Hæstiréttur íslands
Mál nr. 602/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Mánudaginn 17. nóvember 2008. |
|
Nr. 602/2008. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari) gegn A (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) B(Kristinn Bjarnason hrl.) C og(Ragnar H. Hall hrl.) D(Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu varnaraðila um að dómari málsins viki sæti var hafnað. Fallist var á með varnaraðilum að greinargerð sóknaraðila 31. október 2008 hefði falið í sér skriflegan málflutning og að ekki væri heimild til slíks samkvæmt núgildandi lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Á sama hátt hefðu bréf og bókanir varnaraðila falið í sér heimildarlausan skriflegan málflutning. Engin lagarök stæðu til þess að fyrrgreindir hnökrar á meðferð málsins fyrir dómi leiddu til vanhæfis þess dómara sem með málið fór. Þá var ekki fallist á að tilgreind tölvupóstssamskipti dómarans við sóknaraðila gerðu það að verkum að draga mætti óhlutdrægni hans með réttu í efa. Samkvæmt þessu var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum næsta dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2008, þar sem meðal annars var hafnað kröfu varnaraðila um að dómari málsins viki sæti. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að úrskurði héraðsdómara verði breytt á þá leið að Símon Sigvaldason héraðsdómari víki sæti og nýr dómari taki við málinu eins og það stóð áður en skrifleg greinargerð ákæruvaldsins var send dómaranum 31. október 2008.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Fallist er á með varnaraðilum að í núgildandi lögum nr. 19/1991 sé ekki að finna heimild fyrir ákæruvaldið til að leggja fram greinargerð fyrir héraðsdómi, sem felur í sér skriflegan málflutning. Greinargerð sóknaraðila 31. október 2008 fól í sér slíkan málflutning og máttu varnaraðilar því með réttu krefjast þess að ekki yrði litið til hennar við meðferð málsins. Á sama hátt fólu bréf og bókanir verjenda varnaraðila í sér heimildarlausan skriflegan málflutning. Engin lagarök standa til þess að fyrrgreindir hnökrar á meðferð málsins fyrir héraðsdómi leiði til vanhæfis þess dómara sem með málið fór. Þá verður ekki fallist á að tölvupóstssamskipti dómarans við ákæruvaldið, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, geri það að verkum að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur að þessu leyti.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða úrskurðar um að hafna því að dómari málsins víki sæti er staðfest.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2008.
Með ákæru ríkislögreglustjóra dagsettri 3. júlí sl. var höfðað opinbert mál á hendur ákærðu fyrir brot gegn almennum hegningarlögum með meiriháttar brotum á skatta-, bókhalds- og ársreikningalögum. Við þingfestingu málsins á dómþingi 16. júlí sl. lagði verjandi ákærða A fram dskj. nr. 16 með kröfu um að máli ákæruvaldsins á hendur sínum skjólstæðingi yrði vísað frá dómi. Þá lögðu verjendur ákærðu B og D fram bókanir í þinghaldinu þar sem krafist var frávísunar málsins frá dómi. Verjandi ákærða C lagði fram bókun í þinghaldi 2. september sl. þar sem hann krafðist þess fyrir hönd síns skjólstæðings að málinu yrði vísað frá dómi.
Í framhaldi af þingfestingu málsins varð uppi ágreiningur um hvort heimilt væri að skipa E hæstaréttarlögmann verjanda ákærða, samhliða Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni, skipuðum verjanda ákærða. Var upp kveðinn úrskurður um ágreininginn í þinghaldi 23. júlí sl. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar Íslands sem með dómi í máli nr. 420/2008, sem upp var kveðinn 5. september sl., felldi hinn kærða úrskurð úr gildi. Héraðsdómari kvað upp nýjan úrskurð um álitaefnið 16. september sl. Þar var kröfu ákærða um að E hæstaréttarlögmaður yrði skipaður verjandi hans hafnað. Var fært í þingbók að munnlegur málflutningur um frávísunarkröfur verjenda myndi fara fram 20. október sl. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar, sem með dómi í máli nr. 512/2008, sem upp var kveðinn 29. september sl. staðfesti úrskurð héraðsdóms. Er taka átti fyrir flutning um frávísunarkröfur verjanda 20. október sl. var einn verjandi ákærðu veikur og flutningi frestað af þeim sökum til dagsins í dag.
Í upphafi þinghalds í dag lögðu verjendur ákærðu fram sameiginlega bókun á dskj. nr. 22 þar sem þess er krafist aðallega að málinu verði þegar vísað frá dómi, en til vara að dómari víki sæti í málinu. Tilefni bókunar og kröfugerðar ákærðu er að ákæruvald hafði 31. október sl. sent dómara málsins og ákærðu skriflega greinargerð ákæruvalds í málinu. Tekið er fram í bókuninni að greinargerðin hafi verið send í tölvupósti og afrit sent verjendum. Greinargerðin sé 17 blaðsíður að lengd og innihaldi kröfugerð, ítarlega lýsingu lagaraka og málsástæðna og sérstök andmæli gegn röksemdum sem sakborningar hafi bókað til stuðnings frávísunarkröfum sínum. Greinargerðin sé í reynd ítarlegur skriflegur málflutningur af hálfu ákæruvalds í opinberu máli.
Í bókuninni er rakið að ákæruvald hafi þegar lagt fram ákæru í málinu. Málflutningur um frávísunarkröfur verjenda skuli vera munnlegur, sbr. 1. tl. 128. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Engin heimild sé til þess að ákæruvald leggi fram skriflega greinargerð eins og þá sem send hafi verið dómara málsins. Í þinghaldi 16. september sl. hafi dómari ákveðið að munnlegur málflutningur skyldi fara fram um frávísunarkröfur verjenda. Af hálfu ákæruvalds hafi ekkert komið fram um að til stæði að leggja fram skriflega greinargerð í málinu. Ef svo hafi verið hafi verjendur átt þess kost að mótmæla framlagningunni og dómari þá tekið afstöðu til ágreiningsins með ákvörðun. Þannig hafi sakborningar átt þess kost að forða því að á þeim væru brotnar málsmeðferðarreglur. Sá háttur sem ákæruvald hafi haft á afhendingu greinargerðarinnar hafi útilokað að sakborningar hafi getað gætt réttmætra hagsmuna sinna. Greinargerðin sé í reynd komin til dómarans en með því hafi saksóknari náð tilgangi sínum. Framlagning greinargerðar af hálfu ákæruvalds sé andstæð málsmeðferðarreglum laga nr. 19/1991 og feli í sér brot gegn réttindum sakborninga um að ákæruvald hafi málsmeðferð í samræmi við lög. Þeirri staðreynd verði ekki breytt að ákæruvald hafi flutt málið skriflega án heimildar. Af því leiði að einungis séu tveir kostir til þess að tryggja að sakborningar fái notið réttlátrar málsmeðferðar. Fyrri kosturinn sé að málinu verði þegar vísað frá dómi af þessari ástæðu. Hinn kosturinn sé sá að dómari málsins víki sæti og nýr dómari taki við málinu eins og það hafi staðið áður en skrifleg greinargerð ákæruvaldsins hafi komið fram.
Málið var flutt fyrir dóminum fyrr í dag um framangreindar frávísunarkröfur verjenda. Var af hálfu ákæruvalds mótmælt kröfum verjenda um frávísun og færð rök fyrir því. Lýsti sækjandi yfir í málflutningi að honum hafi 21. ágúst sl. borist tölvupóstur frá dómara málsins þar sem dómarinn hafi bent á að hann hafi kosið að sækjandi legði fram greinargerð í málinu þar sem sjónarmiðum verjenda vegna frávísunarkrafna væri svarað. Afrit af tölvupósti þessum hefur verið lagt fram sem dskj. nr. 23.
Niðurstaða:
Í núgildandi lögum um meðferð opinberra mála er ekki fyrir hendi lagaákvæði sem sérstaklega tekur til þess að greinargerðum verði skilað í opinberum málum við þær aðstæður sem hér eru uppi. Þróun á síðari árum hefur hins vegar verið í þá átt að greinargerðum sé skilað í opinberum málum. Með lögum nr. 19/1991 var ákærða í fyrsta sinn gefinn kostur á að leggja fram skriflega greinargerð í Hæstarétti. Með lögum nr. 37/1994, um breyting á lögum nr. 19/1991, var gengið lengra í þessa átt þegar gengið var út frá því að ákærði skyldi jafnan skila greinargerð þar fyrir dómi. Nú hefur með lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem gildi öðlast 1. janúar nk., verið gengið enn lengra í þessa átt, en samkvæmt 165. gr. laganna má gefa ákærða kost á að leggja fram skriflega greinargerð af sinni hálfu enda sé málið flókið eða umfangsmikið. Þá er kveðið á um í 152. gr. laganna að í ákæru skuli m.a. greina röksemdir sem málsókn sé byggð á, ef þörf sé á, svo sem ef mál sé flókið eða umfangsmikið. Í athugasemdum með ákvæðinu kemur fram að með tilliti til meginreglu um jafnræði aðila fyrir dómi sé jafnframt eðlilegt að ákæruvaldi gefist kostur á að greina röksemdir fyrir málsókn þar sem ákærði geti í vissum tilvikum lagt fram skriflega greinargerð af sinni hálfu. Er sérstaklega tekið fram í athugasemdum við 165. gr. laganna að ekki verði annað ráðið en að sá háttur, að ákærði leggi fram skriflega greinargerð við meðferð máls fyrir Hæstarétti, hafi gefist vel í framkvæmd. Sé markmiðið með þessum nýmælum öðrum þræði að jafna stöðu aðila að sakamáli þar sem ákærða eða verjanda fyrir hans hönd sé veitt tækifæri til þess að setja fram kröfur og röksemdir af sinni hálfu á skipulegan hátt. Megi búast við því að skrifleg greinargerð verði til þess að skýra málatilbúnað og auðvelda þar með úrlausn máls þar sem sakarefni sé flókið.
Í máli þessu liggja fyrir frávísunarkröfur frá öllum ákærðu. Hefur verjandi ákærða A lagt kröfu sína fram á dskj. nr. 14. Er krafan í formi bréfs til dómsins, þar sem frávísunarkrafan er sett fram, gerð er grein fyrir málflutningsumboði, atvikum, kröfugerðinni, meðferð málsins hjá skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra og rökstuðningi fyrir því af hvaða ástæðu vísa eigi málinu frá dómi. Er einkum á því byggt að málsmeðferðin brjóti gegn reglu ,,Ne bis in idem“, eða banni við nýrri málsmeðferð eða refsingu fyrir sömu háttsemi. Þá er gerð grein fyrir því að brotið hafi verið á rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma. Að lokum er vikið að málatilbúnaði á því reistum að ákærði hafi ekki notið reglunnar um að teljast saklaus uns sekt hans sé sönnuð. Er í umfjöllun ítarlega gerð grein fyrir sjónarmiðum verjanda um þessi atriði. Er þar um að ræða tilvísun í ákvæði stjórnarskrár, laga nr. 19/1991, Mannréttindasáttmála Evrópu og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, Hæstaréttar Noregs og Hæstaréttar Íslands. Verjendur ákærðu B og C hafi í sínum bókunum vísað í mun styttra máli til þess að málsmeðferð gagnvart þeirra skjólstæðingum brjóti gegn reglunni ,,Ne bis in idem“ og að þeir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma. Verjandi ákærða D hefur rökstutt frávísun á hendur sínum skjólstæðingi út frá reglunni um réttláta málsmeðferð innan hæfilegs tíma.
Eftir að fyrir lágu framangreindar kröfur verjanda ákærðu með viðeigandi rökstuðningi taldi dómari rétt að ákæruvald kæmi á framfæri sjónarmiðum sínum í tilefni af framkomnum kröfum og sjónarmiðum ákærðu. Í tölvupósti til sækjanda 21. ágúst sl. var lýst þessu sjónarmiði dómara. Voru tilmæli þessi á því reist að dómara væri nauðsynlegt, sérstaklega í ljósi ítarlegrar umfjöllunar verjanda ákærða A, að hafa þessi sjónarmið til hliðsjónar við úrlausn um fram komnar kröfur um frávísun, en mál það sem hér er til úrlausnar er í senn bæði flókið og umfangsmikið. Þó svo ekki sé að finna í lögum nr. 19/1991 lagafyrirmæli sem mæla fyrir um þetta atriði telur dómurinn að ákvörðun um þetta gangi ekki gegn ákvæðum laganna og vera í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað hér á landi í rekstri sakamála fyrir dómstólum sem tryggja á vandaða málsmeðferð fyrir dómi í flóknum og umfangsmiklum sakamálum.
Af framangreindum ástæðum verður kröfu ákærðu um frávísun málsins frá dómi hafnað. Þá eru að mati dómsins engin efni til að líta svo á að dómari hafi með þessari ákvörðun sinni gert sig vanhæfan til að fara með málið. Verður kröfu ákærðu um að dómari víki sæti í málinu því einnig hafnað.
Kostnaður af þessum þætti málsins býður frekari meðferðar málsins fyrir dómi.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu ákærðu, A, B, C og D, um að málinu verði þegar vísað frá dómi, er hafnað.
Kröfu ákærðu um að dómari málsins víki sæti í málinu er hafnað.