Hæstiréttur íslands
Mál nr. 523/2005
Lykilorð
- Brot gegn blygðunarsemi
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2006. |
|
Nr. 523/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir hrl.) gegn X (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Brot gegn blygðunarsemi.
X var gefið að sök að hafa sært blygðunarsemi A með því að hafa tekið hreyfimyndir af henni á kvennasalerni veitingahúss í Kópavogi, þar sem hún var að hafa þvaglát. Talið var, að hlutrænt séð og svo sem aðstæðum var háttað í umrætt sinn, yrði ekki staðhæft að verknaður X teldist lostugt athæfi, svo sem áskilið sé í 209. gr. almennra hegningarlaga um brot gegn blygðunarsemi. Auk þess yrði X í sakarmati að njóta vafans sem var í málunu um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki verknaði hans. Var X því sýknaður af kröfum ákæruvalds, en ekki kom til álita í málinu að taka afstöðu til þess hvort önnur refsilagaákvæði kynnu að taka til umræddrar háttsemi hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. nóvember 2005 af hálfu ákæruvalds, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiákvörðunar.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað en að því frágengnu að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjunarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara yfir sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjunarkostnaður, 224.100 krónur, greiðist úr ríkissjóði, en það eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Auðuns Jónssonar hæstaréttarlögmanns.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. f.m., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 23. júní 2005, á hendur X, kt. [...], [...] í Hafnarfirði „fyrir að hafa sært blygðunarsemi A með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 22. janúar 2005 á kvennasalerni veitingahússins Players, Bæjarlind 2, Kópavogi, tekið hreyfimyndir af A þar sem hún var að hafa þvaglát. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þar er jafnframt getið bótakröfu, sem A gerir á hendur ákærða. Krefst hún þess að ákærða verði gert að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 198.515 krónur „auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 frá 22. janúar 2005 til greiðsludags“.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, til vara að ákvörðun refsingar hans verði frestað, en að því frágengnu að honum verði einungis gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þess er aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara er gerð krafa um sýknu af henni, en að því frágengnu að hún sæti lækkun.
I.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust viðurkennt að hafa, aðfaranótt laugardagsins 22. janúar 2005 á kvennasalerni veitingahússins Players, Bæjarlind 2, Kópavogi, tekið hreyfimyndir af konu þar sem hún var að hafa þvaglát.
Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði A svo frá að hún hafi verið að skemmta sér á veitingastaðnum Players hina umræddu nótt. Hafi hún verið á heimleið en ákveðið að fara á salernið áður. Á kvennasalerninu séu þrír salernisbásar og hafi hún farið inn á básinn sem er í miðjunni. Hafi hún verið að hafa þvaglát þegar hún hafi heyrt þrusk fyrir ofan sig. Þegar hún hafi litið upp hafi hún séð hendi og myndavél, ekkert annað, og gert sér grein fyrir því að verið væri að taka af henni myndir. Þegar félagi hennar hafi skömmu síðar spyrnt upp hurðinni að salernisbásnum við hliðina hafi ákærði staðið uppi á klósettinu. Kvaðst A telja að ákærði hafi þá verið að skoða myndir sem hann hafði tekið. Aðspurð kvaðst hún hafa upplifað þetta atvik eins og „að komið hefði verið að henni í sturtu enda þótt hún hefði verið fullklædd“. Mætti orða það svo að henni hafi fundist sem hún hafi verið svívirt. Þá hafi hún haft af því áhyggjur að myndunum yrði dreift á netinu.
Lýsing ákærða á atvikum er í samræmi við vitnisburð A svo langt sem hún nær. Hann hefur þó neitað því að hann hafi skoðað þær myndir sem hann tók í umrætt sinn. Þær hafi hann fyrst séð við aðalmeðferð málsins. Aðspurður um tilgang myndatökunnar skýrði ákærði svo frá að eingöngu hafi verið um fíflaskap af hans hálfu að ræða, „prakkarinn“ hafi komið upp í honum. Þá hafi hann í raun ekki gert sér grein fyrir því hvort hann væri staddur inni á karla- eða kvennasalerninu þá er hann tók myndirnar. Hann hafi verið talsvert ölvaður. Konuna sem um ræðir hafi hann aldrei séð meðan á myndatökunni stóð.
II.
Með játningu ákærða, vitnisburði A fyrir dómi og framlögðum sakargögnum telst nægilega sannað að ákærði hafi, aðfaranótt laugardagsins 22. janúar 2005, tekið hreyfimyndir af A inni á salerni veitingahússins Players í Kópavogi þar sem hún var að hafa þvaglát. Er ákærði með þessu framferði sínu talinn hafa sært blygðunarsemi A og gerst brotlegur við 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992 og 104. gr. laga nr. 82/1998.
Á myndum þeim sem saksókn ákæruvalds í málinu tekur til sést þar sem kona situr á salernisskál. Hefur hún girt buxur niður að hnjám og að hluta til sér í hægra læri hennar. Að öðru leyti sér ekki í bert hold.
Ákvæði 209. gr. almennra hegningarlaga tilheyrir kynferðisbrotakafla laganna. Það hljóðar svo: „Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að fjórum árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt.“ Vörn ákærða í málinu er á því reist að með athæfi sínu í umrætt sinn hafi hann hvorki sært blygðunarsemi þeirrar konu sem hann tók myndir af né sýnt af sér lostugt athæfi.
Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/1992, en með þeim var gerð talsverð breyting á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, segir svo meðal annars: „Ef kynferðisathafnir falla ekki undir neina af ofangreindum verknaðarlýsingum, þ.e. samræði, önnur kynferðismök eða aðra kynferðislega áreitni kann 209. gr. að eiga við um þær (brot gegn blygðunarsemi).“ Í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins segir svo meðal annars: „Af nýjum sérákvæðum í 200. 202. gr., sbr. 8. 10. gr. frumvarpsins um kynferðislega áreitni, leiðir hins vegar að undir 209. gr. fellur nú ýmiss konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma.“
Ljóst má vera að lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga er athöfn af kynferðislegum toga og sem stjórnast af kynhneigð manna, en gengur skemmra en samræði og önnur kynferðismök. Ákærði hefur borið því við að það athæfi hans sem hann telst hafa framið samkvæmt framansögðu hafi ekki verið af kynferðislegum rótum sprottið og að hann hafi eingöngu verið að „fíflast“. Hlutrænt séð og svo sem aðstæðum var háttað í umrætt sinn verður ekki staðhæft að verknaður ákærða teljist lostugt athæfi í framangreindum skilningi. Þar við bætist að í sakarmati verður ákærði að njóta vafans sem í málinu er um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki verknaði hans. Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist með ákæruvaldinu að ákærði hafi með háttsemi sinni í umrætt sinn gerst sekur um brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga. Þá kemur ekki til álita í málinu að taka afstöðu til þess hvort önnur refsilagaákvæði kunni að taka til þessarar háttsemi hans. Hann verður því sýknaður af refsikröfu ákæruvalds.
Með vísan til framangreindrar niðurstöðu og fyrri málsliðar 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður bótakröfu A vísað frá dómi.
Samkvæmt málsúrslitum skal sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvalds í málinu.
Bótakröfu A er vísað frá dómi.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Auðuns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.