Hæstiréttur íslands
Mál nr. 511/2002
Lykilorð
- Börn
- Kynferðisbrot
- Refsiákvörðun
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 6. mars 2003. |
|
Nr. 511/2002. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Andri Árnason hrl.) |
Börn. Kynferðisbrot. Refsiákvörðun. Skilorð.
X var í héraðsdómi sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn þremur börnum. Fallist var á niðurstöðu héraðsdóms um sakhæfi ákærða og refsingu hans, en sakarmat dómsins sætti ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti. Með hliðsjón af áliti tilkvaddra sérfræðinga og högum X þótti rétt að skilorðsbinda fullnustu refsingar hans í fimm ár. Með sömu rökum þótti nauðsynlegt, að X sætti á skilorðstímanum sérstöku eftirliti og umsjón samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 58. gr. sömu laga og 3. og 4. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Málinu var áfrýjað af ákæruvaldsins hálfu 31. október 2002 samkvæmt heimild í 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 37/1994, eingöngu um ákvörðun viðurlaga. Þess er krafist, að refsing ákærða verði þyngd og endurskoðuð ákvörðun héraðsdóms um skilorðsbundna frestun á fullnustu refsingar.
Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á niðurstöðu hans um sakhæfi ákærða og refsingu hans, en sakarmat dómsins sætir ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir skýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings, sérfræðings í klínískri sálfræði og réttarsálfræði, um þroska og heilbrigði ákærða og geðheilbrigðisrannsókn dr. Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis á honum.
Í niðurstöðu sálfræðingsins segir meðal annars, að ákærði sé með mjög skerta greind og slakt minni og sé á mörkum þess að vera þroskaheftur. Félagslegur þroski hans og skilningur á lífinu og tilverunni sé af þessum sökum mjög takmarkaður og gefi niðurstöður sálfræðiprófa og svör ákærða í viðtölum það til kynna. Hann þurfi á töluverðum félagslegum stuðningi að halda og sé frekar ólíklegt, að hann muni geta séð fyrir sér sjálfur. Því sé afar mikilvægt, að ákærði njóti bæði aðstoðar við framfærslu og félagslegs stuðnings, eins og kostur sé. Vegna greindarskorts og takmarkaðs félagslegs þroska sé ólíklegt, að refsivist í fangelsi muni hafa uppbyggileg áhrif á hann. Auðvelt geti verið að spila með hann og hafa óæskileg áhrif á hegðun hans og viðhorf og líklegt sé, að í fangelsi verði hann fyrir aðkasti, bæði vegna þess að hann hafi misnotað börn kynferðislega og einnig vegna hins, að hann sé mjög einfaldur í tali og saklaus. Nauðsynlegt sé þó að tryggja eftirlit með ákærða og mjög mikilvægt, að hann fái áframhaldandi sálfræðimeðferð við kynferðislegum og félagslegum vandamálum sínum. Fyrir héraðsdómi kvað sálfræðingurinn erfitt að segja fyrir um líkur þess, að ákærði bryti af sér á nýjan leik en lagði þunga áherslu á mikilvægi þess, að fylgst yrði náið með honum og honum áfram veittur stuðningur í sálfræðilegri meðferð.
Geðlæknirinn komst að þeirri niðurstöðu í rannsókn sinni, að refsing kæmi að takmörkuðu gagni en meira væri um vert, að ákærði nyti áfram leiðbeiningar, hjálpar og aðhalds. Hann virtist þegar hafa notið góðs af skipulögðum viðtölum sálfræðings og sé hugsanlegt, að hann geti á næstu árum þroskast verulega, fái hann rétta leiðsögn, fræðslu og sálfræðistuðning.
Með hliðsjón af framangreindu áliti hinna tveggja tilkvöddu sérfræðinga og högum ákærða sjálfs, eins og þeim er lýst í héraðsdómi, þykir rétt að skilorðsbinda fullnustu refsingar hans í fimm ár frá uppsögu þessa dóms, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Með sömu rökum þykir nauðsynlegt, að ákærði sæti á skilorðstímanum sérstöku eftirliti og umsjón samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19/1940. Eins og 58. gr. hegningarlaganna var breytt með 5. gr. laga nr. 24/1999 skal Fangelsismálastofnun ríkisins hafa á hendi umsjón með ákærða eða fela hana öðrum aðila undir sínu eftirliti, sbr. 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist. Rétt er jafnframt samkvæmt 4. tl. síðastnefnda ákvæðisins, að stofnunin veiti ákærða þá félagslegu þjónustu, sem hún hefur tök á og að gagni má koma, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 2. mars 1995, bls. 562 í dómasafni.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða.
Ákvörðun héraðsdóms um skaðabætur er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 greiðist allur áfrýjunarkostnaður málsins úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tólf mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum fimm árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Frestun á fullnustu refsivistarinnar er jafnframt bundin því skilyrði, að ákærði sæti á skilorðstímanum umsjón samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 58. gr. sömu laga, sbr. 5. gr. laga nr. 24/1999.
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað eru staðfest. Allur áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 18. október 2002.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 26. september sl., er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dags. 18. febrúar sl., á hendur X „fyrir eftirgreind brot:
I.
Kynferðisbrot:
1. Að morgni mánudagsins 7. ágúst 2000, [...], haft kynferðismök við drenginn Y, með því að leggja getnaðarlim sinn milli rasskinna drengsins og viðhafa samfarahreyfingar.
2. Síðla árs 2000 eða þar um bil, á heimili sínu, haft kynferðismök við telpuna Z, sem er systurdóttir ákærða, með því að leggja getnaðarlim sinn við rass hennar utan klæða og viðhafa samfarahreyfingar.
3. Þriðjudaginn 5. júní 2001, að [...], haft kynferðismök við telpuna Ö, sem einnig er systurdóttir ákærða, með sama hætti og lýst er í ákærulið 1.
Telst þetta varða við 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 40, 1992.
II.
Hegningar- og umferðarlagabrot:
1. Helgina 12. til 13. ágúst 2000, tekið bifhjólið [...] og ekið því, í heimildarleysi og án ökuréttar, um götur bæjarins og nágrenni af og til næstu daga, uns lögregla hafði afskipti af ákærða með hjólið í [...] þriðjudaginn 15. ágúst.
2. Aðfaranótt laugardagsins 22. september 2001, í heimildarleysi, undir áhrifum áfengis og án ökuréttar, ekið bifreiðinni [...], uns lögregla stöðvaði aksturinn [...].
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 48. gr. og liður 2. að auki við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 102. gr. umferðarlaga.
Af hálfu Y, er krafist miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur auk dráttarvaxta frá 7. ágúst 2000 til greiðsludags og kostnaðar við að halda fram miskabótakröfu.
Af hálfu Ö, er krafist miskabóta að fjárhæð 450.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 5. júní 2001 til greiðsludags og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi.
Af hálfu Q er krafist skaðabóta að fjárhæð 65.405 krónur.”
Í þinghaldi 28. júní sl. lagði Ríkissaksóknari fram svohljóðandi framhaldsákæru, dags. 24. júní 2002, með vísan til heimildar í 1. mgr. 118. gr. laga nr. 19/1991:
„Á eftir kröfu um að ákærði verði dæmdur til refsingar komi: en til vara að honum verði gert að sæta öryggisráðstöfunum á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.”
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður á grundvelli 15. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og mótmælir bótakröfum af hálfu Y og Ö sem of háum, en samþykkir bótakröfu Q. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
I. kafli ákæru
1. töluliður. Um hádegisbil mánudaginn 7. ágúst 2000 barst lögreglunni [...] tilkynning um að 5 ára gamall drengur, Y, hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun nóttina á undan á heimili sínu [...]. Meintur gerandi var ákærði í máli þessu og handtók lögregla hann á vettvangi. Ákærði hafði gætt drengsins þá nótt í fjarveru móður hans. Vettvangur var rannsakaður og drengurinn færður til skoðunar á Barnadeild Landspítala. Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að hafa viðhaft nokkra kynferðislega tilburði gagnvart drengnum.
Dómskýrsla var tekin af brotaþola, Y, í Barnahúsi 11. ágúst 2000.
2. töluliður. Í tilefni upplýsinga sem fram komu í dómskýrslu af Y yfirheyrði lögregla ákærða 25. janúar 2002 vegna gruns um kynferðislega misnotkun gegn systurdóttur ákærða, Z, sem var þriggja ára er misnotkun átti sér stað. Ákærði viðurkenndi við yfirheyrslu hjá lögreglu kynferðislegt athæfi gagnvart frænku sinni á heimili sínu eins og nánar er lýst í 2. tölulið fyrsta kafla ákæru.
3. töluliður. Þann 8. júní 2001 barst lögreglunni [...] tilkynning um að Ö, sem þá var tæplega 3 ára, hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða á heimili stúlkunnar [...]. Lögregla rannsakaði vettvang og yfirheyrði ákærða 19. júní sama ár. Viðurkenndi ákærði háttsemina eins og henni er lýst í 3. tölulið fyrsta kafla ákæru.
Ö mætti til skýrslutöku í Barnahúsi 15. júní 2001, en ekki tókst að taka af henni skýrslu.
Með bréfi dags. 28. júní 2001 óskaði lögreglan [...] eftir því við dr. Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðing að hann gæfi lögreglu umsögn um þroska og heilbrigðisástand ákærða, en sálfræðingurinn hafði haft ákærða til meðferðar. Skýrsla sálfræðingsins til lögreglu er dags. 30. nóvember 2001. Í skýrslunni kemur fram að sálfræðingurinn hafi lagt fimm sálfræðipróf fyrir ákærða á tímabilinu frá 12. september 2000 til 18. júlí 2001 til þess að meta vitrænt ástand hans, greind, minni og fljótfærni. Fram kemur að ekki sé líklegt að persónuleikapróf og próf til að meta kynferðisleg viðhorf, reiðiviðbrögð, hvatvísi og fleira, gefi rétta mynd af einkennum ákærða og takmörkunum, þar sem hann mælist með afar lága greind og sé ekki líklegur til að skilja þau til fullnustu.
Sálfræðingurinn lagði eftirfarandi próf fyrir ákærða: Í fyrsta lagi „Mini Mental State”, en prófinu er ætlað að gefa almennt mat á vitrænu ástandi fólks. Prófið samanstendur af nokkrum staðreyndaspurningum og spurningum er reyna á minni, athygli, reiknigetu og málskilning. Í skýrslu sálfræðingsins segir að einkunn ákærða hafi verið 22, sem gefi til kynna að hann hafi verið sæmilega áttaður á stað og stund þegar hann tók prófið. Þó gefi niðurstöðurnar til kynna að hann hafi frekar skerta athygli og reiknigetu. Í öðru lagi var „Greindarpróf Wechslers” fyrir fullorðna lagt fyrir ákærða, en það samanstendur af 11 undirprófum sem mæla mismunandi þætti greindar. Meðalgreindarvísitala er 100 og einkunn á bilinu 85-115 fellur innan marka meðalgreindar.
Einkunnir fyrir neðan 70 eru venjulega notaðar til að skilgreina ,,vanþroska” (mental handicap) og einkunnir á bilinu 70-79 teljast vera á jaðarmörkum. Greindarvísitala ákærða reyndist 76, sem gefur kynna að hann hafi mjög slaka greind. Hann sé á mörkum þess að vera þroskaheftur og er einkunn hans tæpum tveimur staðalfrávikum fyrir neðan meðalgreind. Í þriðja lagi var lagt fyrir ákærða „Ravens Standard Progressive Matrices” próf, sem er fjöldavalspróf og samanstendur af 60 mismunandi myndum, sem raðað er upp eftir ákveðnu kerfi bæði frá vinstri til hægri og upp og niður. Prófið reynir bæði á skynjunar- og ályktunarhæfni, en ekki á málskilning og hefur verið notað til að meta almenna greind. Hærri einkunn gefur til kynna hærri greindarvísitölu. Einkunn ákærða á þessu prófi var 31, sem gefi til kynna mjög slaka greind og sé það í samræmi við niðurstöður Greindarprófs Wechslers og niðurstöður Ragnars S. Ragnarssonar sálfræðings frá því í aprílmánuði árið 1994, eins og segir í skýrslu sálfræðingsins. Auk áðurnefndra prófa lagði dr. Jón Friðrik sefnæmispróf Gísla Guðjónssonar og Arrow-Dot próf fyrir ákærða.
[...]
Það er skoðun sálfræðingsins að nauðsynlegt sé að tryggja eftirlit með X og mjög mikilvægt að hann fái áframhaldandi sálfræðimeðferð vegna kynferðislegra og félagslegra vandamála sinna. Lág greind hans takmarki möguleika á meðferð og geri hana tímafrekari, en í ljósi kynhegðunar hans og afbrota og annarra erfiðra mála sé mjög mikilvægt að hann fái áfram slíka meðferð.
Ákærða var gert að sæta geðrannsókn undir rekstri málsins og framkvæmdi Sigurður Páll Pálsson geðlæknir hana. Álitsgerð læknisins er dags. 23. júní 2002. Í henni kemur fram að hann hafi átt fjögur viðtöl við ákærða og að álitsgerð hans sé byggð á þeim viðtölum og þremur viðtölum við foreldra ákærða. Þá sé jafnframt byggt á skýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings og viðtals við hann, sem og gögnum frá lögreglunni [...].
[...]
Í geðrannsókninni var sérstaklega kannað hvort einhver sérstök merki um heilaskaða kæmu fram hjá ákærða og studdist læknirinn við “Iowa Collateral Head Injury Interview”. Í geðheilbrigðisrannsókninni segir ,,Greinileg merki um slíkt komu fram. Sérstaklega var leitað eftir einkennum framheilaskaða og komu fram flest merki um eða einkenni framheilaskaða nú eða áður. Fyrri saga, frásögn foreldra og núverandi sjúkdómslýsing styðja þá niðurstöðu með afgerandi hætti og eru samhljóða. Einkenni sem styðja þá greiningu og koma fyrir oftar en eðlilegt má telja eru”..... Síðan eru talin upp einkenni á skala sem telur 21 atriði. Í samantekt geðskoðunar og viðtala Sigurðar Páls kemur eftirfarandi fram: ,,[X] á við að stríða varanleg merki misþroska og heilaskaða. Merki persónuleikaröskunar á grunni framheilaskaða koma fram. Hann er verulega greindarskertur”.
Geðlæknirinn kemst að þeirri niðurstöðu að ákærði sé ósakhæfur því að hann hafi ekki verið að fullu fær á þeim tíma er verknaður var framinn að stjórna gerðum sínum vegna andlegs vanþroska og hömluleysis, eins og segir orðrétt í skýrslunni. Að mati geðlæknisins hefur ákærði heilaskaðaeinkenni sem komu fram á barnsaldri og segir geðlæknirinn persónuleika hans hafa mótast af þessum skaða. Innsæi, skilningur, stjórn á hvötum, greind og hæfileikar séu líkt og hjá 8 til 12 ára gömlu barni, en þó mismunandi eftir sviðum greindar og hæfileika.
Þá kemur einnig fram í niðurstöðum geðlæknisins að refsing komi að takmörkuðu gagni. Meira um vert sé að ákærði njóti áfram leiðbeiningar, hjálpar og aðhalds og hann virðist hafa notið góðs af skipulögðum viðtölum við sálfræðing. Þá þurfi ákærði einnig kennslu til að ná upp lestrar- og skriftarhæfileikum og þjálfun í færni almenns daglegs lífs. Hugsanlegt sé að hann geti á næstu árum þroskast verulega fái hann rétta leiðsögn og fræðslu. Það sé því ekki sjálfgefið að hann verði alltaf ósakhæfur.
II. kafli ákæru
1. töluliður. Laust fyrir hádegi þriðjudaginn 15. ágúst 2000 var lögreglunni [...] tilkynnt um innbrot í bílskúr að [...] á tímabilinu frá 11. til 14. ágúst s.á. og að bifhjóli hafi verið stolið úr skúrnum. Í kjölfar tilkynningar var ákærði handtekinn 15. ágúst 2000 og viðurkenndi brot sitt við yfirheyrslu hjá lögreglu.
2. töluliður. Aðfaranótt laugardagsins 22. september 2001 stöðvaði lögreglan [...] akstur bifreiðarinnar [...]. Ökumaður, ákærði í máli þessu, sem ekki hafði öðlast ökurétt, reyndist undir áhrifum áfengis auk þess sem hann ók nefndri bifreið í heimildarleysi. Blóðsýni var tekið úr ákærða í þágu rannsóknar málsins og reyndist alkóhólinnihald í blóði ákærða vera 0,68 í umrætt skipti.
Framburður ákærða og vitna.
Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í báðum köflum ákæru.
Aðspurður um atvik í fyrsta tölulið fyrsta kafla ákæruskjals bar ákærði við einhvers konar annarlegu ástandi sínu, allt þar til hann hafi heyrt lágvært hljóð frá brotaþola, Y. Þá fyrst hafi hann rankað við sér og áttað sig á hvað gerst hefði. Þá hafi ákærði og drengurinn legið á rúmi, ákærði ofan á drengnum, sem legið hafi á maganum. Drengurinn hafi verið í náttbol og náttbuxum, en ákærði kvaðst hafa verið í fötunum. Hann kvaðst hafa nuddað lim sínum á milli rasskinna drengsins undir nærbuxum hans. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið sáðlát, en litlu hafi munað að svo færi. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa sagt við drenginn að Z þætti þetta gott.
Aðspurður um atvik í öðrum tölulið fyrsta kafla ákæruskjals kvað ákærði það hafa gerst eftir að hann framdi brot sitt gegn drengnum. Hann kvaðst, eins og í fyrra skiptið, hafa rankað við sér þegar hann heyrði lágvært hljóð frá Z, systurdóttur sinni. Þá hafi hann gert sér grein fyrir að hann hafi legið ofan á stúlkunni. Hún hafi verið í náttkjól einum klæða og kvaðst ákærði hafa legið ofan á henni og nuddað limnum á milli rasskinna stúlkunnar og fengið sáðlát.
Aðspurður um atvik í þriðja tölulið fyrsta kafla ákæruskjals kvað ákærði þau hafa verið með sama hætti og lýst er í fyrsta og öðrum tölulið fyrsta kafla ákæruskjals. Ákærði kvaðst þá einnig hafa rankað við sér er hann hafi verið kominn ofan á Ö, systurdóttur sína, en þau hafi verið að horfa á sjónvarp í stofunni á heimili stúlkunnar. Stúlkan hafi verið klædd, en hann kvaðst hafa séð að hann hafi verið búinn að taka aðeins niður um hana þannig að rassinn var ber. Ákærði kvaðst hafa nuddað limnum milli rasskinna hennar og hafi hann fengið sáðlát við það.
Aðspurður um það annarlega ástand eða minnisleysi sem hafi hrjáð hann í umrædd skipti kvaðst ákærði ekki hafa fundið fyrir slíku ástandi í öðrum tilvikum. Hann kvaðst telja að börnin hafi ekki vitað hvað gerðist, en hann kvaðst vera viss um að atvikin ættu einhvern tíma eftir að vekja upp minningu hjá þeim. Fram kom hjá ákærða að hann óskaði þess að þetta hefði ekki gerst og að hann sæi eftir því sem hann gerði. Einnig kom fram hjá ákærða að hann skilji betur hvað hann gerði á hlut barnanna eftir viðtalsmeðferðina hjá sálfræðingnum og þau áhrif sem verknaður hans hafi haft á þau.
Ákærði mótmælti bótakröfum Y og Ö sem of háum, en samþykkti bótakröfu Q.
Dr. Jón Friðrik Sigurðsson, sálfræðingur, og Sigurður Páll Pálsson geðlæknir staðfestu skýrslur sína fyrir dóminum.
Sigurður Páll Pálsson kvað ákærða hafa skammast sín fyrir athæfi sitt og sér hafi alls ekki virst hann samviskulaus. Hann kvaðst líta svo á að ákærði hefði verið algerlega hömlulaus á verknaðarstundu og sé það í raun afleiðing af þeim framheilaskaða sem hann telji ákærða hafa. Hann kvað rannsóknir með segulómun og heilariti varðandi hugsanlegan framheilaskaða þó ekki hafa verið nægilega nákvæmar. Rannsóknir með segulómun og heilariti hafi fyrst og fremst verið gerðar til að útiloka meiriháttar breytingar á heila t.d. af völdum heilaæxlis. Hann kvaðst ekki telja að ákærði hafi gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Aðspurður um hvort ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu, kvað hann engu líkara en ákærði hafi misst algerlega stjórn á sér á verknaðarstundu.
Þá gáfu einnig skýrslu við aðalmeðferð málsins, A, B, C og D.
Í framburði móður Y, C, kom fram að Y hafi rætt við hana um atburðinn nokkrum sinnum. Fyrstu nóttina eftir atburðinn hafi hann ekki getað verið einn í herbergi. Þá hafi hann grátið allar nætur í marga mánuði og ekki getað sofið einn. Í marga mánuði á eftir hafi hann verið hræddur ef hann vaknaði á nóttinni og ef hann sofnaði í fötunum hafi hann ekki viljað láta taka sig úr þeim. Þá hafi hann ekki viljað láta taka sængina af sér. Enn þann dag í dag komi það fyrir að hann sofni í fötunum og vakni upp grátandi ef móðir hans reyni að færa hann úr þeim. Fram kom hjá henni að þessi atburður sitji enn í drengnum og kvaðst hún hafa áhyggjur af því þegar hann komist á kynþroskaaldurinn og geri sér grein fyrir hvað í rauninni gerðist. Hún kvað að leitað hafi verið eftir aðstoð sérfræðinga fyrir Y, m.a. hafi hann verið til meðferðar hjá Stefáni Hreiðarssyni barnalækni og bíði nú eftir tíma hjá skólasálfræðingi [...] þar sem hann búi nú ásamt móður sinni.
D, móðir Ö bar fyrir dómi að telpan hefði verið hrædd þegar hún lýsti atvikinu fyrir móður sinni í kjölfar þess. Hún kvað telpuna ekki enn geta horft á það sjónvarpsefni sem hún hafi verið að horfa á er ákærði beitti hana kynferðislegu ofbeldi. Þá kvað hún telpuna hafa fengið martraðir og hún hafi ekki mátt baða hana eða klæða hana í fötin í kjölfar atviksins. Það hafi hún viljað gera sjálf.
Ekki þykir ástæða til að rekja framburð annarra vitna.
Niðurstaða
Ákærða var gert að sæta geðrannsókn undir rekstri málsins, til að fá úr skorið um sakhæfi hans. Í gögnum þeirra sérfræðinga sem rannsökuðu ákærða komu engin merki fram hjá ákærða um sturlun, ofskynjanir eða hugsanatruflanir, eingöngu merki um væg einkenni um kvíða og þunglyndi. Þykir það hafið yfir allan vafa að ákærði er ekki haldinn geðveiki.
Í álitsgerð Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis er rakin óljós saga um endurtekin höfuðhögg sem ákærði hafi orðið fyrir í æsku, en fyrir liggur heilalínurit og segulómun af höfði ákærða sem hvorutveggja eru eðlileg. Þá þykir lýsing á einkennum framheilaskaða hjá ákærða fremur óljós, þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir liggja. Ákærði gekkst undir greindarpróf og mældist með heildargreindarvísitölu 76, sem er vel innan tveggja staðalfrávika frá meðalgreind. Verulegur munur er hins vegar á munnlegri greind ákærða, sem mælist 69, og verklegri greind, sem mælist 89. Greindarskortur ákærða, eða andlegur vanþroski, er þó ekki á það háu stigi að ákærði teljist af þeim sökum ósakhæfur að mati dómsins. Er sú niðurstaða einnig byggð á heildstæðu mati á öllum fyrirliggjandi gögnum málsins. Þá er í þessu sambandi einnig til þess að líta að greinilega kom í ljós í viðtölum sálfræðings og geðlæknis við ákærða og við meðferð málsins fyrir dómi, að ákærði gerði sér grein fyrir alvarleika kynferðisbrotanna og þeim afleiðingum sem þau hafa haft á brotaþola. Þá sýndi ákærði greinileg merki iðrunar. Þegar allt framangreint er virt telur dómurinn að ákærði sé ekki ósakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur heldur ekki verið sýnt fram á að refsing geti ekki komið að gagni til að halda ákærða frá endurtekningu sams konar brota og í almennu varnaðarskyni.
Af því sem fram er komið um greind ákærða, lélega sjálfsstjórn, og félagslega stöðu, er þó ljóst að ákærði hefur fulla þörf fyrir áframhaldandi meðferð sálfræðings, þótt ekki séu fyrir hendi lagaúrræði til þess að ákvarða um hana í dómi þessum.
Ákærði hefur skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök. Játning hans er í samræmi við gögn málsins og verknaðarlýsingar í ákæruskjali. Með háttsemi sinni hefur ákærði framið verknað sem varðar við 1. málslið 1. mgr. 202. gr., 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. s.l.
Refsing
Refsing ákærða er ákveðin með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að hann hefur ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé og að hann var tæpra 17 ára er hann framdi fyrsta brotið sem hann er sakfelldur fyrir. Þá verður og litið til þess að ákærði er greindarskertur og stendur mjög höllum fæti andlega og félagslega. Einnig ber að líta til þess að ákærði iðraðist brota sinna, játaði þau og hefur verið samvinnuþýður við alla meðferð málsins.
Á hitt ber og að líta að þau þrjú börn sem brot ákærða beindust að, voru öll mjög ung að árum. Ákærða var falið að gæta drengsins, Y, en telpurnar tvær eru frænkur ákærða. Þegar allt framangreint er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi. Í ljósi þess sem að framan er rakið um hagi ákærða og áliti sérfræðinganna dr. Jón Friðriks og Sigurðar Páls á áhrifum refsivistar á ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum fimm árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Þá er ákærði sviptur ökurétti í fjóra mánuði frá birtingu dómsins að telja með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Bótakröfur
Bótakrafa f.h.Y.
Guðjón Ægir Sigurjónsson réttargæslumaður Y, hefur lagt fram skaðabótakröfu á hendur ákærða, fyrir hönd móður Y, C. Hann krefst miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk kostnaðar við að halda kröfu þessari fram og dráttarvaxta frá 7. ágúst 2000 til greiðsludags. Kröfu sína rökstyður lögmaðurinn með vísan til þess að um sé að ræða mjög alvarlegt trúnaðarbrot gegn drengnum sem leitt hafi til mikils tjóns fyrir hann. Þá sé ljóst að brotið muni fyrirsjáanlega hafa alvarlegar afleiðingar fyrir drenginn, bæði andlegar og félagslegar.
Bótakrafa f.h. Ö.
Sif Konráðsdóttir, réttargæslumaður Ö, hefur lagt fram skaðabótakröfu á hendur ákærða, fyrir hönd móður hennar, D. Hún krefst miskabóta að fjárhæð 450.000 krónur með vísan til skaðabótalaga, nr. 50/1993, og í samræmi við dómvenju, auk skaðabóta vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfunni. Þá er gerð er krafa um dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, frá 5. júní 2001 til greiðsludags. Kröfu sína rökstyður lögmaðurinn með vísan til þessa að um sé að ræða alvarlegt brot gegn kornungu barni sem auk þess er skyldmenni ákærða.
Engin bótakrafa var sett fram af hálfu Z.
Í málinu er komið fram að Y hefur átt erfitt með svefn um margra mánaða skeið eftir atburðinn og þurft að fá aðstoð sérfræðinga í kjölfar hans.
Ö var aðeins tæpra þriggja ára er ákærði gerðist brotlegur við hana og reyndist meðferðaraðila, Ólöfu Ástu Farestveit, ekki unnt að ræða við hana um atburðinn vegna ungs aldurs hennar.
Brot þau gegn 202. gr. almennra hegningarlaga, sem sakfellt er fyrir, eru almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verða margvíslegum sálrænum erfiðleikum og eiga því börnin rétt á miskabótum úr hendi ákærða og verða bætur til barnanna ákveðnar með vísan til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja bætur til handa Y hæfilega ákveðnar 450.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi, 18. mars 2002, en bætur til Ö hæfilega ákveðnar 450.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. mars 2002 til greiðsludags.
Bótakrafa Q
Q hefur lagt fram bótakröfu vegna brots ákærða í fyrri tölulið síðari kafla ákæru. Hann krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 65.405 krónur vegna varahluta í bifreiðina [...] og viðgerðarkostnaðar. Ákærði hefur samþykkt bótakröfuna.
Sakarkostnaður
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Sigurðar Sveinssonar hdl, sem þykja hæfilega ákveðin 200.000 krónur.
Þá skal ákærði í samræmi við 3. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, Y og Z, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hdl., 150.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til starfa hans í þágu brotaþola á rannsóknarstigi. Þóknun réttargæslumanns Ö, Sifjar Konráðsdóttur hrl., ákvarðast 100.000 krónur.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari, Tómas Zoëga geðlæknir og Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur, kveða upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum fimm árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði er sviptur ökurétti í 4 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði Y, 450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 18. mars 2002 til greiðsludags.
Ákærði greiði Ö, 450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 18. mars 2002 til greiðsludags.
Ákærði greiði Q, 65.405 krónur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Sigurðar Sveinssonar hdl., 200.000 krónur.
Ákærði greiði þóknun réttargæslumanns Y og Z, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, samtals 150.000 krónur.
Ákærði greiði þóknun réttargæslumanns Ö, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.