Hæstiréttur íslands

Mál nr. 594/2014


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Riftun
  • Endurgreiðslukrafa
  • Aðild
  • Skaðabætur
  • Viðskiptabréf
  • Skuldabréf
  • Framsal


                                     

Miðvikudaginn 22. apríl 2015.

Nr. 594/2014.

Íslandsbanki hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Byr sparisjóði

(Árni Ármann Árnason hrl.)

og Byr sparisjóður

gegn

Íslandsbanka hf. og

til vara

Íslandssjóðum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Endurgreiðslukrafa. Aðild. Skaðabætur. Viðskiptabréf. Skuldabréf. Framsal.

Forveri sparisjóðsins B, SH, gaf árið 1998 út verðtryggð skuldabréf sem gengu kaupum og sölum á skipulögðum verðbréfamarkaði allt til ársins 2009 og keypti verðbréfasjóðurinn S, sem ÍS hf. annaðist rekstur á, slík skuldabréf árin 1998, 1999 og 2002. S seldi  hluta skuldabréfanna á árunum 2008 og 2009 og í kjölfar þess að B var tekinn til slita lýsti hann yfir riftun á tveimur greiðslum vegna innlausnar bréfanna. Viðskiptin voru framkvæmd á þann veg annars vegar að uppreiknað verðmæti skuldabréfanna var greitt til A hf. og fært þar á reikning H hf. og hins vegar með því að skuldabréfin voru færð á svonefnda millibók hjá Í hf., þaðan sem þau voru framseld til H hf. Í kjölfarið höfðaði B mál aðallega á hendur Í hf., til vara á hendur H hf., en að því frágengnu á hendur ÍS hf., til riftunar á greiðslunum tveimur og endurgreiðslu þeirra. Fyrir Hæstarétti undi B þeirri niðurstöðu héraðsdóms að H hf. hefði verið miðlari í viðskiptunum fyrir hönd S og hefði A hf. séð um uppgjör vegna þeirra. Fyrir réttinum beindi B því riftunar- og endurgreiðslukröfum sínum aðallega að Í hf., en ÍS hf. til vara. Í dómi Hæstaréttar var rakið að áritun um framsal þeirra skuldabréfa sem málið varðaði, þar sem forveri Í hf. ritaði sem framsalshafi undir framsal bréfanna frá ÍS hf. til H hf., væri þeim annmörkum háð að þar kæmi ekki fram berum orðum að forveri Í hf. hefði áritað bréfin fyrir hönd ÍS hf. um framsalið til H hf. Bæru framsöl bréfanna því ekki annað með sér en að framsalsröðin væri gölluð þar sem rof hefði orðið á henni. Að virtu því hvernig framsali skuldabréfanna var háttað taldi rétturinn að forveri Í hf. hefði ekki verið aðili að viðskiptunum. Var Í hf. því sýknaður af kröfum B. ÍS hf. bar fyrir sig aðildarskort með þeirri skírskotun að hann annaðist einungis rekstur og stýringu verðbréfasjóða í samræmi við starfsleyfi sitt, þ. á m. S, en væri hvorki eigandi þeirra fjármálagerninga sem sjóðirnir ættu viðskipti með né bæri ábyrgð á skuldbindingum þeirra. Hæstiréttur vísaði til þess að S væri eigandi þeirra skuldabréfa sem málið varðaði og starfaði sem verðbréfasjóður á grundvelli laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, áður laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en ÍS hf. væri sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og ræki meðal annars S samkvæmt heimild í lögum nr. 128/2011. Að virtum fyrirmælum laga nr. 128/2011 og lögskýringargögnum forvera þeirra laga, nr. 30/2003, taldi Hæstiréttur að ÍS hf. væri réttur aðili til að koma fram fyrir hönd S í dómsmálum varðandi sjóðinn, sbr. einnig dóm réttarins 27. september 2012 í máli nr. 702/2011. Því næst taldi Hæstiréttur að B væri heimilt að krefjast riftunar á þeim ráðstöfunum sem málið varðaði, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og voru skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laganna talin uppfyllt. Í því samhengi tiltók rétturinn að skuldara væri því aðeins heimilt að greiða lán hraðar upp að um það hefði verið ótvírætt samið og hefðu skuldabréfin ekki haft að geyma slíka uppgreiðsluheimild B, en greiðslur B hefðu eigi að síður átt sér stað fjórum árum fyrir gjalddaga skuldabréfanna. Væru greiðslurnar því ekki venjulegar eftir atvikum í merkingu 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 eins og ÍS hf. hélt fram, né heldur væru uppfyllt skilyrði 145. gr. laganna til niðurfellingar eða lækkunar endurgreiðslukröfunnar. Var því rift tveimur greiðslum B til S og endurgreiðslukrafa B á hendur ÍS hf. tekin til greina.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. september 2014. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 17. september 2014. Hann krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda. Til vara gerir gagnáfrýjandi svofelldar kröfur á hendur varastefnda í gagnsök: Að rift verði greiðslum frá gagnáfrýjanda til varastefnda í gagnsök 23. febrúar 2009 að fjárhæð 33.026.000 krónur og 10. mars sama ár að fjárhæð 128.881.000 krónur. Að varastefnda í gagnsök verði gert að greiða gagnáfrýjanda 161.907.000 krónur með vöxtum samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með nánar tilgreindri vaxtahæð af tilgreindum fjárhæðum frá 23. febrúar 2009 til 18. apríl 2013, en dráttarvöxtum af 161.907.000 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi varastefnda í gagnsök.

Varastefndi í gagnsök krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varastefndi í gagnsök hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita hér fyrir dómi.

I

Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðilanna er ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra í desember 2006 og í mars 2007 fékk nýi sparisjóðurinn nafn gagnáfrýjanda, sem hér eftir verður nefndur Byr sparisjóður. Hinn 25. maí 1998 hafði Sparisjóður Hafnarfjarðar gefið út verðtryggð skuldabréf í flokki SPH 98/2 til Sparibréfa ehf. sem mun vera sjóður á hans vegum. Fram kom í skráningarlýsingu bréfanna að nafnverð útgáfunnar væri allt að 3.000.000.000 króna. Skuldabréfin voru skráð á Verðbréfaþingi Íslands 3. júlí 1998. Byr sparisjóður og Kaupþing banki hf. sáu um viðskiptavakt bréfanna á grundvelli gildandi laga um verðbréfaviðskipti á hverjum tíma með skuldbindingu um að setja daglega fram kauptilboð að lágmarki. Tilgangur sölunnar var samkvæmt skráningarlýsingu að skapa Byr sparisjóði aukið svigrúm og möguleika til útlána, en sölutímabil skyldi vera 25. maí 1998 til 31. desember 2001. Skyldu bréfin seld gegn staðgreiðslu með lágmarksfjárhæð 5.000.000 krónur að nafnverði á sölugenginu 0,9741 og var ávöxtunarkrafa þeirra á útgáfudegi 5%. 

Bréf þau sem um ræðir í málinu voru sama efnis um annað en kaupdaga. Öll sættu þau framsölum og voru áritanir um framsöl þeirra allra með sama hætti. Um efni bréfanna hafa málsaðilar vísað til nánar tilgreinds skuldabréfs þar sem fram kom að endurgreiða skyldi höfuðstól skuldarinnar með einni greiðslu 25. maí 2013, auk þess sem vextir skyldu greiðast á sérstökum gjalddögum. Um væri að ræða 4,75% fasta ársvexti af uppfærðum höfuðstól skuldarinnar.  Vaxtagjalddagar væru 25. maí ár hvert, í fyrsta sinn 25. maí 1999 og síðast 25. maí 2013. Skuldin væri bundin vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 183,1 stig og skyldi höfuðstóll hennar breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölu til fyrsta vaxtagjalddaga en eftir það í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli vaxtagjalddaga. Skyldi höfuðstóll reiknaður út á hverjum vaxtagjalddaga áður en vextir yrðu reiknaðir. Greiðslustaður var tilgreindur hjá útgefanda og skyldi greiðsla fara fram gegn framvísun bréfsins, en heimilt væri að fela bönkum og sparisjóðum eða öðrum innheimtuaðilum bréfið til innheimtu. Jafnframt sagði: „Einungis er heimilt að framselja skuldabréf þetta til nafngreinds aðila með þeim hætti sem kemur fram á bakhlið bréfsins.“ Þá sagði: „Bréfið skal skráð á nafn kröfuhafa, en einnig skal skrá heimilisfang hans og kennitölu. Við eigendaskipti að bréfinu skal framsal til nýs eiganda skráð á bakhlið þess og þar greindur, framsalsdagur, nafn, kennitala og heimilisfang hins nýja kröfuhafa, einnig skal skrá kaupverð. Óheimilt er að framselja bréfið til handhafa. Sé röð framsalshafa á skuldabréfi þessu gölluð verður það ekki innleyst nema handhafi leiði fullar sönnur að eignarheimild sinni.“

Í héraðsdómi er því lýst að umrædd skuldabréf gengu kaupum og sölum á árunum 1998 til 2009 á skipulögðum verðbréfamarkaði Kauphallar. Sjóður 1-Skuldabréf, er áður bar heitið VÍB sjóður 1, en verður hér eftir nefndur Sjóður 1, keypti bréf í þessum flokki, fyrst 24. ágúst 1998 að nafnverði 60.000.000 krónur, aftur 18. janúar 1999 að nafnverði 50.000.000 krónur og loks 6. september 2002 að nafnverði 50.000.000 krónur.

Eins og greinir í héraðsdómi eru í málinu kvittanir sem bera með sér að Sjóður 1 hafi selt skuldabréf í þessum flokki í fjórum hlutum, 24. nóvember 2008 að nafnverði 20.000.000 krónur, 20. febrúar 2009 að nafnverði 20.000.000 krónur, 11. mars 2009 að nafnverði 60.000.000 krónur og loks 12. mars 2009 að nafnverði 20.000.000 krónur. Uppreiknað verðmæti var greitt til Verdis hf., síðar Arion verðbréfavörslu hf., og fært þar á reikning H.F. Verðbréfa hf., hér eftir H.F. Verðbréf, með skýringunni „Innlausn HF verðb“. Er því lýst í héraðsdómi að gera megi ráð fyrir því að H.F. Verðbréf hafi annast miðlun viðskiptanna fyrir hönd Sjóðs 1 og að verðbréfavarsla Arion banka hf. hafi séð um uppgjörið. Kveða aðaláfrýjandi, hér eftir nefndur Íslandsbanki, og varastefndi í gagnsök, hér eftir Íslandssjóðir, að uppgjör vegna þessara viðskipta hafi farið þannig fram að bréfin hafi fyrst verið færð á svonefnda millibók hjá Íslandsbanka, þar sem hann hafi verið uppgjörsaðili Sjóðs 1, en þaðan hafi skuldabréfin verið framseld til H.F. Verðbréfa. Samkvæmt bréfunum átti áritun á þau um framsal til H.F. Verðbréfa sér stað sama dag og innlausn Byrs sparisjóðs með uppreiknuðu verðmæti.

Í héraðsdómi er ítarlega rakinn aðdragandi þess að Byr sparisjóður var tekinn til slita 2. júlí 2010 með frestdegi 16. júní 2009. Þar er og getið samskipta Byrs sparisjóðs við þá aðila sem komu að meðferð umræddra skuldabréfa í aðdraganda yfirlýsinga hans gagnvart Íslandsbanka um riftun framangreindra innlausna sem hann krefst með vísan til 131. gr., 134. gr. eða 141. gr., sbr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

II

Málsaðila greinir á um hvort Byr sparisjóði sé unnt að beina dómkröfum sínum að Íslandsbanka, sem kveðst aldrei hafa fengið skuldabréfin framseld sér, eða Íslandssjóðum, er kveða Sjóð 1 vera réttan aðila til varnar sem framsalshafa bréfanna. Í héraðsdómi eru raktar tilraunir Byrs sparisjóðs til að fá upplýsingar um gang viðskipta með umrædd skuldabréf, í því skyni að afla upplýsinga um réttan aðila að þessum viðskiptum, og að sparisjóðurinn hafi fengið ónógar eða misvísandi upplýsingar um þau.

Íslandsbanki er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en Íslandssjóðir eru rekstrarfélag verðbréfa og fjárfestingarsjóða og starfa á grundvelli laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Íslandsbanki er eigandi 99,7% hlutafjár í Íslandssjóðum, sem áður nefndust Glitnir sjóðir hf. Hafa þeir um tengsl sín vísað til þjónustusamnings Glitnis banka hf. og Glitnis sjóða hf. 24. október 2007 og viðauka við hann sama dag um útvistun verkefna og vörslu eigna sjóðsdeilda í samræmi við ákvæði 18. gr. þágildandi laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Í samningnum kom fram að Íslandsbanki hefði tekið að sér vörslu eigna sjóðsdeilda og sjóða í rekstri hjá Íslandssjóðum í samræmi við skyldur vörslufyrirtækja samkvæmt c. lið II. kafla laga nr. 30/2003. Þar sagði að meðal verkefna væri frágangur viðskipta og greiðslur, innheimta afborgana, vaxta og verðbóta af skuldabréfasafni og innheimta arðs af hlutabréfum. Um vörslu gerninga sagði að „hlutverk vörslufyrirtækis er að sjá um og varðveita fjármálagerninga verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og skal fjármögnun sjóðsheilda haldið aðgreindum frá fjármunum vörslufyrirtækis.“ Eins og greinir í héraðsdómi tók Íslandsbanki við skyldum Glitnis banka hf. samkvæmt þjónustusamningnum eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008, en nýr þjónustusamningur var gerður í samræmi við það 24. maí 2009.

Á bakhlið hvers skuldabréfs sem um ræðir í málinu var staðlaður texti til útfyllingar um framsal og var slíkur texti útfylltur þrisvar sinnum á hverju bréfi. Um hið fyrsta framsal til Sjóðs 1 sagði: „Dags: -6-09-2002 Skuldabréf þetta er framselt til: Nafn: VÍB SJÓÐUR 1 Kennitala: 540489-5059 Heimili: KIRKJUSANDI Kaupverð: 5.232.800“. Í línu þar sem gert var ráð fyrir áritun framseljanda var svofelldur stimpill: „F.H. SPARIBRÉFA ehf  kt. 440598-3159 skv. umboði“. Á stimpilinn voru síðan ritaðir upphafsstafir viðkomandi starfsmanns félagsins. Í sams konar reitum fyrir annað framsal sagði: „Dags: 20/2 ´09 Skuldabréf þetta er framselt til: Nafn HF. Verðbréf Kennitala: 581203-2760“. Hvorki var skráð í reiti fyrir heimili framsalshafa né kaupverð. Í línu þar sem gert var ráð fyrir áritun framseljanda var svofelldur stimpill: „GLITNIR BANKI HF 550500-3530 Kirkjusandi, 155 Reykjavík“. Þá voru ritaðir upphafsstafir viðkomandi starfsmanns bankans, en á hinn bóginn kom ekkert fram um umboð til þessarar áritunar. Loks var að finna áritun um framsal til Byrs sparisjóðs 20. febrúar 2009 og á þeim stað þar sem gert var ráð fyrir áritun framseljanda var stimplað: „skv. varðveittu umboði Arion verðbréfavarsla hf. Kt. 470502-4520“ og ritaðir upphafsstafir starfsmanns þess félags.

Samkvæmt framanrituðu báru framsöl bréfanna ekki með sér annað en að framsalsröðin væri gölluð, þar sem rof hefði orðið á henni því ekki kom fram berum orðum að Glitnir banki hf. hefði áritað þau fyrir hönd Íslandssjóða um framsal til H.F. Verðbréfa. Til þess er á hinn bóginn að líta að fyrir liggur yfirlýsing H.F. Verðbréfa um að af þess hálfu hafi verið litið svo á að Glitnir banki hf. hafi komið fram í umboði Sjóðs 1 við framsalið. Samkvæmt þessu og að því gættu að allir þeir aðilar sem í hlut áttu verða að teljast sérfróðir í verðbréfaviðskiptum verður lagt til grundvallar að þeim hafi verið ljóst og þeir miðað við að um framsal samkvæmt umboði væri að ræða. Samkvæmt þessu hefur Íslandsbanka, í samræmi við efni skuldabréfanna sem áður er rakið, tekist sönnun um að Byr sparisjóður hafi vitað eða mátt vita að bréfin voru ekki framseld Glitni banka hf. til eignar heldur Sjóði 1 og að Glitnir banki hf. hafi einungis í umboði þess sjóðs annast framsöl bréfanna. Var Glitnir banki hf., sem eins og áður segir fékk síðar heiti aðaláfrýjanda, þannig ekki aðili að viðskiptunum. Verður hann þegar af þeim sökum sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda, sbr. 2. mgr. 16 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Með hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að H.F. Verðbréf hafi verið miðlari í framangreindum viðskiptum fyrir hönd Sjóðs 1 og hafi Arion verðbréfavarsla hf. séð um uppgjörið líkt og Íslandsbanki og Íslandssjóðir hafa haldið fram. Unir Byr sparisjóður þeirri niðurstöðu og beinir því ekki lengur riftunarkröfu sinni að H.F. Verðbréfum.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi reisa Íslandssjóðir varnir sínar á aðildarskorti þar sem þeir séu sérhæft félag á sviði eignarstýringar og starfi eftir lögum nr. 128/2011. Íslandssjóðir annist einvörðungu rekstur og stýringu sjóða í samræmi við starfsleyfi, þar á meðal rekstur Sjóðs 1, en séu þó aldrei eigandi þeirra fjármálagerninga sem sjóðir í rekstri þeirra eigi viðskipti með. Hafi Byr sparisjóður því að minnsta kosti átt að stefna Íslandssjóðum fyrir hönd Sjóðs 1 þar sem þeir beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.

Eins og að framan greinir var Sjóður 1 eigandi umræddra skuldabréfa en hann starfar sem verðbréfasjóður á grundvelli laga nr. 128/2011, áður laga nr. 30/2003 og þar áður laga nr. 10/1993. Íslandssjóðir eru á hinn bóginn sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 og reka samkvæmt heimild í 12. gr. laga nr. 128/2011 ýmsa verðbréfasjóði í aðgreindum deildum, þar á meðal Sjóð 1. Annast Íslandssjóðir daglegan rekstur Sjóðs 1, sbr. 17. og 18. gr. laga nr. 128/2011. Í samræmi við þetta eru Íslandssjóðir skráðir í hlutafélagaskrá sem almennt hlutafélag undir atvinnugreinaflokkun „64.30.0 Fjárvörslusjóðir, sjóðir og önnur sérhæfð fjársýslufélög“ en Sjóður 1 sem „sjóður/deild innan fjármálafyrirtækis“ og segir þar jafnframt að „fyrirtæki með þetta rekstrarform er ekki skráð í hlutafélagaskrá.“ Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 30/2003 kom fram að sú breyting væri gerð frá eldra réttarástandi að verðbréfasjóðir yrðu stofnaðir og reknir af rekstrarfélagi í stað þess að vera sjálfstæðir lögaðilar. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til núgildandi laga nr. 128/2011 var þetta áréttað í skýringum við 2. gr., en þar sagði meðal annars: „Rekstrarfélag ber ábyrgð á rekstri verðbréfasjóðs og er auk þess sú lögpersóna sem gætir hagsmuna verðbréfasjóðs.“ Samkvæmt framansögðu eru Íslandssjóðir réttur aðili til að koma fram fyrir hönd Sjóðs 1 í dómsmálum er sjóðinn varða, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 27. september 2012 í máli nr. 702/2011.

IV

Fallist er á með héraðsdómi að telja megi ljóst að eignir Byrs sparisjóðs muni ekki nægja til að efna skuldbindingar hans að fullu og honum heimilt, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, að krefjast riftunar á umræddum ráðstöfunum eftir sömu reglum og gilda um riftun við gjaldþrotaskipti.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Eins og áður greinir var frestdagur við slit Byrs sparisjóðs 16. júní 2009 og voru umræddar greiðslur inntar af hendi 23. febrúar og 10. mars 2009, en gjalddagi bréfanna var 25. maí 2013.

Íslandssjóðir hafa vísað til þess að í skilmálum skuldabréfanna komi fram að Byr sparisjóður kynni sjálfur að eiga viðskipti með skuldabréf sem hann gæfi út og að hann hafi skuldbundið sig til að vera viðskiptavaki skuldabréfanna og setja fram daglega kauptilboð að tilgreindu lágmarki og leitast við að setja jafnframt fram sölutilboð. Hafi greiðslurnar verið venjulegar eftir atvikum.

Um skuldabréf gildir sú meginregla að ákvæði um endurgreiðslu láns lýtur bæði að gjalddaga og lausnardegi. Samkvæmt þessu er skuldara því aðeins heimilt að greiða lán hraðar upp að um það hafi verið ótvírætt samið, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 6. mars 2008 í máli nr. 332/2007. Í hinum áfrýjaða dómi er rakin staða í íslensku viðskiptalífi með tilheyrandi lausafjárkreppu fjármálastofnana þegar umræddar greiðslur áttu sér stað fjórum árum fyrir gjalddaga skuldabréfanna. Kaup þau sem um ræðir voru umfram skyldur Byrs sparisjóðs sem viðskiptavaka enda fólust þau í innlausn allra skuldabréfanna sem Sjóður 1 hafði keypt og skiptir í því sambandi ekki máli þótt Byr sparisjóður hefði í kjölfar kaupa á slíkum skuldabréfum getað stofnað á nýjan leik til skulda með því að selja þau öðrum. Bréfin höfðu ekki að geyma uppgreiðsluheimild sem veitti Byr sparisjóði kost á að greiða skuldir samkvæmt þeim fyrir gjalddaga, en eigi að síður voru þau innleyst rétt um hálfu ári eftir fall þriggja stærstu viðskiptabanka landsins og skömmu áður en Byr sparisjóður var tekin til slita. Miðuðu þessar greiðslur að því að eigandi bréfanna fengi þau að fullu greidd, sem er umfram það sem aðrir lánardrottnar Byrs sparisjóðs geta búist við. Verður samkvæmt framansögðu fallist á með Byr sparisjóði að skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt um greiðslurnar 23. febrúar 2009 og 10. mars sama ár, svo fremi að ekki séu fyrir hendi aðstæður er geri það að verkum að greiðslurnar hafi verið eðlilegar eftir atvikum, sbr. 145. gr. sömu laga. Verður krafa gagnáfrýjanda um riftun því tekin til greina.

Eins og áður greinir runnu greiðslur þær sem um ræðir til Sjóðs 1, sem Íslandssjóðir eru í forsvari fyrir. Hafa Íslandssjóðir ekki sýnt fram á að svo sérstaklega hátti til í málinu að skilyrði síðastgreinds lagaákvæðis standi til niðurfellingar eða lækkunar kröfunnar. Verður endurgreiðslukrafa gagnáfrýjanda því tekin til greina. Skal hún bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi er mál þetta var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga.

Eftir þessum úrslitum verður varastefndi í gagnsök dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði, en rétt er að málskostnaður falli að öðru leyti niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Byrs sparisjóðs.

Rift er þeim ráðstöfunum gagnáfrýjanda sem fólust í greiðslum hans til Sjóðs 1-Skuldabréfa 23. febrúar 2009 að fjárhæð 33.026.000 krónur og 10. mars sama ár að fjárhæð 128.881.000 krónur.

Varastefndi í gagnsök, Íslandssjóðir hf., greiði gagnáfrýjanda 161.907.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. apríl 2013 til greiðsludags.

Varastefndi í gagnsök greiði gagnáfrýjanda samtals 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2014.

Mál þetta var höfðað 8. apríl 2013, þingfest 18. sama mánaðar og tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 2. júní 2014.

                Stefnandi er Byr sparisjóður, kt. 610269-2229, Smáratorgi 3 í Kópavogi.

                Aðallega er stefnt Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2 í Reykjavík.

                Til vara er dómkröfum beint að H.F. Verðbréfum ehf., kt. 581203-2760, Skólavörðustíg 11 í Reykjavík og Íslandssjóðum hf., kt. 690694-2719, Kirkjusandi 2 í Reykjavík.

                Stefnandi gerir þær dómkröfur á hendur Íslandsbanka hf.

                                 i.            Að rift verði með dómi greiðslu á 33.026.000 kr., frá stefnanda til stefnda Íslandsbanka hf. sem fram fór þann 23. febrúar 2009 og kom til vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 20.000.000 kr.

                               ii.            Að rift verði með dómi greiðslu á 128.881.000 kr. frá stefnanda til stefnda Íslandsbanka hf. sem fram fór þann 10. mars 2009 og kom til vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 80.000.000 kr.

                              iii.            Að stefnda Íslandsbanka hf. verði gert að greiða stefnanda 161.907.000 kr. ásamt innlánsvöxtum banka, sem Seðlabankinn birtir á heimasíðu sinni á grundvelli 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001, með eftirfarandi hætti: 7,9% ársvöxtum af 33.026.000 kr., frá 23. febrúar 2009 til 1. mars 2009, 7,6% ársvöxtum,- frá þeim degi til 10. mars 2009, 7,6% ársvöxtum af 161.907.000 kr. frá 10. mars til 1. apríl 2009, 6,8% ársvöxtum af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí 2009, 2,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2009, 2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2009, 1,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september 2009, 1,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2009, 1,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2009, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2010, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2010, 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2010, 0,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, 0,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 2010, 0,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, 0,1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2011, 0,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 2012, 0,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2012, 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2012, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2012, 1 % ársvöxtum frá þeim degi til 1. september 2012, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2012, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2013, 1,1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 2013, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 128.881.000 kr. frá 1. apríl 2013 til 7. apríl 2013 og af 161.907.000 kr. frá 7. apríl 2013 til greiðsludags.

                             iv.            Jafnframt gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefndi Íslandsbanki verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar stefnanda af virðisaukaskatti af lögmannsþjónustu.

Verði ekki fallist á kröfur stefnanda gagnvart stefnda Íslandsbanka hf. eru gerðar eftirfarandi dómkröfur settar fram til vara gagnvart H.F. Verðbréfum ehf.

                                 i.            Að rift verði með dómi greiðslu á 33.026.000 kr., frá stefnanda til H.F. Verðbréfa hf., sem fram fór þann 23. febrúar 2009 og kom til vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 20.000.000 kr.

                               ii.            Að rift verði með dómi greiðslu á 128.881.000 kr., frá stefnanda til stefnda H.F. Verðbréfa hf., sem fram fór þann 10. mars 2009 og kom til vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 80.000.000 kr.

                              iii.            Að stefnda H.F. Verðbréfum hf. verði gert að greiða stefnanda, Byr sparisjóði, 161.907.000 kr., ásamt innlánsvöxtum banka, sem Seðlabankinn birtir á heimasíðu sinni á grundvelli 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001, með eftirfarandi hætti: 7,9% ársvöxtum af 33.026.000 kr., frá 23. febrúar 2009 til 1. mars 2009, 7,6% ársvöxtum,- frá þeim degi til 10. mars 2009, 7,6% ársvöxtum af 161.907.000 kr. frá 10. mars til 1. apríl 2009, 6,8% ársvöxtum af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. maí 2009, 2,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2009, 2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2009, 1,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september 2009, 1,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2009, 1,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2009, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2010, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2010, 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2010, 0,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, 0,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 2010, 0,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, 0,1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2011, 0,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 2012, 0,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2012, 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2012, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2012, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september 2012, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2012, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 10. febrúar 2013, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 33.026.000 kr. frá 10. febrúar 2013 til 11. apríl 2013 og af 161.907.000 kr. frá 18. apríl 2013 til greiðsludags. 

                             iv.            Þá gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefndi H.F. Verðbréf hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, að teknu tilliti til kostnaðar stefnanda af virðisaukaskatti af lögmannsþjónustu.

                Verði hvorki fallist á kröfur stefnanda gagnvart stefnda Íslandsbanka hf., né varastefnda H.F. Verðbréfum hf. eru gerðar dómkröfur til þrautavara gagnvart Íslandssjóðum hf.  og er þar um sjálfstæða kröfu að ræða en ekki sameiginlega með öðrum stefndu.

                                 i.            Að rift verði með dómi greiðslu á 33.026.000 kr., frá stefnanda til varastefnda Íslandssjóða hf., sem fram fór þann 23. febrúar 2009 og kom til vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði  20.000.000 kr.

                                ii.            Að rift verði með dómi greiðslu á 128.881.000 kr., frá stefnanda til varastefnda Íslandssjóða, sem fram fór þann 10. mars 2009 og kom til vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 80.000.000 kr.

                              iii.            Að varastefnda Íslandssjóðum hf. verði gert að greiða stefnanda, Byr sparisjóði, 161.907.000 kr., ásamt innlánsvöxtum banka, sem Seðlabankinn birtir á heimasíðu sinni á grundvelli 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001, með eftirfarandi hætti: 7,9% ársvöxtum af 33.026.000 kr., frá 23. febrúar 2009 til 1. mars 2009, 7,6% ársvöxtum,- frá þeim degi til 10. mars 2009, 7,6% ársvöxtum af 161.907.000 kr. frá 10. mars til 1. apríl 2009, 6,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2009, 2,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2009, 2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2009, 1,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september 2009, 1,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2009, 1,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2009, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2010, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2010, 0,6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2010, 0,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, 0,3% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 2010, 0,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, 0,1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2011, 0,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 2012, 0,4% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2012, 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2012, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2012, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. september 2012, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2012, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2013, 1,1% ávöxtun frá þeim degi til 18. apríl 2013 auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 161.907.000 kr. frá 18. apríl 2013 degi til greiðsludags. 

                              iv.            Þá gerir stefnandi þær dómkröfur, að varastefndi Íslandssjóðir hf. verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að teknu tilliti til kostnaðar stefnanda af virðisaukaskatti af lögmannsþjónustu.

                Af hálfu stefnda Íslandsbanka er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Endanlegar dómkröfur varastefnda H.F. verðbréfa hf. eru þær aðallega varastefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda um riftun og endurgreiðslu greiðslna að fjárhæð samtals 161.907.000 kr. Til vara krefst stefndi þess að félaginu verði gert að greiða stefnanda 39.745 krónur, en varastefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda um greiðslu almennra vaxta og dráttarvaxta. Í öllum framangreindum tilvikum krefst varastefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til 25,5% virðisaukaskatts á lögmannsþóknun, auk álags á málskostnað eftir mati dómsins. Að þessu frágengnu krefst stefndi þess að felld verði niður krafa stefnanda um endurgreiðslu eða hún lækkuð verulega, sbr. 145. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Einnig er krafist sýknu af kröfum stefnanda um greiðslu almennra vaxta og dráttarvaxta. Í þessu tilviki er þess jafnframt krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða varastefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Síðasta varakrafa stefnda er sú að félagið verði sýknað af kröfu stefnanda um almenna vexti og af kröfum stefnanda um dráttarvexti af 128.881.000 kr., auk þess sem þess er krafist að dráttarvextir af 33.026.000 kr. verði greiddir frá málshöfðun. Jafnframt er þess krafist að málskostnaður falli niður.

                Af hálfu varastefnda Íslandssjóða hf. er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Málsatvik

Sparisjóður Hafnarfjarðar, síðar stefnandi, gaf þann 25. maí 1998 út verðtryggð skuldabréf í flokki SPH 98/2. Skuldabréfin báru vexti sem greiddust ár hvert, en lokagjalddagi bréfanna var 25. maí 2013. Skuldabréfin voru skráð á Verðbréfaþing Íslands hinn 3. júlí 2008. Stefnandi og Kaupþing banki hf. tóku að sér viðskiptavakt með bréfin í skilningi 116. gr. laga nr. 108/2007, sbr. dskj. 3. Í málinu hefur verið lagt fram yfirlit frá Kauphöll Íslands sem sýnir viðskipti með framangreind skuldabréf frá 30. september 1998 til 10. mars 2009 (dskj. 38), en listinn ber með sér að viðskipti með bréfin hafi ekki verið tíð.

                Ekki mun vera um það deilt í málinu að Sjóður 1 – Skuldabréf, kt. 540489-5059, (þá VÍB Sjóður 1) hafi keypt skuldabréf í flokki SPH 98/2 að nafnverði 60.000.000 kr. þann 24. ágúst 1998, að nafnverði 50.000.000 kr. þann 18. janúar 1999 og að nafnverði 50.000.000 kr. þann 6. september 2002. Af hálfu Íslandsbanka hf. hefur í þessu samhengi verið vísað beinlínis til afrits af skuldabréfum á dskj. 28 til staðfestingar á því að framsöl til ofangreinds sjóðs hafi verið rituð á bakhlið þeirra.

                Í desember árið 2006 samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs Vélstjóra. Í mars 2007 fékk nýi sparisjóðurinn nafnið Byr sparisjóður. Í byrjun september 2008 varaði forstjóri Fjármálaeftirlitsins við slæmri eiginfjárstöðu íslensku sparisjóðanna og voru þar sérstaklega tilgreindir SPRON, Sparisjóður Mýrarsýslu, Sparisjóður Keflavíkur og stefnandi, Byr sparisjóður (dskj. nr. 4). Í lok september 2008 var tilkynnt að íslenska ríkið myndi eignast 75% hlutdeild í Glitni banka (dskj. nr. 5). Mikil óvissa var uppi um framtíð og stöðu íslensks fjármálalífs (dskj. nr. 6-9). Sparisjóðakerfið var þar ekki undanskilið, en um haustið 2008 og fram á vorið 2009 var mikil umræða í þjóðfélaginu um slæma eiginfjárstöðu íslensku sparisjóðanna og óvissa um framtíð þeirra (dskj. nr. 4, 11-12).

                Með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., oft nefnd ,,neyðarlög“, voru gerðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum. Lögin voru sett 6. október 2008 og voru viðbrögð yfirvalda við slæmri fjárhagsstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja. Í október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir stjórn  þriggja stærstu banka Íslands, sem fóru skömmu síðar í greiðslustöðvun og í kjölfarið í slitameðferð. Þannig tók  Fjármálaeftirlið  þann 14. okt. 2008 ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf., kt. 5550500-3530, til Nýja Glitnis banka hf., kt. 491008-0160 (dskj. nr. 14). Samhliða var stofnaður nýr banki sem tók við eignum Glitnis banka hf. og tók yfir ráðningarsamninga við starfsfólk gamla bankans. Nýi Glitnir banki hf. fékk síðar nafnið Íslandsbanki hf. sem stefnt er í máli þessu.

                Stefndi Íslandsbanki hf. hefur við meðferð málsins upplýst að bankinn eigi 99,7% eignarhlut í varastefnda Íslandssjóðum hf. og að síðarnefnda félagið sé sérhæft á sviði eignastýringar og annist rekstur og stýringu verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða. Varastefndi Íslandssjóðir hf. lýsir starfsemi sinni með þeim orðum að það sé fjármálafyrirtæki og starfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði nr. 128/2011. Íslandssjóðir hf. sé félag sem standi óháð Íslandsbanka hf. og meirihluti stjórnarmanna sé óháður (dskj. 42). Af hálfu stefnda Íslandsbanka hf. og varastefnda Íslandssjóða hf. er því lýst svo, að Sjóður 1 – Skuldabréf hafi verið í umsjá varastefnda Íslandssjóða hf. Í kjölfar falls viðskiptabankanna þriggja hinn 6. október 2008 hafi reynst nauðsynlegt að loka sjóðnum með það að markmiði að gæta jafnræðis meðal sjóðsfélaga. Með bréfi 28. nóvember 2008 var óskað eftir heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að skipta sjóðnum í tvennt, A- og B-hluta þar sem B-hlutinn yrði leystur upp strax með þeim hætti að laust fé yrði greitt út þar til allar eignir yrðu seldar. Samsetning eigna sjóðs A og B varð hlutfallslega jöfn miðað við þáverandi stöðu sjóðsins, sbr. dskj. 68.  Beiðnin var samþykkt og fyrstu útgreiðslur úr sjóðnum til sjóðsfélaga hófust í janúar árið 2009, sbr. dskj. 69.

                Meðal dómskjala eru fjórar kvittanir útgefnar á árunum 2008 og 2009 af stefnda Íslandsbanka hf. til Íslandssjóða hf. Kvittanir þessar, sem lagðar voru fram með greinargerð stefnda Íslandssjóða hf. til héraðsdóms, bera með sér að Sjóður 1-Skuldabréf hafi selt skuldabréf í flokki SPH 98/2 í fjórum hlutum, 24. nóvember 2008 að nafnverði 20.000.000 kr. (sbr. dskj. 80), 20. febrúar 2009 að nafnverði 20.000.000 kr. (sbr. dskj. 81), 11. mars 2009 að nafnvirði 60.000.000 kr. (sbr. dskj. 82) og þann 12. mars að nafnverði 20.000.000 kr. (sbr. dskj. 83). Uppreiknað verðmæti skuldabréfanna var greitt til Verdis (síðar Arion verðbréfavarsla hf.) með skýringunni ,,Innlausn HF Verðb“ (dskj. nr. 18-19). 

                Af framlögðum skjölum, þ. á m. áðurnefndum dómskjölum nr. 18 og 19, má ráða að H.F. Verðbréf hf. hafi annast um miðlun viðskiptanna fyrir hönd Sjóðs 1 og að verðbréfavarsla Arion mun hafa séð um uppgjörið. Af hálfu stefnda Íslandsbanka hf. og varastefnda Íslandssjóða hf. hefur þessu ferli verið lýst svo að uppgjöri vegna þessara viðskipta hafi verið háttað svo að bréfin hafi fyrst verið færð á svonefnda millibók stefnda Íslandsbanka hf.,  þar sem bankinn hafi verið uppgjörsaðili Sjóðs 1, en þaðan hafi skuldabréfin verið framseld til H.F. Verðbréfa hf.

                Þann 22. apríl 2010 skipaði Fjármálaeftirlitið stefnanda bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009 (dskj. nr. 23). Störfum bráðabirgðastjórnar lauk þann 2. júlí 2010 er Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði stefnanda slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, (dskj. nr. 24). Frestdagur í slitameðferð sparisjóðsins var 16. júní 2009, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, en á þeim degi veitti Fjármálaeftirlitið Byr sparisjóði fyrst frest til að auka eiginfjárgrunn sinn að lágmarki skv. 84. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 4. mgr. 86. gr. laganna (dskj. nr. 23). Upphafsdagur slitameðferðar er 2. júlí 2010 og miðast við uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um skipun slitastjórnar, sbr. 2. ml. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. ml. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 13. júlí 2010, (dskj. nr. 25). Kröfulýsingarfrestur rann út 13. október 2010.

                Við könnun slitastjórnar á fjárreiðum stefnanda mun slitastjórn stefnanda hafa orðið kunnugt um ofangreindar innlausnir. Með bréfi til varastefnda, H.F. Verðbréfa hf., 10. janúar 2013 lýsti slitastjórn stefnanda yfir riftun á innlausn ofangreindra skuldabréfa að nafnvirði 20.000.000 kr. (dskj. nr. 26). Varastefndi H.F. Verðbréf hf., svaraði ofangreindri riftun með bréfi 24. janúar 2013 (dskj. nr. 27) þar sem hann lýsti því yfir að viðskiptin hefðu verið gerð fyrir hönd tiltekins viðskiptamanns félagsins. Taldi varastefndi H.F. Verðbréf hf. sér ekki heimilt að upplýsa um nafn viðkomandi aðila. Eftir nánari leit hjá stefnanda fundust frumrit skuldabréfanna (dskj. 28). Með bréfi til stefnda Íslandsbanka hf. 7. mars 2013 var ofangreindri greiðslu rift gagnvart bankanum (dskj. nr. 29).

                Með bréfi til Arion banka hf., vegna Arion verðbréfavörslu hf., 10. janúar 2013 lýsti slitastjórn stefnanda yfir riftun á innlausn framangreindra skuldabréfa að nafnvirði 80.000.000 kr. (dskj. nr. 30). Arion banki hf. svaraði þessu með bréfi 21. janúar 2013 (dskj. nr. 31). Í bréfinu kemur fram að í umræddum viðskiptum hafi Arion verðbréfavarsla hf. ekki verið kröfuhafi bréfsins, heldur í hlutverki uppgjörsaðila. Uppgjörið hafi verið gert fyrir hönd varastefnda, H.F. Verðbréfa hf., sem sá um verðbréfamiðlun í viðskiptunum, en seljandi bréfanna hefði verið aðalstefndi, Íslandsbanki hf. Með bréfinu fylgdu markaðspantanir sem stöfuðu frá varastefnda H.F. Verðbréfum hf. (dskj. nr. 20). Með bréfi til stefnda Íslandsbanka hf., sem dagsett er 1. mars 2013, var ofangreindri greiðslu rift gagnvart aðalstefnda Íslandsbanka hf. (dskj. nr. 32). Stefndi Íslandsbanki hf. svaraði ofangreindum kröfum stefnanda með bréfi 11. mars 2013 (dskj. nr. 33). Þar hélt aðalstefndi því fram að ofangreind viðskipti væru ekki riftanleg með vísan til 134. gr. l. 21/199 og var riftunarkröfum stefnanda hafnað.

                Stefnandi kveðst ekki hafa talið útilokað að aðrir en stefndi Íslandsbanki hf. ættu aðild að þessum viðskiptum. Af þeim sökum sendi stefnandi bréf til stefnda Íslandsbanka hf. 2. apríl 2013 (dskj. 40) þar sem óskað var eftir því að upplýst yrði um mótaðila stefnanda í áðurnefndum viðskiptum.

                Bréfinu var svarað með tölvupósti Odds Ólasonar hdl. hjá Íslandsbanka hf. 4. apríl 2013 (dskj. 47). Þar kemur m.a. fram að Íslandssjóðir hafi „vissulega“ verið „eigendur bréfanna á ákveðnu tímabili eins og bréfin sýna“. Nefndur Oddur gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Staðfesti hann við það tækiæri að hafa sent ofangreindan tölvupóst og jafnframt að líta mætti á þennan póst sem svar beggja, þ.e. bæði stefnda Íslandsbanka hf. og varastefnda Íslandssjóða hf.. Aðspurður sagði hann tilvitnað orðalag í tölvuskeytinu hafa verið frekar ónákvæmt en þar hafi hann verið að vísa til Íslandssjóða sem rekstraraðila Sjóðs 1. Vitnið kvaðst telja að á árinu 2007 hafi verið gerður þjónustusamningur milli Glitnis banka hf. og Glitnis sjóða þar sem bankinn hafi m.a. tekið að sér vörslur og uppgjör fyrir sjóðina. Vitnið Oddur tók þó fram að hann væri ekki að vinna fyrir Íslandssjóði, heldur sinnti fyrst og fremst viðskiptabankanum. Spurður um „viðskiptanótur“ frá H.F. Verðbréfum hf. á dskj. 18 og 20, er sýna viðskipti milli Íslandsbanka hf. sem seljanda og stefnanda sem kaupanda, kvaðst Oddur telja eðlilegt að bankinn væri þar tilgreindur sem seljandi enda væri það á grundvelli fyrrnefnds þjónustusamnings. Kvaðst vitnið telja það rökrétt vegna náinna tengsla bankans, sem móðurfélags við sjóðina eða rekstrarfélögin. Vitninu var að því búnu sýnt dskj. 55, sem sýnir skjámyndir Arion banka af inn- og útborgunum „vegna milligöngu H.F. Verðbréfa 23. febrúar 2009 í SPH 98/2 nv. 20.000.000“ og „vegna milligöngu H.F. Verðbréfa 11. mars 2009 í SPH 98/2 nv. 80.000.000“. Kvaðst vitnið hafa athugað þessar færslur beinlínis þótt hann væri ekki almennt að vinna fyrir Íslandssjóði. Um væri að ræða reikning, sem „í dag“ væri merktur „Íslandsbanki-Fjárstýring“ sem væri í raun „geymslureikningur í örfáa daga vegna peninga sem koma inn til bankans vegna sölu á verðbréfum og öðru“ og sagði að fjármunir þeir sem hér um ræðir hafi verið millifærðir yfir á Sjóð 1 í kjölfarið, en vildi þó ekki staðfesta að það hefði verið gert sama dag og greiðslurnar bárust. Vitnið staðfesti jafnframt að hafa ritað tölvupóstinn á dskj. 47 í samráði við framkvæmdastjóra Íslandssjóða hf., sem ekki hafi gert athugasemdir við efni svarsins.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Í máli þessu beinir stefnandi kröfum sínum aðallega að Íslandsbanka hf., en til vara að H.F. Verðbréfum hf. Hefur stefnandi rökstutt þessa tilhögun með skírskotun til þess að H.F. Verðbréf hf. hafi haldið því fram að félagið hafi eingöngu verið í hlutverki miðlara í umræddum viðskiptum og að aðalstefndi hafi verið raunverulegur mótaðili stefnanda. Sama komi fram í bréfi 21. janúar 2012 frá Arion banka hf. varðandi viðskiptin sem áttu sér stað í mars 2009 (dskj. nr. 31). Stefnandi tiltekur í þessu sambandi að Arion verðbréfavarsla (nú Verdis) hafi verið uppgjörsaðili í viðskiptunum sem fram fóru í mars. Samkvæmt sölunótum vegna umræddra viðskipta hafi stefndi Íslandsbanki hf. verið mótaðili stefnanda í viðskiptunum (dskj. nr. 18 og 20) og hafi því tekið við greiðslum vegna sölu á skuldabréfunum. Mótmæli stefnda Íslandsbanka hf. við kröfum stefnanda hafi fram að höfðun málsins heldur ekki grundvallast á aðildarskorti, heldur því að umrædd viðskipti hafi verið eðlileg (dskj. nr. 33). Með bréfi stefnanda til stefnda Íslandsbanka hf. 2. apríl 2013 hafi verið skorað á stefnda að láta vita innan tiltekins frests ef bankinn teldi sig ekki vera réttan aðila að hinum umþrættu viðskiptum (dskj. nr. 40). Engar mótbárur hafi komið frá stefnda við framangreindri áskorun og telur stefnandi því rétt að stefna Íslandsbanka hf. aðallega í máli þessu. 

                Verði ekki fallist á kröfur stefnanda gagnvart aðalstefnda gerir stefnandi varakröfur á hendur varastefnda H.F. Verðbréfum hf. þar sem fyrir liggur að varastefndi H.F. Verðbréf hf. sé sá aðili sem var í sambandi við starfsmenn stefnanda vegna viðskiptanna og samkvæmt dskj. nr. 28 virðist sem H.F. Verðbréf hf. hafi fengið framseld til sín skuldabréfin sem eru andlag viðskiptanna sem áttu sér stað í febrúar 2009, sem stefnandi hafi rift. H.F. Verðbréf hf. hafi heimilað að þau yrðu framseld áfram til stefnanda. Þá hafi varastefndi H.F. Verðbréf hf. fengið greiðslurnar frá Arion verðbréfavörslu til sín (dskj. nr. 41 og 19).

                Verði hvorki fallist á kröfur stefnanda gagnvart stefnda Íslandsbanka hf. né varastefnda H.F. Verðbréfum hf. gerir stefnandi kröfur á hendur varastefnda Íslandssjóðum hf. Er það byggt á því að skv. framsölum á dskj. nr. 28 virðist sem VÍB sjóður 1, kt. 540489-5059, hafi verið eigandi skuldabréfanna sem framseld voru til H.F Verðbréfa hf. þann 20. feb. 2009. Frumrit skuldabréfanna sem innleyst voru þann 10. mars 2009 hafi ekki fundist, en ekki sé hægt að útiloka að framsalið hafi verið með sama hætti í því tilfelli. Af tölvupósti frá Íslandsbanka hf. 4. apríl 2013 megi ráða að stefndi Íslandsbanki hf. telji verulegar líkur á að dótturfélag sitt Íslandssjóðir hf. sé réttur aðili að heildarviðskiptunum (dskj. nr. 47). VÍB sjóður 1 sé sjóður sem tilheyri Íslandssjóðum hf. sem sé sérhæft félag á sviði eignastýringar og annast rekstur og stýringu verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða (dskj. nr. 42) og því komi Íslandssjóðir hf. fram fyrir hönd einstakra skuldabréfasjóða. Sé flett upp á kennitölunni 540489-5059 í hlutafélagaskrá kemur fram að um er að ræða deild innan fjármálafyrirtækisins Íslandssjóðir hf. (dskj. nr. 42). Varastefndi Íslandssjóðir hf. hafi ekki fengist til að gefa frekari skýringar á aðild sinni að þessu máli (dskj. 47). Því sé stefnanda nauðsynlegt að beina öllum kröfum sínum jafnframt að varastefnda Íslandssjóðum hf.

                Í stefnu er aðild málsins útskýrð með vísan til þess að slitastjórnum sé úthlutað afmörkuðum tíma til höfðunar riftunarmála og ljóst að sá tími verði liðinn þegar niðurstaða muni fást í þessu dómsmáli. Þar sem ekki sé hægt að útiloka að aðalstefndi verði sýknaður í máli þessu, sé stefnanda nauðsyn að stefna varastefndu líka til riftunar greiðslnanna og endurgreiðslu fjármunanna.

                Í stefnu er tiltekið að stefnandi hafi lýst yfir riftun gagnvart hluta af stefndu á þeim tveimur viðskiptum í febrúar og mars 2009, sem áður hafa verið nefnd. Þá kemur fram í stefnu að „[a]ð svo miklu leyti sem riftun hefur ekki verið lýst yfir gagnvart varastefndu vegna viðskiptanna sem áttu sér stað í febrúar og mars 2009 [sé] henni lýst yfir með stefnu þessari“.

                Kröfur sínar um staðfestingu riftunar og um endurgreiðslur á grundvelli riftunar byggir stefnandi á málsástæðum sem fram koma hér á eftir.

                Í fyrsta lagi heldur stefnandi því fram að eignir stefnanda muni ekki nægja til að uppfylla skuldbindingar hans að fullu. Því sé heimilt, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, að krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Vísar stefnandi hér til þess að í slitameðferð stefnanda hafi verið stofnað nýtt félag, Byr hf. Inn í það félag hafi runnið allar eignir stefnanda. Á móti eignunum hafi einnig fylgt inn í félagið innlánskröfur á stefnanda. Þessi eina eign stefnanda, 88,4% hlutafé í Byr hf., hafi verið seld Íslandsbanka hf. þann 23. nóvember 2011. Söluverðið á hlut stefnanda hafi verið 5.834.000.000 kr., sbr. tilkynningu slitastjórnar Byrs sparisjóðs til kröfuhafa sjóðsins (dskj. nr. 34). Lýstar kröfur til slitastjórnar hafi alls numið 83.558.805.561 kr. Þegar hafi verið samþykktar kröfur að fjárhæð 55.546.405.917 kr., en auk þess sé enn óleystur ágreiningur milli slitastjórnar og kröfuhafa um hluta lýstra krafna (dskj. nr. 35). Því sé ljóst að eignir stefnanda muni ekki duga fyrir skuldbindingum hans. Stefnanda sé því heimilt að rifta ofangreindum viðskiptum með vísan til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Í öðru lagi byggir stefnandi á því að umræddar ráðstafanir séu riftanlegar með vísan til 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Samkvæmt 134. gr. gþl. má krefjast riftunar á greiðslu skuldar sem á sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefnandi vísar til þess að skilyrðin þrjú samkvæmt 134. gr. séu sjálfstæð og hlutlæg og nægilegt að einu skilyrðanna sé fullnægt svo riftun megi ná fram að ganga. Stefnandi telur að hlutlægum skilyrðum 134. gr. gþl. fyrir riftun sé fullnægt í máli þessu. Um sé að ræða greiðslur á skuldum stefnanda sem áttu sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, greiðslurnar hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var og telur stefnandi greiðslurnar ekki hafa verið venjulegar eftir atvikum.

                Í þriðja lagi reisir stefnandi kröfugerð sína á því að samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Frestdagur í slitameðferð sparisjóðsins var 16. júní 2009, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, en á þeim degi veitti Fjármálaeftirlitið Byr sparisjóði fyrst frest til að auka eiginfjárgrunn sinn að lágmarki skv. 84. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 4. mgr. 86. gr. laganna (dskj. nr. 23). Ofangreindar greiðslur hafi átt sér stað þann 23. febrúar og 10. mars 2009, annars vegar þremur mánuðum og hins vegar fjórum mánuðum fyrir frestdag, og því innan tímamarka ákvæðisins. Stefnandi telur einnig ljóst að um greiðslu á skuld hafi verið að ræða, en ekki hefðbundin viðskipti með skuldabréf. Það sé meginregla fjármunaréttar að krafa falli niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi. Verði því að líta svo á að stefnandi hafi með ofangreindum löggerningum verið að greiða skuldir sínar.

                Í fjórða lagi vísar stefnandi til þess að umræddar greiðslur hafi farið fram fyrr en eðlilegt var og séu því riftanlegar skv. ákvæðum 134. gr. laga nr. 21/1991, en gjalddagi skuldabréfanna hafi verið 25. maí 2013 og engin uppgreiðsluheimild á bréfunum.

                Í fimmta lagi séu umræddar ráðstafanir riftanlegar skv. 134. gr. laga nr. 21/1991 þar sem greiðslan geti ekki talist venjuleg eftir atvikum. Sönnunarbyrði í málum sem þessum sé þannig háttað að það hvíli á stefndu að sýna fram á að umræddar ráðstafanir hafi verið venjulegar eftir atvikum. Stefnandi telur að venjuleg viðskipti með skuldabréf felist í því að andvirði skuldabréfsins sé staðgreitt með peningum á gjalddaga þess. Engin uppgreiðsluheimild hafi verið á umræddum skuldabréfum. Í þessu samhengi telur stefnandi að rétt sé að skoða greiðsluna í samhengi við þá stöðu sem upp var komin í íslensku fjármálalífi þegar umrædd viðskipti áttu sér stað. Því geti umrædd viðskipti ekki talist venjuleg eftir atvikum, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

                Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að ráðstafanirnar séu riftanlegar með vísan til 131. gr. sömu laga, sem heimilar riftun á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Stefnandi heldur því fram að þegar umrædd viðskipti áttu sér stað, hafi hin innleystu skuldabréf í raun verið verðlítil. Greiðslurnar sem stefnandi innti af hendi hafi hins vegar miðað við nafnvirði bréfanna, margfaldað ýmist með 1,63 eða 1,65. Því sé ljóst að í umræddum ráðstöfunum hafi falist örlætisgerningar sem riftanlegir séu á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. 

                Ef ekki er fallist á ofangreint byggir stefnandi á því, í sjöunda lagi, að umræddar ráðstafanir séu riftanlegar með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi telur ljóst að viðskiptin  hafi orðið öðrum kröfuhöfum en stefndu til tjóns, þar sem brotið hafi verið á jafnræði kröfuhafa. Hefðu hinar riftanlegu ráðstafanir ekki átt sér stað hefðu eignir Byrs sparisjóðs verið meiri eða sem nemur 161.907.000 kr. við slitin. Í ljósi þeirra aðstæðna sem voru á íslenskum fjármálamarkaði og með hliðsjón af stöðu stefnanda hafi greiðsla á ógjaldföllnum skuldabréfum jafnframt verið ótilhlýðileg.

                Í áttunda lagi hefur stefnandi skírskotað til ákvæða 142. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Stefndi telur að skýra beri ákvæði 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 svo að endurgreiða beri stefnanda höfuðstól kröfunnar ásamt innlánsvöxtum skv. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá því greiðsla var innt af hendi og þar til 30 dögum eftir að henni var rift. Að auki skuli greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 krefst stefnandi innlánsvaxta á kröfu sína allt þar til krafan ber dráttarvexti vegna riftunar þrotabúsins. Telur stefnandi því ljóst að stefndu beri að endurgreiða 161.907.000 kr, auk vaxta skv. 4. gr. laga nr. 39/2001 frá því greiðslurnar voru inntar af hendi og þar til 30 dögum eftir að þeim var rift.

                Kröfu sína um riftun á greiðslu reisir stefnandi á ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21/1991, aðallega 134. gr. en einnig á 131. gr. laganna, sem og 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009. Krafa um fjárgreiðslu er reist á ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 142. gr. þeirra laga. Kröfur sínar um innlánsvexti byggir stefnandi á XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 142. gr. laganna, 3. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 4. mgr. 10. gr. sömu laga en sú grein vísar m.a. til innlánsvaxta banka eins og Seðlabankinn birtir þá á heimasíðu sinni (sjá vaxtatöflu sbr. dskj. nr. 43). Upphafsdag vaxta miðar stefnandi við stofndag kröfunnar, sbr. 3. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur sínar um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6. gr. laganna. Upphafsdag dráttarvaxta styður stefnandi almennt við 3. mgr. 5. gr. laganna og miðast dráttarvaxtaútreikningar þá frá þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu á umræddri kröfu. Í tilvikum þar sem stefndi var ekki krafinn um greiðslu kröfunnar fyrir málshöfðun þessa styðst dráttarvaxtakrafa stefnanda við 4. mgr. 5. gr. laganna og reiknast þá frá þingfestingardegi, 18. apríl 2013. Málskostnaðarkröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til 129. gr. og 130. gr. l. nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili. Um fyrirsvar slitastjórnar vísar stefnandi til 4. mgr. 101. gr. og 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. XIX kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um varnarþing er vísað til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 1. tl. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Byggt er á 19. gr. laganna hvað varðar aðild varastefndu. Um málshöfðunarfrest er vísað til 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 148. gr. laga nr. 21/1991, en fresturinn er 30 mánuðir frá því kröfulýsingarfrestur vegna slitameðferðar stefnanda rann út þann 13. október 2010. 

III.

Málsástæður og lagarök stefnda Íslandsbanka hf.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála enda hafi stefndi hvorki verið eigandi skuldabréfanna sem hér um ræðir né seljandi þeirra, heldur Sjóður 1 – Skuldabréf, sbr. 28 og 80, 81, 82 og 83.

                Stefndi vísar til þess að Sjóður 1 – Skuldabréf hafi starfað á grundvelli laga nr. 30/2003 og notið samkvæmt þeim ýmissa réttinda og borið skyldur á grundvelli þeirra. Í þessu samhengi vísar stefndi til þess að Sjóði 1 – Skuldabréf hafi verið úthlutað sérstakri kennitölu, sbr. dskj. 42. Þá sé verðbréfasjóðurinn álitinn endanlegur eigandi viðkomandi fjármálagerninga sem hann hefur keypt. Þannig sé viðkomandi verðbréfasjóður skráður sem hluthafi í hlutaskrá hlutafélaga og fari sjálfur með atkvæðisrétt á hluthafafundum en ekki stefndi. Stefndi vekur athygli á því að takmarkanir sem reistar voru við aðildarhæfi verðbréfasjóða í lögum nr. 20/1989 hafi verið felldar brott með gildistöku laga nr. 10/1993 um verðbréfasjóði. Af þessu leiði að Sjóður 1 – Skuldabréf njóti aðildarhæfis í skilningi laga nr. 91/1991. Stefndi telur því að stefnanda hefði borið að beina kröfu sinni að honum.

                Stefndi hafi á engum tímapunkti verið eigandi skuldabréfanna og hafi þar af leiðandi ekki getað selt þau. Þá beri að hafa í huga að eina tenging stefnda við fyrrum eiganda skuldabréfanna sé sú að hann eigi meginpart hlutafjár í rekstrarfélagi því sem þjónustar eigendur hlutdeildarskírteina útgefnum af Sjóði 1 – Skuldabréf.

                Verði ekki fallist á framangreint krefst stefndi sýknu á grundvelli þess að hann sé ekki sá aðili sem hafði hag af hinum ætluðu riftanlegu ráðstöfunum í skilningi 142. gr. laga nr. 21/1991. Við slit Sjóðs 1 – Skuldabréf hafi öllu andvirði hinna seldu skuldabréfa verið ráðstafað til eigenda hlutdeildarskírteina. Því hafi aldrei komið til þess að stefndi hagnaðist á þeim ráðstöfunum sem hér um ræðir. 

                Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðildarskorts byggir stefndi m.a. á því að ekki sé um riftanlega ráðstöfun að ræða í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Umræddar ráðstafanir hafi ekki falið í sér greiðslu á skuld í skilningi 134. gr. heldur hafi verið um að ræða hefðbundin viðskipti tveggja ótengdra aðila með viðskiptabréf. Í þessu sambandi vísar stefndi til þess að skuldabréf stefnanda höfðu verið skráð á Verðbréfaþing Íslands til að auðvelda viðskipti með þau. Frumkvæði að viðskiptunum hafi komið frá stefnanda sem skráði kauptilboð í kerfi Kauphallar Íslands sem Sjóður 1 - Skuldabréf tók fyrir milligöngu  H.F. Verðbréfa hf. Sjóður 1 – Skuldabréf hafi þannig gengið að þeim kauptilboðum sem lágu fyrir og skuldabréfin verið framseld í kjölfar greiðslu. Viðskipti stefnanda með bréfin hafi þannig farið fram sem liður í samningsbundinni viðskiptavakt stefnanda og geti því ekki talist fela í sér ,,greiðslu á skuld“ í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.

                Verði það niðurstaða dómsins að um hafi verið að ræða greiðslu á skuld sem greidd hafi verið fyrr en eðlilegt var er sýknukrafa stefnda í öðru lagi á því byggð að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum þannig að ekki sé um riftanlega ráðstöfun að ræða í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.  Byggir stefndi á því að umrædd viðskipti hafi að öllu leyti verið eðlileg og venjuleg eftir atvikum. Um það vísar stefndi sérstaklega til eftirfarandi atriða:

                Í fyrsta lagi sé því mótmælt, sem látið er að liggja í stefnu, að venjuleg viðskipti með skuldabréf felist í því að andvirði skuldabréfsins sé staðgreitt með peningum á gjalddaga þess. Atvik þessa máls voru, að sögn stefnda, með allt öðrum hætti og beinlínis gert ráð fyrir því frá útgáfu skuldabréfanna að þau gætu gengið kaupum og sölum á eftirmarkaði enda nauðsynlegt fyrir fagfjárfesta að geta breytt eignasamsetningu sinni með auðveldum hætti til að bregðast við breyttum aðstæðum. Til að gera það auðveldara hafi skuldabréfin í flokki SPH98/2 verið skráð á Verðbréfaþing Íslands og tvær tilteknar fjármálastofnanir hafi tekið að sér þjónustu viðskiptavaka. Með þessu fyrirkomulagi hafi átt að skapa skilvirkan eftirmarkað með skuldabréfin. Sala Sjóðs 1 – Skuldabréf fór fram á markaði eins og að framan er lýst. Hinar umþrættu ráðstafanir hafi ekki farið fram með öðrum hætti eða við aðrar aðstæður, en upphaflega var gert ráð fyrir. Þá hafi hinar umþrættu ráðstafanir ekki verið einu viðskiptin með skuldabréfin því viðskipti með þau höfðu átt sér stað með reglulegu millibili allt frá því þau voru skráð á markað, sbr. dskj. 38. Hinar umþrættu ráðstafanir hafi á engan hátt verið frábrugðnar öðrum viðskiptum með bréfin og að öllu leyti venjuleg.

                Í öðru lagi vísar stefndi til þess að hinn 6. október 2008 hafi Sjóði 1 – Skuldabréf verið lokað og í kjölfarið ákveðið að skipta honum upp í tvo hluta, A og B hluta. B hlutanum var lokað og eignir hans seldar. Þegar af þeirri ástæðu hafi sjóðnum verið nauðsynlegt að selja skuldabréfin svo hægt væri að greiða hlutdeildarskírteinishöfum eign þeirra í sjóðnum. Ástæðu viðskiptanna megi þannig rekja til Sjóðs 1 - Skuldabréf en ekki stöðu stefnanda og hún sé því á allan hátt eðlileg. Hinar umþrættu ráðstafanir hafi þannig verið alls ótengdar fjárhagsstöðu hans. Aðstæður hafi því með engu móti verið þannig að Sjóður 1 – Skuldabréf væri að þvinga fram greiðslu gagnvart stefnanda. Sjóður 1 - Skuldabréf vissi þvert á móti ekki hver var gagnaðili hans í viðskiptunum. 

                Í þriðja lagi beri að líta til þess að á þeim tíma þegar hinar umdeildu ráðstafanir voru framkvæmdar hafi ekkert annað legið fyrir en að stefnandi væri stöndug fjármálastofnun sem gæti staðið skil á skuldbindingum sínum, sbr. dskj. 70-76, 78 og 79. Skipti miklu máli í þessu sambandi það sem fram hefur komið að nokkrum mánuðum eftir hin umþrættu viðskipti hafi  stefnandi greitt á gjalddaga af skuldabréfaflokki SPH 98/2, sbr. dskj. 77. Því er mótmælt sem fram kemur í stefnu að á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað hafi verið ljóst að stefnandi væri á sömu leið og stóru viðskiptabankarnir þrír. Við mat á riftanleika hinna umþrættu viðskipta verði að líta til þess að það var ekki fyrr en rúmlega ári eftir að viðskiptin áttu sér stað sem Fjármálaeftirlitið skipaði stefnanda bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Sjóður 1 - Skuldabréf hafi þannig ekki búið yfir upplýsingum um meiriháttar fjárhagsvandræði stefnanda þegar hann seldi skuldabréf sín. Þá hafi Sjóður 1 – Skuldabréf ekki búið yfir meiri eða ítarlegri upplýsingum um stefnanda en hver annar markaðsaðili. Breyti þar engu þótt stefnandi og Glitnir banki hf. hafi rætt sín á milli um samruna félaganna. Þær viðræður hafi verið mjög skammt á veg komnar þegar þeim lauk, sbr. dskj. 85. Þá hafi stefnandi engin gögn lagt fram sem sanni að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi fengið aðgang að þess háttar gögnum sem komu að notum við mat á greiðslugetu stefnanda. Þó svo slíkar fjárhagsupplýsingar hafi verið afhentar starfsmönnum Glitnis banka hf. leyfir stefndi sér að vísa til þess að þær upplýsingar gátu ekki borist þeim starfsmönnum sem ákvörðun tóku um viðskiptin. Stefndi sé fjármálafyrirtæki með óháða stjórn og sé sjálfstætt í störfum sínum frá meðstefnda Íslandssjóðum. Mikil aðgreining sé á milli starfsmanna stefnda og starfsmanna Íslandssjóða og séu þær ráðstafanir stundum kenndar við „Kínamúra“. Aðgreiningin nái meðal annars til húsnæðis, tölvukerfa og verkferla. Ennfremur vinni Sjóður 1 – Skuldabréf og stefndi eftir ítarlegum reglum, sbr. ákvæði II. kafla laga nr. 108/2007 og reglugerðar 995/2007 sem ætlað er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

                Þá er í fjórða lagi á því byggt af hálfu stefnda að dómar sem stefnandi vísar til hafi ekki fordæmisgildi í þessu máli. 

                Í ljósi alls framangreinds telur stefndi ljóst að viðskipti Sjóðs 1 - Skuldabréf hinn 23. febrúar 2009 og 10. mars 2009 með skuldabréf í flokki SPH 98/2 hafi átt sér eðlilegar skýringar og verið venjuleg eftir atvikum.   

                Stefndi telur að krafa stefnanda um riftun á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 sé vanreifuð og mótmælir henni efnislega. Skilyrði tilgreinds lagaákvæðis séu ekki fyrir hendi í málinu.Viðskiptin geti því ekki talist vera gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. 

                Stefndi mótmælir því einnig að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 og því eigi það ákvæði ekki við. Umrædd viðskipti hafi ekki verið ótilhlýðileg og vísar stefndi í því samhengi til aðdraganda viðskiptanna. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið ógjaldfær þegar hin umþrættu viðskipti áttu sér stað. Um það beri stefnandi sönnunarbyrði. Þó svo Fjármálaeftirlitið hafi krafist þess að stefnandi yki við eiginfjárgrunn sinn sé það ekki sönnun þess að stefnandi hafi verið ógjaldfær í skilningi laga nr. 21/1991 á framangreindu tímabili. 

                Stefndi mótmælir því jafnframt að Sjóður 1 – Skuldabréf, eða eftir atvikum stefndi, hafi vitað, eða mátt vita, um ætlaða ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem stefnandi telur að hafi leitt til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.

                Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið krefst stefndi sýknu á endurgreiðslukröfu stefnanda enda liggi ljóst fyrir að hann hafði með engu móti hag af hinum umþrættu viðskiptum og stefndi hafi á engum tímapunkti verið eigandi skuldabréfanna.

                Fari svo að dómur fallist á kröfur stefnanda er á því byggt af hálfu stefnda að atvik þessa máls séu með þeim hætti að fella skuli kröfuna niður eða lækka hana með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991.

                Af hálfu stefnda er því mótmælt að endurgreiðslukrafan skuli bera innlánsvexti. Inntak endurgreiðslureglu 142. gr. laga nr. 21/1991 sé skýrt, að sá sem þola þarf riftun, verði að endurgreiða þrotabúinu fé, þ.e. peningagreiðslu, sem svarar til þeirra verðmæta, sem hann fékk. Þannig sé ekki til staðar lagaheimild fyrir greiðslu vaxta á kröfuna. Þá liggi einnig fyrir að eigandi skuldabréfanna, Sjóður 1 - Skuldabréf, sé í slitameðferð og hafi andvirði skuldabréfanna verið úthlutað til þeirra sem áttu hlutdeildarskírteini í sjóðnum. Því hafi andvirði skuldabréfanna ekki legið á vaxtaberandi innlánsreikningi.

                Um lagarök er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 16. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., aðallega kafla XX og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Krafa stefnda um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Málsástæður og lagarök varastefnda H.F. verðbréfa hf.

Að mati varastefnda snúa kröfur stefnanda að riftun á sölu skuldabréfa og endurgreiðslu á þeirri auðgun sem kom í hlut seljanda vegna sölunnar. Varastefndi byggir á því að kröfum stefnanda sé beint gegn röngum aðila og því um aðildarskort að ræða. Nánar vísar varastefndi til þess að fyrirtækið sé verðbréfafyrirtæki sem hafi afmarkaðar starfsheimildir, sbr. 25. gr. laga nr. 161/2002. Þannig hafi varastefndi m.a. heimild til verðbréfamiðlunar en ekki heimild til að stunda viðskipti með fjármálagerninga fyrir eigin reikning (dómsskjal 49). Þegar af þeirri ástæðu hafi varastefndi ekki getað verið eigandi þeirra fjármálagerninga, sem um ræðir, og þar af leiðandi ekki aðili að þeirri ráðstöfun sem riftun stefnanda beinist að. 

                Varastefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hluti hinna umþrættu skuldabréfa séu í hans eigu. Hann telur jafnframt að skilyrði 142. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt gagnvart varastefnda. Þá hafi stefnandi engin rök fært fram fyrir því að skilyrði séu fyrir skaðabótakröfu samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 á hendur varastefnda og hafnar varastefndi því að nokkur grunnur sé fyrir slíkri kröfu. Varastefndi heldur því einnig fram að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að riftunarskilyrði séu fyrir hendi og færir fyrir því margvísleg rök. Riftunarheimild 134. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um greiðslur sem eru óvenjulegar í sjálfu sér eða fari fram við óvenjulegur aðstæður, en sú aðstaða hafi ekki verið uppi á tímamarki þeirra ráðstafana sem hér um ræðir. Stefnandi mótmælir því einnig að skilyrði riftunar samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Engin merki séu um það að gjafatilgangur hafi verið að baki hinni umþrættu ráðstöfun. Varastefndi telur ljóst að skuldabréfin hafi verið markaðshæf á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Jafnframt hafi skuldabréfin haft markaðsverðmæti og stefnandi, sem kaupandi, átt möguleika á því að selja þau aftur. Varastefndi telur að verð skuldabréfanna í umræddum viðskiptum hafi verið í eðlilegu samræmi við ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Varastefndi byggir á því að engin eignaaukning hafi orðið hjá honum vegna hinnar umþrættu rástöfunar, enda var hann einungis milligönguaðili um viðskiptin. Varastefndi vísar einnig til þess að aðkoma félagsins að viðskiptunum sem hér um ræðir hafi ekki verið ótilhlýðileg heldur hafi varastefndi einungis sinnt milligöngu í samræmi við starfsleyfi sitt. Varastefndi telur að þær „aðstæður“ á íslenskum fjármálamarkaði sem stefnandi vísar til hafi engu skipt fyrir þá skyldu stefnanda, að standa við loforð í skráningarlýsingu, eins og aðrar skuldbindingar sem hann hafði tekið að sér sem starfandi fjármálafyrirtæki. Vísar varastefndi í þessu sambandi m.a. til tilkynningar um ársuppgjör stefnanda sem birt var í mars 2009 og sýndi að eigið fé nam 16.200 milljónum króna (dskj. 61). Varastefndi byggir einnig á því að hann hafi á engan hátt mátt vita um ætlaða ógjaldfærni stefnanda eða meintan ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar á þeim tíma sem hún átti sér stað. Með hliðsjón af framangreindu telur varastefndi að ekki séu uppfyllt skilyrði riftunar gagnvart honum skv. 141. gr. laga nr. 21/1991 og því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.

                Ef ekki verður fallist á sýknukröfu varastefnda, gerir hann þá dómkröfu að honum verði gert að greiða stefnanda 39.745 krónur. Sú fjárhæð nemur þeirri þóknun sem varastefndi fékk greidda frá seljanda fyrir miðlun umræddra skuldabréfa og þ.a.l. fyrir milligöngu á hinni umþrættu ráðstöfun. Varastefndi byggir á því að fjárhæð miðlunarþóknunar hans sé eina mögulega auðgun hans vegna hinna umþrættu ráðstafana. Er þá ekki tekið tillit til kostnaðar hans af viðskiptunum, s.s. rekstrarkostnaðar vegna launa, húsnæðis o.fl., auk þess sem aðild að kauphöllinni árið 2009 fyrir miðlara kostaði 1.350.000 kr. Varastefndi vísar að öðru leyti til þeirra lagasjónarmiða sem áður voru sett fram varðandi skilyrði fyrir endurkröfu vegna auðgunar skv. 142. gr. laga nr. 21/1991. Varðandi kröfu um vexti og dráttarvexti er vísað til þess sem síðar segir í sérstökum kafla um vexti og dráttarvexti.

                Verði ekki á ofangreindar kröfur varastefnda fallist krefst félagið þess að krafa stefnanda um endurgreiðslu verði felld niður eða lækkuð verulega, skv. 145. gr. laga nr. 21/1991. Varastefndi byggir á því að hann hafi ekki haft neina ákvarðandi aðkomu að hinum umþrættu ráðstöfunum. Hann hafi einungis verið milligönguaðili um skuldabréfaviðskiptin og sú háttsemi hafi verið lögmæt og eðlileg. Varastefndi heldur því fram að taka verði tillit til þess að hann fékk aldrei söluandvirði umræddra skuldabréfa í sinn hlut heldur rann það beint til seljanda skuldabréfanna, að frádreginni þóknun að fjárhæð 39.745 krónur.

                Verði ekki á ofangreint fallist gerir varastefndi kröfu um sýknu af kröfu stefnanda um almenna vexti og dráttarvexti af 128.881.000 kr., auk þess sem krafist er að dráttarvextir af 33.026.000 kr. verði dæmdir frá málshöfðun.

                Varastefndi byggir á því að ekki sé heimild til þess að krefjast almennra vaxta á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991, eins og stefnandi byggir á. Þannig sé það skilyrði fyrir kröfu um almenna vexti samkvæmt 3. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, að slíkt leiði af samningi, venju eða lögum. Engin ákvæði eru í lögum um vexti af endurgreiðslukröfu skv. 142. gr. laga nr. 21/1991, enginn samningur stofnaðist um slíka vexti og stefnandi hefur ekki sýnt fram á almenna venju í þessu sambandi. Varastefndi telur einnig að vaxtakrafa verði ekki studd með óljósri staðhæfingu um „auðgun sem nemur þeim vöxtum sem falla til á því tímabili“, enda liggi fyrir að varastefndi fékk aldrei söluandvirði umræddra skuldabréfa í sinn hlut. Af því leiðir að varastefndi átti þess aldrei kost að ávaxta umrædda fjárhæð og verði því ekki krafinn um leigugjald fyrir fjármuni sem hann réð aldrei yfir. Þannig sé krafa um almenna vexti á hendur varastefnda ekki í samræmi við lagasjónarmið að baki 142. gr. um endurheimtu fjár að því marki sem greiðsla þrotamanns kom riftunarþola að notum.

                Varastefndi telur einnig að stofndagur kröfu geti aldrei verið ákveðinn þegar hinar umþrættu ráðstafanir áttu sér stað, enda sinnti stefnandi starfsemi sem fjármálafyrirtæki í 13 mánuði eftir viðskiptin. Varastefndi hafi verið grandlaus um ætlaðan riftanleika þessara ráðstafana, og sérstaklega gagnvart sér sem milligönguaðila, allt til þess er honum barst bréf frá stefnanda þann 10. janúar 2013 varðandi viðskipti þann 10. febrúar 2009. Að síðustu telur varastefndi, í ljósi atvika málsins og með vísan til sjónarmiða í ofangreindri umfjöllun um almenna vexti, að ekki beri að reikna dráttarvexti af 33.026.000 krónum fyrr en við tímamark málshöfðunar, þ.e. 5. apríl 2013. Er um það efni einnig vísað til 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

                Um lagarök vísar varastefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, laga um kauphallir nr. 110/2007, laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

V.

Málsástæður og lagarök stefnda Íslandssjóða hf.

Varastefndi Íslandssjóðir hf. byggir varnir sínar í öllu verulegu á sömu málsástæðum og lagarökum og stefndi Íslandsbanki hf. Eins og hér háttar til verður því látið nægja að vísa um þetta til kafla III hér að ofan.

                Að gefnu tilefni má taka fram að við munnlegan málflutning gat lögmaður stefnanda þess að Íslandssjóðum hf. væri stefnt inn í málið „vegna Sjóðs 1“, en lögmaður Íslandssjóða hf. mótmælti þessu sem of seint fram komnu.

VI.

Niðurstaða

Svo sem áður greinir hefur stefndi Íslandsbanki hf., og raunar einnig varastefndi Íslandssjóðir hf., freistað þess hér fyrir dómi að víkja sér undan spjótalögum stefnanda með því að benda á Sjóð 1 – skuldabréf sem réttan varnaraðila í sinn stað. Gögn málsins bera með sér að nefndur sjóður, sem mun hafa verið í umsjá Íslandssjóða hf., hafi verið tekinn til slitameðferðar síðan atburðir þeir urðu sem hér eru til umfjöllunar.

                Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ofangreindir málsaðilar hafa sett fram sér til varnar í þessu tilliti þykir ekki ástæða til að draga sérstaklega í efa að verðbréfasjóður þessi geti talist persóna að lögum og þar með hæfur til þess, fræðilega séð, að eiga aðild að dómsmáli. Á hinn bóginn – og hvað sem hugleiðingum um aðildarhæfi nefnds sjóðs líður – þarf samt sem áður að taka afstöðu til þess hvort atvikum málsins sé þannig háttað að kröfum stefnanda teljist hér réttilega beint að stefnda og eftir atvikum varastefndu.

                Við úrlausn um þetta er fyrst til þess að taka að í svarbréfi Íslandsbanka hf. 11. mars 2013 við riftunaryfirlýsingum stefnanda, dags. 1. mars 2013 og 7. mars 2013, voru engar athugasemdir gerðar við aðild bankans að þrætu um þetta efni. Með bréfi lögmanns stefnanda til bankans 2. apríl 2013 var sérstaklega skorað á bankann að upplýsa stefnanda um það hvort bankinn teldi sig ekki réttan aðila að dómsmáli um það sakarefni sem hér um ræðir. Erindinu fylgdi lögmaður stefnanda eftir með tölvupósti 4. sama mánaðar þar sem lögmaður Íslandsbanka hf. var spurður hvort bankinn og Íslandssjóðir hf. gætu gefið út sameiginlega yfirlýsingu um það að síðarnefnda félagið væri „raunverulegur“ eigandi greindra skuldabréfa. Í svarskeyti lögmanns bankans, sem sent var með tölvupósti síðar sama dag, segir m.a. orðrétt: „Hvað varðar yfirlýsingu um eignarhald, þá liggur fyrir eftir samráð við framkvæmdastjóra Íslandssjóða hf., að sjóðurinn getur ekki gefið út slíka yfirlýsingu að svo komnu máli. Vissulega voru Íslandssjóðir eigendur bréfanna á ákveðnu tímabili eins og bréfin sýna. Íslandssjóðir eru hins vegar ekki tilbúnir til að gefa neinar yfirlýsingar á þessu stigi um að aðildin sé nú rétt. Áskilinn er réttur til að koma að öllum vörnum á síðari stigum, aðild þar með talin. Auk þess sem rakið hefur verið í fyrri bréfaskriftum verður því eftir atvikum byggt á því hver var framsalshafi í framsalinu. Íslandsbanki hf. tekur sömu afstöðu í öllu framangreindu.“

                Að teknu tilliti til þeirra skýringa sem höfundur ofangreinds tölvupósts gaf í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins þykir verða að skýra eignarhaldið með hliðsjón af gögnum málsins. Við það mat vegur allþungt sú staðreynd að afrit skuldabréfanna sem stefnandi hefur lagt fram sem dskj. 28 bera vott um að framseljandi bréfanna hafi í öllum tilvikum verið Íslandsbanki hf. en ekki Sjóður 1, enda er kennitala bankans skráð þar sem „kennitala framseljanda“. Í ljósi ofangreindrar tregðu Íslandsbanka hf. og Íslandssjóða hf. til að taka af tvímæli um eignarhald að skuldabréfunum og upplýsa stefnanda um málsaðild þykir rétt að túlka allan vafa í þessum efnum stefnanda í vil. Því verður bankinn sjálfur, sem stendur hér í fremstu varnarlínu, að bera hallann af óvissu um þetta, enda er óupplýst í hverju sú ætlaða vangeta fólst sem vísað var til í ofangreindum tölvupósti.  

                Af hálfu stefnanda hafa, á dskj. 28, verið lögð fram afrit af fjórum skuldabréfum í flokki SPH 98/2, nánar tiltekið nr. 98-2415 til 98-2418, samtals að nafnverði 20.000.000 kr. Öll bera þessi bréf með sér að hafa verið framseld VÍB Sjóði 1, kt. 540489-5059, (síðar Sjóði 1) þann 6. september 2002, en framseld áfram af hálfu Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, 20. febrúar 2009 til H.F. Verðbréfa hf., sem lét stefnanda bréfin í té. Athygli vekur að við síðastgreint framsal til stefnanda hefur Arion verðbréfavarsla hf. stimplað skjalið sem framseljandi „samkvæmt varðveittu umboði“. Í bréflegum skýringum Arion banka til lögmanns stefnanda 21. janúar 2013 var tekið fram að Arion verðbréfavarsla hefði einungis verið í hlutverki uppgjörsaðila í tilvísuðum viðskiptum að fjárhæð 128.881.000 kr. þar sem kaupandi hafi verið Byr verðbréf hf. „en seljandi var Íslandsbanki hf.“ Nánar er þessu lýst þannig í bréfinu að 11. mars 2009 hafi verið „skráð viðskipti hjá Arion verðbréfavörslu þar sem Íslandsbanki seldi í tveimur viðskiptum SPH 98 2 til Byr verðbréfa hf. í einum viðskiptum“. Áritun stefnda Íslandsbanka hf. á skjölin er engu sambærilegu fororði undirorpin og hjá Arion verðbréfavörslu hf. Því er hér við að bæta að engin gögn hafa verið lögð fram sem gefa tilefni til að ætla að annar háttur hafi verið hafður á við framsal annarra skuldabréfa í sama flokki sem dómkröfur stefnanda taka til. Stefndi Íslandsbanki hf. hefur raunar, sem fyrr segir, beinlínis vísað til dómskjals nr. 28 til staðfestingar á því hvernig framsölum var háttað. 

                Af hálfu Íslandssjóða hf. hafa, á dskj. 80-83 og 86, verið lögð fram afrit yfirlita frá stefnda Íslandsbanka hf. um „viðskipti skráð á vörslureikning 153“. Eftirfarandi yfirskrift er að finna í öllum þessum skjölum: „Íslandssjóðir hf, sjóður 1 – Skuld“. Af hálfu Íslandsbanka hf., sem og Íslandssjóða hf., hefur um varnir verið vísað til dómskjala þessara, þ.e. 80-83 og 86, til stuðnings því að Sjóður 1 hafi verið sá aðili sem seldi skuldabréfin, sem hér um ræðir, á tímabilinu 20. febrúar 2009 til 12. mars 2009.

                Við mat á sönnunargildi dómskjala 80-83 og 86 verður í fyrsta lagi að horfa til þess að stefndi hefur engan þjónustusamning lagt fram til stuðnings því að bankinn hafi skuldbundið sig til að annast innlausn eða vörslur og uppgjör fyrir Sjóð 1. Í öðru lagi þykir í þessu samhengi óhjákvæmilegt að hafa hliðsjón af þeirri staðreynd, að samkvæmt opinberum upplýsingum um Íslandssjóði hf., sbr. dskj. 42, er Íslandsbanki hf. skráður fyrir 99,7% eignarhlut í Íslandssjóðum hf. Þrátt fyrir að fram komi í sömu upplýsingum að „meirihluti stjórnarmanna“ í Íslandssjóðum hf. sé óháður, er tengslum milli síðastgreindra þriggja lögpersóna þannig háttað að dskj. 80-83 og 86 geta vart, með tilliti til sönnunar, vegið þyngra en gögn um viðskiptin sem upprunnin eru hjá fyrirtækjum sem fjær standa. Ber hér, auk þess sem áður hefur verið um getið, að nefna gögn frá Arion banka hf. sem fylgdu dskj. 31 og geyma yfirlit yfir viðskipti þau sem framangreind orðræða í bréfi Arion banka 21. janúar 2013 lýtur að. Yfirlitin sýna viðskipti með skuldabréf í flokki SPH 98/2 10. mars 2009 að sömu fjárhæð og getið er um í kröfugerð stefnanda. Yfirlit þessi, sem bera með sér að hafa verið gefin út af H.F. Verðbréfum hf., eru stíluð á nafn Íslandsbanka hf. sem seljanda með sömu kennitölu og greinir á áðurgreindum afritum skuldabréfanna sjálfra, auk þess sem heildaryfirlit hefur sjáanlega verið sent stefnanda sem kaupanda. Við það mat sem hér þarf að fara fram vegur einnig þungt framlagt yfirlit H.F. Verðbréfa hf. á dskj. 55 sem sýnir að greiðslur fyrir ofangreind viðskipti hafi verið lagðar inn á reikning stefnda Íslandsbanka hf. Síðast en ekki síst ber að árétta, að við mat á því hvorum megin hryggjar ábyrgð liggur í þessu samhengi skiptir vitaskuld einna mestu máli það hvernig áritun á skuldabréfin sjálf var háttað, en um það hefur þegar verið fjallað.

                Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að Íslandsbanki hf. veitti endurgjaldi fyrir bréfin viðtöku á sinn reikning og jafnframt voru bréfin framseld í nafni bankans með kennitölu hans, en ekki með kennitölu Sjóðs 1 eða Íslandssjóða. Leggja má til grundvallar að fulltrúum bankans hafi verið fyllilega ljóst að fyrirvaralaus áritun á skuldabréf er ekki án réttaráhrifa. Að auki gildir í samningarétti sú regla, að ætli umboðsmaður að standa utan við réttarsamband sem skapast gagnvart viðsemjanda hans verður umboðsmaður að hafa gefið ótvírætt til kynna við viðsemjandann að hann komi fram í nafni annars manns og ekki í eigin nafni, því að öðrum kosti verður hann sjálfur bundinn af þeim löggerningum sem hann stofnar til. Að þessu virtu þykir ekki þurfa fleiri blöðum um það að fletta hvernig telja beri að eignarhaldi að umræddum bréfum hafi verið háttað. Það hvernig stefndi Íslandsbanki hf. kann að hafa ráðstafað andvirði greindra skuldabréfa í kjölfar viðskiptanna getur með hliðsjón af öllu framangreindu ekki valdið því að dómkröfum stefnanda teljist ranglega að bankanum beint.

                Með vísan til framanritaðs og með því að mál þetta telst með réttu höfðað á hendur stefnda Íslandsbanka hf. er þarflaust að taka hér afstöðu til krafna stefnanda á hendur H.F. Verðbréfum hf. og Íslandssjóðum hf.  Eftir stendur þó að leysa efnislega úr þeim kröfum sem stefnandi hefur hér sett fram á hendur Íslandsbanka hf.  

                Af framlögðum gögnum má telja ljóst að eignir stefnanda munu ekki nægja til að uppfylla skuldbindingar hans að fullu. Því er stefnanda heimilt, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, að krefjast hér riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Málið telst einnig höfðað innan þess frests sem lög áskilja.

                Riftunarkröfu sína reisir stefnandi sem fyrr segir aðallega á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefndi Íslandsbanki hf. hefur borið því við að ekki hafi verið um greiðslu á skuld að ræða þar sem viðskipti stefnanda hafi verið liður í þeirri viðskiptavakt sem stefnandi hafði tekið að sér. Í skilmálum skuldabréfa þeirra sem hér um ræðir kom fram að Sparisjóður Hafnarfjarðar (síðar stefnandi) skuldbindi sig til að vera viðskiptavaki bréfanna og setja fram daglega kauptilboð að lágmarki 20 m.kr. og leitast jafnframt við að setja fram sölutilboð. Af þessu má álykta að gengið hafi verið út frá því að stefnandi kynni sjálfur að eiga viðskipti með skuldabréf sem hann hafði gefið út. Þegar stefnandi leysti til sín þau skuldabréf sem um ræðir í máli þessu komust réttindi og skyldur samkvæmt bréfunum á sömu hendi. Þrátt fyrir framangreinda skuldbindingu stefnanda til að annast svonefnda viðskiptavakt standa engin haldbær lagarök til þess að víkja við þessar aðstæður frá þeirri meginreglu fjármunaréttar að kröfuréttindi falli niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi. Getur þar engu breytt þótt stefnandi hefði í kjölfar kaupa á nefndum skuldabréfum getað stofnað aftur til til skuldar með því að selja þau öðrum. Má í þessu samhengi vísa til dóms Hæstaréttar Íslands 16. apríl 2010 í máli nr. 162/2010. Í samræmi við framangreint þykir mega slá því föstu að stefnandi hafi greitt stefnda Íslandsbanka hf. kröfur bankans á hendur stefnanda. Áður er fram komið að frestdagur við slit stefnanda var 16. júní 2009, en greiðslur stefnanda voru inntar af hendi 23. febrúar 2009 og 10. mars 2009. Nefndar greiðslur stefnanda voru því inntar af hendi vel innan tímamarka ofangreinds ákvæðis 134. gr. laga nr. 21/1991. Gjalddagi skuldabréfanna var 25. maí 2013 og geymdu þau enga uppgreiðsluheimild á fyrra tímamarki. Að þessu virtu greiddi stefnandi skuld sína fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laganna.

                Af hálfu stefnda Íslandsbanka hf. hefur því verið haldið fram að greiðslurnar sem hér um ræðir séu ekki riftanlegar þar sem þær hafi verið venjulegar eftir atvikum. Sönnunarbyrði um þetta atriði hvílir á stefnda. Ráðstafanir þær sem um er deilt í máli þessu áttu sér stað snemma árs 2009, nokkrum mánuðum eftir fall þriggja stærstu viðskiptabanka landsins, þ.m.t. stefnda, og mjög skömmu áður en stærsti sparisjóðurinn hér á landi var tekinn til slita. Ekki verður heldur fram hjá því litið að degi áður en síðari innlausnin sem hér um ræðir átti sér stað birti Fjármálaeftirlitið auglýsingu þar sem tilkynnt var um skipan skilanefndar fyrir Straum-Burðarás fjárfestingarbanka. Allt endurspeglar þetta þá grafalvarlegu stöðu sem upp var komin í íslensku fjármálalífi þegar umrædd viðskipti fóru fram og telja má ljóst að tvísýnt hafi þá verið orðið um gjaldfærni sparisjóðanna, þ.m.t. Byrs. Þegar greiðslur stefnanda eru settar í þetta samhengi hefur stefnda ekki tekist sönnun um að innlausn bréfanna á þessum tíma, rúmlega fjórum árum fyrir gjalddaga þeirra 25. maí 2013, og við þær aðstæður sem uppi voru að öðru leyti hafi verið venjuleg ráðstöfun. Að öllu framangreindu virtu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta greiðslum þeim sem dómkrafa stefnanda lýtur að vegna innlausnar á skuldabréfunum.

                Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hefur hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotabúsins hefur komið honum að notum. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stefndi Íslandsbanki hf. hafi verið eigandi skuldabréfanna þegar stefnandi innleysti þau og greiddi með því að leggja andvirðið inn á reikning bankans. Ekki eru rök til annars en að telja að sú greiðsla hafi komið stefnda að fullum notum í rekstri hans. Með því að stefndi Íslandsbanki hf. hefur ekki með haldbærum rökum sýnt fram á að hér standi svo sérstaklega á að skilyrði séu til að beita undantekningarákvæði 145. gr. laga nr. 21/1991 verður hafnað kröfu stefnda um niðurfellingu eða lækkun kröfu stefnanda. Samkvæmt öllu framansögðu verður endurgreiðslukrafa stefnanda tekin til greina.

                Krafa stefnanda um dráttarvexti verður tekin til greina miðað við málshöfðunardag, þ.e. frá 8. apríl 2013, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Ekki leiðir af samningi, venju eða lögum að greiða beri almenna vexti eftir II. kafla laga nr. 38/2001 til þess tíma.

                Eftir þessum úrslitum verður stefnda Íslandsbanka hf. gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda og beggja varastefndu, Íslandssjóða hf. og H.F. Verðbréfa hf., falli niður.

                Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

                                                                              Dómsorð:

                Rift er greiðslu á 33.026.000 kr. frá stefnanda, Byr sparisjóði, til stefnda, Íslandsbanka hf., sem fram fór þann 23. febrúar 2009 og til kom vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 20.000.000 kr.

                Rift er greiðslu á 128.881.000 kr. frá stefnanda til stefnda, Íslandsbanka hf., sem fram fór þann 10. mars 2009 og til kom vegna innlausnar fyrir gjalddaga á skuldabréfum, útgefnum af stefnanda, í flokki SPH 98/2, Isin nr. IS0000002335, að nafnverði 80.000.000 kr.

                Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði stefnanda 161.907.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 128.881.000 frá 8. apríl 2013 til greiðsludags.

                Varastefndu, H.F. Verðbréf hf. og Íslandssjóðir hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda í máli þessu.

                Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði stefnanda, Byr sparisjóði, 2.000.000 kr. í málskostnað. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.