Hæstiréttur íslands

Mál nr. 505/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Skaðabótakrafa


                                     

Mánudaginn 27. ágúst 2012.

Nr. 505/2012.

Sigurður Skagfjörð Sigurðsson og

Hrönn Greipsdóttir

(Árni Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skaðabótakrafa.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu sem S og H lýstu við slit K hf., sem reist var á ætlaðri bótaskyldu K hf. vegna viðskipta málsaðila með svonefnda skiptasamninga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu sem sóknaraðilar lýstu við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu þeirra, aðallega að fjárhæð 224.037.454 krónur, en til vara að fjárhæð 191.950.885 krónur, verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verða sóknaraðilar dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Sigurður Skagfjörð Sigurðsson og Hrönn Greipsdóttir, greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2012.

I

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 25. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár. Sóknaraðilar, Sigurður Skagfjörð Sigurðsson og Hrönn Greipsdóttir, Frostaskjóli 95, Reykjavík, lýstu sameiginlega kröfu á hendur varnaraðila að höfuðstólsfjárhæð 182.914.508 krónur, auk vaxta og kostnaðar, eða alls að fjárhæð 224.037.454 krónur. Kröfunni var lýst sem „skaðabótakröfu vegna tjóns sem hlaust af saknæmri vanrækslu Kaupþings banka við fjárfestingaráðgjöf og eignastýringu gagnvart kröfuhöfum“, eins og segir í kröfulýsingu. Um rétthæð kröfunnar var vísað til 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan var færð á kröfuskrá og þar merkt nr. 20091228-1004. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni alfarið með þeim rökstuðningi að ekki hefði verið sýnt fram á að um bótaskylt atvik væri að ræða. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 28. nóvember sl.

Í greinargerð sinni til dómsins krefjast sóknaraðilar þess aðallega að krafa þeirra, samtals að fjárhæð 224.037.454 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. apríl 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Til vara krefjast þeir þess að 191.950.885 krónur verði viðurkenndar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

Málið var tekið til úrskurðar 11. júní sl.

II

Atvik málsins eru í megindráttum þau að Kaupþing banki hf. gerði sóknaraðila, Sigurði Skagfjörð Sigurðssyni, tilboð í einkabankaþjónustu og almenn bankaviðskipti 9. janúar 2007. Í tilboðinu sagði að markmið þjónustunnar væri að veita eignameiri einstaklingum framúrskarandi fjármálaþjónustu, sniðna að þörfum hvers og eins. Tekið var fram að meginþáttur einkabankaþjónustu væri eignastýring, en í henni fælist að sérfræðingar sæju um að ávaxta eignasafn viðskiptavinar í samræmi við fyrir fram ákveðna fjárfestingarstefnu sem miðuð væri að þörfum hans. Í tilboðinu fólst einnig sérfræðiráðgjöf varðandi fjárfestingar og ráðgjöf um skatta-, erfða og lífeyrismál. Þá var þar tekið fram að viðskiptavinur hefði greiðan aðgang að viðskiptastjóra sínum í gegnum síma og tölvupóst, en gæti að auki ávallt fylgst með stöðu og hreyfingum á eignasafni sínu í gegnum netbanka. Í kjölfarið gerðu sóknaraðilar, sem eru hjón, sameiginlega samning um eignastýringu við varnaraðila. Er hann merktur nr. 487397 og dagsettur 23. janúar 2007. Í samningnum fólst að varnaraðili tók við fjármunum sóknaraðila til fjárfestingar í fjármálagerningum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning sóknaraðila, gegn endurgjaldi, og varðveitti þá á sérstökum reikningi, svokölluðu eignasafni, sem haldið var aðgreindum í bókhaldi bankans. Samhliða var varnaraðila veitt umboð til að kaupa og selja fjármálagerninga fyrir fé sóknaraðila, allt í samræmi við fyrir fram ákveðna fjárfestingarstefnu. Í 9. gr. samningsins er fjallað um persónuupplýsingar, og segir þar m.a. svo: „Viðskiptavinur staðfestir að honum sé kunnugt um að til þess að efna skuldbindingar sínar skv. samningi þessum er KB banka nauðsynlegt að safna saman og vinna úr persónuupplýsingum í skilningi laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. KB banki telst ábyrgðaraðili í skilningi laganna og er markmiðið með söfnun persónuupplýsinga einkum að tryggja að KB banki geti efnt skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavini og veitt honum þá þjónustu sem KB banka er að öðru leyti heimilt að veita.“ Þá er í  16. gr. fjallað um áhættu af verðbréfaviðskiptum með þessum orðum: „Viðskiptavinur staðfestir að hann geri sér grein fyrir eðli viðskipta með mismunandi fjármálagerninga og áhættunni sem þeim fylgir. Hann staðfestir jafnframt að honum hafi verið gerð grein fyrir því að ávöxtun verðbréfa og annarra fjármálagerninga getur sveiflast mjög frá einum tíma til annars. Þá staðfestir viðskiptavinur að hann geri sér grein fyrir því að undirliggjandi eignir fjárvörslusamnings geta rýrnað á samningstímanum.“

Með samningnum fylgdi eyðublað með upplýsingum um mismunandi fjárfestingarstefnur, og völdu sóknaraðilar stefnu D, sem var næstáhættumesta fjárfestingarstefnan sem í boði var. Samkvæmt henni var heimilt að fjárfesta fyrir allt að 75% í hlutabréfum eða verðbréfasjóðum/fjárfestingarsjóðum sem fjárfestu einkum í hlutabréfum, en að öðru leyti skyldi fjárfest í skuldabréfum, víxlum eða verðbréfasjóðum/fjárfestingarsjóðum sem fjárfestu einkum í skuldabréfum. Ekki er um það deilt að viðskiptastjóri sóknaraðila var Gunnar Freyr Gunnarsson, þáverandi starfsmaður í einkabankaþjónustu Kaupþings banka hf.

Samkvæmt greinargerð sóknaraðila nam verðmæti eignasafns þeirra á þessum tíma rúmum 157 milljónum króna og var stærstur hluti þess hlutabréf í FL Group, tæpar 153 milljónir króna að markaðsvirði. Í greinargerð varnaraðila segir hins vegar að ekki liggi fyrir að sóknaraðilinn Hrönn Greipsdóttir hafi lagt fram fé til eignastýringar. Hins vegar liggja fyrir gögn um að sóknaraðilinn Sigurður Skagfjörð undirritaði einn almenna skilmála fyrir viðskiptavini markaðsviðskipta Kaupþings banka hf. 22. mars 2007, sem og handveðssamning og kvittun vegna afhendingar eignasafnsins, sem hann setti varnaraðili að handveði 26. mars sama ár á grundvelli markaðsskilmálanna. Handveðssamningi þessum var síðar skipt út með nýjum handveðssamningi 20. nóvember 2007 og ritaði Sigurður jafnframt einn undir þann samning. Samkvæmt síðari handveðssamningnum var Kaupþingi banka hf. sett að handveði „öll verðmæti, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. öll verðbréf og peningainnstæður á vörslusafni veðsala hjá veðhafa nr. #487397, og alla innistæðu þess eins og hún er á hverjum tíma“.

Í inngangi áðurnefndra markaðsskilmála, sem einnig bera undirheitið „Skilmálar fyrir einstaklinga“, segir að tilgangur þeirra sé m.a. að stuðla að því að viðskiptavinur geri sér grein fyrir eðli þeirra samninga sem falli undir skilmálana, sem og þeirri áhættu sem þeim fylgi. Jafnframt eru viðskiptavinir hvattir til að kynna sér gildandi lög og reglur á hverjum tíma, svo sem lög nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti. Samkvæmt 1. gr. skilmálanna gilda þeir um öll markaðsviðskipti sem eiga sér stað milli Kaupþings banka og viðskiptavinar, svo sem peningamarkaðslán, gjaldeyrisviðskipti, afleiðuviðskipti og kaup og sölu verðbréfa. Í 5. gr. er mælt fyrir um að viðskiptavinur skuldbindi sig til að undirrita sérstakan handveðssamning, tryggingabréf eða önnur sambærileg skjöl, sé farið fram á slíkt, en í 8. gr. er fjallað um ábyrgð á samningum. Orðrétt segir þar m.a. svo: „Með undirritun sinni á skilmála þessa lýsir viðskiptavinur því yfir að honum er ljóst að þau viðskipti sem hann kann að eiga á grundvelli skilmála þessara geta verið sérstaklega áhættusöm. […] Þá getur og verið mikil áhætta fólgin í afleiðuviðskiptum. Viðskiptavini ber því að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga telji hann hennar þörf. Óski viðskiptavinur eftir áliti starfsmanna bankans á tilteknum viðskiptum er áréttað að það álit sem starfsmenn bankans kunna að láta honum í té á grundvelli slíkrar beiðni er eingöngu byggt á skoðunum viðkomandi starfsmanns á þeim tíma og getur breyst án fyrirvara. Viðskiptavinur gerir sér grein fyrir að í viðskiptum bankans sem falla undir skilmálana felst hvorki viðskiptavakt né eignastýring. Af því leiðir að bankinn ábyrgist ekki tilkynningar til viðskiptavinar um stöðu samninga eða lokun þeirra við ákveðin mörk, nema samið sé sérstaklega um slíkt með þeim sérstöku og almennu fyrirvörum sem kunna að gilda hverju sinni. Það er því á ábyrgð viðskiptavinar að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann hefur gert við bankann.“

Verður nú gerð grein fyrir þeim viðskiptum sem eru tilefni þessa máls, en í öllum tilvikum eru þau í formi svokallaðra „AFS skiptasamninga“, sem teljast til afleiðusamninga. Samkvæmt greinargerð varnaraðila voru allir samningarnir gerðir að frumkvæði sóknaraðila Sigurðar, og er fullyrt að slík viðskipti hafi aldrei verið kynnt eða auglýst af hálfu bankans. Þá staðhæfir varnaraðili að starfsmenn eignastýringar hafi engin afskipti haft af þessum skiptasamningum eða öðrum skiptasamningum, þar sem þeir hafi ekki verið hluti af starfsemi eignastýringar. Slík viðskipti hafi hins vegar heyrt undir starfssvið markaðsviðskipta og fjárstýringar.   

Fyrstu samningarnir voru gerðir 22. og 26. mars 2007 og báru númerin AFS15266 og AFS15301. Fyrri samningurinn var um kaup á hlutabréfum í Exista hf., að markaðsvirði 89.775.000 krónur, en sá síðari um kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., að markaðsvirði 139.050.000 krónur. Viðmiðunarfjárhæðir beggja samninganna voru í erlendum myntum, og voru viðskiptin að öllu leyti fjármögnuð með láni frá varnaraðila í erlendri mynt. Báðir samningarnir voru með lokagjalddaga 10. apríl 2007, en voru síðar framlengdir og gerðir upp 25. júní og 2. júlí 2007 með töluverðum hagnaði fyrir sóknaraðila. Af framlögðu eignastýringaryfirliti má þannig sjá að markaðsvirði eigna sóknaraðila nam alls 182.914.508 krónum 30. júní 2007. Samkvæmt sama skjali náði eignasafnið hámarki 30. september það ár, og stóð þá í 183.415.309 krónum.

Næsti samningur var nr. AFS16455, dagsettur 13. júlí 2007, með lokadag 14. janúar 2008. Viðmiðunarbréf voru þar 200.000 hlutir í Kaupþingi banka hf., alls að markaðsvirði 246.600.000 krónur. Viðmiðunarfjárhæðir voru að jöfnu í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Voru viðskiptin enn fjármögnuð að fullu með láni frá bankanum. Samningi þessum var lokað 7. ágúst 2007 og nýr samningur þá gerður, nr. AFS16820, að fjárhæð 266.847.828 krónur. Tapi sóknaraðila af fyrri samningnum, 20.247.288 krónum, hafði þá verið bætt við samningsfjárhæðina. Viðmiðunarfjárhæð þessa samnings voru íslenskar krónur, en viðmiðunarbréf voru áfram 200.000 hlutir í Kaupþingi banka hf. 

Samningi nr. AFS16820 var lokað 19. september 2007 og nýr samningur þá gerður, nr. AFS17364, að fjárhæð 271.925.052 krónur. Tapi sóknaraðila af fyrri samningi, 5.077.224 krónum, hafði þá verið bætt við samningsfjárhæðina. Viðmiðunarfjárhæðir samningsins voru í erlendum myntum, en viðmiðunarbréfin 200.000 hlutir í Kaupþingi banka hf. Samningi þessum var lokað 8. nóvember 2007 með 10.142.351 krónu hagnaði fyrir sóknaraðila, og gerði hann þá nýjan samning við varnaraðila, nr. AFS17926, að fjárhæð 261.782.700 krónur. Enn voru viðmiðunarbréf 200.000 hlutir í Kaupþingi banka hf., en viðmiðunarfjárhæð íslenskar krónur.

Samningi nr. AFS17926 var lokað 14. nóvember 2007 með nýjum samningi, nr. AFS17994, að fjárhæð 262.475.333 krónur, og hafði þá tapi af fyrri samningi, 692.632 krónum, verið bætt við samningsfjárhæðina. Þeim samningi var síðar lokað 20. nóvember 2007 með 14.306.497 króna tapi fyrir sóknaraðila. Sama dag gerði hann nýjan samning, nr. AFS18070, að fjárhæð 276.781.830 krónur, og var tapi fyrri samnings þá einnig verið bætt við samningsfjárhæðina. Síðastgreinda samningnum var lokað 28. desember 2007 með 4.645.322 króna tapi fyrir sóknaraðila.

Sóknaraðili Sigurður gerði enn nýjan skiptasamning við varnaraðila 28. desember 2007, nr. AFS18436, að fjárhæð 211.070.364 krónur. Viðmiðunarfjárhæð var íslenskar krónur, en viðmiðunarbréf voru nú 150.000 hlutir í Kaupþingi banka hf. Samningi þessum var skilmálabreytt 14. janúar, 15. og 22. febrúar og 25. mars 2008, og var tapi af hverjum samningi bætt við samningsfjárhæð. Samningnum var loks lokað 7. apríl 2008 með því að sóknaraðili greiddi niður tap að fjárhæð 25.000.000 króna og gaf út nýjan skiptasamning fyrir eftirstöðvum, 195.786.736 krónum. Er sá samningur nr. AFS19344. Viðmiðunarfjárhæð þess samnings var íslenskar krónur og viðmiðunarbréf 150.000 hlutir í Kaupþingi banka hf. Samningnum var skilmálabreytt 30. apríl 2008 og enn var tapi bætt við fyrri samningsfjárhæð, nú 2.113.953 krónum. Var samningnum lokað 22. maí 2008 og nam skuldbinding sóknaraðila þá alls 200.141.089 krónum. Samhliða lokun samningsins gerði sóknaraðili tvo nýja skiptasamninga, nr. AFS19586 og AFS19587, annars vegar vegna kaupa á 50.000 hlutum í Kaupþingi banka hf., en hins vegar vegna kaupa á 100.000 hlutum í sama banka. Fyrri samningnum var lokað sama dag og tap, ásamt lokunarþóknun, gert upp með 26.837.030 krónum. Samningi nr. AFS19587 var hins vegar skilmálabreytt 30. maí, 29. ágúst og 5. september 2008, og var tapi hvers samnings bætt við samningsfjárhæð. Samningnum var loks lokað 17. september það ár og tap, ásamt lokunargjaldi, þá gert upp með 72.428.854 krónum.

Í greinargerð sóknaraðila segjast þeir hafa verið verulega ósáttir við þá ráðgjöf sem varnaraðili og starfsmenn hans veittu þeim, enda hafi niðurstaðan orðið sú að á meðan þeir voru í eignastýringu hjá bankanum og nutu ráðgjafar sérfræðinga hans, hafi eign þeirra að engu orðið. Þannig hafi aðeins 388.599 krónur af upphaflegu verðmæti eignasafns þeirra staðið eftir 30. september 2008. Af þessum sökum hafi þeir höfðað dómsmál á hendur Arion banka hf. og Gunnari Frey Gunnarssyni, fyrrverandi viðskiptastjóra, og krafist skaðabóta að fjárhæð 182.914.508 króna vegna þess tjóns sem þeir töldu að ráðgjöf varnaraðila og Gunnars Freys hafi bakað þeim. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2011 hafi bæði Arion banki hf. og Gunnar Freyr hins vegar verið sýknaðir, bankinn vegna aðildarskorts, en Gunnar Freyr á grundvelli þess að hann bæri ekki persónulega ábyrgð á tjóni sóknaraðila. Engu að síður telja sóknaraðilar enn að varnaraðili og starfsmenn hans hafi valdið þeim tjóni með saknæmri háttsemi í tengslum við ráðgjöf sína. Því haldi þeir fast við kröfu sína og krefjist þess að hún verði viðurkennd sem almenn krafa við slit varnaraðila.

Við upphaf aðalmeðferðar gaf annar sóknaraðila, Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, skýrslu fyrir dóminum. Einnig gáfu þá skýrslu vitnin Hannes Frímann Hrólfsson, fyrrverandi starfsmaður markaðsviðskipta hjá varnaraðila og Gunnar Freyr Gunnarsson, fyrrverandi viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu hjá varnaraðila.

Sigurður Skagfjörð Sigurðsson lýsti í upphafi aðdraganda þess að hann og eiginkona hans, Hrönn Greipsdóttir, gengu til samninga við Kaupþing banka hf. um eignastýringu, svo og viðskiptum hans og varnaraðila með skiptasamninga. Sagði hann að Gunnar Freyr Gunnarsson hefði ráðlagt honum að gera umrædda skiptasamninga, enda hefði hann hvorki áður átt í slíkum viðskiptum né verið upplýstur sérstaklega um áhættu af þeim. Þá fullyrti hann að þeir Gunnar hefðu samið svo um, bæði við fyrstu samningsgerð og síðar, að Gunnar myndi loka samningum ef undirliggjandi hlutabréf lækkuðu um 10% eða ef þau hækkuðu um 10 – 20%. Spurður um ástæður þess að hann framlengdi ítrekað umrædda skiptasamninga, þrátt fyrir nær samfellt tap af þeim frá júlí 2007, sagði Sigurður að hann hefði gert það að áeggjan Gunnars, sem hefði með ýmsum rökum ráðið honum frá því að hætta viðskiptunum. Þess í stað hefði Gunnar lofað að vinna upp fyrra tap og hefði hann treyst á sérfræðiþekkingu hans. Aðspurður kvaðst Sigurður telja að hann hafi verið flokkaður sem almennur fjárfestir í viðskiptum þessum, og benti í því sambandi m.a. á bréf frá Kaupþingi banka hf. frá ágúst eða september 2007, þar sem hann var sagður almennur fjárfestir.

Vitnið Hannes Frímann Hrólfsson var að því spurt hvaða reglur hefðu gilt um afleiðusamninga á þeim tíma sem vitnið starfaði í Kaupþingi banka hf., og hvort slíkir samningar hefðu staðið öllum til boða. Sagði vitnið að strangar reglur hefðu gilt um slíka samninga og hefði bankinn látið framkvæma ákveðið mat á viðskiptavinum í því skyni að ganga úr skugga um hvort viðskiptavinur gæti talist fagfjárfestir. Þá hefði bankinn einnig gert kröfu um að áður en stofnað væri til slíkra viðskipta þyrfti viðskiptavinur að undirrita markaðsskilmála og handveðssamning, svo og að fylla út pappíra með upplýsingum um viðkomandi. Viðmið bankans hefðu verið þau að aðeins fagfjárfestar fengju að stunda afleiðuviðskipti, enda hefði mikil áhætta fylgt þeim. Einhver dæmi hafi þó verið um að almennum fjárfestum hafi verið heimilað að gera slíka samninga, og hefði þá sérstaklega verið litið til þess hvort viðkomandi hefði nægan fjárhagslegan styrk, ætti í því tilviki andvirði 500.000 evra. Fram kom í máli vitnisins að afleiðusamningar hefðu aldrei verið auglýstir af hálfu bankans, né hefði bankinn hvatt til slíkra viðskipta. Fyrst og fremst hefði verið litið svo á að slík viðskipti væri liður í þjónustu bankans við viðskiptavini, óskuðu þeir eftir henni.

Í máli Gunnars Freys Gunnarssonar kom fram að hlutverk hans hjá Kaupþingi banka hf. hafi m.a. falist í því að standa að kynningu á eignastýringu fyrir væntanlega viðskiptavini, svo og þeim fjárfestingarstefnum sem stóðu þeim til boða. Hægt hafi verið að leggja ákveðið próf fyrir væntanlega viðskiptavini, í því skyni að meta þekkingu og reynslu þeirra, en það hafi þó ekki alltaf verið gert. Vitnið viðurkenndi að hafa kynnt afleiðusamninga sem fjárfestingarkost fyrir viðskiptavinum eignastýringar, ef eftir því var leitað, en tók fram að hlutverk sitt hafi þá aðeins verið að koma á samskiptum viðskiptavinar við þær deildir bankans sem önnuðust þau viðskipti. Vitnið neitaði því hins vegar að hafa sjálfur átt frumkvæði að slíkum viðskiptum, svo og að hafa hvatt sóknaraðila til þeirra viðskipta sem hér um ræðir, enda væru skiptasamningar ekki hluti af þjónustu við eignastýringu. Hlutverk sitt hafi verið að ávaxta eignir sóknaraðila í eignastýringu, þótt hann hafi jafnframt aflað upplýsinga innan bankans og miðlað þeim til sóknaraðila. Endanleg ákvörðun um alla samninga, breytingar eða framlengingar á þeim, hafi hins vegar verið hjá sóknaraðila. 

Spurður um samskipti sín og Sigurðar Skagfjörð sagði Gunnar að þeir hefðu mjög oft verið í samskiptum, líklega annan eða þriðja hvern dag, ýmist símleiðis eða með tölvupósti. Í upphafi hafi Sigurður sýnt áhuga á að skuldsetja eignasafn sitt með framvirkum samningum, „gíra sig í botn“, eða nýta eignasafnið sem mest til skuldsetningar, og hafi hann þá komið honum í samband við þá deild bankans sem annaðist markaðsviðskipti. Hafi sú deild tekið ákvörðun um að heimila honum að stunda afleiðuviðskipti, þótt hann hafi líklega verið flokkaður sem almennur fjárfestir, bæði í upphafi og síðar. Aðspurður játaði Gunnar því að mikil áhætta væri fólgin í afleiðuviðskiptum og kvaðst í upphafi hafa farið yfir það með Sigurði hvað í þeim fælist og að þá þyrfti hann að veðsetja eignasafnið.

Gunnar var sérstaklega spurður um efni tölvupósts hans til Sigurðar frá 19. mars 2007, þar sem hann lýsti því yfir að hann „myndi bara vera með þetta í gjörgæslu og fylgjast náið með því hjá mér og vera klár að selja ef bréfin væru að fara undir 10%“. Sagði hann að í þessu hafi falist að hann myndi fylgjast náið með markaðnum og láta Sigurð vita ef einhverjar stórvægilegar breytingar ættu sér stað. Þótt hann hafi í tölvupóstinum miðað við 10% lækkun, tók hann fram að þeir Sigurður hefðu átt í stöðugum og góðum samskiptum og rætt um það sem væri að gerast á markaðnum. Hefði hann oftsinnis lýst skoðun sinni á ýmsum fjárfestingum Sigurðar, en áréttaði að hann sjálfur hefði hins vegar ekki haft umboð til að selja undirliggjandi hlutabréf eða veðsetja eignasafnið, sú ákvörðun hafi aðeins verið á færi Sigurðar. Þá kvaðst Gunnar hafa lýst því yfir við Sigurð í lok árs 2007 að sér litist illa á áframhaldandi afleiðuviðskipti. Engu að síður hefði Sigurður ákveðið að halda viðskiptum áfram, og taldi Gunnar sig ekki hafa getað tekið þá ákvörðun fyrir Sigurð að loka samningnum. Bætti hann við að hefði ástand á mörkuðum þá lagast, þrátt fyrir álit sitt um hið gangstæða, stæði hann sjálfur líklega í sömu sporum og nú.

III

Kröfur sóknaraðila byggjast í fyrsta lagi á því að þeir hafi ekki notið þeirrar fjárfestaverndar sem lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 mæli fyrir um. Samkvæmt þeim lögum sé fjárfestum að meginstefnu til skipt í tvennt, annars vegar almenna fjárfesta, en hins vegar fagfjárfesta. Fagfjárfestar séu þeir viðskiptavinir fjármálafyrirtækja sem búi yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgi, svo sem fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir, tryggingafélög, stór fyrirtæki, seðlabankar o.s.frv., auk þeirra aðila sem sérstaklega hafi verið samþykktir sem fagfjárfestar, sbr. 9. tl. 1. mgr. 2. gr. tilvitnaðra laga. Samkvæmt sömu lögum séu almennir fjárfestar á hinn bóginn skilgreindir sem fjárfestar sem ekki séu fagfjárfestar, sbr. 11. tl. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Tilgangurinn með þessari skiptingu sé m.a. að greina á milli þeirra fjárfesta sem þurfi eða vilji mun meiri vernd við fjárfestingar sínar og þeirra sem ekki þurfi eða vilji slíka vernd.

Þrátt fyrir að sóknaraðilar hafi verið flokkaðir sem almennir fjárfestar hafi þeir ekki notið þeirrar verndar sem lög áskilji þeim. Þannig hafi þeir t.a.m. ekki fengið upplýsingar um eðli og áhættu þeirra fjármálagerninga sem þeim var ráðlagt að fjárfesta í, sbr. 14. gr. laga nr. 108/2007 og 31. gr. reglugerðar nr. 995/2007, um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Varnaraðili hafi heldur ekki aflað sér upplýsinga um þekkingu og reynslu sóknaraðila, fjárhagsstöðu þeirra eða markmið, þannig að hægt væri að veita þeim ráðgjöf um hvort fjárfestingar í afleiðum hæfðu þeim, sbr. 15. gr. áðurnefndra laga og 35. og 36. gr. reglugerðarinnar. Raunar hafi varnaraðila verið óheimilt að ráðleggja sóknaraðilum um verðbréfaviðskipti án þessara upplýsinga, sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga og 6. mgr. 36. gr. sömu reglugerðar. Telja sóknaraðilar að í þessu tilviki hafi verið sérlega mikilvægt að ganga úr skugga um hvort þeir hefðu næga þekkingu og reynslu á þeim viðskiptum sem verið var að veita þeim ráðgjöf um, svo og að tryggja að þeir gerðu sér fulla grein fyrir áhættunni sem í þeim fólst, enda hafi um sérlega áhættumikil viðskipti verið að ræða. Áhættan hafi jafnframt verið tvöföld, þ.e. bæði bréfsáhætta og gengisáhætta, auk þess sem allt eignasafn sóknaraðila hafi verið undir sem trygging fyrir tapi af þessum fjárfestingum. Þess utan hafi sóknaraðilar enga reynslu haft af afleiðuviðskiptum. Í ljósi þessa byggja sóknaraðilar á því að varnaraðili hafi brugðist þeim skyldum sínum að veita þeim þá fjárfestavernd sem þeim var tryggð með lögum nr. 108/2007. Jafnframt telja þeir að varnaraðili hafi brotið eigin verklagsreglur með því að heimila þeim að stunda afleiðuviðskipti. Þrátt fyrir þá staðreynd að sóknaraðilar séu menntaðir viðskiptafræðingar byggja þeir á því að slíkt hafi engin áhrif á skyldu varnaraðila til að veita þeim þá fjárfestavernd sem lög nr. 108/2007 mæli fyrir um, enda geri lögin ráð fyrir að almennir fjárfestar skuli njóta þeirrar verndar, óháð menntun, kunnáttu eða reynslu. Megi glögglega ráða þetta af ákvæði 23. gr. laganna og 25. gr. reglugerðar nr. 995/2007, þar sem fram komi að fagfjárfestir geti óskað eftir því að njóta stöðu almenns fjárfestis, og njóti hann þá verndar að lögum sem slíkur, óháð stærð, kunnáttu, reynslu, fjárhagslegri getu o.s.frv. Ljóst sé því að varnaraðila hafi borið að veita þær upplýsingar og afla þeirra upplýsinga sem ákvæði umræddra laga og reglugerðar áskilji.

Sóknaraðilar byggja einnig á því að engu breyti um framangreint þótt lög nr. 108/2007 hafi öðlast gildi 1. nóvember 2007, og því nokkru eftir að þeir gerðu eignastýringarsamninginn við varnaraðila, og benda í því sambandi á að fyrri lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 hafi gert sama greinarmun á almennum fjárfestum og fagfjárfestum, sbr. einkum 7. tl. 1. mgr. 2. gr. síðastnefndra laga. Fyrri lög hafi einnig gert ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki aflaði upplýsinga hjá viðskiptavinum sínum um þekkingu, reynslu, markmið og fjárhagsstöðu þeirra, sbr. 5. gr. þeirra. Jafnframt hafi lögin geymt ákvæði um að fjármálafyrirtæki skyldu starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur, með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi, og gæta fyllstu óhlutdrægni í starfsemi sinni, sbr. 4. og 6. gr. þeirra laga. Telja sóknaraðilar að þessu hafi ekki verið fylgt af varnaraðila. Að auki verði hér að hafa í huga að varnaraðili veitti sóknaraðilum fjárfestingaráðgjöf í tengslum við gerð afleiðusamninganna langt fram eftir árinu 2008, og löngu eftir að ný lög um verðbréfaviðskipti tóku gildi, en með þeim lögum hafi sú skylda verið lögð á varnaraðila að veita sóknaraðilum þá fjárfestavernd sem nýju lögin kveði á um. Hefði varnaraðili sinnt því hlutverki telja sóknaraðilar að hugsanlega hefði mátt forða því tjóni sem þeir urðu fyrir, enda hafi tjónið að langstærstum hluta komið til eftir gildistöku nýju laganna.

Með vísan til framanritaðs byggja sóknaraðilar á því að varnaraðili hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem hann beri bótaábyrgð á samkvæmt almennum reglum.

Í öðru lagi byggja sóknaraðilar á því að sú ráðgjöf sem þeim var veitt hafi að öðru leyti ekki verið í samræmi við lög nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og reglugerð nr. 995/2007. Þannig hafi ráðgjöfin ekki verið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur, með hagsmuni sóknaraðila að leiðarljósi, sbr. 5. gr. laga nr. 108/2007. Jafnframt er á því byggt að ekki hafi verið gætt reglna um hagsmunaárekstra, sbr. 8. gr. laganna og 19. og 20. gr. reglugerðarinnar. Í þessu samhengi benda sóknaraðilar á að áðurnefndir skiptasamningar hafi verið framlengdir eða endurnýjaðir með reglulegu millibili á þann hátt að kaupverð hlutabréfa í varnaraðila hafi verið skráð mun hærra en það hafi á sama tíma verið á almennum markaði. Við þetta hafi lánaskuldbinding sóknaraðila aukist á sama tíma og verð hlutabréfanna hafi lækkað. Hafi þetta endað með algeru tapi, í stað þess að umræddum gerningum væri lokað og tapið gert upp. Þá hafi varnaraðili ráðlagt þeim um gerð skiptasamninga með hlutabréf í sjálfum sér, og hafi sú háttsemi verið sérlega varhugaverð.

Í þriðja lagi byggja sóknaraðilar á því að varnaraðili hafi ekki framfylgt samkomulagi milli þeirra og Gunnars Freys Gunnarssonar, starfsmanns varnaraðila,  um að losa sóknaraðila út úr fjárfestingunni þegar tap næmi 10% af upphaflegri fjárfestingu, þ.e. ef tapið næmi meira en 24,6 milljónum króna. Því til stuðnings vísa sóknaraðilar sérstaklega til tveggja tölvuskeyta, en í öðru þeirri komi fram að Gunnar hafi lofað því að vera með fjárfestinguna í „gjörgæslu og fylgjast náið með því hjá mér og vera þá klár að selja ef bréfin væru að fara undir 10%“. Telja sóknaraðilar að þessu hafi ekki verið fylgt eftir af hálfu varnaraðila.

Sóknaraðilar byggja í fjórða lagi á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að selja allt það safn sem var í eignastýringu hjá varnaraðila og ráðstafa þeim fjármunum upp í skuld vegna umræddra skiptasamninga. Eignastýringarsamningurinn hafi verið gerður milli beggja sóknaraðila og varnaraðila, en handveðssamningarnir aðeins milli sóknaraðila Sigurðar og varnaraðila. Þar sem samþykkis sóknaraðila Hrannar hafi aldrei verið aflað hafi varnaraðila ekki verið heimilt að selja allt eignasafnið og ráðstafa því upp í skuldir, án samþykkis hennar. Auk þessa telja sóknaraðilar að veðsetning eignasafnsins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga um samningsveð nr. 75/1997, sem geri ráð fyrir því að veðandlagið verði að vera sérgreint og nægilega tilgreint svo að gildur veðréttur stofnist. Sé því óheimilt að veðsetja heildarsafn samkynja muna, sbr. 3. mgr. 3. gr. þeirra laga. Í því tilviki sem hér um ræði hafi upphaflega verið sett að veði nánar tiltekin verðbréf. Þeirri veðsetningu hafi síðar verið skipt út og þá sett að veði öll verðmæti, hverju nafni sem þau nefndust á vörslusafni hjá varnaraðila nr. #487397. Innstæða þess safns hafi hins vegar breyst reglulega eftir því sem eignir voru keyptar eða seldar. Því hafi veðandlagið aldrei verið tilgreint eða sérgreint í samræmi við ákvæði laga nr. 75/1997, og umrædd veðsetning af þeim sökum ógild. Hafi varnaraðila því verið óheimilt að selja úr eignasafninu á grundvelli veðsins, og ráðstafa því upp í skuldir sóknaraðila Sigurðar við varnaraðila.

Ofangreindu til frekari stuðnings benda sóknaraðilar á að um handveðssamning hafi verið ræða samkvæmt 22. gr. laga nr. 75/1997, en til þess að um gilda handveðsetningu sé að ræða þurfi veðsali að vera sviptur umráðum veðsins allan þann tíma sem veðsamningurinn sé í gildi. Fyrir liggi hins vegar að samkvæmt eignastýringarsamningi aðila hafi sóknaraðilar getað gefið fyrirmæli um viðskipti og aðrar hreyfingar, og hafi sérfræðingar varnaraðila ekki getað neitað að fara eftir þeim fyrirmælum, nema í þeim tilvikum er 2. og 3. mgr. 9. gr. eignastýringarsamningsins ætti við. Því hafi sóknaraðilar í raun ekki verið sviptir umráðum veðsins á samningstímanum.

Sóknaraðilar byggja loks á því að hagsmunum þeirra hafi verið kastað fyrir róða með glæpsamlegum og refsiverðum hætti af hálfu varnaraðila, en margt bendi til að varnaraðili hafi með skipulögðum, markvissum, ólögmætum og refsiverðum hætti reynt að hafa áhrif á verðmæti hlutabréfa í bankanum með markaðsmisnotkun og með því að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar í aðdraganda hruns hans. Hafi þetta m.a. haft áhrif á þá gerninga sem sóknaraðilar gerðu, en jafnframt ýtt undir að tap þeirra varð að lokum algert.

Krafa sóknaraðila er skaðabótakrafa og byggist á því að varnaraðili bæti þeim það tjón sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna fjárfestingaráðgjafar starfsmanna varnaraðila. Miðast fjárhæð aðalkröfunnar við stöðu eignasafns þeirra 30. júní 2007, 182.914.508 krónur, en nánast öll sú eign tapaðist á tímabilinu frá 30. júní 2007 til loka árs 2008, á meðan eignasafnið var í eignastýringu hjá sérfræðingum varnaraðila. Jafnframt krefjast þeir vaxta á framangreinda fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þessum tíma til frestdags, eða 41.022.946 króna, auk greiðslu fyrir gerð kröfulýsingar, 100.000 króna. Samtals nemur fjárhæðin því 224.037.454 krónum, en auk þess er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá frestdegi til greiðsludags. Gera sóknaraðilar kröfu um að krafa þessi verði viðurkennd eins og henni er lýst, og að hún njóti stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.

Verði ekki fallist á framangreint byggja sóknaraðilar á því til vara að miða eigi við að tjón þeirra nemi 191.950.885 krónum, sem sé andvirði þeirra fjármuna sem þeir hafi komið með inn í eignasafn sitt hjá varnaraðila í upphafi, eða 157.290.923 krónur, auk sömu vaxta og að ofan greinir, sem og kostnaðar við gerð kröfulýsingar. Þá er einnig krafist dráttarvaxta fyrir sama tímabil og að ofan greinir. Á sama hátt er þess krafist að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa við slit varnaraðila.

Til stuðnings kröfum sínum vísa sóknaraðilar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, sem og almennra skaðabótareglna, einkum almennu skaðabótareglunnar eða sakarreglunnar, hvort heldur sem er innan eða utan samninga. Jafnframt er vísað til meginreglu skaðabótaréttarins um vinnuveitenda- eða húsbóndaábyrgð, svo og til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, einkum 5., 8., 14., 15., 16., 18. og 21. gr. þeirra, en einnig til fyrri laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003. Þá er vísað til reglugerðar nr. 995/2007, um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, þ. á m. 31., 35. og 36. gr. þeirra. Krafa um dráttarvexti er byggð á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en málskostnaðarkrafan styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.

IV

Varnaraðili kveðst að öllu leyti hafna málatilbúnaði sóknaraðila og byggir á því að skilyrði almennu sakarreglunnar séu ekki uppfyllt. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila. Leggur hann áherslu á að ákvörðun um að gera skiptasamninga hafi alfarið verið í höndum annars sóknaraðilans, Sigurðar Skagfjörð. Hafi Sigurður sjálfur átt frumkvæðið að þeirri ákvörðun, en hún hafi hvorki verið hluti af eignastýringarsamningi sóknaraðila, né byggð á ráðgjöf af hálfu starfsmanns eignastýringar. Til að gera skiptasamninga hafi sóknaraðilar þurft að ræða við starfsmenn markaðsviðskipta varnaraðila, samþykkja sérstaka markaðsskilmála, undirrita skiptasamningana, yfirlýsingar um lokanir og skilmálabreytingar, svo og að leggja fram tryggingar og undirrita handveðsyfirlýsingu vegna hugsanlegs taps á samningunum. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðilar hafi undirritað eignastýringarsamning og staðfest fjárfestingarstefnu D, en samkvæmt þeirri fjárfestingarstefnu hafi verið heimilt að fjárfesta fyrir allt að 75% af eignasafni sóknaraðila í hlutabréfum, verðbréfsjóðum, skuldabréfum og víxlum. Ráðlegging um kaup tiltekinna hlutabréfa feli ekki í sér ákvörðun um kaup, enda sé sú ákvörðun ávallt í höndum sóknaraðila sjálfra. Enn síður feli ráðlegging um slík kaup í sér ákvörðun um að gera skiptasamninga til að fjármagna hlutabréfakaupin. Sú ákvörðun sé af allt öðrum toga og byggist á því að sóknaraðilar séu tilbúnir að taka þá áhættu að fjármagna hlutabréfaviðskipti með lánsfjármögnun í formi skiptasamninga og greiða þann mismun sem verði við það að skuldbinding þeirra hækki meira en gagngreiðslan, í þessu tilviki hlutabréfin. Samhliða þurfi sóknaraðilar að leggja fram tryggingu fyrir þeim mismun, sem þannig geti myndast. Allar þessar ákvarðanir séu teknar af sóknaraðilum, án afskipta starfsmanna varnaraðila, og verði sóknaraðilar einir að bera ábyrgð á þeim.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að hann hafi sérstaklega varað sóknaraðila við þeirri áhættu sem fælist í afleiðuviðskiptum. Þannig sé berum orðum tekið fram í markaðsskilmálum, sem sóknaraðili Sigurður undirritaði, að mikil áhætta sé fólgin í slíkum viðskiptum, um leið og athygli hafi verið vakin á því að varnaraðili bæri ekki ábyrgð á tjóni viðskiptavinar vegna lækkunar á gengi verðbréfa. Sóknaraðili Sigurður hafi gert sér fulla grein fyrir áhættunni, enda hafi hann spurst fyrir um hvort hann gæti takmarkað áhættuna við tiltekin viðmiðunarmörk. Hins vegar hafi hann ekki verið tilbúinn til þess að kaupa sölurétt, sem honum hafi sérstaklega verið bent á að væri eina leiðin til að takmarka áhættuna. Þá telur varnaraðili að Sigurði hafi mátt vera ljós áhættan af þessum viðskiptum þar sem undirliggjandi verðmæti skiptasamninganna hafi sveiflast gríðarlega á skömmum tíma, ýmist til hækkunar eða lækkunar. Varnaraðili tekur einnig fram að ráðleggingar og þau beinu afskipti sem hann hafi þó haft af skiptasamningunum hafi forðað sóknaraðilum frá verulegu tjóni. Í því efni vísar varnaraðili til þess að starfsmaður bankans hafi ráðlagt sóknaraðila Sigurði að minnka áhættu skiptasamninganna úr 200.000 hlutum í varnaraðila í 150.000 hluti. Einnig hafi Sigurði verið ráðlagt  að skipta skuldbindingu sinni úr erlendum myntum yfir í íslenskar krónur, áður en gengi krónunnar hrundi. Loks hafi  varnaraðili lokað stöðu samninganna í september 2008, áður en hlutabréfin urðu verðlaus 9. október það ár.  Þótt varnaraðila hafi ekki tekist að sannfæra sóknaraðila um að takmarka tjón sitt enn frekar, hafi þessar ráðleggingar og afskipti bankans engu að síður komið í veg fyrir að sóknaraðilar enduðu í skuld við bankann í september 2008.       

Af hálfu varnaraðila er mótmælt sem röngum og ósönnuðum þeim fullyrðingum sóknaraðila að þeir hafi gefið fyrirmæli um að loka samningunum þegar hagnaður eða tap færi umfram tiltekin viðmiðunarmörk. Því til stuðnings bendir varnaraðili á að sóknaraðili Sigurður hafi, þrátt fyrir vitneskju um tap á samningunum og varnaðarorð starfsmanns varnaraðila, ótrauður haldið áfram að gera nýja samninga þar sem tapinu hafi verið bætt við fyrri samningsfjárhæð, og það jafnvel þótt tapið hafi augljóslega farið yfir þau mörk sem hann fullyrði að hafa mælt fyrir um að höfð skyldi til viðmiðunar. Telur varnaraðili þetta sýna að sóknaraðili hafi verið tilbúinn að taka þá áhættu að velta uppsöfnuðu tapi sínu áfram með skiptasamningum, í þeirri von að gengi undirliggjandi bréfa hækkaði og tapið minnkaði. Þá mótmælir varnaraðili sérstaklega þeirri málsástæðu sóknaraðila að starfsmaður varnaraðila hafi ekki fylgt fyrirmælum um sölu á bréfum, ef tap skiptasamninganna næmi 10% af upphaflegri fjárfestingu, enda byggi hún að verulegu leyti á rangri lýsingu á málavöxtum og augljósri oftúlkun á ummælum viðkomandi starfsmanns. Enn fremur er því mótmælt að önnur ummæli sama starfmanns, sem sóknaraðilar vísi til, feli í sér annað og meira en að starfsmaðurinn myndi gera sitt besta. Sóknaraðilum hafi verið gert ljóst að þeir gætu tryggt sig fyrir tjóni af skiptasamningum með kaupum á sölurétti, en þeir hafi engu að síður kosið að gera það ekki. Báðir sóknaraðilar hafi menntun og starfsreynslu á sviði viðskipta og hljóti þeim að vera ljóst að starfsmaður í fjármálafyrirtæki geti ekki ábyrgst þróun á gengi verðbréfa. Þá sé ekkert óeðlilegt við það að starfsmenn fjármálafyrirtækja láti í ljós skoðanir sínar á tilkynningum á markaði sem varði viðkomandi fjárfestingu. Hins vegar sé það áréttað í markaðsskilmálum að álit, sem starfsmenn varnaraðila kunni að láta viðskiptavinum í té, sé eingöngu byggt á skoðunum viðkomandi starfsmanna á þeim tíma, og geti breyst án fyrirvara. Með vísan til þessa byggir varnaraðili á því að ekki sé unnt að líta svo á að sóknaraðilar hafi gefið varnaraðila bindandi fyrirmæli um sölu á hlutabréfum þegar tapið af upphaflegri fjárfestingu næmi 10% eða meira. Loks telur varnaraðili að ekki sé eðlilegt að starfsmenn markaðsviðskipta taki á sig þá ábyrgð að fylgjast með samningum viðskiptamanna og loka þeim fari tapið yfir ákveðin mörk, nema um slíkt hafi verið samið með sölurétti. Um leið áréttar varnaraðili að ákvörðun um lokun skiptasamnings liggi ávallt hjá viðskiptavinum.    

Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki hafi verið lagt mat á þekkingu eða reynslu þeirra af verðbréfaviðskiptum. Þvert á móti staðhæfir hann að sóknaraðilar hafi rætt við starfsmenn varnaraðila áður en sóknaraðilar undirrituðu   eignastýringarsamninginn, en í 16. gr. hans segi svo: „Viðskiptavinur staðfestir að hann geri sér grein fyrir eðli viðskipta með mismunandi fjármálagerninga og áhættuna sem þeim fylgir. Hann staðfestir jafnframt að honum hafi verið gerð grein fyrir því að ávöxtun verðbréfa og annarra fjármálagerninga getur sveiflast mjög frá einum tíma til annars. Þá staðfestir viðskiptavinur að hann geri sér grein fyrir því að undirliggjandi eignir fjárvörslusamningsins geta rýrnað á samningstímanum.“ Starfsmenn markaðsviðskipta hafi einnig vitað að sóknaraðilar væru með menntun og mikla starfsreynslu á sviði viðskipta, en báðir sóknaraðilar hafi lokið prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaranámi frá erlendum framhaldsskólum, auk þess sem þeir hafi gegnt ábyrgðarstöðum í viðskiptalífinu um árabil. Þá hafi sóknaraðili Sigurður hagnast vel með því að kaupa stóran hlut í fyrirtæki sem skráð hafi verið á markaði, áður en hann ákvað að gera þá skiptasamninga sem hér um ræði. Hafi hann því bæði haft fjárhagslegan styrk og þekkingu til að gera skiptasamninga. Með ofanritað í huga mótmælir varnaraðili því að hann hafi brotið gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, sem og reglugerðar nr. 995/2007, um fjárfestavernd. Um leið minnir hann á að bæði eignastýringarsamningurinn og upphaflegi skiptasamningurinn hafi verið gerðir í gildistíð eldri laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003. Hvorki eldri lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, né núgildandi lög nr. 108/2007, geri hins vegar ráð fyrir því að fjárfestar skuli flokkaðir með ákveðnum hætti til þess að geta átt í afleiðuviðskiptum. Því byggir varnaraðili á því að heimilt hafi verið að leyfa sóknaraðilum að eiga í afleiðuviðskiptum, óháð flokkun þeirra sem fjárfesta.   

Varnaraðili telur fyrirliggjandi gögn staðfesta að einungis sóknaraðili Sigurður hafi notið eignastýringar hjá varnaraðila, en ekki sóknaraðili Hrönn. Því til stuðnings er bent á að öll skjöl er varði eignastýringuna, skiptasamningar, uppgjör o.s.frv., beri einungis nafn sóknaraðila Sigurðar og séu þau aðeins undirrituð af honum. Hvergi sé að finna nafn eða undirskrift sóknaraðila Hrannar, og verði ekki séð að sóknaraðilar hafi sjálfir gert athugasemdir vegna þessa. Þá komi hvergi fram í gögnum málsins að sóknaraðili Hrönn hafi verið í sambandi við starfsmenn varnaraðila vegna eignastýringarinnar. Undirskrift sóknaraðila Hrannar undir eignastýringarsamninginn breyti ekki þeirri staðreynd að hún hafi aldrei lagt inn eignir til stýringar hjá varnaraðila. Því hafi ekki verið nauðsynlegt að afla samþykkis sóknaraðila Hrannar við handveðsetningu eignasafnsins, né hafi hún þurft að samþykkja sölu á því eða aðra ráðstöfun þess.

Af hálfu varnaraðila er einnig á því byggt að veðandlagið sé með nákvæmum hætti tilgreint með númeri vörslusafnsins í handveðssamningi 20. nóvember 2007. Þar komi einnig fram að öll verðbréf og innstæður eins og þær eru á hverjum tíma falli undir veðandlagið. Tilgreining á vörslusafni með þessum hætti uppfylli skilyrði laga um samningsveð nr. 75/1997, eins og áralöng athugasemdalaus venja beri með sér. Í gögnum málsins liggi einnig fyrir nákvæm tilgreining á vörslusafni sóknaraðila Sigurðar á ákveðnum dögum, þrátt fyrir reglulegar breytingar á því, og hafi það því verið nægilega sérgreint til að unnt væri að taka það að handveði. Þannig hafi á hverjum tíma legið ljóst fyrir hvaða eignir væru á vörslusafni nr. 487397, að þær væru aðgreindar frá eigum annarra og að ekki léki vafi á réttindum sóknaraðila Sigurðar yfir þeim eignum. Fyrir liggi einnig að sóknaraðili Sigurður hafi verið sviptur umráðum veðsins, þar sem hann hafi afsalað sér umráðum þess. Því til stuðnings vísar varnaraðili til fyrrnefnds handveðssamnings, þar sem fram komi að veðsali skuli sviptur umráðum veðandlagsins, meðan kröfur þær sem veðandlagið eigi að tryggja séu ekki að fullu greiddar, og sé veðsala óheimilt að ráðstafa veðandlaginu án leyfis veðhafa. Breyti hér engu þótt sóknaraðili Sigurður hafi haft áhrif á þróun eignasafnsins, enda hafi það verið í samræmi við handveðssamninginn, þar sem segi að veðsala sé hvenær sem er heimilt að óska eftir því við veðhafa að veðandlagið verði selt og aðrir fjármálagerningar keyptir í þess stað.

Samkvæmt ofanrituðu telur varnaraðili ljóst að þær eignir sem voru í eignasafninu í upphafi hafi alfarið verið eign sóknaraðila Sigurðar og að hann hafi haft fullan ráðstöfunarrétt yfir þeim, þ.m.t. heimild til að veðsetja þær. Sigurður hafi sjálfur ákveðið að leggja eignasafnið að veði fyrir viðskiptunum, og beri hann ábyrgð á þeirri ákvörðun. Handveðsetningin hafi að fullu verið í samræmi við ákvæði laga um samningsveð nr. 75/1997, og hafi varnaraðila því verið heimilt að selja eignir úr safninu og ráðstafa andvirðinu upp í skuldir sóknaraðila Sigurðar. Í þessu ljósi telur varnaraðili að veðsetningin hafi ekki brotið í bága við ákvæði laga um samningsveð nr. 75/1997.

Varnaraðili hafnar alfarið þeim fullyrðingum sóknaraðila að varnaraðili hafi með skipulögðum, markvissum, ólögmætum og refsiverðum  hætti reynt að hafa áhrif á verðmæti hlutabréfa með markaðsmisnotkun, enda séu þær með öllu ósannaðar. Hins vegar sér varnaraðili ástæðu til að benda á að ekki sé hægt að leggja að jöfnu starfsmenn í framlínu bankans og æðstu stjórnendur hans. Ljóst sé einnig að starfsmenn varnaraðila hafi á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað enga hugmynd haft um að yfirvofandi væru þeir atburðir sem áttu sér stað haustið 2008.

Telji dómurinn að sóknaraðilar eigi réttmæta kröfu á hendur varnaraðila mótmælir varnaraðili fjárhæð kröfunnar, enda sé hún hvorki rökstudd né gerð grein fyrir því hvers vegna miða eigi við stöðu eignasafnsins 30. júní 2007, eins og sóknaraðilar geri. Þá reikni sóknaraðilar sér þann hagnað sem þeir hafi fengið í upphafi vegna viðskipta með skiptasamninga, en taki hins vegar ekkert tillit til taps af þeim. Í því sambandi vekur varnaraðili athygli á að skiptasamningi frá 13. júlí 2007 hafi verið lokað með tapi, samtals að fjárhæð 97.428.854 krónum, án þess að sú fjárhæð sé dregin frá höfuðstól kröfunnar. Varnaraðili bendir einnig á að helsta málsástæða sóknaraðila sé sú að þeir hafi ekki notið fjárfestaverndar í samræmi við lög, þ.e. að þeim hafi ekki verið gerð fullnægjandi grein fyrir áhættunni sem fólst í afleiðuviðskiptum, og hafi varnaraðili þannig sýnt af sér saknæma háttsemi sem hann beri bótaábyrgð á samkvæmt almennum reglum. Málatilbúnaður sóknaraðila, eins óljós og hann sé, verði ekki skilinn á annan hátt en svo að þeir telji að varnaraðila hafi verið óheimilt að annast þau viðskipti sem um sé deilt. Með hliðsjón af því þykir varnaraðila ljóst að sóknaraðilar geti aldrei krafist hærri bóta en nemi stöðu eignastýringarsafnsins við upphaf eignastýringar. Samkvæmt því ættu sóknaraðilar nú hlutabréf í FL Group að nafnvirði 5.163.138 krónur, en verðlaus í dag, bankainnstæðu að fjárhæð 29.412 krónur og hlutdeildarskírteini í Kaupþingi Peningamarkaðssjóði að nafnvirði 337.960 krónur. Byggir varnaraðila á því að bótakrafa sóknaraðila sé að þessu leyti vanreifuð, og beri af þeim sökum að hafna henni.           

Kröfu sóknaraðila um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 30. júní 2007 til frestdags er einnig mótmælt, enda ljóst að skilyrði þess ákvæðis séu ekki uppfyllt. Skaðabótakröfur skuli bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, en sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni 30. júní 2007. Telur varnaraðili að ekki sé hægt að fallast á að krafan beri vexti fyrr en með úrskurði dómara, eða í fyrsta lagi með kröfulýsingu sóknaraðila, en í báðum tilvikum yrðu þeir vextir eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Jafnframt mótmælir varnaraðili kröfu sóknaraðila um kostnað vegna kröfulýsingar, enda sé sú krafa eftirstæð krafa sem slitastjórn muni ekki taka afstöðu til, sbr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé það einnig meginregla við gjaldþrotaskipti að hver kröfuhafi beri sinn kostnað við að lýsa og halda fram kröfum sínum.

Varnaraðili vekur loks athygli á því að dráttarvaxtakröfu sóknaraðila frá frestdegi til greiðsludags hafi í upphafi verið lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Í greinargerð sóknaraðila sé þess hins vegar krafist að dráttarvextir njóti stöðu almennrar kröfu í samræmi við 113. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þessu mótmælir varnaraðili og byggir á því að óheimilt sé að auka við kröfu frá því henni var lýst í kröfulýsingu. Krafan sé einnig of seint fram komin, sbr. 1.-6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Að dómi varnaraðila er ekki hægt að fallast á að krafan beri vexti fyrr en með úrskurði dómara, eða í fyrsta lagi með kröfulýsingu sóknaraðila, en í báðum tilvikum yrðu þeir vextir eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

Um lagarök, kröfum sínum til stuðnings, vísar varnaraðili til laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og nr. 108/2007, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þá er byggt á meginreglum skaðabótaréttar, samninga- og kröfuréttar.  Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

V

Við munnlegan flutning málsins féllu sóknaraðilar frá kröfu sinni um að dráttarvöxtum af kröfufjárhæðinni frá 22. apríl 2009 til greiðsludags, ásamt kostnaði vegna kröfulýsingar, yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þess í stað kröfðust þeir þess að báðir kröfuliðirnir yrðu viðurkenndir sem eftirstæðar kröfur samkvæmt 114. gr. sömu laga. 

Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir aðdraganda þeirra viðskipta sem aðilar deila um, ásamt því að rakin hafa verið helstu efnisatriði þeirra samninga sem hér skipta máli. Af málatilbúnaði aðila verður ekki séð að deilt sé um eignastýringu varnaraðila á fjármunum sóknaraðila samkvæmt samningi þess efnis frá 23. janúar 2007, þótt síðari viðskipti sóknaraðila Sigurðar með skiptasamninga hafi vissulega haft áhrif á stöðu eignasafns sóknaraðila í eignastýringu, og undir lokin leitt til þess að það varð nánast að engu. Deilan lýtur á hinn bóginn að viðskiptum sóknaraðila Sigurðar með umrædda skiptasamninga, ábyrgð varnaraðila á gerð þeirra og síðari framvindu, svo og um gildi handveðssamninga sem sóknaraðili Sigurður undirritaði, til tryggingar viðskiptunum. Óumdeilt er að þau viðskipti voru ekki hluti af eignastýringarsamningi aðila og féllu ekki innan ramma þeirrar fjárfestingarstefnu sem þar var ákveðin. Rétt er að taka það fram hér að þótt sóknaraðilar hafi báðir ritað undir eignastýringarsamning við varnaraðila, og eignasafn þeirra þar af leiðandi verið skráð á nafn þeirra beggja, benda gögn málsins ekki til þess að sóknaraðili Hrönn hafi lagt neina fjármuni til stýringar inn á eignasafnið, hvorki í upphafi né síðar. Þvert á móti verður ekki annað ráðið en að allir fjármunir á eignasafninu, hlutabréf og önnur verðbréf, ásamt bankainnstæðum, hafi allt frá upphafi til loka aðeins verið skráðir á nafn sóknaraðila Sigurðar. Staðfesti Sigurður einnig að svo væri, sbr. 2. mgr. 1. gr. markaðsskilmála, sem hann undirritaði 22. mars 2007. Af því verður sú ályktun ein dregin að hann hafi haft fulla heimild til að veðsetja þá fjármuni, án atbeina sóknaraðila Hrannar. Ekki verður heldur séð að Hrönn hafi nokkru sinni hreyft athugasemdum við þeirri ráðstöfun Sigurðar, né öðrum ákvörðunum hans, þótt fyrir liggi hins vegar í gögnum málsins að hann hafi í einhverjum tilvikum leitað álits hennar á þeim viðskiptum sem hann átti í. Með hliðsjón af ofansögðu verður litið svo á að aðeins sóknaraðili Sigurður hafi átt í viðskiptum við varnaraðila, enda ritaði hann einn undir alla þá samninga sem eru deiluefni þessa máls.

Kröfur sóknaraðila eru einkum á því reistar að hann hafi í viðskiptum við varnaraðila ekki notið þeirrar fjárfestaverndar sem almennum fjárfestum er tryggð í lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og reglugerð nr. 995/2007, um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, svo og að sú fjárfestingarráðgjöf sem varnaraðili veitti honum hafi verið ófullnægjandi og í andstöðu við fyrrgreind lög og reglugerð. Með því hafi varnaraðili sýnt af sér saknæma háttsemi sem hann beri bótaábyrgð á gagnvart sóknaraðila.

Eins og rakið hefur verið voru fyrstu skiptasamningar aðila gerðir 22. og 26. mars 2007. Samhliða gerð þeirra undirritaði sóknaraðili almenna skilmála fyrir viðskiptavini markaðsviðskipta Kaupþings banka hf. - skilmála fyrir einstaklinga, svo og handveðssamning þar sem varnaraðila voru sett að handveði þau verðbréf sem talin voru upp í meðfylgjandi viðauka, allt „til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum veðsala til veðhafa samkvæmt öllum þeim afleiðusamningum er veðsali hefur gert eða mun gera við veðhafa“, eins og orðrétt segir í handveðssamningnum. Umrædd verðbréf, sem samhliða voru afhent varnaraðila að handveði, lágu þá á sameiginlegu eignasafni beggja sóknaraðila. Við gerð þessara samninga giltu lög nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, og var sérstaklega tekið fram í áðurnefndum markaðsskilmálum að viðskiptavinur væri hvattur til að kynna sér þau lög.

Tekið er undir það með sóknaraðila að ekki liggur annað fyrir en að hann hafi á þessum tíma verið almennur fjárfestir í viðskiptum við varnaraðila. Það eitt stóð þó ekki í vegi fyrir því að honum væri heimilt að eiga viðskipti með afleiður, en skiptasamningar eru ein tegund þeirra fjármálagerninga, sbr. b-lið iii. 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 33/2003. Um skilyrði fyrir slíkum viðskiptum við fjármálafyrirtæki var einkum mælt fyrir í 5. gr. þeirra laga, þar sem sagði að fjármálafyrirtæki skyldi afla upplýsinga hjá viðskiptavini um þekkingu og reynslu hans í verðbréfaviðskiptum og markmið með fyrirhugaðri fjárfestingu, eftir því sem máli skipti vegna þjónustunnar. Einnig skyldi fjármálafyrirtækið afla upplýsinga um fjárhagsstöðu viðskiptavinar, væri hann í viðvarandi viðskiptasambandi við fyrirtækið. Í ljósi þessa bar fjármálafyrirtækinu að veita viðskiptavini greinargóðar upplýsingar, m.a. um þá fjárfestingarkosti sem honum stæði til boða. Ekkert bendir til annars en að varnaraðili hafi fylgt þessum fyrirmælum gagnvart sóknaraðila, a.m.k. hefur sóknaraðili ekki fært sönnur á hið gagnstæða. Vísast þá sérstaklega til 9. og 16. gr. eignastýringarsamnings aðila, svo og inngangsorða og 8. gr. fyrirliggjandi markaðsskilmála, en efni tilvitnaðra ákvæða hefur að nokkru verið rakið hér að framan. Samkvæmt því verður hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann hafi ekki verið upplýstur um eðli og áhættu þeirra viðskipta sem fólust í gerð skiptasamninga. Jafnframt telst ósannað að varnaraðili hafi ekki fyrir upphaf þeirra viðskipta aflað þeirra upplýsinga um sóknaraðila sem honum bar samkvæmt áðurnefndri 5. gr. laga nr. 33/2003. Ekki verður hins vegar fram hjá því horft að sóknaraðili er menntaður viðskiptafræðingur, með framhaldsnám á því sviði, en hafði einnig um árabil gegnt ábyrgðarstöðu í viðskiptalífinu. Þá voru eignir hans í eignastýringu hjá varnaraðila umtalsverðar á þessum tíma, og vel umfram þau viðmiðunarmörk sem vitnið Hannes Frímann Hrólfsson sagði fyrir dómi að verið hefði lágmark þess að almennum fjárfesti var heimilað að stunda afleiðuviðskipti.

Með lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem tóku gildi 1. nóvember 2007, voru lög nr. 33/2003 felld brott. Þótt hin nýju lög feli í sér veigamiklar breytingar frá eldri lögum, svo sem um aukna fjárfestavernd til handa almennum fjárfestum og fagfjárfestum, leggja lögin ekki bann við því að almennum fjárfestum verði heimilað að stunda afleiðuviðskipti. Hins vegar eru þar strangari fyrirmæli en áður um upphaf slíkra viðskipta, svo sem um form samninga, upplýsingagjöf til viðskiptavina og öflun upplýsinga um þá, ráðleggingar til þeirra og mat á hæfni þeirra, sbr. m.a. 9., 14. og 15. grein þeirra. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ekki farið að fyrirmælum þessara ákvæða og því hafi hann ekki notið þeirrar fjárfestaverndar sem lögin áskilji honum.

Fram er komið að sóknaraðili stofnaði fyrst til viðskipta við varnaraðila með skiptasamninga seinni hluta marsmánaðar 2007. Eftir það átti hann samfelld viðskipti með slíka samninga, allt til þess að viðskiptunum var lokað og tap hans gert upp 17. september 2008. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 108/2007 kemur fram í umfjöllun um þau ákvæði sem að ofan greinir og sóknaraðili vísar til, þ.e. 9., 14. og 15. gr., að þau eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar stofnað er til nýrra viðskipta eða nýrrar tegundar viðskipta eftir gildistöku laganna, og ekki hafi áður verið aflað þeirra upplýsinga sem hin nýju lög geri kröfu um. Samkvæmt því hefur sú málsástæða sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki gætt áðurnefndra ákvæða laga nr. 108/2007 í samskiptum sínum við sóknaraðila enga þýðingu við úrlausn málsins. Þá er með öllu órökstudd sú málsástæða hans að ráðgjöf varnaraðili hafi ekki verið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur, með hagsmuni sóknaraðila að leiðarljósi, sbr. 5. gr. sömu laga, sem og að varnaraðili hafi ekki gætt reglna um hagsmunaárekstra, sbr. 8. gr. laganna. Hefur sóknaraðili því á engan hátt sýnt fram á að varnaraðili hafi brotið reglur gildandi laga, þegar hann heimilaði sóknaraðila að eiga þau viðskipti sem hér um ræðir.

Sóknaraðili byggir einnig á því að varnaraðili hafi ekki framfylgt samkomulagi milli hans og fyrrverandi viðskiptastjóra varnaraðila, Gunnars Freys Gunnarssonar, um að losa sóknaraðila úr fjárfestingunni þegar tap af viðskiptunum næmi 10% af upphaflegri samningsfjárhæð. Vísar sóknaraðili þar sérstaklega til tölvubréfs frá Gunnari til sóknaraðila 19. mars 2007, þar sem Gunnar er að svara fyrirspurn frá sóknaraðila um hvernig hann geti tryggt sig fyrir hugsanlegu tapi ef hann kaupi „framvirkt“ í Kaupþingi. Gunnar svarar á þá leið að slíkt sé ekkert mál, hægt sé að kaupa svokallaðan sölurétt um leið og bréfin verði keypt, en bætir síðan við eftirfarandi: „Ef við viljum sleppa við að taka svona sölurétt þá getum við unnið þetta þannig að ég myndi bara vera með þetta í gjörgæslu og fylgjast náið með því hjá mér og vera þá klár að selja ef bréfin væru að fara undir 10%.“ Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði Gunnar að í þessum orðum sínum hefði falist að hann myndi fylgjast náið með markaðnum og láta sóknaraðila vita ef einhverjar stórvægilegar breytingar ættu sér stað.

Ofangreind tölvusamskipti áttu sér stað nokkrum dögum áður en sóknaraðili gerði fyrstu skiptasamninga sína við varnaraðila. Eins og fram er komið var þeim samningum lokað 25. júní og 2. júlí 2007 með verulegum hagnaði fyrir sóknaraðila. Eftir það taldi Gunnar að ekki væri ráðlegt að gera nýja samninga um frekari kaup á hlutum í Kaupþingi banka hf., og lýsti hann þeirri skoðun sinni í símtali við sóknaraðila 9. júlí 2007. Endurrit þess símtals er meðal gagna málsins. Engu að síður gerði sóknaraðili slíkan samning 13. júlí sama ár, og framlengdi hann allt til loka, nánast með samfelldu tapi.

Að áliti dómsins verða ummæli Gunnars Freys Gunnarssonar í áðurnefndu tölvubréfi ekki túlkuð á annan hátt en þann að í þeim hafi falist að hann myndi sjá til þess að upplýsa sóknaraðila ef markaðsvirði hlutabréfanna í fyrstu viðskiptunum færu undir 10%. Þeim viðskiptum lauk hins með lokun skiptasamninganna og verulegum hagnaði fyrir sóknaraðila. Eftir það, og eftir ráðleggingar Gunnars um að gera ekki frekari samninga, er með engu móti unnt að fallast á að varnaraðili eða áðurnefndur Gunnar verði með einhverjum hætti gerðir ábyrgir fyrir því að skiptasamningunum var ekki lokað þegar hlutabréfin lækkuðu umfram 10%. Slíkt var alfarið á ábyrgð sóknaraðila sjálfs. Önnur ummæli í framlögðum tölvubréfum og símtölum sóknaraðila og Gunnars breyta hér engu um, enda sér þess þar hvergi stað að Gunnar hvetji sóknaraðila til áframhaldandi viðskipta, þótt hann vissulega láti þar uppi skoðanir sínar sínum á viðskiptum sóknaraðila og horfum á fjármálamarkaðnum. Um leið er minnt á að tekið var skýrlega fram í 8. gr. markaðsskilmála að óskaði viðskiptavinur eftir áliti starfsmanna bankans á tilteknum viðskiptum, væri það álit sem starfsmenn kynnu að láta honum í té eingöngu byggt á skoðunum viðkomandi starfsmanns, og gæti breyst án fyrirvara. Jafnframt var þar tekið fram að viðskiptavinur gerði sér grein fyrir því að í viðskiptum þessum fælist hvorki viðskiptavakt né eignastýring. Með vísan til þessa verður ekki fallist á þau rök sóknaraðila að varnaraðili beri ábyrgð á því að umræddum samningum hafi ekki verið lokað þótt tap af þeim yrði meira en 10%.

Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi haft heimild til að veðsetja þá fjármuni sem lágu á eignasafni beggja sóknaraðila, þótt sóknaraðili Sigurður hafi ekki áður leitað samþykkis sóknaraðila Hrannar. Hins vegar byggir sóknaraðili einnig á því að veðsetningin hafi verið ógild þar eð hún hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli laga um samningsveð nr. 75/1997. Vísar hann í því sambandi til 3. mgr. 3. gr. og 22. gr. þeirra laga.

Samkvæmt handveðssamningi 26. mars 2007 setti sóknaraðili varnaraðila að handveði tiltekin verðbréf „til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum veðsala til veðhafa samkvæmt öllum þeim afleiðusamningum er veðsali hefur gert og mun gera við veðhafa“, eins og þar segir. Með handveðssamningum fylgdi kvittun fyrir afhendingu sóknaraðila og móttöku varnaraðila á nánar tilgreindum verðbréfum. Samningi þessum var skipt út með nýjum handveðssamningi 20. nóvember 2007, en samkvæmt honum var varnaraðila sett að handveði „öll verðmæti, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. öll verðbréf og peningainnstæður á vörslusafni veðsala hjá veðhafa nr. #487397, og alla innstæðu þess eins og hún er á hverjum tíma“. Í samningnum segir að veðið nái til allra verðmæta sem geymd verði á ofangreindu vörslusafni veðsala, bæði þeirra sem séu til staðar við undirritun og þeirra sem síðar bætist við eða komi í stað núverandi verðmæta. Tekið var fram að meðfylgjandi væri útprentun sem sýndi stöðu fjármálagerninga/verðmæta á ofangreindu vörslusafni, þótt sú útprentun sé þó ekki meðal gagna málsins. Skýrlega er tekið fram í samningnum að veðsali skuli sviptur umráðum veðandlagsins meðan þær kröfur sem veðandlagið eigi að tryggja séu ekki að fullu greiddar, og skuli veðsala óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er, nema hann hafi áður fengið skriflegt leyfi veðhafa. Þá segir þar að veðsala sé hvenær sem er heimilt að óska eftir því að veðandlagið verði selt og aðrir fjármálagerningar keyptir í þess stað, en í slíkum tilvikum skuli þeir fjármálagerningar sem keyptir eru, með sama hætti vera handveðsettir veðhafa.

Dómurinn getur með engu móti fallist á að hinir veðsettu fjármunir sóknaraðila samkvæmt ofanrituðu séu ekki nægilega tilgreindir eða sérgreindir, eða að veðsetningin fari að öðru leyti í bága við ákvæði laga nr. 75/1997, um samningsveð. Nægir í því efni að vísa til skýrra ákvæða handveðssamninganna, framlagðra eignastýringaryfirlita og yfirlits um hreyfingar á handveðslager. Að auki gat sóknaraðili allan tímann fylgst með stöðu og hreyfingum á eignasafni sínu í gegnum netbanka varnaraðila. Tilvísun sóknaraðila til 3. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 hefur hins vegar enga þýðingu hér, enda fjallar það ákvæði um sjálfsvörsluveð, en ekki handveð. Í ljósi þessa hafnar dómurinn þeirri málsástæðu sóknaraðila að umrædd veðsetning teljist ógild.

Fullyrðingar sóknaraðila um meinta markaðsmisnotkun varnaraðila eru með öllu ósannaðar. Verður þess utan ekki séð hvaða áhrif slíkt hafi haft á ákvarðanir sóknaraðila um að framlengja ítrekað samninga sína við varnaraðila, þótt fyrir lægi nær samfellt tap á þeim. Verður hann einn að bera þá ábyrgð að hafa ekki lokað þeim þegar fyrstu teikn bárust honum um hríðlækkandi gengi á hlutabréfum í varnaraðila.

Samkvæmt öllu ofanrituðu er það niðurstaða dómsins að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðilum óskipt gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 600.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, Sigurðar Skagfjörð Sigurðssonar og Hrannar Greipsdóttur, aðallega að fjárhæð 224.037.454 krónur, en til vara að fjárhæð 191.950.885 krónur, sem þeir lýstu við slitameðferð varnaraðila, Kaupþings banka hf., er hafnað.

Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.