Hæstiréttur íslands
Mál nr. 415/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðasamningur
|
|
Þriðjudaginn 4. nóvember 2003. |
|
Nr. 415/2003. |
Móar hf., fuglabú (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Jóni Finnbjörnssyni héraðsdómara |
Kærumál. Nauðasamningur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu M hf. um að því yrði veitt heimild til nauðasamningsumleitana var hafnað á þeim grundvelli að því hefði áður verið synjað um staðfestingu nauðasamnings innan þriggja ára fyrir frestdag, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2003, þar sem Jón Finnbjörnsson héraðsdómari synjaði sóknaraðila af sjálfsdáðum um heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna sína. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að sér verði veitt heimild til nauðasamningsumleitana.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2003.
Með beiðni, sem barst 13. október 2003, er þess óskað að Móum hf., fuglabúi, kt. 440788-1229, Völuteigi 2, Mosfellsbæ, verði veitt heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna sína samkvæmt ákvæðum 3. þáttar laga nr. 21/1991.
Í frumvarpinu er þeim er fara með samningskröfur boðin greiðsla á 33% krafna sinna, miðað við 1. janúar 2003. Þá er sett sú forsenda að núverandi hluthafar samþykki að færa niður hlutafé félagsins um 67%.
Í beiðninni kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 7. apríl 2003, hafi beiðanda verið veitt heimild til þess að leita nauðasamnings við lánardrottna sína, en áður hafi beiðandi haft heimild til greiðslustöðvunar. Innköllun hafi birst fyrra sinni í Lögbirtingablaði 25. apríl 2003 og hafi kröfulýsingarfresti lokið 23. maí 2003.
Frumvarp beiðanda að nauðasamningi hafi verið borið óbreytt undir atkvæði á fundi umsjónarmanns með atkvæðismönnum 2. júní 2003 og hafi það verið samþykkt.
Beiðandi hafi krafist staðfestingar á nauðasamningi við lánardrottna sína. Vegna framkominna mótmæla frá þremur lánardrottnum beiðanda, við kröfu hans hafi verið þingfest sérstakt ágreiningsmál.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 22. júlí 2003, hafi verið staðfestur nauðasamningur beiðanda við lánardrottna sína á grundvelli frumvarpsins.
Tveir af lánardrottnum beiðanda hafi ekki viljað una niðurstöðu héraðsdóms og hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar 7. október 2003 hafi kröfu beiðanda um staðfestingu nauðasamnings við lánardrottna sína verið hafnað. Þá hafi einnig verið hafnað varakröfu beiðanda um að haldinn yrði nýr fundur með atkvæðismönnum og að ný atkvæðagreiðsla færi fram.
Niðurstaða Hæstaréttar byggist á því að við talningu atkvæða á fundi með atkvæðismönnum hafi verið lækkuð ranglega samningskrafa Tollstjórans í Reykjavík. Það hafi ekki verið á valdi annarra en kröfuhafa sjálfs að krefjast betri stöðu í réttindaröð. Beiðandi telur að vegna þess að meðferð umsjónarmanns um þetta atriði hafi ekki verið samþykkt af Hæstarétti, hafi hann verið útilokaður frá því að óska nýs fundar með atkvæðismönnum og hækka boð sitt svo að nægur fjöldi atkvæða væri til samþykkis.
Beiðandi hefur sýnt nægan fjölda meðmæla frá lánardrottnum og lagt fram yfirlýsingu endurskoðanda í samræmi við 2. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991.
Niðurstaða.
Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991 skal héraðsdómari synja um heimild til að leita nauðasamnings ef að nauðasamningur hafi áður verið staðfestur fyrir skuldarann innan þriggja ára fyrir frestdag eða kröfu hans um staðfestingu nauðasamnings hafi verið hafnað á sama tímabili af öðrum sökum en þeim að ágallar hafi verið á framkvæmd nauðasamningsumleitana.
Kröfu beiðanda um staðfestingu nauðasamnings var hafnað í Hæstarétti 7. október 2003. Í dómi Hæstaréttar er farið yfir málsmeðferð við nauðasamningsumleitanirnar og komist að þeirri niðurstöðu að í raun og veru hafi frumvarpið verið fellt á fundi með atkvæðismönnum, en ekki samþykkt eins og beiðandi hafði talið og segir raunar enn í skjölum er nú hafa verið lögð fram.
Meginreglan samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991 er sú að nauðasamnings verði ekki leitað að nýju fyrr en að liðnum þremur árum frá því að fyrri tilraun hófst. Undantekning er gerð í þeim tilvikum að formgallar á málsmeðferð hafa orðið til þess að synjað er staðfestingar nauðasamnings. Hlýtur þá að verða að krefjast þess að öðrum skilyrðum hafi verið fullnægt, m.a. að frumvarpið hafi verið samþykkt af tilskyldum meirihluta kröfuhafa. Svo var ekki í þessu tilviki. Sú ákvörðun að lækka samningskröfu Tollstjórans í Reykjavík um tiltekna fjárhæð leiddi til þess að menn töldu að nægilegur fjöldi kröfuhafa talið eftir kröfufjárhæðum hefði samþykkt nauðasamninginn. Hæstiréttur féllst ekki á að svo hefði verið. Vissulega hefur þetta orðið til þess að beiðandi taldi ekki ástæðu til að óska nýs fundar og hækka boð sitt og var um þetta í góðri trú. Þetta er hins vegar ekki ágalli á framkvæmd í skilningi ákvæðisins. Eftir stendur að nauðasamningurinn var ekki samþykktur af nægilegum fjölda kröfuhafa og var því ekki staðfestur. Þar sem ekki eru liðin þrjú ár frá frestdegi við fyrri tilraun verður að hafna beiðni um heimild til nauðasamningsumleitana.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu Móa hf., fuglabús, kt. 440788-1229, um heimild til að leita nauðasamnings.