Hæstiréttur íslands

Mál nr. 311/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


Þriðjudaginn 10

 

Þriðjudaginn 10. júní 2008.

Nr. 311/2008.

A

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

B

(Þórdís Bjarnadóttir hdl.)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dómsmálaráðuneytinu 30. maí 2008.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 30. maí sama ár um að hann skyldi vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og þóknun skipaðs talsmanns hans greidd úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þóknun skipaðs talsmanns hennar greidd úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðra talsmanna aðilanna vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                           Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2008.

Sóknaraðili er A, [...], Reykjavík, nú sjúklingur á deild 33C Landspítala (LSH). Varnaraðili er systir hans, B, [...].

Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðu­neytisins 30. maí 2008 um nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi í allt 21 sólarhring. Varnar­aðili krefst staðfestingar á sömu ákvörðun.

Krafa sóknaraðila barst dóminum 2. júní. Samdægurs var aflað gagna frá dóms­mála­ráðuneytinu og málið þingfest í gær. Sóknaraðili gaf þá aðila­skýrslu og Kristófer Þorleifsson geðlæknir bar vitni, en síðan var málið flutt og tekið til úrskurðar.

I.

Samkvæmt vottorði Kristófers Þorleifssonar 30. maí 2008 og vætti hans fyrir dómi var sóknaraðili greindan dag vistaður á geðdeild LSH gegn vilja sínum vegna alvar­legs geð­rofs­ástands, mikillar aðsóknarkenndar, ranghugmynda og árásargirni, enda talinn hættu­legur sjálfum sér og öðrum. Liggur fyrir að sóknaraðili hafi áður verið greindur með alvarlegan geðklofasjúkdóm, átt við þau veikindi að stríða um árabil og marg­sinnis verið vistaður á geðdeildum, síðast 7.-28. apríl 2008. Fyrir dómi bar Kristófer að hann hefði skoðað sóknaraðila 30. maí, kynnt sér sjúkrasögu hans og gæti því staðfest klínískt mat annarra geðlækna um framangreinda sjúk­dóms­greiningu. Hann kvað sóknaraðila ekki hafa viljað þiggja nauð­syn­lega lyfja­gjöf til að ráða bót á sjúkdómseinkennum og því væri hann enn dómgreindar- og innsæislaus í eigið ástand. Í þeirri stöðu væru að mati Kristófers engar læknis­fræðilegar forsendur fyrir því að fella hina umþrættu ákvörðun úr gildi.

Sóknaraðili andmælti greindum vitnisburði, sagði rangt að hann væri haldinn geð­klofa­sjúkdómi, bar á móti því að hafa hótað fólki eða hagað sér á annan afbrigði­legan hátt og taldi því alls engar forsendur fyrir núverandi nauðungarvistun.

II.

Sóknaraðili byggir kröfugerð sína á því að ekki liggi fyrir með fullnægjandi hætti að læknisfræðileg rök séu fyrir hendi, sem réttlæti ákvörðun um nauðungar­vistun. Umþrætt ákvörðun byggi fyrst og fremst á vottorði Kristófers Þorleifssonar, sem hafi skoðað sóknar­aðila við innlögn 30. maí, en styðji álit sitt um nauðsyn vistunar að öðru leyti við mat annarra geðlækna samkvæmt sjúkraskrám. Sökum þessa megi efast um að ákvörðunin sé reist á nægilega traustum grunni. Beri sóknar­aðila að njóta vafans í þessu sam­bandi og því beri að fella ákvörðunina úr gildi.

Varnaraðili vísar til vottorðs nefnds geðlæknis og vættis hans fyrir dómi, sem byggt sé á könnun á sjúkraskrá sóknaraðila og geðskoðun 30. maí og taki af öll tví­mæli um brýna nauðsyn þess að sóknar­aðili sæti nauðungar­vistun í eigin þágu. Því beri að staðfesta hina umþrættu ákvörðun.

III.

Af vottorði Kristófers Þorleifssonar og vætti hans fyrir dómi þykir ljóst að engin skynsamleg rök mæli með því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, enda bendir allt til þess að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geð­sjúk­dómi, hafi ekkert inn­sæi í eigið sjúk­dóm­sástand nú um stundir og þurfi því nauðsynlega á læknismeðferð að halda. Í þeirri stöðu þykir daga- eða vikuspursmál hvenær sóknaraðili lendi aftur inn á geð­deild eða valdi sér eða öðrum skaða, fái hann nú óskert frelsi. Að þessu virtu og með skírskotun til 2. og 3. mgr. 19. gr., sbr. 5. mgr. 31. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er synjað um kröfu sóknaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. sömu laga greiðist úr ríkissjóði þóknun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, talsmanns sóknaraðila, og þóknun Þórdísar Bjarna­­­dóttur héraðsdómslögmanns, talsmanns varnaraðila. Þykir sú þóknun hæfilega ákveðin 85.407 krónur, að með­töldum virðisaukaskatti. 

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 30. maí 2008 um að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli nauðungarvistaður á sjúkrahúsi í allt að 21 sólarhring.

Úr ríkissjóði greiðist 85.407 króna þóknun Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttar­lög­manns, talsmanns sóknaraðila, og 85.407 króna þóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðs­dómslögmanns, talsmanns varnaraðila, B.