Hæstiréttur íslands
Mál nr. 521/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Aðfinnslur
|
|
Föstudaginn 11. september 2009. |
|
Nr. 521/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Aðfinnslur.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. september 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Lögregla rannsakar innbrotahrinu í Reykjavík og er málið umfangsmikið. Varnaraðili, sem kom til landsins 27. ágúst 2009, hefur játað aðild að innbroti 1. september 2009 og vísbendingar eru um að hann hafi tekið þátt í öðru innbroti 30. ágúst 2009 og einnig tekið þátt í að fela þýfi sem áður var geymt að P í Reykjavík. Verður ekki vefengt að rannsóknarhagsmunir réttlæti að hann sé látinn sæta gæsluvarðhaldi og verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Það athugast að varnaraðili sat í gæsluvarðhald frá 1. til 4. september 2009 og var yfirheyrður tvívegis á þeim tíma. Hann var handtekinn á ný 8. sama mánaðar klukkan 22.10 í tengslum við húsleit að P, þar sem hann var staddur. Hann var færður fyrir dómara klukkan 20.10 daginn eftir. Ekki verður séð að hann hafi verið yfirheyrður á þessum tíma. Brýnt er að lögregla láti rannsókn sem beinist að manni sem lögregla telur eiga að sæta gæsluvarðhaldi hafa forgang vegna þeirrar frelsisskerðingar sem varðhald felur í sér. Gögn málsins eru ruglingsleg og er frágangur þeirra til dómsins ámælisverður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði kærða X, fæddur [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. september nk. kl. 16:00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhaldsins verði samkvæmt b- til e- liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að aðfaranótt 1. september sl. hafi fjórir menn verið handteknir, kærðu X, Y, Z og Þ, grunaðir um innbrot í söluturninn Skalla, Hraunbæ 102 í Reykjavík. Í kjölfarið hafi verið farið í húsleit á uppgefinn dvalarstað þeirra að M í Reykjavík þar sem töluvert magn af þýfi hafi fundist og hafi þeir allir, að kærða X undanskildum, verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi meðkærði Y játað að hafa brotist inn í íbúðarhúsnæði við N í Reykjavík hinn 8. ágúst sl., verslunarhúsnæði Sportís við Austurhraun 3 í Garðabæ hinn 20. ágúst sl. og íbúðarhúsnæði við O í Reykjavík hinn 30. ágúst sl. Hafi meðkærði Y sagt að samverkamenn hans í tveimur fyrri málunum hefðu verið meðkærðu Z og Þ, en í hinu síðastgreinda hefðu samverkamenn hans verið meðkærði Z og kærði X. Jafnframt hafi meðkærði Y upplýst um raunverulegan dvalarstað sinn, P, en fram að því hafi hann villt um fyrir lögreglu með því að gefa upp rangan dvalarstað.
Í kjölfar þessara upplýsinga hafi verið farið í húsleit í P. Þar hafi fimm menn verið staddir, m.a. kærði X, og komið hafi í ljós að hann búi þar einnig. Kærði hafi því orðið uppvís af því að hafa ítrekað reynt að villa um fyrir lögreglu um raunverulegan dvalarstað sinn.
Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að kærði X hafi komið hingað til lands 27. ágúst sl. og skömmu eftir komu hans hingað hafi hann verið handtekinn í tengslum við innbrotið í Skalla. Honum hafi verið sleppt að loknum yfirheyrslum en nú liggi fyrir framburður þess efnis að hann hafi átt þátt í öðru innbroti skömmu áður. Telji lögregla ljóst að kærði X hafi komið hingað til lands í þeim tilgangi einum að fremja auðgunarbrot og framfleyta sér þannig, en komið hafi í ljós að kærði hafi keypt flugmiða aðra leiðina, hann hafi ekki atvinnu né aðrar tekjur á Íslandi og hafi einungis haft 400 slot meðferðis við komuna til landsins, sem jafngildi 200 bandaríkjadölum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi undanfarnar vikur haft til rannsóknar gríðarlega umfangsmikil þjófnaðarmál, sem varði fjölmörg innbrot á síðustu dögum 3 og vikum inn á heimili fólks, í bifreiðar og í fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Kærði sé jafnvel talin geta tengst þeim málum því eftir sem rannsókn málanna miði áfram vindi þau sífellt meira upp á sig.
Rannsókn málanna sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi svo lögregla geti náð utan um þátt kærða í málunum, en sökum þess hve gríðarlega umfangsmikil þessi mál séu hafi ekki gefist tími til að yfirheyra kærða um önnur mál en innbrotið í Skalla.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varði allt að 6 ára fangelsisrefsingu. Telji lögregla að ef kærði verði látinn laus muni hann geta torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að tala við samverkamenn sína og reyna að hafa áhrif á framburð þeirra.
Sakarefni málsins sé talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn bera með sér er fallist á að kærði, sem er pólskur ríkisborgari, sé undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við aðra framið verknað sem varðað geti fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus. Þegar litið er til framanritaðs telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008, um meðferð sakamála, og er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka kröfunni skemmri tíma. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b. c. d. og e. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kærði, X, fæddur [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. september nk. kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.