Hæstiréttur íslands

Mál nr. 297/2002


Lykilorð

  • Verksamningur


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. desember 2002.

Nr. 297/2002.

S.S. Byggir ehf.

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

þrotabúi S.M. verktaka ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Verksamningur.

S stóð fyrir byggingu verslunarmiðstöðvar á Gleráreyrum á Akureyri og samdi við SS um að framkvæma verkið. SM var einn undirverktaka og tók að sér að leggja þakdúk yfir eldra þak, en að hluta var um endurbætur á eldra iðnaðarhúsnæði að ræða. Eftir verklok reis ágreiningur milli SS og SM um greiðslu þriggja reikninga og höfðaði SM mál til heimtu þeirra. Með héraðsdómi var SS dæmdur til að greiða tvo reikninganna og áfrýjaði hann þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar. SS var með dómi Hæstaréttar gert að greiða annan reikninginn, sem fól í sér fjóra verkliði. Hins vegar var talið að það verk sem hinn reikningurinn var gerður fyrir, hafi ekki verið unnið í þágu SS. Var ekki talið að vanræksla hans á að mótmæla reikningnum skriflega gæti skapað honum greiðsluskyldu, en reikningurinn bar með sér að verkið væri unnið fyrir fyrirtækið B. Ekki var því fallist á að SS bæri að greiða kröfu samkvæmt þeim reikningi.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

          Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

          Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málavextir eru þeir að Smáratorg ehf. mun hafa staðið fyrir byggingu verslunarmiðstöðvar á Gleráreyrum á Akureyri, er nefndist Glerártorg. Mun að hluta hafa verið um nýbyggingu að ræða en að hluta til endurbætur á eldra iðnaðarhúsnæði. Mun Smáratorg ehf. hafa samið við áfrýjanda um að framkvæma verkið. Kveður áfrýjandi fjölda undirverktaka hafa verið fengna til að framkvæma einstaka hluta þess. Einn þeirra var S.M. verktakar ehf. Meðal gagna málsins eru tvö tilboð, þar sem S.M. verktakar ehf. bjóða meðal annars í verkþátt, sem fólst í að leggja þakdúk yfir eldra þak. Er fyrra tilboðið, þar sem boðnar voru 11.627.290 krónur í þennan verkþátt, dagsett 26. apríl 2000, en hið síðara var að fjárhæð 943.175 krónur og dagsett 12 maí sama árs. Fól það meðal annars í sér breytingar á og viðbót við þennan þátt verksins. Varðandi þennan lið var tekið fram í síðara tilboðinu að niðurföll væru ekki innifalin í tilboðsverði þar eð útboðsgögn væru óljós að þessu leyti. Tilboðum þessum mun hafa verið tekið. Er óundirritaður verksamningur milli áfrýjanda og S.M. verktaka ehf. dagsettur 26. maí 2000 meðal gagna málsins. Samningsverð þar er samtala framangreindra tilboða eða 12.612.465 krónur. Samningsgögn, sem þar voru tilgreind, voru, auk tilboðs S.M. verktaka ehf., verklýsing, verkáætlun og teikningar. Í þeim lið verklýsingar, sem vísað var til í verksamningnum, var tekið fram að innifalið í verkinu væri frágangur og þétting kringum öll op á þaki. Um væri að ræða að leggja tvö lög af þakpappa yfir eldra þak, en hreinsa skyldi eldri pappa áður en sá nýi væri lagður.

 Eftir verklok reis ágreiningur milli áfrýjanda og S.M. verktaka ehf. um greiðslu þriggja reikninga, sem allir voru dagsettir 10. nóvember 2000. Höfðuðu S.M. verktakar ehf. mál þetta 22. júní 2001 til heimtu reikninganna. Bú S.M. verktaka ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2002 og tók þrotabúið við aðild málsins. Með hinum áfrýjaða dómi voru kröfur stefnda samkvæmt tveimur reikninganna teknar til greina, en áfrýjandi sýknaður af kröfu um greiðslu þess þriðja. Héraðsdómi hefur ekki verið gagnáfrýjað og var því lýst yfir af hálfu stefnda fyrir Hæstarétti að hann sætti sig við niðurstöðu héraðsdóms varðandi þriðja reikninginn. Koma því einungis til umfjöllunar kröfur samkvæmt hinum reikningunum tveimur.

II.

Íslenskur staðall um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, ÍST 30:1977, var ekki meðal þeirra gagna, sem vísað var til í verksamningi aðila. Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi svöruðu bæði Steingrímur Steingrímsson, sem áður var fyrirsvarsmaður S.M. verktaka ehf., og Sigurður Sigurðsson, fyrirsvarsmaður áfrýjanda, því sérstaklega aðspurðir að þeir teldu engu að síður staðalinn hafa gilt í samskiptum aðila. Hvorugur þeirra virðist þó hafi gætt þeirra reglna, sem staðallinn setur, varðandi þau verk, sem deilt er um í máli þessu.

Annar þeirra reikninga S.M. verktaka ehf., sem ágreiningur aðila snýst um, ber textann „v/Glerártorg. Aukaverk“. Eru síðan taldir upp fjórir verkliðir.

Fyrst eru tilgreindar „reyklúgur 4 stk.“ og í fjárhæðadálk reikningsins 96.000 krónur. Er sú fjárhæð án virðisaukaskatts, en skattinum var bætt í einu lagi við samtölu allra liða neðst á reikningnum. Fyrir héraðsdómi skýrði Steingrímur Steingrímsson svo frá að verkþáttur þessi hafi verið unninn á gömlum þökum úr strengjasteypu með einangrun og þakpappa ofan á og hafi S.M. verktökum ehf. verið ætlað að setja nýjan þakpappa ofan á þann, sem fyrir var. Gert hafi verið ráð fyrir að settar yrðu sex stórar reyklosunarlúgur á þakið. Eftir að búið var að loka þakinu og ganga frá því að fullu hafi verið ákveðið að bæta við fjórum smærri reyklosunarlúgum. Hafi áfrýjandi sett niður lúgurnar, en S.M. verktakar ehf. gengið frá pappanum í kring um þær að beiðni verkstjóra áfrýjanda. Áfrýjandi segir Ingva Óðinsson hafa verið eina verkstjóra sinn við framkvæmdina. Fyrir héraðsdómi kvaðst Ingvi ekki hafa gengið frá neinum samningum við Steingrím um aukaverk. Sigurður Sigurðsson sagðist í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi aðspurður ekki viss um þennan lið og vísaði á Harald Sigmar Árnason. Haraldur, sem er byggingatæknifræðingur og var tengiliður áfrýjanda við undirverktaka við umrædda framkvæmd, taldi vinnu við reyklúgur hafa verið hæfa til greiðslu ef um væri að ræða fleiri lúgur en gert hafi verið ráð fyrir í tilboði. Tryggvi Tryggvason byggingarverkfræðingur var byggingarstjóri Smáratorgs ehf. við framkvæmdirnar. Hann staðfesti fyrir héraðsdómi að umræddar reyklúgur hefðu ekki verið í upphaflegum áætlunum en komið til seinna. Hafi Smáratorgi ehf. verið gerður reikningur fyrir þessum lúgum og hann verið greiddur. Ekki liggja fyrir í málinu nein útboðsgögn, sem sýna hversu mörgum lúgum var gert ráð fyrir við útboð. Er nægilega sannað með framburði Tryggva að þessum lúgum hafi verið bætt við síðar. Þá liggur fyrir samkvæmt framburði Haraldar að kostnaður vegna frágangs við slíkar viðbótarlúgur hafi verið metinn greiðsluhæfur sem viðbótarverk. Þar sem ekki hefur verið leitt í ljós að sú greiðsla, sem S.M. verktakar ehf. fóru fram á vegna þessa, sé ósanngjörn verður fallist á þennan lið.

Í annan stað er á umræddum reikningi tilgreindur liðurinn „stefnutúður“ og í fjárhæðadálk 264.000 krónur. Steingrímur bar fyrir héraðsdómi að á mænum allra húsanna hafi með sex metra millibili verið sérstakar túður til að loftræsta þakið. Nefndust þær stefnutúður. Hafi sá maður, sem annaðist eftirlit með byggingunni fyrir Smáratorg ehf., beðið um að settar yrðu upp nýjar túður, en í útboðsgögnum hafi ekki verið gert ráð fyrir því. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvort áfrýjandi hafi komið að þessum ákvörðunum. Sigurður kvaðst minnast þess að stefnutúðurnar hefðu verið ræddar á fundi þegar menn áttuðu sig á að allt var brotið sem fyrir var og engin loftun á þökunum. Haraldur bar að Smáratorg ehf. hefði óskað eftir því við áfrýjanda að skipt yrði um stefnutúðurnar. Hann sagðist myndu hafa samþykkt greiðslu vegna þessa þáttar. Samkvæmt þessu er sannað að ekki var í upphafi gert ráð fyrir að skipt yrði um túður þessar og að Smáratorg ehf. fór þess á leit við áfrýjanda á verktímanum að það yrði gert. Þar sem einnig liggur fyrir að sá maður, sem fjalla átti um reikninga undirverktaka fyrir áfrýjanda, mat þennan lið greiðsluhæfan sem aukaverk verður á hann fallist.

Í þriðja lagi er á reikningnum tilgreindur liðurinn „nýjar festingar“ og í fjárhæðadálk 375.000 krónur, svo og „DHL kostnaður“ og 54.000 krónur í fjárhæðadálk. Í skýrslu Steingríms fyrir héraðsdómi kom fram að í upphafi hafi verið gert ráð fyrir að nýr þakpappi yrði límdur niður. Þeim frágangi hafi S.M. verktakar ehf. ekki treyst, enda bæru þeir ábyrgð á verkinu í 10 ár. Hafi þeir því lagt til að þess í stað yrði nýi dúkurinn festur niður með sérstökum plastfestingum, sem borað væri fyrir í gegnum einangrunina á þakinu, og þær negldar í strengjasteypu þaksins. Þetta hafi hönnuðir hússins samþykkt og áfrýjandi ekki gert athugasemd við þessa breytingu á verktilhögun. Tryggvi byggingarstjóri bar fyrir héraðsdómi að hann hafi fyrir hönd Smáratorgs ehf. fallist á þessa breytingu. Sigurður bar að Steingrímur hafi borið tillögu um þessa breytingu upp á fundi og hún verið samþykkt með því skilyrði að ekki yrði um aukakostnað að ræða. Steingrímur bar fyrir dómi að S.M. verktakar ehf. hafi pantað festingar miðað við að einangrun á þakinu væri 5 cm, en sú þykkt hafi verið gefin upp á teikningu. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa farið upp á þakið og mælt þykkt einangrunarinnar áður en hann bauð í verkið. Þegar síðan hafi verið farið að bora fyrir festingunum hafi komið í ljós að þykkt einangrunarinnar á þakinu hafi verið 8 til 9 cm og festingarnar því of stuttar. Um þetta hafi verið rætt á verkfundi, þar sem eðlilegt hafi verið talið að panta nýjar festingar, en það ekki rætt hver ætti að annast það. Hafi S.M. verktakar ehf. síðan pantað festingar af réttri lengd. Í fundargerð verkfundar 11. ágúst 2000 er bókað að Steingrímur hafi skýrt frá því að panta þurfi nýjar festingar þar eð einangrun hafi reynst þykkari en teikningar sýndu. Síðan er bókað „Verktaki telur að hér sé um aukakostnað að ræða. Málið verður athugað nánar.“ Haraldur bar að þegar Steingrímur hafi upplýst áfrýjanda um þetta vandamál hafi það verið rætt við verkkaupann, Smáratorg ehf. Hafi viðbrögð hans verið að panta þyrfti nýjar festingar með hraði því að ella myndi verkið stöðvast. Málið hafi síðan verið rætt á fleiri en einum verkfundi og verkkaupinn með öllu hafnað að borga kostnað vegna þessa.

Á teikningu, sem vísað er til í verksamningi, er á þversniði gefið upp að þykkt einangrunar á þakinu sé 50 mm. Annars staðar á teikningunni er við sérmynd textinn „þykkt eins og á eldra þaki (100 mm?)“. Það var mat sérfróðra meðdómsmanna í héraði að umrædd teikning væri misvísandi, því að hún hefði átt að bera með sér að þykkt einangrunar væri breytileg. Verður á því mati byggt. Ekki verður séð að S.M. verktakar ehf. hafi getað staðreynt þykkt einangrunar á þakinu með skoðun, heldur hefði þurft að bora göt á þakið til þess. Verður því ekki talið að undirverktakinn hafi vanrækt skoðunarskyldu sína. Verður áfrýjandi samkvæmt þessu að bera kostnað, sem hlaust af framangreindum hnökrum á teikningunni, og verður fallist á kröfur samkvæmt þessum liðum.

Í fjórða og síðasta lagi er á framangreindum reikningi liðurinn „ísetning á nýjum niðurföllum“ og í fjárhæðadálk 48.000 krónur. Eins og að framan er rakið var tekið fram í viðbótartilboði S.M. verktaka ehf. að niðurföll væru ekki innifalin í tilboðsverði. Steingrímur bar fyrir héraðsdómi að sett hafi verið ný niðurföll á húsið. Hafi það verið gert að beiðni byggingareftirlitsmanns Smáratorgs ehf. og hafi menn frá áfrýjanda annast tengingu þeirra. Haraldur taldi að gert hefði verið ráð fyrir nýjum niðurföllum í útboðsgögnum. Hann treysti sér ekki til að fullyrða hvort S.M. verktakar ehf. hefðu komið sjálfum niðurföllunum fyrir, en það hefði verið í þeirra verkahring að þétta að þeim. Þar sem fyrir liggur að kostnaður vegna niðurfallanna var ekki innifalin í tilboði S.M. verktaka ehf., ekkert er fram komið um að þetta verk hafi ekki verið unnið af þeim og ekki er í ljós leitt að umkrafin greiðsla sé ósanngjörn verður fallist á þennan lið.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á alla liði umrædds reiknings og þar með reikninginn í heild, en hann er að fjárhæð 837.000 krónur með virðisaukaskatti.

Hinn reikningurinn, sem ágreiningur er um, er samkvæmt yfirskrift sinni vegna vinnu fyrir Blikkrás ehf. Í texta hans kemur síðan fram að um sé að ræða vinnu 30. og 31. október og 7. og 8. nóvember 2000 vegna þéttinga með þakblásurum og lofttúðum frá nánar tilgreindum rýmum í húsinu. Steingrímur skýrði svo frá fyrir héraðsdómi að í útboðgögnum hefði hvergi verið gert ráð fyrir loftræstiblásurum. Eftir að búið hafi verið að ganga frá þakinu hafi verið söguð í það göt vegna þessara blásara og S.M. verktakar ehf. gengið frá þéttingu þaksins með þeim. Hafi það verið gert að beiðni verkstjóra áfrýjanda. Ingvi verkstjóri bar að loftræsting þessi hafi ekki verið á vegum áfrýjanda, heldur Blikkrásar ehf., og hafi hann ekkert skipt sér af henni. Sigurður skýrði svo frá að Blikkrás ehf. hafi séð um loftræstikerfið í byggingunni sem sjálfstæður verktaki og hafi áfrýjandi hvergi komið þar nærri. Á sama veg bar Haraldur. Tryggvi bar að verk við loftræstingu í byggingunni hafi ekki verið unnin fyrir Smáratorg ehf. Einstakir leigutakar í húsinu hafi þurft að sjá um þann þátt og Blikkrás ehf. unnið það verk fyrir flestar verslanir í húsinu. Samkvæmt þessu er ljóst að umrætt verk var ekki unnið í þágu áfrýjanda.

 Áfrýjandi mótmælti ekki þessum reikningi skriflega. Fyrir liggur að verk þetta var unnið í lok október og byrjun nóvember 2000 eftir að S.M. verktakar ehf. höfðu lokið verki sínu og gengið frá þakinu. Reikningurinn er að vísu stílaður á áfrýjanda, en hann ber það með sér að verkið var unnið fyrir Blikkrás ehf. Verður ekki talið að vanræksla áfrýjanda á að mótmæla reikningnum skriflega geti skapað honum greiðsluskyldu við þessar aðstæður. Ekki verður því fallist á að áfrýjanda beri að greiða kröfu samkvæmt reikningi þessum.

Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 837.000 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, S.S. Byggir ehf., greiði stefnda, þrotabúi S.M. verktaka ehf., 837.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. desember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. mars 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. mars sl, er höfðað 22. júní 2001 af S.M. verktökum ehf., Hafnarbraut 6, Kópavogi.  Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 29. janúar sl. í Héraðsdómi Reykjaness.  Sveinn Andri Sveinsson, hrl. var þann sama dag skipaður skiptastjóri og hefur þrotabúið tekið við aðild málsins.

Stefndi er S.S. Byggir ehf., Kaldbaksgötu 1, Akureyri.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að hinu stefnda félagi verði gert að greiða stefnanda 1.328.957 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 10. desember 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.  Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum og málskostnaður verði felldur niður.

I.

Stefnandi kveðst hafa unnið fyrir stefnda, sem undirverktaki, við byggingu Glerártorgs á Akureyri, fjölverslunarhúss, sumarið og haustið 2000, samkvæmt samningi.  Að loknu verki kveður stefnandi stefnda hafa farið þess á leit við stefnanda að hann annaðist þéttingu á fleiri lofttúðum, jafnframt því að kaupa af stefnanda byggingarefni, sem því verki tengdist.

Dómkrafa stefnanda byggir á þremur reikningum þar sem krafist er greiðslu bæði fyrir vinnu og efni en þeir eru svohljóðandi:

Reikningur nr. 1859:

 

V/Glerártorg    Aukaverk:

 

Reyklúgur 4 stk.

96.000  krónur

Stefnutúður 48 stk. x 5.500

264.000   

Nýjar festingar 25.000 stk .x 15

375.000   

DHL kostnaður

  54.000   

Ísetning á nýjum niðurföllum16 stk. x 3.000

48.000     

Virðisaukaskattur

164.712   

Samtals

837.000  krónur

 

Reikningur nr. 1860:

 

Verk fyrir S.S. Byggir

 

Þétting með reyklosunarlúgum:

 

Tímavinna 5 klst. x 3.200 29.okt.00

16.000   krónur

Tímavinna 10 klst. x 3.200 6.nóv.00

32.000     

Efni: Yfirpappi 25 m2 x 1.000

25.000     

Undirpappi 10 m2 x 1.000

10.000     

Ferðakostnaður, fæði og gisting

43.515     

Virðisaukaskattur

24.897     

Samtals

126.515  krónur

 

Reikningur nr. 1861:

 

Verk fyrir Blikkrás:

 

Unnið við þéttingu með loftblásurum frá Nettó og Rúmfatalager 30.okt.00

 

Unnið við þéttingu á lofttúðum frá smáverslunum og inntakskompu fyrir rafmagn og hita 31.okt.00

 

Unnið við þéttingu á lofttúðum yfir smáverslunum 07.nóv.00

 

Lagt í kringum þakblásara við norðurvegg 08.nóv.00

 

Efni: Undir- og yfirpappi 80 m2 x 1.000

80.000  krónur

Tímavinna: 41 klst. x 3.200

131.200  

Ferðir, gisting og fæði

154.242  

Virðisaukaskattur

  71.914  

Samtals

365.442  krónur

 

Stefnandi byggir greiðsluskyldu stefnda á þeim málsástæðum að samningar séu skuldbindandi og að greiða beri það verð sem þjónustufyrirtæki setji upp nema það sé bersýnilega ósanngjarnt.  Stefnandi mótmælir því að stefndi hafi stöðvunarrétt á greiðslu á þeirri forsendu að stefndi hafi ekki fengið greitt frá Smáratorgi ehf.

Ennfremur mótmælir stefnandi því að einhverjar ástæður geti réttlætt greiðslu­drátt stefnda og byggir á þeirri málsástæðu að sú þjónusta sem beðið hafi verið um og innt var af hendi með óaðfinnanlegum hætti hafi komið hinu stefnda félagi að fullum notum sem aðalverktaka.

Stefnandi byggir dómkröfu sína á reglum samningaréttarins um skuld­bind­ingargildi samninga og réttarreglum um loforð.  Þá vísar stefnandi til þeirrar grund­vallarreglu verktakaréttar að verktakinn eigi rétt á greiðslu verklauna þegar verk hafi verið unnið.  Einnig byggir stefnandi dómkröfu sína á grunnreglu 5. gr. kaupa­laga.

Af hálfu stefnda er dómkröfum stefnanda mótmælt og byggt á þeirri máls­ástæðu að málsaðilar hafi gert með sér verksamning þann 24. maí 2000, þess efnis að stefnandi tæki að sér að leggja þakpappa á þak verslunarmiðstöðvar, sem verið væri að reisa á Gleráreyrum á Akureyri.  Samkvæmt verklýsingu var verkið fólgið í því að leggja tvö lög af þakpappa og þétta í kringum öll op á þaki.  Verkið átti að greiðast samkvæmt einingaverði.  Af hálfu stefnda er því haldið fram að greiðslur hafi verið inntar af hendi samkvæmt verksamningi.  Stefnandi sé annars vegar að krefja stefnda um greiðslur vegna aukaverka, en á það getur stefndi ekki fallist, því ekki verði annað séð en um sé að ræða verk, sem falli undir verklýsingu og voru því innifalin í samningsverkinu.  Hins vegar er verið að krefja stefnda um greiðslu á reikningi nr. 1861, sem sé honum óviðkomandi þar sem verkið hafi verið unnið fyrir annan aðila.

Af hálfu stefnda er greiðsluskyldu á reikningi nr. 1859, samtals að fjárhæð 837.000 krónur, mótmælt á þeirri forsendu að ekkert liggi fyrir um það að reyklúgur, stefnutúður og ísetningu niðurfalla teljist til aukaverka.  Á þeirri forsendu verði litið svo á að framangreind verk hafi verið innifalin í samningsverkinu og því þegar upp­gerð og frekari greiðsluskyldu mótmælt.

Varðandi kaup á nýjum festingum mótmælir stefndi greiðsluskyldu á þeirri forsendu að stefnandi hafi óskað eftir breytingum á því hvernig ætti að festa neðra lag þakpappans.  Það hafi verið stefnandi sem óskaði eftir því að festa þakpappann með skrúfufestingum í stað þess að bræða hann á eldra þak.  Af teikningum megi ráða að einangrun sé 50 mm þykk og hafi stefnandi keypt festingar miðað við þá þykkt.  Síðar hafi komið í ljós að einangrun sé þykkri og hafi stefnandi orðið að kaupa nýjar festingar sem hann hafi fengið sendar með hraðsendingu.  Stefnandi hafi vakið athygli á þessu á verkfundi 11. ágúst 2000, en þar hafi ekki verið samþykkt að greiddur yrði sá kostnaðarauki sem þetta hafði í för með sér.  Hvorki stefndi né Smáratorg ehf. hafa fallist á það að þeim beri að greiða þennan kostnað og hefur greiðsluskyldu verið hafnað á þeirri forsendu að stefnanda hafi borið að kynna sér aðstæður áður en hann keypti festingarnar.  Ennfremur er greiðsluskyldu hafnað á þeirri forsendu að stefnanda hafi borið að fá samþykki stefnda áður en hann keypti festingarnar, en það hafi hann ekki gert og verði hann að bera af því hallann.  Þá er ennfremur á því byggt að stefndi hafi samþykkt breytingu á verktilhögun á þeirri forsendu að verkið yrði ekki dýrara, enda hafi verkkaupi neitað að fallast á greiðslu á þessum verklið.

Þá mótmælir stefndi greiðsluskyldu á reikningi nr. 1860 samtals að fjárhæð 126.515 krónur, sem er vegna vinnu við þéttingu við reyklosunarlúgur á þeirri for­sendu að sú vinna falli beint undir verklýsingu og því beri ekki að greiða sérstaklega fyrir það sem aukaverk.  Í verklýsingu sé tekið fram að innifalið í einingaverði sé þétting í kringum öll op á þaki.

Stefndi mótmælir greiðsluskyldu á reikningi nr. 1861, samtals að fjárhæð 365.442 krónur á þeirri forsendu að þessi reikningur sé honum með öllu óviðkomandi.  Um sé að ræða verk, sem virðist unnið samkvæmt beiðni Blikkrásar ehf. en það fyrirtæki hafi einnig verið undirverktaki stefnda við bygginguna. Blikkrás ehf. hafi enga heimild til að skuldbinda stefnda og beri stefnanda að beina þessum reikningi að Blikkrás ehf.  Þá sé greiðsluskyldu ennfremur mótmælt á þeirri forsendu að ekki verði annað séð en um sé að ræða verk, sem falli undir verklýsingu og þar með innifalið í einingaverði og af þeirri ástæðu beri stefnda ekki að greiða þennan reikning.

Varakrafa stefnda á lækkun á dómkröfum er studd með eftirfarandi máls­ástæðum.  Engar tímaskýrslur eða magntölur hafi verið lagðar fram í málinu.  Þá sé heldur ekki lagðar fram kvittanir fyrir aðkeyptu efni.  Stefndi geti því ekki gengið úr skugga um réttmæti reikninga stefnanda.  Stefndi telji reikninga stefnanda allt of háa og það beri að leggja einingaverð til grundvallar en ekki tímavinnu ef stefnandi verði talinn eiga rétt á frekari greiðslum. 

II.

Steingrímur Steingrímsson, þáverandi framkvæmdastjóri hjá stefnanda og Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá stefnda gáfu aðilaskýrslu fyrir dómi.  Stefnandi leiddi sem vitni fyrir dómi Magnús Bjarnason, byggingaverkfræðing og bygginga­stjóra hjá Smáratorgi ehf., Tryggva Tryggvason, tæknifræðing og eftirlitsmann hjá Smáratorgi ehf. og Ingva Óðinsson, verkstjóra hjá stefnda.  Af hálfu stefnda kom sem vitni fyrir dómi Haraldur Sigmar Árnason, byggingatæknifræðingur hjá stefnda.

Af framburðum ofangreindra aðila má ráða að ekki er ágreiningur um það að þétting með 4 reyklosunarlúgum yfir smáverslunarrýmum taldist til aukaverka. Enn­fremur þétting með 48 stefnutúðum.  Hins vegar var meira álitamál hvernig litið yrði á ísetningu nýrra niðurfalla.  Steingrímur Steingrímsson bar að Tryggvi Tryggvason, hafi óskað eftir því að stefnandi sæi um verkið.  Haraldur Sigmar Árnason bar hins vegar að hann hafi ekki getað samþykkt greiðslu á þessum lið, þar sem hann hafi ekki vitað hvort ísetning niðurfalla hafi verið inni í tilboði stefnanda.  Í upphafi hafi verið gert ráð fyrir 32 niðurföllum í útboðsgögnum.  Ísetning niðurfalla hafi hins vegar ekki verið í verkahring stefnanda.  Vitnið kvaðst ekki vita hver hafi séð um að setja niður niðurföllin.  Vitnið kvaðst ekki vita til þess að annar verktaki hafi gert reikning fyrir ísetningu niðurfalla.  Tryggvi Tryggvason bar fyrir dómi að honum væri ókunnugt um hvern stefndi hafi fengið til verksins.

Varðandi kaup á nýjum festingum kom eftirfarandi fram.  Ágreiningslaust er að samþykkt var áður en verkið hófst að stefnanda væri heimilt að víkja frá verklýsingu við festingu þakpappans, að því tilskildu að kostnaður yrði ekki meiri og gæði ekki lakari.  Við kaup á festingum fór stefnandi eftir teikn­ingum, en þar kemur fram á deiliteikningu að þykkt einangrunar á þaki er 50 mm.  Síðar kom í ljós að einangrun var þykkri allt að 80 mm.  Í ljós kom að teikningar voru misvísandi þar sem fram kom á deiliteikningu (99) 5.52 að þykkt einangrunar væri allt að 100 mm.  Stefnanda var gert að panta nýjar festingar.  Fram kom hjá Haraldi Sigmari Árnasyni að eftirlitsmaður lagði á það áherslu að það yrði gert með hraði til þess að tefja ekki verkið.

Varðandi reikning nr. 1861 með skýringu: ,,Verk fyrir Blikkrás” kom eftirfarandi fram.  Forsvarsmaður stefnanda kvaðst hafa sett inn þá skýringu og sent til stefnda til þess að stefndi, sem aðalverktaki, gæti endurkrafið Blikkrás ehf. með álagningu sem stefndi ætti rétt á.  Ennfremur bar vitnið að trúlega hafi það verið Ingvi Óðinsson, sem hafi óskað eftir að stefnandi tæki að sér umrætt verk.  Ingvi staðfesti ekki framburð Steingríms.  Ingvi kvað uppsetningu loftblásara ekki hafa verið á vegum stefnda og hafi hann því engin afskipti haft af þessu máli.  Haraldur Sigmar Árnason bar fyrir dómi að hann hafi litið svo á að þessi reikningur hafi verið stefnda óviðkomandi.  Reikningurinn hafi verið stílaður á Blikkrás ehf. og hafi stefnanda því borið að beina honum til þess aðila.  Vitnið bar að stefndi hafi ekki tekið að sér loft­ræstikerfin heldur hafi Blikkrás ehf. gert það.  Vitnið kvaðst ekki hafa framsent reikninginn til Blikkrásar ehf. á þeirri forsendu að stefnandi hafi átt að beina honum að Blikkrás ehf. án atbeina stefnda.  Haraldur Sigmar kvaðst ekki geta svarað því hvort reikningurinn hefði verið endursendur til stefnanda.  Sigurður Sigurðsson for­svarsmaður stefnda bar fyrir dómi að Blikkrás ehf. hafi séð um loftræstistikerfi fyrir stefnda.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð reikning stefnanda fyrir vinnu vegna þéttingu við loftræstikerfin fyrr en löngu eftir verklok.  Sigurður bar fyrir dómi að Oddur forsvarsmaður Blikkrásar ehf. hafi tjáð honum að Oddur hafi beðið stefnanda um að vinna verkið.  Tryggvi Tryggvason bar fyrir dómi að Smáratorg ehf. hafi verið með einn aðalverktaka, stefnda.  Hvern aðalverktakinn hafi fengið til að sjá um loftræstikerfin hafi Smáratorgi ehf. verið ókunnugt um.  Smáratorgi ehf. hafi ekki borist sérstakur reikningur vegna þéttingar með loftblásurum.

Magnús Bjarnason, byggingastjóri hjá Smáratorgi ehf., bar fyrir dómi að allir reikningar sem aðalverktaki lagði fyrir Smáratorg ehf. vegna vinnu undirverktaka hafi verið samþykktir að undanskildum reikningi stefnanda vegna kaupa á nýjum festingum.

Fram kom hjá Steingrími Steingrímssyni, Sigurði Sigurðssyni og Haraldi Sigmari Árnasyni að þeir hafi litið svo á að meginreglur íslensks staðals ÍST 30:1997 hafi gilt í samskiptum aðila, þó ekki hafi verið vísað til hans sérstaklega í óundirrituðum verk­samningnum, dagsettum 24. maí 2000.  Staðalsins hafi hins vegar verið getið í útboðslýsingu fyrir aðalverkið.

III.

Þrátt fyrir að aðilar séu sammála um að meginreglur íslensks staðals ÍST 30:1997 hafi gilt í samskiptum aðila þá víkja báðir málsaðilar frá þeim reglum í samskiptum sínum.  Til dæmis hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi tilkynnt skriflega eða mætt á verkfundi og fengið bókaðar beiðnir um aukaverk og tryggt skriflegt samþykki fyrir framkvæmd þeirra, samkvæmt grein 16.6 í ÍST 30:1997.  Á hitt er einnig að líta að stefndi gætti þess ekki að greiða þá hluta reikninga stefnanda, sem ekki voru umdeildir, sem honum bar samkvæmt grein 31.10 í ÍST 30:1997.

Verður fjallað um hvern einstakan reikning og byrjað á reikningi nr. 1859.  Ekki er ágreiningur um að þétting með 4 reyklúgum hafi verið aukaverk, sem stefnda bar að greiða.  Stefnandi greindi frá því að innfalið í fjárhæðinni 96.000 krónur væri vinna, ferðir, fæði og virðisaukaskattur.  Að mati dómsins er fjárhæðin sanngjörn og krafa stefnanda tekin til greina.  Fyrir dómi lýsti forsvarsmaður stefnda yfir að ekki væri ágreiningur um greiðslu fyrir þéttingu með 48 stefnutúðum samtals 264.000 krónur og er stefnda gert að greiða stefnanda þá fjárhæð, sem að mati dómsins er talin sanngjörn.

Ágreiningslaust er að stefnandi fékk samþykki stefnda og verkkaupa fyrir því að víkja frá verklýsingu hvernig þakpappinn yrði festur á þakið, að því tilskildu að sú leið væri ekki kostnaðarmeiri og gæði ekki lakari.  Þegar stefnandi keypti festingar hefur hann til hliðsjónar teikningar unnar af Arkís í Reykjavík sem voru hluti af samningsgögnum samkvæmt 2. gr. verksamningsins, dagsettum 24. maí 2000.  Á deiliteikningu merktri nr. (99)5.52 kemur fram að þykkt einangrunar á þaki er 50 mm.  Hinir sérfróðu meðdómarar telja að umrædd teikning sé misvísandi, því teikningin hefði átt að bera með sér að þykkt einangrunar væri breytileg.  Gögn málsins bera það með sér að stefnandi gerði stefnda grein fyrir þessum vanda og hann leit svo á að um aukakostnað væri að ræða, sbr. verkfund 11. ágúst 2000.  Stefnandi hefur því fram­fylgt ákvæði gr. 14.4 í ÍST 30:1997.  Haraldur Sigmar Árnason bar fyrir dómi að verkkaupi hafi óskað eftir því að nýjar festingar yrðu keyptar með hraði til þess að ekki yrðu tafir á framkvæmdum.  Eins og mál þetta liggur fyrir telur dómurinn að stefndi verði að bera hallann af kostnaðarauka sem leiðir af misvísandi teikningum og á þeirri forsendu eru kröfur stefnanda um greiðslu fyrir kaup á nýjum festingum 25.000 x 15 krónur samtals 375.000 krónur og sendingarkostnaður 54.000 krónur teknar til greina. 

Ljóst er af tilboði stefnanda að ísetning niðurfalla er ekki innifalin í samningsupphæð.  Í vætti Haraldar Sigmars Árnasonar, kom fram að ekki hafi annar undirverktaki gert reikning fyrir ísetningu niðurfalla.  Á þeirri forsendu að hvorki hafi þessum reikningslið verið mótmælt né sýnt fram á að hann sé bersýnilega ósanngjarn, er hann tekin til greina og ber stefnda að greiða stefnanda 48.000 krónur.

Næst verður næst fjallað um reikning nr. 1860.  Eins og að framan hefur verið rakið innheimti stefnandi í reikningi nr. 1859 greiðslu fyrir heildarkostnaði vegna þéttinga með 4 reyklúgum sem ekki voru í verksamningi hans.  Stefnanda hefur ekki tekist að sýna fram á að reikningur nr. 1860 taki til annars kostnaðar en þess sem hann hefur þegar krafið stefnda greiðslu á í reikningi nr. 1859.  Á þeirri forsendu er krafa stefnanda að stefnda verði gert að greiða reikning nr. 1860 að fjárhæð 126.515 krónur ekki tekin til greina.

Að lokum verður fjallað um reikning nr. 1861.  Magnús Bjarnason hefur borið fyrir dómi að stefndi hafi verið aðalverktaki gagnvart Smáratorgi ehf. og hafi honum verið ókunnugt um hvern stefndi fékk til að vinna einstök verk.  Tryggvi Tryggvason bar fyrir dómi að hann minntist þess ekki að þessi umræddi reikningur hafi verið sýndur Smáratorgi ehf.  Haraldur Sigmar Árnason bar fyrir dómi að hann hafi litið svo á að reikningur þessi væri stefnda óviðkomandi, þar sem hann hafi verið stílaður á Blikkrás ehf.  Forsvarsmaður stefnanda kvaðst hafa ritað nafn Blikkrásar ehf. á reikninginn til þess að stefndi gæti innheimt reikninginn hjá Blikkrás ehf. með álagningu sem aðal­verktaki.  Dómurinn lítur svo á að hafi stefndi talið að reikningnum væri ranglega beint að sér hafi honum borið án ástæðulauss dráttar að endursenda hann.  Það gerði stefndi ekki.  Hann mótmælti heldur ekki reikningnum skriflega, sem honum bar samkvæmt meginreglum 31. kafla ÍST 30:1997.  Með aðgerðarleysi stefnda glataði stefnandi rétti til þess að beina reikningnum að Blikkrás ehf., sem hefði síðan getað fram­vísað honum til Smáratorgs ehf.  Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið verður stefndi að bera hallann af tómlæti sínu og er krafa stefnanda að stefndi greiði stefnanda reikning nr. 1861 að fjárhæð 365.442 krónur tekin til greina. 

Varðandi varakröfu stefnda um lækkun reikninga á þeirri forsendu að reikningar stefnanda séu hvorki studdir fylgiskjölum né magntölum fyrir einstaka liði, er til þess að líta að sannanleg krafa þess efnis kom ekki fram við yfirferð reikninganna.  Dómurinn lítur svo á að hér sé um reikningsvinnu að ræða og reikningum hefur ekki verið mótmælt með sannan­legum hætti samkvæmt grein 31.13.1 í ÍST 30:1997.  Í ljósi þessa og þar sem hinir sérfróðu meðdómarar telja að reikningar nr. 1859 og 1861 séu ekki bersýnilega ósanngjarnir, er varakröfu hafnað.

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið ber stefnda að greiða stefnanda 1.202.442 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðinn 162.000 krónur.  

Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri, kveður upp dóm þennan ásamt sérfróðum meðdómurum Ásmundi Ingvarssyni og Stanley Pálssyni, byggingaverkfræðingum.

D ó m s o r ð .

Stefndi, S.S. Byggir ehf., greiði stefnanda, þrotabúi S.M. verktaka ehf., 1.202.442 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. desember 2000 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags og 162.000 krónur í málskostnað.