Hæstiréttur íslands
Mál nr. 298/2006
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 23. nóvember 2006. |
|
Nr. 298/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl. Björn Þorri Viktorsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gagnvart stjúpdóttur sinni Y og fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga með nánar tilgreindri háttsemi gagnvart stúlkunni Z. Talið var sannað að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi, þó þannig að brot gegn Z voru öll talin hafa átt sér stað í september 2004. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða báðum stúlkunum miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til að greiða Y 2.000.000 krónur og Z 1.500.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum samkvæmt ákæru.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega sýknu af bótakröfum, til vara að þeim verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að fjárhæðir þeirra verði lækkaðar.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 356.418 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2006.
Málið er höfðað með ákæruskjali dags. 13. desember 2005 á hendur X, kt. [...], eþíópískum ríkisborgara, Reykjavík, fyrir eftirgreind kynferðisbrot framin í Reykjavík:
Gegn stjúpdóttur sinni Y, fæddri 1994, með því að hafa:
1. Í júní 2000, í svefnherbergi stúlkunnar á heimili þeirra í A, snert nakin brjóst hennar, rass og kynfæri með höndum sínum, lagst ofan á hana og strokið getnaðarlim sínum við kynfæri hennar.
2. Frá desember 2002 til októberloka 2004 á heimili þeirra í B, í mörg skipti sett getnaðarlim sinn í kynfæri og endaþarm stúlkunnar og í eitt skipti snert andlit hennar með berum getnaðarlim sínum. Áttu brotin sér stað í svefnherbergi stúlkunnar, holi, baðherbergi, eldhúsi og í geymslu sem tilheyrir íbúðinni.
Gegn stúlkunni Z, fæddri 1994, með því að hafa:
3. Á tímabilinu júlí til september 2004 í svefnherbergi Y á heimili þeirra í B, lagst nakinn að neðan ofan á Z og strokið getnaðarlim sínum við nakin kynfæri hennar.
4. Á tímabilinu júní til október 2004 í geymslu sem tilheyrir framangreindri íbúð í B, í að minnsta kosti fimm skipti sett getnaðarlim sinn í kynfæri stúlkunnar.
Háttsemi ákærða samkvæmt 1. og 2. tölulið þykir varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992 og 3. gr. laga nr. 40/2003, en samkvæmt 3. og 4. tölulið við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur á hendur ákærða:
Af hálfu Y, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 8. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu Z, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2004 til 8. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara lækkunar á þeim. Loks krefst hann málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málavextir:
Ákæruliðir 1 og 2, vegna meintra brota gegn Y
Hinn 8. júlí 2005 lagði C fram kæru á hendur fyrrverandi eiginmanni sínum X, ákærða í máli þessu, fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn ólögráða dóttur hennar, Y, sem átt hafi sér stað á árinu 2000 fram til ársins 2004. Kvaðst hún hafa kynnst ákærða í lok maí 2000 og þau hafi hafið sambúð í lok júní á heimili hennar að A. Þau hafi flutt í B rétt fyrir jólin árið 2002. Í októberlok árið 2004 hafi þau slitið samvistum og fengið lögskilnað 10. maí 2005.
Kærandi kvaðst hafa verið kölluð til yfirheyrslu á lögreglustöðina Breiðholti daginn áður og fengið að vita að ákærði væri grunaður um kynferðisbrot gegn Z, sem væri vinkona Y. Þetta hafi orðið til þess að hún ræddi við dóttur sína um það hvort ákærði hefði misnotað hana. Hafi Y í fyrstu farið í vörn en síðan brotnað saman og greint frá því að ákærði hafi margsinnis átt við hana endaþarmsmök og kynmök um leggöng en fyrir það hafi hún þegið peningagreiðslur. Kærandi kvað Y hafa greint frá því að misnotkunin hafi átt sér stað að A, í herbergi hennar og að B í geymslunni þar, herbergi hennar, baðherbergi og eldhúsi.
Ákærði var handtekinn 8. júlí 2005 og sætir nú farbanni. Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann dag, að viðstöddum túlk, neitaði hann sök. Kvaðst hann oft hafa átt í illdeilum við kæranda, fyrrverandi eiginkonu sína en hún hafi verið ósátt við skilnað þeirra og bæri því hefndarhug til hans. Kvað hann hana hafa haft í hótunum við sig og neitað honum um að hitta börn þeirra. Hann kvað ásakanir Y ekki eiga við rök að styðjast. Ákærði hélt fast við framburð sinn í yfirheyrslu lögreglu 14. júlí, 8. október og 10. nóvember 2005.
Hinn 8. júlí 2005 gekkst Y undir réttarlæknisfræðilega skoðun hjá Arnari Haukssyni dr. med. Í skýrslunni er haft eftir Y: ,,Stundum þegar mamma er sofandi, þá kemur hann einn inn til mín og efir að ef ég sé (sic) góð gefi hann mér 1000 kall. Stundum setur hann peninginn undir koddann. Hann er í nærbuxum og bol og leggst upp í rúmið til mín og fer að káfa á mér og fer oft með hendina á neðri fremri hlutann og nuddar þar. Svo hefur hann tekið út tippið á sér og setur í neðri fremri hlutann eða aftari. Stundum er það sárt og stundum ekki og stundum er það óþægilegt. Stundum er sárt að pissa þegar hann hefur gert þetta. Stundum þegar hann heyrir mömmu vera að vakna að strákan( sic) vaknar hann og fer aftur inn til mömmu. Stundum fer hann svo inn í herbergi til mömmu og stundum kemur hann svo aftur um nóttina og gerir allt aftur. Hann sagði að ég mætti ekki segja mömmu því þá fengi ég ekki pening og ég var hrædd og þorði ekki að segja mömmu því hann var svo oft heima og sleppti þá vinnunni. Stundum hefur hann boðið mér að vera hjá sér í baði eða sturtu og þá hefur hann (segi bara eins og það er) með T í annan hvorn neðri endann. Stundum er það sárt. Hann hefur líka gert það í geymslunni og inni í forstofu í íbúðinni þegar strákarnir voru heima og í play-station, þá hefur hann farið bak við vegginn. Aðspurð hvernig hann láti hana gera þegar hann gerir þetta þá beygir hún sig fram á við og segir að hann láti hana beygja sig og standi bak við hana. Hann hefur verið með krem, já Nivea krem. Hann lætur mig setja kremið og látið mig sjálfa en einu sinni setti hann það sjálfur. Annars talar hann á ensku; segir ,,put the kream on”. Hann hefur einu sinni komið með T eins og maður sé með tannbursta við munninn og nefið. Hann hefur sett slefið sitt á T-ið og sett það í neðri fremri. Alltaf þegar hann gerði þetta þurfti ég svo að fara á klósettið þegar hann sá ekki til og þurrka mér því ég var blaut eftir þetta. Á 17. júní kom hann alltaf í kojuna til mín neðri og efri (sennilega í fyrsta sinnið). Stundum hefur þetta verið sárt en ég hef aldrei grátið. Hef ekki þorað það. Hann gaf mér oft pening en ekki alveg alltaf, en stundum tók hann peninginn til baka. Stundum þegar hann var að reyna gerði ég eins og þegar maður er með martröð og reyni að ýta mér undan og sagði eins og ég væri sofandi ummmmm og fór undan og þá fór hann í burtu og tók peninginn ... Einu sinni sagði ég vinkonu minni þetta og þá sagði hún að hann gerði þetta líka við sig.”
Í samantekt læknis um ástand Y við skoðun segir að hún hafi verið hrædd og setið þétt að móður sinnar og horft oft til hennar eins og hún hafi verið hrædd um að móðir hennar yrði sár og hafi spurt hana m.a. einu sinni; ,,mamma ertu að gráta, mamma það var tár á kinninni á þér.“ Þá segir í skýrslunni að hún hafi verið einlæg og samvinnuþýð en greinilega hrædd.
Í niðurstöðu skýrslunnar segir m.a.: ,,Hún (innsk. Y) á mjög erfitt í fyrstu að segja sögu sína, hvíslar svo nánast heyrist ekki og stundum lítur hún á móður sína sem er með í viðtali og segir ,,þetta er það sem ég ætlaði að fara að segja við þig“ en móðir hennar fékk fyrst að vita um þetta í gær... Hún er grafalvarleg meðan á frásögn stendur, stoppar oft og horfir þögul fram fyrir sig eins og hún sé að rifja upp atburði sem hún vill ekki muna en svo kemur allt í einu hver smáfrásögnin eftir aðra, alltaf með þögn og hléum á milli. Við skoðun er hún hrædd. Við fáum þó að kíkja á ytra rassop sem er teygjanlegt en þegar við snertum endaþarmsop segir hún ,,æ,æ“ og aðspurð segir hún þetta vera eins og maðurinn gerði þetta með T. Við fáum líka að sjá ytra leggangsop sem virðist ekki vera rifið, og sést að meyjarhaftshring sem virðist heill, en þá verður hún hrædd og spennir sig og ekki er ráð að skoða hana nema í svæfingu til að valda ekki hræðslu eða andlegum áhrifum hjá henni. Aðspurð segir hún að hann hafi oftast sett T aftan frá milli fótanna á henni...“
Þá skoðaði Arnar Hauksson kynfæri og endaþarm Y í svæfingu 12. júlí 2005. Í skýrslu læknisins kemur fram að við skoðun á ytra umhverfi leggangna og á ,,hymen kanti“ hafi ekki sést áverkar og ,,hymen hringurinn“ hafi reynst heill og þröngur. Við skoðun á endaþarmi hafi ekki sést áverkar en endaþarmsop hafi verið óvenju vítt og án mótstöðu. Þá hafi ekki sést nein ör eða ummerki slíks.
Í málinu liggur frammi vottorð Vigdísar Erlendsdóttur, forstöðumanns Barnahúss, frá 3. mars 2006 um mat á því hvaða afleiðingar ætluð kynferðisbrot ákærða hafi haft fyrir Y. Hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur óskað eftir sérfræðilegri greiningu og meðferð fyrir hana 13. júlí 2005, vegna gruns um slík brot gegn henni. Í vottorðinu er því lýst hvernig Y brást við í viðtölunum. Þar segir: ,,Í viðtölunum átti telpan erfitt með að ræða atburðina og greip stundum til þess ráðs að skrifa það sem henni bjó í brjósti. Fram kom að hún glímdi við endurupplifanir í formi martraða og þrálátra hugsana og ímynda. Telpan mætti í viðtal þann 21. okt. en hún hafði þá skrifað í dagbók sína: ,,Í dag fór ég ekki í skólann því að amma vakti mig ekki. Og þegar ég var búin að sofa aðeins leingur byrjaði ég að dreyma um hann X. Þetta var ekki góður draumur. Hann var þannig að X reyndi að setja typpið í rassinn á mér. En ég náði að flýja í burtu sem betur fer! En hann byrjaði að elta mig en svo hrökk ég upp úr draumnum. Þetta var ekki skemmtilegur draumur ég var næstum því farin að gráta“ (svo ritað). Í viðtali þann 28. desember lýsti telpan endurupplifunum á ný. Kvaðst hún vilja skrifa niður atvikið sem hún sæi fyrir sér en hún gæti ekki sagt það og skrifaði eftirfarandi: “Alltaf þegar hann var að fara að gera þetta við mig þá sleikti hann á sér fingurna og setti á ****ið (sic) á sér. (Það var ógeðslegt!!) (svo ritað). Sagði hún að henni væri minnisstætt að hann hefði gert þetta og hefði hana ítrekað dreymt framangreint. Kvaðst hún vakna við draumana. Telpan komst í nokkurt uppnám við skrifin (mátti sjá á henni handskjálfta og varð hún ókyrr í sætinu.)
Y kvaðst telja að hún hafi verið sex ára þegar Xe og móðir hennar hófu sambúð. Segist hún hafa kallað hann ,,daddy“ þegar hann og móðir hennar voru gift. Hann hafi stundum verið leiðinlegur. Hann hafi t.d. ýtt höfðinu á henni ofan í matinn ef hún vildi ekki borða og hafi hún eitt sinn fengið matarolíu í augun þegar hann gerði það. Þá hafi hann eitt sinn togað í eyrað á D (yngri bróður hennar) þegar hann var þriggja ára. Henni hafi þó stundum fundist hann ,,bara ágætur“ en segir að eftir að ,,þetta sem mér finnst erfitt að segja gerðist“ hafi hún farið að hata hann, ,,hann vakti mig hverja einustu nótt“. Hún reyni nú að hugsa ekki um hann.“
Í samantekt og áliti í niðurlagi vottorðsins segir: ,,Y hefur á tímabilinu frá 19. júlí og þar til nú sótt níu viðtöl til undirritaðs sálfræðings. Viðtölin hafa leitt í ljós fjölmörg vandamál sem þekkt eru á meðal barna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi í langan tíma. Telpan uppfyllir greiningarskilmerki þunglyndis (DSM-IVR:296.20 Major Depressive Episode, Unspecified). Hún glímir jafnframt við margvísleg einkenni kvíða. Sjálfsmat hennar er lágt og skapsveiflur og einbeitingarerfiðleikar valda henni umtalsverðum erfiðleikum í félagslegum samskiptum og námi. Þrátt fyrir að telpan hafi sótt viðtöl í rúmt hálft ár hafa ekki orðið merkjanlegar breytingar á líðan hennar. Ætla má að telpan muni um langt skeið glíma við afleiðingar hins kynferðislega ofbeldis sem hún kveðst hafa sætt af hendi fyrrum stjúpa síns. Meðal þátta sem veita forspá um afleiðingar kynferðislegs ofbeldis gegn börnum eru i) hversu lengi stóð ofbeldið yfir, ii) hversu alvarlegt var ofbeldið og iii) hver voru tengsl geranda og þolanda. Í ljósi þess að Y hefur greint frá alvarlegu kynferðislegu ofbeldi af hendi uppalanda síns sem staðið hefur um árabil má ætla að afleiðingarnar séu mjög alvarlegar og renna niðurstöður sjálfsmatskvarða og viðtala stoðum undir að svo sé. Ekki er unnt að segja til um að svo stöddu hvort telpan muni ná sér eftir hið kynferðislega ofbeldi sem hún kveðst hafa sætt. Rétt er jafnframt að geta þess að algengt er að fólk sem þolað hefur kynferðislegt ofbeldi í bernsku glími við afleiðingar þess á fullorðinsárum ss. í tengslum við kynlíf, meðgöngur og fæðingar.”
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði neitaði sakargiftum fyrir dómi. Hann kvað móður Y, C, hafa fengið stúlkuna til þess að ljúga upp á sig röngum sakargiftum. Hann taldi ásakanir hennar mega rekja til þess að C hafi alltaf verið önug út í hann og hótað honum að valda honum skaða. Hann kvað C vera mjög afbrýðisama og eftir að þau hafi skilið hafi hún ekki leyft honum að nýta umgengnisrétt sinn við börnin. Ákærði kvað samskipti sín við börnin hafa verið mjög góð. Hann kvaðst í fyrstu hafa búið með C að A, en flutt þaðan í B.
Að beiðni lögreglustjórans í Reykjavík og með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999 var skýrsla tekin af Y fyrir dómi 8. júlí 2005.
Greindi vitnið svo frá að ákærði hafi gert eitthvað við hana daginn eftir stóra jarðskjálftann þegar hún bjó í A og var 6 ára gömul. Hún kvað það þó hafa ,,farið úr hausnum á sér“. Nánar aðspurð kvaðst hún hafa verið inni í einhverju herbergi í A og svo inni á klósetti. Lýsti hún tilviki sem átti sér stað í A þegar ákærði hafi komið upp í rúmið til hennar og snert hana. Hann hafi snert á henni brjóstin, rassinn og kynfærin með höndunum. Hann hafi komið við kynfæri hennar með typpinu en ekki farið inn í hana. Aðspurð kvað hún typpið hafa verið bæði hart og mjúkt en það hafi ekki komið neitt úr því. Í yfirheyrslunni notaði hún orðin ,,fremri neðri hlutann“ yfir kynfæri sín en rassinn nefndi hún ,,aftari neðri hlutann“. Getnaðarlim ákærða nefndi hún ,,T“. Vitnið kvað ákærða hafa legið ofan á henni en hún hafi legið á bakinu. Vitnið kvað ákærða hafa hrækt í lófa sinn eða á fingur sína og sett hrákann á typpið á sér. Stundum hafi hann notað Nivea krem sem hafi verið geymt á klósettinu. Hafi brúsinn verið hvítur með bláum tappa. Þegar hún hafi búið í B hafi ákærði komið til hennar og sett pening undir koddan hjá henni og gert það sama. Eitt sinn hafi hann beðið hana að koma með sér í sturtu og þá hafi hann sett typpið inn í rassinn. Hún hafi staðið og hann hafi verið fyrir aftan hana en þó hafi hann ekki hreyft sig. Kvaðst hún ekki gera sér grein fyrir því hversu lengi hann hafi verið með typpið í rassinum á henni.
Þá lýsti vitnið því að þegar hún hafi eignast koju hafi ákærði komið til hennar og gert það sama við hana en þá hafi hún verið ein í herbergi. Hann hafi farið í rassinn hennar og kynfæri. Hún hafi fært sig í efri kojuna og haldið að hann færi ekki til hennar þangað en hann hafi gert það. Í þessi skipti hafi hann þó ekki gefið henni pening. Vitnið kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hversu oft ákærði hafi gert þetta. Hún kvaðst hafa hreyft sig ,,eins og hún væri að fá martraðir“ en þá hafi hann tekið peningana til baka. Eitt skiptið þegar hún hafi snúið sér hafi ákærði sett typpið á munninn á henni og svo á nefið á henni. Það hafi ekki farið upp í hana og hún hafi ekki fundið hvort nokkuð hafi komið úr því.
Vitnið kvað ákærða einnig hafa beðið hana um að koma með sér í geymsluna og lokað hurðinni og beðið hana um að krjúpa ,,eins og hún væri að ná í hlut“. Hann hafi farið með typpið í rassinn á henni. Þá lýsti hún tilviki sem átti sér stað í eldhúsinu en þá hafi bræður hennar verið í play-stationtölvu. Hann hafi beðið hana um að gera það sama og í geymslunni og hafi ákærði sett typpið í rassinn á henni. Hún kvað ákærða hvorki hafa notað krem í geymslunni né í eldhúsinu.
Spurð um fjölda þeirra skipta sem hin meinta misnotkun átti sér stað kvaðst vitnið ekki geta sagt til um það en kvað þetta þó hafa gerst oft. Hún sagði að misnotkunin hafi átt sér stað einu sinni í geymslunni, sturtunni og eldhúsinu. Kvaðst hún ekki vita hversu oft þetta hafi gerst í herberginu en það hafi gerst oft að nóttu til og einnig um morguninn þegar móðir hennar svaf en hún vissi ekki hversu oft það gerðist. Þessi skipti hafi ákærði farið með typpið í kynfæri hennar og rass. Þegar ákærði hafi látið hana beygja sig fram hafi hann ,,rétt girt niður um hana“. Hann hafi sagt henni að vera stillt eins og E bróðir hennar hefði verið þegar hann hafi gert þetta við hann. Hún taldi þetta síðast hafa gerst þegar hún var 9 ára.
Kvað vitnið ákærða hafa sagt við hana að hún mætti ekki segja frá, annars gæfi hann henni ekki pening. Hann hafi gefið henni frá 500-3000 króna en stundum hafi hann tekið peningana aftur. Henni hafi verið sama um peninginn og langað til að segja frá en ekki þorað það því að ákærði hafi oft slegið hana utan undir þegar hún hlýddi ekki.
Vitnið kvað sér kunnugt um að ákærði hafi misnotað vinkonu sína, Z. Þetta hafi verið ,,stóra leyndarmálið“ þeirra og þær hafi rætt um þetta áður en þetta komst upp, á ,,leynistaðnum“ þeirra í kofa hjá J. Z hafi sagt henni að eitt sinn hafi ákærði passað hana á meðan móðir hennar fór út og þegar hún hafi farið að sofa hafi ákærði komið inn í herbergið hennar og farið með typpið ,,eitthvað“
Vitnið kvað að sér hefði liðið illa að ,,halda þessu inni svona lengi“. Hún hafi grátið. Henni hafi einnig liðið illa þegar hún sagði móður sinni frá þessu því hún hafi vitað að hún ætti eftir að segja svo mörgum öðrum frá þessu.
Vitnið, C, móðir Y, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún greindi frá því hvernig hún og ákærði kynntust og hvenær þau hófu sambúð. C átti fyrir tvö börn, Y fædda 1994 og dreng fæddan 1996. Hún og ákærði eignuðust svo tvö börn saman, fædd 2001 og 2003. Vitnið kvað ákærða hafa gengið sínum börnum í föðurstað. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í vinnu nema í smá tíma er þau bjuggu í A en ákærði hafi hins vegar verið í vinnu og starfað hjá nokkrum fyrirtækjum. Vitnið kvað þau ákærða hafa skilið í nóvember 2004.
Vitnið kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um kynferðisbrot ákærða gegn dóttur hennar er lögreglan hringdi til hennar og boðaði hana til skýrslutöku vegna meintra brota ákærða gegn Z. Dóttir hennar, Y, hafi þá ekki verið á landinu en komið heim tveimur dögum síðar. Vitnið kvaðst hafa spjallað við dóttur sína sem hafi í fyrstu ekkert sagt en síðar sagt móður sinni að ákærði hafi nauðgað sér. Vitnið spurði þá dóttur sína hvað það þýddi að vera nauðgað og þá hafi Y sagt að ákærði hefði sett ,,neðri hlutann“ á sér í ,,neðri hlutann“ á henni. Vitnið spurði dóttur sína nánar út í hvað það þýddi og þá hafi Y sagt að neðri hlutinn sinn væri það sem hún pissaði með og að neðri hlutinn hans væri ,,T”, sem þýddi typpi. Vitnið kvað að hún hefði spurt dóttur sína að því hvort að þetta væri satt og að Y hefði játað því. Vitnið kvað dóttur sína hafa sagt henni að þetta hefði gerst bæði þegar þau bjuggu í A og í B. Þá hafi hún lýst því nánar að þetta hafi gerst á ganginum, í herbergjunum og inni á baði.
Vitnið kvað andlega og líkamlega líðan dóttur sinnar hafa verið mjög erfiða og að hún ætti mjög erfitt með að umgangast önnur börn. Skapsveiflur væru mjög miklar og stundum færi hún að gráta upp úr þurru. Hún sagði dóttur sína vera í meðferð í Barnahúsi.
Vitnið kvaðst aldrei hafa staðið dóttur sína að því að skrökva svo alvarlegum atvikum sem þessum. Hún greindi frá því að samkomulag hennar og ákærða hefði verið gott, þau hafi ekki rifist mikið en það hafi þó komið fyrir. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við að ákærði væri að beita dóttur hennar kynferðislegu ofbeldi og ekki orðið vör við næturferðir hjá honum. Þá kvað hún ákærða hafa nokkrum sinnum beitt hana líkamlegu ofbeldi þegar hann var undir áhrifum áfengis en annars aldrei. Hún kvaðst ekki hafa tilkynnt það til lögreglu.
Vitnið greindi frá því að þegar hún og ákærði skildu hafi hún boðið honum að hafa samband við börnin en ekki hafi verið gert samkomulag hjá sýslumanni um umgengni. Ákærði hafi haft samband við börnin þegar hann hefði tíma. Hún kvað skilnaðinn hafa farið fram í góðu og segir afbrýðisemi sína í garð annarra kvenna ekki hafa verið orsök skilnaðarins. Hún telur að þau hafi bæði ákveðið að skilja. Þá minnist hún þess að hún hafi einhverju sinni hótað honum að minnka pabbahelgarnar þegar hún var mjög reið út í ákærða.
Þá greindi vitnið frá því að hún hefði vitað til þess að ákærði væri að gera við hjól Z og bróður hennar en hún hafi sjálf séð hann vera að vinna að hjólunum. Hún kvað ákærða ávallt hafa lagað hjól barnanna þeirra en ekki annarra barna nema þeirra Z og bróður hennar en hann hafi ávallt komið vel fram við þau. Vitnið kvað ákærða hafa verið góðan við börnin. Þar sem ákærði er af erlendu bergi brotinn þá talaði hann við börnin á ensku en þó smávegis á íslensku. Vitnið kvað dóttur sína Y hafa skilið hann mjög vel, en bróðir hennar E hafi ekki skilið hann eins vel.
Vitnið játti því að til hefði verið Nivea krem á heimilinu að A á árunum 2001-2004 en ákærði hafi notað það við húðþurrki.
Spurð út í samskipti ákærða og G, móður Z, kvað vitnið þau hafa verið eðlileg og hafi þau ekki verið nánir vinir heldur kunningjar. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við það að G væri ekki vel við ákærða.
Vitnið greindi frá því að dóttir hennar hefði verið með sinn eigin síma, en kvað það hafa komið fyrir að dóttir hennar ætti ekki inneign í símanum. Vitnið kvaðst þó ekki hafa orðið vör við að hún væri að hringja úr síma ákærða þegar þannig stóð á.
Vitnið, Arnar Hauksson læknir, staðfesti skýrslu þá sem frá honum stafar og liggur frammi í málinu. Hann kvað meyjarhaft stúlkunnar hafa verið heilt, en endaþarmsop hennar væri víðara en venjulegt væri hjá stúlkum á hennar aldri. Gæti það stafað af því að farið hefði verið með fingur eða einhvern aðskotahlut inn í endaþarminn oftar en einu sinni. Þá kvað hann slíkt einnig geta verið meðfætt, en því fylgdi þá venjulega hægðaleki, sem ekki væri um að ræða hjá Y.
Vitnið, Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur, staðfesti skýrslu þá sem frá henni stafar og liggur frammi í málinu. Hún kvaðst hafa lagt fyrir stúlkuna sjálfsmatskvarða. Þá kvað hún stúlkuna hafa uppfyllt greiningarskilmerki þunglyndis og væri hún mjög kvíðin, en uppfyllti þó ekki skilyrði kvíðaröskunar. Hún taldi þroska stúlkunnar vera innan eðlilegra marka og aldurssvarandi. Þá greindi vitnið frá því að stúlkan hefði miklar áhyggjur af því að þetta spyrðist út í skólanum hennar, hún væri mjög hrædd við að vera ein, ætti erfitt með að sofna á kvöldin og óttaðist að ákærði kæmi og réðist á móður sína.
Niðurstaða ákæruliða 1 og 2.
Upphaf máls þessa má rekja til þess að kæra var lögð fram af hálfu móður vinkonu telpunnar, Z, en Z hafði sagt móður sinni að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega.
Ákærði hefur neitað sök samkvæmt þessum ákærulið og kveður móður telpunnar hafa fengið telpuna til að bera á sig rangar sakir. Vitnið, C, bar fyrir dómi að samkomulag hafi orðið milli þeirra að skilja og að skilnaðurinn hafi farið fram í góðu. Að mati dómsins kom ekkert fram í hennar framburði sem rennt geti stoðum undir þá staðhæfingu ákærða að móðirin hafi fengið telpuna til að bera á hann rangar sakargiftir.
Dómurinn horfði á og hlýddi á myndbandsupptöku af yfirheyrslu yfir telpunni. Telpan virtist afar feimin og fremur barnaleg og gekk illa í upphafi yfirheyrslunnar að fá hana til að segja sjálfstætt frá. Þegar á yfirheyrsluna leið fór hún að segja sjálfstæðar frá og varð þá frásögn hennar nákvæmari af þeim atburðum sem ákæra tekur til. Hún gat tímasett með nokkurri nákvæmni hvenær ákærði áreitti hana fyrst og kvað það hafa gerst daginn eftir jarðskjálftann á Suðurlandi. Hún kvað þá ákærða hafa snert á henni brjóstin, rass og kynfæri hennar með höndunum, en strokið getnaðarlim sínum, sem hún kallaði ,,T“ við kynfæri hennar, sem hún nefndi ,,neðri fremri hlutann“. Þá kvað hún ákærða alltaf hafa hrækt á fingur sína og sett á getnaðarlim sinn, en kvaðst ekki vita hvers vegna hann hefði gert þetta. Að mati dómsins eykur á trúverðugleika frásagnar telpunnar, hvaða nöfnum hún nefndi kynfæri og rass og bendir til þess að hún hafi ekki nokkurt hugmyndaflug í að spinna upp frásagnir af atvikum sem í ákæru greinir. Auk þess var frásögn hennar og fas einlægt þótt mikillar feimni eða skammar hafi gætt er hún sagði frá þessum atburðum.
Einnig greindi telpan með nákvæmi frá því er hún var flutt í B að ákærði hefði alltaf sett pening undir koddann hjá henni er hann gerði ,,þetta“, nema þegar þetta gerðist á klósettinu, í geymslunni eða á ganginum. Þá lýsti hún því að ákærði hefði beðið hana að beygja sig fram, ,,eins og hún væri að ná í hlut“ og þá sett ,,T“ inn í ,,neðri aftari hlutann“. Ákærði hefði einnig sett typpið inn í kynfæri hennar og snert munn hennar og nef með kynfærum sínum. Hún kvað ákærða stundum hafa notað Nivea krem, sem var í hvítum umbúðum með bláu loki og hafi það verið geymt inni á baðherbergi. Að mati dómsins staðfestir þessi frásögn stúlkunnar að hún gerir skýran greinarmun á atvikum þar sem ákærði misnotaði hana kynferðislega. Telpan greindi einnig frá því að ákærði hefði misnotað vinkonu hennar, Z og að þetta hefði verið stóra leyndarmálið þeirra vinkvennanna, sem þær hefðu sagt hvor annarri á leynistaðnum þeirra.
Í rétttarlæknisfræðilegri skýrslu Arnars Haukssonar, sem hann staðfesti fyrir dómi, kom fram að meyjarhaft stúlkunnar væri heilt, en endaþarmsop stúlkunnar væri víðara en venjulegt væri hjá stúlkum á hennar aldri. Gæti það stafað af því að farið hefði verið með fingur eða einhvern aðskotahlut inn í endaþarminn oftar en einu sinni. Þá kvað hann slíkt einnig geta verið meðfætt, en því fylgdi þá venjulega hægðaleki, sem ekki væri um að ræða hjá Y.
Framburður móður stúlkunnar fyrir dómi um það sem stúlkan tjáði henni að gerst hefði, samrýmist að öllu leyti frásögn stúlkunnar fyrir dómi og einnig samrýmist sú frásögn sem stúlkan gaf lækni á neyðarmóttöku frásögn stúlkunnar fyrir dómi.
Þegar allt framangreint er virt er framburður ákærða að mati dómsins ótrúverðugur en framburður stúlkunnar afar trúverðugur. Því er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæruliðum 1 og 2 greinir og er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða, enda fólst í háttsemi ákærða kynferðisleg misnotkun á líkama telpunnar sem kom í stað samræðis í hefðbundinni merkingu þess orðs og var almennt til þess fallin að veita ákærða kynferðislega fullnægingu.
Ákæruliðir 3 og 4, vegna meintra brota gegn Z.
Hinn 6. júlí 2005 lagði G fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn ólögráða dóttur hennar, Z. Kvaðst hún hafa rætt við hana daginn áður og hafi Z þá brotnað saman og sagt henni frá því að ákærði hafi nokkrum sinnum átt við hana samfarir í geymslunni og hjólageymslunni við B 12 á tímabilinu frá því í júlí fram í september árið 2004. Hafi honum ekki tekist að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar í fyrsta sinn en hún kvað það hafa tekist í annað sinn. Hafi Z lýst því fyrir móður sinni að fyrstu samfarirnar hafi verið ,,ógeðslega sárar“ og hún hafi fengið sár á og við kynfærin. Kvaðst kærandi minnast þess að blætt hafi úr leggöngum Z á þessum tíma en hún hafi tengt það tíðablæðingum. Þá kvað hún Z hafa farið í nokkur skipti að hitta ákærða að B en hann hafi tekið að sér að gera við reiðhjól hennar í hjólageymslu hússins. Um tíma hafi Z neitað að fara í B. Eftir sumarið 2004 hafi hún verið niðurlút og hafi m.a. farið að skaða sjálfa sig með því að klóra sig til blóðs á framhandleggjum. Þá hafi námsárangur hennar dalað og hún verið treg að sækja skólann. Hún hafi ennfremur ekki viljað fara úr húsi fylgdarlaus.
Í skýrslutöku hjá lögreglu hinn 3. október 2005 greindi kærandi frá því að hana minnti að Z hafi oft gist á heimili ákærða í byrjun september. Hún hafi ekki viljað fara þangað aftur og taldi kærandi það hafa verið vegna ósættis á milli hennar og Y.
Hinn 7. júlí 2005 gerði dr. Arnar Hauksson dr. með réttarlæknisfræðilega skoðun á Z. Í skýrslunni er haft eftir Z: „Hann hringdi alltaf í mig og spurði hvort ég vildi ná í hjólið mitt og þá fylgdi hann mér alltaf niður í geymslu. Í fyrsta skipti gisti ég heima hjá þeim og vaknaði til að fara á WC og þá var hann vakandi. Þegar ég ætlaði að fara aftur að sofa kom hann inn í herbergið til mín. Þá lagðist hann ofan á mig og hélt fyrir munninn á mér. Ég svaf á dýnu á gólfinu en hún (vinkona mín) var í rúminu við hliðina á mér. Hann var í fötum og girti niður um sig. Ég var í náttkjól. Ég hafði einu sinni verið á hjólinu mínu og ekið á nagla og þá kom gat á slönguna og þá geymdi hann það í geymslunni og þóttist ætla að gera við það. Held að hann hafi ekki ætlað að gera við það. Fyrsta skipti lá hann bara ofan á mér, en næst þá kom hann og setti typpið í pjölluna á mér. Það var svolítið sárt. Svo sagði vinkona mín, eigum við að segja hvorri annarri stærsta leyndarmálið okkar og þá sagði hún að hann hefði gert þetta við sig og stundum hefði hann tekið hana með sér í sturtu. Hann notaði oft það að hringja og spyrja hvort ég ætlaði ekki að ná í hjólið og þá gerði hann þetta við mig. Svo þegar hann hringdi þá þorði ég ekki heim til þeirra en einu sinni fór ég með vinkonu minni og þá var hann ekkert búinn að gera við hjólið og sagði mér að koma seinna að ná í það. Í geymslunni þá meiddi ég mig alltaf svolítið. Hann lét mig alltaf standa í geymslunni. Hann girti alltaf niður um mig þó að ég væri búin að segja nei, og ýtti höndunum hans frá mér og segði að ég vildi þetta ekki og bað hann að hætta. Aðspurð hvort að hún hafi grátið segist hún ekki hafa grátið heldur haldið grátinum inni í sér. Hann sagðist alltaf ætla að gefa mér pening ef ég kjaftaði ekki frá en gaf mér aldrei. En ég veit að hann gaf vinkonu minni pening og ég held að hann hafi oft gert það við hana og að hún hafi farið með honum í sturtu. Segist vera hrædd að vera úti ein og ekki þora að treysta fólki. Hún hefur m.a. klórað sig á innanverðan handlegginn með upphafsstöfum sínum (maí sl.) þegar henni leiddist svolítið og var einmana og hafði aldrei neitt að gera. Mamma fór svo til miðils og þá var amma mín að tala gegnum hann og þá fékk hún að vita eitthvað ... Móðirin fór beint heim og gekk á dóttur sína hvort að hún væri að reykja eða hvort að hún væri með einhverjum strákum og þá brotnaði hún og sagði henni nafn mannsins sem væri að meiða hana. Þá mundi móðirin eftir að hún hafði kvartað um útferð og að hún hefði í fyrra fengið blæðingu. Barnið segir að það hafi blætt úr sér tvisvar eftir að hann væri með henni. Hún segir að eitt sinn hafi verið eins og eitthvað væri að rifna í klofinu ... og eftir það gat hún varla farið ofaní vatn því það sveið svo mikið ... Eitt sinn sagði ég honum að ég væri of ung, en hann sagði að engin væri of ung að gera þetta. Einu sinni sagðist hann ætla að skutla mér heim og ég vissi að hann ætlaði að gera þetta við mig en ég vissi að þetta væri svo vont að þegar bíllinn stoppaði hljóp ég burtu og heim. Móðirin segir að hún hafi farið að fá migrenisköst og magaverki í október sl. og lá þá í rúminu og grét. Sjálf segist hún oft hafa legið í rúminu sínu og reynt að hugsa ekki, því þá hafi þetta alltaf komið í höfuðið á sér og sér hafi alltaf liðið svo illa þegar hún hugsaði þetta. Segist oft hafa fengið vonda drauma.”
Í niðurstöðum læknisins segir að stúlkunni hafi liðið mjög illa. Hún hafi sagst hafa ,,sársauka í hjartanu“ og þegar henni hefði liðið mjög illa í maí sl. hafi hún meitt sig með því að krota á innanverðan framhandlegg vinstra megin til að gleyma ,,hinum sársaukanum“. Við skoðun hafi sést örlítið ör fremst til hægri kl. 18,15 við meyjarhaft, ca. 4 mm breitt. Meyjarhaft sé hins vegar heilt og á því miðju sé haft sem skipti því þannig að ekki sé hægt að komast inn án þess að það verði mjög, mjög sárt. Örið gæti verið eftir tilraun til að ryðjast inn, en þá hafi rifnað út frá neðri enda haftsins og gæti það vel passað við lýsingu barnsins á sársauka eftir meintan atburð og blæðingu í tvígang. Þá kemur fram að móðir hennar hafi verið viðstödd allan tímann og að stúlkan hafi verið mjög samvinnuþýð, en döpur og hrædd. Henni hafi létt mikið þegar hún hefði sagt mömmu sinni frá.
Í málinu liggur frammi vottorð Vigdísar Erlendsdóttur, forstöðumanns Barnahúss, um mat á því hvaða afleiðingar ætluð kynferðisbrot ákærða hafi haft fyrir Z. Hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur óskað eftir sérfræðilegri greiningu og meðferð fyrir hana, hinn 11. júlí 2005, vegna gruns um slík brot gegn henni. Í vottorðinu er því lýst hvernig Z brást við í viðtölunum. Þar segir: „Í viðtölum við telpuna kom fram að henni var ætlað kynferðisofbeldi mjög hugleikið þótt hún segði svo ekki vera. Gat hún þess óspurð að hún væri nokkuð viss um að fyrsta tilvikið hefði átt sér stað þann 9. september 2004. Hún hafi fengið að gista hjá Y, jafnöldru sinni og vinkonu og hafi hann verið staddur í herbergi þeirra telpna þegar hún kom þar inn eftir að hafa farið á klósettið um nóttina. Sagði hún að hegðun hans hefði komið henni í opna skjöldu og hafi hún ekki vitað hvernig hún átti að bregðast við. Hann hefði ekki meitt hana í þetta sinn en það hefði gerst næst en þá gerði hann „miklu meira“. Mátti ráða af hegðun telpunnar að henni þótti óþægilegt að rifja atvikið upp þótt hún gerði það af eigin frumkvæði en hún varð döpur á svip og horfði í gaupnir sér.”
Í samantekt og áliti í niðurlagi vottorðsins segir: „Z hefur á tímabilinu frá 12. júlí 2005 og þar til nú sótt 7 viðtöl til undirritaðs sálfræðings. Viðtölin hafa leitt í ljós að telpan glímir við mikla vanlíðan sem samræmist viðbrögðum við kynferðislegu ofbeldi af því tagi sem hún hefur lýst. Telpan uppfyllir greiningarskilmerki áfallaröskunar (DSM-IV: 309.81 Posttraumatic Stress Disorder) og felmtursröskunar (DSM-IV: 300.01 Panic Disorder Without Agoraphobia). Líðan telpurnnar breyttist skyndilega til hins verra í október 2004, á sama tíma og móðurafi hennar veiktist alvarlega. Móðir hennar varð breytinganna vör og tengdi þær á þeim tíma við veikindi afa hennar. Sjálf tengir telpan vanlíðan sína við kynferðisofbeldið sem hún kveðst hafa sætt. Lýsir hún skapsveiflum, neikvæðni og erfiðleikum með einbeitingu sem hún segir að hafi komið niður á námsárangri hennar. Meðal þátta sem veita forspá um afleiðingar kynferðislegs ofbeldis gegn börnum eru i) hversu lengi stóð ofbeldið yfir, ii)hversu alvarlegt var ofbeldið og iii)hver voru tengsl geranda og þolanda. Skv. upplýsingum undirritaðrar hefur Z greint frá því að hún hafi í fimm skipti í september 2004 orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi fullorðins manns sem ekki var henni nákominn. Hins vegar var hið kynferðislega ofbeldi sem telpan hefur greint frá mjög alvarlegt og því til þess fallið að valda henni umtalsverðum, tilfinningalegum skaða. Niðurstöður sjálfsmatskvarða staðfesta að svo sé. Ekki er unnt að fullyrða að svo stöddu hvort telpan muni ná sér að fullu en algengt er að fólk sem þolað hefur kynferðislegt ofbeldi í bernsku glími við afleiðingar þess á fullorðinsárum, s.s. í tengslum við kynlíf, meðgöngur og fæðingar.“
Í málinu liggja frammi gögn frá Og Vodafone þar sem fram kemur að hringt hefur verið úr símanúmeri ákærða í símanúmerið [...], 13 sinnum á tímabilinu 20. september til 15. október 2004, þar af eru fjórar hringingar 22. september úr símanúmeri ákærða í [...], en rétthafi símanúmersins var móðir telpunnar, G.
Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákæruliðum. Hann kvaðst þekkja Z, þar eð að mamma hennar, G, sé vinkona C og Z og Y séu vinkonur. Ákærði kvað Z ekki hafa komið mjög oft á heimilið og oftast hafi hún verið í fylgd með móður sinni. Ákærði greindi frá því að G hefði verið illa við sig og þegar hún hafi verið til staðar á heimilinu þegar ákærði var að rífast við eiginkonu sína, hafi hún ávallt tekið afstöðu með C gegn honum. Ákærði kvaðst aldrei hafa talað við Z einsamla. Ákærði kvaðst hafa verið að gera við hjól fyrir hana en hann hafa alltaf gert við hjól barnanna sinna. Hann kvaðst hafa verið með símanúmer sem hann taldi vera númer G, móður Z. Stundum hafi hún svarað í símann, en stundum hafi Z svarað sjálf. Ákærði sagði það hafa tekið frekar langan tíma að gera við hjólin, tvær til þrjár vikur. Ákærði kvaðst ekki muna á hvaða tíma árs þetta var.
Ákærði var spurður út í símtöl úr síma hans í símann [...] á tímabilinu 20. september til 15. október 2004. Ákærði kvaðst þá hafa hringt í þetta númer þegar hann hafi þurft að segja frá framgangi mála í hjólaviðgerðum. Einnig hafi Y stundum fengið símann hans lánaðan til þess að hringja í vinkonur sínar. Ákærði lýsti því að stundum hefði Z svarað og stundum móðir hennar en hann hafi talað við þær báðar á ensku. Ákærði kvað þau aðeins hafa rætt hjólaviðgerðir í þessum símtölum. Í símtölunum hafi hann verið að ræða hvað væri að hjólunum og hvenær þau yrðu tilbúin.
Að beiðni lögreglustjórans í Reykjavík og með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999 var skýrsla tekin af Z fyrir dómi hinn 8. júlí 2005.
Vitnið greindi svo frá að í september 2004 hafi hún gist hjá vinkonu sinni Y í fyrsta skiptið. Hún kvað þær vera frænkur en skyldleiki væri á milli mæðra þeirra. Um nóttina hafi hún þurft að fara á klósettið en þegar hún hafi snúið aftur til svefnherbergisins hafi ákærði verið kominn þangað inn. Hann hafi girt niður um sig og hana og lagst ofan á hana á dýnunni á gólfinu, sem hún svaf á. Hann hafi þó ekki sett typpið á sér inn í klofið á henni í þetta sinn en hún hafi fundið fyrir typpinu hans. Hann hafi strokið á henni klofið með typpinu. Þetta hafi staðið í 1-2 mínútur og henni hafi liðið illa. Hafi þetta verið í fyrsta skipti sem hann misnotaði hana.
Eftir þetta hafi ákærði sífellt verið að hringja í gemsann hennar því hann hafi verið að gera við reiðhjól hennar og alltaf viljað að hún kæmi að sækja það hjá honum. Hún kvaðst hafa haft símanúmerið [...] eða [...], en kvaðst eiga erfitt með að muna númerið sitt, þar sem síminn hennar hefði eyðilagst rétt fyrir jólin. Hjólið hafi hins vegar ekki verið tilbúið. Hún hafi farið til hans í geymslu húss hans, 2-3 dögum eftir atvikið í svefnherberginu. Þar hafi hann girt niður um hana og sett typpið inn í hana. Þetta hafi gerst samtals í 5-6 skipti og sennilega hafi liðið 1-2 dagar á milli. Í fyrsta og annað skiptið hafi hann haldið fyrir munninn á henni og í annað skiptið hafi hann sett typpið inn í leggöngin á henni. Vitnið kvaðst ekki vita hvers vegna hann hafi haldið fyrir munninn á henni en henni hafi fundist svo vont það sem hann gerði við hana að hún hafi næstum því öskrað. Hún hafi staðið á meðan hann fór inn í hana en hann hafi ekki hreyft sig á meðan. Aðspurð kvaðst hún hafa fundið til og liðið rosalega illa. Hún hafi reynt að hrinda honum burt en hann hafi verið sterkur. Einnig hafi hún sagt það við hann að hún væri of ung til þess að gera svona hluti en hann hafi sagt að enginn væri of ungur. Þau hafi talað saman á ensku. Taldi vitnið að ákærði hafi verið inni í henni um hálftíma. Hann hafi svo tekið typpið út, haldið fast utan um það og hrist það. Hún kvaðst ekki vita hvort ákærði hefði fengið sáðlát. Hann hafi síðan sagt henni að fara í sturtu þegar hún kæmi heim, en þangað hafi hún hlaupið ,,eiginlega“ grátandi. Ákærði hafi haldið áfram að hringja í sig og hafi aftur gert það sama við hana í geymslunni, sem hann hafi læst svo að enginn kæmi að þeim. Kvað hún ákærða hafa misnotað sig 5 sinnum á þennan hátt í geymslunni 5 sinnum.
Vitnið kvað ákærða hafa boðið henni 1000 krónur ef hún þegði um það sem gerst hafði en hann hafi aldrei látið hana fá peninginn. Hann hafi oft hringt í gemsann hennar og beðið hana um að koma til sín en hún hafi ekki farið. Þetta hafi gerst í september en hætt í desember þegar síminn hennar eyðilagðist. Vitnið kvað ákærða ekki hafa nota verju þegar hann gerði þetta við hana en hann hafi notað eitthvað í hvítri dollu með bláum tappa. Það hafi verið stórt krem, eins og sjampó í laginu sem þau hafi geymt í baðherberginu. Ákærði hafi sett á sig kremið og tekið það með sér í geymsluna.
Hún kvaðst ekki hafa haft neina reynslu af kynlífi áður en þetta gerðist. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað það var. Kvaðst hún hafa fundið til þegar þetta gerðist, ,,eins og það væri verið að stinga hníf í gegnum höndina á mér.“ Hún hafi fengið sár í klofið eftir þetta og fundist rosalega vont að labba, vont að pissa, vont að fara í sund og hana hafi alltaf sviðið í klofinu vegna sársins sem hafi legið meðfram því öllu. Hún hafi farið með móður sinni til læknis því að það hafi blætt úr henni en móðir hennar hafi haldið að hún væri að byrja á blæðingum.
Vitnið kvaðst aðeins hafa sagt Y frá því sem gerst hafði en þær hafi trúað hvorri annarri fyrir því að ákærði hefði nauðgað þeim. Þetta hafi verið á miðvikudegi í maí en þá daga hafi þær leikið sér í ,,miðvikudagsklúbbi“ og verið í kofa nálægt kirkjunni. Y hafi sagt henni að ákærði hafi ,,tekið hana í rass“ í sturtu og baði. Hann hafi einnig ,,nauðgað henni í klofið “.
Spurð um síðasta skiptið sem ákærði hafi misnotað hana kvað vitnið það hafa gerst í geymslunni. Hann hafi svo ætlað að keyra hana heim og hafi þá reynt að “gera þetta“ við hana í bílnum. Hann hafi ekið bílnum að J og kvaðst ætla að hitta H vin sinn sem ætlaði að líta á bílinn hans. Hann hafi hins vegar ekki verið þarna en ákærði hafi sagt við hana að hann ætlaði að láta hana liggja í baksætinu. Hún hafi hins vegar hlaupið út úr bílnum. Eftir þetta hafi hún hætt að fara heim til þeirra en farið aftur um páskana þegar ákærði og C, móðir Y, voru hætt saman.
Vitninu kvað sér hafa liðið mjög illa eftir að þetta gerðist. Hún hafi ekki haft neinn til að tala við og engan til að treysta. Eftir að móðir hennar gekk á hana og hún sagði henni frá þessu hafi henni þó liðið betur. Henni hafi liðið svo illa að hún hafi klórað skammstafina sína á höndina með nöglunum.
Vitnið, G, móðir Z, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Þar greindi hún frá því að hún hefði kynnst ákærða í nóvember 2002 þegar hann flutti inn á 1. hæð í B en hún hafi sjálf búið á 3. hæð. Jafnframt væri ákærði barnsfaðir frænku hennar og vinkonu. Vitnið kvaðst þó hafa flutt þaðan þremur mánuðum síðar en vinskapurinn hafi haldið áfram. Hún taldi gott samkomulag hafa verið á milli sín og ákærða og að hún hafi aldrei tekið afstöðu með C, móður Y, þegar hún hafi orðið vitni að rifrildum á milli hennar og ákærða, heldur frekar reynt að miðla málum á milli þeirra.
Vitnið kvaðst hafa komist að því í gegnum miðil að óæskilegur maður væri nálægt dóttur hennar. Hún kvaðst hafa spurt dóttur sína að því hvort hún væri byrjuð að reykja eða drekka en hún hafi neitað því. Þá hafi hún spurt hana hvort einhver hefði beðið um að fá að sofa hjá henni eða reynt að snerta hana þar sem ekki ætti að snerta hana og hafi stúlkan svarað því játandi. Þá hafi hún spurt dóttur sína hver það hafi verið og hún hafi sagt X, X er búinn að vera að gera þetta, en X mun vera gælunafn ákærða. Vitnið kvað dóttur sína hafa sagt henni frá því að fyrsta skiptið hafi verið þegar hún hafi fengið að gista heima hjá Y, vinkonu sinni og stjúpdóttur ákærða. Þá nótt hafi hún vaknað til þess að fara á klósettið og þegar hún hafi komið til baka þá hafi hann verið kominn inn í herbergið og farið að áreita hana. Þá hafi dóttir hennar sagt henni að ákærði hefði verið að gera við hjólið hennar og sagt henni að það væri tilbúið. Er hún hafi komið að sækja hjólið þá hafi það ekki verið verið tilbúið. Ákærði hefði gripið fyrir munninn á dóttur hennar og girt niður um hana. Hún hefði reynt að segja ákærða að hún væri of ung, en ákærði svarað að hún væri ekkert of ung. Hún kvað dóttur sína og ákærða tala saman á ensku en dóttir hennar skilji ensku mjög vel þar sem föðurættin hennar sé að stórum hluta til enskumælandi. Hún kvaðst ekki hafa spurt um hvers konar kynferðislegt áreiti hafi verið um að ræða, en kvað dóttur hennar hafa lýst miklum sársauka. Vitnið kvað að blætt hefði úr leggöngum dóttur sinnar í september 2004, en vitnið kvaðst hafa talið að tíðablæðingar væru að byrja hjá henni. Blæðingarnar hafi hins verið mjög stopular, en frá því í maí 2005 hafi blæðingarnar verið reglulgar.
Vitnið greindi frá því að ákærði hefði boðist til þess að gera við hjól barnanna hennar tveggja. Taldi vitnið að það hafi verið í lok júlí eða hugsanlega byrjun ágúst. Sonur hennar hafi fengið sitt hjól tiltölulega snemma en stúlkan ekki fyrr en eftir að hún hafi verið byrjuð í skólanum. Vitnið minntist þess að ákærði hefði hringt til dóttur hennar en hún hafi ekki viljað tala við hann og rétt móður sinni símann. Hann hafi þá sagt að hjólið væri tilbúið og hún ekki haft tíma til að fara með dóttur sinni að sækja það og því sagt henni að fara einni. Innt eftir því hvort hún kannaðist við öll þau símtöl sem koma fram á yfirliti frá Og Vodafone, kvað hún þau öll hafa átt sér stað á meðan vitnið var fjarverandi, í skólanum.
Vitnið kvaðst aldrei hafa staðið dóttur sína að því að skrökva svo alvarlegum atvikum eins og greinir í ákæru. Hún kvað dóttur sína setja upp vissan svip þegar hún ljúgi og að henni hafi ekki tekist að ljúga að sér hingað til, eins og vitnið komst að orði.
Vitnið kvað dóttur sína vera með stórt ör á handlegg eftir að hafa klórað og skorið sjálfa sig, hún sé farin að klippa á sér hárið og særa sjálfa sig líkamlega. Sjálf kvaðst vitnið hafa tengt þetta andláti móðurafa telpunnar en þá hafi hún ekki vitað af kynferðisbrotum ákærða gagnvart dóttur sinni sem áttu sér stað á sama tíma. Vitnið kvað að dóttur hennar hafi alltaf fundist gaman í skóla en nú hafi einkunnirnar hennar farið niður í ekki neitt. Hún hafi látið hana skipta um skóla í von um að þetta myndi lagast. Þá sé dóttir hennar með miklar skapgerðarsveiflur og hiki ekki við að standa upp og rífa kjaft en áður fyrr hafi hún verið mjög feimin, brosandi og lífsglöð.
Vitnið kvað það ranghermt hjá dóttur sinni að þær hafi farið til læknis eftir að meint kynferðislegt ofbeldi af hálfu ákærða átti sér stað. Hún kvað það rétta vera að hún hefði farið með hana til læknis árið 2003 vegna útbrota á kynfærum, sem hún hafi fengið vegna þvottaefnis.
Vitnið, I, gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Vitnið kvaðst þekkja G og dóttur hennar, Z, í gegnum C, fyrrverandi eiginkonu ákærða. Vitnið kvaðst hafa frétt af þessu máli er hún talaði við Z í gegnum síma og hún sagt henni að ákærði hefði misnotað sig. Hún kvað Z ekki hafa lýst þeirri misnotkun neitt nánar en það að hún sagði að það hefði gerst í geymslu. Þá kvað vitnið að Z hefði grátið mjög mikið er hún sagði henni frá þessu. Vitnið kveðst ekki hafa talað neitt frekar um þetta mál við Z er þær hittust daginn eftir.
Vitnið, Arnar Hauksson læknir, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína. Hann kvaðst ekki hafa neinar skýringar á öri stúlkunnar rétt utan við meyjarhaftið, hann gæti aðeins staðfest að örið sé til staðar. Hann taldi það geta hafa orðið til við innþrengingu en einnig væri hugsanlegt að það hefði myndast við fall. Hann kvað meyjarhaftið hafa verið heilt og að það hafi ekki verið hægt að setja getnaðarlim inn í kynfæri stúlkunnar án þess að það rofnaði. Hægt sé þó að nudda getnaðarlim við kynfæri án þess að setja hann inn fyrir meyjarhaft, en það sé ca. 1 cm. frá leggangnaopi. Vitnið kvað frásögn stúlkunnar hafa runnið fram sem endursögn en hafi ekki hljómað líkt og tilbúningur. Hann lýsti henni sem vandræðalegri, hún hafi verið döpur og hrædd og vanlíðan hennar hafi verið mikil, líkt og hún hafi viljað afsaka að þetta hafi gerst. Þá hafi hún sagt honum frá sjálfsáverkunum sem hún hafi valdið sér, þar sem það væri betra en að þurfa að hugsa.
Vitnið, Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína. Hún kvað telpuna hafa átt mjög erfitt með að tala um það sem komið hefði fyrir hana, hún hafi sagt fátt til að byrja með og reynt að drepa málinu á dreif. Stúlkan hafi sagt henni að hún ætti erfitt með að einbeita sér og að einkunnir hennar hefði farið að dala. Hún hafi þó vikið talinu að þessum atvikum sem hún hafði orðið fyrir þrátt fyrir að hafa sagt að hún vildi ekki tala um þau. Þá hafi stúlkan sérstaklega nefnt það að hún teldi fyrsta tilvikið hafa verið 9. september 2004 en þá hafi hún gist hjá Y vinkonu sinni. Stúlkan hafi jafnframt tekið það fram að í því tilviki hafi hann ekki meitt hana en að hann hafi gert miklu meira síðar.
Þá kvað vitnið stúlkuna hafa uppfyllt greiningarskilmerki áfallaröskunar og fái hún mjög sterk kvíðamerki annað slagið og hafi hún reynst uppfylla greiningarskilmerki felmtursröskunar. Vitnið kvað að til þess að uppfylla greiningarskilmerki áfallaröskunar þurfi viðkomandi að hafa orðið fyrir alvarlegu áfalli og sagði vitnið að fráfall afa flokkaðist ekki sem slíkt áfall. Um felmtursröskun gegni hins vegar öðru máli en til þess að uppfylla greiningarskilmerki þess þurfi ekki að hafa komið til áfall. Við áfall aukist þó líkurnar til muna að fólk uppfylli greiningarskilmerki þess.
Vitnið kvað bæði Z og Y vera báðum mjög umhugað um að þetta spyrðist ekki út á meðal skólafélaga þeirra, báðar hefðu þær átt erfitt með að tala um atburðina og að hennar mati gætu þær gætu ekki leikið þau einkenni sem eru þekkt á meðal barna sem orðið hafa fyrir áfalli.
Niðurstaða ákæruliða 3 og 4.
Ákærði hefur neitað sök, en kæra móður meints brotaþola, Z, varð til þess að farið var að rannsaka mál vegna vinkonu Z, Y.
Dómurinn horfði á myndbandsupptöku af skýrslutöku af telpunni. Telpan kom dóminum fyrir sjónir sem mjög einlæg og opin og veittist henni ekki erfitt að skýra frá atburðum. Frásögn hennar var áreynslulaus, trúverðug og yfirveguð. Af frásögn hennar mátti ráða að þekking hennar eða reynsla af kynlífi og kynlífsathöfnum er engin, ef frá er talin meint háttsemi ákærða gagnvart telpunni. Því telur dómurinn afar ótrúlegt að telpan hafi hugmyndaflug til að spinna upp slíkar frásagnir af kynlífi sem í ákæru greinir. Hún lýsti því á nákvæman hátt hvernig ákærði hefði fyrst áreitt hana, er hún gisti hjá stjúpdóttur ákærða og vinkonu hennar, Y. Þá lýsti hún því að síðar hefði ákærði sagt henni að hjólið hennar væri tilbúið og farið með hana í geymsluna á heimili hans og sett getnaðarliminn inn í hana. Þetta hefði ákærði gert fimm sinnum í geymslunni. Einnig hefur telpan lýst því að þessir atburðir hefðu allir átt sér stað í september 2004, og hafði telpan það til marks um tímasetninguna, að þá hefði verkfall kennara staðið yfir. Telpan lýsti því að eitt sinn hefði blætt úr leggöngum sínum eftir háttsemi ákærða og hefur móðir stúlkunnar borið fyrir dómi að hún minntist þess að blætt hefði úr leggöngum hennar í september 2004, en að hún hefði talið að um tíðablóð hefði verið að ræða. Reglulegar tíðablæðingar telpunnar hafi þó ekki byrjað fyrr en í maí 2005.
Einnig kom fram í frásögn telpunnar að þegar ákærði átti við hana kynferðislega hafi hann sett á sig krem í hvítri ,,dollu með bláum tappa“, sem hefði verið geymt á baðherbergi á heimili ákærða, en hann hefði tekið það með sér í hjólageymsluna. Samræmist þessi frásögn telpunnar, frásögn Y af Nivea kremi sem ákærði setti á getnaðarlim sinn.
Þá hefur Arnar Hauksson læknir staðfest skýrslu sína fyrir dómi, þar sem fram kemur að ör er á meyjarhafti stúlkunnar, og sagði vitnið að örið gæti hafa myndast eftir innþrengingu.
Í málinu liggur frammi yfirlit símhringinga úr síma ákærða í símanúmer sem telpan hafði umráð yfir. Þær skýringar ákærða að hann hafi í öll þau skipti sem hann hringdi úr símanum í síma telpunnar, verið að skýra frá framgangi mála vegna hjóls sem hann var að gera við fyrir telpuna eru afar ótrúverðugar.
Þá liggur jafnframt fyrir í skýrslutökum telpnanna Y og Z, að þær sögðu hvor annarri frá meintri háttsemi ákærða, áður en þær sögðu mæðrum sínum frá. Sögðu þær báðar að það hefði gerst á leynistaðnum þeirra, í kofa við J. Þá samrýmist frásögn Z fyrir dómi því sem hún greindi móður sinni upphaflega frá og því sem hún greindi lækni á neyðarmóttöku frá.
Þegar allt framangreint er virt er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir, þó þannig að dómurinn telur, með hliðsjón af framburði telpunnar að sú háttsemi sem ákæruliðir þessir taka til hafi allir átt sér stað í september 2004. Ákærði er því með hliðsjón af 117. gr. laga nr. 19/1991, sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem er réttilega heimfærð til refsiákvæða og vísar dómurinn til þess sem að ofan greinir varðandi ákæruliði 1 og 2 um heimfærslu til refsiákvæða.
Ákvörðun viðurlaga.
Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að brot hans voru ítrekuð og alvarleg og beindust annars vegar að stjúpdóttur hans og hins vegar að vinkonu stjúpdótturinnar. Með brotum sínum gagnvart stjúpdóttur sinni, sem var aðeins 6 ára gömul þegar brot ákærða hófust, braut ákærði gróflega gegn uppeldis- og trúnaðarskyldum sínum gagnvart barninu. Með brotum sínum gagnvart ungri vinkonu stjúpdóttur sinnar, braut ákærði einnig trúnað og traust sem barnið sýndi honum sem föður vinkonu sinnar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir 60.000 króna sekt, 8. maí 2001 vegna ölvunarakstursbrots og var þá sviptur ökurétti í 12 mánuði. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun dómara, 150.000 króna sekt, 10. október 2001 vegna ölvunarakstursbrots og aksturs sviptur ökuréttti. Hann hlaut 45 daga fangelsisdóm vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti, 29. ágúst 2002 og var þá sviptur ökurétti ævilangt. Ákærði hlaut 30 daga fangelsisdóm 4. desember 2002 fyrir akstur sviptur ökurétti. Hann hlaut 60 daga fangelsisdóm 14. nóvember 2003 fyrir akstur sviptur ökurétti. Ákærði fékk reynslulausn 1. apríl 2004 í 1 ár á 30 daga eftirstöðvum refsingar. Ákærði hlaut 3 mánaða fangelsisdóm 5. október 2005 fyrir akstur sviptur ökurétti og síðast var ákærði dæmdur 21. desember 2005 í 4 mánaða fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti.
Brot ákærða sem hann hefur verið sakfelldur fyrir eru öll framin fyrir uppkvaðningu síðastgreindra dóma frá 5. október 2005 og 21. desember 2005. Er því um hegningarauka að ræða við þá dóma og ber að ákvarða refsingu samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og einnig með hliðsjón af 77. gr. sömu laga.
Þegar framangreint er virt og litið til alvarleika brota ákærða gagnvart stúlkunum tveimur er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingar ákærða kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 8.-12. júlí 2005 með fullri dagatölu.
Skaðabótakröfur
Af hálfu C, vegna ófjárráða dóttur sinnar Y, hefur verið lögð fram miskabótakrafa að fjárhæð 2.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. nóvember 2004, til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt sakborningi en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Krafan er þannig rökstudd að ákærði hafi á þeim tíma sem brotin voru framin verið stjúpfaðir Y og hafi brotin farið fram á heimili þeirra. Ákærði hafi misnotað vald sitt yfir henni mjög gróflega og brugðist trúnaðar- og foreldraskyldum sínum gagnvart henni. Hafi honum mátt vera ljóst hve alvarlegar afleiðingar atferli hans hafði fyrir líf og sálarheill hennar. Y hafi lýst því að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega ítrekað í rúm fjögur ár eða frá því 17. júní 2000 til 30. október 2004. Lýsir Y brotunum svo að ákærði hafi „káfað“ á henni og sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri hennar og endaþarm. Hafi brotin farið fram á heimili þeirra bæði að næturlagi og á daginn. Hafi hann sagt henni að hún mætti ekki segja neinum frá þessu og látið hana fá pening fyrir. Y hafi liðið mjög illa og ekki þorað að segja frá misnotkuninni. Hún hafi verið hrædd við ákærða enda hafi hann slegið hann hana ef hún gegndi ekki. Eftir að ákærði flutti af heimilinu hafi Y falið sig þegar hann kom í heimsókn.
Krafa um greiðslu miskabóta úr hendi ákærða styðst við 170. gr. laga um meðferð opinberra mála svo og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um dráttarvaxtakröfu er vísað til laga nr. 38/2001. Varðandi málskostnað vísast til 44. gr. i. og 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Sú háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir er almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Í skýrslu Vigdísar Erlendsdóttur, sálfræðings, sem hún hefur staðfest fyrir dómi kemur fram að ætla megi að telpan muni um langt skeið glíma við afleiðingar hins kynferðislega ofbeldis og að afleiðingarnar séu mjög alvarlegar.
Með hliðsjón af framangreindu og vísan til 170. gr. laga nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru miskabætur til handa stúlkunni ákveðnar 1.500.000 krónur, auk dráttarvaxta eins og dómsorði greinir.
Af hálfu G, vegna ófjárráða dóttur sinnar Z, hefur verið lögð fram miskabótakrafa að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. október 2004, til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt sakborningi en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Krafan er þannig rökstudd að ákærði hafi á þeim tíma sem brotin voru framin verið stjúpfaðir bestu vinkonu hennar og hafi brotin farið fram á heimili hans. Hann hafi misnotað aðstöðu sína gagnvart henni en Z hafi komið inn á heimilið til að leika við vinkonu sína, stjúpdóttur ákærða, en þær hafi verið bestu vinkonur á þessum tíma, auk þess sem mæður stúlknanna hafi verið gamlar vinkonur. Hafi Z, sem og móðir hennar, mátt treysta því að hún væri örugg á heimili ákærða. Hafi ákærði notfært sér tengsl Z við stjúpdóttur sína og fundið leið til að hitta Z eina, m.a. með því að bjóðast til að gera við hjólið hennar. Z hafi lýst því að í fyrsta skiptið sem hann misnotaði hana kynferðislega hafi hún gist hjá vinkonu sinni, stjúpdóttur ákærða. Hafi hann komið inn í herbergið um miðja nótt, girt niður um hana og komið við kynfæri hennar. Í hin skiptin hafi brotin farið fram í geymslu og hjólageymslu hússins þar sem ákærði bjó. Hafi ákærði boðist til að gera við hjólið hennar og hringt ítrekað í hana og sagt það tilbúið. Þegar Z hafi komið að sækja hjólið hafi það ekki verið tilbúið.
Krafa um greiðslu miskabóta úr hendi ákærða styðst við 170. gr. laga um meðferð opinberra mála svo og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um dráttarvaxtakröfu er vísað til laga nr. 38/2001. Varðandi málskostnað vísast til 44. gr. i. og 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Sú háttsemi í ákærði hefur verið sakfelldur fyrir er almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Í skýrslu Vigdísar Erlendsdóttur, sálfræðings sem hún hefur staðfest fyrir dómi, kemur fram að telpan glími við vanlíðan sem samræmist viðbrögðum við kynferðislegu ofbeldi af því tagi sem hún hafi lýst. Hið kynferðislega ofbeldi sé mjög alvarlegt og til þess fallið að valda henni umtalsverðum, tilfinningalegum skaða.
Með hliðsjón af framangreindu og vísan til 170. gr. laga nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru miskabætur til handa stúlkunni ákveðnar 1.000.000 krónur, auk dráttarvaxta eins og dómsorði greinir.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði sakarkostnað málsins sem er 664.267 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurður Júlíussonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarþóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur héraðsdómslögmanns 80.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málsvarnarþóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til þess að réttargæslumaður hefur þegar fengið greitt fyrir hluta vinnu sinnar í þágu brotaþola.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Helgi I. Jónsson og Hervör Þorvaldsdóttir.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði, en til frádráttar refsingu hans kemur gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 8.-12. júlí 2005.
Ákærði greiði Y 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 8. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Z 1.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2004 til 8. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, 664.267 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Júlíussonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur héraðsdómslögmanns 80.000 krónur.