Hæstiréttur íslands
Mál nr. 239/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 15. júní 2000. |
|
Nr. 239/2000. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Þórði Braga Jónssyni (Ólafur Birgir Árnason hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að Þ skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. júní 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 29. ágúst nk. kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Hinn 14. júní 2000 gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur varnaraðila, þar sem honum var gefið að sök að hafa orðið föður sínum að bana 18. mars sama árs. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 7. júní 2000.
Með bréfi sýslumannsins á Húsavík, dags. í dag, var gerð krafa um að kærða Þórði Braga Jónssyni yrði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til 29. ágúst n.k. kl. 15:00, en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans, sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Af hálfu sýslumanns voru lögð fyrir dóminn ný rannsóknargögn, þ.á.m. greinargerð um geðheilbrigðisrannsókn kærða, greinargerðir sálfræðings svo og skýrsla tæknirannsóknarstofu ríkislögreglustjórans. Af hálfu sýslumanns var vísað til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Í greinargerð fyrir ofangreindri kröfu vísar sýslumaður m.a. til þess að kærði hafi játað við yfirheyrslur hjá lögreglu að hafa skotið föður sinn þremur skotum í höfuð á heimili þeirra að Bláhvammi í Þingeyjarsýslu aðfaranótt 18. mars s.l. með þeim afleiðingum að hann lést, en að kærði hafi verið margsaga um nánari atvik málsins. Við tæknirannsókn hafi púðurbruni gefið til kynna að skotið hafi verið af stuttu færi.
Telur sýslumaður með vísan til framangreinds að rökstuddur grunur sé um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Við fyrirtöku málsins í dag var af hálfu kærða andmælt kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og um meinta háttsemi var vísað til ákvæða 215. gr. laga nr. 19/1940. Til vara var þess krafist að gæsluvarðhaldi yrði markaður styttri tími en krafist er.
Með úrskurði dómsins þann 17. maí s.l. var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með dómi Hæstaréttar Íslands þann 23. maí s.l. var úrskurðurinn staðfestur, en um lagagrundvöll var vísað til 2. mgr. 103. gr. nefndra laga.
Líkt og málið liggur nú fyrir og að virtum rannsóknargögnum sem lögð voru fyrir dóminn í dag þykir vera fyrir hendi sterkur grunur um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Brotið getur varðar þyngri refsingu en 10 ára fangelsi og er þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður því krafa sýslumannsins á Húsavík tekin til greina og skal kærði sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 29. ágúst n.k. kl. 15:00, en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans, sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærði, Þórður Bragi Jónsson, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 29. ágúst n.k. kl. 15:00, en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans.