- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
- Sératkvæði
- Kærumál
|
Þriðjudaginn 25. janúar 2011. |
Nr. 50/2011. |
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn X (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur
úr gildi. Sératkvæði.
Úrskurður
héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95.
gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 17. febrúar 2011, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hin kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur hjá lögreglu játað þátt sinn í ætluðu fíkniefnabroti. Verður ekki ráðið af málsgögnum að þáttur hans sé með þeim hætti að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, eins og sóknaraðili krefst, sbr. dóma Hæstaréttar 5. maí 2010 í málum nr. 270/2010 og 271/2010 og 22. júní 2010 í máli nr. 397/2010. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Við yfirheyrslur hjá lögreglu hefur varnaraðili sagt að hann hafi flutt inn umrædd fíkniefni að beiðni annars manns sem hann vilji ekki nafngreina. Hann kvaðst ekki hafa verið þvingaður til verksins vegna skulda, en gaf þá skýringu á háttsemi sinni að hann hafi verið atvinnulaus og viljað útvega sér peninga. Af þeim sökum hafi hann látið spyrjast út að hann væri „jákvæður fyrir einhverju svona“. Í framhaldi af því hafi hann fengið boð um að flytja til landsins fíkniefni gegn greiðslu. Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða rúmlega 4 kg af sterkum fíkniefnum.
Að þessu virtu er ég ekki samþykkur atkvæði meirihluta dómenda um að ætlað brot varnaraðila sé með þeim hætti að á skorti að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila. Með þessum athugasemdum vil ég staðfesta hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna að öðru leyti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. janúar 2011.
Lögreglustjórinn á
Suðurnesjum hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til
fimmtudagsins 17. febrúar 2011, kl. 16.00.
Í greinargerð með
kröfunni kemur fram að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning
frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 22. desember 2010, um að
kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði með ferðatösku, sem grunur væri um að í
væru falin fíkniefni. Við nánari skoðun á ferðatöskunni hafi verið að finna
hart spjald innan við taufóðrið og fyrir innan spjaldið hafi verið þrír
stokkar, sem hafi virst hafa verið festir nýlega í töskuna. Þegar stokkarnir
hafi verið opnaðir hafi komið í ljós mikið magn taflna, sem við talningu hafi
reynst vera 15.084 talsins, en auk þess hafi fundist 15,15 g af MDMA dufti. Við
prófun tæknideildar Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi komið í ljós að
töflurnar innhéldu MDMA. Sýni úr töflunum hafi verið send Háskóla Íslands til
frekari rannsóknar. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands komi fram
að í töflunum hafi verið 70-73 mg af MDMA, sem samsvari 38-87 mg af MDMA
klóríði.
Í greinargerð lögreglustjóra
segir að kærði hafi viðurkennt að hafa farið utan til þess að ná í töskuna, sem
innhaldið hafi áðurgreind fíkniefni.
Þá segir í
greinargerðinni að rannsókn málsins sé lokið og að málið verði sent
ríkissaksóknara í dag. Ljóst sé að um mikið magn fíkniefna sé að ræða og að
kærði hafi við yfirheyrslur játað að hafa flutt ofangreind fíkniefni til
landsins. Telji lögreglan að háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr.
a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og
fíkniefni.
Í máli þessu sé lagt til
grundvallar að um sé að ræða mikið magn hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki
að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna
hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til
hagsmuna almennings þyki nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan
mál hans er til meðferðar, en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hefur
uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði hefur játað, gangi laus áður en máli
lýkur með dómi, þá myndi það valda hneykslun í samfélaginu og særa réttarvitund
almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum
svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 216, 176 og 164/2010, 136/2008,
635/2007, 376-378 og 154/2006, 368 og 93/2005, 488 og 269/2004, 417/2000 og
471/2999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að
dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi á
miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki sé talin ástæða til að ætla að
refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir
dómar voru kveðnir upp og því sé talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í þessu máli.
Með vísan til
framangreinds, 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 173. gr.
a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna
rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi
allt til 17. febrúar 2011, kl. 16.00.
Með vísan til framangreinds
og rannsóknargagna er fallist á það að kærði sé undir sterkum grun um brot sem
varðað getur allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a almennra hegningarlaga
nr. 19/1940. Þykir brotið þess
eðlis að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti
áframhaldandi varðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram
sett.
Ragnheiður Bragadóttir
héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins
17. febrúar 2011, kl. 16.00.