Hæstiréttur íslands
Mál nr. 526/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Samaðild
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 19. janúar 2006. |
|
Nr. 526/2005. |
Óli Pétur Gunnarsson(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) gegn Páli Lýðssyni (Ólafur Björnsson hrl.) |
Kærumál. Samaðild. Frávísun frá héraðsdómi staðfest.
Ó stefndi P og krafðist viðurkenningar á ábúðarrétti á jörðinni L, en Ó hafði verið kvæntur dóttur P og hafði bú þeirra hjóna verið tekið til opinberra skipta vegna skilnaðar þeirra. Varð ekki betur séð en Ó byggði á því að þau hjón hefðu átt hinn umdeilda ábúðarrétt sameiginlega. Var talið að þar sem Ó hefði uppi í málinu kröfur, sem kona hans kynni að eiga með honum, án þess að gefa henni kost á að gæta þar réttar síns, yrði samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. nóvember 2005, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ágreiningur aðila varðar ábúðarrétt að jörðinni Litlu-Sandvík og Stóru-Sandvík II. í Árborg, en varnaraðili hefur óðalsrétt á jörðinni. Sóknaraðili krefst aðallega að viðurkenndur verði lífstíðarábúðarréttur hans á jörðinni, en til vara að hann verði talinn hafa ótímabundinn ábúðarrétt. Sóknaraðili hefur verið kvæntur dóttur varnaraðila og hafa þau átt lögheimili að Litlu-Sandvík frá 1. desember 1986 og hafa sinnt búskap þar ásamt foreldrum hennar, varnaraðila og konu hans. Enginn samningur hefur verið gerður milli aðila um afnot yngri hjónanna að jörðinni, en sóknaraðili reisir kröfu sína á 9. gr. núgildandi ábúðarlaga nr. 80/2004 og 6. gr. fyrri ábúðarlaga nr. 64/1976. Bú yngri hjónanna er nú undir opinberum skiptum samkvæmt úrskurði 18. janúar 2005, en konan hefur krafist skilnaðar. Ágreiningur varð við skiptin um hvort hjónanna ætti rétt til dvalar í íbúðarhúsinu að Litlu-Sandvík, sem þau deila með eldri hjónunum. Skiptastjóri tók ákvörðun 1. mars 2005 um að konan héldi íbúðarhúsnæðinu. Hefur þeim ágreiningi nú verið vísað til héraðsdóms og er þar til meðferðar.
Varnaraðili reisir frávísunarkröfu sína á því að vera sóknaraðila á jörðinni sé tilkomin vegna hjúskapar hans og dóttur sinnar. Í 26. gr. núgildandi ábúðarlaga segi að komi til hjónaskilnaðar ábúenda skuli skorið úr því eftir hjúskaparlögum nr. 31/1993 hvort hjóna haldi ábúðarrétti. Bú þeirra sé undir opinberum skiptum og sé það skiptastjóra að taka ákvörðun um þennan ágreining. Þá séu hagsmunir hjónanna svo samþættir að ekki sé unnt að krefjast dóms aðeins um ábúðarrétt annars þeirra og sé samaðild þeirra nauðsynleg. Þar sem þau standi ekki bæði að málsókninni og ábúðarrétturinn verði ekki dæmdur öðru þeirra beri að vísa málinu frá dómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðili kveðst hins vegar hafa sjálfstæða lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um ábúðarrétt sinn. Hagsmunir hans og dóttur varnaraðila séu ekki samþættir lengur. Verði niðurstaðan sú að ábúðarréttur sé fyrir hendi verði að taka afstöðu til hans við búskiptin. Honum sé því nauðsyn á að fá úr þessu skorið.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð bókun á skiptafundi 23. nóvember 2005. Kemur þar fram að á fyrri skiptafundum hafi verið rætt um hugsanlegan ábúðarrétt sóknaraðila og konu hans að jörðinni Litlu-Sandvík. Skiptastjóri tekur fram að sóknaraðili hafi haft heimild til að höfða mál um ábúðarréttinn á eigin ábyrgð og kostnað. Af hálfu konunnar kemur fram sú afstaða að þau hafi hvorugt ábúðarrétt að jörðinni og enginn grundvöllur sé því til málshöfðunarinnar. Sóknaraðili geti ekki átt sjálfstæðan rétt til ábúðar enda hafi búseta þeirra á jörðinni verið í skjóli varnaraðila.
Við skilnað hjóna fer það samkvæmt 26. gr. ábúðarlaga eftir ákvæðum hjúskaparlaga hvort þeirra eigi að hljóta ábúðarrétt sé hann fyrir hendi. Opinber skipti milli hjóna fara að ákvæðum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. þeirra skulu eignir og réttindi aðila á þeim tíma, sem yfirvald tekur fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, koma til skipta, verði þau ekki talin til séreigna. Við skipti milli sóknaraðila og konu hans ætti því skiptastjóri að kveða á um hvort þeirra hlyti ábúðarréttinn sé hann fyrir hendi. Ágreiningi um það mætti skjóta til héraðsdóms. Í máli þessu er hins vegar deilt um það hvort ábúðarréttur sé yfirleitt fyrir hendi og er sá ágreiningur milli sóknaraðila og fyrrum tengdaföður hans, sem hefur óðalsrétt að jörðinni. Getur sóknaraðili haft af því lögvarða hagsmuni að fá úr því skorið fyrir dómi hvort ábúðarrétturinn sé yfirleitt fyrir hendi. Samkvæmt málflutningi sóknaraðila verður ekki annað séð en hann telji þau hjónin hafi haft sameiginlegan ábúðarrétt að jörðinni og hefði honum því verið rétt að stefna konu sinni inn í málið. Þar sem hann hefur þannig uppi kröfur, sem kona hans kann að eiga með honum, án þess að henni sé gefinn kostur á að gæta réttar síns ber að vísa málinu frá dómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Niðurstaða héraðsdóms er því staðfest.
Samkvæmt þessari niðurstöðu verður sóknaraðili dæmdur til greiðslu kærumálskostnaðar, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður.
Sóknaraðili, Óli Pétur Gunnarsson, greiði varnaraðila, Páli Lýðssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. nóvember 2005.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 26. október sl., en var endurupptekið í dag til framlagningar gjafsóknarleyfis stefnanda og tekið að nýju til úrskurðar. Málið er höfðað með birtingu stefnu 16. apríl 2005.
Stefnandi er Óli Pétur Gunnarsson, [kt.], og stefndi er Páll Lýðsson, [kt.], báðir skráðir með heimili að Litlu-Sandvík, 801 Selfossi.
Dómkröfur stefnanda eru að viðurkenndur verði með dómi lífstíðarábúðarréttur hans á jörðunum Litlu-Sandvík og Stóru Sandvík II, Árborg, Árnessýslu. Til vara að viðurkennt verði að hann hafi ótímabundinn ábúðarrétt að jörðunum Litlu-Sandvík og Stóru Sandvík II. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 31. október sl.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Þá er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Í þessum þætti málsins er til úrslausnar aðalkrafa stefnda um frávísun málsins og um málskostnað.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hafnað og málið tekið til efnislegrar meðferðar. Einnig krefst hann málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Málavextir.
Stefndi er þinglýstur eigandi jarðanna Litlu-Sandvíkur og Stóru Sandvíkur II. Er jörðin óðalsjörð, en stefndi tók við óðalinu árið 1971 af foreldrum sínum. Stefnandi kvæntist dóttur stefnda, Aldísi Pálsdóttur, og hefur verið með lögheimili að Litlu-Sandvík frá 1. desember 1986. Munu Aldís og stefnandi hafa sinnt búskap með stefnda og konu hans. Ekki hefur verið gerður samningur um afnot Aldísar og stefnanda af jörðinni. Aldís óskaði eftir skilnaði við stefnanda, og var kveðinn upp úrskurður 18. janúar 2005 um opinber skipti til fjárslita á milli þeirra.
Ágreiningur varð við skiptin milli stefnanda og Aldísar um hvort þeirra ætti rétt til dvalar í íbúðarhúsnæði að Litlu-Sandvík. Skiptastjóri tók afstöðu til þessa með ákvörðun 1. mars 2005 um að Aldís héldi rétti til dvalar í íbúðarhúsnæðinu. Var þessu mótmælt af hálfu stefnanda, en af hálfu Aldísar var þess krafist að ákvörðuninni yrði fylgt eftir af skiptastjóra, eftir atvikum með því að krefjast útburðar stefnanda. Vísaði skiptastjóri ágreiningi aðila um rétt til dvalar í íbúðarhúsnæðinu til héraðsdóms til úrlausnar, með vísan til 2. mgr. 112. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 122. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Er það mál nú einnig til meðferðar fyrir dóminum. Stefnandi hefur ekki talið sér fært að flytja úr íbúðarhúsinu, á þeim forsendum að það sé skilyrði samkvæmt ábúðarlögum að ábúandi hafi fasta búsetu á jörð.
Stefnandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á ábúðarrétti sínum þar sem stefndi hafi ekki viljað viðurkenna hann.
Málsástæður aðila og lagarök vegna frávísunarkröfu.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að Aldís Pálsdóttir, dóttir stefnda, hafi búið með stefnanda að Litlu-Sandvík í tæp 20 ár, en vera stefnanda á jörðinni sé til komin vegna hjúskapar hans við Aldísi. Í 26. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 segi að komi til hjónaskilnaðar ábúenda skuli skorið úr því eftir hjúskaparlögum nr. 31/1993 hvort hjóna haldi ábúðarrétti. Bú stefnanda og Aldísar sé undir opinberum skiptum. Séu hagsmunir stefnanda og Aldísar samþættir þannig að ekki sé unnt að krefjast dóms um ábúðarrétt annars þeirra. Telur stefnandi að vísa beri málinu frá dóminum, annars vegar þar sem samaðild sé nauðsynleg þar sem ábúðarrétturinn verði ekki dæmdur öðru hjónanna nema bæði eigi aðild að máli, og hins vegar þar sem það sé á verksviði skiptastjóra að taka ákvörðun um þennan ágreining. Sé málatilbúnaður stefnanda í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnandi kveðst hafa sjálfstæða lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um ábúðarrétt sinn. Kveður hann hagsmuni sína og Aldísar ekki vera samþætta lengur, heldur hafi þeir rofnað við skilnað þeirra. Verði niðurstaðan sú að ábúðarréttur sé fyrir hendi, verði að taka afstöðu til þess við búskiptin milli stefnanda og Aldísar. Honum sé því nauðsynlegt að afla viðurkenningar á ábúðarrétti sínum. Eignir og réttindi sem séu til staðar á úrskurðardegi opinberra skipta komi þar til skipta. Stefnandi kveður þau Aldísi vera fjárhagslega sjálfstæða einstaklinga, og þótt hagsmunir þeirra séu samþættir sé ekki unnt að koma í veg fyrir að stefnandi leiti réttar síns. Hann geri aðeins kröfu um viðurkenningu á þeim rétti sem hann eigi. Vísar stefnandi til þess að hann hafi lífsviðurværi sitt af búskap á jörðinni og sé um að ræða stjórnarskrárverndaðan eignarrétt hans. Samaðild sé ekki nauðsynleg og eigi stefnandi ekki að gjalda fyrir aðgerðarleysi Aldísar sem búi á jörðinni í skjóli stefnda. Kveður stefnandi deiluefnið hafa komið til tals við skiptin en skiptastjóra ekki hafa talið það falla undir skiptin.
Niðurstaða.
Kveðinn var upp úrskurður um opinber skipti til fjárslita á milli stefnanda og Aldísar Pálsdóttur 18. janúar sl. Hafa stefnandi og Aldís verið gift og búið saman að Litlu-Sandvík frá því á árinu 1986. Ekki liggur fyrir formlegur samningur um eðli búsetu þeirra þar, en af gögnum málsins má ráða að þau hafi stundað búskap, þá kemur fram að stefnandi hafi unnið sem leigubílstjóri og verið verktaki. Við skilnað hjóna fer, samkvæmt 26. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, eftir ákvæðum hjúskaparlaga nr. 31/1993, komi hjón sér ekki saman um hvort þeirra eigi að hljóta ábúðarréttindin. Ber skiptastjóra við opinber skipti að ákveða hvort hjóna haldi ábúð eða búsetu. Opinber skipti á milli hjóna fara eftir ákvæðum skiptalaga nr. 20/1991. Samkvæmt ákvæðum síðastgreindra laga skulu eignir og réttindi aðila, þau sem þó verða ekki talin séreignir, á þeim tíma er yfirvald tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, koma til skipta, og aflar skiptastjóri upplýsinga um eignir, réttindi og skyldur á skiptafundum, sbr. 104.-106. gr. skiptalaga. Við skiptin milli stefnanda og Aldísar myndi ábúðarrétti vera skipað eftir reglum nefndra laga hafi hann verið til staðar á þeim tíma sem þar er miðað við.
Deila stefnandi og Aldís um rétt til dvalar í íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík og hefur þeim ágreiningi verið skotið til dómsins samkvæmt 2. mgr. 112. gr. hjúskaparlaga, sbr. 122. gr. skiptalaga. Ekki er fallist á það með stefnanda að í ákvörðun sinni um það ágreiningsefni 1. mars 2005 hafi skiptastjóri hafnað því að taka afstöðu varðandi kröfu stefnanda um viðurkenningu á ábúðarrétti á jörðinni. Orðalagið verður að skilja svo að skiptastjóri sé að ítreka að með ákvörðuninni sé hann ekki að taka afstöðu til annarra deiluefna en þess hvort þeirra hafi rétt til dvalar í íbúðarhúsnæðinu að Litlu-Sandvík. Skiptastjóri hefur ekki tekið formlega á kröfu stefnanda þessa máls um viðurkenningu á ábúðarrétti.
Bæði Aldís og stefnandi hafa unnið við búreksturinn á jörðinni. Samkvæmt málsgögnum vísar stefnandi til sameiginlegra fjárskuldbindinga til stuðnings kröfu sinni. Ekki liggur fyrir afstaða Aldísar til hugsanlegs ábúðarréttar þeirra. Hagsmunir stefnanda og Aldísar varðandi hugsanlegan ábúðarrétt á jörðinni þykja vera svo samþættir að eigi þykir á þessu stigi vera unnt að kveða upp úr um slík afnotaréttindi annars þeirra án þess að áhrif hafi á réttindi hins. Þykir því eins og mál þetta liggur nú fyrir, ekki vera unnt að dæma um ábúðarrétt stefnanda á jörðinni án þess að Aldís Pálsdóttir eigi aðild að því máli. Er málsókn þessi því í andstöðu við 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Er málinu vísað frá dómi.
Stefnandi skal greiða stefnda 75.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 31. október 2005. Allur kostnaður hans af málinu skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hans, Valgerðar Valdimarsdóttur hdl. sem ákveðst 35.000 krónur og Steinunnar Guðbjartsdóttur hrl. sem ákveðst 40.000 krónur. Ekki hefur verið tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Hjördís Hákonardóttir dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi skal greiða stefnda 75.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda af málinu skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hans, Valgerðar Valdimarsdóttur hdl., 35.000 krónur, og Steinunnar Guðbjartsdóttur hrl., 40.000 krónur.