Hæstiréttur íslands
Mál nr. 389/2016
Lykilorð
- Lán
- Veðleyfi
- Skuldskeyting
- Lífeyrissjóður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2016. Hann krefst þess aðallega að fellt verði úr gildi veð sem hann veitti í fasteign sinni að Seiðakvísl 15 í Reykjavík með undirritun á skuldabréfi útgefnu af Jónínu Marteinsdóttur til stefnda 30. maí 2006 og að stefnda verði gert að aflýsa því. Til vara krefst áfrýjandi þess að fellt verði úr gildi veð sem hann veitti í sömu fasteign með undirritun sinni á skuldbreytingu 3. nóvember 2009 þar sem Vilhjálmur Pálsson varð nýr skuldari samkvæmt fyrrgreindu skuldabréfi og að stefnda verði gert að aflýsa því. Til þrautavara krefst áfrýjandi viðurkenningar á rétti sínum til fullra bóta úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem hann varð fyrir þegar hann veitti veð í umræddri fasteign 30. maí 2006, en að því frágengnu við skuldbreytinguna 3. nóvember 2009. Loks krefst áfrýjandi aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi gekkst áfrýjandi í ábyrgð fyrir láni að fjárhæð 4.500.000 krónur, sem þáverandi sambýliskona sonar hans tók hjá stefnda 30. maí 2006, með því að veita veð í fasteign sinni að Seiðakvísl 15 í Reykjavík. Áritaði áfrýjandi veðskuldabréfið um samþykki sitt sem þinglýstur eigandi hinnar veðsettu eignar við útgáfu bréfsins. Í tengslum við lánsumsókn útgefanda veðskuldabréfsins ritaði áfrýjandi undir yfirlýsingu til stefnda þar sem fram kom annars vegar að honum væri fullkunnugt um þá ábyrgð sem fælist í veitingu veðleyfis og að hann hefði kynnt sér yfirlit frá stefnda um væntanlega greiðslubyrði af láninu og hins vegar að hann hefði kynnt sér fyrirliggjandi mat á getu lántaka til að rísa undir þeirri greiðslubyrði sem stofnað væri til með lántökunni. Þá undirritaði hann greiðslumatið ásamt lántakanum. Í því var meðal annars tekið fram að það væri fyrst og fremst byggt á upplýsingum sem væntanlegur lántaki hefði veitt stefnda. Var hvatt til þess að lántakinn og áfrýjandi kynntu sér vel þær forsendur greiðslumatsins sem ekki væru á ábyrgð stefnda. Þess var jafnframt getið að í undirritun þeirra fælist staðfesting á því að þau hefðu kynnt sér og skilið niðurstöður greiðslumatsins. Samkvæmt því var greiðslugeta lántaka metin fullnægjandi miðað við þær forsendur sem þar var gengið út frá. Við gerð þess var lagt til grundvallar að ársvextir væru 4,15%, en hið rétta er að þeir voru 4,6%. Heldur áfrýjandi því fram að þessi mistök hafi leitt til þess að greiðslumatið hafi í reynd verið neikvætt. Þar við bætist að starfsmanni stefnda hafi láðst að taka tillit í greiðslumatinu til lána, sem lántakinn hafi tekið til að kaupa með syni áfrýjanda, Vilhjálmi Pálssyni, íbúð við Leifsgötu í Reykjavík, en um hana gerðu þau kaupsamning 2. júní 2006. Með þessu hafi stefndi brotið gegn lánareglum sínum við umrædda lánveitingu.
Fyrir liggur að 8. júlí 2009 undirrituðu lántakinn og Vilhjálmur Pálsson umsókn um yfirtöku hans á láninu. Voru þau að slíta sambúð sinni á þessum tíma og hafði lántakinn afsalað sínum eignarhlut í íbúðinni við Leifsgötu til Vilhjálms tveimur mánuðum áður. Stefndi veitti samþykki sitt fyrir skuldaraskiptum, en aðila greinir á um hvenær þau öðluðust gildi. Var í málatilbúnaði aðilanna fyrir héraðsdómi upphaflega miðað við 3. nóvember 2009 í þeim efnum, en þann dag var undirritað skjal sem efnislega felur í sér staðfestingu á nýjum skuldara og samþykki áfrýjanda sem eiganda hinnar veðsettu eignar fyrir þeirri ráðstöfun. Við aðalmeðferð málsins byggði áfrýjandi á hinn bóginn á því að stefndi hafi samþykkt skuldaraskiptin 13. júlí 2009 og hafði á þeim grunni uppi nýja kröfu, sem er varakrafa hans í málinu. Tók sú krafa hans fyrir héraðsdómi til þess að skuldskeytingin yrði felld úr gildi, en fyrir Hæstarétti hefur kröfugerð að þessu leyti verið breytt í þá veru að hún lúti að gildi veðsetningarinnar.
Með úrskurði 1. apríl 2015 var bú Vilhjálms Pálssonar tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum á því 23. júní sama ár án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.
II
Í lánareglum stefnda, sem í gildi voru þegar umrætt lán var veitt, kemur fram í 3. mgr. 6. gr. að þegar umsækjandi um lán er ekki eigandi fasteignar, sem fyrirhugað er að veðsetja til tryggingar greiðslu þess, skuli liggja fyrir greiðslumat sem sýni með greinargóðum hætti að umsækjandi sé líklegur til að geta staðið undir greiðslubyrði þess láns sem hann sækir um. Í greiðslumatinu, sem áfrýjanda var kynnt og hann ritaði undir ásamt lántakanum, var hvatt til þess að gæta varúðar við lántöku þegar greiðslugeta reiknast ófullnægjandi og þess getið að stefndi veiti ekki lán „þegar halli á afgangi er hærri en varúðarálag á mánaðarleg útgjöld.“ Sú breyting á niðurstöðu greiðslumatsins sem leiddi af því að ársvextir voru ekki réttilega tilgreindir í því er óveruleg og vel innan marka reiknaðs varúðarálags. Þá er þess að gæta að þegar mat var lagt á greiðslugetu lántakans var stuðst við upplýsingar um skuldir hennar og eignir sem hún sjálf lét stefnda í té, en að þessari forsendu var sérstaklega vikið í greiðslumatinu með þeim hætti sem áður er getið. Í því kom ekkert fram um að verja ætti láninu til kaupa á fasteign enda þótt gert væri ráð fyrir því samkvæmt stöðluðum texta þess að slíkar upplýsingar skyldu veittar þegar þannig stæði á. Með vísan til þessa er ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að stefndi hafi haft um það vitneskju þegar fallist var á lánsumsóknina að lántakinn væri að festa kaup á fasteign og að skuldir hennar væru vantaldar af þeim sökum. Að þessu virtu eru ekki efni til að fallast á það með áfrýjanda að stefndi hafi við umrædda lánveitingu og töku veðs til tryggingar láninu farið á svig við lánareglur sínar þegar hann lagði mat á greiðslugetu upphaflegs lántaka.
Svo sem áður greinir óskuðu lántakinn og Vilhjálmur Pálsson eftir skuldaraskiptum með umsókn til stefnda 8. júlí 2009. Verður ekki annað séð en að sú ráðstöfun hafi verið liður í fjárhagslegu uppgjöri þeirra vegna sambúðarslita. Þannig liggur það fyrir að tveimur mánuðum áður hafði lántakinn afsalað til Vilhjálms eignarhlut sínum í íbúð sem þau keyptu um það leyti sem umrætt lán var tekið, en því virðist svo sem fram er komið hafa verið varið til kaupa á henni. Þegar hér var komið sögu hafði lánið verið í vanskilum um nokkurra mánaða skeið, eða allt frá því í ársbyrjun 2009, og fyrir lá í ljósi framanritaðs að upphaflegur lántaki myndi ekki standa skil á frekari afborgunum af því. Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hafi í lok júní 2009 samþykkt að Vilhjálmur yfirtæki lánið gegn því að samið yrði um vanskil á því og sá kostur tiltekinn að þau yrðu greidd að hluta en að öðru leyti bætt við höfuðstól þess. Þá verður að ganga út frá því að það hafi verið forsenda fyrir skuldaraskiptum af hálfu stefnda að veðréttur hans í fasteign áfrýjanda stæði óhaggaður við þau. Bera málsgögn það með sér að samkomulag um þetta og önnur atriði í tengslum við skuldaraskiptin hafi ekki verið endanlega til lykta leidd fyrr en 3. nóvember 2009 þegar starfsmaður stefnda og Vilhjálmur undirrituðu skjal sem ber yfirskriftina „skuldbreyting/skilmálabreyting“. Áfrýjandi veitti samþykki sitt fyrir skuldaraskiptum með því að rita undir skjalið þennan sama dag, en í því kom fram í samræmi við það sem áður er rakið að lánið væri í vanskilum og að samhliða skuldaraskiptum hafi átt sér stað tiltekin skuldbreyting að ósk nýs skuldara. Jafnframt var endurgreiðsluskilmálum breytt. Með þessu tók umbeðin skuldskeyting gildi. Að öllu þessu gættu eru ekki efni til annars en að líta svo á að með skuldskeytingunni hafi staða áfrýjanda ekki orðið lakari en verið hafði fyrir hana.
Með vísan til þess sem að framan er rakið getur áfrýjandi við svo búið ekki borið það fyrir sig að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða aðrar lagareglur og málsástæður sem hann byggir aðal- og varakröfu sína á, eigi að leiða til þess að veðréttur í fasteign hans, sem stofnað var til 30. maí 2006, verði felldur úr gildi.
Af framangreindu leiðir að ekki koma frekar til álita kröfur áfrýjanda um viðurkenningu á bótarétti hans vegna saknæmrar háttsemi stefnda við öflun veðs frá honum í tilefni af lántökunni. Á hið sama við um þá skuldskeytingu sem síðar átti sér stað. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Páll Trausti Jörundsson, greiði stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2016.
Þetta mál, sem var tekið til dóms 26. janúar 2016, er höfðað af Páli Trausta Jörundssyni, kt. [...], Seiðakvísl 15, Reykjavík, með stefnu birtri 12. mars 2015, á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins A-deild, kt. [...], Engjateigi 11, Reykjavík, til ógildingar á veðsamningi og til greiðslu málskostnaðar.
Stefnandi krefst þess aðallega að felldur verði úr gildi veðsamningur sem hann gerði við stefnda og veitti veð í fasteign sinni að Seiðakvísl 15, Reykjavík, fastanúmer 204-3446, þegar hann ritaði undir veðskuldabréf nr. 874471, sem Jónína Marteinsdóttir gaf út 30. maí 2006 til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
Hann krefst þess til vara að skuldskeyting sem hann ritaði undir 3. nóvember 2009 verði felld úr gildi.
Hann krefst þess jafnframt að stefnda verði gert að aflýsa veðskuldabréfi nr. 874471 af fasteigninni Seiðakvísl 15, Reykjavík, með fastanúmerið 204-3446.
Stefnandi krefst þess til þrautavara að viðurkenndur verði réttur hans til fullra bóta úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir þegar að hann veitti stefnda veð í fasteign sinni 30. maí 2006 til tryggingar láni nr. 874471.
Til þrautaþrautavara krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til fullra bóta úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem hann varð fyrir við skuldbreytingu láns nr. 874471 3. nóvember 2009.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi krefst að auki málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu svo og virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Málsatvik
Atvik málsins munu þau að sambýlisfólkið Jónína Marteinsdóttir og Vilhjálmur Pálsson töldu að hag sínum kynni að vera betur borgið með því að hætta að leigja og kaupa sér þess í stað íbúð. Vorið 2006 fóru þau á fund foreldra Vilhjálms, þ.e. stefnanda og eiginkonu hans Ingu Svölu Vilhjálmsdóttur. Sambýlingarnir óskuðu eftir því að hjónin veittu þeim veð í fasteign sinni til tryggingar greiðslu láns sem þau hugðust taka. Að sögn stefnanda og Vilhjálms var veitt vilyrði fyrir því ef þau stæðust greiðslumat lánastofnunarinnar.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, sem starfar í A-deild, B-deild og séreignadeild, starfar eftir lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum laganna. Um stefnda gilda einnig lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í 36. gr. segir að stjórn lífeyrissjóðs skuli móta fjárfestingarstefnu, þar á meðal sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja deild í deildaskiptum sjóði, og ávaxta fé sjóðsins með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Lífeyrissjóði er meðal annars heimilt að ávaxta fé sitt með skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 75% af metnu markaðsvirði, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 36. gr. laganna.
Á þessum tíma giltu samþykktir stefnda frá árinu 2005 þar sem meðal annars var kveðið á um ávöxtun fjármuna stefnda, með vísan til VI. kafla og 36. gr. laga nr. 129/1997. Samkvæmt 28. gr. samþykktanna skyldi stjórn stefnda setja reglur um kaup á skuldabréfum sem tryggð eru með veði í fasteignum, þar á meðal reglur um lán til sjóðfélaga.
Á þessum grundvelli voru samþykktar reglur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs Hjúkrunarfræðinga (LH) um svokölluð LSR-lán 24. febrúar 2006. Reglurnar tóku til útlána LSR og LH til sjóðfélaga og annarra einstaklinga sem áttu rétt til að taka lán samkvæmt þeim. Samkvæmt 2. gr. var það meginreglan að einungis þeir sem greiddu eða höfðu greitt iðgjald til LSR og LH ættu rétt á láni, en einnig einstaklingar sem tekið höfðu sjóðfélagalán yfir fyrir skuldaraskipti og eigendur fasteigna sem settar hefðu verið að veði fyrir sjóðfélagaláni.
Hámark láns var samkvæmt 3. gr. ekki bundið tiltekinni fjárhæð, en umsækjandi þurfti hins vegar að uppfylla kröfur um veðtryggingu og greiðslumat, sbr. 4. og 6. gr. reglnanna. Í 4. gr. um veðtryggingu kom fram að lán væri einungis veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði. Fjárhæð láns sem sótt væri um, ásamt lánum sem framar stóðu í veðröð, mátti að hámarki vera 65% af metnu markaðsvirði eða fasteignamati fasteignar og ekki hærri en samtala brunabótamats og lóðarmats. Væri veitt lánsveð, það er ef lántaki ætti ekki fasteignina sem boðin var til tryggingar, þurfti eigandi hinnar veðsettu eignar að staðfesta með undirskrift sinni að honum hefðu verið kynntar upplýsingar sem gefnar væru út af LSR um þýðingu veðsetningarinnar og yfirlýsingu þess efnis að honum hafi verið kynnt mat á greiðslugetu umsækjanda í samræmi við 3. mgr. 6. gr. reglnanna.
Um mat á greiðslugetu var síðan kveðið í 6. gr. reglnanna. Ætti umsækjandi um lán ekki hina veðsettu eign skyldi ávallt liggja fyrir greiðslumat, sbr. 3. mgr. 6. gr. reglnanna. Í 2. mgr. 6. gr. sagði að næmi samanlögð fjárhæð lána umsækjanda hærri fjárhæð en tíu milljónum skyldi liggja fyrir greiðslumat sem unnið væri af sjóðnum eða viðurkenndri fjármálastofnun. Í þeim tilvikum skyldi umsækjandi afhenda með umsókn þau gögn sem LSR teldi nauðsynleg vegna greiðslumats. Af matinu þyrfti að vera unnt að sjá með greinargóðum hætti að umsækjandi væri líklegur til að geta staðið undir greiðslubyrði þess láns sem hann sótti um. Heimilt var að víkja frá kröfu um greiðslumat væri fjárhæð þess láns sem sótt væri um lægri en 1.000.000 kr., enda lægi fyrir skriflegt samþykki eiganda þeirrar eignar sem boðin væri til veðsetningar.
Í 6. gr. áskildi sjóðurinn sér rétt til að láta ávallt meta greiðslugetu lántaka, væri þess talin þörf, sem og til þess að hafna umsókn um lán þegar ekki væri sýnt fram á fullnægjandi greiðslugetu eða ef vafi væri talinn þar á.
Sambýlisfólkið Jónína og Vilhjálmur höfðu augastað á íbúð á Leifsgötu. Á henni hvíldi lán frá Kaupþingi banka hf. sem nam tæplega 15.400.000 kr. Til viðbótar við 4.500.000 kr. lán sem Jónína hugðist taka hjá stefnda tók Vilhjálmur 3.000.000 kr. lán hjá sínum lífeyrissjóði.
Jónína sótti um lánið 3. maí 2006. Stefndi lagði mat á greiðslugetu hennar 10. maí 2006 á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún veitti stefnda. Í greiðslumatinu, undir liðnum „Upplýsingar um nýtt lán“ kom meðal annars fram að fjárhæð láns væri 4.500.000 kr., lánstími 40 ár, vextir 4,15% og að afborgun á mánuði væri 19.504 kr. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur lántaka (eftir skatt) voru sagðar 128.434 kr., en mánaðarleg útgjöld, með tilliti til 5% „varúðarálags“ (6.422 kr.), 107.722 kr. Mismunur tekna og gjalda væri því 20.712 kr., en að frádreginni áætlaðri mánaðarlegri afborgun af hinu nýja láni, 19.504 kr., næmi „afgangur“ 1.208 kr. Auk þessa kom fram að lántaki ætti engar eignir, en á honum hvíldu skuldir, samtals 4.817.234 kr. að meðtalinni fjárhæð hins nýja láns. Á skjalinu kemur og fram að greiðslugeta lántaka sé metin fullnægjandi „samkvæmt forsendum greiðslumatsins“.
Stefnandi áréttar að greiðslumatið hafi ekki tekið mið af því að lánið var tekið til kaupa á fasteign og þetta lán var aðeins brot af þeim lánum sem fyrirhugað var að taka.
Í texta greiðslumatsins eru í sjö liðum sérstakir fyrirvarar og önnur atriði til athugunar fyrir lántaka og eiganda veðsettrar eignar. Þar segir meðal annars:
- Greiðslumat þetta byggir fyrst og fremst á upplýsingum sem um sækjandi hefur veitt LSR og eru á hans ábyrgð.
- LSR hvetur lántaka til að gæta varúðar við lántöku þegar greiðslugeta reiknast ófullnægjandi og veitir ekki lán þegar halli á afgangi er hærri en varúðarálag á mánaðarleg útgjöld.
- Forsendur greiðslumatsins geta ekki verið traustari en þær upplýsingar sem liggja því til grundvallar. Þá er vakin athygli á því að það byggir á upplýsingum úr fortíðinni sem geta vissulega breyst í framtíðinni.
- LSR ber ekki ábyrgð á forsendum greiðslumatsins og hvetur undirritaða til að kynna sér forsendur þess vel.
Undir greiðslumatið rita lántakinn, Jónína Marteinsdóttir, og eigendur þeirrar eignar sem átti að veðsetja, stefnandi og eiginkona hans, til staðfestingar á því að þau „hafi kynnt sér og skilið niðurstöður ofangreinds greiðslumats og samþykkt að það sé fullnægjandi“.
Stefnandi ritaði einnig 4. maí 2006 undir Yfirlýsingu vegna veðleyfis & upplýsingar til eigenda fasteigna sem settar eru til tryggingar LSR láni. Þar var rædd þýðing þess að setja fasteign að veði til tryggingar láni, þar á meðal með svokölluðu lánsveði. Þar kom fram að „[þ]eir einstaklingar sem lána lántaka veð í fasteign sinni þurfa að hafa í huga að þeir eru í raun ábyrgir fyrir greiðslu lánsins ef skuldari stendur ekki í skilum“. Því væri „mjög mikilvægt fyrir þann sem lánar veð til tryggingar láni annars manns að kynna sér greiðslugetu lántakans“. Einnig segir þar:
Sérstök athygli er vakin á því að greiðslumati er einungis ætlað að gefa tiltekna vísbendingu um greiðslugetu lántaka. Greiðslumat er þannig á engan hátt trygging fyrir því að lántaki geti staðið við skuldbindingar sínar. Greiðslumatið byggir að mestu á upplýsingum um tekjur og gjöld lántaka fyrir þann tíma sem greiðslumat er gert. Auk þess er ekki öruggt að allar skuldbindingar lántaka komi fram á greiðslumatinu, en það getur haft áhrif á raunverulega greiðslugetu lántaka.
Að auki var áréttað að væri eigandi eignar sem setja ætti að veði í einhverjum vafa um áhrif veðsetningarinnar, greiðslugetu skuldara eða annað sem máli skipti gæti hann haft samband við starfsmenn stefnda til að fá frekari upplýsingar.
Stefnandi ritaði undir skjalið til staðfestingar á því „að honum er fullkunnugt um þá skuldbindingu og ábyrgð sem felst í þeirri heimild [þ.e. veitingu veðleyfis] og staðfestir að hann hafi kynnt sér yfirlit frá LSR um væntanlega greiðslubyrði af láninu“, en eins því að hann hefði „kynnt sér fyrirliggjandi greiðslumat á getu lántakanda til að rísa undir þeirri greiðslubyrði sem stofnað er til með lántökunni“.
Daginn eftir að skrifað var undir greiðslumatið útbjó starfsmaður LSR, svokallaðar Grunnforsendur láns nr. 874471, 11. maí 2006. Sá munur var á greiðslumati stefnda annars vegar og grunnforsendunum og skuldabréfinu hins vegar að vextir voru tilgreindir 4,15% á fyrstnefnda skjalinu en 4,6% á þeim síðarnefndu. Að öðru leyti komu fram sömu upplýsingar á þessum skjölum. Einnig liggur fyrir óundirrituð endurgreiðsluáætlun lánsins, dags. sama dag (11. maí 2006), sem ber með sér að mánaðarleg afborgun lántaka skyldi vera 20.811 kr., en ekki 19.504 kr. eins og stóð í greiðslumatinu. Ástæða þessa mismunar (1.307 kr.). var fyrrgreindur mismunur á tilgreindum vöxtum.
Stefndi veitti Jónínu Marteinsdóttur 30. maí 2006 verðtryggt lán að fjárhæð 4.500.000 kr. gegn útgáfu veðskuldabréfs. Lánstími var 40 ár og skyldi lánið endurgreiðast með 479 mánaðarlegum jöfnum greiðslum afborgana og vaxta (annuitet). Skuldin bar fasta 4,6% vexti er reiknuðust frá 11. maí 2006. Grunnvísitala var 255,2.
Stefnandi samþykkti að veita veð í fasteign sinni, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar, á 4. veðrétti með uppfærslurétti. Stefnandi ritaði undir veðskuldabréfið til staðfestingar á því að hann væri samþykkur veðsetningunni sem þinglýstur eigandi. Maki hans, Inga I. Svala Vilhjálmsdóttir, staðfesti með undirritun sinni að hún væri samþykk veðsetningunni.
Samkvæmt fram lagðri kaupnótu var lánsfjárhæðin, samtals 4.531.910 kr., lögð á reikning lántaka 1. júní 2006. Lántaki greiddi af skuld samkvæmt veðskuldabréfinu vegna gjalddaga á tímabilinu 11. júlí 2006 til 11. janúar 2009.
Um eða upp úr áramótum 2008 og 2009 slitu Jónína og Vilhjálmur sambúðinni. Samkvæmt framburði stefnanda og Vilhjálms hætti Jónína þá að greiða af láninu og síðasti gjalddagi sem hún greiddi var 11. janúar 2009.
Hún óskaði 2. febrúar 2009 eftir „frystingu“ lánsins þannig að hún þyrfti ekkert að greiða næstkomandi sex mánuði. Samkvæmt fram lögðum gögnum gekk hún þó ekki að þeim greiðsluúrræðum sem stefndi bauð henni.
Jónína afsalaði sinni hlutdeild í íbúðinni á Leifsgötu til Vilhjálms 11. maí 2009 og skyldi hann fá hana afhenta 1. júní það ár. Stefnandi vottar afsalið.
Síðasta greiðsla upphaflegs lántaka barst stefnda 4. júní 2009, vegna gjalddagans 11. janúar 2009.
Vilhjálmur sótti um skuldskeytingu á láninu 8. júlí 2009 þannig að hann tæki við sem skuldari. Reitur á eyðublaðinu fyrir samþykki veðeiganda og maka er ekki útfylltur. Sjóðurinn áritaði á umsóknina að skuldaraskipti væru samþykkt 13. júlí 2009.
Stefndi byggir á því að samkvæmt því sem sé bókað í lánasögu hafi sjóðurinn fallist á að Vilhjálmur yfirtæki lánið gegn því að samið yrði um vanskil. Af því hafi ekki orðið fyrr en með skilmálabreytingu 3. nóvember 2009.
Sjóðurinn sendi Vilhjálmi greiðslutilkynningar fyrir febrúar, mars, apríl, maí, júní og júlí 2009, 14. júlí, daginn eftir að sjóðurinn áritaði samþykki við skuldaraskiptunum.
Stefndi samþykkti skuldbreytingu/skilmálabreytingu á láni nr. 874471 3. nóvember 2009. Í stefnu byggir stefnandi á því að þá hafi sonur stefnanda og fyrrum maki upphaflegs lántaka, Vilhjálmur, tekið yfir skuldina í stað Jónínu Marteinsdóttur. Auk þess voru vanskil lögð við höfuðstól og lánstími styttist. Í skilmálabreytingunni var vísað til fasteignar stefnanda, sem stóð á 4. veðrétti til tryggingar skuldinni. Undir skilmálabreytinguna rituðu meðal annars stefnandi til staðfestingar á að hann væri samþykkur veðsetningunni sem þinglýstur eigandi. Þá staðfesti Inga I. Svala Vilhjálmsdóttir með undirritun sinni að hún væri samþykk veðsetningunni, sem maki þinglýsts eiganda, þ.e. stefnanda.
Hvorki var gert greiðslumat vegna skuldbreytingarinnar né gerður ábyrgðarsamningur skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.
Tæpum fimm árum síðar, í byrjun október 2014, ritaði lögmaður stefnanda stefnda og óskaði skýringa á því mati sem stefndi vann á greiðslugetu lántakans Jónínu Marteinsdóttur. Hann spurði einnig hvort stefnda hafi verið ljóst í hvaða tilgangi hún tók lánið. Þá var óskað upplýsinga um hvort greiðslugeta hins nýja skuldara, Vilhjálms Pálssonar, hefði verið athuguð.
Í tölvupósti starfsmanns stefnda 24. nóvember 2014 fékk lögmaðurinn meðal annars þau svör að ástæða þess að mánaðarleg afborgun var sögð lægri á greiðslumatinu en í skjalinu Grunnforsendur láns væri sú að röng vaxtaprósenta hefði verið lögð til grundvallar í greiðslumatinu, þ.e. 4,15% í stað 4,6%. Einnig að stefnda hafi ekki verið ljóst í hvaða tilgangi lánið var tekið enda ekki farið fram á þær upplýsingar.
Stefnda barst bréf lögmanns stefnanda 3. desember 2014 þar sem þess var óskað að stefndi aflétti veðskuldabréfinu af fasteign stefnanda. Því hafnaði stefndi með bréfi 11. febrúar 2015. Málið var höfðað með birtingu stefnu 12. mars 2015.
Nýi lántakinn, sonur stefnanda, lagði 13. mars 2015 fram beiðni um gjaldþrotaskipti á búi sínu. Það var tekið til skipta 1. apríl sama ár og skiptum lauk 23. júní 2015 en engar eignir fundust í búinu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að veðsamningur sem hann gerði við stefnda, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þar sem hann veitti sjóðnum veð í fasteign sinni 30. maí 2006 til tryggingar láni Jónínu Marteinsdóttur hjá LSR sé ógildur. Hann krefst ógildingar veðsetningarinnar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga því telja verði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri veðsetninguna fyrir sig. Veðsetningin grundvallist á mistökum stefnda þegar hann mat greiðslugetu lántakans, Jónínu, broti stefnda gegn lánareglum sínum og broti stefnda gegn lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þegar skuldskeyting fór fram 3. nóvember 2009.
Mistök stefnda við gerð greiðslumats
Stefnandi vísar í fyrsta lagi til þess að í greiðslumatinu sem stefndi útbjó 10. maí 2006 fyrir lántakann, Jónínu Marteinsdóttur, og fékk stefnanda til að rita undir sem ábyrgðarmann, sé tekið fram á afar áberandi hátt að greiðslugeta sé fullnægjandi enda orðið „fullnægjandi“ ritað með hástöfum. Afgangur umsækjanda á mánuði hafi verið talinn 1.208 kr. og það miðað við að afborgun af hinu nýja láni væri 19.504 kr. á mánuði. Í greiðslumatinu séu vextir tilteknir 4,15%.
Í skjalinu Grunnforsendur láns, dagsettu 11. maí 2006, segi hins vegar að vextir séu 4,6%. Hugsanlega hafi það haft áhrif á það að í endurgreiðsluáætluninni, sem jafnframt sé dagsett 11. maí 2006, segir að afborganir lánsins frá stefnda séu 20.811 kr. en ekki 19.504 kr. Að minnsta kosti hafi verið ljóst frá 27. apríl 2006 að útlán stefnda bæru 4,6% en ekki 4,15% vexti. Starfsmaður stefnda hafi í raun viðurkennt að ástæða þessa munar væri að það var „röng vaxtaprósenta sett í greiðslumatið, þ.e. 4,15% í stað 4,6%.“
Hefði stefndi tilgreint réttar afborganir í greiðslumatinu frá 10. maí 2006 hefði það ekki verið jákvætt eða fullnægjandi, heldur hefði það verið neikvætt. Hefðu komið fram þær réttu upplýsingar að afborganir af láninu væru raunverulega 20.811 kr. en ekki 19.504 kr. á mánuði hefði greiðslumatið verið neikvætt um 99 kr. á mánuði en ekki jákvætt. Stefnandi hefði ekki veitt veð í fasteign sinni hefði greiðslugeta lántaka verið neikvæð. Það hafi stefnda mátt vera ljóst.
Stefnandi byggir á því að mistök stefnda, sem leiddu til þess að greiðslumat var jákvætt þegar það átti í raun að vera neikvætt, valdi því að telja verði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnda að bera fyrir sig veðsetninguna skv. 36. gr. laga nr. 7/1936. Veðsetningin grundvallist á röngum upplýsingum frá stefnda en veðið hefði ekki verið veitt hefðu þær verið réttar. Það að greiðslumat var ranglega afgreitt sem „fullnægjandi“ hafi verið veruleg ákvörðunarástæða fyrir stefnanda. Það hafi stefnda mátti vera ljóst.
Brot gegn lánareglum stefnda
Stefnandi vísar til þess að í 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, segi að stjórn lífeyrissjóðs skuli móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma. Stjórn lífeyrissjóðs sé heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja deild í deildaskiptum sjóði. Jafnframt sé lífeyrissjóði heimilt að ávaxta fé sitt á nánar tilgreindan hátt. Í 3. tölulið 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997 segir að lífeyrissjóði sé heimilt að ávaxta fé sitt í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 75% af metnu markaðsvirði.
Samkvæmt 28. gr. í samþykktum stefnda frá árinu 2005 sem voru í gildi 30. maí 2006 skyldi stjórn sjóðsins setja reglur um kaup á skuldabréfum sem tryggð eru með veði í fasteignum, þar á meðal reglur um lán til sjóðfélaga.
Þegar það lán sem veð stefnanda átti að tryggja var tekið giltu lánareglur settar 24. febrúar 2006. Samkvæmt 3. gr. þeirra var hámark sjóðfélagaláns ekki bundið tiltekinni fjárhæð. Umsækjandi þyrfti hins vegar að uppfylla kröfur um veðtryggingu, sbr. 4. gr., og greiðslumat, sbr. 6. gr.
Samkvæmt 4. gr. reglnanna var sjóðfélagalán einungis veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði. Í lokamálsgrein 4. gr. um lánsveð stóð að væri lántakandi ekki eigandi fasteignar sem boðin væri til tryggingar, þyrfti eigandi hinnar veðsettu eignar að staðfesta með undirskrift sinni að honum hafi verið kynntar upplýsingar sem gefnar væru út af LSR/LH um þýðingu veðsetningarinnar og yfirlýsingu þess efnis að honum hafi verið kynnt mat á greiðslugetu umsækjanda í samræmi við 3. mgr. 6. gr.
Í ákvæði 6. gr. reglnanna um mat á greiðslugetu sagði í 2. mgr. að væri samanlögð fjárhæð lána umsækjanda hærri en tíu milljónir króna skyldi liggja fyrir greiðslumat sem unnið er af sjóðunum eða viðurkenndri fjármálastofnun. Í þeim tilvikum skuli umsækjandi skila með umsókn þeim gögnum sem LSR og LH telja nauðsynleg vegna greiðslumats. Í 3. mgr. 6. gr. kom fram að „Þegar umsækjandi um lán er ekki eigandi hinnar veðsettu eignar skal liggja fyrir greiðslumat, sbr. 2. mgr. Af matinu þarf að vera unnt að sjá með greinargóðum hætti að umsækjandi sé líklegur til að geta staðið undir greiðslubyrði þess láns sem hann sækir um.“ Þá sagði í 5. mgr. 6. gr. að stefnda væri heimilt að hafna umsókn um lán þegar ekki væri sýnt fram á „fullnægjandi greiðslugetu“ eða það væri mat stefnda að „vafi leiki á um greiðslugetu umsækjanda“.
Stefnandi byggir á því að það greiðslumat sem stefndi lagði til grundvallar þegar hann veitti Jónínu Marteinsdóttur lán hafi ekki fullnægt framangreindum lánareglum stefnda. Fyrir það fyrsta hafi ekki verið unnt að sjá með greinargóðum hætti að umsækjandi væri líklegur til að geta staðið undir greiðslubyrði lánsins. Samkvæmt þessu orðalagi nægi ekki að greiðslumat sé jákvætt heldur þurfi umsækjandi að vera „líklegur“ til að geta staðið undir því og það þurfi að sjást með „greinargóðum hætti“. Greiðslumat sem sýni 1.208 kr. í afgang geti ekki talist fullnægja þessari reglu enda megi lítið koma upp á til að umsækjandi geti ekki staðið við skuldbindingar sínar og þar af leiðandi geti hann aldrei talist „líklegur“ til að geta staðið undir greiðslubyrðinni.
Stefnandi bendir á að þessar reglur eigi sér samsvörun í Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem fjármálafyrirtæki samþykktu 1. nóvember 2001. Það hljóti að vera tilgangur lánareglna stefnda að tryggja hagsmuni ábyrgðarmanns, eins og markmið Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Að öðrum kosti væri varla krafist mats á greiðslugetu án veðtryggingar þegar lán væri hærra en 10.000.000 kr. (2. mgr. 6. gr. lánareglna) en skilyrðislaus skylda sé til greiðslumats veiti þriðji maður veðleyfi í eign sinni (3. mgr. 6. gr. lánareglna).
Stefnandi byggir jafnframt á því að með því að starfsmaður stefnda hafi gert mistök þegar hann vann mat á greiðslugetu lántakans, sem hafi valdið því að greiðslumatið varð „fullnægjandi“ en ekki ófullnægjandi og neikvætt um a.m.k. 99 kr. á mánuði, hafi starfsmaðurinn brotið gegn framangreindum lánareglum stefnda. Hefði stefndi staðið rétt að verki hefði greiðslumatið orðið neikvætt. Slíkt greiðslumat geti aldrei talist uppfylla það skilyrði 3. mgr. 6. gr. reglnanna að umsækjandi sé „líklegur“ til að geta staðið undir greiðslubyrði lánsins.
Á þessum tíma hafi stefnda meðal annars borið að starfa í samræmi við lög nr. 57/2005 sem þá hétu lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Samkvæmt 5. gr. laganna hafi fyrirtækjum verið óheimilt að hafast nokkuð það að sem bryti í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir væru tíðkaðir eða gera eitthvað sem væri óhæfilegt gagnvart hagsmunum neytenda.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn þessu ákvæði með því að gera greiðslumatið ranglega jákvætt eða fullnægjandi þegar það hefði í rauninni átt að vera neikvætt eða ófullnægjandi. Það sé jafnframt brot gegn þessu ákvæði að fara ekki að eigin lánareglum, sem gerðu það að skilyrði að lántaki sem fengi veð að láni þyrfti að vera líklegur til að geta staðið undir greiðslubyrði lánsins. Hann hafi ekki getað verið talinn líklegur til þess með afgang sem nam 1.208 kr. á mánuði, hvað þá ef rétt hefði verið staðið að verki og greint frá því að afgangurinn væri enginn heldur vantaði 99 kr. upp á að hann gæti greitt af láninu.
Stefnandi byggir á því að með framangreindri háttsemi og brotum stefnda gegn eigin lánareglum verði að telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri veðsetninguna fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Brot stefnda gegn ákvæði 5. gr. laga nr. 57/2005 eigi að leiða til sömu niðurstöðu, þótt aðeins sé litið til þess.
Það sé ósanngjarnt að stefndi geti byggt rétt á veðsetningunni þegar hann brjóti gegn eigin lánareglum sem séu settar til þess að verja veðsala, ábyrgðarmann. Það sé jafnframt ósanngjarnt þegar litið sé til þess að stefnda hafi orðið á mistök við gerð greiðslumats, sem valdi því að stefnandi ákveði að veita veðið sem hann hefði að öðrum kosti ekki gert. Þetta atvik sé á ábyrgð stefnda en ekki stefnanda. Stefnandi sé einstaklingur en stefndi stór lífeyrissjóður sem starfi á íslenskum lánamarkaði og hjá honum starfi sérfræðingar á þessu sviði. Telja verði uppfyllt skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 til þess að fallast á kröfu stefnanda um ógildingu veðsetningarinnar.
Þessu til viðbótar hafi legið fyrir að lánið hafi væri tekið vegna kaupa á fasteign og lánið væri aðeins brot af þeim lánum sem lántaki hugðist taka. Stefndi hafi vitað þetta og borið að taka mið af því við gerð greiðslumats. Þar eð greiðslumatið hafi einungis sýnt 1.208 kr. afgang á mánuði hafi stefndi mátt gera sér grein fyrir því að ekki væri líklegt að lántaki gæti staðið undir greiðslubyrðinni. Vegna lánanna sem umsækjandi hafi átt eftir að taka hafi stefndi mátt gera sér grein fyrir því að mat á greiðslugetu lántakans yrði verulega neikvætt væri tekið tillit til þeirra lána. Það eitt og sér, að taka ekki tillit til þeirra lána sem átti eftir að taka, feli í sér brot gegn lánareglum stefnda og 5. gr. laga nr. 57/2005 og það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi byggi rétt á veðsetningunni gagnvart stefnanda vegna þessa, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Brostnar forsendur
Stefnandi byggir kröfu sína jafnframt á því að veðsamningurinn sem hann gerði við stefnda sé ógildanlegur á grundvelli meginreglna samningaréttar um brostnar og rangar forsendur. Samningurinn sé ógildanlegur og óskuldbindandi fyrir stefnanda þar eð ákvörðunarástæða hans við veðsetninguna hafi verið að greiðslugeta lántaka væri jákvæð.
Stefnanda hafi verið talin trú um að lántaki stæðist greiðslumat með því skjali sem hann var beðinn að undirrita þar sem fram kom það mat stefnda að greiðslugeta lántakans væri fullnægjandi.
Stefnandi hafi ekki viljað ábyrgjast skuld sem gæti fallið á hann og hefði neitað því að veita samþykki sitt hefði hann vitað að ólíklegt væri að lántaki gæti staðið í skilum með afborganir lána sinna því mat á greiðslugetu hans væri neikvætt.
Þetta sé veruleg ákvörðunarástæða sem stefnda hafi mátt vera ljós.
Brot gegn lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn við skuldskeytingu
Eins og rakið var í lýsingu málavaxta hafi nýr skuldari, Vilhjálmur Pálsson, tekið við láni nr. 874471 af Jónínu Marteinsdóttur, 3. nóvember 2009.
Hálfu ári áður, 4. apríl 2009, tóku gildi lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Markmið þeirra, samkvæmt 1. gr., sé að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar.
Samkvæmt 2. gr. laganna gildi þau „þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka“. Í 4. gr. sé mælt svo fyrir að lánveitandi skuli meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn ákvæði 4. gr. laga nr. 32/2009 með því að hann hafi látið undir höfuð leggjast að meta greiðslugetu lántakans Vilhjálms þegar skuldaraskiptin urðu. Lögin gildi fullum fetum þótt nýr skuldari hafi tekið við láninu enda gildi lögin þegar ábyrgðarmaður gangist í ábyrgð til tryggingar efndum „lántaka“. Þetta þýði að komi nýr skuldari í stað eldri þurfi að fylgja reglu 4. gr. laganna og kanna greiðslugetu hans. Þetta sé veigamikil skylda stefnda enda geti markmið laganna ekki náðst láti lánveitandi undir höfuð leggjast að uppfylla hana.
Stefnandi byggir jafnframt á því að í 5. og 6. gr. laga nr. 32/2009 sé mælt fyrir um skyldu lánveitanda til að gera sérstakan ábyrgðarsamning þar sem koma skuli fram nánar tiltekin atriði. Slíkur samningur hafi ekki verið gerður og þar af leiðandi hafi stefndi jafnframt brotið gegn þessum skyldum sínum.
Þessu til viðbótar hafi stefndi brotið gegn 7. gr. því hann hafi ekki sent stefnanda neinar tilkynningar um vanskil. Í skuldskeytingunni standi að lánið sé í vanskilum en stefndi hafi aldrei tilkynnt stefnanda það. Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 segi að sé vanræksla lánveitanda veruleg skuli ábyrgð falla niður.
Þegar litið sé til þessara brota stefnda gegn ákvæðum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn verði að telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri fyrir sig veðsetninguna, skv. 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefnandi byggir á því að það sé ósanngjarnt af stefnda og andstætt góðri viðskiptavenju að byggja á veðsetningunni þegar hvert og eitt brot stefnda gegn lögum nr. 32/2009 sé skoðað en einnig þegar öll þau brot stefnda gegn lögunum séu virt í heild sinni.
Brot gegn lögum nr. 121/1994 um neytendalán
Stefnandi byggir einnig á því að samkvæmt meginreglum um ábyrgðir og veð í þágu þriðja manns hafi gildi sjálfrar skuldarinnar sömu áhrif á ábyrgðarmann og veðsala. Samkvæmt þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán skyldi lánssamningur gerður skriflega. Samkvæmt 6. gr. laganna skyldu tilteknar upplýsingar afhentar neytanda skriflega. Ekki verði séð að lánveitandi hafi fullnægt skyldum sínum í þessum efnum. Í þeim gögnum sem hann afhenti stefnanda komi hvorki fram hver sé heildarlántökukostnaður í krónum samkvæmt 4. tölulið 6. gr. laga nr. 121/1994, sbr. 7. gr. sömu laga, né árleg hlutfallstala kostnaðar samkvæmt 5. tölulið 6. gr., sbr. 10.-12. gr. þeirra. Hvorki komi fram sú heildarupphæð sem átti að greiða, þ.e. samtala höfuðstóls, vaxta og lánskostnaðar samkvæmt 6. tölulið 6. gr., né fjárhæð einstakra greiðslna og gjalddaga samkvæmt 7. tölulið 6. gr. Ekkert komi fram um gildistíma lánssamnings og skilyrði uppsagnar hans samkvæmt 8. tölulið 6. gr. laganna. Stefnanda virðist stefndi hafa brotið gróflega gegn þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Sú vanræksla eigi sjálfstætt að leiða til ógildingar lánsins skv. 36. gr. laga nr. 7/1936 og þar með veðsetning stefnenda til tryggingar greiðslu lánsins.
Brot gegn tillitsskyldu og trúnaðarskyldu við samningsgerð
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni þegar hann gerði samninginn við stefnanda. Í henni felist skylda samningsaðila til að láta ekki eigin hagsmuni ráða einhliða athöfnum sínum eða athafnaleysi í samningssambandinu, heldur verði þeir, innan ákveðinna marka, að taka tillit til hagsmuna viðsemjandans. Reglunni sé ætlað að sporna við misnotkun á aðstöðu.
Stefndi hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni við stefnanda þegar hann lagði til grundvallar greiðslumat sem ranglega sýndi greiðslugetu lántaka þegar það hefði átt að sýna að lántaki hefði ekki fullnægjandi greiðslugetu, eins rakið hefur verið. Með því að virða þessa skyldu sína að vettugi hafi stefndi ekki tekið tillit til hagsmuna stefnanda sem voru þeir að hann gæti byggt veðsetninguna á réttum upplýsingum um greiðslugetu lántakans svo ekki yrði gengið að fasteign hans. Þá hafi stefndi jafnframt brotið gegn trúnaðarskyldunni með því að fara gegn eigin lánareglum og veita lánið án þess að skilyrði væru til þess og einnig að upplýsa stefnanda ekki um það.
Samningssamband stefnanda og stefnda sé til langs tíma og því hafi trúnaðarskylda stefnda verið enn ríkari. Auk þess sé stefnandi neytandi og einstaklingur en stefndi stór lánastofnun sem geri skyldu stefnda enn ríkari.
Þar eð stefndi hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnanda verði að telja ósanngjarnt af honum og andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðið fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Einnig er byggt á því að brot stefnda gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnanda hafi falið í sér saknæma háttsemi og hafi stofnað til bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda. Taka beri mið af því þegar afstaða sé tekin til þrautavara og þrautaþrautavarakröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu.
Þrautavarakrafa um viðurkenningu á bótaskyldu
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi valdið sér tjóni á saknæman og ólögmætan hátt. Saknæm háttsemi starfsmanns stefnda sé tvenns konar.
Í fyrsta lagi hafi það verið saknæmt og ólögmætt að gera greiðslumat ranglega með þeirri afleiðingu að það var jákvætt en ekki neikvætt.
Í öðru lagi hafi það verið saknæmt og ólögmætt þegar stefndi braut gegn eigin lánareglum sem kváðu skýrt á um að greiðslumat, sem skylt var að vinna, sýndi á greinargóðan hátt að umsækjandi væri líklegur til að geta staðið undir greiðslubyrði lánsins. Stefndi hafi brotið gegn þessu ákvæði lánareglnanna þar eð hvorki jákvætt greiðslumat upp á 1.208 kr. né neikvætt um 99 kr. á mánuði hafi fullnægt þessum áskilnaði. Mat á greiðslugetu upphaflegs lántaka hafi ekki verið þannig að hægt væri að sjá á greinargóðan hátt að hann væri líklegur til að geta staðið undir því.
Stefnandi byggi á því að þessi atriði fullnægi sakarreglu skaðabótaréttar. Tjón hans stafi af því að bú núverandi skuldara, Vilhjálms, hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 1. apríl 2015. Hann muni því ekki geta greitt lánið og eftirstöðvar lánsins verði því fyrr eða síðar sóttar til stefnanda.
Réttarsamband málsaðila byggist á því að stefndi hafi veitt stefnanda sérfræðiþjónustu. Vegna þeirrar sérfræðiábyrgðar sem hvíli á stefnda hafi stefnandi mátt gera ríkar kröfur til hans. Sérstök beiting sakarreglunnar á sviði sérfræðiábyrgðar felist í fyrsta lagi í því að ríkari kröfur séu gerðar til hins hlutlæga þáttar, þ.e. ríkari kröfur um tilteknar athafnir og meiri aðgæslu eða vandvirkni. Í öðru lagi séu gerðar ríkari huglægar kröfur til tjónvalds. Sé hann sérfróður og vel menntaður eigi hann frekar að geta gert sér grein fyrir hættum og líkum á tjóni. Í þriðja lagi sé hægt að beita sönnunarreglum á sérstakan hátt, þ.e. að hliðrað er til um sönnun, tjónþola í vil, sem leiði til strangari ábyrgðar en almennar reglur hefðu í för með sér.
Stefndi hafi brugðist þeirri skyldu sinni að vinna greiðslumat á réttan hátt og hafi því lagt til grundvallar greiðslumat sem var andstætt lánareglum stefnda. Af þessum sökum hafi áhætta stefnanda orðið til muna meiri en ella og hafi þetta valdið því að hann setti fasteign sína að veði. Að baki þessu verklagi starfsmanna stefnda sé ásetningur eða í það minnsta stórkostlegt gáleysi.
Stefnandi byggir einnig á því að skuldskeytingin 3. nóvember 2009 verði rakin beint til hins gallaða greiðslumats sem byggi á saknæmri háttsemi. Þá hafi legið fyrir að upphaflegur lántaki, Jónína, gat ekki greitt lengur af láninu og því hafi stefnandi neyðst til að samþykkja skuldskeytinguna. Hefði atburðarásin ekki hafist með saknæmu verklagi starfsmanna stefnda við greiðslumatið hefði legið fyrir strax í upphafi að Jónína réði ekki við að taka hið umdeilda lán. Í raun hafi aðeins verið tímaspursmál hvenær hún hætti að geta greitt af því. Skuldskeyting hafi því verið skárri kostur en sá að stefndi gengi að stefnanda því Jónína, upphaflegur skuldari, var hætt að greiða af láninu og ætlaði sér ekki að greiða frekar af því. Þess vegna séu orsakatengsl á milli hinnar upphaflegu saknæmu háttsemi og skuldskeytingarinnar 3. nóvember 2009. Með því að samþykkja skuldskeytinguna hafi stefnandi í raun verið að reyna að takmarka tjón sitt. Sú tilraun hafi hins vegar ekki borið langvarandi árangur vegna gjaldþrotaskipta á búi hins nýja lántaka, Vilhjálms.
Tjón stefnanda sé bein afleiðing af ranglega unnu mati á greiðslugetu upphaflegs lántaka. Stefnandi hefði aldrei veitt veðleyfi í fasteign sinni hefði greiðslumatið verið rétt. Tjónið sé sú fjárhæð sem stefnandi þurfi endanlega að greiða verði ekki fallist á kröfu hans um ógildingu. Fjárhæð tjónsins liggi ekki fyrir og því krefjist stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu.
Þrautaþrautavarakrafa um viðurkenningu á bótaskyldu
Stefnandi byggir á því að brot stefnda gegn lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þegar skuldskeytingin fór fram, 3. nóvember 2009, hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Stefndi hafi með athafnaleysi sínu brugðist lögboðnum skyldum sínum til að kanna greiðslugetu hins nýja skuldara, Vilhjálms, svo og að gera sérstakan ábyrgðarsamning við stefnanda þar sem hann yrði upplýstur um þau atriði sem eru upp talin í 5. og 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.
Byggt er á því að þessi atriði fullnægi sakarreglu skaðabótaréttar. Tjón stefnanda felist í því að bú núverandi skuldara hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Eftirstöðvar lánsins verði sóttar til stefnanda fyrr eða síðar.
Það hafi verið saknæmt og ólögmætt af starfsmönnum stefnda að kanna ekki greiðslugetu hins nýja skuldara, Vilhjálms, og veita stefnanda ekki lögbundnar upplýsingar skv. 5. og 6. gr. laga nr. 32/2009. Því eigi stefnandi rétt á hendur stefnda á grundvelli almennrar sakarreglu skaðabótaréttar. Tjónið sem stefnandi verði fyrir vegna þessarar skuldskeytingar sé sú fjárhæð sem hann þurfi endanlega að greiða verði ekki fallist á kröfu hans um ógildingu veðsamningsins. Þar eða fjárhæð tjóns stefnanda liggi ekki endanlega fyrir krefjist hann viðurkenningar á bótaskyldu.
Niðurlag um ógildi veðsetningar
Stefnandi byggir á því að þegar allt framangreint sé virt í heild sinni verði að telja það ósanngjarnt af stefnda og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig þann veðrétt sem hann fékk í eign stefnanda, hvort heldur með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 eða ólögfestra reglna samningaréttar um brostnar og rangar forsendur.
Stefnda hafi samkvæmt eigin lánareglum verið skylt að kanna hvort greiðslugeta umsækjanda væri fullnægjandi. Matið hafi þurft að sýna á greinargóðan hátt að umsækjandi væri líklegur til að standa undir greiðslubyrði lánsins. Stefndi hafi ekki virt þessar skyldur heldur kynnt stefnanda niðurstöðu greiðslumats sem var ranglega „fullnægjandi“. Með þessu hafi starfsmaður stefnda einnig brotið gegn 5. gr. laga nr. 57/2005.
Á það verði jafnframt að líta að veðsetning stefnanda sé stefnda til hagsbóta og geri það lán sem hann veitti miklum mun tryggara fyrir stefnda. Í raun megi halda því fram að stefndi hefði aldrei veitt lánið hefði stefnandi ekki veitt honum veð í fasteign sinni til þess að tryggja greiðslu þess. Auk þess sé stefndi sérfræðingur á þessu sviði sem samdi skilmálana einhliða en stefnandi neytandi, einstaklingur sem hafi enga sérstaka þekkingu á lánamálum.
Stefnandi byggir kröfu sína á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sér í lagi 36. gr. þeirra laga. Hann byggir einnig á lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sér í lagi 36. gr. þeirra laga. Hann vísar til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum, sér í lagi 5. gr., laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, einkum 4., 5., og 6. gr., þágildandi laga nr. 121/1994, almennrar sakarreglu skaðabótarréttar, meginreglu samningaréttar um tillitsskyldu og trúnaðarskyldu við samningsgerð og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sér í lagi 2. mgr. 25. gr.
Vegna viðurkenningarkröfu sinnar vísar stefnandi til almennrar sakarreglu skaðabótaréttar, meginreglna skaðabótaréttar um bótaábyrgð og sök og meginreglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Vegna viðurkenningarkröfu í þrautavarakröfu og þrautaþrautavarakröfu vísar hann til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, auk d-liðar 80 gr. sömu laga. Kröfu um málskostnað byggir hann á 130. gr., sbr. 129. gr., sömu laga. Val á varnarþingi styðst við 33. gr. laganna. Að auki vísar hann til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og krefst sýknu af dómkröfum hans.
Stefndi byggir sérstaklega á því að stefnandi hafi glatað öllum rétti til að hafa uppi kröfur á hendur sér sakir tómlætis. Þau atvik sem stefnandi vill að leiði til ógildingar á veðsetningu sinni, eða til viðurkenningar á bótarétti sínum, hafi átt sér stað í maí 2006, eða tæplega níu árum áður en málið var höfðað með birtingu stefnu 12. mars 2015. Sé einungis horft til skilmálabreytingar veðskuldabréfsins 3. nóvember 2009 hafi, þegar málið var höfðað, verið liðin rúmlega fimm ár. Að auki hafi stefnandi fyrst gert kröfu um ógildingu veðsetningarinnar í desember 2014. Eins og aðstæðum sé háttað hafi stefnanda á öllum stigum mátt vera fyllilega kunnugt um þau atvik sem hann telur eiga að leiða til þess að fallist verði á kröfur hans í málinu, sem og um tómlætisverkanir og réttaráhrif þeirra. Stefndi hafi því mátt líta svo á að stefnandi myndi ekki hafa uppi kröfur sínar að svo löngum tíma liðnum. Jafnframt torveldi tómlæti stefnanda alla sönnun í málinu, enda atvik löngu liðin. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda.
Stefndi byggir að öðru leyti á því að veðsetning stefnanda sé gild og að undirbúningur og framkvæmd hennar, þar á meðal lánveitingar, greiðslumat stefnda og síðari skilmálabreytingar, hafi verið í samræmi við gildandi reglur þar að lútandi og ekki þannig að varði ógildingu eða bótaskyldu stefnda. Öllum kröfum og málsástæðum stefnanda í aðra veru er mótmælt.
Um meint mistök stefnda við gerð greiðslumats
Stefndi mótmælir því, sem stefnandi haldi fram, að stefndi hafi gert mistök þegar hann lagði mat á greiðslugetu lántaka „sem leiddu til þess að greiðslumat var jákvætt þegar það átti í raun að vera neikvætt“ og að af því leiði „að telja verði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnda að bera fyrir sig veðsetninguna“.
Stefndi mótmælir því jafnframt að veðsetningin sé „tilkomin vegna rangra upplýsinga af hálfu stefnda“, að stefnandi hefði ekki veitt veð í fasteign sinni hefði greiðslugeta verið neikvæð og að stefnda hafi mátt vera slíkt ljóst. Að mati stefnda getur það „að greiðslumat var ranglega tiltekið „fullnægjandi“ ekki hafa verið ákvörðunarástæða stefnanda og því síður hafi stefnda mátt vera það ljóst.
Stefnandi hafi undirritað umrætt greiðslumat 10. maí 2006 meðal annars til staðfestingar á því að hann „hafi kynnt sér og skilið niðurstöður ... greiðslumats og samþykkt að það sé fullnægjandi“. Ljóst sé að í greiðslumatinu var miðað við að lánið bæri 4,15% vexti, en ekki 4,6% svo sem raunin hins vegar varð. Af því leiddi að áætlaðar mánaðarlegar afborganir voru tilgreindar 19.504 kr. í greiðslumatinu, eða nokkru lægri en áætlaðar mánaðarlegar afborganir samkvæmt endurgreiðsluáætlun, dags. 11. maí 2006, sem afhent var lántaka. Í endurgreiðsluáætlun hafi einnig verið miðað við að „afgangur“ samkvæmt greiðslumatinu, þ.e. ráðstöfunartekjur lántaka að frádregnum útgjöldum hans og áætluðum afborgunum hins nýja láns, væri 1.208 kr.
Stefndi bendir á að greiðslumat geti ekki skoðast sem annað en vísbending um greiðslugetu lántaka en aldrei sem trygging fyrir því að lántaki geti staðið við skuldbindingar sínar. Mánaðarleg afborgun samkvæmt greiðslumati sé einungis áætluð, eins og skýrt sé tekið fram í greiðslumatinu sjálfu. Auk þess sé mismunurinn á áætluðum mánaðarlegum afborgunum samkvæmt greiðslumatinu (19.504 kr.) og áætluðum mánaðarlegum afborgunum samkvæmt endurgreiðsluáætluninni (20.811 kr.) óverulegur, eða einungis 1.307 kr. Raunin hafi einnig orðið sú að raunverulegar afborganir lántaka af umræddu láni urðu ekki að öllu leyti í samræmi við áætlun um mánaðarlega afborgun í greiðslumatinu og ekki að öllu leyti í samræmi við áætlun um endurgreiðslu svo sem ráðgera mátti. Hvorki lántaki né veðsali geti þannig reitt sig að öllu leyti á að raunverulegar afborganir verði þær sömu og áætlaðar afborganir samkvæmt greiðslumati eða öðrum gögnum, sem útbúin eru í aðdraganda lánveitingar.
Einnig verði að horfa til þess að „afgangur“ samkvæmt greiðslumati sé ekki einn og sér grundvöllur þess hvort greiðslugeta lántaka sé metin fullnægjandi, eins og stefnandi virðist telja. Í greiðslumatinu hafi enda verið gert ráð fyrir svokölluðu varúðarálagi (5%) að fjárhæð 6.422 kr., en að baki þeirri fjárhæð hafi ekki legið raunveruleg útgjöld lántaka eða áætlun stefnda um þau. Þrátt fyrir að „afgangur“ sé þannig sagður 1.208 kr. (20.712 – 19.504 kr.) í greiðslumatinu sé hann í reynd hærri, eða 7.630 kr., sé ekki tekið tillit til þessa varúðarálags (27.134 – 19.504 kr.). Að sama skapi hefði verið „afgangur“ samkvæmt greiðslumatinu þótt miðað hefði verið við að áætlaðar mánaðarlegar afborganir væru 20.811 kr., en ekki 19.504 kr., eða 6.323 kr. (27.134 – 20.811 kr.). Greiðslugeta lántaka í umræddu tilviki hefði því væntanlega verið metin „fullnægjandi samkvæmt forsendum greiðslumatsins“, hvort sem miðað hefði verið við 4,15% vexti eða 4,6%, og hvort sem mánaðarlegar afborganir hefðu verið áætlaðar 19.504 kr. eða 20.811 kr. Þetta hafi raunar komið fram í greiðslumatinu þar sem tekið var sérstaklega fram að LSR, þ.e. stefndi, „veitir ekki lán þegar halli á afgangi er hærri en varúðarálag á mánaðarleg útgjöld“. Stefndi áskildi sér hins vegar ávallt rétt til „að hafna umsókn um lán þegar ekki er sýnt fram á fullnægjandi greiðslugetu“ eða ef það væri mat stefnda „að vafi leiki á um greiðslugetu umsækjanda“, sbr. 6. gr. reglna stefnda sem voru samþykktar 24. febrúar 2006.
Til viðbótar, og einnig óháð framangreindu, er að mati stefnda ekki unnt að líta svo á að það eitt að „afgangur“ samkvæmt greiðslumatinu hafi verið tiltekinn jákvæður um 1.208 kr. hafi verið „veruleg ákvörðunarástæða“ stefnanda og því síður að stefnda hafi mátt vera slíkt ljóst. Að mati stefnda verður að ganga út frá því, að teknu tilliti til tengsla stefnanda við upphaflegan lántaka og maka hans, að stefnandi hefði allt eins staðfest greiðslumatið og veitt heimild til veðsetningar þótt „afgangur“ samkvæmt greiðslumati hefði verið sá sem hann vísar til.
Um meint brot stefnda gegn eigin lánareglum
Stefndi mótmælir því einnig að það greiðslumat sem hann lagði til grundvallar láninu til Jónínu Marteinsdóttur hafi ekki fullnægt lánareglum stefnda svo og að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 57/2005 sem þá hétu lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Stefndi mótmælir því sérstaklega að hann hafi á einhvern hátt ranglega útbúið greiðslumatið jákvætt eða fullnægjandi eða á einhvern máta beitt óréttmætum viðskiptaháttum, þar á meðal gert nokkuð það sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eða eitthvað sem er óhæfilegt gagnvart hagsmunum neytenda.
Fyrir það fyrsta hafi komið fram í greiðslumatinu „með greinargóðum hætti“ allar þær upplýsingar sem lánareglur stefnda áskildu, þar á meðal hvort umsækjandi væri „líklegur til að geta staðið undir greiðslubyrði þess láns sem hann sækir um“ enda var greiðslugeta hans metin fullnægjandi „samkvæmt forsendum greiðslumatsins“. Stefndi hafnar því sérstaklega að „[g]reiðslumat sem er jákvætt um 1.208 kr. geti ekki talist fullnægja þessari reglu“ eins og stefnandi byggir á.
Stefndi hafnar þeirri fullyrðingu stefnanda að við lánveitingu og veðsetningu hafi legið fyrir „að umþrætt lán var tekið vegna kaupa á fasteign og lánið væri aðeins brot af þeim lánum sem fyrirhugað var að lántaki myndi taka“, svo og að stefnda hafi verið það ljóst og því borið að taka mið af því við gerð greiðslumatsins. Á þeim tíma sem hér skiptir máli hafi stefnda verið ókunnugt að lántaki hygðist nota lánið til að kaupa fasteign og hafi Jónína ekki veitt þær upplýsingar þegar hún sótti um lán hjá stefnda. Eins og sérstaklega sé tekið fram í greiðslumatinu beri lántaki ábyrgð á þeim upplýsingum sem hann veitir og greiðslumatið byggir á, þar á meðal að þær séu réttar. Upplýsingarnar séu jafnframt þess eðlis að stefndi hefði ekki getað aflað þeirra sjálfur og að eigin frumkvæði. Raunin sé auk þess sú að kaupsamningur lántaka, Jónínu og Vilhjálms Pálssonar, sonar stefnanda, vegna þessara fasteignakaupa sé dagsettur 2. júní 2006 og honum þinglýst 8. júní 2006 en veðskuldabréfið gefið út 30. maí 2006 og greiðslumatið hafði þá farið fram, þ.e. 10. maí. Í kaupsamningnum sé þess ekki getið að kaupin séu fjármögnuð að hluta til með umræddu láni frá stefnda, og virðist lántaki og maki því, að eigin frumkvæði, hafa aðskilið algjörlega lánveitinguna og fasteignakaupin. Á þeim tíma sem lánið var veitt hafi stefnda því verið ómögulegt að vita að nota ætti það til kaupa á fasteign eða að það væri einungis brot af þeim lánum sem fyrirhugað var að lántaki tæki.
Hins vegar verði að ganga út frá því að stefnandi sjálfur, vegna tengsla sinna við lántaka og maka hans, hafi vitað um raunverulegan tilgang lánsins, frekari lánsþörf lántaka og að greiðslumatið gæfi þá eftir atvikum ekki rétta mynd af greiðslugetu lántaka. Eins og þetta mál sé vaxið hafi sú vitneskja a.m.k. staðið stefnanda nær en stefnda. Stefnanda hafi því borið að gera athugasemdir við greiðslumatið á þeim tíma, hefði hann þær. Þetta sýni einnig að það hvort greiðslumat hafi miðað við „afgang“ sem nam 1.208 kr. eða halla sem nam 99 kr., eða aðrar fjárhæðir, sbr. fyrri umfjöllun, geti ekki skipt neinu máli hafi stefnandi vitað hver var raunverulegur tilgangur lánsins og af frekari lánsþörf lántaka. Málsástæður stefnanda séu því haldlausar.
Þar eð stefnandi vísar til Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, og tilgangs þess, bendir stefndi á að hann hafi ekki átt aðild að því samkomulagi og ekki verið bundinn af efni þess. Hvað sem því líði verði ekki ráðið að nokkuð komi fram í samkomulaginu sem þýðingu geti haft við úrlausn sakarefnisins, og raunar byggi stefnandi ekki á því.
Um meintan forsendubrest stefnanda
Stefnandi beri því við að „ákvörðunarástæða hans við veðsetninguna hafi verið að greiðslugeta lántakenda hafi verið jákvæð“. Veðsetningin sé því ógildanleg á grundvelli reglna og sjónarmiða um brostnar og rangar forsendur. Hafi stefnanda verið „talin trú um að lántakandi hefði staðist greiðslumat með blaði því sem hann var beðinn um að undirrita þar sem fram kom það mat stefnda að greiðslugeta lántakans væri fullnægjandi“ og hann „ekki haft neinn vilja til þess að gangast undir ábyrgð vegna skuldar sem gæti fallið á hann“.
Stefndi hafnar þessari málsástæðu stefnanda alfarið og vísar til fyrri umfjöllunar um meint mistök sín við gerð greiðslumats og meint brot gegn eigin lánareglum. Stefndi ítrekar að „afgangur“ samkvæmt greiðslumati sé ekki einn og sér grundvöllur þess hvort greiðslugeta lántaka sé metin fullnægjandi, auk þess sem hann hafnar því að það eitt að „afgangur“ hafi verið tiltekinn 1.208 kr. hafi verið „veruleg ákvörðunarástæða“ stefnanda eða haft úrslitaáhrif, eða að stefnda hafi mátt vera það ljóst. Með þessu hafnar stefndi því alfarið að veðsetning stefnanda sé ógildanleg á grundvelli „sjónarmiða og meginreglna samningaréttarins um brostnar forsendur“.
Stefndi mótmælir því sérstaklega að veðsamningur stefnanda við stefnda sé ógildanlegur á grundvelli „sjónarmiða og meginreglna samningaréttarins um ... rangar forsendur“, eins og stefnandi byggi á. Í veðskuldabréfinu, sem stefnandi undirritaði, felist skuldbinding hans og sú skuldbinding sé sá löggerningur sem mál þetta varðar, svo framarlega sem hann sé ekki annars efnis en til var ætlast, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi hafi að minnsta kosti verið grandlaus um annan skilning stefnanda.
Um meint brot gegn lögum nr. 32/2009 við skuldskeytingu
Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnanda að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn við skilmálabreytingu veðskuldabréfsins 3. nóvember 2009. Hann mótmælir því sérstaklega að meint brot sitt leiði til þess að ósanngjarnt sé fyrir hann eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðsetninguna fyrir sig.
Í 12. gr. laga nr. 32/2009 sé sérstaklega tekið fram að ákvæði 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. laganna taki ekki til ábyrgða sem stofnað var til fyrir gildistöku laganna, þ.e. fyrir 4. apríl 2009. Stefnandi hafi hins vegar þá þegar veðsett eign sína og þannig axlað ábyrgð vegna skuldbindingarinnar þegar skuldskeytingin átti sér stað, þ.e. við útgáfu veðskuldabréfsins 30. maí 2006, og þannig fyrir gildistöku laganna. Í skuldskeytingunni, eða samhliða skilmálabreytingu veðskuldabréfsins, hafi því ekki sérstaklega falist að stefnandi veðsetti eign sína eða gengist í ábyrgð, enda hafði það þegar gerst, og á því hafi ekki orðið nein breyting.
Samkvæmt reglum stefnda hafi auk þess ekki þurft að meta greiðslugetu skuldara sérstaklega vegna skuldskeytingar enda hafi lán þá þegar verið veitt, ábyrgð þegar verið veitt og greiðslumat þegar farið fram, hafi það verið áskilið. Reglur stefnda hafi að minnsta kosti verið túlkaðar þannig í framkvæmd. Litið hafi verið svo á að í reglum stefnda væri ekki krafist sjálfstæðs greiðslumats þegar skuldskeyting fól í sér að maka upphaflegs lántaka var veitt sérstök heimild til að taka lán yfir í samræmi við samkomulag við skilnað eða sambúðarslit. Í slíkum tilvikum hafi og verið litið sérstaklega til þess t.d. hvort veðsali væri skyldur hinum nýja lántaka, t.d. hvort hann væri faðir hans, og þá hvort tengsl hans við upphaflegan lántaka væru að rofna. Í slíkum tilvikum hafi a.m.k. stefndi litið svo á að samþykki stefnda á skuldskeytingu væri í reynd til ívilnunar og hagsbóta fyrir alla aðila. Það hafi verið þannig í þessu tilviki, sérstaklega með tilliti til þess, eins og stefnandi bendi á að upphaflegur lántaki gat ekki staðið undir greiðslubyrði lánsins.
Óháð því hvort stefnda hafi borið að láta meta greiðslugetu nýs lántaka við skuldskeytingu eða ekki byggi stefnandi ekki á því að hinn nýi lántaki hefði ekki staðist slíkt greiðslumat. Stefndi telur málatilbúnað stefnanda að þessu leyti því ekki hafa þýðingu. Ekkert liggi heldur fyrir í málinu um fjárhagsstöðu hins nýja skuldara við skuldskeytinguna, annað en sú fullyrðing stefnanda að hann hafi „sent inn gjaldþrotabeiðni“, að því er virðist 5-6 árum eftir skuldskeytinguna.
Stefndi hafnar því einnig að stefnandi hafi aldrei fengið neinar tilkynningar frá stefnda um vanskil skuldara og stefndi þannig brotið gegn 7. gr. laga nr. 32/2009. Stefnandi hafi a.m.k. fengið tilkynningu dags. 25. maí 2009, enda hafi hún verið birt stefnanda 7. september 2009. Stefnandi hafi jafnframt undirritað skilmálabreytinguna en þar segir að lánið sé í vanskilum, auk þess sem stefnanda hafi verið kunnugt um vanskilin, eða a.m.k. mátt vera það, vegna tengsla sinna við fyrri og síðari lántaka.
Um meint brot stefnda gegn lögum nr. 21/1994 um neytendalán
Stefndi hafnar alfarið þeirri málsástæðu stefnanda „að skv. meginreglum um ábyrgðir og veð í þágu þriðja manns hafi gildi sjálfrar skuldarinnar sömu áhrif á ábyrgðarmann og veðsala“ og að stefndi hafi ekki fullnægt skyldum sínum samkvæmt þágildandi lögum nr. 121/1994 um neytendalán með því að veita lántaka ekki þær upplýsingar sem kveðið var á um í 6. gr. laganna.
Stefndi vísar til þess að á endurgreiðsluáætlun dags. 11. maí 2006, sem var afhent lántaka á sínum tíma, komi fram allar þær upplýsingar sem 6. gr. laga nr. 121/1994 áskildi og stefnandi telur að skort hafi, þrátt fyrir að stefnandi leggi endurgreiðsluáætlunina sjálfur fram í málinu og byggi sérstaklega á efni hennar. Í því skjali komi meðal annars fram hver sé heildarlántökukostnaður (5.530.443 kr.), árleg hlutfallstala kostnaðar (4,87%), sú heildarupphæð sem greiða skal (9.985.443 kr.), fjárhæð einstakra greiðslna og gjalddaga, gildistími o.fl., sbr. einnig upplýsingar sem koma fram á veðskuldabréfinu sjálfu. Í þessum skjölum hafi því komið fram allar þær upplýsingar sem unnt var að veita samkvæmt 6. gr. laga nr. 121/1994 í ljósi þess að lánið var verðtryggt, sbr. nánar hér síðar. Af þessum sökum hafnar stefndi því að hann „hafi brotið gróflega gegn skyldum þeim sem hann bar skv. lögum nr. 121/1994“ og að slíkt leiði „sjálfstætt til ógildingar lánsins skv. 36. gr. laga nr. 7/1936 og þar með veðsetningar stefnenda“. Þar fyrir utan krefjist stefnandi ekki ógildingar lánveitingarinnar eða veðskuldabréfsins sem slíks.
Um meint brot stefnda gegn trúnaðar- eða tillitsskyldum við samningsgerð
Stefndi hafnar því alfarið að hann hafi brotið gegn trúnaðar- eða tillitsskyldum sínum. Stefnandi telji nánar tiltekið að stefndi hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnanda „þegar að hann lagði til grundvallar greiðslumat sem var ranglega jákvætt þegar það hefði átt að vera neikvætt“ og „með því að fara gegn eigin lánareglum og veita lánið án þess að skilyrði væru til þess og einnig að upplýsa stefnanda ekki um slíkt“. Stefnandi telji trúnaðarskyldu stefnda gagnvart sér hafa verið „enn ríkari“ því stefnandi sé neytandi og að um „langtímasamningssamband“ hafi verið að ræða. Stefndi mótmælir þessu öllu og vísar þeirra málsástæðna sem hann hafi þegar fært fram. Stefndi mótmælir því sérstaklega að meint brot hans gegn trúnaðarskyldum leiði til þess að stefnda „sé ekki heimilt með gildum hætti að ganga að umþrættu veði vegna þess að það verði að telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju“ eða að meint brot „hafi falið í sér saknæma háttsemi og hafi stofnað til bótaskyldu stefnda“.
Sérstaklega um 36. gr. laga nr. 7/1936
Með vísan til alls framangreinds hafnar stefndi því alfarið að veðsetningu stefnanda verði vikið til hliðar í heild eða hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, eða annarra réttarreglna ef því er að skipta, sbr. m.a. fyrri umfjöllun um brostnar og rangar forsendur. Að mati stefnda eru skilyrði fyrir beitingu 36. gr. ekki fyrir hendi, enda hvorki ósanngjarnt af stefnda né andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðsetninguna fyrir sig. Með vísan til þeirra atriða sem tiltekin eru í 2. mgr. 36. gr., og líta ber til við matið, sé ljóst að efni veðskuldabréfsins sé skýrt, í samræmi við lög og það raunar ágreiningslaust, að því er stefnda virðist. Með vísan til tengsla stefnanda við upphaflegan og síðari lántaka mótmælir stefndi því einnig að staða samningsaðila hafi hér sérstaka þýðingu. Auk þess hafi ekki verið nein atvik við samningsgerðina sem réttlæti að undantekningarreglu 36. gr. verði beitt í málinu. Sérstaklega varðandi atvik sem síðar koma til verði í þessu sambandi ekki litið til vanefnda upphaflegs eða síðari lántaka á skuldbindingum þeirra samkvæmt veðskuldabréfinu eða til hækkunar á láninu og afborgunum af því, sem stafa af breytingum á verðlagi. Að auki víki stefnandi ekkert sérstaklega að því, að fráskildum almennum tilvísunum til 36. gr., til hvaða atriða 2. mgr. 36. gr. beri að horfa við mat á því hvort taka beri kröfu stefnanda til greina. Af þessari vanreifun stefnanda leiðir að stefnda sé örðugt að taka til fullnægjandi varna að þessu leyti.
Um þrautavara- og þrautaþrautavarakröfur stefnanda (um viðurkenningu á bótarétti)
Til þrautavara- og þrautaþrautavara krefjist stefnandi þess „að viðurkenndur verði réttur hans til fullra bóta frá stefnda vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir“ vegna veðsetningar sinnar annars vegar og hins vegar vegna skuldbreytingar 3. nóvember 2009. Til stuðnings þrautavarakröfu sinni byggi stefnandi á því að meint saknæm háttsemi stefnda felist annars vegar í því „að gera greiðslumat ranglega með þeirri afleiðingu að það var jákvætt í stað neikvætt“ og hins vegar í meintum brotum stefnda „gegn eigin lánareglum“. Til stuðnings þrautaþrautavarakröfu sinni byggi stefnandi síðan á því að „brot stefnda gegn lögum nr. 32/2009 þegar að skuldskeyting átti sér stað, 3. nóvember 2009, hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi“. Felist „[þ]að tjón sem stefnandi muni verða fyrir ... í því að núverandi skuldari, Vilhjálmur Pálsson, mun ekki geta greitt lánið og það sé aðeins tímaspursmál hvenær eftirstöðvar lánsins verði sóttar til stefnda“. Fjárhæð tjónsins liggi ekki fyrir þar sem „[þ]að hvort stefndi muni fá eitthvað úr gjaldþrotaskiptum núverandi skuldara er ófyrirséð“ en hins vegar að „[t]jónið er sú fjárhæð sem stefnandi þyrfti endanlega að greiða ef að ekki verður fallist á ógildingarkröfu þessa dómsmáls“. Stefndi telur ljóst að málatilbúnaður stefnanda sé ekki allskostar skýr að þessu leyti. Þannig lúti þrautavara- og þrautaþrautavarakröfurnar sem slíkar að tjóni sem stefnandi „varð fyrir“ en málatilbúnaður stefnanda að öðru leyti að tjóni sem stefnandi „muni verða fyrir“, en ófyrirséð sé hvort verði.
Stefndi byggir sérstaklega á því að réttarfarsleg skilyrði fyrir þrautavara- og þrautaþrautavarakröfum stefnanda séu ekki uppfyllt. Eins og ráða megi af málatilbúnaði stefnanda sé alls ófyrirséð hvort stefnandi muni yfirhöfuð verða fyrir nokkru tjóni. Meintur bótaréttur, sem hann vilji fá viðurkenndan, hafi því ekki stofnast. Með þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda sé því í reynd lagt fyrir dómstóla að svara þeirri (lög)spurningu hvort stefndi muni verða skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda fari svo að tiltekin atvik eigi sér stað í framtíðinni, t.d. að stefndi fái ekki kröfu sína á hendur núverandi lántaka greidda að fullu og þá að stefndi heimti í kjölfarið eftirstöðvar kröfunnar úr hendi stefnanda. Krafan varði því rétt eða skyldu sem ekki séu enn orðin til, auk þess sem stefnandi hafi ekki neina lögvarða hagsmuni. Þegar af þessari ástæðu beri að vísa þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda sjálfkrafa frá dómi (ex officio), en ella sýkna stefnda þegar af þeim.
Að öðru leyti hafnar stefndi alfarið þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Hann mótmælir því sérstaklega að skilyrði skaðabótaábyrgðar, þar á meðal sérfræðiábyrgðar, séu uppfyllt. Það sé a.m.k. ósannað. Stefndi mótmælir því sérstaklega að orsakatengsl séu milli þeirrar háttsemi sem stefndi gefi stefnanda að sök, og meints tjóns, sem ekki hafi orðið. Til stuðnings meintum bótarétti sínum byggi stefnandi í öllum meginatriðum á sömu málsástæðum og fyrir kröfu sinni um ógildingu veðsetningar, sem áður eru raktar. Um málsástæður stefnda vísast því til allrar framangreindrar umfjöllunar. Stefndi byggir á öllum sömu málsástæðum til stuðnings sýknu stefnda af þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu stefnanda og til stuðnings sýknu stefnda af aðalkröfu stefnanda. Stefndi telur veðsetningu stefnanda gilda auk þess sem undirbúningur og framkvæmd hennar, þar á meðal lánveitingar, greiðslumats stefnda og síðari skilmálabreytingar, hafi verið í samræmi við gildandi reglur þar að lútandi og ekki þannig að varði ógildingu eða bótaskyldu stefnda.
Að því er varðar þrautavarakröfu stefnanda sérstaklega er því mótmælt að stefnandi hafi sýnt af sér „ásetning eða í það minnsta stórkostlegt gáleysi“ þegar stefndi „brást þeirri skyldu sinni að gera greiðslumat rétt úr garði og leggja til grundvallar greiðslumat sem var í andstöðu við lánareglur stefnda“ eða að slíkt hafi leitt til þess að „áhætta stefnanda varð til muna meiri en ella“ eða „[s]vo mikil að stefnandi hefði ekki sett fasteign sína að veði“. Eins er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að skuldskeytingin 3. nóvember 2009 „hefði aldrei komið til ef hin saknæma háttsemi hefði ekki verið viðhöfð í upphafi“. Vísast að öðru leyti til fyrri umfjöllunar og málsástæðna stefnda.
Vegna þrautaþrautavarakröfu stefnanda hafnar stefndi því sérstaklega „að brot stefnda á lögum nr. 32/2009 þegar að skuldskeyting átti sér stað, þann 3. nóvember 2009, hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi“ eða að stefndi „hafi með athafnaleysi sínu brugðist lögbundnum skyldum sínum til að kanna greiðslugetu hins nýja skuldara ... og að gera sérstakan ábyrgðarsamning við stefnanda“. Vísast hér til fyrri umfjöllunar um sama efni, þar á meðal þess sem þar segir um 12. gr. laga nr. 32/2009 og kröfur reglna stefnda um greiðslumat við skuldskeytingu. Engin skylda hafi hvílt á stefnda til að vinna sérstakt greiðslumat eða gera sérstakan ábyrgðarsamning við stefnanda við skuldskeytingu lánsins. Þá byggi stefnandi ekki á því, sem fyrr segir, að hinn nýi lántaki hefði ekki staðist slíkt greiðslumat hefði það á annað borð verið unnið og sé slíku mótmælt sem röngu og ósönnuðu, sbr. nánari umfjöllun í kafla um meint brot stefnda gegn lögum nr. 32/2009 við skuldskeytingu.
Stefndi styður kröfur sínar við lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sbr. helst 12. gr. laganna, eldri lög nr. 121/1994 um neytendalán og lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. helst 25. og 26. gr. laganna. Hann vísar einnig til laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. helst 36. gr. laganna. Hann vísar enn fremur til meginreglna fjármuna- samninga-, kröfu- og veðréttar, þar á meðal um réttar efndir skuldbindinga, frelsi manna til að bindast skuldbindingnum með samningum við aðra svo og til tómlætisreglna. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Fyrrum sambýliskona sonar stefnanda tók lán hjá stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, í lok maí 2006. Stefnandi veitti sjóðnum veð í íbúðarhúsi sínu til tryggingar láninu. Hann höfðar þetta mál til þess að fá þann veðsamning ógiltan á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Stefndi krefst sýknu. Þá kröfu byggir hann í fyrsta lagi á tómlæti stefnanda við að gæta meints réttar síns. Hann vísar til þess að stefnandi hafi fyrst borið brigður á skuldbindingu sína fimm árum eftir að nýr skuldari tók við láninu og átta og hálfu ári eftir að lánið var upphaflega veitt. Þá loks, í byrjun desember 2014, hafi lögmaður hans krafist þess að veðsetningin yrði ógilt.
Stefnanda voru sendar greiðsluáskoranir í september 2009 og apríl og júní 2010. Í þessum tilvikum voru vanskil greidd áður en kom til frekari fullnustuaðgerða stefnda. Stefnandi kvaðst hafa lesið í blöðunum fyrir hér um bil tveimur árum að komið hefði í ljós að lánastofnanir hefðu ekki gætt fyllstu vandvirkni þegar þær veittu lán og tóku veð til tryggingar þeim á árunum fyrir hrunið. Af þeim sökum hafi hann ákveðið að láta lögmann athuga hvort réttilega hefði verið staðið að verki þegar hann veitti stefnda veðrétt í eign sinni. Komið hefði í ljós að svo var ekki.
Einungis eru því um tvö ár frá því að stefnandi fékk tilefni til að athuga hvort eitthvað kynni að hafa farið úrskeiðis þegar hann gerði veðsamninginn við stefnda. Hann þykir því ekki hafa sýnt tómlæti við að gæta réttar síns.
Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu veðsamningsins í fyrsta lagi á því að stefndi hafi gert mistök þegar hann lagði mat á greiðslugetu upphaflegs lántaka, Jónínu Marteinsdóttur.
Anna Sigríður Arnardóttir, starfsmaður stefnda, sem vann greiðslumatið bar að greiðslumat byggði alfarið á þeim upplýsingum sem lántakar leggðu fram. Starfsmenn sjóðsins spyrðu lántakana ekki að því hvað þeir hygðust gera við lánið. Ef það hins vegar kæmi fram í samtali lántakans og starfsmanns sjóðsins að nota ætti lánið til fasteignakaupa en lántakinn legði ekki fram neinar upplýsingar um fasteignina óskaði sjóðurinn eftir því að þær upplýsingar yrðu lagðar fram. Væri lán tekið með veði í fasteign lántakans kæmi fram á veðbókarvottorði hvaða önnur lán lántakinn hefði tekið.
Hefði hún vitað, þegar hún vann greiðslumat fyrir lántaka, að nota ætti viðkomandi lán vegna fasteignakaupa en gögn um það hefðu ekki fylgt með hefði hún óskað eftir upplýsingum um þau viðskipti svo sem kauptilboði. Miðað við það sem standi í fram lögðu greiðslumati hafi hún ekki vitað af því að það lán ætti að taka vegna fasteignakaupa enda hefði það þá verið tilgreint í þar til gerðum reit.
Lántakinn Jónína Marteinsdóttir er fallin frá. Í yfirlýsingu sem hún undirritaði 16. júní 2015 segir að starfsmaður stefnda hafi vitað að hún hygðist taka 15 milljóna króna lán hjá Kaupþingi banka vegna fasteignakaupanna enda hafi það verið rætt opinskátt. Sambýlismaður hennar, sonur stefnanda, bar að hann hefði farið í greiðslumat vegna þess lífeyrissjóðsláns sem hann tók en hann minntist þess ekki að annað hvort þeirra hefði farið í greiðslumat vegna þess 15.000.000 kr. láns sem þau yfirtóku frá Kaupþingi banka. Samkvæmt fram lögðum kaupsamningi tóku þau það lán ekki yfir fyrr en 1. ágúst 2009.
Þær lánareglur stefnda sem giltu þegar þetta lán var tekið voru samþykktar 24. febrúar 2006. Þar segir í 5. mgr. 6. gr. að stefnda sé heimilt að hafna umsókn um lán þegar umsækjandi sýni ekki fram á fullnægjandi greiðslugetu eða ef það er mat sjóðsins að vafi leiki á um greiðslugetu umsækjandans.
Stefndi lagði mat á greiðslugetu umsækjanda eins og honum var skylt. Í greiðslumatinu var sett varúðarálag sem nam 5% af mánaðarlaunum umsækjanda eftir að skattur hafði verið dreginn frá þeim. Þeirri fjárhæð sem það gaf var bætt við mánaðarleg útgjöld umsækjanda þrátt fyrir að hún endurspeglaði ekki raunveruleg útgjöld hans.
Í kafla í greiðslumatinu með yfirskriftinni Áríðandi segir að stefndi veiti ekki lán þegar halli á afgangi sé hærri en varúðarálag á mánaðarleg útgjöld. Afgangur umsækjanda á mánuði nam 1.208 kr. miðað við þær forsendur að lánið bæri 4,15% vexti. Það bar í reynd 4,6% vexti og var afborgun á mánuði því 1.307 kr. hærri. Því hefði útkoman úr greiðslumatinu ekki átt að vera afgangur sem nam 1.208. kr. heldur vantaði 99 kr. upp á að umsækjandi stæðist greiðslumatið.
Varúðarálagið nam 6.422 kr. en að 99 kr. frádregnum nam það 6.323 kr. Halli á afgangi umsækjanda nam því ríflega 1,5% af varúðarálaginu.
Greiðslugetan var eingöngu neikvæð vegna varúðarálagsins sem sjóðurinn bætti við mánaðarleg útgjöld en hefði hann ekki sett þennan varnagla í greiðslumatið hefði umsækjandi átt afgang hvort heldur sem vaxtahlutfallið hefði verið tilgreint 4,15% eða 4,6%. Umsækjandi uppfyllti því þrátt fyrir þessa röngu tilgreiningu á hlutfallstölu vaxta skilyrði sjóðsins um lánveitingu. Dómurinn getur því ekki fallist á að stefndi hafi brotið gegn eigin lánareglum þegar hann lagði mat á greiðslugetu lántakans Jónínu Marteinsdóttur.
Stefnandi setti stefnda ekki hús sitt að veði til þess að tryggja að einhver ókunnugur gæti fengið lán hjá sjóðnum heldur var hann með veðsetningunni að styðja son sinn sem bjó með lántaka í því að komast af afar óhagstæðum leigumarkaði og í eigin húsnæði. Þegar litið er til þessa verður ekki talið að 99 kr. þá, sem samsvara 166 kr. nú, hefðu getað haft úrslitaþýðingu um það hvort hann setti húsið að veði til að hjálpa sambýlisfólkinu við húsnæðiskaupin.
Veðsamningur stefnanda við stefnda verður því ekki ógiltur á grundvelli brostinna forsendna.
Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi, þegar sonur hans tók yfir skuldbindingar upphaflegs lántaka, brotið gegn lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn sem tóku gildi 4. apríl 2009. Stefnda hafi þá borið að leggja mat á greiðslugetu nýja skuldarans eins og mælt sé fyrir um í 4. gr. laganna. Að auki hafi hann átt að veita þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 5. gr. og gera skriflegan ábyrgðarsamning, sbr. 6. gr.
Í stefnu byggði stefnandi á því að skuldaraskiptin/skuldskeytingin hafi farið fram 3. nóvember 2009 þegar stefnandi ritaði undir skjalið Skuldbreyting/skilmálabreyting (vanskil lögð við höfuðstól, lánstími styttist). Við munnlegan málflutning byggði stefnandi á því að hann hefði losnað undan ábyrgð sinni 13. júlí 2009. Þann dag stimplaði stefndi á umsókn sonar stefnanda um skuldaraskipti að skuldaraskiptin væru samþykkt án þess að hafa fengið skriflegt samþykki stefnanda sem veðsala við skuldaraskiptunum.
Stefndi telur það nýja málsástæðu sem ekki fái komist að á þessu stigi að stefnandi telji sig hafa losnað undan veðskuldbindingunni þegar stefndi samþykkti skuldaraskiptin 13. júlí 2009.
Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær. Við fyrirtöku málsins 2. júlí 2015 lagði stefnandi sjálfur fram umsókn um skuldaraskiptin. Hvorki þá né í næsta þinghaldi 8. september 2015 lýsti hann yfir því að hann vildi leggja til grundvallar að skuldaraskiptin hefðu farið fram 13. júlí 2009 en ekki 3. nóvember 2009 eins og hann byggir á í stefnu, né heldur að stefnandi hefði hreint og klárt losnað undan veðskuldbindingunni. Málið var síðan tekið fyrir 16. september og 2. október 2015 til frekari gagnaframlagningar en lögmaður stefnanda gat þess í hvorugt sinn að hann teldi stefnda hafa samþykkt skuldaraskiptin með áritun á umsókn um þau 13. júlí 2009 án þess að tryggja að stefnandi, sem veðeigandi, hefði veitt samþykki sitt fyrir skuldaraskiptunum.
Í ljósi þessarar forsögu er fallist á það með stefnda að þessi málsástæða stefnanda komist ekki að nú. Af þeim sökum verður dómurinn að byggja á því eins og stefnandi gerir í stefnu að skuldskeytingin hafi farið fram 3. nóvember 2011.
Samkvæmt 12. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn taka þau til ábyrgða sem stofnað var til fyrir gildistöku þeirra, 4. apríl 2009, að frátöldum 4. og 5. gr. svo og 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. Eins og fram er komið veitti stefnandi stefnda veðrétt í eign sinni þegar hann ritaði undir veðskuldabréf 30. maí 2006. Samkvæmt 12. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 32/2009 var stefnda því ekki skylt að meta greiðslugetu nýja skuldarans. Því þurfti ekki heldur að gera ábyrgðarsamning samkvæmt 6. gr. með þeim upplýsingum sem tilgreindar eru í 5. gr.
Dómurinn fellst ekki heldur á að ábyrgðin sé fallin niður á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laganna vegna verulegrar vanrækslu stefnda við að senda stefnanda tilkynningar um vanefndir. Stefnandi fékk tilkynningu um vanskil í september 2009 og apríl og júní 2010. Þar fyrir utan bar hann að honum hefði verið kunnugt um það að sonur hans og upphaflegur lántaki hefðu slitið sambúð sinni og lántakinn hefði tilkynnt að hún væri hætt að greiða af láninu þannig að honum var vel kunnugt um hvernig á stóð með afborganir af láninu hvort sem hann fékk tilkynningar þess efnis eða ekki.
Stefnandi byggir enn fremur á því að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Að mati dómsins geta þau lög ekki haft nein réttaráhrif í þessu máli. Megintilgangur þeirra er að tryggja neytendum, sem taka lán í tengslum við kaup á vöru og þjónustu, ákveðin lágmarksréttindi og ákveðnar lágmarksupplýsingar áður en þeir taka ákvörðun um lántökuna. Lögin varða hins vegar ekki réttarsamband lánveitanda sem veitir lán til fasteignakaupa og veðsala sem veitir veð í eign sinni til tryggingar slíku láni. Þar fyrir utan koma þær upplýsingar sem stefnandi byggir á að hafi átt að veita lántakanum fram í þeim skjölum sem hann lagði sjálfur fram.
Dómurinn getur ekki heldur fallist á að stefndi hafi brotið gegn tillits- og trúnaðarskyldu sinni við stefnanda. Eins og fram er komið telur dómurinn að mat á greiðslugetu lántakans hafi fallið innan reglna stefnda enda miðuðu þær við það að væri halli á afgangi umsækjanda hærri en varúðarálagið yrði lán ekki veitt.
Dómurinn hefur því hafnað öllum þeim málsástæðum sem stefnandi færir fram til stuðnings því að ógilda eigi þann veðsamning sem hann gerði við stefnda 30. maí 2006.
Við aðalmeðferð málsins breytti stefnandi kröfum sínum og bætti við þeirri kröfu að skuldskeyting sem stefnandi ritaði undir 3. nóvember 2009 yrði felld úr gildi. Hann telur þessa kröfu rúmast innan þeirrar kröfu í stefnu að veðskuldabréfi nr. 874471 verði aflýst af fasteign stefnanda. Hann lítur á þessa nýorðuðu kröfu sem varakröfu og í samræmi við það færist aðrar kröfur neðar þannig að varakrafa verði þrautavarakrafa og þrautavarakrafa verði þrautaþrautavarakrafa.
Eins og fram er komið er tekið fram í 12. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að lögin taki til ábyrgða sem stofnað var til fyrir gildistöku þeirra, 4. apríl 2009, að frátöldum 4. og 5. gr. svo og 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. Á þessum grunni var því hafnað að stefnda hefði verið skylt að meta greiðslugetu nýja skuldarans þegar skuldskeytingin fór fram. Af þeim sökum er hinni nýju varakröfu stefnanda hafnað.
Stefnandi krefst þess til þrautavara að viðurkenndur verði réttur hans til bóta úr hendi stefnda vegna saknæmra og ólögmætra vinnubragða starfsmanns stefnda.
Dómurinn telur að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að starfsmönnum stefnda hafi verið kunnugt um það að upphaflegur lántaki hygðist nýta lánið frá stefnda sem brúarlán til þess að kaupa fasteign. Það er jafnframt niðurstaða dómsins að stefnda hafi ekki verið kunnugt að upphaflegur lántaki og sambýlismaður hennar ráðgerðu að yfirtaka lán frá Kaupþingi banka hf., sem hvíldi á þeirri fasteign sem þau höfðu augastað á að fjárhæð ríflega 15.300.000 kr. Dómurinn telur því að ekki verði felld á stefnda ábyrgð á því að ekki var tekið tillit til þess láns þegar greiðslugeta upphaflegs lántaka var metin. Því verður ekki fallist á að það hafi verið saknæmt að taka ekki tillit til þess við gerð greiðslumatsins.
Ekki verður heldur fallist á að það hafi verið saknæmt að tilgreina hlutfall vaxta 4,15% í stað 4,6% því þrátt fyrir það var niðurstaða greiðslumatsins innan þeirra viðmiða sem stefndi setti fyrir lánveitingum.
Dómurinn fellst ekki á að vinnubrögð starfsmanna stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt og því er hafnað þrautavarakröfu stefnanda um viðurkenningu bótaréttar hans á hendur stefnda.
Jafnframt er komið fram að á stefnda hvíldi ekki sú skylda samkvæmt lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að meta greiðslugetu sonar stefnanda þegar hann yfirtók skuldbindingu upphaflegs lántaka. Það var því ekki heldur saknæmt að láta það hjá líða og af þeim sökum er hafnað þrautaþrautavarakröfu stefnanda.
Dómurinn hefur því hafnað öllum málsástæðum og öllum kröfum stefnanda.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun hæfilega ákveðinn 500.000 kr.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
D Ó M s o r ð
Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild, er sýkn af kröfum stefnanda, Páls Trausta Jörundssonar.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.