Hæstiréttur íslands

Mál nr. 303/2004


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Slysatrygging
  • Dánarbætur


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005.

Nr. 303/2004.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

A

B

C

D og

E

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Vátryggingarsamningur. Slysatrygging. Dánarbætur.

X féll fram af svölum á 4. hæð gistihúss á Kanaríeyjum og beið af því bana. Höfðu X og sambúðarmaður hennar, Y, sem bæði voru undir áhrifum áfengis í umrætt sinn, átt í deilum á svölum íbúðar, þar sem þau gistu í orlofsferð. Ýtti Y við X eða hrinti þannig að hún féll aftur fyrir sig yfir handrið með fyrrgreindum afleiðingum. Talið var að lögerfingjar X ættu rétt til greiðslu dánarbóta úr hendi vátryggingarfélagsins T hf. í skjóli fjölskyldutryggingar og svokallaðrar greiðslukortatryggingar VISA.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

 Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2004. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi féll X, móðir stefndu, fram af svölum á 4. hæð gistihúss á Kanaríeyjum 5. janúar 2002 og beið af því bana. Eftir gögnum málsins höfðu sú látna og sambúðarmaður hennar, Y, sem bæði voru undir áhrifum áfengis í umrætt sinn, átt í deilum á svölunum, en þær voru á íbúð, þar sem þau gistu í orlofsferð. Ýtti Y við henni eða hrinti þannig að hún féll aftur fyrir sig yfir handrið með fyrrgreindum afleiðingum. Fór lögreglurannsókn fram vegna þessa og var Y sviptur frelsi í tengslum við hana frá 8. janúar til 18. febrúar 2002. Að henni lokinni var gefin út ákæra á hendur honum, þar sem hann var borinn sökum um manndráp af gáleysi. Var hann sakfelldur fyrir það brot í samræmi við játningu sína með dómi, sem gekk fyrir sakadómi í Las Palmas á Kanaríeyjum 19. júlí 2002, og gert að sæta fangelsi í eitt ár.

Í málinu leita stefndu sem lögerfingjar X greiðslu dánarbóta í skjóli fjölskyldutryggingar og svokallaðrar greiðslukortatryggingar VISA, sem óumdeilt er að í gildi hafi verið hjá áfrýjanda þegar X lést. Er um ræða 750.000 krónur í dánarbætur samkvæmt fyrrnefndu vátryggingunni og 6.300.000 krónur samkvæmt þeirri síðarnefndu. Áfrýjandi telur sér óskylt að greiða dánarbætur með því að leitt hafi verið í ljós við rannsókn að verulegt magn áfengis hafi verið í blóði X við andlát hennar. Á þeim grunni ber hann fyrir sig nánar tiltekin ákvæði í skilmálum vátrygginganna, sem girði fyrir rétt til bóta þegar svo stendur á fyrir vátryggðum.

II.

Í málinu liggur lítið sem ekkert fyrir til að varpa frekar ljósi á aðdragandann að andláti X en áður er getið. Ekki hafa verið lagðar fram skýrslur, sem kunna að hafa verið teknar af Y við fyrrnefnda lögreglurannsókn eða fyrir dómi á Kanaríeyjum. Er því ekkert annað að sjá um framburð hans en það, sem segir í framlagðri þýðingu á dóminum yfir honum frá 19. júlí 2002. Kemur þar fram að 5. janúar 2002 um kl. 23 hafi Y verið staddur á fjórðu hæð í nafngreindu gistihúsi og „verið að munnhöggvast við“ sambúðarkonu sína X. Þau hafi bæði verið greinilega undir áhrifum áfengis og hann á tilteknu augnabliki ýtt við eða hrint henni. Hafi það „vegna ásigkomulags hennar leitt til þess að hún missti jafnvægið og féll aftur á bak yfir handriðið og hentist fram af því og hlaut við fallið alvarlega áverka, sem leiddu til dauða hennar.“ Virðist þessi frásögn Y hafa verið lögð til grundvallar dómi, en ekkert liggur fyrir um hvort vitni hafi getað borið um þessi atvik í einhverjum atriðum. Af krufningarskýrslu réttarlæknis í Las Palmas, sem lögð hefur verið fram í þýðingu, verður meðal annars séð að X hafi verið 62 ára að aldri og 165 cm á hæð, svo og að hún hafi vegið 65 kg. Sýni hafi verið tekið af blóði hennar til að mæla áfengismagn í því og það reynst vera 3,0‰. Lík hennar hafi borið áverka, sem séu „dæmigerðir fyrir fall“, og dánarorsök verið alvarlegir fjöláverkar. Auk þessara gagna hafa verið lagðar fram tvær ljósmyndir af handriðinu, sem X féll yfir, og er á þeim haldið málbandi upp að handriðinu. Af myndunum verður ráðið að hæð handriðsins hafi verið um 92 cm.

Í lið 9.8 í vátryggingarskilmálum áfrýjanda fyrir svonefnda greiðslukortatryggingu segir að hann bæti ekki „tjón sem beint eða óbeint leiðir af sjálfsvígi, geðveiki, meiðslum sem menn valda sjálfum sér, handalögmálum, þátttöku í refsiverðum verknaði, misnotkun lyfja, neyslu fíkniefna, áfengis, kynsjúkdómum eða tjón sem verða er vátryggður hefur stofnað sér í hættu að nauðsynjalausu.“ Þá kemur fram í lið 9.9 í skilmálunum að það sama eigi við um tjón, sem leiðir af stórkostlegu gáleysi vátryggðs. Áfrýjandi telur fyrrgreinda ákvæðið eiga hér við vegna þeirrar áfengisneyslu X, sem niðurstaða efnagreiningar úr blóðsýni leiði í ljós, og það síðarnefnda einnig, enda hafi hún sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hafa neytt áfengis í þessum mæli. Eftir hljóðan þessara ákvæða vátryggingarskilmálanna felst í þeim áskilnaður um að orsakasamband sé milli tjóns annars vegar og hins vegar þess framferðis vátryggðs, sem þar um ræðir. Fyrir því orsakasambandi verður áfrýjandi að bera sönnunarbyrði. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að Y hafi ýtt við eða hrint X á svölunum. Ekkert hefur verið upplýst um hversu langt hún hafi þá verið frá handriðinu eða hvernig nánar henni hafi verið ýtt eða hrint. Áfrýjandi hefur ekki aflað gagna, þar sem reynt yrði með hliðsjón meðal annars af hæð og þyngd X, hæð handriðsins og stærð og lögun svalanna að varpa frekar ljósi á þetta eða hvort hún hefði getað fallið fram af svölunum án þess að við henni hefði verið ýtt. Ófært er að fallast á með áfrýjanda að sú staðreynd ein, að 3,0‰ áfengis hafi greinst í blóðsýni úr X, nægi að þessu virtu til að sýna fram á orsakasamband milli ölvunar hennar og atvika, sem urðu henni að fjörtjóni. Eru því ekki skilyrði til að taka til greina sýknukröfu áfrýjanda að því er varðar þá vátryggingu, sem hér um ræðir.

Í vátryggingarskilmálum áfrýjanda, sem gilda um fjölskyldutryggingu, segir í lið 7.1 að verði tjón „rakið til ásetnings, stórkostlegs gáleysis vátryggðs, ölvunar hans eða notkunar á fíkniefnum eða þátttöku í refsiverðum verknaði, hefur hann fyrirgert rétti sínum til bóta.“ Í þessu orðalagi ákvæðisins felst skilyrði um að orsakasamband standi milli tjóns og ölvunar vátryggðs, sem áfrýjandi hefur ekki sýnt hér fram á samkvæmt áðursögðu. Samkvæmt lið 34.3 í skilmálum þessarar vátryggingar verður ekki bætt með henni fyrir „slys, sem vátryggður verður fyrir í handalögmáli, við þátttöku í refsiverðum verknaði, undir áhrifum deyfi- og/eða eiturlyfja eða í ölæði, nema sannað sé, að ekkert samband hafi verið milli ástands þessa og slyssins.“ Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 2001, bls. 1047, sbr. einnig dóm 20. febrúar 2003 í máli 401/2002, verður að skýra þetta ákvæði vátyggingarskilmálanna þannig að það eigi því aðeins við að slys verði rakið til þeirrar auknu áhættu, sem ölæði fylgir. Eins og málið liggur fyrir hefur ekki verið sýnt fram á að ölvun X hafi ein út af fyrir sig aukið áhættu á að henni yrði ýtt eða hrint eða að slík atlaga myndi valda því að hún félli fram af svölunum. Getur áfrýjandi því ekki vikist undan greiðsluskyldu við stefndu á grundvelli þessara ákvæða vátryggingarskilmálanna.

Samkvæmt framangreindu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjanda beri að greiða stefndu 7.050.000 krónur. Með bréfi 29. október 2002 luku stefndu því að leggja fyrir áfrýjanda nauðsynleg gögn til þess að hann gæti metið vátryggingaratburðinn og fjárhæð bóta. Bar því að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með því að héraðsdómi hefur ekki verið gagnáfrýjað verður niðurstaða hans um dráttarvexti látin standa óröskuð.

Dæma verður áfrýjanda til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefndu, A, B, C, D og E, samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2004.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 27. apríl sl., var höfðað fyrir dómþinginu af A, B, C, D, og E, á hendur Trygg­inga­mið­stöðinni hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 29. október 2003.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnendum 7.050.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðbætur frá 29. nóvember 2002 til greiðsludags.  Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og stefn­endur dæmdir til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

II

Málavextir eru þeir, að móðir stefnenda, X, féll af svölum fjórðu hæðar hótels á Playa del Inglés hinn 5. janúar 2002.  Hlaut hún við fallið alvarleg meiðsl og lést í framhaldi af því.  Tildrög þessa atburðar voru, samkvæmt framburði sam­býl­ismanns hennar, Y, fyrir dómi í Las Palmas, með þeim hætti að hann hafi verið að munnhöggvast við sambýliskonu sína, en þau hafi bæði verið undir áhrifum áfengis, og hafi hann ýtt við eða hrint henni og hafi það leitt til þess að hún hafi misst jafnvægið og fallið aftur á bak yfir handriðið með fyrrgreindum afleiðingum.  Hlaut hún alvarlega áverka, sem leiddu til dauða hennar.  Var Y dæmdur fyrir manndráp af gáleysi í sakadómi í Las Palmas hinn 19. júlí 2002.  Samkvæmt skýrslu réttar­líffræði­stofnunar í Las Palmas mældist áfengismagn í blóði X heitinnar 3 prómille.

Þau X og Y höfðu greitt fyrir ferð sína til Kanaríeyja með greiðslu­korti Visa og einnig var X með fjölskyldutryggingu hjá stefnda.  Vegna þessara trygg­inga leituðu stefnendur, synir X, til stefnda um greiðslu dánarbóta úr um­ræddum tryggingum.

Hinn 28. júní 2002 ritaði stefndi stefnendum bréf, þar sem því var lýst, að stefndi teldi ekki nægjanleg gögn liggja fyrir til þess að mögulegt væri að taka afstöðu til bóta­skyldu og vildi bíða með að taka afstöðu til bótakröfu uns dómur lægi fyrir.

Hinn 9. júlí 2002 fóru stefnendur fram á það að málið yrði lagt fyrir tjónanefnd vá­trygg­ingafélaganna.

Hinn 23. júlí 2002 komst tjónanefndin að þeirri niðurstöðu, að miðað við fyrir­liggjandi gögn væri ekki nægilega upplýst hvort skilyrði bótaskyldu væru fyrir hendi.

Hinn 29. október 2002 kröfðu stefnendur stefnda um greiðslu dánarbóta í samræmi við skilmála tryggingarinnar.

Hinn 4. nóvember 2002 hafnaði stefndi bótaskyldu, með þeim rökum að ölvun­ar­ástand X hefði verið orsök þess að hún féll niður af svölunum, en ekki hrinding Y. 

Stefnendur skutu málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, sem komst að þeirri niðurstöðu hinn 18. desember 2002, að greiðsluskylda stefnda væri ekki fyrir hendi, þar sem ölvun vátryggingartaka fæli í sér aukna áhættu.

III

Stefnendur byggja á því, að frumorsök slyssins hafi verið sú, að ýtt var við X áður en hún lést.  Fram komi í dómsúrskurði sakadóms á Kanaríeyjum, að sambýlismaður X hafi ýtt við henni, og hafi það leitt til þess að hún missti jafnvægið og hafi fallið aftur á bak yfir handriðið og henst fram af því og hlotið af því alvalega áverka, sem leitt hafi til dauða hennar.  Þrátt fyrir að X hafi verið undir áhrifum áfengis er þetta gerðist hafi það ekki verið frumorsök slyssins.  Til þess að fella niður bótaskyldu þurfi hins vegar ölvunin að hafa verið frumorsök slyssins.

Stefnendur krefja stefndu um greiðslu 6.300.000 króna dánarbóta úr greiðslu­korta­trygg­ingu X í samræmi við vátryggingarskilmála.  Einnig krefja þeir stefnda um 750.000 króna greiðslu úr fjölskyldutryggingu hinnar látnu.  Samtals er því krafa þeirra 7.050.000 krónur. 

Krafist er dráttarvaxta mánuði frá því að stefndi hafi verið krafinn um greiðslu.

Um lagarök vísa stefnendur til laga nr. 20/1954, auk meginreglna skaðabóta- og vá­trygg­ingaréttar svo og kröfu- og samningaréttar.

Kröfu um dráttarvexti byggja stefnendur á lögum nr. 38/2001.

Kröfu um málskostnað byggja stefnendur á ákvæðum 21. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt byggja stefnendur á lögum nr. 50/1988, um virðis­aukaskatt.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að samkvæmt 9. kafla skilmála greiðslu­korta­tryggingar Visa Gullkorts, séu ákvæði um tilvik, sem leiði til þess að bótaréttur falli niður vegna almennra takmarkana á bótaskyldu.  Í tl. 9.8 sé kveðið á um að bótaréttur falli niður ef tjónsatburð megi beint eða óbeint rekja til neyslu áfengis.  Í skýrslu réttar­líf­fræði­stofnunar í Las Palmas komi fram, að áfengismagn í blóði X hafi mælst 3 prómille.  Hin látna hafi því verið ofurölvi er hún lést og sé það því skoðun stefndu, að það hafi fyrst og fremst valdið því að svo hörmulega fór í umrætt sinn, enda komi fram í úr­skurðinum, að það hafi verið vegna ásigkomulags hinnar látnu, að hún missti jafnvægið og féll aftur á bak yfir handriðið.  Jafnvel þótt ekki yrði fallist á það ætti a.m.k. að vera óum­deilt að ölvunarástand hinnar látnu hafi átt óbeinan þátt í því að slysið varð, en samkvæmt tilvitnaðri grein skilmálanna nægi það til þess að bótaréttur falli niður.

Einnig bendir stefndi á, að samkvæmt gr. 9.9 í áðurgreindum skilmálum, komi fram að félagið bæti ekki tjón sem rekja megi til stórkostlegs gáleysis vátryggðs.

Hin mikla áfengisdrykkja stefndu, umrætt sinn, teljist stórkostlegt gáleysi í skilningi skil­málanna og leiði einnig til þess að bótaréttur falli niður.

Þá byggir stefndi á því, að í skilmálum um fjölskyldutryggingu sé að finna sam­bærilegt ákvæði og þau sem gildi um kortatrygginguna.

Samkvæmt gr. 7.1. í þeim skilmálum sé kveðið á um, að ef tjón verði rakið til ölvunar hafi tryggingartaki fyrirgert rétti sínum til bóta.  Ennfremur komi fram í kaflanum um slysatryggingu í frítíma, að slys, sem vátryggður verði fyrir í ölæði, bæti vátryggingin ekki, nema sannað sé að ekkert samband hafi verið á milli ástands þessa og slyssins.  Vátryggður teljist vera í ölæði þar sem áfengismagn í blóði mælist 3 prómille, enda áfengis­magn svo mikið að banvæn áfengiseitrun blasi við.

Stefndi bendir og á, að vátryggingafélögum sé almennt heimilt að hafa í skilmálum sínum ákvæði um að vátrygging gildi ekki við tilteknar aðstæður, eins og hér um ræði.

V

Eins og að framan greinir lést móðir stefnenda, X, eftir að hafa fallið fram af svölum hótels á Kanaríeyjum.  Samkvæmt framburði sambýlismanns hennar fyrir sakadómi á Kanaríeyjum, voru atvik með þeim hætti, að þeim hafði orðið sundur­orða og hann ýtt við henni eða hrint þannig að hún hafi misst jafnvægið og fallið fram af svölunum. 

Í máli þessu krefja stefnendur stefnda um greiðslu dánarbóta úr fjölskyldu-tryggingu og kortatryggingu, sem móðir þeirra hafði tekið hjá stefnda. 

Ágreiningslaust er, að bæði greiðslukortatrygging og fjölskyldutrygging var í gildi hjá stefndu er slysið varð og að fjárhæð sú sem stefndi er krafinn um greiðslu á sé í sam­ræmi við skilmála trygginganna.  Hins vegar greinir aðila á um bótaskylduna.  Samkvæmt skil­málum umræddra trygginga fellur bótaréttur niður ef ölvun hefur átt þátt í tjóns­atburði.  Segir svo í gr. 9.8 vátryggingarskilmála VISA Gullkorts, að tryggingin bæti ekki „tjón sem beint eða óbeint leiðir af sjálfsvígi, geðveiki, meiðslum sem menn valda sjálfum sér, handalögmálum, þátttöku í refsiverðum verknaði, misnotkun lyfja, neyslu fíkni­efna, áfengis, kynsjúkdómum eða tjón sem verða er vátryggður hefur stofnað sér í hættu að nauðsynjalausu.” Og í skilmálum fjölskyldutryggingarinnar segir svo í tl. 7.1: „Ef tjón verður rakið til ásetnings, stórkostlegs gáleysis vátryggðs, ölvunar hans eða notkunar á fíkniefnum eða þátttöku í refsiverðum verknaði, hefur hann fyrirgert rétti sínum til bóta.” Sams konar ákvæði er að finna í tl. 34.3. þar sem segir svo: „Slys sem vá­tryggður verður fyrir í handalögmáli, við þáttöku í refsiverðum verknaði, undir áhrifum deyfi- og/eða eiturlyfja eða í ölæði, nema sannað sé, að ekkert samband hafi verið milli ástands þessa og slyssins.”

Fyrir liggur í málinu að áfengismagn í blóði X var 3 prómille, er hún lést.   Byggir stefndi á því að ölvun X umrætt sinn hafi áhrif á bótaskyldu og ölvun­ar­ástand hennar hafi átt beinan eða óbeinan þátt í því að slysið varð.

Um tildrög láts X er sambýlismaður hennar, Y, einn til frásagnar, en hann var ákærður og dæmdur fyrir manndráp af gáleysi.  Hefur hann lýst atburðum svo, að hann hafi „ýtt við eða hrint henni”.  Gaf hann og þá skýringu á atburðum, að ölvun­ar­ástand X hafi leitt til þess að hún hafi misst jafnvægið og fallið fram yfir  svala­handriðið.  Þrátt fyrir þennan framburð Y, sem byggt var á í sakamáli sem höfðað var á hendur honum, er ekki unnt með óyggjandi hætti að segja til um hvernig atvik voru.  Liggur ekki fyrir í málinu að X heitin hafi fallið vegna ölvunarástands síns heldur er þvert á móti upplýst að henni var ýtt eða hrint sem leiddi til fallsins.  Gildir þá einu hvort hún var undir áhrifum áfengis, þar sem drykkjuástand hennar var ekki orsaka­valdur að fallinu.  Með vísan til þess fellur því tilvikið utan undantekningaákvæða trygg­inga­skilmála, sem stefndi byggir á.  Samkvæmt því verður fallist á kröfu stefnenda eins og hún er fram sett, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnendum máls­kostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðis­aukaskattsskyldu stefnenda.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnendum, A, B, C, D og E, in solidum 7.050.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 29. nóvember 2002 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnendum in solidum 800.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðis­auka­skattur.