni. Þá hefði einhver kallað og sagt að það væri maður að fara upp í byggingarkrana. Sá maður hefði hengt upp borða á kranann. Jón kvaðst þá hafa hringt í lögreglu sem kom á vettvang. Kvað Jón að vinnustaðurinn hefði stöðvast í um þrjá klukkutíma eða þangað til maðurinn hefði komið sjálfviljugur niður og farið í fylgd lögreglu í burtu af svæðinu. Jón kvaðst ekki hafa reynt að kalla til hans eða stöðva hann en kranamaðurinn hefði sjálfur farið upp í kranann á eigin vegum og ætlað að stöðva manninn og koma honum niður en eftir fortölur hefðu þeir fengið hann ofan af því. Aðspurt um að ákærði Jason Slade hefði lýst því að kranamaðurinn hefði fært kranann til, snúið honum, sagði Jón að það gæti passað en kvaðst ekki vera alveg viss. Sagði Jón að stjórnhús kranans hefði verið í um 30 til 35 metra hæð og ákærði hefði verið í svipaðri hæð. Aðspurður um að allir ákærðu hefðu haldið því fram að þeir hefðu ekki tafið umferð sagði Jón að það væri ekki rétt. Þeir hefðu lagt tveimur bifreiðum þvert fyrir veginn þannig að það hefði ekki verið hægt að koma neinum bílum inn á vinnustaðinn með nokkrum hætti. Jón kvað mótmælin hafa endað með því að bílarnir hefðu verið tékkaðir upp og hjólin skrúfuð undan þeim, til þess að geta fjarlægt fólkið af staðnum.  Seinna hefðu bílarnir verið dregnir burtu. Jón kvaðst aðspurður hafa heyrt lögreglu ræða við mótmælendur en hann hefði þó ekki fylgst náið með því. 

Vitnið Sólrún Bjarnadóttir, kt. [...], lögreglumaður, gaf skýrslu fyrir dóminum. Aðspurð um aðkomu hennar að málinu sagði hún að óskað hefði verið eftir aðstoð við flutning á handteknum aðilum til Reykjavíkur. Aðspurð um aðstæður sagði hún að fólk hefði verið búið að hlekkja sig undir bifreiðar en hún hefði komið á staðinn áður en fólkið var losað undan bílunum en kvaðst ekki hafa tekið þátt í því að losa fólkið.

Vitnið Júlíana Bjarnveig Bjarnadóttir, kt. [...], lögreglumaður, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið á vettvang á stórri lögreglubifreið til að annast flutning á handteknum til Reykjavíkur. Það hefðu verið einu afskipti hennar af ákærðu. Aðspurð kvaðst hún hafa verið komin á staðinn áður en fólkið var losað undan bílunum en ekki tekið þátt í að losa fólkið heldur einungis flutt það.

Vitnið Jóhannes Snævarr, kt. [...], lögreglumaður, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið á vettvang frá Reykjavík ásamt fleiri lögreglumönnum. Fyrst þegar þau komu hefðu þau séð að búið var að leggja jeppa fyrir afleggjarann sem liggur að virkjuninni. Þá hefði einhver verið uppi í krana með borða sem hann var búinn að hengja upp. Kvað Jóhannes sín afskipti hafa verið að flytja fólk til Reykjavíkur og að aðstoða lögregluna á Selfossi við að losa fólk sem var búið að festa sig á staðnum. Þá hefði verið reynt eitthvað að ræða við fólkið en hann kvaðst ekki alveg muna hvernig það hefði verið.

Vitnið Runólfur Þórhallsson, kt. [...], lögregluvarðstjóri, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið á vettvang að beiðni lögreglunnar á Selfossi. Kvaðst Runólfur hafa veitt aðstoð við að losa fólk sem hafði hlekkjað sig bæði saman og eins við bifreiðarnar sem var lagt á veginum. Aðspurður hvort hann hefði gefið einhver fyrirmæli til fólksins um að það viki af vettvangi kvað hann það rétt vera en hann  hefði byrjað á því að biðja fólkið um að fara af sjálfsdáðum. Aðspurður um viðbrögð mótmælenda sagði hann að fólkið hefði gefið til kynna að það ætlaði ekki að verða við þessari beiðni þeirra eða þessum fyrirmælum. Varðandi fólkið sem lá undir bílunum, þá hefði lögreglan þurft að fara undir bifreiðarnar til þeirra og klippa á lása sem hefðu verið utan um hálsinn á þeim og fest við burðarbita eða öxul undir bifreiðunum. Aðspurður um viðbrögð fólksins eftir að búið hefði verið að losa það sagði hann að það hefði komið undan bifreiðunum og ekki veitt neina mótspyrnu. Aðspurður hvort hann hafi orðið var við að sá sem stjórnaði aðgerðum ávarpaði mótmælendur og lýsti því í fyrsta lagi yfir að staða þeirra á staðnum væri ólögleg og í öðru lagi að þeim bæri að víkja af staðnum kvaðst hann ekki muna nákvæmlega hvað lögreglan hefði sagt en hún hefði talað við fólkið og gert því grein fyrir hvað lögreglan myndi gera ef það hlýddi ekki fyrirmælum. Runólfur kvað enga hættu hafa stafað af aðgerðum mótmælendanna á staðnum nema þá hugsanlega gagnvart þeim sjálfum.  Runólfur kvað veginn að virkjuninni hafa lokast með þessum aðgerðum. Runólfur sagði að hægt hefði verið að komast að virkjuninni á einhverjum farartækjum utan vegar og það hefði verið hægt að fara aðra leið að virkjuninni. Runólfur kvað það rétt að munnleg fyrirmæli hefðu verið gefin á staðnum af hálfu lögreglu um að fara af vettvangi eða losa sig frá  bifreiðunum og hefði lögreglukona frá Selfossi gefið þau fyrirmæli. Kvaðst hann ekki muna nákvæmlega hvað hún hefði sagt, en fyrirmælin hefðu verið alveg skýr. Þetta hefðu verið bæði fyrirmæli um að fólkið losaði sig og færi af veginum og eins hefði hún skýrt út fyrir mótmælendum að lögreglan myndi losa þá ef þeir hlýddu ekki fyrirmælunum. Kvaðst Runólfur hafa hlustað á þessi fyrirmæli en þau hefðu verið gefin yfir allan hópinn. Kvað Runólfur sig minna að tveir hefðu verið hlekkjaðir hvor undir sinni bifreiðinni. Síðan hefðu verið tveir eða þrír aðilar sem hefðu verið með hólka utan um hendurnar og legið þannig að hendurnar hefðu verið undir bifreiðunum þannig að hluti af þeim hefði verið aðeins undir bifreiðunum. Kvað Runólfur mikla hættu hafa stafað af ef bifreiðarnar hefðu runnið af stað.

Vitnið Logi Jes Kristjánsson, lögreglumaður, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið á vettvang ásamt Runólfi. Þar hafi fólk verið búið að hlekkja sig undir og við ökutæki. Fólk hafi verið búið að hlekkja sig með keðju um háls og hefði hangið í bifreiðunum og svo verið með hólka á höndunum, stálhólka og sterkt plast og þar inni hafi það verið með keðjur. Kvað hann fólkið hafa verið losað frá bifreiðunum af lögreglu en hann hefði sjálfur farið upp í kranabíl, upp í 25–30 metra hæð, og kallað til þess sem var uppi í byggingarkrananum að þetta væri lögreglan og skipað honum að koma niður, bæði á íslensku og ensku, og hann hefði hlýtt strax. Aðspurður hvort hann hefði heyrt lögreglumenn gefa fyrirmæli á vettvangi sagði Logi að þegar þeir komu á staðinn þá hefði lögreglan verið að biðja fólk að koma undan bílunum en því hefði ekki verið hlýtt. Logi kvaðst hafa sett sig í mikla lífshættu með því að fara í kranabíl að biðja ákærða Jason um að fara niður úr byggingarkrananum. Kvað Logi mótmælendur hafa ætlað að koma í veg fyrir að menn sem unnu á svæðinu kæmust í og úr vinnu svo og að koma í veg fyrir að vinna gæti haldið áfram með því að stöðva vinnuvélar.

Vitnið Olivera Ilic, lögreglumaður, kom fyrir dóminn og sagði að  lögreglan hefði fengið tilkynningu í gegnum fjarskipti um að búið væri að loka veginum að Hellisheiðarvirkjun og ylli það ónæði fyrir starfsmenn virkjunarinnar. Þegar hún kom á vettvang hefði verið búið að leggja tveimur bifreiðum þvert fyrir veginn að Hellisheiðarvirkjun og fimm eða sex menn hefðu verið hlekkjaðir við bifreiðarnar. Tveir menn hefðu staðið hjá og þeim hefðu verið gefin fyrirmæli um að fara frá þegar hún komið að, en þeir hefðu ekki sinnt því. Kvaðst hún hafa gefið þeim ítrekuð fyrirmæli um að láta af þessu og opna veginn. Af því að mótmælendur hefðu ekki sinnt þessum beiðnum lögreglu um að opna veginn og fyrirmælum hennar svo í kjölfarið þá hefði hún farið út í það að opna veginn sjálf með því að fjarlægja mótmælendur af vettvangi. Olivera kvaðst aðspurð hafa verið stjórnandi á vettvangi og hún sjálf hefði gefið fyrirmæli um að fólkið yfirgæfi svæðið og hún hefði heyrt aðra menn gera það líka. Lögreglumenn frá Selfossi sem fyrst hefðu komið hefðu áður gefið fyrirmæli um að fólkið yfirgæfi svæðið en þeim fyrirmælum hefði ekki verið sinnt. Aðspurð hvort þau sem þarna áttu hlut að máli hefðu engu svarað sagði Olivera að þau sem stóðu hjá hefðu fyrst engu svarað en fyrir rest hefðu þau sagt að þau gætu ekki fært bifreiðarnar því það væri fólk hlekkjað við þær. Þau hefðu enga viðleitni sýnt til að aðstoða á einn eða annan hátt við að losa fólkið frá bifreiðinni. Þá hefðu þau fengið fyrirmæli um að fjarlægja bifreiðarnar. Fyrst önsuðu þau því ekki en þegar gengið hefði verið ítrekað á þau að færa bifreiðarnar hefðu þau sagt: „Ekki meðan fólkið er hlekkjað við þá.“ Þá hefði verið gengið á hvern og einn og ítrekaði óskað eftir því að fólkið færi. Sagði Olivera að til að losa fólkið frá hefði þurft að lyfta annarri bifreiðinni og tvær stúlkur færðar undan henni. Þær hefðu verið með hendurnar inni í járnhólk og hefðu verið fluttar með hólkinn inn í lögreglubifreið. Aðspurð hvort sá í krananum hefði fengið fyrirmæli neitaði Olivera því, þar sem hann hefði verið svo hátt uppi og mikill hávaði hefði verið frá virkjuninni. Um leið og lögreglan hefði fengið kranabifreið frá Hveragerði þá hefði maður frá sérsveitinni farið upp í krananum, kallað til hans að koma niður og hann hefði hlýtt því og komið niður. Kvað Olivera að nauðsynlegt hefði verið að færa byggingarkranann til með ákærða Jason uppi í krananum, svo hægt hefði verið að koma slökkvibifreiðinni að honum og koma fyrirmælum til hans. Aðspurð hvort fólkið hefði stofnað lífi og limum einhverra í hættu með mótmælaaðgerðum sínum sagði Olivera að það hefði aðallega stofnað sínu eigin lífi og limum í hættu. Mótmælendur hefðu ekki verið með neina tilburði við lögreglu eða starfsmenn á svæðinu. Olivera kvaðHauk Pál Ægisson lögreglumann hafa stjórnað vettvangi þar til hún kom á staðinn. Hefði hún heyrt þegar verið var að biðja fólkið um að fara og því lýst fyrir því að þetta væri bannað, að það þyrfti að opna veginn. Hún sjálf hefði sagt þeim sem stóðu við bifreiðarnar að færa þær en þau hefðu ekki sinnt því. Hún hefði beðið þau aftur um að færa bifreiðarnar og þau hefðu sagst ekki ætla að gera það meðan fólkið væri undir bifreiðinni og þá hefði hún beðið þau um að koma í lögreglubifreiðina sem þau hefðu gert. Sama saga hafi verið um þau sem hafi verið undir bifreiðunum. Áður en lögreglan aðhafðist nokkuð hefði þeim verið gerð grein fyrir því að lögreglan myndi losa þau undan bifreiðunum. Þau gætu gert það sjálf eða lögreglan gæti gert það. Þetta hefði verið sagt bæði maður við mann og yfir allan hópinn en fyrirmælin voru gefin á íslensku. 

Vitnið Einar Sigurjónsson, lögreglumaður, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið á vettvang í fyrstu lögreglubifreiðinni. Þá hafi verið búið að loka veginum að virkjuninni með tveimur bifreiðum, fólk verið búið hlekkja sig við bifreiðina og einn hafi verið uppi í krana. Tveir stjórnendur eða talsmenn hafi verið á staðnum sem hafi sagst sjá um þau sem voru hlekkjuð. Lögreglumennirnir hafi beðið fólkið að fara, bæði allan hópinn og eins hafi þeir talað við talsmennina. Þessu hefði ekki verið hlýtt. Þá hefðu þessi tvö verið tekin inn í lögreglubifreið og hann setið inni í lögreglubifreiðinni með þeim. Einar kvaðst ekki hafa gefið nein fyrirmæli sjálfur á staðnum en Haukur Páll Ægisson og Olivera Ilic lögreglumenn hefðu gefið fyrirmæli. Kvaðst hann muna að Haukur Páll hefði talað við þessi tvö, talsmennina. Hann hefði gefið þeim tækifæri til að fara og þeir hefðu gefið þeim tíma á meðan beðið var eftir fleiri lögreglumönnum á vettvang en engin merki hefðu verið um brottför. Kvað hann sig minna að þessi tvö hefðu sagt að þau réðu ekki yfir öðrum þarna, þau væru bara að sjá um fólkið. Aðrir hefðu ekkert sagt. Aðspurður hvort mótmælendur hefðu stofnað lífi og limum annarra, eða eignum annarra, í hættu með þessum aðgerðum kvað svo ekki hafa verið en þeir hefðu stöðvað atvinnustarfsemi og umferð. Það gæti vel verið að maðurinn í krananum hafi verið hættulegur þar.

Vitnið Ríkharður Örn Steingrímsson, lögregluvarðstjóri, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Sagði hann svo frá að kallað hefði verið eftir aðstoð frá Reykjavík upp að Hellisheiðarvirkjun til að aðstoða lögregluna á Selfossi og þegar þeir hefðu komið á staðinn hefðu verið þar tvær bifreiðar sem hefðu lokað veginum og fólk hefði verið búið að hlekkja sig við bifreið eða saman undir bifreið til að tefja umferð og jafnframt hafi einn maður verið uppi í byggingarkrana inni á vinnusvæðinu. Aðspurður sagði hann að fólkið hefði fengið skýr fyrirmæli um að fara frá og færa bifreiðarnar en þau hefðu ekki hlýtt því. Þá kvaðst hann hafa heyrt aðra lögreglumenn gefa skýrt til kynna að fólkið ætti að opna veginn, fjarlægja bifreiðarnar og fara sjálft af veginum en viðbrögð hefðu engin verið. Í framhaldi hefði fólkið verið losað frá og undan bifreiðunum og fólkinu hafi verið alveg ljóst hvað lögreglumennirnir voru að fara að gera þegar þeir byrjuðu að reyna að fjarlægja þau og þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli hefðu þau ekki viljað losa sig í sundur eða losa sig frá bifreiðunum.

Vitnið Haukur Páll Ægisson, lögreglumaður, gaf skýrslu við framhald aðalmeðferðar málsins. Aðspurður um málsatvik sagði hann að lögreglan hefði verið kölluð til snemma um morgun vegna þess að 10-15 manns hefðu lokað veginum, bæði fyrir ofan og neðan Hellisheiðarvirkjun. Þeir hefðu farið að neðri leiðinni sem væri aðalvegurinn að virkjuninni. Þar hefði verið Pajero og Toyota Corolla sem hefði verið lagt þversum yfir veginn og þarna hefðu verið sex manns sem hefðu verið bæði hlekkjaðir við bílana og svo tveir sem hefðu verið í forsvari fyrir hópinn. Kvaðst hann hafa gefið fólkinu skýr fyrirmæli um að yfirgefa vettvanginn en það neitað. Þeir hefðu þurft að ítreka fyrirmæli sín um að mótmælendur mættu ekki vera þarna. Þarna hefðu verið þessi tveir forsvarsmenn, Eva og Haukur, sem túlkuðu fyrir þá sem ekki skildu íslensku. Haukur Páll kvaðst strax hafa gefið fyrirmæli þegar hann kom á vettvang og skilaboðin hefðu verið afar skýr en þau hefðu verið túlkuð á ensku. Kvað Haukur Páll fólkið hafa verið hlekkjað bæði við bifreiðarnar og verið inni í hólk og hefði þurft að tjakka upp alla vega aðra bifreiðina til að ná fólkinu undan. Þá hefðu þau neitað að sleppa hólknum og hefðu þau verið flutt þannig í lögreglubifreiðinni á lögreglustöð. Þá hefðu mótmælendur neitað að ganga þannig að lögreglan hefði þurft að halda á þeim yfir í lögreglubifreiðarnar. Haukur Páll sagði að ákærði Jason hefði verið uppi í byggingarkrananum í yfir 30 metra hæð. Það hefði verið alveg ómögulegt að koma skilaboðum til hans þannig að það hefði verið kallaður til kranabíll frá slökkviliðinu. Einn sérsveitarmaður hefði farið upp með öðrum og gefið skipanir um að koma ákærða Jason niður og hann hefði gert það þegar skilaboðunum hefði verið komið til hans. Aðspurður hvort bílar hefðu komist um veginn sagði hann að vegurinn hefði verið alfarið lokaður. Það hefði ekki verið hægt að keyra framhjá. Haukur Páll kvaðst  ekki muna hvaða orðalag hefði verið notað við fyrirmælin frá honum en mótmælendum hefði ítrekað verið gefin skýr skilaboð um að yfirgefa vettvang en þeir hefðu ekki sinnt því.

Niðurstöður.

Ekki er ágreiningur um málavexti í máli þessu en bæði í skýrslum lögreglu og með vitnisburði vitna og ákærðu sjálfra hefur því verið lýst að hópur einstaklinga var á veginum sem liggur frá þjóðvegi 1 að Hellisheiðarvirkjun þar sem tveimur bifreiðum hafði verið lagt þversum á veginn og nokkrir aðilar voru undir bifreiðunum, ýmist hlekkjaðir saman eða við bifreiðarnar. Þá er ekki deilt um það að ákærði Jason fór upp í byggingarkrana á vinnusvæðinu og festi þar borða með áletrun en hlýddi lögreglu um að koma niður um leið og tókst að koma til hans fyrirmælum. Ákærðu sem komu fyrir dóminn lýstu því svo að þeir hafi verið, í nafni Saving Iceland, að mótmæla aðild Orkuveitu Reykjavíkur að hernaðaríhlutun með þessum aðgerðum sínum og hafi sent út fréttatilkynningu sama morgun til að vekja athygli á málstaðnum.

Ákæruliður 1.

Ákærðu, Almari, Evu, Hauki, Sögu, Anne Beatrijs, Emmu og Mette, er gert að sök að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að opna veginn að Hellisheiðarvirkjun fyrir umferð og hverfa af vettvangi. Þau ákærðu sem mættu fyrir dóminn kváðust öll hafa verið á eigin vegum en enginn sérstakur hafi stjórnað mótmælunum eða gefið fyrirmæli um hvernig þeim væri háttað. Þá kváðu þau að möguleiki hafi verið fyrir umferð að komast fram hjá þeim utanvegar svo og væri annar vegur að virkjuninni, auk þess að ekki hafi verið langt fyrir starfsmenn að ganga að virkjuninni frá þeim stað sem vegarlokunin var. Þá neituðu þau öll að hafa fengið nokkur fyrirmæli frá lögreglu um að hætta aðgerðum og yfirgefa svæðið, auk þess sem sumir mótmælenda hefðu verið erlendir og ekki skilið íslensku. Málsvörn ákærðu byggðist meira og minna á því að þau hafi átt stjórnarskrárbundinn rétt til að mótmæla, svo framarlega sem það væri gert á friðsaman hátt. Engu ofbeldi hafi verið beitt í umrætt sinn og þá hafi þau ekki veitt neinn mótþróa þegar lögreglan losaði þau og flutti þau á lögreglustöðvar. Þá töldu þau að brotið hafi verið á þeim að því leyti að þeim hafi ekki verið kynntur réttur sinn við handtökur og ekki fengið að vita fyrir hvað þau voru handtekin fyrr en lögregluskýrslur voru teknar af þeim síðar sama dag. Þá byggðu þau á þeim lögbundna rétti að mega halda fundi, sem hafi verið gert með þessum hætti. Þá töldu ákærðu þá hagsmuni sína og réttindi til að halda uppi lögmætum mótmælum, meiri en þá hagsmuni Orkuveitunnar að starfsmenn hennar gengju 200-300 metra í vinnu sína. Þá falli vegurinn að Hellisheiðarvirkjun ekki undir hugtakið „almannafæri“ í skilningi 19. gr. lögreglulaga og því skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt, enda hefðu þau mátt vera þarna þar sem um lögmætan tilgang var að ræða. Þau hafi ekki verið ógnandi né hafi verið um uppþot að ræða heldur hafi þau þvert á móti verið kurteis, og hafi þau sett sig í hættu með aðgerðum sínum þá hafi það verið þeirra mál. Þá hafi tilgangur þeirra ekki verið að loka fyrir umferð heldur sá að vekja athygli á málstað þeirra en þau hafi áhyggjur af umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar og því að Orkuveita Reykjavíkur sé óbeint að styðja við glæpsamleg athæfi um allan heim.

Í þessum ákærulið er ákært fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og brotið talið varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga og 11. gr., sbr. 1. mgr., 90 gr. lögreglusamþykktar fyrir Árnessýslu nr. 134/1939. Ákærðu hafa talið sig vera í fullum rétti við mótmælaaðgerðir sínar í umrætt sinn og hefði lögregla gengið á rétt þeirra með aðgerðum sínum. Margar lærðar greinar hafa verið skrifaðar um rétt einstaklinga til skoðana- og tjáningarfrelsis og er sá réttur bundinn í 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33 frá 1944 en þar segir í 2. mgr.: „Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“  Í máli þessu lokuðu ákærðu veginum að Hellisheiðarvirkjun, sem auk þess er vegur sem liggur upp á svæðið fyrir ofan virkjunina og er ætlaður almenningi til umferðar. Ekkert hefur komið fram um að vegurinn sé einkavegur og því hlýtur hann að vera á almannafæri í skilningi 19. gr. lögreglulaga. Ákærðu hefðu getað verið með aðgerðir sínar utan vegar eða í vegkantinum svo framarlega sem þær hefðu ekki raskað þeim rétti manna að fara um veginn. Breytir þar engu þótt ákærðu haldi því fram að bifreiðar hafi komist utanvegar framhjá þeim eða eftir öðrum vegi sem liggur ofar á heiðinni. Starfsmaður í Hellisheiðarvirkjun tilkynnti lögreglu um aðgerðir ákærðu og bar lögreglu því að sinna þeirri kvörtun. Vitnin Olivera Ilic og Haukur Páll, lögreglumenn, staðfestu fyrir dóminum að þau hefðu gefið mótmælendum skýr fyrirmæli um að víkja af veginum og yfirgefa svæðið. Vitnisburður Ríkharðs Arnar Steingrímssonar, lögregluvarðstjóra, styður þann framburð en hann kvaðst hafa heyrt lögreglumenn gefa skýr fyrirmæli um að fólk færi af vettvangi. Þykir dóminum því lögfull sönnun fram komin, þrátt fyrir neitun ákærðu þar um, að ákærðu hafi verið gefin skýr fyrirmæli um að víkja af veginum og yfirgefa vettvang. Í 19. gr. lögreglulaga segir að almenningi sé skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri. Aðgerðir lögreglu fólust í umrætt sinn í því að halda uppi lögum og reglu á almannafæri. Þá kom fram í skýrslum fyrir dómi að ákærðu hafi neitað að ganga af vettvangi eftir að lögregla var búin að losa þau og því hefði þurft að bera þau af veginum og upp í lögreglubifreiðar. Í þeirri aðgerð einni felast mótmæli við að hlýða fyrirmælum, en öllum á að vera ljóst að staðsetning gangandi vegfarenda á miðri akbraut getur verið hættuleg og skapað hættu bæði fyrir akandi og gangandi umferð. Þá eru akvegir ekki ætlaðir fyrir liggjandi né gangandi fólk og á almenningi að vera það fullljóst. Ákærðu höfðu ekki skilríki á sér og því gat lögregla ekki gengið úr skugga um hverjir mótmælendur voru fyrr en komið var á lögreglustöð. Þá liggur fyrir að önnur bifreiðin var í eigu ákærðu Evu og bar hún ábyrgð á því að bifreiðin væri ekki þannig staðsett að hún truflaði aðra umferð. Þó svo að hún hafi borið því við að hún hafi ekki getað fært bifreiðina fyrr en þeir sem voru hlekkjaðir við hana hefðu losað sig, þá lagði hún til bifreiðina svo að aðgerðin fengi meiri þunga og með því að fara ekki að tilmælum lögreglu um að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar voru til að koma bifreiðinni af veginum, braut hún gegn 19. gr. lögreglulaga. Því var haldið fram af ákærðu að engin fyrirmæli hafi verið gefin á ensku en sum mótmælenda hefðu ekki skilið íslensku. Þau ákærðu, sem ekki töluðu íslenskt mál, samkvæmt ákærulið I, mættu ekki fyrir dóminn og kemst sú málsvörn því ekki að við úrlausn sakarefnis ákærðu Almars, Evu, Hauks og Sögu. Einnig verður að telja að ákærðu öllum hafi hlotið að vera ljóst þegar fjöldi lögreglumanna var kominn á vettvang að ætlunin hafi verið að fá þau til að yfirgefa svæðið. Samkvæmt 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er lögreglu heimilt að hafa afskipti af borgurunum í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu, til að gæta öryggis einstaklinga og almennings eða til að afstýra brotum eða stöðva þau. Í þessu skyni er lögreglu m.a. heimilt að vísa fólki á brott eða fjarlægja það og fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim. Í 19. gr. er síðan að finna almennt ákvæði sem kveður á um skyldu borgaranna til að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Í máli þessu liggur fyrir að ákærðu, samkvæmt ákærulið I, hlýddu ekki augljósum fyrirmælum lögreglu um að fara af veginum og láta af aðgerðum að því marki sem þau gengu á rétt annarra til að fara um veginn og voru aðgerðir lögreglu því nauðsynlegar í umrætt sinn og samrýmast heimildum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Verða ákærðu öll samkvæmt ákærulið I sakfelld fyrir þá háttsemi sem þar er lýst og hafa þau unnið sér til refsingar. Er háttsemin réttilega færð til refsiákvæða.

Ákæruliður 2.

Í þessum ákærulið er ákærða Jason Thomas Slade gert að sök að hafa farið í heimildarleysi upp í byggingarkrana við Hellisheiðarvirkjun og hafst þar við í skamma stund. Er brot hans fært undir 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði krafðist frávísunar á þessum ákærulið en að öðrum kosti sýknu. Kvað hann 231. gr. hegningarlaga vera í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem bæri yfirskriftina „Ærumeiðingar og friðhelgi einkalífs“. Háttsemi ákærða falli alls ekki undir skilgreiningu 231. gr. þar sem brotið samkvæmt þeirri grein verði að beinast að persónu og sú persóna verði að gera kröfu um refsingu. Orkuveita Reykjavíkur sé ekki persóna og geti því ekki gert kröfu á grundvelli 231. gr. Þá hafi enginn búið í byggingarkrananum, hann sé ekki hús eða skip og fólk hafist þar ekki að. Kraninn hafi verið á víðavangi og því hafi háttsemi ákærða verið færð undir rangt lagaákvæði. Vísar ákærði til þess að sá einn geti gert kröfu sem misgert var við, samanber 2. mgr. a. 242. gr. hegningarlaga. Í gögnum málsins liggur fyrir kæra undirrituð af Hjörleifi B. Kvaran hæstaréttarlögmanni þar sem hann kærir ofangreinda háttsemi fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur og Ístaks hf. sem unnu að Hellisheiðarvirkjun. Verður ekki fallist á þau rök að skilyrði 231. gr. hegningarlaga séu ekki uppfyllt þar sem ákvæðið er til verndar „húsi, skipi eða öðrum stöðum“. Ekkert er framkomið sem sýnir að byggingarkraninn, sem ákærði Jason klifraði upp í og hélst við þar til honum var fyrirskipað að yfirgefa hann af lögreglu, hafi ekki verið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur eða Ístaks og stafar krafan því frá réttum aðila. Er kröfu ákærða um að vísa þessum ákærulið frá dómi því hafnað. Ákærði hefur játað að hafa farið upp í kranann og hafst þar við þar til lögregla fyrirskipaði honum að yfirgefa hann. Ákærði kvaðst hafa verið að mótmæla virkjunarframkvæmdum á Hellisheiði og því fest borða á kranann í þeim tilgangi að vekja athygli á málstaðnum. Hefði hann ekki fengið neina heimild til að fara upp í kranann. Ákærða hlaut að hafa verið ljóst að kraninn tilheyrði starfsemi Hellisheiðarvirkjunar og því þyrfti hann að afla sér heimildar til að klifra upp í hann. Í eignarétti er meginreglan sú að óheimilt er að nota eða nýta sér eigur annarra til eigin þarfa nema með samþykki þess sem á. Ákærða Jason var því óheimilt að fara upp í kranann nema með leyfi eða samþykki umráðamanns eða eiganda. Það gerði hann ekki og braut því gegn 231. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi eins og henni er lýst í ákærulið 2 en hún er réttilega færð til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til þess að háttsemi ákærðu allra hafði að einhverju leyti áhrif á starfsemi Hellisheiðarvirkjunar. Fyrir liggur bótakrafa þar sem kemur fram að aðgerðir ákærðu hafi stöðvað starfsemina í þrjár klukkustundir. Samkvæmt lögregluskýrslum voru ákærðu komin á vettvang klukkan 7.10 þann 26. júlí 2007 og samkvæmt vistunarskýrslum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru nokkur ákærðu færð í fangaklefa klukkan 9.00 um morguninn. Þá liggja fyrir sakavottorð ákærðu og hefur þeim ekki verið gerð refsing áður utan ákærða Hauki Hilmarssyni. Samkvæmt sakavottorði var hann dæmdur þann 30. nóvember 2006 fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga í Héraðsdómi Austurlands og gert að greiða 200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og þann 21. desember 2006 var hann aftur dæmdur til greiðslu 50.000 króna sektar fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga. Ákærði Haukur hefur nú verið sakfelldur í þriðja sinn fyrir sambærilegt brot. Með vísan til þessa þykir refsing ákærðu Almars Erlingssonar, Evu Hauksdóttur, Sögu Ásgeirsdóttur, Önnu Sofie Tagö, Beatrijs Van Elsander, Emmu Phipps og Mette Trier Henten hæfilega ákveðin 50.000 króna sekt sem hverju fyrir sig er gert að greiða til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í fjóra daga. Ákærða Hauki Hilmarssyni skal gert að greiða 100.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms en sæta ella fangelsi í átta daga og ákærða Jason Thomas Slade skal gert að greiða 50.000 krónur til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í fjóra daga.

Í málinu liggur fyrir bótakrafa af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur, kt. 551298-3029, og Ístaks hf., kt. 540671-0959, að fjárhæð 741.933 krónur. Ákærðu kröfðust þess að bótakröfunni yrði vísað frá dómi en til vara þau yrðu sýknuð af henni. Við aðalmeðferð málsins breytti talsmaður tjónþola kröfunni svo að hún var eingöngu gerð af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur. Byggðist sú breyting á því að Orkuveita Reykjavíkur hefði þegar greitt Ístak hf. þann kostnað er Ístak hf. kvaðst hafa orðið fyrir vegna mótmælanna. Í málinu liggja fyrir verkfundargerð og Excel-skjal þar sem tekið er fram hversu margir verkstjórar, trésmiðir, járnamenn, verkamenn, mælingamenn, tæknimenn og tækjastjórar hafa lent í vinnustöðvun vegna aðgerðanna, fjöldi klukkustunda, eða þrjár klukkustundir á hvern, og tímagjald. Í málinu eru uppi misvísandi upplýsingar um þann tíma sem vinnustöðvunin varð í reynd og önnur gögn er staðfesta að ofangreindir starfsmenn hafi ekki getað sinnt starfi sínu. Breytir engu um þótt OR hafi samþykkt að greiða Ístak hf. þá fjárhæð sem krafið var um. Með vísan til þessa verður ekki hjá því komist að vísa bótakröfunni frá dómi með vísan til 5. mgr. 172. gr. i.f. laga nr. 19/1991.

Með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 373.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærðu, Almar Erlingsson, Eva Hauksdóttir, Jason Thomas Slade, Saga Ásgeirsdóttir, Anne Sofie Tagö, Beatrijs Van Elsander, Emma Phipps og Mette Trier Henten, greiði hvert um sig 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en sæti ella fangelsi í fjóra daga.

Ákærði Haukur Hilmarsson greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en sæti ella fangelsi í átta daga.

Ákærðu, Almar Erlingsson, Eva Hauksdóttir, Haukur Hilmarsson, Jason Thomas Slade og Saga Ásgeirsdóttir, greiði allan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bótakröfu Orkuveitu Reykjavíkur er vísað frá dómi.