Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Aðild


Föstudaginn 12

 

Föstudaginn 12. janúar 2007.

Nr. 18/2007.

Sýslumaðurinn á Seyðisfirði

(Lárus Bjarnason sýslumaður)

gegn

X

(Eva Dís Pálmadóttir hdl.)

 

Kærumál. Farbann. Aðild.

X kærði úrskurð héraðsdóms um að hann skyldi sæta farbanni samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga. Talið var að ríkissaksóknari hefði haft vald til að ákveða að lögreglustjórinn á Seyðisfirði skyldi krefjast farbanns yfir X á sama tíma og forræði rannsóknarinnar færðist til lögreglustjórans á Eskifirði. Var úrskurðurinn staðfestur að öðru leyti með vísan til forsendna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 2. janúar 2007, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði bönnuð för frá Íslandi þar til máli hans lyki, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 30. janúar 2007 kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili reisir aðalkröfu sína á því að sóknaraðila hafi verið óheimilt að krefjast farbanns yfir honum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Er þar vísað til þess að þegar krafan var lögð fyrir héraðsdóm 2. janúar 2007 hafði sýslumaðurinn á Eskifirði þegar tekið við rannsókn málsins, sem var tilefni farbannskröfunnar, í samræmi við 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, svo sem henni var breytt með 3. gr. laga nr. 46/2006, og 2. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1130/2006, um stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildir og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála. Rannsókn málsins hafi því ekki verið í höndum sóknaraðila og hafi hann af þeim sökum ekki verið réttur aðili til að krefjast farbannsins. Héraðsdómi hafi því borið að hafna kröfunni. Þá bendir varnaraðili á að réttindi sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, feli í sér að mál verði ekki rannsakað af tveimur lögregluembættum á sama tíma auk þess sem sakborningur eigi rétt á að gera sér grein fyrir hvar mál hans sé til rannsóknar.

Sóknaraðili kveðst hafa haft heimild til að krefjast farbannsins. Hafi embætti hans fengið tilkynningu um atvikið, sem varð aðfararnótt 1. janúar 2007, og hann talið sér skylt að gera frumkönnun á vettvangi og skrá málið í málaskrá embættisins. Á þeim tíma höfðu lög nr. 46/2006 tekið gildi en reglugerð nr. 1130/2006 ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Að morgni 2. janúar, þegar skrifstofa embættis ríkissaksóknara var opnuð, hafi hann leitað fyrirmæla þar um forræði rannsóknarinnar og ríkissaksóknari tekið ákvörðun um að rannsókn málsins skyldi flytjast til lögreglustjórans á Eskifirði en að sóknaraðili skyldi krefjast farbanns yfir varnaraðila. Telur sóknaraðili að honum hafi borið að fylgja þessum fyrirmælum. Samráð hafi verið haft við lögreglustjórann á Eskifirði um þetta fyrirkomulag.

Í málinu liggur fyrir staðfesting ríkissaksóknara á að hann hafi gefið framangreind fyrirmæli og falið lögreglustjóranum á Seyðisfirði að krefjast farbanns yfir varnaraðila.

Reglugerð nr. 1130/2006 var birt í Stjórnartíðindum 2. janúar 2007. Þá lá fyrir að rannsókn alvarlegra líkamsárása skyldi vera í höndum rannsóknardeildar lögreglustjórans á Eskifirði fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Seyðisfirði í samræmi við 5. tölulið 2. mgr. 8. gr. lögreglulaga, sbr. 3. gr. laga nr. 46/2006, og 2. mgr. 1. gr. fyrrgreindrar reglugerðar. Í 2. málslið 5. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991 kemur fram að ríkissaksóknari geti kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni. Samkvæmt þessu hafði ríkissaksóknari vald til þess að ákveða að sóknaraðili, sem hafði sinnt rannsókn málsins á frumstigi, skyldi krefjast farbanns yfir varnaraðila á sama tíma og forræði rannsóknarinnar færðist til lögreglustjórans á Eskifirði. Bar sóknaraðila að hlíta fyrirmælum þar að lútandi. Ekki verður fallist á að með þessari tilhögun hafi verið gengið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum varnaraðila. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, en ekki þykja efni til að marka farbanni varnaraðila skemmri tíma en þar er gert.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                         

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 2. janúar 2007.

Lögreglustjórinn á Seyðisfirði hefur með beiðni dagsettri í dag krafist þess, með vísan til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að X, [kt.], kínverskum ríkisborgara, [...], verði bönnuð för frá Íslandi, uns máli hans er lokið, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. janúar 2006, kl. 15.00.

Í kröfu sýslumanns segir að mánudaginn 1. janúar sl. hafi lögreglunni á Egilsstöðum borist tilkynning frá fjarskiptum um að líkamsárás hafi átt sér stað í vinnubúðum við aðgöng 2, á Kárahnjúkum, Fljótsdalsheiði. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að ofannefndur X hafi að öllum líkindum ráðist á ítalskan starfsmann á vinnusvæðinu, A, [...] með hnífi.  Árásin hafi, að því er virðist, verið tilefnislaus og mjög hrottaleg, en árásarþolinn hafi hlotið tveggja sentímetra breiðan og þriggja sentímetra djúpan skurð á nýrnastæði á hægri síðu.

Ákvörðun um saksókn liggi ekki fyrir á þessu stigi málsins en slík ákvörðun muni liggja fyrir strax að lokinni rannsókn. Eins og málið standi í dag megi þess vænta að höfðað verði opinbert mál á hendur kærða vegna þess. Farbanns sé krafist á grundvelli saksóknarhagsmuna. Rannsóknari telji að tímalengd farbannsins sé raunhæft mat á þeim tíma sem taki að ljúka rannsókn málsins, ákvörðun um saksókn og meðferð þess fyrir héraðsdómi.

Við yfirheyrslu í gær hafi kærði játað verknaðinn. Hann hafi að þeirri yfirheyrslu lokinni verið frjáls ferða sinna. Komið hafi í ljós í samræðum við yfirmenn Impregilo á Kárahnjúkum að í samræmi við starfsmannastefnu fyrirtækisins verði kærði rekinn úr vinnu sinni og sendur úr landi. Kærði sé frá Kína og þar sé hið raunverulega heimili hans, þó svo að hann eigi lögheimili tímabundið á Íslandi, þ.e. á meðan á virkjunarframkvæmdum standi. Að mati lögreglu megi því gera ráð fyrir að verði kærða heimilt að yfirgefa Ísland, þá muni hann reyna að koma sér undan frekari rannsókn málsins og saksókn þess með því að fara til Kína, enda ekkert frekar fyrir hann hér að gera hér á landi þar sem honum hafi verið sagt upp störfum.

Um lagarök er vísað til þess að verið sé að rannsaka meint brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti fangelsisrefsingu allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til farbanns er vísað til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr., laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Niðurstaða:

Rökstuddur grunur er um að kærði hafi framið brot það, sem hann er sakaður um, enda hefur kærði játað bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi að hafa stungið samstarfsmann sinn með hnífi, en hefur borið fyrir sig að um sjálfvörn hafi verið að ræða. Brot þetta getur varðað kærða fangelsisrefsingu.

Kærði er erlendur ríkisborgari sem hefur starfað hér á landi við virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka. Tengsl hans við Ísland virðast samkvæmt gögnum málsins ekki vera önnur en þau að hafa stunda hér tímabundna vinnu. Fram hefur komið að kærða hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu Impregilo vegna málsins. Í ljósi framangreinds verður að telja að hætta sé á því að kærði muni reyna að komast af landi brott áður en meðferð máls hans er lokið hér á landi og að hann muni þannig koma sér hjá fullnustu refsingar. Brýna nauðsyn ber til þess að návist kærða, sem er eins og fyrr greinir kínverskur ríkisborgari, verði tryggð þar til meðferð máls hans fyrir dómi er lokið. Rannsókn málsins er á frumstigi og þykir ekki raunhæft að ætla að rannsókn málsins og meðferð málsins fyrir dómi verði lokið á skemmri tíma en fjórum vikum. Þykir því rétt með vísan til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála að fallast á kröfu lögreglustjórans á Seyðisfirði um það að kærða X verði bönnuð för af landinu allt þar til máli hans er lokið, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. janúar 2007, kl. 15.00.

Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, er bönnuð för frá Íslandi þar til máli hans er lokið, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 30. janúar 2007 kl. 15.00.