Hæstiréttur íslands

Mál nr. 155/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Miðvikudaginn 4. mars 2015.

Nr. 155/2015.

Pétur Júlíus Brandt Sigurðsson

(Einar Örn Sigurðsson hdl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu P um að vísað yrði frá dómi kröfu L hf. á hendur sér í máli sem L hf. hafði höfðað gegn P og I. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að kröfu varnaraðila á hendur sér í máli þess síðarnefnda gegn sóknaraðila og Ingólfi Júlíusi Péturssyni yrði vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Samkvæmt j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 má kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms um að máli sé vísað frá dómi. Hins vegar er hvorki í þessum staflið né öðrum ákvæðum laganna heimilað að kæra til Hæstaréttar úrskurð, þar sem kröfu um frávísun máls er hafnað. Brestur því heimild til þessa málskots og verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er litið til þess að kæra er að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Pétur Júlíus Brandt Sigurðsson, greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015.

                Mál þetta höfðaði Lýsing hf., Ármúla 1, Reykjavík, með stefnu birtri 3. júní 2014 á hendur Ingólfi Júlíusi Péturssyni og Pétri Júlíusi Brandt Sigurðssyni, báðum til heimilis að Tungumel 14, Reyðarfirði.  Málið var flutt og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda Péturs 23. janúar sl. 

                Í stefnu er þess krafist að stefndi Ingólfur verði dæmdur til greiðslu á 1.296.710 krónum auk dráttarvaxta frá 27. ágúst 2009 til greiðsludags.  Þá er þess krafist í stefnu:  „... að meðstefndi Júlíus verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 1.000.000“, auk dráttarvaxta frá 6. maí 2014.  Loks er krafist málskostnaðar. 

                Stefndi Pétur krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

                Stefndi Ingólfur krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. 

                Mál þetta varðar samning stefnanda og stefnda Ingólfs, dags. 21. júlí 2006, þar sem stefndi tók á leigu bifreiðina BT 508.  Í stefnu er lýst fjárhæð samnings og hvernig mánaðargreiðslur stefnda voru ákveðnar, en þær voru að hluta til háðar gengi erlendra gjaldmiðla.  Samningurinn var svonefndur kaupleigusamningur, stefndi skyldi eignast bifreiðina í lok samningstímans. 

                Í stefnu segir að skuldin hafi verið endurútreiknuð í samræmi við dóma Hæsta­réttar í málum nr. 153 og 471/2010.  Þá sé gefinn sérstakur 15% afsláttur af höfuðstól skuldarinnar umfram lagaskyldu.  Kveðst stefnandi gera þetta til að mæta hugsanlegum mótmælum er byggð yrðu á dómum Hæstaréttar í málum nr. 604/2010 og 50/2013. 

                Stefndi Pétur tók á sig sjálfskuldarábyrgð á skuld Ingólfs með áritun á samninginn. 

                Stefndi Pétur segir í greinargerð að samtals tveimur málsgreinum sé eytt í um­fjöllun um kröfu á hendur honum.  Annars vegar sé lýst kröfu um greiðslu og hins vegar sagt að hann hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á efndum stefnda Ingólfs og að ábyrgðin hefði verið takmörkuð við 1.000.000 króna.  Þar sem ekki sé meira um þetta sagt sé málatilbúnaðurinn vanreifaður og verði að vísa kröfum á hendur honum frá dómi, sbr. e- og f-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Tekur stefndi fram að full­yrðing um 1.000.000 króna takmörkun komi ekki fram í samningnum. 

                Í málflutningi benti stefndi enn fremur á að í stefnu væri lýst kröfu á hendur „Júlíusi“, án nánari tilgreiningar.  Þá væru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur báðum stefndu, þannig að samtals væri krafist mun hærri fjárhæðar er skuldin gæti numið. 

                Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu.  Segir hann kröfuna og grundvöll hennar á hendur stefnda Pétri skýrð nægilega.  Þá sé ljóst að hverjum kröfum sé beint.  Um fjárhæð kröfunnar verði fjallað í efnisdómi. 

                Niðurstaða

                Í stefnu er kröfunni lýst nægilega og hún reiknuð.  Sú málsástæða að stefndi Pétur hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldarinnar er nægileg lýsing á aðkomu hans að málinu.  Er ekki þörf á frekari málalengingum um þennan þátt. 

                Í kröfugerðarhluta stefnu er gerð krafa á hendur stefnda Pétri og hann kallaður meðstefndi Júlíus.  Er það að sönnu ónákvæmt, en báðir stefndu bera millinafnið Júlíus.  Af samhengi er þó öllum ljóst að krafan er gerð á hendur stefnda Pétri Júlíusi Brandt Sigurðssyni. 

                Stefnandi kynni að hafa getað gert hærri kröfu á hendur stefnda Pétri en hann gerir.  Skýring hans á því að krafan er lægri en á hendur stefnda Ingólfi er sennilega á misskilningi byggð, en þetta varðar ekki frávísun málsins. 

                Samkvæmt framansögðu verður frávísunarkröfu hafnað. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

Úrskurðarorð

                Frávísunarkröfu stefnda, Péturs Júlíusar Brandt Sigurðssonar, er hafnað.