Hæstiréttur íslands
Mál nr. 312/1999
Lykilorð
- Þjófnaður
- Eignaspjöll
|
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 1999. |
|
Nr. 312/1999. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Ragnari Erni Möller (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Eignaspjöll.
R var ákærður og dæmdur fyrir að hafa, í félagi við aðra, brotist inn í fjölda sumarbústaða og stolið þaðan verðmætum, auk þess að hafa valdið eignaspjöllum. Var R dæmdur til fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða. Ákæruvaldið krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing verði að öllu leyti skilorðsbundin.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ragnar Örn Möller, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 26. maí 1999.
Sýslumaðurinn í Borgarnesi gaf út ákæru í máli þessu 27. janúar 1999, og var málið höfðað með birtingu hennar á hendur ákærðu R 17. febrúar sl., ákærðu Á og M 8. febrúar og ákærða Ragnari Erni 19. febrúar. Málið var þingfest 23. febrúar og tekið til dóms 6. maí sl. að lokinni aðalmeðferð.
Ákærð eru í máli þessu Á; Ragnar Örn Möller, kt. 190878-3929, Heiðarvegi 34 Vestmannaeyjum; R og M.
Ákæruskjalið er í 5 hlutum auk bótakrafna, og er málið skv. því höfðað
I.
Gegn ákærðu Á, Ragnari Erni og R fyrir að hafa í maí 1998 brotist inn í eftirtalda 15 sumarbústaði í Borgarfirði, og stolið þaðan verðmætum sem hér greinir:
A. Í Eyrarskógi, Hvalfjarðarstrandarhreppi:
Bústað nr. 11; Anitech sjónvarpstæki, 30 lítra hitakút frá Rönning, veggklukku, slökkvitæki, tuskubrúðu, 2 sprellikörlum, hekluðu teppi og farsímasnúru og Altai straumbreytir.
Bústað nr. 17; Samsung sjónvarpstæki, Sony myndbandstæki, Aiwa ferðatæki og fjórum myndbandsspólum.
Bústað nr. 36; Evinrude utanborðsmótor, Sharp myndbandstæki, Pioneer geislaspilara, Bang og Olufsen kasettutæki, 2 hátölurum, hitablásara og 4 veiðistöngum, 4 veiðihjólum og þremur björgunarvestum.
Bústað nr. 40; Simens sjónvarpstæki, Simens örbylgjuofni, Simens hitaofni, Simens brauðrist, 1 kopar veggplatta, 3 útiljósum í kassa og plast-skúffubakka ásamt hnífapörum.
Bústað nr. 83; Indesit ísskáp, Ufesa grill/bakarofn, Hitaxhi sjónvarpstæki, handhekluðu teppi, Sony ferðageislaspilara með straumbreyti, handryksugu og gifshamri sem notaður var sem veggskraut.
B. Í Indriðastaðalandi, Skorradalshreppi:
Bústað nr. 22; Sony ferðahljómflutningstækjum, hægindastól, 15 myndböndum, slökkvitæki, körfuboltahring, gaseldavél, veiðistöng með hjóli og veiðikassa.
Bústað nr. 36; 7 flöskum af áfengi, 1 kassa af bjór, rafmagnssög, Black og Dekker borvél, rafmagnsskrúfjárni, skrúfujárnasetti, rörtöng, skiptilykli, vasaljósi, sporjárni og þvottavél.
Bústað nr. 43; Kolster sjónvarpstæki, Melissa örbyljuofni, hitamæli, 7 flöskum af áfengi.
Bústað nr. 46; Roadstar sjónvarpstæki ásamt fjarstýringu, fluguveiðistöng ásamt veiðihjóli, sjónauka, skipsklukku og loftvog, koparstungumynd, steikarhnífapörum fyrir 12, eldhúsáhöldum í hnífaparakassa og grænni flíspeysu.
C. Við Hátröð í Svarfhólsskógi, Hvalfjarðarstrandarhreppi:
Bústað nr. 11; Panasonic myndbandstæki, 1 sjónauka, Sanyo útvarpstæki, handryksugu, blárri dúnúlpu, tveimur styttum, veggklukku, fýsibelg og útskornum aski.
Bústað nr. 19; ITS sjónvarpstæki, Philips sambyggðu útvarps-, geisla-og kasettutæki, olíulampa, 10 geisladiskum, tveimur sængum og koddum, útskornum burstabæ úr tré, útskornum aski, útskornu horni úr tré, 2 baðsloppum, 2 kuldaúlpum, 2 gaskútum, Ecco strigaskóm, 2 messing skraut-skeifum og skrautdúkku.
D. Við Hlíðartröð í Svarfhólsskógi, Hvalfjarðarstrandarhreppi,
Bústað nr. 3; rokk, klukku, 1 stk. dálk, Panasonic myndbandstæki, Sharp sjónvarpstæki, uppstoppaðri gullönd, 2 sængum, 2 dúkkum, 2 útskornum kanínum úr tré, 2 stórum hermannahnífum í hulstrum, skrautflösku í standi, 15 flöskum af rauðvíni, 2 1 lítra flöskum Vodka og 2 CB talstöðvum.
E.Við Löngutröð í Svarfhólsskógi, Hvalfjarðarstrandarhreppi:
Bústað nr. 1; Sharp myndbandstæki, Moulinex brauðbökunarvél, Moulinex örbylgjuofn, Moulinex matvinnsluvél, Moulinex grillofn, JVC myndbandstökuvél í grárri tösku, sjónauka, ferðageislaspilara ásamt 2 litlum hátölurum, 14 áfengisflöskum, 2 bjórkössum, 5 rauðvínglösum, sex diskamottum, dúk og blómavasa.
F. Við Ölver, Leirár- og Melahreppi:
Bústað nr. 14; Philips sjónvarpstæki, handryksugu, Euroline mínútugrilli, borðdúk, og uxaskinni.
Bústað nr. 15; Beko sjónvarpstæki, Sony ferðaútvarpstæki og olíuofni.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Gegn ákærðu Á og Ragnari Erni fyrir eignaspjöll með því að hafa við innbrot í sumarbústaði nr. 36 í Eyrarskógi, Hvalfjarðarstrandarhreppi, Borgarfirði, í maí 1998, gengið berserksgang meðal annars með hafnaboltakylfu og skemmt eftirtalda muni:
Málningu á eldhúsi, kaffivél, olíulampa úr gleri, keramiklampa, sérsmíðaða gestabók, furskáp með glerhurð, lyklaskáp, keramiksafsteypu af Akranesvita, sykurkar og rjómakönnu, 12 manna kaffistell, 8 leirkaffikrúsir, kaffikönnu, 6 matardiska, 3 matarföt, smjörkúpull, könnu fyrir ávaxtasafa, hraðsuðuketil, 3 stórar glerkrukkur, Simens brauðrist, 8 vatnsglös, 5 desertskálar, 2 keramikskrúsir fyrir hveiti og sykur, 12 kristalsglös, 2 kertastjaka úr gleri, kertastjaka og blómavasa úr kopar, smíðajárnskertastjaka, borstofuskál, salt og piparstauka, þvegilsskaft, keramikblómavasa, playmobilhestvagn, helluborð, diskarekka úr furu, höggvið upp úr skáp, brotið 2 glerhurðir á eldhússkáp, brotið snældu/spólurokk, brotið útskorna litla fugla og beygt festingar rafmagnsþilofns
Telst þetta varða við 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
III.
[...]
IV.
[...]
V.
[...]
Þess er krafist, að ákærðu verði dæmd til refsingar.
Bótakröfur:
Sjóvá Almennar hf., kt. 701288-1739, gera eftirtaldar kröfur:
Að ákærðu Á, Ragnar Örn og R verði dæmd til greiðslu bóta að fjárhæð kr. 328.421.- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga, af kr. 73.000.- frá 29. maí 1998 til 9. júlí s.á., af kr. 83.421.- frá þeim degi til 22. júlí s.á., af kr. 203.421.- frá þeim degi til 24. september s.á., af kr. 328.421.- frá þeim degi til greiðsludags. sbr. tilvik - I. F 1, - I. C 1, - I. E 1, - I. B 1-.
Að ákærðu Á og Ragnar Örn verði dæmdir til að greiða bætur að fjárhæð kr. 213.800.- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga, frá 6.júlí 1998 til greiðsludags. sbr. tilvik II.-.
Trygging hf., kt. 660269-3399, gerir eftirtalda kröfu:
Að ákærðu Á, Ragnar Örn og R verði dæmd til greiðslu bóta að fjárhæð kr. 128.800.- með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi, en síðan dráttarvöxtum samkævmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags. sbr. tilvik I. D. 1-.
Að ákærði Á verði dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð kr. 269.805.- með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags. sbr. tilvik III. -.
Um atvik máls.
Í skýrslu sem Theodór Þórðarson varðstjóri hjá lögreglunni í Borgarnesi skrifar og dagsett er 20. maí 1998, segir að þá berist lögreglunni tilkynningar um innbrotsþjófnaði í sumarbústaði í Eyrarskógi og Svarfhólslandi í Svínadal í Borgarfirði. Daginn eftir og næstu daga komi síðan tilkynningar um innbrotsþjófnaði í sumarbústaði í landi Indriðastaða í Skorradal og síðar tvo bústaði í Ölveri undir Hafnarfjalli [svo], eða samtals 18 bústaði. Við rannsókn hafi komið í ljós að mest hafi verið stolið af sjónvarpstækjum, örbylgjuofnum, hljómtækjum og áfengi. Einnig hafi verið stolið töluverðu af borðbúnaði, skrautmunum, fatnaði og einu ilmvatnsglasi. Því hafi vaknað grunur um að einn innbrotsþjófanna væri kvenmaður.
Þá segir í skýrslu varðstjórans að þriðjudaginn 26. maí hafi borist tilkynning frá Soffíu Sigurðardóttur á Neistastöðum í Villingaholtshreppi um að til hennar væri væntanleg R, ákærð í þessu máli. Hefði R hringt til hennar og sagt henni að hún kæmi með örbylgjuofn og sjónvarpstæki, sem vinkona hennar M á K og synir M hefðu stolið í innbrotum í sumarbústaði í Skorradal og víðar í Borgarfirði nýlega. Soffía hefði verið beðin að gefa sig fram við lögregluna á Selfossi, sem hún hefði gert samdægurs.
Skýrsla sú sem Soffía Sigurðardóttir gaf fyrir lögreglunni á Selfossi 26. maí 1998, liggur frammi í málinu. Þar er haft eftir Soffíu að ákærða R hafi hringt til hennar að nóttu til „fyrir um það bil fjórum nóttum síðan og hafi hún talað um það að M og synir hennar tveir hafi brotist inn í marga sumarbústaði í Skorradal, Borgarfirði, og hún væri með mikið þýfi. Að sögn R hafi hún ekki tekið þátt í innbrotunum og M hafi látið sig hafa örbylgjuofn og sjónvarp.” Þá er og haft eftir Soffíu að R hafi sagt henni „að M hafi látið sig hafa tækin til þess að hún myndi ekki kjafta frá.” Ennfremur kemur fram í skýrslu Soffíu að ákærða R hafi beðið um að mega að koma að Neistastöðum til að láta renna af sér, og sagði Soffía að hún ætti við mikið áfengisvandamál að stríða. Hún hafi komið að Neistastöðum þennan dag, 26. maí. R hafi um það talað að M vinkona hennar hafi gefið henni notaðan örbylgjuofn og sjálf hafi hún keypt lítið sjónvarp. Lögreglan lagði hald á örbylgjuofn þennan og sjónvarpstæki.
Í framhaldi af þessu tók lögreglan á Selfossi skýrslu af ákærðu R 28. maí, en síðar var hún yfirheyrð af lögreglunni í Borgarnesi. Sjá hér síðar.
Hinn 27. maí gerði lögreglan í Borgarnesi húsleit á K. Þar voru þá heimilisföst ákærðu M og Á sonur hennar. Ákærði Ragnar Örn hafði þá og dvalist þar um hríð, og ákærða R hafði verið þar með annan fótinn, en hinn hjá vini sínum Pétri Júlíussyni í Borgarnesi. Við húsleitina fannst mikið af þýfi úr sumarbústöðum sem brotist hafði verið inn í. Fannst það í stofu og eldhúsi og víðar í íbúð, en mikið af því var í bílskúr og á háalofti yfir íbúð. Í framhaldi af húsleitinni var ákærða M handtekin og af henni tekin lögregluskýrsla sama dag og svo aftur síðar. Ákærðu Á og Ragnar Örn voru handteknir í Reykjavík sama dag og þar teknar af þeim stuttar skýrslur, en síðar voru þeir yfirheyrðir af lögreglunni í Borgarnesi. Frá lögregluskýrslum verður greint hér á eftir.
Um I. hluta ákæru.
Í þinghaldi í máli þessu 9. mars 1999 gerði ákærði Ragnar Örn grein fyrir afstöðu sinni til I. hluta ákæru, og ákærði Á var í þinghaldi 30. apríl sl. inntur eftir afstöðu sinni til þess ákæruhluta. Þessir tveir ákærðu játaðu þá öll brot sín samkv. þessum hluta ákæru, undir liðum A, B, C, D, E og F, en þeir könnuðust þó ekki við að hafa stolið öllum þeim munum sem í þessum liðum eru upp taldir. Verða hér upp taldir þeir munir sem þeir könnuðust ekki við að hafa stolið, en taldir eru upp í ákæru:
Liður I A: Hvorugur ákærðu, Á eða Ragnar Örn, kannaðist við að hafa stolið björgunarvestum úr bústað nr. 36, sem nefnd eru í ákæru.
Liður I B: Hvorugur ákærðu kannaðist við að hafa stolið hægindastól úr bústað nr. 22, eða rafmagnssög og Black og Decker borvél og rafmagnsskrúfjárni úr bústað nr. 36 og ennfremur ekki grænni flíspeysu úr bústað nr. 46.
Liður I C: Hvorugur ákærðu kannaðist við að hafa stolið útskornum aski úr bústað nr. 11 eða tveimur kúldaúlpum og Ecco strigaskóm úr bústað nr. 19.
Liður I D: Báðir ákærðu, Á og Ragnar Örn, játuðu afdráttarlaust brot sín skv. þessum lið.
Liður I E: Hvorugur ákærðu kannaðist við að hafa stolið Moulinex matvinnsluvél eða JVC myndbandstökuvél.
Liður I F: Báðir ákærðu játuðu afdráttarlaust brot sín skv. þessum lið.
Með játningum sínum eru ákærðu Á og Ragnar Örn sannir að sök um öll brot sem lýst er í I. hluta ákæru. Játningar þeirra fá stuðning af öðrum gögnum máls. Ekki er þó sannað að þeir hafi stolið þeim hlutum sem þeir hafa fyrir dómi undan dregið, sbr. greinargerð um framburð þeirra fyrir dómi hér að framan. Brot þeirra varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem talið er í ákæru.
Um meintan þátt ákærðu R í innbrotunum.
[...]
Um II. hluta ákæru.
Á dómþing 9. mars 1999 tjáði ákærði Ragnar Örn sig um þennan hluta ákæru. Hann kannaðist við að hafa skemmt einhverja muni í sumarbústað nr. 36, en hann kannaðist ekki við að hafa gengið berserksgang og ekki að hafa notað hafnaboltakylfu til að skemma muni. Hann sagðist ekki kannast við að skemmdirnar hefðu verið svo miklar sem í ákæru greinir.
Í skýrslu sinni við aðalmeðferð sagði ákærði Ragnar Örn að þeir hefðu verið tveir, hann og meðákærði Á, við skemmdarverkið. Hann ítrekaði að hann kannaðist ekki við að hafa notað barefli, en sagði þó að sig gæti misminnt; hann hefði verið búinn að drekka um kvöldið. Skemmdirnar hefðu verið þannig unnar að rótað hefði verið niður út hillum og munum hent til og frá, „húsgögnum og svona”. Tilgangurinn hefði verið að skemma.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða Ragnari Erni 28. maí 1998 kvaðst hann ekki vita hver hefði unnið skemmdirnar.
Í skýrslu sem ákærði Á gaf fyrir lögreglu 28. maí 1998 er þetta haft eftir honum: „Það var Ragnar sem braut mest en ég braut líka en mun minna en hann. Ragnar notaði hafnaboltakylfu sem hann var með til að brjóta í bústaðnum en ég nota ekki kylfuna, heldur rótaði ég niður úr hillum með höndunum.”
Á dómþingi 30. apríl sl. var ákærði Á inntur eftir afstöðu sinni til ákæru. Eftir honum var bókað um II. hlut hennar: „Ákærði kveðst kannast við að hafa skemmt muni í bústað nr. 36, einhverja diska og glerdót. Hann telur að munirnir hafi ekki verið svo margir sem í þessum ákæruhluta segir. Hann kveðst ekki hafa notað hafnabotlakylfu til að skemma hlutina og ekkert annað verkfæri.”
Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins sagði ákærði Á að hann og meðákærði Ragnar Örn hefðu verið saman í skemmdarverkunum. Þeir hefðu ekki notað barefli, ekki væri rétt haft eftir sér í lögregluskýrslu um það. Hann var spurður hvernig þeir hefðu staðið að skemmdarverkunum. Svar: „Við hentum diskum í gólfið og svoleiðis. Ég man ekki alveg hvernig þetta var bara svona glerdót.”
Í lögregluskýrslu sem Theodór Þórðarson varðstjóri ritar og tímasett er 21. maí 1998 kl. 15:45, segir að þá hafi verið tilkynnt um innbrot í sumarbústað nr. 36 í Eyrarskógi í Svínadal. Varðstjórinn hafi farið á vettvang ásamt „ÁS lögreglum. H358”, þ.e. Ámunda Sigurðssyni héraðslögreglumanni. Aðstæðum er svo lýst:
„Aðferð: Brotin rúða 100x69 sm í hurð á vesturhlið bústaðarins og farið þar inn. Allt var á tjá og tundri í bústaðnum. Rótað hafði verið niður úr hillum og sumar þeirra brotnar. Í bústaðnum fannst brot úr hafnaboltakylfu sem hafði sjáanlega verið notuð við að brjóta og bramla ýmislegt í bústaðnum.” Síðar segir:
„Tjón: Mikið tjón varð á ýmsum innanstokksmunum, sérstaklega ýmsum skrautmunum svo og útskorinni dagbók. Sjá nánar meðfylgjandi gögn.”
Í skjölum sem fylgja lögregluskýrslunni er skrá yfir muni, en í yfirskrift hennar segir að um sé að ræða „sundurliðun á skemmdum munum eða stolnum munum og upplýsingar vegna útreiknings bóta.” Þar eru fyrst upp taldir stolnir munir, en síðan skemmdir, og undir skemmdum munum 38 upptalningarliðir sem virðast vera hinir sömu og í ákæru.
Theodór Þórðarson lögregluvarðstjóri bar vitni fyrir dómi. Hann sagði um aðkomuna í bústað nr. 36, að þar hefðu verið unnin „stórfelld skemmdarverk”. „Þegar maður horfir yfir bústaðinn, þá er hann, eins og maður segir, rústaður.” Vitnið sagði að runnið hefði æði á þann eða þá sem þarna voru að verki. Það hefði verið gert í að eyðileggja. Farið hefði verið upp í svefnloft sem þarna væri og ýmsum munum rutt þar fram af, sem hefðu brotnað eða eyðilagst í gólfinu. „Síðan fundum við brot úr trékylfu, sem okkur fannst líklegt að hefði verið notuð til að berja á ýmsu, og för eftir hana voru víða um húsið, m.a. á hurðarkörmum . . . Hún hafði klofnað við þetta og það var hluti af henni sem fannst þarna. Eftirminnilegt er að þarna voru antik-munir ég man eftir gömlum spunarokk, sem hafði verið eyðilagður beinlínis.” Vitnið sagði að útskorin gestabók hefði verið eyðilögð, barin í sundur. Glerhurðir í skáp hefðu verið brotnar. Einhver hefði „lagt sig eftir að brjóta með þessari kylfu líklegast - ýmsa smá skrautmuni.” Vitnið var spurt hvort það hefði sést á brotum kylfunnar að hún hefði nýlega brotnað. Svar: „Já, mér fannst að það væri mjög líklegt.”
Ámundi Sigurðsson héraðslögreglumaður bar vitni fyrir dómi. Hann sagði að bústaður nr. 36 hefði verið „gjörsamlega í rúst að innan”. Það hefði verið „líkast því að orðið hefði sprenging þarna inni”. Þarna hefðu verið brotnir ýmsir „smáhlutir, sérstaklega hlutir sem manni finnast ómetanlegir”. Gengið hefði verið þannig til verks, að því að sér hefði fundist, að leitað hefði verið eftir slíkum munum, eins og styttum, gestabók og glerhurðum. Vitnið sagði að þeir lögreglumenn hefðu séð þarna brot úr hafnabotlakylfu. Ekki hefði verið annað að sjá en menn hefðu lagt sig eftir að eyðileggja.
Með játningum ákærðu, Á og Ragnars Arnar, er sannað að þeir unnu í sameiningu skemmdarverk á munum í húshlutum í sumarbústað nr. 36 í Eyrarskógi Hvalfjarðarstrandarhreppi. Með lögregluskýrslu Thodórs Þórðarsonar varðstjóra og greinargóðu vætti hans fyrir dómi, sem styðst við framburð ákærða Á fyrir lögreglu og fær einnig stuðning í vætti Ámunda Sigurðssonar héraðslögreglumanns fyrir dómi, er sannað að við skemmdarverkin var notuð hafnaboltakylfa. Dómari metur svo lögregluskýrslu um skemmdirnar og meðfylgjandi gögn og vætti lögreglumannanna tveggja sem fóru á vettvang, að eignaspjöll þau sem ákærðu unnu, verði að teljast stórfelld, og varðar brot þeirra við 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem talið er í ákæru.
Um III. hluta ákæru.
[...]
Um IV. hluta ákæru.
[...]
Um V. hluta ákæru.
[...]
Refsingar.
Ákærðu Á og Ragnar Örn Möller eru sakfelldir fyrir mörg þjófnaðarbrot. Á einni nóttu brutust þeir í sameiningu inn í fjölda sumarbústaða af mikilli einbeitni og höfðu á brott með sér fjölmarga verðmæta muni. Varðar brot þeirra við 2. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga. Þeir eru einnig sakfelldir fyrir stórfelld eignaspjöll, ákærði Á reyndar bæði fyrir brot á 1. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Refsingu þessara ákærðu ber að tiltaka með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
[...]
Ákærði Ragnar Örn Möller var hátt á 20. aldursári þegar hann framdi brotin. Hann hefur skv. sakavottorði einu sinni hlotið refsingu; hinn 9. september 1996 gekkst hann undir viðurlagaákvörðun fyrir dómi vegna brots á 219. gr. almennra hegningarlaga og nokkrum ákvæðum umferðarlaga. Dómara þykir refsing hans hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi, en rétt þykir honum að fullnustu þriggja mánaða þeirrar refsingar verði frestað, og falli sá hluti refsingarannnar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. nánar í dómsorði.
[...]
Um skaðabótakröfur.
Verjendur allra ákærðu hafa krafist þess að skaðabótakröfum Sjóvá-Almennra hf. og Tryggingar hf. verði vísað frá dómi. Bótakrefjendum var tilkynnt um þingfestingu máls þessa og einnig um aðalmeðferð þess. Af þeirra hálfu hefur ekki verið sótt þing og kröfur þeirra ekki skýrðar. Bótakröfurnar eru margþættar, og telur dómari að um þær verði ekki dæmt, nema að undangengum málflutningi. Samkvæmt 5. mgr. 172. gr. laga nr. 1971991 ber að vísa kröfum þessum frá dómi.
Málskostnaður.
Rétt þykir dómara með vísan til 3. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 að öll fjögur ákærðu greiði óskipt allan sakarkostnað annan en málsvarnarlaun verjenda, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
Ákærðu Á, Ragnar Örn og M verða dæmd til að greiða óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., sem skulu vera kr. 110.000 auk virðisaukaskatts.
Ákærða R verður dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., sem skulu vera kr. 80.000 auk virðisaukaskatts.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
[...]
Ákærði Ragnar Örn Möller sæti 6 mánaða fangelsi. Fullnustu þriggja mánaða þeirrar refsingar skal fresta, og falli sá hluti refsingarinnar niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
[...]
Skaðabótakröfum Sjóvá Almennra hf. og Tryggingar hf. á hendur ákærðu Á, Ragnari Erni og R er vísað frá dómi.
Ákærðu Á, Ragnar Örn, M og R greiði óskipt allan annan sakarkostnað en málsvarnarlaun verjenda. Ákærðu Á, Ragnar Örn og M greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., kr. 110.000 auk virðisaukaskatts. [...]