Hæstiréttur íslands
Mál nr. 377/2016
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2016. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.
Svo sem áréttað er í 1. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 á barn rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Barnið á rétt á forsjá foreldra sinna, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga, og foreldrum ber að annast það og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum, sbr. 2. mgr. 28. gr. sömu laga. Sérstaklega er áréttað í 1. mgr. 1. gr. barnalaga sem og 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að óheimilt sé að beita barn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Bregðist foreldrar þessum grundvallarskyldum sínum kann að koma til kasta barnaverndarnefnda á grundvelli þeirra úrræða sem þeim eru ætluð samkvæmt ákvæðum VI. kafla barnaverndarlaga, þar með talið forsjársviptingar á grundvelli 29. gr. laganna. Að framangreindum atriðum gættum er staðfest með vísan til forsendna sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að svipta áfrýjanda forsjá fimm barna sinna með vísan til a.-, c.- og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2016.
I.
Mál þetta sem var höfðað með áritun lögmanns stefndu á stefnu þann 21. október 2015 og framhaldsstefnu þann 30. október 2015 var dómtekið þann 8. apríl 2016. Það sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Dómkröfur stefnanda, barnaverndarnefndar Reykjavíkur, eru þær að stefnda, A, [...] Reykjavík verði svipt forsjá barna sinna, B, kt. [...], C, kt. [...], D, kt. [...], E, kt. [...] og F, kt. [...].
Stefnda krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.
II.
Með úrskurði, dags. 21. apríl 2015, ákvað stefnandi að börn stefndu yrðu vistuð á heimili á vegum stefnanda í allt að tvo mánuði frá þeim degi að telja á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í framhaldinu var þess krafist fyrir dómi að vistun barnanna utan heimilis stefndu stæði í sex mánuði frá og með 21. apríl 2015 að telja þar sem talið var að börnin hefðu búið við óviðunandi aðstæður í umsjá stefndu um lengri tíma. Undir rekstri málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samþykkti stefnda vistun barnanna C og B utan heimilis í sex mánuði. Með dómi Hæstaréttar Íslands, dags. 18. júní 2015 í máli nr. 384/2015 var fallist á kröfu stefnanda um vistun F, E og D utan heimilis stefndu í sex mánuði frá 21. apríl 2015. Á fundi stefnanda þann 13. október 2015 kom fram að stefnda væri samþykk vistun C og B utan heimilis í sex mánuði á meðan mál um forsjársviptingu yrði rekið fyrir dómi. Á fundinum var jafnframt samþykkt að krefjast þess að stefnda yrði svipt forsjá allra barnanna á grundvelli a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.
Börnin eru nú vistuð utan heimils frá 21. apríl 2015 á grundvelli 2. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002.
Samkvæmt gögnum málsins hefur stefnandi haft málefni barna stefndu til meðferðar allt frá árinu 2005. Hefur á þeim tíma borist fjöldi tilkynninga um gróft ofbeldi á heimili stefndu sem beinst hafi að börnunum. Við meðferð málsins hafa verið gerðar átta meðferðaráætlanir. Ýmis úrræði hafa verið reynd bæði hjá Barnavernd og þjónustumiðstöð. Þau úrræði sem hafa verið í málinu eru m.a. stuðningsfjölskylda, sálfræðiviðtöl, Stuðningurinn heim, Greining og ráðgjöf heim og kennslu- og greiningarvistun á Vistheimili barna.
Í málinu liggur fyrir forsjárhæfnismat G sálfræðings, dags. 18. júní 2015, á sálrænum högum stefndu, sem aflað var af Barnavernd Reykjavíkur. Í niðurstöðu matsins kemur m.a. fram að stefnda eigi við mjög alvarlega persónuleikaröskun að stríða sem valdi vandkvæðum í öllu hennar lífi. Hún sé hvatvís, óstöðug tilfinningalega og með reiðivandamál. Þá virðist stefnda hafa slaka innsýn í eigin hegðun, afneiti flestu neikvæðu í sínu fari, kenni öðrum um eigin ófarir og frásagnir hennar af atburðum séu iðulega í andstöðu við gögn málsins. Telur matsmaður ljóst að stefnda hafi þörf fyrir lengri tíma meðferð, líklegast tvö til þrjú ár með sértækum sálfræðilegum aðferðum. Vegna skorts á innsæi stefndu sé hins vegar ólíklegt að hún muni gangast undir slíka meðferð. Telur matsmaður að þó að stefnda geti náð árangri varðandi persónuleikavanda sinn þá sé ekki þar með sagt að hún muni ná árangri varðandi forsjárhæfni þar sem viðhorf hennar í þeim efnum séu „fastmótuð“. Telur matsmaður að stefnda hafi ekki nægjanlega eða nauðsynlega forsjárhæfni til að sinna börnum sínum og telur stuðning til þess óraunhæfan miðað við sögu fjölskyldunnar.
Í málinu liggur einnig fyrir Geðheilbrigðisrannsókn í Forsjárhæfnimati, dags. 18. júní 2015, sem gerð var af H, yfirlækni geðdeilda Landspítala, og aflað var að beiðni stefnanda. Í skýrslu geðlæknisins kemur m.a. fram að stefnda sé haldin persónuleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum. Telur læknirinn að saga og hegðun stefndu staðfesti greininguna. Stefnda þurfi reglulega stuðningsmeðferð sem krefjist sérþekkingar. Slík meðferð þurfi oft að vera til margra ára. Stefndu skorti ekki greind en ljóst sé að hún geti ekki veitt börnum sínum fullnægjandi uppeldisskilyrði að sinni. Stefndu skorti innsæi í þörf á að skoða og ná betri stjórn á tilfinningalífi sínu. Þroski barnanna og velferð sé ekki nægjanlega tryggð við þau uppeldisskilyrði, sem stefnda geti veitt þeim á meðan hún sé ekki komin lengra í bata sínum. Þá kemur fram í mati geðlæknisins að stefnda hafi marga styrkleika. Hún sé ágætlega gefin, skipuleg og dugleg, hafi þokkalegan metnað og vilji í raun börnum sínum allt hið besta. Veikleiki hennar sé að hún hafi ekki öðlast fullt innsæi í þörf á að skoða og ná betri stjórn á tilfinningalífi sínu. Skilji hún og samþykki þetta séu til ágætis meðferðar- og stuðningsúrræði sem hún eigi að geta nýtt sér. Um hæfni stefndu til að nýta sér meðferð og frekari stuðningsúrræði segir í niðurstöðum geðlæknisins að fái stefnda innsæi í og skilji grunnvanda sinn séu til örugg og vel reynd úrræði sem ættu að geta hjálpað henni.
Í þinghaldi þann 4. janúar 2016, lagði dómurinn fyrir stefnanda að afla matsgerðar um foreldra og börn þau sem eru til umfjöllunar í máli þessu. Voru í kjölfarið þau I sálfræðingur og J geðlæknir dómkvödd til þess að framkvæma matið. Í matsbeiðni var þess farið á leit að matsmenn mætu ítarlega geðrænt ástand móður og hagi, getu og forsjárhæfni, sem og tengsl sérhvers barns við hana og gæði þeirra samskipta. Einnig var þess farið á leit að matsmenn mætu ítarlega innbyrðis samskipti móður og barnsföður og einnig áhrif samskipta þeirra á sérhvert barn. Einnig var þess óskað að matsmenn mætu ítarlega getu móður til að tryggja börnum sínum öruggt og tryggt umhverfi. Að lokum var þess óskað að matsmenn mætu hæfi móður til að nýta sér möguleg meðferðarúrræði, hvort sem þau lúti að eigin heilsu, heilsu barna hennar, eða aðstoð við uppeldið.
Í niðurstöðum og ályktunum matsmanna, dags. 3. mars 2016, um geðrænt ástand móður, forsjárhæfni hennar og getu, tengsl hennar við sérhvert barn og gæði þeirra samskipta, kemur fram að stefnda hafi átt við geðræn vandamál að stríða um langt árabil eða allt frá árinu 1998. Saga sé um andlegt og líkamlegt ofbeldi af hendi barnsföður og miklir erfiðleikar í sambúð þeirra. Á árinu 2006 hafi stefnda fengið aðstoð á Hvítabandinu þar sem hún hafi lýst stormasömu sambandi við barnsföður. Áframhaldandi erfiðleikar hafi verið á árunum 2007 og 2008 auk erfiðleika í sambandi við barnsföður. Hún hafi fengið stuðning göngudeildar Landspítala á árinu 2010. Á þessum árum hafi aðalsjúkdómsgreiningar stefndu verið þunglyndi og kvíðaraskanir. Í október árið 2010 hafi eldri börnin verið tekin af stefndu og flutt á vistheimili borgarinnar við Laugarásveg vegna erfiðleika heima fyrir. Hafi stefnda á þessum tíma sótt stuðning í göngudeild geðdeildar. Sumarið 2015 hafi stefnda þrívegis verið lögð inn á bráðaþjónustu geðdeildar Landspítalans, en á þeim tíma hafi börnin verið farin af heimili hennar. Í þeim innlögnum sé rætt um mikla skapbresti stefndu og dramatík og í fyrsta skipti rætt um það á geðdeild að hún sé haldin jaðarpersónuleikaröskun. Á árinu 2010 hafi þrjú eldri börnin lýst því að móðir þeirra hafi beitt þau líkamlegu ofbeldi og næstelsti sonur, C, lýst miklu líkamlegu ofbeldi móður gagnvart öllum börnunum á árunum 2013, 2014, 2015 og 2016. Þá hafi D einnig lýst ofbeldi árið 2015.
Matsmenn telja að stefnda hafi átt við geðræna erfiðleika að stríða allt frá unglingsaldri og hafi líðan hennar síst farið batnandi með árunum. Sjálf hafi stefnda lýst því að frá því að börnin voru tekin af henni hafi henni liðið verr en nokkru sinni áður. Hún sé nú í endurhæfingu á dagdeild Kleppsspítala og óvíst sé um útskrift eða hvaða úrræði hún fái í framhaldi en meðferðaraðilar telji hana þurfa meiri meðferð en hægt sé að veita í göngudeildarviðtölum. Stefnda hafi stundað meðferð á Kleppi vel en engu að síður sé ljóst að vandi hennar sé verulegur og langvarandi. Stefnda hafi nú greiningu um persónuleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum á Landspítala en þyki ekki sína mikil slík einkenni í meðferð á Kleppi. Markmið í meðferð hafi verið að styðja stefndu og virkja hana og vinna með streituþol og tilfinningastjórnun. Samkvæmt matsgerðinni hafa matsmenn miklar efasemdir um forsjárhæfni stefndu með vísan til 29. gr. barnaverndarlaga og þá einkum með vísan til c-liðar 1. mgr. ákvæðisins. Séu lýsingar C, elsta sonar stefndu, nákvæmar og ítarlegar og lýsingar hans fari saman við það sem fram komi í gögnum málsins. B, elsta barn stefndu, og næstelsti sonur, D, virðist að hluta til að minnsta kosti hafa dregið yfirlýsingar sínar um líkamlegt ofbeldi af hendi móður til baka og í viðtölum matsmanna við þau hafi komið fram að þau væru að hlífa móður sinni og væru undir mjög sterkum áhrifum frá henni um það að segja ekki frá því hvað hafi gerst í samskiptum innan heimilisins. Þá telja matsmenn að stefnda hafi verið í slöku sambandi við skóla varðandi vanda barna sinna og hafi jafnvel afþakkað þjónustu. Telja matsmenn ljóst að andlegri heilsu, þroska og jafnvel líkamlegri heilsu barnanna sé ógnað í umsjá stefndu, en börn hennar hafi öll að undaskildu yngsta barninu sýnt veruleg og versnandi frávik í hegðun og líðan í umsjá hennar. Telja matsmenn athyglisvert að elstu börnin þrjú vilji öll hverfa aftur heim til sín og óski þess jafnvel að faðirinn verði aftur hluti af fjölskyldunni. Telja matsmenn að það skýrist að hluta til af því að þau séu undir miklum þrýstingi frá móður en einnig því að inn á milli sýni hún af sér eðlilegri samskipti og sýni börnunum hlýju. Þá taka matsmenn sérstaklega fram að í umsögnum um börnin komi fram að þau séu vel klædd og hirt.
Í matsgerðinni er gerð grein fyrir tengslum barna og móður. Um tengsl B og stefndu segir að hún sé í vistun hjá foreldum stefndu og sé í stöðugu sambandi við stefndu. B kannist ekki við harkalegar uppeldisaðferðir á heimilinu og neiti að svara spurningum um átök á milli foreldra sinna. Á sjálfsmatskvarða lýsi B góðri líðan sem samrýmist tæplega því hversu mjög hún sakni móður sinnar. Á fjölskyldutengslaprófi hafi B verið í mikilli vörn og hafi sýnt veik, en jákvæð tengsl við móður sína en mjög lítil við bræður sína og föður. Telja matsmenn að B hafi mikið af einhliða upplýsingum frá móður sinni og ömmu varðandi mál þetta, hún hafi ákveðið að sýna tryggð við móður sína og vinna að því að sigra barnaverndarnefnd og sameina fjölskylduna. Virðist ósk hennar um að koma aftur heim til móður einlæg. Þá hafi samskipti mæðgnanna í umgengni verið afslöppuð og hlýleg.
Um elsta soninn, C, er tekið fram að samkvæmt mati frá Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL), hafi verið reynt að vinna með tengsl hans og stefndu. Það hafi verið niðurstað BUGL að ekki hafi tekist að vinna með tengslavanda stefndu og mikilvægt að C haldi áfram í því fóstri þar sem hann sé. Matsmenn taka fram að C hafi lýst alvarlegu, ítrekuðu og grófu ofbeldi stefndu gagnvart öllum börnunum við ýmsa aðila og auk þess í löngu viðtali við matsmenn. Sé frásögn hans afar trúverðug og nákvæm. Að auki hafi hann lýst því hvernig stefnda hafi stjórnað heimilislífinu með skapsmunum sínum og hótunum og áhrifum þess að vera alltaf hræddur við barsmíðar. C hafi frá unga aldri sýnt alvarleg frávik í hegðun og mikla vanlíðan. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá BUGL sé svörunartengslaröskun talin ástæða fyrir hegðun hans og líðan og talið fullreynt að vinna með stefndu í að bæta öryggi hans og traust. Í viðtali við drenginn og á fjölskyldutengslaprófi hafi verið áberandi sú togstreita sem hann búi við vegna þess að móðir hans, sem hann hafi verið háður, hafi stundum verið honum góð, en einnig mikill ógnvaldur sem hræði og meiði. Þrátt fyrir það grófa ofbeldi og niðurlægingu sem stefnda hefði beitt hann langaði hann til að flytja aftur heim til hennar. Telja matsmenn að C hafi orðið fyrir skaða á tengslum í uppeldinu sem erfitt væri að vinna með og telja megi að muni há honum um óákveðna framtíð. Þá taka matsmenn fram að þegar fylgst var með samskiptum stefndu og C í umgengni hafi verið áberandi hvernig stefnda gaf honum óljós skilaboð, gagnrýndi hann og kom með hæðnislegar athugasemdir í hans garð.
Um D er tekið fram að hann hafi tvívegis verið metinn vegna einkenna um athyglisbrest og rannsóknir frá því í janúar 2015 sýni vitsmunaþroska í lágu meðallagi. Drengurinn hafi lýst því í skýrslutöku vorið 2015 að móðir hans hafi beitt hann ofbeldi, auk þess sem hún hafi meitt yngri bræður hans. Er það álit matsmanna að drengnum líði vel á fósturheimili, en hann sakni fjölskyldu sinnar og langi til að hitta hana vikulega. Áberandi hafi verið hversu erfitt drengurinn eigi með að taka afstöðu og svara spurningum matsmanna og að hann hafi viðurkennt að móðir hans hafi bannað honum að tala um ofbeldi það sem verið hefði á heimilinu. Á tengslaprófi hafi hann gefið óeðlilega og ýkta mynd af fullkomnu fjölskyldulífi stefndu og barnanna þar sem allir væru glaðir og góðir hver við annan. Taka matsmenn fram að D hafi sótt í nánd við móður sína í umgengni, hann hafi legið í fangi hennar og faðmað bæði við komu og við kveðjustund. Hafi samskipti þeirra verið hlýleg og hann faðmað hana mikið að skilnaði.
Um yngri bræðurna, þá E og F, segir í matsgerð að E hafi verið mikið lasinn og á eftir í þroska, sérlega málþroska, og hafi forðast augnsamband við starfsfólk leikskóla. Eftir aðgerð á eyrum hafi hann sýnt miklar framfarir og enn frekar eftir að hann hafi farið úr umsjá móður. Í endurmati sé honum lýst sem hraustlegum og glaðlegum og að einkenni á einhverfurófi komi ekki fram. Að því er varðar F , sem hafi verið 17 mánaða gamall er hann fór úr umsjá stefndu, hafi ekki komið fram athugasemdir varðandi þroska hans og líðan. Matsmenn telja að í athugun þeirra á samskiptum þeirra bræðra við móður sína hafi verið áberandi hvað þeir væru nánir. Hvorugur þeirra hafi virst spenntur að hitta móður sína, og að þeir hafi sýnt henni litla athygli.
Um innbyrðis samskipti stefndu við barnsföður, K, og áhrif samskipta þeirra á börnin segir m.a. að samskipti þeirra hafi alla tíð verið stormasöm. Ásakanir hafi verið á báða bóga um afbrigðilega hegðun. K hafi margsinni tilkynnt ofbeldi stefndu gagnvart börnunum öllum, en yfirleitt dregið tilkynningarnar til baka og segi nú í viðtali við matsmenn að hún hafi alltaf verið þeim góð móðir. Í sjúkraskrá K komi fram að hann hafi verið í mjög mikilli og þungri neyslu, en hann hafi upp á síðkastið verið í endurhæfingu. Ekki væri þó komin mikil reynsla á hana. Lýst sé mjög afbrigðilegri hegðun hans og miklum hótunum. Matsmenn telja erfitt að meta áhrif K á sérhvert barn. Fram komi að hann virðist ekki hafa beitt börnin líkamlegu ofbeldi, en hafi ekki heldur skorist í leikinn þegar móðir þeirra hafi beitt þau ofbeldi. Langar fjarvistir hans frá heimilinu hafi orðið til þess að samskipti hans við börnin væru yfirborðskennd og í sumum tilvikum mjög lítil og erfitt sé að meta áhrif framferði föðurins á hvert barn. Samkvæmt gögnum málsins er það álit matsmanna að mjög óeðlileg samskipti stefndu og barnsföður hennar séu að minnsta kosti að hluta til uppspretta að vandamálum þeirra varðandi börnin og því sem börnin hafi þurft að þola í samskiptum við foreldra sína. Stöðugar kærur og ásakanir þeirra hvort á annað og til barnaverndar hafi orsakað mikinn óstöðugleika á heimilinu og þrátt fyrir að barnsfaðirinn hafi verið lengi fjarri heimilinu á síðustu mánuðum hafi móðirin verið illa hæf til þess að tryggja börnum sínum öryggi og tryggt umhverfi. Líkamleg og stundum vopnuð átök þeirra, bifreiðaákeyrslur, eignaspjöll, hótanir og illmælgi stefndu og K í garð hvort annars, sem átt hafi sér stað í viðurvist barna þeirra, hafi án efa valdið börnunum bæði ótta og óöryggi auk þess sem fjögur elstu börnin hafi hermt eftir hegðun þeirra, verið árásargjörn og átt erfið samskipti við jafnaldra sína og fullorðna.
Um getu móður til þess að tryggja börnum sínum öruggt umhverfi, er niðurstaða matsmanna sú að stefnda sé ekki fær um það. Í umsjá hennar hafi börnin verið eftirlitslaus, óbundin í bifreið og verið vitni að hótunum og rifrildum hennar við fjölmarga aðila. Stefnda hafi ekki brugðist við þegar leitað væri til hennar vegna vanda barnanna í skóla og að hún hafi ekki nýtt sér aðstoð og leiðbeiningar vegna vanda þeirra. Hún væri börnum sínum slæm fyrirmynd bæði hvað varðaði samskipti, framkomu og stjórn á skapi og tilfinningum. Ljóst væri því að stefnda hefði ekki búið börnum sínum öruggt og tryggt umhverfi.
Um möguleika stefndu til að nýta sér möguleg meðferðarúrræði, vegna eigin heilsu, heilsu barna hennar eða aðstoð við uppeldi þeirra, taka matsmenn fram að stefnda hafi fengið langvarandi og mjög mikinn stuðning frá geðdeild Landspítala meira og minna samfleytt frá árinu 2004, bæði með langvarandi samskiptum við göngudeild og innlögnum. Hún hafi tvívegis farið á Hvítabandið, nokkra mánuði í hvort skipti, og þá hafi hún verið í samfelldum stuðningi við endurhæfingardeild geðdeildar Landspítalans frá hausti 2015 eftir innlagnir á bráðageðdeildir um sumarið. Matsmenn vísa til þess að í sjúkraskrá komi fram að líðan stefndu virðist batna um tíma þegar hún fái viðhlítandi meðferð og stuðning, en endurtekið sæki aftur í sama horf. Þrátt fyrir miklar brotalamir í samskiptum stefndu og K geti þau ekki heldur slitið samskiptin og fram hafi komið að þau væru enn í dag í verulegum samskiptum þó að þau búi ekki saman. Stefnda hafi fengið mikinn og góðan stuðning sem hún virðist hafa getað nýtt sér frá hausti 2015 frá endurhæfingardeild geðdeildar Landspítalans, en þess beri að geta að hún hafi ekki haft forræði barna sinna á þessum tíma, heldur eingöngu fremur strjálan umgengnisrétt við þau. Barnavernd hafi ítrekað sent inn aðstoð við uppeldið og þar beri allt að sama brunni, betra ástand um tíma, en síðan sæki aftur í sama horf. Hæfni stefndu til að nýta sér stuðning og meðferð takmarkist að verulegu leyti af því að hún taki sjálf ekki ábyrgð á stöðu sinni eða líðan heldur kenni öðrum, svo sem K, Barnavernd, kennurum og nágrönnum um það sem miður fari. Á sama hátt axli hún ekki ábyrgð sína á þeim aðstæðum sem börn hennar hafi búið við né heldur viðurkenni hún það harðræði sem hún hafi beitt þau. Á meðan stefnda viðurkenni ekki þessa þætti sé ekki hægt að ætlast til þess að meðferð beri árangur. Að lokum telja matsmenn að haldi stefnda áfram að hafa forræði yfir börnum sínum sé mjög líklegt að það ástand sem hafi ríkt á undanförnum árum haldi áfram í einhverri mynd með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir andlega og líkamlega velferð barnanna.
Stefnda gaf skýrslu fyrir dóminum. Einnig gáfu skýrslu fyrir dóminum G sálfræðingur, H geðlæknir, L, stuðningsfulltrúi fjölskyldu, M, móðir stefndu, N, frænka stefndu, J geðlæknir og I sálfræðingur.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á ákvæðum a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Mál barnanna hafi verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur um langt skeið með hléum vegna tilkynninga um vanrækslu og ofbeldi stefndu gagnvart börnunum. Við meðferð málsins hafi verið gerðar átta meðferðaráætlanir í málinu sem miða að stuðningi við stefndu í uppeldishlutverki sínu við börnin. Ýmis úrræði hafi verið reynd bæði hjá Barnavernd og þjónustumiðstöð. Stefnda hafi verið treg til samvinnu og hafi stuðningsúrræði sökum þess ekki skilað tilætluðum árangri. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur telji að ekki leiki vafi á því að stefnda hafi beitt öll fimm börn sín grófu andlegu og líkamlegu ofbeldi og að þau hafi búið við óviðunandi aðstæður í hennar umsjá alla tíð. Aðstæðurnar hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir þau, þar sem fullvíst sé að líkamlegri og eða andlegri heilsu þeirra og þroska hafi verið hætta búin.
Stefnandi bendir á að samræmi sé í niðurstöðum geðheilbrigðisrannsóknar H geðlæknis og forsjárhæfnismats G sálfræðings. Sé stefnda metin af báðum aðilum vanhæf til að fara með forsjá barnanna. Þrátt fyrir að til séu meðferðar- og stuðningsúrræði þá skorti stefndu algjörlega innsæi í vanda sinn og kenni öðrum um. Stefnda hafi verið í endurhæfingu á Kleppsspítala frá því í ágúst 2015, en þar fái hún ekki sérhæfða meðferð vegna persónuleikaröskunar sem bæði sálfræðingur og geðlæknir telja hana í þörf fyrir. Átakasöm samskipti hennar og barnsföður hafi haldið áfram eftir að börnin voru vistuð utan heimilis og telur stefnandi að það sanni enn og aftur dómgreindarskort stefndu, sem virðist ekki hafa haft innsæi í þann vanda sem við blasi hjá henni. Á vistunartímanum hafi hún sakað börn sín um að ljúga um það ofbeldi sem þau hafi orðið fyrir af hennar völdum.
Nýleg gögn í málinu er varði foreldra barnanna bendi til þess að þau hafi í engu breytt högum sínum og aðstæðum börnunum til hagsbóta. Löng saga um átök þeirra á milli og ójafnvægi virðist halda áfram og hafa þau bæði verið lögð inn á geðdeild í þrígang eftir að börnin fóru af heimili stefndu í apríl 2015. Auk þess hafi faðir viðurkennt mikla neyslu og verið með alvarlegar ofbeldis- og líflátshótanir í garð annarra. Í viðtali við stefndu í ágúst 2015 hafi hún m.a. greint frá því að hún hafi leitað til föður barnanna þar sem hann hefði verið eini aðilinn sem hún treysti. Þá hafi hún tjáð starfsmönnum að hún geti ekki skilið við hann. Erfitt og ofbeldisfullt samskiptamynstur foreldra barnanna virðist halda áfram miðað við nýjustu upplýsingar í málinu og virðist foreldra alfarið skorta innsæi í stöðu sína. Stefnandi telur að foreldrar hafi hvorki getu né vilja að bæta aðstæður sínar og stöðu með þeim hætti að þau verði hæf, saman eða sitt í hvoru lagi, til að axla ábyrgð og annast börn sín svo vel sé gert. Ljóst sé að þær neikvæðu afleiðingar sem hafi orðið í lífi barnanna vegna erfiðra uppeldisskilyrða í umsjá stefndu séu þegar orðnar alvarlegrar og krefjist mikils innsæis og umönnunar sem stefnandi telur að stefnda búi ekki yfir nú eða til framtíðar.
Stefnandi telur það grundvallarréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Sú skylda hvílir á stefnanda að tryggja börnunum, sem búið hafa við algjörlega óviðunandi uppeldisaðstæður, öryggi og viðunandi uppeldisaðstæður til framtíðar þar sem unnið verði áfram að því að aðstoða þau í þeim vanda sem þau eiga við að etja. Að mati stefnanda þjóni það hagsmunum barnanna best að vera vistuð í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs, enda megni stuðningsaðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga ekki að breyta þeirri stöðu sem uppi er í málinu. Er það mat stefnanda að málið sé fullrannsakað af hálfu barnaverndaryfirvalda og tímabært sé að taka ákvörðun til framtíðar með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Því sé ekki unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta á uppeldisumhverfi barnanna hjá stefndu, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Stefnandi telur að það hafi sýnt sig að stefnda sé óhæf til að tryggja börnum sínum þá vernd og umönnun sem þau eiga skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Í því máli sem hér um ræðir sé það börnunum fyrir bestu að alast upp við stöðugleika og umhyggju og séu þeir hagsmunir þyngri en hagsmunir stefndu. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda telur að krafa stefnanda um að hún verði svipt forsjá barna sinna fari í bága við fjölmargar meginreglur barnaverndarlaga. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Stefnda telur að svipting forsjár hennar yfir börnunum sé andstæð hagsmunum barnanna. Yngstu drengirnir séu á afar viðkvæmum aldri, nauðsynlegt sé fyrir drengina að vera hjá þeim sem þeir þekki best til að tryggja að þeir nái að mynda örugg tengsl. Þá kveður hún dóttur sína afar hænda að sér, en hún sé einnig á viðkvæmum unglingsaldri og þarfnist móður sinnar ofar öllu. Telur stefnda því að krafa Barnaverndar brjóti gegn 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga um að hagsmunir barns skuli ávallt ráða för við ákvörðun um málefni þess.
Stefnda telur að meðalhófs hafi ekki verið gætt varðandi málsmeðferð alla í máli stefndu og barna hennar. Þar sem ekki hafi verið farið í þá vinnu sem nauðsynleg sé börnunum og stefndu sem forsjáraðila telur stefnda forsendur fyrir sviptingu forsjár á þessum tímapunkti ekki vera fyrir hendi. Vísar stefnda í ákvæði 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem fram komi að kröfu um sviptingu forsjár skuli aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án árangurs. Stefnda telur að enn eigi eftir að reyna önnur og vægari úrræði sem og sjá hvernig henni vegni í því mikla verkefni sem hún vinni nú í á geðsviði Landspítala. Beri því að hafna kröfum stefnanda um sviptingu forsjár stefndu yfir börnum sínum.
Þá telur stefnda að rannsókn málsins hafi verið áfátt. Í 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlega nr. 80/2002 segir að taka beri tillit til sjónarmiða barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til. Talsmannaskýrslur séu að mati stefndu afar ófullkomnar og gagnrýnir stefnda að ekki séu fengnir fleiri aðilar til að ræða við börnin um afstöðu þeirra. Verði að telja að rannsóknarskylda Barnaverndar, sbr. 41. gr. laga nr. 80/2002, hafi þar verið brotin þegar tekin var svo íþyngjandi ákvörðun að leggja til forsjársviptingu stefndu yfir öllum fimm börnum hennar án þess að fyrir lægi skýr afstaða barnanna að mati stefndu. Í ákvæðinu segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Telur stefnda ekki nægjanlegt að fá eingöngu löglærða talsmenn að verkinu heldur sé nauðsynlegt að fá sálfræðinga til að ræða ítarlega við börnin og leggja heildstætt mat á frásögn þeirra. Bendir hún á að skv. sínum upplýsingum hafi talsmaður barnanna haft símasamband við börnin og greint þeim frá því að þau ættu að vera áfram í vistun. Spurði hann þau um afstöðu þeirra til þess. Þá bendir stefnda á afstöðu stúlkunnar B sem kveðst vilja koma aftur heim til stefndu ásamt yngri bræðrum sínum. Auk þess sem skýr vilji barna hafi komið fram í matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 3. mars 2016.
IV.
Í máli þessu er deilt um kröfu stefnanda um sviptingu forsjár yfir fimm börnum stefndu þeirra F 2½ árs, E tæplega 4 ára, D átta ára, C 12 ára og B 13 ára. Samkvæmt gögnum málsins hefur stefnandi haft málefni barna stefndu til meðferðar allt frá árinu 2005. Á þeim tíma hefur stefnanda borist fjöldi tilkynninga um gróft ofbeldi á heimili stefndu sem m.a. hefur beinst að börnunum.
Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja. Í íslenskum rétti er gengið út frá þeirri meginreglu að það sé barni fyrir bestu að alast upp hjá kynforeldrum sínum. Ber í barnaverndarstarfi ávallt að beita þeim ráðstöfunum sem ætlað má að séu barni fyrir bestu.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002, er þó barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri barnsins eða þroska. Samkvæmt c-lið málsgreinarinnar getur barnavernd gert sömu kröfu telji hún að barninu sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu og, samkvæmt d-lið, ef fullvíst er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Þá segir í 2. mgr. sömu lagagreinar að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.
Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002, skulu barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þá skulu þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skuli gera ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan telur dómurinn að margvísleg stuðningsúrræði hafi verið reynd til úrbóta fyrir stefndu, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, áður en krafa um forsjársviptingu var sett fram. Ber þar að nefna að samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld og fleiri aðilar haft afskipti af aðbúnaði og aðstæðum barna stefndu frá árinu 2005. Fyrir liggur að stefnda hafi fengið margvíslega aðstoð. Gerðar hafa verið átta meðferðaráætlanir sem miða að margvíslegum uppeldisstuðningi við stefndu, svo sem Stuðningurinn heim, stuðningsfjölskylda, sálfræðiviðtöl, greiningar- og kennsluvistun á Vistheimili barna og Greining og ráðgjöf heim. Þá hafi verið samstarf við Barna- og unglingageðdeild Landspítala, þjónustumiðstöð, skóla og leikskóla barnanna og geðdeild Landspítalans. Þessar aðgerðir hafa því miður ekki borið tilætlaðan árangur. Er það því niðurstaða dómsins að almenn úrræði til stuðnings stefndu hafi verið fullreynd, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002.
Þá liggja fyrir í málinu ítarleg forsjárhæfnismöt frá 18. júní 2015 og 3. mars 2016. Það er mat dómsins að virtum gögnum málsins og aldri barnanna að forsjárhæfni stefndu sé verulega skert og hún sé því ófær um að sinna daglegri umönnun og uppeldi barna sinna. Í gögnum málsins liggja einnig fyrir alvarlegar vísbendingar um að stefnda hafi beitt börn sín ítrekuðu og grófu ofbeldi. Er því nánar lýst í skjölum málsins en ástæðulaust þykir að víkja að því nánar hér. Telur dómurinn því fullvíst að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna og þroska þeirra sé hætta búin fari stefnda áfram með forsjá þeirra. Er þá einnig litið til persónuleikavanda stefndu sem samkvæmt mati sálfræðinga og geðlækna sem komið hafa að málum stefndu er verulegur og langvarandi. Verulegar efasemdir eru um hæfni stefndu til að nýta sér meðferð, m.a. vegna þess að hana skortir innsæi í vanda sinn og getu til að axla ábyrgð á aðstæðum barna sinna, og að hún viðurkennir ekki það harðræði sem hún hefur beitt þau. Horfur á því að geta og forsjárhæfni stefndu batni nægjanlega eru þannig, grundvallaðar á gögnum málsins, ekki góðar.
Er það því niðurstaða dómsins að óhjákvæmilegt sé að börnum stefndu verði fundið framtíðarheimili og umönnunaraðili þar sem líkamleg og andleg heilsa þeirra og þroskavænlegar uppeldisaðstæður verði tryggðar. Telur dómurinn mikilvægt að þeim stöðugleika sem komið hefur verið á verði ekki raskað, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2002.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að fullnægt sé skilyrðum a-, c- og d-liða 29. gr. laga nr. 80/2002 og er því fallist á kröfu stefnanda um að stefnda, A, verði svipt forsjá dóttur sinnar, B, kt. [...] sem nú er vistuð á heimili foreldra stefndu og sona sinna, þeirra C, kt. [...], D, kt. [...], E, kt. [...] og F, kt. [...], sem allir eru vistaðir á heimilum á vegum Barnaverndar Reykjavíkur.
Stefnda hefur gjafsókn í málinu, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 80/2002 og greiðist gjafsóknarkostnaður hennar, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 1.500.000 krónur, úr ríkissjóði.
Dóminn kveður upp Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Aðalsteinn Sigfússon sálfræðingur og Kristinn Tómasson, geð- og embættislæknir.
DÓMSORÐ:
Stefnda, A, er svipt forsjá barna sinna, B, kt. [...], C, kt. [...], D, kt. [...], E, kt. [...] og F, kt. [...].
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadóttur, 1.500.000 kr.