Hæstiréttur íslands
Mál nr. 267/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 7. júlí 2000. |
|
Nr. 267/2000. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir settur saksóknari) gegn Guðmundi Inga Þóroddssyni (Hallvarður Einvarðsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að G skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn honum var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 31. ágúst nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2000.
Ár 2000, fimmtudaginn 6. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg kveðinn upp úrskurður þessi.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að gæsluvarðhald sem dómfelldi, Guðmundur Ingi Þóroddsson, kt. 290574-4639, Völvufelli 17, Reykjavík, hefur sætt skv. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála haldist með vísan til heimildar í 106. gr. sömu laga, meðan áfrýjunarfrestur varir.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-895/2000 sem kveðinn var upp nú í dag var framangreindur Guðmundur Ingi dæmdur skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 64,1974, til að sæta fangelsi í 7 ár en frá refsingunni dragist 192 daga gæsluvarðahald hans. Hann var einnig dæmdur til greiðslu sektar að upphæð 3.000.000 króna en sæta ella fangelsi í 6 mánuði.
Skv. 106. gr. laga nr. 19,1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19,1991 stendur svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi, ef því er að skipta.
Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Skilyrði 106. gr. laganna eru fyrir hendi og er krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sæti gæsluvarðhaldi meðan á fresti skv. 1. mgr. 151. gr. laga nr 19/1991 stendur, svo og meðan málið er til meðferðar fyrir æðra dómi, ef því verður að skipta, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 31. ágúst nk. kl. 16:00