Hæstiréttur íslands

Mál nr. 337/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                              

Föstudaginn 16. maí 2014.

Nr. 337/2014.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2014 sem barst réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 10. júní 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að honum verði gert að halda sig á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærðar úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2014.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að [...], kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, þó ekki lengur en til 10. júní næstkomandi, kl. 16:00.

                Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að hann hafi höfðað mál með ákæru, dagsettri 14. febrúar 2014, á hendur ákærða fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, nauðgun og hótanir gagnvart barnsmóður ákærða og fyrrverandi unnustu, [...], hinn 25. desember 2013 á heimili hennar að [...],[...]. Þá sé hann jafnframt ákærður fyrir valdstjórnarbrot með því að hafa hótað nafngreindum lögreglumanni á vettvangi er lögregla hugðist reyna inngöngu í íbúðina til að tryggja velferð dóttur ákærða og [...], sem hafi verið innandyra í íbúðinni með ákærða, eftir að móðir hennar hafði hlaupið út.

                Ríkissaksóknari tekur fram að málið hafi verið þingfest 5. mars síðastliðinn í Héraðsdómi Reykjavíkur og hafi kærði þar neitað sök. Málið hafi síðan verið dómtekið hinn 9. maí síðastliðinn að lokinni aðalmeðferð.

                Um upphaf málsins hjá lögreglu kemur fram í greinargerð ríkissaksónara að óskað hafi verið eftir skjótri aðstoð lögreglu aðfaranótt jóladags 2013 að íbúð á jarðhæð í [...] í [...]. Íbúinn, [...], hefði þá hlaupið úr íbúð sinni til nágranna síns sem hefði haft samband við lögreglu í kjölfarið. [...]greindi þannig frá á vettvangi að hún hefði orðið fyrir árás ákærða og að hann hefði nauðgað henni, beitt hana ofbeldi og hótað henni og tveggja ára dóttur þeirra lífláti. Hefði hún komist út úr íbúðinni eftir að hafa verið haldið þar í um sex klukkustundir. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi ákærði verið staddur í íbúð [...] með dóttur sinni og brotaþola.

                Þá kæmi m.a. fram í kæruskýrslu [...]að hún hefði boðið kærða að vera hjá sér að kvöldi aðfangadags þar sem hann ætti engan að. Kvæðist [...] hafa setið í eldhúsinu með tveggja ára dóttur hennar og ákærða í fanginu þegar ákærði hefði rifið í hár hennar og kýlt hana og haft á orði að hann myndi lemja hana til dauða ef hún viðurkenndi ekki að hafa sofið hjá nafngreindum vini hans. Hún hefði lýst því að ákærði hefði beitt hana miklu ofbeldi um nóttina. Þá hefði [...] lýst því að ákærði hefði síðar nauðgað henni inni í eldhúsi íbúðarinnar. Er færi hafi gefist hefði hún hlaupið út úr íbúðinni. Kvæðist hún ekki hafa átt annan kost en að skilja stúlkubarnið eftir í íbúðinni. [...] hafi verið ekið á slysadeild strax í kjölfar árásarinnar. Í læknisvottorðum komi fram að hún sé með áverkamerki víða um líkamann í formi marbletta og húðblæðinga.

                Ríkissaksóknari tekur fram að við yfirheyrslu í þágu rannsóknar málsins kvæðist ákærði hafa ráðist á [...] vegna ágreinings þeirra á milli og hefði hann játað að hafa slegið hana víðsvegar um líkamann og einnig játað að hafa rifið í hár hennar. Ákærði hefði hins vegar neitað því að hafa slegið hana hnefahöggum og kannaðist ekki við að hafa sparkað í hana. Ákærði kvæðist hafa haft samræði við [...] en að hún hefði ekki mótmælt samræðinu.

                Þá er þess getið að ákærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur strax hinn 25. desember 2013, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar. Þá hafi ákærði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 2. janúar sl. Hæstiréttur hafi í tvígang fallist á að lagaskilyrði væru fyrir beitingu gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 95. gr. nefndra laga, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 5/2014 frá 6. janúar 2014 og dóm nr. 71/2014 frá 4. febrúar 2014. Í dómi Hæstaréttar nr. 5/2014 sé þess getið að sterkur grunur leiki á að ákærði hafi framið brot sem varðað geti við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Séu brot varnaraðila þess eðlis að telja verði nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna.

                Það sé mat ríkissaksóknara að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé ákærði undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Með dómum Hæstaréttar Íslands frá 6. janúar 2014 í málinu nr. 5/2014 og 4. febrúar 2014 í málinu nr. 71/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að ákærði væri undir sterkum grun um að hafa framið brot sem gæti varðað við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og að brot hans væri þess eðlis að telja yrði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að hann sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Hinn 9. maí sl. var mál, sem sóknaraðili höfðaði gegn ákærða fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, nauðgun og hótanir í garð barns­móður sinnar, auk brots gegn valdstjórninni, dómtekið. Ekkert er fram komið sem breytt getur fyrrgreindri niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt í ljósi sakargifta. Því er fallist á kröfu ríkis­saks­óknara um að rétt sé að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á þessum grundvelli meðan málið er til meðferðar fyrir héraðsdómi. Gæsluvarðhaldskrafan er því tekin til greina.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, [...], kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, þó ekki lengur en til 10. júní næstkomandi kl. 16:00.