Hæstiréttur íslands
Mál nr. 422/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Stefnubirting
- Varnarþing
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 3. september 2012. |
|
Nr. 422/2012.
|
Þrotabú Fons hf. (Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Römlu ehf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Kærumál. Stefnubirting. Varnarþing. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Þrotabú F hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli þrotabúsins gegn R ehf. var vísað frá dómi á þeirri forsendu að málið hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Fallist var á það með héraðsdómi að þeir ágallar sem urðu á birtingu stefnu í málinu gætu ekki skipt máli þar sem R ehf. hafði sótt þing við endurupptöku málsins og tekið til varna. Hins vegar var talið að ætlað réttarbrot R ehf. hefði verið framið í Reykjavík og mátti því sækja málið þar samkvæmt 41. gr. laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann aðallega kærumálskostnaðar, en til vara að hann verði felldur niður.
I
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta með stefnu 21. janúar 2010 og krafðist þess með vísan til 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. að rift yrði greiðslum frá Fons hf. til varnaraðila samtals að fjárhæð 16.857.300 krónur. Jafnframt krafðist sóknaraðili þess með vísan til 142. gr. sömu laga að varnaraðila yrði gert að greiða sér framangreinda fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum. Við þingfestingu málsins 15. apríl 2010 var ekki sótt þing af hálfu varnaraðila og var málið dómtekið að kröfu sóknaraðila. Dómur var upp kveðinn 18. febrúar 2011. Var krafa sóknaraðila um riftum framangreinda greiðslna til varnaraðila þar tekin til greina sem og krafa hans um að varnaraðila yrði gert að greiða sóknaraðila þá fjárhæð sem krafist var í stefnu ásamt tilgreindum vöxtum. Málið var endurupptekið að ósk varnaraðila 8. apríl 2011. Varnaraðili sótti þá þing og fékk frest til að leggja fram greinargerð. Í greinargerð sem varnaraðili lagði fram í þinghaldi 26. maí 2011 krafðist hann þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Reisti hann þá kröfu annars vegar á því að félaginu hefði í upphafi ekki verið réttilega stefnt og hins vegar að málið væri ekki höfðað á réttu varnarþingi. Með hinum kærða úrskurði var fallist á þá kröfu.
II
Samkvæmt 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 breytir engu þótt stefna hafi ekki verið birt, galli hafi verið á birtingu eða birt með of skömmum fyrirvara ef stefndi sækir þing við þingfestingu máls. Þegar endurupptaka útivistarmáls í héraði er ráðin verður, samkvæmt 1. mgr. 140. gr. sömu laga, rekstri máls haldið áfram eftir reglum laganna frá því stigi er útivist varð af hálfu stefnda að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum laganna. Eins og að framan er rakið varð útivist af hálfu varnaraðila við þingfestingu málsins 15. apríl 2010. Því hafði þingsókn varnaraðila við endurupptöku málsins sömu réttaráhrif og þingsókn hans við þingfestingu þess í upphafi hefði haft samkvæmt 4. mgr. 83. gr. laganna. Samkvæmt því, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður staðfest sú niðurstaða að ekki geti varðað frávísun málsins hvernig staðið var að birtingu stefnu.
Þegar málið var höfðað var skráð heimilisfang varnaraðila að Heimalind 4, Kópavogi. Um heimild til að sækja málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vísar sóknaraðili meðal annars til 41. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þeirri grein má sækja mál til skaðabóta, refsingar eða annarrar fullnustu vegna réttarbrots utan samninga í þeirri þinghá sem brot var framið. Eins og að framan er rakið var málið höfðað til riftunar á greiðslum varnaraðila og endurheimtu þeirra fjármuna á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991. Hugtakið réttarbrot tekur hér til sérhvers brots á rétti utan samninga sem getur haft í för með sér skaðabótaskyldu, refsingu eða annars konar fullnustu. Ráðstafanir sem riftanlegar eru á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 geta fallið undir þetta hugtak, enda geta þær haft í för með sér skyldu til greiðslu skaðabóta eða annarrar fullnustu í merkingu ákvæðisins. Riftunarkrafa sóknaraðila varðar greiðslu Fons hf. á tveimur reikningum varnaraðila dagsettum 31. desember 2008 og 15. janúar 2009. Óskaði varnaraðili þess að reikningarnir yrðu greiddir inn á bankareikning félagsins, sem óumdeilt er að hafi verið í bankaútibúi í Reykjavík, og inn á þann reikning innti Fons hf. umkrafðar greiðslur 16. janúar 2009 og 23. febrúar 2009. Ætlað réttarbrot var því framið í Reykjavík og mátti sækja málið þar samkvæmt 41. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar.
Varnaraðili, Ramla ehf., greiði sóknaraðila, þrotabúi Fons hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2012.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 30. apríl sl. að loknum málflutningi um þá kröfu stefnda sem fram kemur í greinargerð hans að vísa beri málinu frá dómi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda, þrotabús Fons hf., eru þær að rift verði með dómi greiðslu frá stefnanda til stefnda, Römlu ehf., að fjárhæð 16.857.300 krónur sem fram fór þann 16. janúar 2009 og þann 23. febrúar 2009 með millifærslu af reikningi stefnanda í Glitni banka í Lúxemborg. Jafnframt að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda aðallega 16.857.300 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.917.300 krónum frá 16. janúar 2009 til 23. febrúar 2009, og af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af 1.917.300 krónum frá 16. janúar 2009 til 23. febrúar 2009, af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til þess dags er mánuður er liðinn frá þingfestingu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 18.857.300 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi, Ramla ehf., gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi. Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og til þrautarvara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í öllum tilvikum er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Hér er einungis til úrslausnar frávísunarkrafa stefnda.
Málavextir
Mál þetta er höfðað af þrotabúi Fons hf. en félagið hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta og er frestdagur við búskiptin 30. apríl 2009. Í upphafi var málið höfðað gegn Almari Erni Hilmarssyni ástamt stefnda en við þingfestingu var fallið frá kröfum á hendur Almari Erni og er því stefnda, Römlu ehf., einu stefnt. Stefnandi heldur því fram að við skoðun á bókhaldi félagsins hafi komið í ljós að þann 16. janúar 2009 hafi Fons hf. greitt stefnda 1.917.300 krónur samkvæmt reikningi. Umræddur reikningur sé vegna sérfræðiþjónustu á um þriggja vikna tímabili í lok árs 2008. Þá hafi félagið einnig greitt stefnda 14.940.000 krónur þann 23. febrúar sama ár og samkvæmt efni reiknings sé sú greiðsla vegna starfsloka samkvæmt samningi. Reikningar vegna beggja greiðslna hafi verið gefnir út 15. janúar 2009.
Að mati stefnanda var stefndi á þeim tíma sem hér um ræðir nákominn Fons hf. í skilningi 3. gr. gjaldþrotaskiptalaganna. Í greiðslu samkvæmt framangreindum reikningum hafi falist gjafagerningur til hagsbóta fyrir stefnda og þar sem greiðslurnar hafi verið inntar af hendi innan þeirra tímamarka sem kveðið sé á um í 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. séu þær riftanlegar á grundvelli XX. kafla sömu laga.
Stefndi hafnar því að umræddar greiðslur feli í sér gjafagerning. Þvert á móti hafi þær byggst á gildum samningum og að öðru leyti séu ekki fyrir hendi skilyrði riftunar samkvæmt nefndum ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga.
Stefndi telur að félaginu hafi ekki verið réttilega stefnt og að stefnandi hafi höfðað málið á röngu varnarþingi samkvæmt lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og því beri að vísa því af sjálfsdáðum frá héraðsdómi. Málið var hins vegar þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. apríl 2010. Að sögn stefnanda var lögheimili Almars Arnar, eina stjórnarmanns félagsins, í Danmörku þar sem hann og starfaði á þessum tíma. Starfsstöð hins stefnda félags sé hins vegar á lögheimili þess að Heimalind 4, Kópavogi, en stefnandi var með skráð heimili á Selfossi, svo sem fram komi í stefnu. Almari Erni var reyndar stefnt sameiginlega (in solidum) með félaginu Römlu ehf., en fallið var frá málsókn á hendur honum við þingfestingu málsins. Hvorki hafi verið mætt við þingfestingu málsins fyrir hönd félagsins né Almars Arnar persónulega. Liggi þó fyrir að málið var tekið til efnislegrar meðferðar og dóms, sem kveðinn var upp þann 18. febrúar 2011. Er þar engin umfjöllun um varnarþing en þó kemur fram í forsendum dómsins að félaginu hafi verið löglega stefnt, án þess að vera rökstutt frekar.
Dómsorð hljóðaði þannig að rift var greiðslum Fons hf. til stefnda, Römlu ehf., annars vegar að fjárhæð 1.917.000 krónur, sem fór fram þann 16. janúar 2009, og hins vegar að fjárhæð 14.940.000, sem fram fór þann 23. febrúar 2009. Var félaginu gert að endurgreiða stefnanda umkrafðar fjárhæðir ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum og 115.000 krónur í málskostnað.
Stefndi fór fram á að ofangreint mál yrði endurupptekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli XXIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Með úrskurði héraðsdóms þann 8. apríl sl. var fallist á beiðni stefnda og málið endurupptekið.
Málsástæður og lagarök stefnda varðandi frávísunarkröfuna
Stefndi krefst þess að máli þessu verið vísað frá héraðsdómi, þar sem félaginu hafi ekki verið réttilega stefnt í upphafi og einnig vegna þess að málið sé höfðað á röngu varnarþingi.
Um fyrrgreinda atriðið byggir stefndi á því að ekki sé nóg að birta stefnu á hendur félagi einungis fyrir varamanni í stjórn félagsins, Ágústi Þórhallssyni, sem hafi engar heimildir til þess að skuldbinda félagið. Meginregla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um birtingu stefnu á hendur félagi komi fram í 4. mgr. 85. gr. en þar segi „Nú er félagi stefnt, og má þá birting alltaf fara fram á stjórnarstöð þess þótt fyrirsvarsmaður hafi þar ekki fastan vinnustað, en þá skal að jafnaði birta fyrir æðsta starfsmanni þess sem verður náð til. Eins má fara að þegar öðrum lögaðila er stefnt, svo sem firma, samtökum, stofnun, ríkinu, stjórnvaldi eða sveitarfélagi.“ Stefnandi hafi kosið að sniðganga þessa meginreglu og birta stefnu fyrir varamanni í stjórn sem ekki var staddur á stjórnstöð þess. Umræddur varamaður hafi ekki prókúruumboð, sé ekki skráður framkvæmdastjóri félagsins, og fari ekki með nokkra ábyrgðarstöðu innan þess. Útlokað sé að umræddur varamaður sé til þess bær að taka við stefnu á hendur stefnda. Enda hafi farið svo að stefnda var alls ókunnugt um þessi málaferli, þar til staðfest endurrit dómsins barst fyrrverandi lögmanni félagsins, nokkrum dögum eftir dómsuppkvaðningu. Telja megi venjuhelgað að nægilegt sé að stjórnarformaður eða framkvæmdastjóri komi einn fram sem fyrirsvarsmaður vegna hagsmuna félags, ef einhver slíkur sé á annað borð til, en að öðrum kosti sá eða þeir, sem hafa skrásetta heimild til þess að skuldbinda félag eða firma með nafnritun sinni. Umræddur varamaður í stjórn hafi enga slíka heimild haft, hann hafi ekki setið neina stjórnarfundi eða komið með nokkrum hætti að rekstri félagsins.
Varðandi varnarþing stefnda komi að sama skapi fram í 1. mgr. 33. gr. sömu laga meginreglan um varnarþing skráðra félaga, en þar segi m.a. að skrásett félag eða firma megi sækja í þeirri þinghá þar sem varnarþing þess sé skráð. Sé stjórnarstöð þess í annarri þinghá en þeirri sem varnarþing er skráð megi einnig sækja það í þeirri þinghá. Stefnandi hafi kosið að sniðganga þetta ákvæði og í stað þess höfða mál á varnarþingi stefnda í Reykjanesi sé málið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í stefnu sé ekki vikið að rökstuðningi fyrir þessu fráviki, en um varnarþing vísi stefnandi til 3. og 4. mgr. 32. gr., 1. mgr. 35. gr., 40. og 41. gr. og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991. Ljóst sé að tilvísun til 32. og 43. gr. eigi ekki við lengur, þar sem stefnandi hafi fallið frá málssókn á hendur Almari Erni persónulega. Mótmælt sé að ákvæði 35. gr. um efndastaðavarnarþing geti átt við í þessu máli. Í máli þessu sé deilt um lögmæti greiðslu sem innt var af hendi árið 2009. Krafan lúti að endurgreiðslu á löngu efndum löggerningi. Auk þess sé ekki um að ræða kaup eða afhendingu fasteignar eða lausafjár heldur greiðslu inn á reikning stefnda. Hafi verið um að ræða efndir á löggerningi hafi efndastaður verið hjá stefnda en ekki í Reykjavík. Það sé í samræmi við meginreglu kröfuréttar um að efndastaður kröfu sé hjá kröfuhafa.
Jafnframt mótmælir stefndi því að varnarþing samkvæmt 40. eða 41. gr. eigi við í þessu máli þar sem ágreiningurinn varðar hvorki fjárvörslu né reikningshald, svo sem 40. gr. kveði á um né skaðabætur, refsingar eða aðra fullnustu vegna réttarbrots utan samninga sem 41. gr. kveði á um. Afbrigði stefnanda frá öllum eðlilegum reglum um varnarþing fá einfaldlega ekki staðist og hafa leitt til þess að stefndi kom ekki að vörnum í málinu. Því beri að vísa málinu frá dómi.
Málsástæður og lagarök stefnanda varðandi frávísunarkröfuna
Stefnandi kveður mál þetta bæði réttilega höfðað og réttilega stefnt og krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Þá krefst stefnandi málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins en að málskostnaðarákvörðun verði látin bíða efnisdóms í málinu.
Stefnandi segir að reynt hafi verið að birta stefnu fyrir Almari Erni Hilmarssyni stjórnarmanni stefnda en sú birting hafi ekki tekst þar sem Almar Örn hafi ekki fundist. Hann hafi hvorki svarað síma né tölvupósti og lögmaður hans á umræddum tíma hafi ekki talið sér heimilt að taka við stefnu fyrir hans hönd þótt í fyrri samskiptum stefnanda við Almar Örn og lögmann hans hafi þeir verið samþykkir því fyrirkomulagi. Almar Örn eigi hvorki lögheimili á Íslandi né í Danmörku og engin starfsemi eða starfsmenn stefnda, Römlu ehf., hafi fundist á skráðu lögheimili þess. Því hafi verið fallið frá málssókn á hendur Almari Erni en stefna birt fyrir varamanni í stjórn stefnda.
Stefndi telur heimilt að birta stefnu hvar sem er fyrir fyrirsvarsmanni félags samkvæmt 1. mgr. 82. gr. sbr. 2. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991. Það fari eftir efnisreglum um viðeigandi félagaform hver telst vera fyrirsvarsmaður í skilningi ofangreindra laga sbr. 4. mgr. 17. gr. þeirra. Ákvæði um stjórnarmenn í lögum um einkahlutafélög eigi því einnig við um varamenn sbr. 9. mgr. 39. gr. laga nr. 138/1994. Hlutverk varamanns samkvæmt nefndum lögum sé að taka við fyrirsvari fyrir félag þegar aðalmaður forfallast og þurfi ekki sérstakar aðgerðir eða athafnir til að hann takist slíkar skyldur á herðar. Varamenn séu því hæfir til að koma fram út á við fyrir hönd félags og taka á móti birtingu stefnu Af lögum um einkahlutafélög megi ráða að í þeim tilvikum sem einn maður eigi einkahlutafélag og sitji einn í stjórn þess, sé lögbundinn áskilnaður um varamann einmitt til þess gerður að koma í veg fyrir að félagið verði fyrirsvarslaust ef aðalmaður í stjórn og eini eigandi félagsins forfallast, eða eins og í þessu tilviki, kemur sér undan þeirri skyldu sinni að vera í fyrirsvari fyrir félagið. Vísar stefndi í því sambandi til 1. mgr. 39. gr. laga um einkahlutafélög þar sem fram komi að ef stjórn sé aðeins skipuð einum manni þá skuldi valinn a.m.k. einn varamaður. Um rétt og skyldu aðalmanns til að gegna störfum aðalmanns án sérstakra ráðstafna sé vísað til 47. gr. og 36. gr. laga nr. 138/1994. Hvað sem líði reglum um stefnubirtingu hafi tilgangi þeirra augljóslega verið náð með því að stefndi hafi fengið mál þetta endurupptekið og gripið til fullra varna í málinu.
Stefndi mótmælir því að mál þetta sé höfðað á röngu varnarþingi. Reglur V. kafla einkamálalaganna séu allar frávíkjanlegar og sé því aldrei skylt að styðjast við eina regluna fremur en aðra. Málssókn stefnanda lúti að riftun og greiðslu skaðabóta. Engir löggerningar liggi að baki þeim greiðslum sem krafist er riftunar á og þær hafi því falið í sér réttarbrot. Því sé heimilt að sækja málið á því varnarþingi þar sem réttarbrotið hafi verið framið sbr. 41. gr. laga nr. 91/1991. Greiðslurnar voru inntar af hendi í Reykjavík og þar var líka tekið við þeim. Því sé málið réttilega höfðað á varnarþingi Héraðsdóms Reykjavíkur. Ósannað sé að löggerningur búi að baki umdeildum greiðslum þar sem engin gögn liggi fyrir í málinu til stuðnings þeirri fullyrðingu. Jafnvel þótt fallist yrði á að löggerningar lægju til grundvallar umdeildum greiðslum sé málið engu að síður höfðað á réttu varnarþingi. Málið lúti þá að riftun löggerninga sem voru að fullu efndir í Reykjavík þar sem greiðslur voru inntar af hendi í útibúi Landsbankans á Laugavegi og tekið var við þeim í útibúi sama banka í Mjódd. Málið sé því réttilega höfðað á varnarþingi Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 35. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Stefndi heldur því fram að vísa beri málinu frá dómi vegna þess að stefna hafi ekki verið birt réttum fyrirsvarsmanni stefnda en stefnan var birt varamanni í stjórn félagsins. Jafnframt liggur fyrir að ekki hefur tekist að hafa uppi á eina aðalmanninum í stjórn félagsins og lögmaður stefnda sem flytur málið í málflutningsumboði hans getur ekki upplýst hvort eða hvar hann haldi heimili. Undir rekstri málsins upplýsti stefndi, eftir áskorun frá stefnanda, að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá sé Almar Örn Hilmarsson talin óstaðsettur í hús í Danmörku.
Markmið reglna um stefnubirtingu er fyrst og fremst að tryggja að stefndi hafi vitneskju um fyrirhugaða málssókn og nægjanlegt svigrúm til að kynna sér efni stefnu. Gallar á birtingu stefnu hafa engin áhrif á rekstur máls ef stefndi sækir þing við þingfestingu málsins samkvæmt 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Fyrir liggur að enginn mætti fyrir hönd stefnda við þingfestingu málsins og gekk útivistardómur í málinu þann 18. febrúar sl. Málið var hins vegar endurupptekið að kröfu stefnda með vísan til heimildar í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 þann 8. apríl 2011. Upp frá því hefur fyrirsvarsmaður stefnda mætt fyrir dóm og haldið uppi vörnum í málinu. Ekki er því tilefni til að álykta að honum sé ekki kunnugt um málarekstur þennan eða hafi ekki haft tök á að kynna sér efni stefnu og taka til varna. Þegar af þessari ástæðu er ekki tilefni til að vísa málinu frá dómi óháð því hvernig staðið var að birtingu stefnu í upphafi málareksturs.
Samkvæmt varnarþingsreglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er stefnanda aldrei skylt að styðjast við eina regluna fremur en aðra, komi fleiri en einn kostur til greina. Því er stefnanda heimilt að höfða mál á öðru varnarþingi en heimilisvarnarþingi stefnda en óumdeilt er að heimilisvarnarþing er í Héraðsdómi Reykjaness.
Til úrlausnar hér er því hvort einhver þeirra varnarþingsreglna sem stefnandi ber fyrir sig eigi með réttu við um sakarefni málsins. Þær varnarþingsreglur sem stefnandi vísar til í stefnu, eru annars vegar 1. mgr. 35. gr. um efndastaðavarnarþing og hins vegar 41. gr. um brotavarnarþing. Þá vísar hann einnig til ákvæða 40. gr. um reikningsskilavarnarþing. Aðrar varnarþingsreglur sem stefnandi vísar til í stefnu eiga ekki lengur við í málinu þar sem fallið hefur verið frá málssókn á hendur Almari Erni persónulega.
Krafa stefnanda lýtur að riftun ráðstafana á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnandi byggir riftunarkröfuna á því að umdeildar greiðslur feli í sér gjafagerninga sem riftanlegir séu skv. 131. gr. gjaldþrotaskiptalaganna eða að í þeim felist ótilhlýðileg ráðstöfun sem sé kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og því riftanleg skv. 141. gr. sömu laga. Fjárkröfu sína byggir stefnandi á 142. gr. sömu laga.
Krafa um riftun ráðstafana á grundvelli framangreindra ákvæða laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er hvorki krafa um efndir eða lausn undan löggerningi né mál vegna vanefnda eða rofa á löggerningi, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 35. gr. heldur er krafa um endurheimt tiltekinna verðmæta í þrotabúið. Þannig felur riftun ráðstafana samkvæmt greindum lögum ekki sjálfkrafa í sér ógildingu þeirra löggerninga sem kunna að búa að baki greiðslum. Það skiptir því ekki máli við úrlausn þess, hvort stefnanda sé fært að byggja málshöfðun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á 1. mgr. 35. gr., hvort gildir samningar liggja til grundvallar þeim ráðstöfunum sem krafist er riftunar á. Þar sem riftunarkrafan er í eðli sínu ekki krafa um efndir eða vanefndir löggernings kemur ekki til álita að byggja á 1. mgr. 35. gr. um efndastaðavarnarþing. Þá verður heldur ekki séð að krafa um riftun ráðstafana og endurheimt verðmæta geti talist vera réttarbrot utan samninga svo sem stefnandi heldur fram. Því eiga reglur 41. gr. heldur ekki við um málið. Stefnandi hefur ekki fært fram nein rök fyrir því að regla 40. gr. um reikningsskilavarnarþing eigi við í máli þessu og verður ekki séð að nein rök standi til að byggja á þeirri varnarþingsreglu í málinu.
Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi. Stefnandi, þrotabú Fons hf., skal greiða stefnda, Römlu ehf., málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Uppkvaðning úrskurðar hefur tafist lítils háttar vegna embættisanna dómara. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Málinu er vísað frá dómi. Stefnandi, þrotabú Fons hf., skal greiða stefnda, Römlu efh., 300.000 krónur í málskostnað.