Hæstiréttur íslands
Mál nr. 115/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun á stofnun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun meðan mál hans er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur en þó ekki lengur en til föstudagsins 11. mars 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í stað vistunar á viðeigandi stofnun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærða X, kennitala [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta áfram vistun á viðeigandi stofnun meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en þó ekki lengur en til föstudagsins 11. mars 2016, kl. 16:00.
Í greinargerð saksóknara kemur fram að með útgáfu ákæru 14. janúar 2016 hafi ríkissaksóknari höfðað mál á hendur X þar sem honum sé gefið að sök manndráp með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 22. október 2015, að [...], Reykjavík, veist að A, fæddum [...], með hnífi og stungið hann margsinnis í líkamann, en ein stungan hafi gengið inn í hjartað og önnur í lifur, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut bana af. Sé brotið í ákæru talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Starfsmenn búsetukjarna fyrir geðfatlaða að [...], Reykjavík, kölluðu til lögreglu eftir að hafa komið að ákærða þar sem hann kraup yfir brotaþola með hníf í hendinni í herbergi þess síðarnefnda. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafi verið greinilegt að brotaþoli hafði verið stunginn ítrekað í líkamann að framanverðu, þ.e. í brjóst, búk, læri og nára. Ákærði hafi upplýst lögreglu á vettvangi að hann hafi afhent starfsmanni búsetukjarnans hnífinn. Brotaþoli hafi verið látinn er sjúkraflutningamenn hafi komið á vettvang.
Ákærði hafi í yfirheyrslum hjá lögreglu játað að hafa af ásettu ráði banað A. Þá hafi komið fram í framburði hans að hann hafi lagt á ráðin um verknaðinn og orðið sér úti um morðvopnið með nokkrum fyrirvara. Við rannsókn málsins hafi lögregla óskað eftir mati geðlæknis á sakhæfi ákærða. Samkvæmt niðurstöðu álitsgerðar hans, dags. 4. nóvember 2015, sé ákærði haldinn mjög alvarlegri geðveiki sem að mati geðlæknisins hafi leitt til þess að hann hafi verið „alls ófær til að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann framkvæmdi verknaðinn hinn 22. október síðastliðinn.“
Við þingfestingu málsins þann 25. janúar sl. hafi ákærði játað sök. Í fyrirtöku málsins þann 5. febrúar sl. hafi tveir matsmenn verið dómkvaddir til að meta sakhæfi ákærða og skulu þeir ljúka matinu svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 18. mars 2016.
Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 23. október 2015, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna skv. a. lið 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 (úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. R-[...]/2015), en frá 5. nóvember sl. hefur ákærði verið vistaður á viðeigandi stofnun skv. 2. mgr. 95. gr. sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sjá úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. R-[...]/2015, R-[...]/2015, R-[...]/2015 og R-[...]/2016 og dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. [...]/2015.
Að mati ríkissaksóknara sé ákærði samkvæmt ofangreindu undir sterkum grun um að hafa framið brot það sem greinir í ákæru. Brot gegn ákvæði 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Samkvæmt álitsgerð geðlæknis sé hugsun ákærða mjög trufluð, hann haldinn miklum ranghugmyndum og iðrast ekki gjörða sinna. Með hliðsjón af ætluðum verknaði ákærða og ástandi hans sé það mat ríkissaksóknara að ákærði sé hættulegur umhverfi sínu og að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að hann gangi ekki laus. Með vísan til niðurstöðu geðlæknis sé talið að forsendur séu til þess að í stað gæsluvarðhalds verði ákærða gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun þar sem unnt er að meðhöndla veikindi hans. Vísast til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 100. gr. sömu laga. Ennfremur til dóms Hæstaréttar og fyrri úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald og vistun ákærða.
Niðurstaða
Með vísan til þess sem fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að sterkur grunur leiki á því að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa banað A að kvöldi fimmtudagsins 22. október sl. Brot gegn ákvæði þessu getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Að þessu leyti er skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fullnægt. Þá er á það fallist að brotið sé þess eðlis að fullnægt sé því skilyrði greinarinnar að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Ákærði mótmælir niðurstöðu geðrannsóknar B geðlæknis frá 4. nóvember 2015 og telur sig vera sakhæfan. Óskar hann eftir því að sæta gæsluvarðhaldi í stað vistunar á viðeigandi stofnun. Í fyrrgreindri geðrannsókn eru færð rök fyrir því að ákærði sé haldinn aðsóknargeðklofa og að hugsun hans sé mjög trufluð. Telur geðlæknirinn að ákærði sé haldinn alvarlegri geðveiki sem að hans mati hafi orðið til þess að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma er brotið átti sér stað. Í þessu ljósi er á það það fallist að ákærði verði í stað gæsluvarðhalds vistaður á viðeigandi stofnun eins og farið er fram á af hálfu ríkissaksóknara. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila eins og í úrskurðarorði greinir.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, X, kt. [...], skal áfram vistaður á viðeigandi stofnun meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en þó ekki lengur en til föstudagsins 11. mars 2016, kl. 16:00.