Hæstiréttur íslands

Mál nr. 248/2017

Gunnhildur Ragnarsdóttir (Auður Björg Jónsdóttir hrl.)
gegn
Kjartani Kjartanssyni (Árni Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G á hendur K var að hluta vísað frá dómi. Hélt G því fram að K hefði á ólögmætan hátt eignað sér bifreið sem hún hefði fest kaup á. Gerði G í málinu aðalkröfu og varakröfu um skaðabætur með fjárhæðum, sem hún taldi eftir tveimur mismunandi leiðum geta svarað til markaðsverðs bifreiðarinnar. Í greinargerð um varnir kom fram að K teldi hvoruga þeirra leiða gefa viðhlítandi mynd af verðmæti bifreiðarinnar og stóð því ágreiningur um fjárhæð krafnanna. Krafðist K þess að skaðabótakröfum G yrði vísað frá dómi og varð héraðsdómur við þeirri kröfu í hinum kærða úrskurði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eftir ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála yrði G að eiga þess kost að styðja frekar fjárhæð dómkrafna sinna með matsgerð dómkvadds matsmanns, en á meðan óreynt væri hvort af slíku yrði væri ekki tímabært að taka afstöðu til kröfu K um frávísun málsins að hluta, sbr. meðal annars síðari málslið 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið í heild sinni til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. mars 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila kynntist hún varnaraðila í ágúst 2011. Hún kveðst vegna fötlunar hafa keypt bifreið með sérstökum búnaði 27. apríl 2012 fyrir 1.661.000 krónur, en bifreiðin hafi verið skráð á nafn varnaraðila. Hún hafi verið lögð inn á sjúkrahús í október 2014, en komist að því að lokinni þeirri dvöl 5. desember sama ár að varnaraðili hafi í heimildarleysi farið inn í íbúð hennar og tekið þar lykla að bifreiðinni. Varnaraðili hafi síðan neitað að láta bifreiðina af hendi og að endingu selt hana í september 2015 fyrir 1.300.000 krónur.

Sóknaraðili höfðaði mál á hendur varnaraðila 23. febrúar 2016 og krafðist þess að honum yrði gert að greiða sér í fyrsta lagi nánar tiltekna skuld, í öðru lagi skaðabætur að fjárhæð 1.661.000 krónur vegna ólögmætrar töku á fyrrnefndri bifreið og í þriðja lagi 1.600.000 krónur í skaðabætur vegna tapaðra leigutekna af henni. Með úrskurði 7. desember 2016 var þessum tveimur kröfum um bætur vísað frá héraðsdómi og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 3. janúar 2017 í máli nr. 849/2016.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu höfðaði sóknaraðili aftur mál gegn varnaraðila og var það þingfest 9. febrúar 2017. Krafðist hún þess að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér aðallega 1.345.410 krónur og til vara 1.300.000 krónur, en í báðum tilvikum væri um að ræða skaðabætur sökum þess að varnaraðili hafi á ólögmætan hátt eignað sér fyrrnefnda bifreið. Í héraðsdómsstefnu kvaðst sóknaraðili reisa aðalkröfu sína á þeirri „þumalputtareglu Bílgreinasambandsins að afföll á notaðri bifreið séu 10% á ári“, en varakrafan tæki mið af verðinu, sem varnaraðili hafi fengið við sölu bifreiðarinnar í september 2015. Í stefnunni var tekið fram að sóknaraðili áskildi sér rétt til að fá á síðari stigum dómkvaddan mann til að meta tjón sitt með tilliti til markaðsverðs bifreiðarinnar. Þetta nýja mál var samkvæmt beiðni sóknaraðila sameinað eldra máli hennar á hendur varnaraðila í þinghaldi 9. mars 2017. Varnaraðili krafðist þess að skaðabótakröfum sóknaraðila, sem að framan er getið, yrði vísað frá dómi og varð héraðsdómur við þeirri kröfu með hinum kærða úrskurði.

II

Af málatilbúnaði sóknaraðila er ljóst að aðalkröfu hennar og varakröfu um skaðabætur úr hendi varnaraðila er báðum ætlað að taka mið af markaðsverði bifreiðarinnar, sem um ræðir, annars vegar 5. desember 2014 þegar sóknaraðili telur varnaraðila hafa svipt hana umráðum bifreiðarinnar og hins vegar í september 2015 þegar hann hafi selt hana. Fjárhæð aðalkröfunnar er reist á forsendum, sem nánast voru í engu skýrðar í héraðsdómsstefnu, en ekki verður séð að ágreiningur sé um að söluverð bifreiðarinnar hafi svarað til fjárhæðar varakröfunnar þótt varnaraðili beri því við að það sé ekki marktækt um markaðsverð bifreiðarinnar sökum þess að hún hafi verið seld í skiptum fyrir aðra.

Þurfi aðili einkamáls að afla sér sönnunar með matsgerð dómkvadds manns er byggt á þeirri aðalreglu í IX. kafla laga nr. 91/1991 að það verði gert undir rekstri málsins. Tekur sú aðalregla meðal annars til tilvika, þar sem stefnandi máls telur sig þarfnast slíkrar sönnunar fyrir fjárhæð dómkröfu sinnar eftir að leitt hefur verið í ljós með vörnum stefnda að ágreiningur standi um fjárhæðina. Í XII. kafla sömu laga er á hinn bóginn veitt heimild til þess að sá, sem ekki hefur enn höfðað einkamál, fái dómkvaddan matsmann til að staðreyna meðal annars fjárhæð kröfu, sem kunni að verða höfð uppi í slíku máli. Eftir skipan laga nr. 91/1991 er þessi síðarnefnda heimild undantekning frá fyrrgreindri aðalreglu samkvæmt IX. kafla þeirra.

Í máli þessu háttar svo til að sóknaraðili hefur í héraðsdómsstefnu gert aðalkröfu og varakröfu um skaðabætur með tilgreindum fjárhæðum, sem hún telur eftir tveimur mismunandi leiðum geta svarað til markaðsverðs fyrrnefndrar bifreiðar. Nú er fram komið með greinargerð um varnir í málinu að varnaraðili telur hvoruga þessa leið gefa viðhlítandi mynd af verðmæti bifreiðarinnar og stendur því ágreiningur meðal annars um fjárhæð þessara krafna. Eftir þeim reglum laga nr. 91/1991, sem að framan er getið, verður sóknaraðili að eiga þess kost að styðja frekar fjárhæð dómkrafna sinna með matsgerð dómkvadds manns, en á meðan óreynt er hvort af slíku verði er ekki tímabært að taka afstöðu til kröfu varnaraðila um frávísun málsins að hluta, sbr. meðal annars síðari málslið 2. mgr. 100. gr. laganna. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þennan þátt málsins til efnismeðferðar.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af rekstri þessa kærumáls.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 30. mars 2017

Mál þetta var tekið til úrlausnar um frávísun hluta þess þann 22. mars.  Það var höfðað 23. febrúar 2016.

Stefnandi er Gunnhildur Ragnarsdóttir, Efstahjalla 3, Kópavogi.  Stefndi er Kjartan Kjartansson, Norðurgötu 28, Akureyri.

Stefndi krefst þess að kröfum stefnanda um að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta fyrir nánar greinda bifreið verði vísað frá dómi og málskostnaðar.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og að tekið verði tillit til þessa þáttar málsins hvað varðar málskostnað við endanlega úrlausn þess.

Málinu var að hluta vísað frá dómi án kröfu með úrskurði upp kveðnum 7. desember 2016 sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 3. janúar.  Málið var síðan tekið fyrir 9. febrúar.  Þá var upplýst að þann dag hefði verið þingfest mál milli aðilanna, þar sem fram kæmi ósk í stefnu að það yrði sameinað þessu.  Meðferð málsins var frestað til 9. mars.  Þá voru lögð fram stefna, eitt viðbótarskjal og greinargerð úr máli nr. E-29/2017 og það sameinað þessu máli.  Varðar ágreiningur í þessum þætti þær kröfur sem hafðar eru uppi í málinu sem þingfest var í febrúar.

Ágreiningur aðila snýst í fyrsta lagi um kröfu stefnanda um greiðslu nánar tiltekinnar skuldar.  Er ekki álitaefni hér að dæmt verði efnislega um þann kröfulið.

Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaða­bætur að fjárhæð 1.345.410 krónur ásamt nánar greindum vöxtum, en til vara að hann verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 1.300.000 krónur með nánar greindum vöxtum.

Stefnandi kveðst hafa keypt bifreið fyrir 1.661.000 krónur 27. apríl 2012. Stefndi hafi náð að ,,plata“ hana til að skrá hann eiganda bifreiðarinnar.  Hann hafi tekið hana í sínar vörslur meðan stefnandi hafi legið á sjúkrahúsi í október til 5. desember 2014 og neitað að afhenda hana.  Kveður stefnandi stefnda hafa slegið eign sinni á bifreiðina með ólögmætum hætti.  Hafi stefndi selt bifreiðina.

Stefnandi kveðst krefjast bóta miðað við verðmæti bifreiðarinnar 5. desember 2014.  Segir hún það miðað ,,...við þá þumalputtareglu Bílgreinasambandsins að afföll á notaðri bifreið séu 10 af hundraði árlega.“  Verði talið rétt að miða við markaðsvirði í maí 2015 telji stefnandi að miða eigi við 1.300.000 krónur, en fyrir þá fjárhæð hafi stefndi selt bifreiðina í september 2015.  Stefnandi kveðst þó áskilja sér rétt til að krefjast dómkvaðningar matsmanns til að sannreyna tjónið.

Stefndi vísar til þess að stefnandi þurfi að sanna tjón sitt.  Svo virðist sem hún telji að þá byrði hafi hún axlað með því að leggja fram skjal sem virðist vera texti viðtals við framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins.  Þar segi framkvæmdastjórinn að afskriftir af bifreiðum séu mjög mismunandi eftir tegundum og engin föst regla gildi.  Hann nefni sem þumalfingursreglu að afskrift sé 15 af hundraði fyrsta árið eftir nýskráningu og eftir það 10 af hundraði árlega.  Síðan komi fram að þetta sé ,,gróf nálgun“ og að í sumum tilvikum séu afskriftir mun hærri og í öðrum mun lægri.

Stefndi segir að bifreiðin sem hér um ræðir sé sérútbúin sendibifreið.  Þegar af þeirri ástæðu komi ekki til álita að vangaveltur framkvæmdastjórans geti orðið grund­völlur skaðabótakröfu stefnanda.  Í stefnu komi ekkert fram um það hvernig aðalkrafan sé reiknuð út.  Kröfuna skorti samkvæmt þessu grundvöll og hún sé með öllu vanreifuð, sbr. e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi segir að hann hafi selt bifreiðina í september 2015.  Í afsali komi fram að kaupverðið hafi verið greitt með söluverði annarrar bifreiðar.  Ljóst sé að skipt hafi verið á bifreiðum. Því sé ekki unnt að leggja verð samkvæmt þessu afsali til grundvallar.  Ósannað sé að það hafi verið markaðsverð.

Stefndi segir ljóst af framansögðu að stefnandi hafi ekki hirt um að sanna tjón sitt.  Sé málið því vanreifað og ekki um annað að ræða en að vísa varakröfunni frá dómi, sbr. e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Þumalfingursregla sem framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins setur fram verður ekki notuð sem mælikvarði á tjón stefnanda.  Þar á ofan er ekki sýndur í stefnu útreikningur á grundvelli reglunnar. Þótt stefnandi áskilji sér rétt til að afla mats dómkvadds matsmanns verður ekki litið fram hjá meginreglu 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 um að gögn skuli leggja fram við þingfestingu.  Var ríkt tilefni fyrir stefnanda að afla mats áður en málið var höfðað, með tilliti til þess að bótakröfu hennar hafði áður verið vísað frá dómi vegna vanreifunar.

Fallist verður á það með stefnda að tilgreint verð í skiptum á bifreiðum sé ekki heimild um markaðsverð þeirra.

Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísun til röksemda stefnda í þessum þætti málsins verður fallist á frávísunarkröfuna.

Málskostnaður verður látinn bíða efnisdóms.

Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, Gunnhildar Ragnarsdóttur, um að stefndi, Kjartan Kjartansson verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 1.345.410 krónur ásamt nánar greindum vöxtum og varakröfu hennar um að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 1.300.000 krónur með nánar greindum vöxtum.

Málskostnaður bíður efnisdóms.